Hæstiréttur íslands
Mál nr. 446/2010
Lykilorð
- Kynferðisbrot
- Börn
|
|
Fimmtudaginn 14. apríl 2011. |
|
Nr. 446/2010. |
Ákæruvaldið (Kolbrún Benediktsdóttir settur saksóknari) gegn X (Brynjar Níelsson hrl.) |
Kynferðisbrot. Börn.
X var ákærður fyrir kynferðisbrot, með því að hafa á heimili sínu í júní 2009 farið upp í rúm til sonar síns A, faðmað hann, þrýst sér upp að honum, strokið honum um rass og kynfæri innan- og utanklæða og fróað honum. Í héraðsdómi var talið að um það sem máli skipti stæðu orð A gegn orðum X og að ákæruvaldinu hefði ekki alveg tekist að sanna, svo að ekki yrði vefengt, að X hefði framið það brot sem honum var gefið að sök. Hæstiréttur staðfesti dóm héraðsdóms um sýknu X með athugasemdum.
Dómur hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 5. júlí 2010. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að ákærði verði sakfelldur samkvæmt ákæru og hann dæmdur til refsingar, en til vara að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað til meðferðar á ný.
Ákærði krefst þess að héraðsdómur verði staðfestur.
Í héraðsdómi er ítarlega greint frá atvikum málsins og við úrlausn um sönnun tekin afstaða til trúverðugleika framburðar ákærða og vitna, sem gáfu skýrslu fyrir dómi. Þar er meðal annars greint frá framburði sambúðarkonu ákærða um samskipti þess síðarnefnda og sonar hans við brottför sonarins af heimili ákærða snemma morguns eftir að ætlað brot var framið. Í dóminum er vísað til orða vitnisins um að ekkert hafi verið athugavert við samskipti feðganna þennan morgun og verður ráðið að meðal annars af þeim sökum hafi dómurinn talið framburð hennar vera málstað ákærða heldur í hag. Við þetta verður að gera þá athugasemd að samskipti feðganna í umrætt sinn voru eftir gögnum málsins nánast engin og verður ekki talið að þessi framburður vitnisins hafi sérstakt vægi í málinu. Þá kemur ekki fram í forsendum hins áfrýjaða dóms að drengurinn skýrði móður sinni samdægurs frá ætluðu broti ákærða, en almennt er litið til þess auk alls annars ef ætlað kynferðisbrot er kært þegar í kjölfarið. Þrátt fyrir þetta er ekki næg ástæða til að ómerkja hinn áfrýjaða dóm og leggja fyrir héraðsdóm að taka málið til nýrrar meðferðar. Með þessum athugasemdum verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur með vísan til forsenda hans.
Allur áfrýjunarkostnaður málsins verður felldur á ríkissjóð, þar með talin málsvarnarlaun verjanda ákærða, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Allur áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun Brynjars Níelssonar hæstaréttarlögmanns, skipaðs verjanda ákærða, X, 313.750 krónur.
Héraðsdóms Norðurlands eystra föstudaginn 11. júní 2010 í máli
Mál þetta, sem tekið var til dóms 16. apríl, er höfðað með ákæru ríkissaksóknara, útgefinni 22. desember 2009, á hendur X, kt[...],[...],[...],
„fyrir kynferðisbrot, með því að hafa aðfaranótt sunnudagsins 7. júní 2009, á ofangreindu heimili sínu farið upp í rúm til sonar síns, A, fæddur [...], þar sem hann lá sofandi í gestaherbergi, lagst fyrir aftan A sem þá vaknaði, faðmað hann, þrýst sér upp að honum, strokið honum um rass og kynfæri innan og utanklæða og fróað honum. Telst brot ákærða varða við 1. mgr. 200. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með áorðnum breytingum. Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.
Einkaréttarkrafa: Af hálfu B, kt. [...], vegna A, kt. [...], er þess krafist að ákærði verði dæmdur til greiðslu miskabóta að fjárhæð kr. 400.000 auk vaxta samkvæmt 8., sbr. 4. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 7. júní 2009 til þess dags er mánuður er liðinn frá því að bótakrafa þessi var birt ákærða en með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr., sbr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.“
Ákærði neitar sök og krefst sýknu af ákæru og þess að bótakröfu verði vísað frá dómi. Til vara krefst hann vægustu refsingar sem lög leyfi og sýknu af bótakröfu.
Málavextir
Samkvæmt lögregluskýrslu er liggur fyrir í málinu hafði B samband við lögregluna [...] sunnudaginn 7. júní 2009 og greindi frá því að X, ákærði í máli þessu, hefði beitt son hennar, A, kynferðisofbeldi þá um helgina. Síðdegis þennan dag kom A til lögreglu og gaf skýrslu. Í samantekt lögreglu af skýrslugjöfinni er haft eftir A að hann hafi um helgina verið í heimsókn hjá föður sínum, ákærða, á [...]. Kvöldið áður hafi hann farið að sofa um stundarfjórðung eftir miðnætti en síðar vaknað við mikið brölt, er ákærði hafi lagst upp í rúmið. Ákærði hafi farið undir sængina, faðmað hann, strokið honum um rass og klof. Hafi þessu lokið með sáðláti A.
