Hæstiréttur íslands
Mál nr. 444/2011
Lykilorð
- Líkamsárás
|
|
Fimmtudaginn
14. júní 2012. |
|
Nr.
444/2011. |
Ákæruvaldið (Kolbrún
Benediktsdóttir saksóknari) gegn Reyni Erni Auðarsyni (Sveinn
Andri Sveinsson hrl.) |
Líkamsárás.
R var ákærður fyrir líkamsárás með því að hafa í félagi við Y ráðist á A,
rifið hann á fætur þar sem hann sat við borð og slegið hann í andlit, höfuð og
líkama. Var R sakfelldur fyrir brot gegn 1. mgr. 217. gr. almennra
hegningarlaga nr. 19/1940 en ekki talið sannað að hann hefði slegið A
hnefahöggum í líkama. Í dómi Hæstaréttar kemur fram að skýrslutaka af vitnum
við aðalmeðferð í málinu, sem áður höfðu gefið skýrslu hjá lögreglu, hafi verið
í samræmi við ákvæði laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og eðlilegt að
vitnisburður þeirra hjá lögreglu hefði eftir atvikum verið lagður til grundvallar
við úrlausn málsins í héraði.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson og Greta
Baldursdóttir og Helgi I. Jónsson settur hæstaréttardómari.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 18. júlí 2011 í samræmi við
yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að
refsing ákærða verði þyngd.
Ákærði krefst aðallega sýknu, en til vara að refsing verði milduð.
Samkvæmt 2. og 3. mgr. 122. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála skulu
spurningar lagðar fyrir vitni um atvik máls við meðferð þess fyrir héraðsdómi
áður en skýrsla, sem það hefur gefið hjá lögreglu um sakarefnið, er kynnt fyrir
því. Ef vitnið staðfestir það, sem eftir því er haft í slíkri skýrslu, verður
dómur reistur á þeim vitnisburði samkvæmt 1. mgr. 111. gr. sömu laga, eftir
mati dómara á sönnunargildi hans, sbr. 1. mgr. 109. gr. þeirra.
Sú aðferð, sem að framan greinir, var viðhöfð við aðalmeðferð í málinu
þegar skýrsla var tekin fyrir héraðsdómi af þeim vitnum sem áður höfðu gefið
skýrslu hjá lögreglu. Vegna þess að skýrslutakan hjá lögreglu átti sér stað
tiltölulega skömmu eftir að ætlað brot ákærða hafði verið framið var eðlilegt
að sá vitnisburður yrði eftir atvikum lagður til grundvallar við úrlausn
málsins í héraði.
Í málinu hafa verið lögð fram læknisvottorð þar sem lýst er líkamsáverkum á
ákærða og A í kjölfar átakanna á skemmtistaðnum Spot aðfaranótt 29. nóvember
2009. Samkvæmt vottorðunum voru verulegir áverkar á A, en nánast engir áverkar
voru sjáanlegir á ákærða.
Að þessu virtu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms
verður hann staðfestur.
Ákærði skal greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin
málsvarnarlaun verjanda síns fyrir Hæstarétti sem ákveðin eru að meðtöldum
virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera
óraskaður.
Ákærði, Reynir Örn Auðarson, greiði
allan áfrýjunarkostnað málsins, 268.151 krónu, þar með talin málsvarnarlaun
skipaðs verjanda síns, Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns, 251.000
krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 15.
júní 2011.
I.
Mál þetta, sem dómtekið var að aflokinni aðalmeðferð 27.
apríl sl., er höfðað með ákæru lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, útgefinni
1. febrúar 2011, á hendur Reyni Erni Auðarsyni, kt. [...], [...], [...] og Y,
kt. [...], [...], [...], „fyrir líkamsárás, með því að hafa, aðfaranótt
sunnudagsins 29. nóvember 2009, á skemmtistaðnum Spot að Bæjarlind 6 í
Kópavogi, í félagi ráðist á A, rifið hann á fætur þar sem hann sat við borð og
slegið hann hnefahöggum andlit (sic), höfuð og líkama, með þeim afleiðingum að
hann hlaut mar og bólgu við hægra auga, skurð við hægra auga og neðan við
vinstri augabrún, rispur og mar á hálsi og öxlum auk þess sem brotnaði upp úr
tönn.
Telst þetta varða við 1. mgr. 217. gr., almennra
hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 10. gr. laga nr. 20/1981 og 110. gr. laga nr.
82/1998.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til
greiðslu alls sakarkostnaðar.“
Af hálfu ákærðu er aðallega krafist sýknu, en til vara
vægustu refsingar sem lög leyfa. Þá er þess krafist að sakarkostnaður, þ.m.t.
hæfileg málsvarnarlaun, verði að hluta eða öllu leyti lagður á ríkissjóð.
