Hæstiréttur íslands

Mál nr. 725/2014


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008


Miðvikudaginn 12. nóvember 2014

Nr. 725/2014.

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum

(Súsanna Björg Fróðadóttir fulltrúi)

gegn

X

(Páll Rúnar M. Kristjánsson hdl.)

Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem X var gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stæði.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Benedikt Bogason og Karl Axelsson settur hæstaréttardómari.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 11. nóvember 2014, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 10. nóvember 2014, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 17. nóvember 2014 klukkan 16 og einangrun meðan á því stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðahaldinu verði markaður skemmri tími og að sér verði ekki gert að sæta einangrun á meðan á því stendur.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Varnaraðili er undir rökstuddum grun um brot, sem getur varðað fangelsisrefsingu samkvæmt 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Með þessari athugasemd verður hinn kærði úrskurður staðfestur með vísan til forsendna hans.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 10. nóvember 2014.

                Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefur í dag krafist þess að Héraðsdómur Reykjaness úrskurði að X, kt [...], verði með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 21. nóvember 2014, kl. 16:00 og að á þeim tíma verði kærða gert að sæta einangrun.

                Kröfu sína byggir lögreglustjóri á a lið 1. mgr. 95. gr.  og b lið 1. mgr. 99. gr.  laga um meðferð sakamála nr. 88/2008

                Krafan er reist á því að kærði sé undir grun um brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974 og 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

                Kærði mótmælir kröfunni.

                Í greinargerð lögreglustjórans segir m.a. að lögreglustjóranum á Suðurnesjum hafi borist tilkynning frá tollgæslunni í Flugstöð Leifs Eiríkssonar í gær, 9. nóvember 20140, um að kærði hefði verið stöðvaður á tollhliði, vegna gruns um að hann kynni að hafa fíkniefni falin í fórum sínum, í kjölfar komu hans hingað til lands með flugi [...] frá Frankfurt, Þýskalandi.

                Við leit hafi fundist 6 pakkningar í buxnastreng kærða og í viðræðum tollvarða við kærða hafi hann tilkynnt þeim að hann hefði u.þ.b. 60 pakkningar af fíkniefnum falin innvortis. Í kjölfarið hafi kærði verið handtekinn og færður á lögreglustöðina við Hringbraut, Reykjanesbæ, og í kjölfarið verið fluttur á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja (HSS) þar sem hann hafi gengist undir röntgenskoðun. Hafi niðurstaða skoðunarinnar verið sú að greina hafi mátt aðskotahluti í meltingarvegi kærða.

                Að svo stöddu hafi 69 pakkningar af meintum fíkniefnum gengið niður úr kærða en kærði þarf að fara í sneiðmyndartöku til staðfestingar á að allar pakkningar séu komnar niður. Þá hafi lögregla ekki fengið staðfestingu frá tæknideild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu um tegund hinna meintu fíkniefna sem kærði hafi þegar skilað. Lögregla bíði þess nú að afgangurinn af hinum meintu fíkniefnum gangi niður úr kærða þannig að hægt verði að staðfesta hvert endanlegt magn þeirra og tegund er.

Vísast nánar til meðfylgjandi gagna málsins.

                Rannsókn máls þessa sé á algeru frumstigi. Lögregla vinni nú að því að rannsaka aðdragandann að ferð kærða til hingað til lands og tengsl hans við hugsanlega vitorðsmenn á Íslandi og eða erlendis. Í því skyni mun lögregla m.a. afla upplýsinga frá fjarskiptafyrirtækjum og fjármálastofnunum, auk annarra atriða sem lögregla telji að séu mikilvæg vegna rannsóknar málsins. Þrátt fyrir að tegund eða magn hinna meintu fíkniefna liggi ekki fyrir að svo stöddu, telji lögregla líkur til þess að þau fíkniefni sem kærði hafi komið með til landsins hafi verið ætluð til sölu og dreifingar og að háttsemi hans kunni því að varða við ákvæði 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og ákvæði laga nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni. Lögregla telji sig a.m.k. þurfa svigrúm til að rannsaka nánar, áður en kærði verði látinn laus úr haldi lögreglu, hvort að meintu fíkniefni hafi verið ætluð til sölu og dreifingar hér á landi. Þá telji lögregla að ætla megi að kærði kunni að torvelda rannsókn málsins og hafa áhrif á samseka gangi hann laus. Þá telji lögregla einnig hættu á að kærði verði beittur þrýstingi og að reynt verði að hafa áhrif á kærða, af hendi samverkamanna kærða, gangi kærði laus, á þessu stigi rannsóknar hjá lögreglu.

                Þess er krafist að kærða verði gert að sæta einangrun í gæsluvarðhaldi skv. b-lið 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008.

                Með vísan til alls framangreinds, rannsóknarhagsmuna, a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88, 2008 um meðferð sakamála, 173. gr.a almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og laga nr. 65/1974 um ávana og fíkniefni telji lögreglustjóri brýna rannsóknarhagsmuni standa til þess að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 21. nóvember 2014 og að kærði sæti einangrun á þeim tíma.

                Þegar litið er til gagna málsins er fallist á með lögreglu að kærði sé undir rökstuddum grun um að hafa brotið gegn ákvæðum laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974 eða gegn 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Rannsókn málsins er á frumstigi og haldi kærði óskertu frelsi sínu gæti hann torveldað rannsókn málsins, m.a. með því að hafa áhrif á framburð vitorðsmanna eða vitna. Með vísan til a liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 er því fallist á að kærði sæti gæsluvarðhaldi til mánudagsins 17.  nóvember nk. eins og nánar greinir í úrskurðarorði. Með vísan til 2. mgr. 98. gr., sbr. a lið 95. gr. sömu laga, er tekin til greina krafa um að kærði sæti einangrun.                 

Úrskurð þennan kveður upp Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari.

Úrskurðarorð:

                Kærði, X, skal sæta gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 17. nóvember 2014, kl. 16:00.

                Kærði skal sæta einangrun meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.