Um kvöldmatarleyti 7. júní fór lögregla á heimili ákærða og handtók hann. Föt hans voru tekin til rannsóknar og á hettupeysu er ákærði var í fannst sæðisblettur. Ekki fundust slíkir blettir á öðrum fatnaði hans. Sýni úr blettinum var sent til dna-rannsóknar og varð niðurstaða hennar sú að sæðið væri úr ákærða.
Í laki á rúmi því er A hafði sofið í fundust sæðisblettir hér og hvar. Ekki liggur hins vegar fyrir hvernig lakið lá á rúminu. Sýni úr þeim voru send til dna-rannsóknar og varð niðurstaðan sú að sæðið væri frá A komið.
Í málinu liggur fyrir bréf C, sálfræðings í Barnahúsi, sem hefur haft A til meðferðar. Segir þar að A hafi komið níu sinnum til hennar og séu „niðurstöður sjálfsmatskvarða“ innan eðlilegra marka. A sé sérstaklega vel gerður drengur og hafi fengið mikinn stuðning frá fjölskyldu sinni. Honum hafi „tekist vel að vinna úr ætluðu kynferðisbroti og segist nú sjaldan hugsa um það“, en fyrst á eftir hafi hann átt „erfitt með að sjá hvernig hann gæti lifað eðlilegu lífi eftir að hafa orðið fyrir því kynferðisbroti [sem] hann kveðst hafa sætt“. Segir í bréfinu að A finnist hann hafa orðið fyrir alvarlegu trúnaðarbroti af hendi föður síns og hafi verið honum mjög reiður og ekki viljað eiga við hann nein samskipti. Loks segir að A hafi unnið vel úr afleiðingum ætlaðs brots og sé nú stefnt að lokum meðferðar. Hún hafi gengið vel, en það brot sem hann segist hafa sætt sé nú „hluti af hans minningum“. Þá skuli þess að lokum getið að „þolendur kynferðisbrota eiga oft erfiðara með að takast á við áföll sem eiga sér stað síðar á lífsleiðinni.“
Hinn 15. janúar 2010 hafði B, móðir A, samband við lögreglu og kvaðst vilja draga til baka kæru á hendur ákærða. Í lögregluskýrslu segir að hún hafi gefið um það símaskýrslu og þar sagst „vilja draga til baka kæru á hendur [ákærða] þar sem þessi atburður hefði ekki haft nein áhrif á A son þeirra. A liði vel og væri búinn að vera í sálfræði viðtölum í Barnahúsi og sálfræðingurinn þar segði að atvikið virtist ekki hafa nein áhrif á hann.“ Er einnig haft eftir B að ákærða hafi liðið mjög illa eftir að málið hefði komið upp og væri búinn að vera þunglyndur. Þá væri málið skaðlegt fyrir hann og konu hans. Spurð hafi B sagst ekki hafa orðið fyrir neinum hótunum eða þrýstingi til að setja fram þessa ósk.
Greinargerð ákærða
Ákærði kveðst í greinargerð sinni byggja sýknukröfu sína aðallega á því, að hann hafi ekki framið þann verknað sem sér sé gefinn að sök. Hann segir ásakanir sonar síns fráleitar, en hann hafi engar kenndir til barna og engar til karlmanna. Ákærði kveðst vera tæplega [...] Hafi hann hvorki í starfi né einkalífi gerst brotlegur gagnvart börnum eða fullorðnum.
Ákærði segir í greinargerðinni að framburður A sé að sínu mati mjög ótrúverðugur. Sé þar lýst háttsemi sem sé mjög óvenjuleg og með ólíkindum. Ætlað brot eigi að hafa verið framið í hurðarlausu herbergi í lítilli íbúð, að sambýliskonu ákærða vakandi í nálægu herbergi. Séu ótrúlegar þær skýringar A, að hann hafi frosið og ekki getað látið sambýliskonuna vita af aðstæðum sínum, en A hafi vitað að hún hafi verið vakandi. Hafi hún jafnvel komið inn í herbergið þar sem ætlað brot eigi að hafa farið fram. Þá sé athyglisvert að A geti í engu um að sambýliskonan hafi komið inn í eldhús eftir að hið ætlaða brot hafi verið framið. Megi af orðum hans ráða að hún hljóti að hafa séð hvað gerðist en látið það yfir sig ganga. Ekkert komi hins vegar fram í framburði hennar hjá lögreglu sem bendi til þess að ákærði hafi framið þann verknað sem hann sé ákærður fyrir.
Þá kveður ákærði framburð A hjá lögreglu marklausan, en þar hafi athygli hans á rétti hans til að svara ekki spurningum, ekki verið vakin fyrr en langt hafi verið liðið á skýrslutöku. Sé verulegur vafi á því að A hafi skilið hvað fram hafi farið, vegna ungs aldurs síns. Hafi lögreglu borið að inna móður hans eftir afstöðu hennar, enda fari hún með lögráð hans.
Þá kveðst ákærði benda á að engin vitni séu að hinu ætlaða broti og styðji engin gögn sakarefnið. Sæðisblettir í laki varpi engu ljósi á það sem fram hafi farið. Þá kveðst ákærði vekja athygli á því, að stroksýni hafi verið tekið af höndum hans og liggi ekkert fyrir um að sæði hafi fundist í því, sem þó hefði mátt ætla miðað við lýsingu A.