II.
Samkvæmt frumskýrslu lögreglu dags. 4. desember 2009, kom
brotaþoli í rannsóknardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu þann dag að eigin
frumkvæði og lagði fram kæru vegna líkamsárásar sem hann hefði orðið fyrir á
veitingastaðnum Spot í Kópavogi aðfaranótt 29. nóvember sama ár.
Skýrði brotaþoli svo frá að fyrr um kvöldið og fram yfir
miðnætti þessa nótt hefði hann verið á jólahlaðborði á vegum vinnustaðar síns.
Þegar komið hefði verið fram yfir miðnætti hefði hann setið við borðið þar sem
þau hefðu matast fyrr um kvöldið ásamt kærustu sinni B og þau verið að bíða
eftir því að vera sótt. Á meðan þau hefðu verið bíða þarna hefði sest við
hliðina á honum maður að nafni Y en fyrir aftan hann hefði stillt sér upp maður
að nafni Reynir Örn Auðarson, en hann ynni sem dyravörður á staðnum, en hefði
ekki verið við vinnu þetta kvöld. Y hefði spurt hann hvort hann heiti A og
hefði hann svarað því játandi. Hann hefði spurt hann á móti hver hann væri en
ekki fengið svar við spurningu sinni. Hann hefði þá snúið sér aftur að borðinu
og farið að tala við kærustu sína, en þá hefði ekki skipt neinum togum að hann
hefði allt í einu verið rifinn á fætur og Y og Reynir byrjað að kýla hann í höfuð,
andlit og líkama. Líklega hefði verið um ein 10 högg að ræða. Sagðist brotaþoli
hafa dottið í gólfið við höggin, en þá hefði bróðir hans, C, komið honum til
hjálpar og þá hefði hann náð að komast á fætur. C hefði tekist að ýta Y og
Reyni í burtu frá honum, en síðan hefði Reynir ráðist á sig aftur. Hefði komið
þarna til átaka á milli hans og Reynis, en dyraverðir hefðu fljótlega komið
þarna að og stöðvað átökin og vísað honum út úr húsinu. Brotaþoli sagði að
fötin sín hefðu öll verið rifin eftir þessi átök við Reyni og sagðist hann hafa
endað nánast ber að ofan fyrir utan veitingahúsið. Sagðist hann hafa farið á
slysadeild Landspítalans í Fossvogi þessa nótt vegna áverka sinna og fengið
áverkavottorð.
Á meðal gagna málsins eru læknisvottorð slysa- og
bráðadeildar Landspítala háskólasjúkrahúss í Fossvogi vegna brotaþola og beggja
ákærðu.
Í vottorð D læknis, dags. 18. desember 2009, segir að
brotaþoli hafi leitað á slysadeildina hinn 29. nóvember 2009 og verið skráður
inn kl. 2:13. Hann hafi sagt að tveir menn hefðu ráðist á sig á skemmtistaðnum
Spot, hrint honum í gólfið og barið. Hann hafi fengið högg á andlit og lýst
umtalsverðum verkjum í vinstri andlitshelmingi og lýst sársauka við að hreyfa
kjálkalið. Þá hefði brotnað upp úr tönn.
Í vottorðinu segir að við skoðun sé sjúklingur marinn og
bólginn bæði ofan og neðan við hægra auga. Svolítill skurður eða rispa sé rétt
neðan við vinstri augabrún, sem ekki þurfi að sauma. Við skoðun í munni virðist
vanta svolítið brot innanvert á endajaxl vinstra megin í efri gómi. Sjúklingur
sé aumur yfir báðum kjálkaliðum en hann geti opnað munninn. Þá sé hann með
rispur og mar á húð á hálsi neðanvert vinstra megin og þaðan út á vinstri
öxlina. Af rispunum sé það að segja að þær séu þrjár vinstra megin á hálsi og
ein rispa út á hægri öxlina. Ekki finnist fleiri eymsli í brjóstkassa eða kvið.
Í vottorðinu eru áverkar brotaþola greindir sem yfirborðsáverkar og áverki á
tönn.
Loks segir í vottorðinu að sjúklingur hafi komið til
endurmats hinn 1. desember 2009. Við skoðun hafi hann enn verið svolítið mar og
glóðarauga við vinstra auga og hafi það teygt sig yfir að nefinu. Einnig hafi
mátt sjá bjúg liggja frá hægra nefbeini. Útlit brotaþola hafi ekki vakið upp
grunsemdir um nefbrot.
Í vottorði E læknis, dags. 1. febrúar 2010 segir að ákærði
Reynir hafi leitað til slysadeildarinnar hinn 29. nóvember 2009 kl. 2:09. Hafi
hann sagst hafa lent í átökum við annan mann og fengið hnefahögg í andlit rétt
neðan við nef. Við átökin hafi orðið mikil áreynsla á olnboga. Hafi hann verið
að fá verk annað slagið í vinstri olnboga, sérstaklega við lyftingar og einnig
við áreynslu.
