Hæstiréttur íslands

Mál nr. 231/2005


Lykilorð

  • Kærumál
  • Félagsdómur
  • Kæruheimild
  • Frávísun frá Hæstarétti


Fimmtudaginn 9

 

Fimmtudaginn 9. júní 2005.

Nr. 231/2005.

Samtök atvinnulífsins f.h.

Landssambands íslenskra útvegsmanna f.h.

Útvegsmannafélags Snæfellsness

vegna Soffaníasar Cecilssonar hf.

(Ragnar Aðalsteinsson hrl.)

gegn

Vélstjórafélagi Íslands

(Jónas Haraldsson hrl.)

 

Kærumál. Félagsdómur. Kæruheimild. Frávísun máls frá Hæstarétti.

Kærður var úrskurður Félagsdóms, þar sem kröfu S um að dómari í máli V gegn S viki sæti, var hafnað. Málinu var sjálfkrafa vísað frá Hæstarétti þar sem kæruheimild skorti.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Garðar Gíslason, Guðrún Erlendsdóttir, Gunnlaugur Claessen og Hrafn Bragason.

Sóknaraðili skaut máli þessu til Hæstaréttar með kæru 27. maí 2005, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 1. júní sama ár. Kærður er úrskurður Félagsdóms 20. maí 2005, þar sem kröfu sóknaraðila um að Gunnar Sæmundsson víki sæti sem dómari í málinu var hafnað. Kæruheimild telur hann vera í 69. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur, sbr. a. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess, að dómarinn Gunnar Sæmundsson víki sæti í félagsdómsmálinu nr. 7/2005.

Varnaraðili krefst þess aðallega, að málinu verði vísað frá Hæstarétti en til vara krefst hann staðfestingar hins kærða úrskurðar. Þá krefst hann málskostnaðar fyrir Félagsdómi og kærumálskostnaðar úr hendi sóknaraðila.

Í 67. gr. laga nr. 80/1938 er að finna tæmandi talningu á þeim dómum og úrskurðum Félagsdóms, sem kæranlegir eru til Hæstaréttar. Þar er ekki að finna ákvæði um að unnt sé að kæra úrskurði Félagsdóms um hæfi einstakra dómara. Brestur því heimild til að vísa hinum kærða úrskurði til Hæstaréttar. Verður máli þessu því sjálfkrafa vísað frá Hæstarétti.

Sóknaraðili greiði varnaraðila kærumálskostnað svo sem greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.

Sóknaraðili, Samtök atvinnulífsins f.h. Landssambands íslenskra útvegsmanna f.h. Útvegsmannafélags Snæfellsness vegna Soffaníasar Cecilssonar hf., greiði varnaraðila, Vélstjórafélagi Íslands, 150.000 krónur í kærumálskostnað.

 

 

Úrskurður Félagsdóms 20. maí 2005.

         Mál þetta var tekið til úrskurðar 4. maí sl. að loknum munnlegum málflutningi vegna kröfu stefnda um það að dómarinn Gunnar Sæmundsson víki sæti í málinu.

         Málið úrskurða Eggert Óskarsson, Gylfi Knudsen, Kristjana Jónsdóttir, Gunnar Sæmundsson og Valgeir Pálsson.

Stefnandi er Vélstjórafélag Íslands, kt. 690269-3419, Borgartúni 18, Reykjavík. 

          Stefndi er Samtök atvinnulífsins, kt. 680699-2919, Borgartúni 35, Reykjavík, fyrir hönd Landssambands íslenskra útvegsmanna, kt. 420269-0649, Borgartúni 35, Reykjavík, fyrir hönd Útvegsmannafélags Snæfellsness, kt. 610100-3410, Grundarbraut 48, Snæfellsbæ, vegna Soffaníasar Cecilssonar hf., kt. 611292-2959, Borgarbraut 1, Grundarfirði.