Ákærði kveðst einnig byggja sýknukröfu sína á því að saknæmisskilyrðum sé ekki fullnægt. Ekki hafi verið sýnt fram á að hann hafi haft ásetning til brots. Fyrir liggi að hann hafi um árabil glímt við ofneyslu áfengis og hafi hann þetta kvöld verið búinn að drekka sjö hálfs lítra bjóra á skömmum tíma, og verið verulega drukkinn. Hann hafi stundum lagt sig í gestaherberginu og sé alls ekki útilokað að sú hafi verið ætlan hans þetta sinn. Þá sé ekki útilokað að hann hafi, vegna ölvunar, talið sig vera að leggjast í rúm hjá sambýliskonu sinni. Megi af framburði A ráða að ákærði hafi verið ofurölvi og rænulítill og sofnað af og til meðan hið ætlaða brot hafi verið framið. Sé því skynsamlegur vafi á því að ákærði hafi haft ásetning til verknaðar og beri að skýra þann vafa honum í hag.
Þá kveðst ákærði byggja kröfu sína á því, að ástand hans hafi verið með þeim hætti að vegna rænuskerðingar hafi hann ekki verið fær um að stjórna gerðum sínum.
Loks kveðst ákærði byggja sýknukröfu sína á því að háttsemi hans, ef sönnuð teldist, hafi ekki fallið undir 1. mgr. 200. gr. almennra hegningarlaga. Sé mikill vafi um málsatvik og beri að skýra hann ákærða í hag. Ákæruvaldinu hafi ekki tekist að sýna fram á að hann hafi haft í frammi önnur kynferðismök í skilningi lagaákvæðisins.
Þá kveðst ákærði mótmæla því að hann hafi verið klæddur ljósum náttbuxum umrætt kvöld og nótt. Hafi þetta ítrekað komið fram hjá honum í máli hans hjá lögreglu.
Verða nú rakin skýrsla ákærða og framburður vitna fyrir dómi eftir því sem ástæða þykir til.
Ákærði sagði að sonur sinn hefði dvalist hjá sér umrædda helgi, komið á miðvikudegi eða fimmtudegi og farið á sunnudagsmorgni. Um laugardagskvöldið hefði A farið út með frænku sinni og vinkonu hennar og D, kona ákærða, hefði farið að hitta foreldra sína. Ákærði hefði verið einn eftir heima. Ákærði hefði drukkið áfengi, sennilega sjö bjóra eða svo, og loks sofnað í stól fyrir framan tölvu, sem væri í svefnherbergi þeirra D. Drykkja sín hefði hafist um níuleytið, en á þessum tíma hefði hann verið helgardrykkjumaður. Um tólfleytið hefðu bæði A og D komið heim.
Ákærði kvaðst hafa gengið inn í herbergi til A, lagst upp í rúm hjá honum og tekið utan um hann, um bringuna. Hefði þetta verið dómgreindarleysi af sér, en A væri lítill í sér. Ákærði hefði haldið þannig allan tímann, sem hefði verið mjög skammur, en ákærði hefði sofnað þar örstutt. Ákærði kvaðst þó ekki muna nákvæmlega eftir því andartaki er hann hefði gengið inn til A og lagst hjá honum, ekkert sérstaklega þétt upp við hann, en hann hefði hins vegar ekki verið svo drukkinn að hann myndi ekki eftir gjörðum sínum.
A myndi hafa legið og snúið baki í vegginn en ákærði hefði líklega farið í rúmið fyrir aftan hann. Ákærði kvaðst ekki muna í smáatriðum eftir þessu, en aðrir möguleikar væru eiginlega ekki. Ákærði kvað sér ekki hafa risið hold og væri það af og frá, slíkt væri sér ómögulegt drukknum.
Þegar ákærði hefði legið þarna og haldið um A hefði D komið inn í herbergið og að rúminu, mjög fljótlega á eftir ákærða, og spurt: „X, ætlar þú að sofa hér?“ Fimm til tíu mínútum síðar hefði ákærði staðið á fætur, og A einnig, og þeir farið inn í eldhús þar sem báðir hefðu fengið sér vatn að drekka. D hefði komið þar í gættina og spurt hvort ekki væri allt í lagi og hefði ákærði þá gengið með henni inn í svefnherbergi, klætt sig úr buxum og lagst upp í rúm, en A hefði farið inn í sitt herbergi. Kvað ákærði þá feðga ekki hafa skipst á neinum orðum, en A væri lítt hrifinn af drykkju ákærða. Drukkinn væri ákærði ekki ræðinn fyrir sitt leyti og ekki til stórræða.
Ákærði kvaðst ekki vita hvort A hefði verið vakandi er ákærði kom inn í herbergið til hans. Líklega hefði hann vaknað við komu D þangað. Þegar D hefði komið í herbergið hefði A legið undir sæng. Þá kvað ákærði öruggt að hann sjálfur hefði verið undir sæng. Bjart hefði verið í herberginu enda sumarnótt.
Ákærði kvað öll hljóð heyrast mjög vel innan íbúðarinnar, en þar væru engar hurðir en þau D hefðu verið tvö í heimili á þessum tíma. Milli svefnherbergis þeirra og þess herbergis er A hefði sofið í væri gangur, 6,9 metrar að lengd. Væri reynslan sú að öll hljóð úr því herbergi heyrðust greinilega yfir í svefnherbergið.
Ákærði kvaðst hafa leitað áfengismeðferðar á [...], fljótlega eftir að þetta mál hefði komið upp. Hefði hann „fallið“ tvívegis síðan, en sér og allri fjölskyldu sinni hefði liðið mjög illa vegna þessa máls. Kvaðst ákærði ekki vilja neyta áfengis, en sá vilji yrði ekki alltaf ofaná.