Í vottorðinu segir að við skoðun hafi ekki verið að sjá mar
eða bólgu yfir olnboga og hann hafi hvorki verið þreifiaumur yfir olnboganum né
yfir vöðvafestum í olnboga. Þá hafi hann náð að rétt vel um olnboga, en fái
verki við að beygja um liðinn. Þá hafi
hann verið þreifiaumur yfir nefi en ekki hafi sést bólga eða mar í andliti.
Í vottorði sama læknis segir að ákærði Y hafi leitað til
slysadeildarinnar á sama tíma og meðákærði Reynir. Ákærði Y hafi tjáð lækni að
hann hefði verið í partýi, lent í slagsmálum og verið bitinn af öðrum manni í
hálsinn. Í vottorðinu segir að við skoðun hafi sést smá hrufl vinstra megin á
hálsinum, u.þ.b. 2 sm langt og þar í kring hafi einnig verið mar. Í ályktun
vottorðsins segir að ákærði hafi sagst hafa hlotið mannabit á hálsi. Undirrituð
hafi ekki séð sjúkling og ekki hafi verið lýst tannaförum en hins vegar bæði
hrufli og mari sem gæti passað við bit.
Verður nú rakinn framburður ákærða og vitna fyrir dóminum og
hjá lögreglu eftir því sem þurfa þykir:
Ákærði Reynir Örn Auðarson neitaði sök. Hann sagði að umrætt
kvöld hefði ónefndur strákur, sem verið hefði á jólahlaðborði á staðnum, komið
til meðákærða Y og kvartað yfir því að [...] C og A hefðu haft í hótunum við
hann allt kvöldið. Hefði strákurinn beðið Y um að biðja bræðurna um að hætta að
áreita hann. Hann sagði að þeir meðákærði hefðu farið til A, brotaþola í máli
þessu, og meðákærði sest við hliðina á honum en sjálfur sagðist hann hafa
staðið fyrir aftan þá, og stutt báðum höndum á sitt hvort stólbakið á stólum
meðákærða og brotaþola. Hann sagði að meðákærði hefði sagt eitthvað við
brotaþola og brotaþoli snúið sér að honum, en síðan snúið sér undan aftur og
látið eins og meðákærði væri ekki þarna. Sagðist ákærði þá hafa tekið nokkuð
harkalega með vinstri hendi í öxlina á brotaþola og sagt honum að hlusta á
meðákærða. Hefði brotaþoli þá ýtt stólnum aftur fyrir sig, rokið upp og látið
höggin dynja á ákærða og sagðist ákærði hafa varið sig. Hann sagði að mikið af
fólki hefði verið þarna í kring og sagði ákærði að rifið hefði verið í hann,
meðal annars í hárið á honum. Þeir brotaþoli hefðu síðan endað í gólfinu, en
síðan sagðist ákærði hafa farið frá brotaþola. Ákærði sagði að meðákærði hefði
setið rólegur þar til bróðir brotaþola kom þarna að til að hjálpa bróður sínum.
Hefði bróðirinn farið í meðákærða og þeir slegist og hefði það endað með því
bróðirinn beit meðákærða í hálsinn. Þessi slagsmál hefðu síðan verið stöðvuð af
dyravörðunum.
Hann sagði að meðákærði hefði engan þátt átt í átökum við
brotaþola. Hann sagði að meðákærði hefði setið rólegur á meðan hann hefði
sjálfur verið að takast á við fjóra eða fimm. Þegar C, bróðir brotaþola, hefði
hins vegar komið hlaupandi að þeim hefði meðákærði staðið upp og gripið C og
hálfpartinn tekið hann í fangið. Hann sagðist hafa frétt að C hefði bitið
meðákærða í hálsinn, meðákærði rifið C frá sér og þá hefði hluti af húð flest
af hálsi meðákærða.
Hann sagði að framburður vitna um að þeir meðákærði hefðu
rifið brotaþola upp af stólnum og kýlt hann margsinnis í andlit, höfuð og
líkama væru rangir. Hann sagði að daginn eftir hefði verið haldinn fundur með
þeim meðákærða, föður [
], brotaþola og dyravörðum á staðnum og þar hefði verið
ákveðið að engin kæra yrði lögð fram í málinu. Mjög misvísandi frásagnir hefðu
komið fram á fundinum um atvikið.
Ákærði sagðist hafa unnið sem dyravörður á umræddum stað í
tvo eða þrjá mánuði á þessum tíma, en umrætt kvöld hefði hann ekki verið við
vinnu heldur að skemmta sér. Aðspurður sagðist hann ekki hafa verið miklum
áfengisáhrifum þegar atvik málsins gerðust.