         Dómkröfur stefnanda í málinu eru þær að viðurkennt verði að Soffanías Cecilsson hf., hafi brotið gegn ákvæði 6. og 7. mgr. greinar 3.04. í kjarasamningi milli Landssambands íslenskra útvegsmanna og Vélstjórafélags Íslands, með því að tryggja ekki tilgreindum félagsmönnum Vélstjórafélags Íslands, frí frá vélstjórnarstörfum sínum á línu- og netabátnum Grundfirðingi SH-24, skipaskrárnúmer 1202, tilgreinda daga í  janúar, febrúar og  mars 2003 og febrúar 2004, eins og nánar greinir í stefnu.             Þá er þess krafist að  Soffaníasi Cecilssyni hf. verði gert að greiða stefnanda févíti, samtals að fjárhæð kr. 2.903.560,00 samkvæmt grein 1.56. í kjarasamningi milli Landssambands íslenskra útvegsmanna og Vélstjórafélags Íslands, sem renni í félagssjóð stefnanda, vegna greindra brota á ákvæðum 6. og 7. mgr. greinar 3.04. í áðurnefndum kjarasamningi.

         Á dómþingi í málinu 29. apríl sl. lagði lögmaður stefnda fram bókun þar sem þess var krafist að Félagsdómur úrskurði að dómarinn Gunnar Sæmundsson víki sæti í málinu. Í bókun stefnda segir að í dómi Hæstaréttar frá 27. janúar 2005, máli nr. 320/2004, Síldarvinnslan hf. gegn Þorkeli Arnarssyni, komi fram að einn dómari Félagsdóms, Gunnar Sæmundsson, hrl., hafi verið lögmaður stefnda, Þorkels Arnarssonar í því máli. Þorkell Arnarsson hafi gert samkomulag við Vélstjórafélag Íslands, þar sem hann er félagsmaður, m.a. þess efnis að ef mál hans gegn Síldarvinnslunni hf. tapaðist greiddi Vélstjórafélag Íslands allan kostnað vegna málsins, þar á meðal kostnað við flutning málsins fyrir Hæstarétti Íslands. Mál Þorkels Arnarssonar, sem Gunnar Sæmundsson hafi flutt fyrir Hæstarétti Íslands að beiðni Vélstjórafélags Íslands, tapaðist. Vélstjórafélag Íslands hafi greitt honum málflutningsþóknun.  Þannig séu hagsmunatengsl dómarans Gunnars Sæmundssonar og Vélstjórafélags Íslands ótvíræð og til þess fallin að draga óhlutdrægni dómarans með réttu í efa.  Þá hafi verið óskað eftir því að Vélstjórafélag Íslands upplýsi hvort frekari þóknanir hafi verið greiddar til Gunnars Sæmundssonar vegna starfa hans í þágu Vélstjórafélags Íslands eða með greiðsluábyrgð Vélstjórafélags Íslands á þóknun dómarans, en engin svör hafi verið veitt. Kröfu sína um það að dómarinn Gunnar Sæmundsson víki sæti í málinu byggir stefndi á 48. gr. laga nr. 80/1938, sbr. g. lið 5. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 69. gr. laga nr. 80/1938. Jafnframt er gerð krafa um málskostnað vegna þessa þáttar málsins.