Ákærði kvað tengsl sín og A hafa verið góð, A hefði komið til sín um helgar og hátíðir, en þó mun minna en önnur börn ákærða, sem hefðu á þessum tíma verið tvö. A hefði þó ekki verið um víndrykkju sína gefið, þótt hann hefði ekki haft orð á því sérstaklega. Kynni að vera að ásakanir hans í garð ákærða stöfuðu af því að hann vilji ekki fara til ákærða. Kvaðst ákærði þó ekki þekkja dæmi þess að A hefði farið með ósannindi til að komast undan því sem hann vildi forðast. Væri A „mjög góður strákur“ og hlédrægur. Einhver breyting á viðhorfum A til ákærða hefði þó fylgt unglingsárum hans, og nefndi ákærði að nokkru fyrir umrædda atburði hefði ákærði verið staddur [...] og haldið til mjög nálægt heimili A. Ákærði hefði þá haft samband við A og stungið upp á að þeir hittust, en A sagst ekki hafa áhuga á því. Hefði það tekið ákærða sárt.
Ákærði kvaðst vera [...]. Væri hann álitinn mjög hæfur sem slíkur og hefði aldrei verið yfir honum kvartað vegna nokkurs sem væri í ætt við ákæru í máli þessu. Þá hefði hann starfað sem [...]. Hefði hann haft ótal tækifæri til að framkvæma sambærilega hluti og hann væri ákærður fyrir í máli þessu, en hann hefði meðal annars verið einn í gistingu með börnum. Ákærði hefði engar hneigðir í þessa veru.
Að lokinni yfirheyrslu vitna óskaði ákærði eftir að gefa skýrslu að nýju. Sagði hann þau D hafa haft mök skömmu áður en lögregla hefði komið á heimili sitt og handtekið sig, og gæti það skýrt sæðisblettinn sem fundist hefði á peysu sinni.
Vitnið A kvaðst hafa verið sex eða sjö ára þegar hann hefði tekið að fara til föður síns „í umgengni“. Hefði það verið um þrisvar á ári síðan þá.
A kvaðst hafa farið út umrætt kvöld en komið heim um tólfleytið, fengið sér matarbita, pakkað í töskur vegna væntanlegrar brottfarar morguninn eftir, og gengið til náða eftir það. Þegar A hefði farið út hefði faðir hans verið inni í stofu og að því er hann minnti byrjaður að drekka, en sofandi við tölvuna þegar heim var komið. Sjálfur hefði A verið allsgáður. D hefði verið heima og þau hefðu rætt undirbúning ferðar A [...]. Hefði þeim D alltaf komið vel saman.
A hefði verið í bol, náttbuxum og nærbuxum, og sofnað mjög fljótt en vaknað rétt eftir klukkan eitt við það að ákærði hefði komið í rúmið til sín og lagst fyrir aftan sig. Hefði ákærði verið klæddur mosagrænni hettulausri „flís“peysu, náttbuxum og hvítum bol. Rúmið hefði verið upp við vegg og A hefði legið á hlið undir sæng og snúið frá veggnum. Nokkuð bjart hefði verið í herberginu.
Fyrst hefði lítið gerst, en ákærði tekið að hreyfa sig. Næst hefði ákærði tekið að strjúka A um rassinn, undir sæng en utan klæða fyrst í stað. Þá hefði ákærði reynt að færa sig inn fyrir náttbuxur A en utan nærbuxna. Næst hefði ákærði farið „inn á rassinn“ og byrjað að strjúka þar „á fullu og færir sig svo yfir í klofið“. Þar hefði ákærði byrjað „beisiklí að runka mér“ og hefði það staðið í mínútu eða meira, eftir því sem A minnti. Kvaðst A hafa fundið fyrir lim ákærða við rass sinn, líklega þó ekki hörðum. Hefði ákærði beðið sig að stynja. A hefði fengið sáðlát sem hefði farið í lakið, en náttbuxur hans hefðu verið komnar niður um hann að hluta. A hefði eftir þetta staðið upp og farið inn í eldhús og fengið sér vatn. Hefði hann þá vonað að ákærði yrði eftir í rúminu það sem eftir lifði nætur en sjálfur myndi hann þá sofa í sófa. Hefði sér sjaldan liðið eins illa og meðan þetta hefði farið fram.
Ákærði hefði því næst komið í eldhúsið og spurt hvað væri að en A hefði spurt hvað hann meinti. Hefði ákærði þá sagt að A hefði viljað þetta og beðið um það. A hefði ekki svarað þessu neinu heldur gengið til baka inn í herbergið, en ákærði hefði reynt að stöðva sig með því að leggja hönd fyrir hann. Hefði hann verið um fimm mínútur í eldhúsinu og hefði D ekki komið þangað heldur legið inni í svefnherbergi. A var nánar spurður um þetta atriði og kvaðst hann muna skýrt og greinilega að hún hefði ekki komið til þeirra í eldhúsið.
A sagði að um leið og ákærði hefði byrjað á þessum athöfnum í rúminu, hefði hann hugsað „að núna myndi [hann] hætta að fara til hans“. Hefði hann aldrei haft nokkurn áhuga á heimsækja ákærða, hann hefði einfaldlega þurft að gera það. Hefði ákærði jafnan verið drukkinn er A hefði verið hjá honum. Gæti hann ekki hugsað sér að hitta hann nú.
