Hæstiréttur íslands
Mál nr. 280/2014
Lykilorð
- Kærumál
- Lögræði
- Umboð
|
|
Miðvikudaginn 14. maí 2014. |
|
Nr. 280/2014.
|
A og B (Ásbjörn Jónsson hrl.) gegn C (Harpa Hörn Helgadóttir hdl.) |
Kærumál. Lögræði. Umboð.
Kærðar var úrskurður héraðsdóms, þar sem hafnað var kröfu A og B um að C yrði svipt fjárræði ótímabundið. Í dómi Hæstaréttar var vísað til þess að ágreiningslaust væri að C hefði fyrir einhverjum árum munnlega og í samráði við börn sín veitt dóttur sinni D umboð til að fara með fjármál sín, en samkvæmt gögnum málsins var uppi ágreiningum milli barna C hve víðtækt það umboð væri. Hæstiréttur taldi að engir annmarkar hefðu verið leiddir í ljós sem drægju úr gildi læknisvottorðs sem lá fyrir í málinu og var því fallist á með A og B að uppfyllt væru skilyrði a. liðar 4. gr. lögræðislaga nr. 71/1997 til að taka kröfu þeirra um fjárræðissviptingu til greina.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Benedikt Bogason og Þorgeir Örlygsson.
Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 16. apríl 2014 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 23. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 4. apríl 2014, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að varnaraðili yrði svipt fjárræði ótímabundið. Kæruheimild er í 1. mgr. 16. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Sóknaraðilar krefjast þess að fyrrgreind krafa þeirra verði tekin til greina.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og að skipuðum verjanda sínum verði dæmd þóknun úr ríkissjóði.
Sóknaraðilar eru synir varnaraðila sem hefur óskað eftir leyfi til setu í óskiptu búi eftir eiginmann sinn E, er lést [...] 2014. Auk varnaraðila og sóknaraðila eru lögerfingjar E þær F, G og D. Ágreiningslaust er að varnaraðili veitti fyrir einhverjum árum munnlega og í samráði við önnur börn sín dóttur sinni D umboð til að fara með fjármál sín, en samkvæmt gögnum málsins mun hafa verið ágreiningur milli barna varnaraðila um hversu víðtækt það umboð er. Sóknaraðilar telja að D hafi vísvitandi haldið frá þeim upplýsingum um fjármál varnaraðila, ekkert eftirlit hafi verið með ráðstöfun fjármuna hennar og D neitað þeim um upplýsingar um stöðu mála. Með bréfi sýslumannsins í Keflavík 20. mars 2014 var fallist á ósk G um að varnaraðila yrði við skipti á dánarbúi E skipaður málsvari samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Fyrir liggja í málinu skattframtöl varnaraðila árin 2011, 2012 og 2013 og kemur þar fram að eignir hennar eru allnokkrar.
Í hinum kærða úrskurði greinir frá vottorði Jóns A. Jóhannssonar yfirlæknis á [...], [...], en það er dagsett 5. mars 2014. Þar kemur fram að varnaraðili, sem hefur dvalið á [...] frá 11. apríl 2012, sé andleg skert og með einkenni heilabilunar. Hún hafi verið greind með Alzheimer-sjúkdóm og hafi andleg og líkamleg heilsa hennar versnað á umliðnu ári. Fram kemur að yfirlæknirinn telur varnaraðila alls ófæra vegna veikinda sinna að taka ábyrgð á eigin fjármálum eða að skrifa undir nein skjöl hvað fjármál varðar. Læknirinn gaf skýrslu fyrir dómi þar sem hann staðfesti vottorðið og lýsti jafnframt yfir að hann teldi tilgangslaust að leiða varnaraðila fyrir dóm til skýrslugjafar. Engir annmarkar hafa verið leiddir í ljós sem draga úr gildi framangreinds læknisvottorðs Jóns A. Jóhannssonar sem sönnunargagns og er fallist á með sóknaraðilum að fullnægt sé skilyrðum a. liðar 4. gr. lögræðislaga til að taka kröfu þeirra um fjárræðissviptingu varnaraðila til greina.
Ákvæði hins kærða úrskurðar um þóknun skipaðs talsmanns sóknaraðila og skipaðs verjanda varnaraðila eru staðfest. Þá greiðist þóknun skipaðs verjanda varnaraðila vegna flutnings málsins fyrir Hæstarétti úr ríkissjóði, en þóknunin er ákveðin að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Varnaraðili, C, er svipt fjárræði ótímabundið frá deginum í dag að telja.
Ákvæði hins kærða úrskurðar um þóknun verjanda varnaraðila og talsmanns sóknaraðila, A og B, eru staðfest
Þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, Hörpu Harnar Helgadóttur héraðsdómslögmanns, 125.500 krónur, greiðist úr ríkissjóði.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 4. apríl 2014.