         Af hálfu stefnda er því mótmælt að dómarinn Gunnar Sæmundsson víki sæti í málinu og krafist málskostnaðar vegna þessa þáttar málsins. Ekki sé um þau hagsmunatengsl að ræða sem geri það að verkum að dómaranum beri að víkja sæti. Vélstjórafélagið hafi ekkert komið nærri málarekstri Þorkels Arnarssonar gegn Síldarvinnslunni hf. Friðrik Á. Hermannsson hdl. hjá Lögmönnum Borgartúni sf. hafi flutt málið fyrir hönd Þorkels Arnarssonar í héraði og hafi m.a. verið samið um það að enginn kostnaður félli á Þorkel, ef málið tapaðist.  Mál Þorkels Arnarssonar gegn Síldarvinnslunni hf. hafi að fullu unnist í héraði en verið áfrýjað af hálfu Síldarvinnslunnar hf.  Þorkell Arnarsson hafi falið lögmanni sínum í framhaldi af því að ákveða hvaða hæstaréttarlögmaður skyldi taka til varna fyrir hans hönd í Hæstarétti.  Ákveðið hafi verið að leita til Gunnars Sæmundssonar hrl., sem samþykkti að taka málið að sér.  Lögmaður Þorkels hafi skuldbundið sig til að ábyrgjast greiðslu lögmannsþóknunar Gunnars Sæmundssonar hrl., en ekki Vélstjórafélag Íslands.  Eftir að málið tapaðist fyrir Hæstarétti hafi hins vegar verið leitað til formanns Vélstjórafélags Íslands um greiðslu þess kostnaðar sem leiddi af rekstri málsins í Hæstarétti og hafi formaðurinn fallist á þá málaleitan.  Reikningurinn hafi verið greiddur af Vélstjórafélagi Íslands, beint til Gunnars Sæmundssonar hrl., en ekki í gegnum Þorkel Arnarsson sjálfan eða Lögmenn Borgartúni 18 sf.  Máli sínu til stuðnings vísar stefnandi sérstaklega til dóms mannréttindadómstóls Evrópu í máli Kurt Kellermann gegn sænska ríkinu, sem upp var kveðinn 26. október 2004.

         Niðurstaða

         Stefnandi í máli þessu, Vélstjórafélag Íslands, er utan heildarsamtaka launafólks og tilnefnir því dómara í málinu í stað þess dómara sem skipaður er af Alþýðusambandi Íslands, sbr. 39. gr. laga nr. 80/1938, um stéttarfélög og vinnudeilur, sbr. 6. gr. laga nr. 75/1996, um breyting á þeim lögum. Á dómþingi Félagsdóms hinn 7. mars 2005 tilnefndi stefnandi Gunnar Sæmundsson hrl., sem dómara í málinu.

         Eins og fram er komið byggir stefndi kröfu sína um að dómarinn Gunnar Sæmundsson víki sæti í málinu á því að stefnandi hafi greitt málflutningsþóknun hans í hæstaréttarmálinu nr. 320/2004: Síldarvinnslan hf. gegn Þorkeli Arnarssyni, sem lauk með dómi Hæstaréttar Íslands hinn 27. janúar 2005, en greindur Þorkell er félagsmaður í stefnanda. Eru þessi atvik í öllum meginatriðum óumdeild þótt aðilum beri ekki saman um aðdraganda að því að stefnandi tók að sér að inna af hendi umrædda greiðslu. Telur stefndi að af þessum sökum sé um slík hagsmunatengsl að ræða milli stefnanda og greinds dómara að óhlutdrægni hans verði með réttu dregin í efa. Vísar stefndi til 48. gr. laga nr. 80/1938, sbr. g-lið 5. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, sbr. 69. gr. hinna fyrrnefndu laga. Þá lætur stefndi að því liggja að um frekari greiðslur stefnanda til dómarans hafi verið að ræða, en ekkert nánar hefur þó komið fram um það frá stefnda. Af hálfu stefnanda er því mótmælt að dómarinn Gunnar Sæmundsson sé vanhæfur til að dæma í máli þessu svo sem hann rökstyður nánar, meðal annars með skírskotun til dóms mannréttindadómstóls Evrópu í máli Kurt Kellermann gegn sænska ríkinu.

         Í IV. kafla laga nr. 80/1938 eru ákvæði um Félagsdóm. Samkvæmt 39. gr. laganna eiga sæti í dóminum fimm menn, skipaðir til þriggja ára þannig: Einn af Samtökum atvinnulífsins, annar af Alþýðusambandi Íslands, þriðji af félagsmálaráðherra úr hópi þriggja manna sem Hæstiréttur Íslands tilnefnir og tveir af Hæstarétti og sé annar þeirra sérstaklega tilnefndur til þess að vera forseti dómsins. Ef atvinnurekandi, sem er málsaðili, er ekki meðlimur í Samtökum atvinnulífsins skal dómari sá, sem tilnefndur er af því (sic), víkja sæti, en í staðinn tilnefnir atvinnurekandinn dómara í málinu og skal hann hafa gert það áður en hálfur stefnufrestur er liðinn, ella tilnefnir forseti dómsins dómarann. Sama á við þegar málsaðili er stéttarfélag eða samband stéttarfélaga utan heildarsamtaka launafólks gagnvart dómara, skipuðum af Alþýðusambandi Íslands.