A sagði, að þegar á þessum athöfnum hefði gengið í rúminu hefði D komið inn í herbergið, að rúmsendanum, og hefði ákærði þá strax hætt að hreyfa sig. Hefði hún beðið ákærða um að koma fram, en hann hefði engu svarað. Áður en hún hefði komið, hefði hún kallað alloft til ákærða úr svefnherbergi þeirra, en vel heyrðist milli herbergjanna. Þegar D hefði kallað hefði ákærði haldið utan um A en ekki verið byrjaður að strjúka honum.
A var spurður hvort hann hefði átt þess einhvern kost að koma sér undan atlotum, og kvaðst hann hafa „frosið“. Þá væri ákærði vís til alls þegar hann væri drukkinn. Hefði A ekki þorað að gera neitt. Þó hefði hann þrívegis reynt að ýta hönd hans frá sér, en hún alltaf komið aftur.
A neitaði því aðspurður að hafa sjálfur valdið sér sáðláti í rúmið.
A kvað útilokað að atburðir þessir væru ímyndun sín. Móðir sín hefði kannað hvort afturkalla mætti mál þetta, en það ekki verið unnt. Hefði það ekki verið gert að sínu frumkvæði.
A kvaðst aldrei í annan tíma hafa orðið fyrir sambærilegu athæfi, hvorki af hálfu föður síns né annarra manna.
Vitnið B, móðir A, sagði son sinn hafa, um hálfri klukkustund eftir komuna [...], sagt sér að ákærði hefði verið drukkinn um kvöldið. Ákærði hefði lagst hjá A í rúminu og byrjað að snerta hann. Hefði hann lýst þessu eitthvað nánar en ekki að öllu leyti. Hefði A liðið mjög illa yfir þessu og grátið. Áður hefði verið mjög misjafnt hvort A hefði verið sáttur við að fara til föður síns, en B kvaðst þó vita að ekki hefði fyrr en þarna verið farið illa með hann þar. Í seinni tíð hefði A þó yfirleitt verið sáttari við að fara [...].
B sagði að frá þessum atburðum hefði A almennt liðið ágætlega og virtist þetta ekki hafa haft skaðleg áhrif á hann. Hún var sérstaklega spurð hvort hún sæi einhverja afleiðingu af þessu og kvað hún svo ekki vera, að öðru leyti en A væri föður sínum mjög reiður, sem kæmi fram ef að málið bærist í tal.
B kvaðst hafa óskað eftir því við lögreglu að málið yrði afturkallað. Hefðu fyrst og fremst tilfinningasjónarmið búið að baki, en hún hefði óskað þess að fjölskyldurnar gætu náð sáttum. Þá hefðu foreldrar ákærða alltaf reynst sér vel og væri henni mjög hlýtt til þeirra. Einnig hefði hún séð að A hefði liðið ágætlega og að „þetta átti ekkert eftir að hafa skaðleg áhrif, þannig lagað.“ Hefði hún ekki rætt þessa ósk sína við A. Væri það ekki lengur ósk sín að málið verði dregið til baka. Þá kvaðst hún ekki vilja draga bótakröfu til baka.
B sagði son sinn sannsögulan og hefði hann aldrei logið upp sögum til að fá vilja sínum framgengt.
Vitnið D, sambýliskona ákærða, sagði A hafa farið út um níuleytið um kvöldið en sjálf hefði D einnig farið út. Ákærði hefði verið eftir heima og drukkið þar. Um tólfleytið hefði hún komið heim aftur og hefði ákærði þá verið sofandi við tölvuna, en A verið kominn heim og háttaður, en vakandi. Hefði A fljótlega farið í rúmið en D verið á fótum þar til stundarfjórðung í eitt, eða um það leyti. Þegar hún hefði verið nýlögst hefði ákærði vaknað, farið á salerni og því næst gengið fram og þangað er A hefði sofið. Hún hefði þá afráðið að fara og sækja hann eða athuga að minnsta kosti málið. Hefði hún farið inn í herbergi A, að rúminu, og fundið þá feðga þar sofandi og hefði ákærði haldið um A. Hefði hún spurt: „X, ætlar þú að sofa hér?“ en ekkert svar komið. Hefði hún haldið áfram að ávarpa ákærða, með sama árangri, en hvorugur hefði rumskað. Kvaðst hún hafa séð fremur vel til og séð andlit þeirra, en báðir hefðu verið með lokuð augu. Hefði hún enga hreyfingu séð og ekkert óeðlilegt. Báðir hefðu verið undir sæng en tvær sængur væru í rúminu. Kvaðst hún ekki muna hvort þeir hefðu verið undir sömu sæng eða hvor sinni. Hún hefði séð þykkt undir sænginni sem hefði svarað til þess að ákærði héldi utan um A, „utanum búkinn“. Hefði hún því næst yfirgefið herbergið og farið inn til sín, en ekki farið að sofa. Mjög fljótlega eftir þetta hefði hún heyrt einhvern ganga inn í eldhús og fá sér vatn og svo annar sömu leið. Hefði hún þá heyrt A segja „Hvað?“ með spurnartóni, og bæta svo við þeim orðum að hann færi nú að sofa. Hún hefði þá gengið inn í eldhúsið og þá séð ákærða standa við vaskinn við gluggann, „frekar drukkinn virðist vera“, með lafandi höfuð, en A hefði drukkið vatn. Hún hefði spurt hvort ekki væri allt í lagi og hefði A þá gengið fram hjá sér og inn í herbergi sitt, en hún og ákærði hefðu farið inn til sín. Hefði A virst vel vakandi en mjög rólegur og ekki að sjá neitt athugavert við fas hans. Væri öruggt að A hefði séð hana í eldhúsinu og litið á hana, en hún hefði þurft að færa sig í dyrunum svo A kæmist fram.