A, kt. [...], [...] í [...] og B, kt. [...][...] í [...], hafa með beiðni dagsettri 28. mars 2014 krafist þess að varnaraðili, C, kt. [...],[...] í [...] sem er móðir þeirra, verði svipt fjárræði ótímabundið, með vísan til a. liðar 1. mgr. 4. gr. lögræðislaga nr. 71/1997.
Ásta Björk Eiríksdóttir hdl. var skipuð sem talsmaður sóknaraðila.
Harpa Hörn Helgadóttir hdl. var skipuð verjandi varnaraðila samkvæmt 3. mgr. 10. gr. lögræðislaga nr. 71/1997.
Málið var þingfest þann 3. apríl sl., lögð voru fram gögn og skýrsla tekin af vitni. Eftir að talsmaður sóknaraðila og verjandi varnaraðila höfðu tjáð sig stuttlega um kröfur sóknaraðila, var málið lagt til úrskurðar.
I
Í málavaxtalýsingu sóknaraðila segir að varnaraðili sé andlega skert og sé með einkenni heilabilunar. Hún hafi verið greind með Alzheimer sjúkdóm og heilsu hennar hafi hrakað síðustu misseri. Af þeim sökum sé hún alls ófær um að sjá um fjármál sín sjálf.
Í málinu liggur fyrir vottorð Jóns Aðalsteinn Jóhannssonar yfirlæknis á [...]. Í vottorðinu kemur fram að varnaraðili sé andlega skert vegna heilabilunar og hafi greinst með Alzheimer sjúkdóm. Heilsu hennar hafi versnað andlega sem líkamlega á umliðnu ári. Var það mat læknisins að hann telji hana alls ófæra vegna sinna veikinda að taka ábyrgð á eigin fjármálum eða að skrifa undir pappíra hvað fjármál varðar.
II
Jón Aðalsteinn Jóhannsson læknir gaf símaskýrslu fyrir dóminum og staðfesti vottorð sitt og vitnaði til þess sem þar kemur fram. Var það mat læknisins að tilgangslaust væri vegna ástands varnaraðila að fá hana fyrir dóminn. Fram kom nánar hjá lækninum að andlegt ástand varnaraðila væri á þann veg að hún væri ófær til þess að sjá um fjármál sín sjálf. Varnaraðili væri með Alzheimer sjúkdóm sem lýsti sér í gleymsku og persónuleikatruflunum. Þetta hafi leitt til þess að hún hafi verið innlögð á hjúkrunarheimili þann 11. apríl 2012, þar sem hún hafi ekki getað séð um sig sjálf. Andlegt atgervi varnaraðila hefði frá þessum tíma versnað. Þannig gæti varnaraðili ekki fylgst með því sem væri að gerast í umhverfi hennar. Erfitt væri að svara því hvernig framvinda sjúkdómsins yrði næstu ár. Þá kom fram að þessi sjúkdómur hafi einnig áhrif á hreyfihæfni varnaraðila.
Talsmaður sóknaraðilar ítrekaði framkomna kröfu og taldi það varnaraðila fyrir bestu að hún næði fram að ganga. Vísaði hún til vitnisburðar læknisins um að varnaraðili væri ófær um að sjá um fjármál sín og væri það ástand að ágerast. Ekki væri rétt að ein dóttir varnaraðila væri með öll fjármál hennar á sinni könnu enda væri um verulega fjármuni að ræða. Þá kom fram að þó svo að varnaraðili hafi falið dóttur sinni fyrir nokkrum árum að hafa yfirumsjón með fjármálum sínum, þá ættu þær forsendur ekki við í dag enda hefði það verið skýr vilji hennar að upplýsingum um fjármál hennar yrði ekki haldið frá öðrum systkinum hennar. Sóknaraðilar hafi ekki fengið upplýsingar um fjármál móðir sinnar í nokkur ár og vegna ástand móður þeirra hafi þeir ekki getað fengið upplýsingar hjá henni sjálfri.
Verjandi varnaraðila krafðist þess að framkominni kröfu yrði hafnað en til vara að fjárræðissviptingu yrði markaður skemmri tími eða í sex mánuði. Fram kom í máli verjanda, að varnaraðili ætti fleiri börn en sóknaraðila málsins, þannig væri í beiðni ógetið um þrjár systur þeirra. Fram kom að maki varnaraðili hafi misst eiginmann sinn fyrir tveimur mánuðum og hafi varnaraðila verið skipaður málsvari samkvæmt 13. gr. laga um skipti dánarbúa nr. 20/1991. Yrði hún svipt fjárræði mynda það leiða til þess að henni yrði gert ókleift að sitja í óskiptu búi eftir eiginmann sinn. Verjandi taldi einnig að ekki hafi verið sýnt fram á að brýna nauðsyn krefði til fjárræðissviptingar samkvæmt 1. mgr. 4. gr. lögræðislaga. Dóttur varnaraðila hafi verið falið að hafa umsjón með fjármunum hennar fyrir nokkrum árum, sem hún hafi gert og ekki hafi verið sýnt fram á neitt misjafnt í þeim efnum. Hafi hún sjálf farið og rætt við varnaraðila sem hafi tjáð henni að hún hafi falið dóttur sinni að sjá um fjármál hennar.