         Í 42. gr. laga nr. 80/1938 er kveðið á um almenn hæfisskilyrði dómara í Félagsdómi. Þar er áskilið að dómarar skuli vera íslenskir ríkisborgarar, fjár síns ráðandi og hafa óflekkað mannorð. Þeir tveir dómarar, sem skipaðir eru af Hæstarétti, skulu hafa lokið embættisprófi í lögfræði. Ekki er ágreiningur um að dómarinn Gunnar Sæmundsson uppfylli greind almenn hæfisskilyrði.

         Í 48. gr. laga nr. 80/1938 eru reglur um sérstakt hæfi dómara í Félagsdómi til að fara með mál hverju sinni. Samkvæmt lagagrein þessari skulu þeir dómarar, sem tilnefndir eru af Hæstarétti, víkja sæti eftir sömu reglum og gilda um hæstaréttardómara. Ekki hafa lög nr. 80/1938 að geyma sérstök ákvæði um það hvenær hinir dómarar Félagsdóms eiga að víkja sæti í einstökum málum.

         Samkvæmt dómafordæmum Félagsdóms, sbr. úrskurði dómsins frá 22. mars 1979 í málinu nr. 4/1978 (Fd. VIII:111) og frá 17. apríl 1991 í málinu nr. 1/1991 (Fd. IX:406), hefur ekki verið talið að í 69. gr. laga nr. 80/1938 fælist að um greinda dómara giltu reglur laga nr. 85/1936, um meðferð einkamála í héraði, sbr. nú lög nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Samkvæmt úrskurðum þessum var talið að samkvæmt gagnályktun frá 48. gr. laga nr. 80/1938 tækju hin sérstöku dómaraskilyrði, þ.e. hæfi til meðferðar einstaks máls, þeirra dómara Félagsdóms, sem tilnefndir eru af Hæstarétti Íslands, ekki til þeirra dómara, sem tilnefndir eru af Alþýðusambandi Íslands, Vinnuveitendasambandi Íslands (nú Samtökum atvinnulífsins) eða öðrum aðilum. Af þessu þætti leiða að þessum aðilum væri heimilt að tilnefna til setu í Félagsdómi þá menn sem fullnægðu almennum skilyrðum 1. málsl. 42. gr. laga nr. 80/1938.

         Samkvæmt framansögðu liggur fyrir að svo hefur verið litið á að ákvæði laga um meðferð einkamála um hæfi dómara til meðferðar einstakra mála (sérstök hæfisskilyrði) giltu ekki um aðra dómara Félagsdóms en þá sem tilnefndir eru af Hæstarétti Íslands. Þrátt fyrir breytingar á lögum nr. 80/1938 eftir að greindir úrskurðir Félagsdóms voru kveðnir upp hefur löggjafarvaldið ekki talið ástæðu til að hagga þessari skipan. Að þessu athuguðu og þar sem ekki verður talið að greind atvik séu fallin til að valda vanhæfi dómarans Gunnars Sæmundssonar til meðferðar málsins á grundvelli almennra meginreglna réttarfars um hæfi til meðferðar einstaks máls er kröfu stefnda um að greindur dómari víki sæti í málinu hafnað.

         Málskostnaður í þessum þætti málsins fellur niður.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

         Kröfu stefnda, Samtaka atvinnulífsins f.h. Landssambands íslenskra útvegsmanna f.h. Útvegsmannafélags Snæfellsness vegna Soffaníasar Cecilssonar hf., um að Gunnar Sæmundsson víki sæti sem dómari í máli þessu er hafnað.

         Málskostnaður fellur niður.