D sagði ákærða hafa verið í gallabuxum, bol og peysu.
Kvaðst hún aldrei áður hafa orðið vör við að ákærði svæfi í sama rúmi og A. Þá kvaðst hún ekki hafa kallað til ákærða, áður en hún hefði farið til hans inn í herbergi A.
Dyrnar að hjónaherberginu kvað hún hafa verið opnar. Kvaðst hún telja öruggt að hún hefði orðið þess vör, ef í gestaherberginu hefði það farið fram sem mál þetta snýst um. Væri reynsla fyrir því að vel heyrðist til gesta sem þar væru.
D sagði samskipti sín og A ekki hafa verið mikil, en fín þau sem hefðu verið. Daginn eftir umrætt kvöld hefðu samskipti þeirra A verið mjög eðlileg. Þau hefðu vaknað snemma, borðað morgunverð og talað saman um daginn og veginn meðan þau biðu eftir E, bróður ákærða, sem hefði lofað að keyra A [...]. Hefðu þau meðal annars talað um væntanlegt ættarmót um sumarið og hefði A tekið jákvætt í að koma þangað.
D kvaðst telja „fáránlegt“ að ákærði hefði hneigðir í þá veru sem mál þetta snýst um. Hefði hún aldrei orðið vör við neitt í þessa veru hjá honum. Hljómaði þetta allt eins og „brandari“ fyrir sér. Þá kvaðst hún ekki vita til þess að ákærði framkvæmdi hluti drukkinn sem hann svo myndi ekki eftir allsgáður. Væri drykkjuhegðun hans raunar fábreytt, sæti hann ýmist við sjónvarp eða tölvu og drykki þar til hann sofnaði. Á meðan á drykkju stæði drægi jafnt og þétt úr atorku hans og kynferðisumsvif væru engin. Væru samskipti þeirra raunar ekki mikil meðan hann drykki, en hún tæki ekki þátt í því. Takmarkaðist drykkja hans við föstudags- og laugardagskvöld.
D sagðist fyrst hafa heyrt af þessu máli kvöldið eftir, þegar lögregla hefði komið á heimili þeirra. Hefði það komið þeim ákærða í opna skjöldu, en þau hefðu átt mjög góðan dag fram að því. Þau hefðu ekkert rætt þetta mál áður en hún hefði gefið skýrslu hjá lögreglu.
Hún sagði samskipti þeirra feðga hafa verið frekar lítil, en „alveg ágæt“ þau sem hefðu verið, og þeir alltaf verið „fínir saman“. Þó hefði A sennilega jafnan verið feginn að fara heim, enda væri hann með „lítið hjarta“ og viðkvæmur. Ákærði hefði aldrei gert A neitt svo hún vissi, og hefði A enga ástæðu til að óttast hann. Þá hefði ákærði hvorki verið skapstór né þrúgandi við A. Hugsanlega hefði A einhvern tímann orðið vitni að því að ákærði hefði verið skapstór við sig.
Umrædd heimsókn A hefði hafist á fimmtudegi og sýndi D fyrir dómi símaskilaboð frá A til marks um að hann hefði farið [...] þann dag.
D sagði þau ákærða hafa haft samfarir síðdegis á sunnudeginum. Hefði hann mjög sennilega verið í blárri hettupeysu við upphaf þeirra.
Vitnið E, bróðir ákærða, kvaðst hafa komið heim til bróður síns uppúr klukkan átta á sunnudagsmorgun. E hefði verið á leið [...] og hefði verið beðinn um að keyra A. Hann hefði verið á hraðferð og ekki staðið lengi við hjá þeim, en feðgarnir hefðu faðmast í kveðjuskyni. A hefði ekki verið margmáll á leiðinni [...], en það væri ekkert nýtt, en A væri hlédrægur. Hann hefði þó jafnan svarað og það frekar glaðlega ef E hefði ávarpað hann. Þá hefðu verið stúlkur með þeim í för og þær talað samfellt. Hefði A verið eins og hann hefði átt að sér að vera, en þeir þekktust reyndar lítið.
Vitnið F rannsóknarlögreglumaður kvað í sig hafa verið hringt [...] og upplýst um skýrslugjöf A hjá lögreglu þar. Hefði í framhaldi af því verið farið heim til ákærða og hann handtekinn um kvöldmatarleytiF kvaðst hafa spurt ákærða í hvaða fötum hann hefði verið kvöldið áður og fengið það svar að það væru sömu föt og hann var í við handtöku, sem hafi verið bláar síðar náttbuxur, ljós bolur og peysa. Hefðu þau föt verið send til rannsóknar.
F kvaðst hafa rannsakað vettvang. Rúm A hefði verið umbúið þegar lögregla hefði komið. Rúmföt og lak hefðu verið tekin til rannsóknar. Sýni úr lakinu hefðu tvívegis verið send til dna-rannsóknar erlendis.