III
Dómari óskaði eftir því áður en málið var þingfest að sóknaraðilar myndu leggja fram gögn um eigur varnaraðila til þess að sýna fram á þörfina fyrir fjárræðissviptingu skv. 1. mgr. 4. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Sóknaraðilar lögðu meðal annars fram afrit af skattskýrslum varnaraðila í því sambandi.
Í f. lið 1. mgr. 8. gr. lögræðislaga nr. 71/1997 er mælt fyrir um að í beiðni um lögræðissviptingu skuli geta um nöfn og heimilisföng lögráða barna varnaraðila og upplýsingar um hvort þessum aðilum sé kunnugt um kröfuna. Umræddar upplýsingar komu ekki fram og hefðu átt að leiða til frávísunar málsins. Málið verður allt að einu tekið til efnislegrar meðferðar.
Í greinargerð með 1. mgr. 4. gr. lögræðislaga nr. 71/1997, kemur fram að maður verði ekki sviptur lögræði sínu, hvorki sjálfræði né fjárræði nema þörf sé sviptingar. Þannig er getið um að ekki sé þörf fjárræðissviptingar þó ástand varnaraðila sé með þeim hætti sem greini í a. lið 4. gr. ef ljóst sé að eigur varnaraðila séu tiltölulega litlar. Í máli þessu háttar svo til að mati læknis að ástand varnaraðila er með þeim hætti að það á undir nefndan a. lið 4. gr. og er skilyrði ákvæðisins því uppfyllt að því leyti. Auk þessa hefur verið sýnt fram á með framlögðum gögnum, að varnaraðili eigi miklar eignir.
Fram kemur einnig í nefndri greinargerð að ekki sé þörf fjárræðissviptingar ef varnaraðili hafi gefið öðrum gilt umboð til þess að fara með fjármál sín og skipti þá ekki máli hvort eigur hans séu litlar eða miklar. Í framlögðu skjali nr. 4, sem er yfirlýsing annars af sóknaraðilum þessa máls kemur fram, að fyrir nokkrum árum hafi varnaraðili falið systur sóknaraðila, D að hafa yfirumsjón með fjármálum hennar. Ekki kom fram með hvaða hætti umrætt umboð var veitt en telja verður að munnlegt umboð sé jafngilt skriflegu umboði í þessu sambandi enda virðist ekki vera ágreiningur um það að nefnd D hafi gilt umboð frá varnaraðila. Ágreiningur virðist einkum standa um það hvort D hafi veitt öðrum systkinum sínum upplýsingar um fjármál varnaraðila.
Sóknaraðilar þessa máls lögðu sjálfir fram skattframtöl varnaraðila fyrir síðastliðin þrjú ár. Á nefndum skattframtölum má sjá yfirlit yfir tekjur og eignir varnaraðila. Sóknaraðilar þessa máls hafa því helstu upplýsingar um fjármál móðir sinnar. Sóknaraðilar þessa máls hafa ekki bent á nein þau atriði í fjármálastjórn umboðsmanns varnaraðila sem ætti að leiða til þess að þörf sé á því vegna hagsmuna varnaraðila, að henni verði skipaður fjárhaldsmaður samkvæmt ákvæðum lögræðislaga. Lögræðislögum er ekki ætlað að vernda hagsmuni sóknaraðila eins og þeir liggja fyrir í þessu máli.
Í ljósi þess sem að ofan er rakið og fyrirliggjandi gagna, telur dómari að ekki hafi verið sýnt fram á skilyrði 1. mgr. 4. gr. lögræðislaga nr. 71/1997, um þörf fyrir fjárræðissviptingu varnaraðila. Er kröfu sóknaraðila um að C verði svipt fjárræði ótímabundið, því hafnað.
IV
Málskostnaður greiðist úr ríkissjóði samkvæmt 17. gr. lögræðislaga nr. 71/1997 þar með talin þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, Hörpu Harnar Helgadóttur hdl., og þóknun skipaðs talsmanns sóknaraðila, Ástu Bjarkar Eiríksdóttur hdl., auk útlagðs kostnaðar, eins og segir í úrskurðarorði.
Bogi Hjálmtýsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
ÚRSKURÐARORÐ
Kröfu sóknaraðila, um að C, kt. [...], [...] í [...], verði svipt fjárræði ótímabundið, er hafnað.
Þóknun verjanda varnaraðila og skipaðs talsmanns sóknaraðila að fjárhæð 100.400 krónur til hvors um sig greiðist úr ríkissjóði auk aksturskostnaðar 9.280 krónur til hvors um sig. Tillit hefur verið tekið til virðisaukaskatts.