Ákærða hefði greinilega verið mjög brugðið við handtökuna og hún komið honum mjög á óvart. Þá hefði hann borið merki um að hafa neytt áfengis, rauðþrútinn í augum og af honum áfengislykt, þótt ekki hefði hann verið ölvaður. Eftir að lögregla hefði komið á vettvang hefðu ákærði og sambýliskona hans ekki verið tvö ein, fyrr en eftir að skýrsla hafði verið tekin af þeim báðum þetta kvöld.
F sagði að húsakynnum hefði verið breytt frá því sem teikning sýndi, [...]. Kvað hann geta verið að gangurinn milli svefnherbergis og gestaherbergisins væri [...] metrar. Væri þar opin sjónlína. Inn í gestaherbergið hefði verið hurðarop og ekkert fyrir því.
Vitnið G, sérfræðingur líftæknisviðs tæknideildar lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, sagðist hafa fengið til rannsóknar gráa hettupeysu, bol, buxur, sokka og nærbuxur. Neðst á framhlið peysunnar hefði fundist sæðisblettur og í honum hefðu við smásjárrannsókn sést sæðisfrumur. Ekkert slíkt hefði fundist í öðrum fatnaði. Niðurstöður rannsókna hefðu verið að sæðið væri úr ákærða. Í laki hefðu fundist alls þrettán blettir sem hefðu svarað við forprófun og hefðu sýni úr sjö þeirra, þar sem sæðisfrumur hefðu verið staðfestar, verið send til rannsóknar og hefði niðurstaðan orðið sú að allt væri það komið frá A. Ekki væri hægt að segja til hvenær sæðið hefði komið í lakið, en það hefði þó verið eftir síðasta þvott. Sama væri að segja um sæðið sem fundist hefði á peysunni. Engar merkingar hefðu gefið til kynna hvernig lakið hefði snúið í rúminu og væri það ekki vitað. Þá væri ekki hægt að segja hvort blettirnir hefðu komið úr einu sáðláti eða fleiri.
Vitnið C, sálfræðingur í Barnahúsi, sagði A hafa verið hjá sér í meðferð sem nefnd væri hugræn áfallamiðuð atferlismeðferð. Væri A sérstaklega vel gerður og hefði mætt í öll bókuð viðtöl og unnið vel. Ætti hann iðulega frumkvæði að því sem rætt væri. Fyrst hefði hann komið henni fyrir sjónir sem feiminn, en væri nú sjálfsöruggari og hefði meðferðin gengið mjög vel. Væri hann sjálfum sér mjög samkvæmur í viðtölum og hefði velt þessu máli mikið fyrir sér. A kenndi sér ekki um það sem gerst hefði, en hefði mikla áhyggju af því að aðrir gætu frétt af málinu og yrði skömm að. Hefði hann fengið mjög mikinn stuðning frá fjölskyldu sinni og hefði hann mjög hjálpað. Fyrst hefði A borið mikinn reiðihug til ákærða og hefði sjálfur talað um hatur í því sambandi. Sé hann honum enn reiður og eigi erfitt með að sjá fyrir sér að þeir geti átt eðlileg samskipti í framtíðinni. Þá hefði komið fram að hann hefði haft beyg af ákærða, fundist hann bæði skapmikill og drekka of mikið. Væri A enn til meðferðar en gert væri ráð fyrir að henni ljúki fljótlega.
Niðurstaða
Meginsönnunargagn ákæruvaldsins í máli þessu er framburður A, ætlaðs brotaþola. A gaf skýrslu fyrir dómi og var að mati dómsins afar skýr og trúverðugur, en A hefur verið sjálfum sér samkvæmur í framburði sínum á hverju stigi málsins. Framburður vitnisins C, sem hefur haft A til meðferðar, verður svo ekki til þess að draga úr trúverðugleika hans. Sama má segja um framburð móður hans. Í rúmi því er A svaf í fundust sæðisblettir, sem rannsókn sýnir að eru frá honum komnir. Fær það vel samrýmst frásögn A, þótt blettirnir sanni hana ekki, enda geta þeir hafa komist í lakið án tilverknaðar ákærða.
Á hinn bóginn hefur ákærði allar götur neitað sök, verið þar sjálfum sér samkvæmur og út af fyrir sig ekki ótrúverðugur. Fyrir liggur í málinu að ákærði var undir áhrifum áfengis þetta kvöld og kvaðst hann meðal annars ekki muna nákvæmlega eftir því er hann fór og lagðist í rúm A. Hann var þó eindreginn í þeim framburði sínum að hafa ekki viðhaft þá háttsemi sem honum er gefin að sök.
Þá liggur fyrir að sambýliskona ákærða, D, kom inn í herbergið þar sem feðgarnir lágu. Kvaðst hún fyrir dómi ekki hafa tekið eftir neinu óeðlilegu, en sér hefði sýnst sem ákærði héldi utan um son sinn, svo sem hann hefur borið að hafa gert. Að mati dómsins var framburður D allur trúverðugur, þótt hann verði að skoða í ljósi tengsla hennar við ákærða.
Ljóst þykir að þeir feðgar hafi báðir farið inn í eldhús íbúðarinnar um nóttina. Þeir eru hins vegar ekki sammála um hvort D hafi komið þangað einnig. Dóminum þykir sannað með skýrum framburði D að hún hafi komið þar að þeim, en hún hefur borið svo, allt frá upphafi rannsóknar málsins, en þau ákærði voru aðskilin frá handtöku hans og þar til eftir að bæði höfðu gefið skýrslu. Vitnið F rannsóknarlögreglumaður bar fyrir dómi að handtakan hefði komið ákærða mjög á óvart. A var í sínum framburði eindreginn í því að D hefði ekki komið í eldhúsið, en í ljósi framansagðs telur dómurinn það ekki rétt. Dómurinn telur hins vegar að það verði ekki til þess að draga úr trúverðugleika hans að öðru leyti, heldur lítur dómurinn svo á að hann hafi einfaldlega gleymt þessu atriði.
Eins og áður segir er ljóst að D kom inn í gestaherbergið þegar feðgarnir lágu þar báðir. A bar fyrir dómi að þá hefði ákærði verið byrjaður á athöfnum sínum, en hefði hætt þegar hún hefði komið í herbergið. Ljóst má vera að við komu D í herbergið gafst A færi á að leita hjálpar eða að minnsta kosti fara úr rúminu. Hann gaf þá skýringu fyrir dómi að hann hefði „frosið“ er ákærði hefði byrjað á athöfnum sínum og svo hefði hann ekki þorað að forða sér, en ákærði væri til alls vís. Dómurinn álítur, að þrátt fyrir þá ábyrgð sem kann að mega ætlast til að hver maður taki á eigin velferð, þá verði þessum skýringum A ekki hafnað. Megi þar meðal annars hafa í huga, að ákærði bar sjálfur að A væri „lítill í sér“ og viðkvæmur. Sú staðreynd að A hafi hvorki kallað á hjálp né forðað sér, dregur því ekki úr trúverðugleika hans að mati dómsins.
D kvað ekkert óeðlilegt hafa verið að sjá á fasi A í eldhúsinu um nóttina og ekkert athugavert verið við samskipti feðganna morguninn eftir. Eins og áður segir er óhjákvæmilegt að skoða framburð D í ljósi tengsla hennar og ákærða. Allt að einu þykir þessi framburður hennar vera málstað ákærða heldur í hag, þótt hann hnekki frásögn A á engan hátt.
Innan við sjö metrar munu vera milli svefnherbergis íbúðarinnar, þar sem D var vakandi, og gestaherbergisins þar sem A lá og ákærði kom og lagðist. Gáttir voru opnar á milli og bar D að hljóðbært væri þar og þykir ekki sérstök ástæða til að efast um það. Kvaðst hún telja öruggt að hún hefði heyrt ef í herberginu hefðu orðið athafnir svo sem lýst er í ákæru, en dómurinn telur ekki unnt að slá slíku föstu með fullri vissu.
Sæðisblettur fannst á peysu ákærða. Ákærði hefur gefið mögulega skýringu á tilvist hans og fær hún stuðning í framburði D. Að mati dómsins kann sú skýring að standast.
Þegar á allt framanritað er horft, er það álit dómsins að með skýrum og trúverðugum framburði A hafi töluverð líkindi verið færð að sekt ákærða samkvæmt ákæru. Fram hjá hinu verði hins vegar ekki horft, að um það sem máli skiptir standa orð A gegn orðum ákærða. Sæðisblettir í laki geta vel komið heim og saman við frásögn A en þeir sanna hana ekki. Önnur vitni hafa ekki eigin vitneskju um það sem þeim feðgum kann að hafa farið á milli í gestaherberginu, nema D sem sá þá aðeins liggja hreyfingarlausa og kveðst hafa haldið þá sofandi. Samkvæmt 108. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála hvílir sönnunarbyrði um sekt ákærða og allt annað sem honum væri í óhag, á ákæruvaldinu. Samkvæmt 109. gr. laganna þarf sönnun að vera sterkari en svo að hana megi vefengja með skynsamlegum rökum. Að mati dómsins hefur ákæruvaldinu ekki alveg tekist að sanna, svo að ekki verði vefengt, að ákærði hafi brotið gegn 1. mgr. 200. gr. almennra hegningarlaga með háttsemi sem greind er í ákæru. Er því skylt að sýkna ákærða af ákærunni en vísa bótakröfu frá dómi með vísan til 2. mgr. 176. gr. laga nr. 88/2008. Sakarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Sigmundar Guðmundssonar héraðsdómslögmanns, 500.000 krónur, og þóknun skipaðs réttargæslumanns A, Feldísar Óskarsdóttur héraðsdómslögmanns, 251.000 krónur og útlagðan kostnað réttargæslumannsins 46.675 krónur. Við ákvörðun málsvarnarlauna verjanda og þóknun réttargæslumanns hefur verið litið til reglna um virðisaukaskatt. Gætt var ákvæða 184. gr. laga nr. 88/2008. Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Sigríður Elsa Kjartansdóttir saksóknari.
Dóm þennan kveða upp héraðsdómararnir Þorsteinn Davíðsson sem dómsformaður, Erlingur Sigtryggsson og Ólafur Ólafsson.
D Ó M S O R Ð
Ákærði, X, er sýkn af ákæru í máli þessu.
Bótakröfu A er vísað frá dómi.
Sakarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Sigmundar Guðmundssonar héraðsdómslögmanns, 500.000 krónur, þóknun skipaðs réttargæslumanns, Feldísar Óskarsdóttur héraðsdómslögmanns, 251.000 krónur og útlagður kostnaður réttargæslumannsins 46.675 krónur.