Aðspurður um áverka á brotaþola sagði ákærði að hann ætti
bágt með að trúa því að hann hefði valdið því að brotnaði upp úr tönn hjá
brotaþola þar sem hann hefði ekki verið sár á höndum eftir atvikið. Hann sagði
að brotaþoli og bróðir hans hefðu viðurkennt á áðurgreindum fundi að þeir væru
slagsmálahundar og því sagðist ákærði halda að hluti áverkanna væru gamlir.
Ákærði gaf skýrslu hjá lögreglu 19. janúar 2010, sem er í
samræmi við framangreint. Þar sagði ákærði einnig að hann héldi að þeir
brotaþoli hefðu báðir dottið í gólfið í átökunum. Bróðir brotaþoli hefði komið
honum til aðstoðar, en meðákærði hefði dregið hann í burtu. Eftir að þeir
brotaþoli stóðu upp hefðu átök á milli þeirra haldið áfram en dyraverðir hefðu
gengið á milli þeirra og stöðvað átökin.
Ákærði Y neitaði sök. Hann sagði að þeir meðákærði hefðu
setið veitingastaðnum umrætt kvöld þegar strákur, sem væri 18 ára gamall sonur
og bróðir fyrrverandi vinnufélaga hans, hefði komið til hans og tjáð honum að
inni á staðnum væri strákur að nafni A sem væri að hóta honum öllu illu. Hefði
strákurinn spurt hann að því hvort hann gæti talað við þennan A, þ.e. brotaþola
í máli þessu. Sagðist ákærði hafa samþykkt það og gengið ásamt meðákærða til
brotaþola og sest við hliðina á honum. Sagðist hann hafa spurt hann að því
hvort hann væri A og hvort hann væri að hóta ungum dreng á staðnum. Í því hefði
brotaþoli snúið sér frá honum og þá hefði meðákærði tekið í öxlina á brotaþoli
og sagt við hann: „Horfðu á manninn!“. Brotaþoli hefði þá staðið mjög snöggt
upp og tekist á við meðákærða. Þegar brotaþoli hefði staðið upp hefði stóll
brotaþola ýst aftur og farið í meðákærða. Hann sagði að sig minnti að brotaþoli
hefði kýlt meðákærða um leið og hann stóð upp og þá hefði meðákærði tekið á
móti honum. Átök meðákærða og brotaþola hefðu síðan borist í átt að barborðinu
og sagðist ákærði þá hafa staðið upp og um leið séð [...] brotaþola, C, koma
hlaupandi og sagðist hann hafa gengið í veg fyrir hann. Þeim tveimur hefði þá
lent saman. Meira hefði hann þá ekki séð af viðureign meðákærða og brotaþola.
Hann sagði að þeir C hefðu endað nálægt dansgólfinu og þar hefði C bitið hann í
hálsinn. Þegar átökum þeirra lauk hefði allt verið búið á milli meðákærða og
brotaþola.
Ákærði sagði að framburður brotaþola og vitna væri alrangur
og sagðist hann aldrei hafa komið nálægt brotaþola. Hann sagði að brotaþoli og
bróðir hans væru þekktir í [...] fyrir slagsmál og margir væru hræddir við þá.
Aðspurður um áverka brotaþola sagðist ákærði telja að brotnað
hefði upp úr tönn brotaþola áður en til umræddra átaka kom. Sagðist hann hafa
hitt brotaþola á fundi á veitingastaðnum daginn eftir og þá hefðu litlir
áverkar verið á brotaþola. Brotaþoli hefði verið með smávægilegt glóðarauga og
það hefði verið allt og sumt. Á þessum fundi hefðu einnig verið faðir [...] og
dyraverðir á staðnum. Fundurinn hefði gengið út á það að ná sáttum í málinu
enda hefði ekki verið um alvarleg slagsmál að ræða. Hefði fundinum lokið með
því að ekki yrði meira aðhafst í málinu.
Aðspurður kvaðst hann hafa verið undir áhrifum þetta kvöld,
en ekki miklum þar sem hann hefði verið nýkominn á staðinn.
Ákærði gaf skýrslu hjá lögreglu 3. febrúar 2010, sem
samrýmist skýrslu hans fyrir dóminum.
A sagðist hafa verið á jólahlaðborði á veitingastaðnum Spot
með samstarfsfólki sínu umrætt kvöld. Sagðist hann hafa verið ölvaður og því
myndi hann ekki alveg eftir öllum atvikum. Sagðist hann þó muna eftir að hafa
setið við borð ásamt þáverandi kærustu sinni og beðið eftir fari heim. Hann
sagði að fyrrverandi kærsta sín hefði setið ská á móti honum. Þá hefðu ákærði
komið til hans og hefði ákærði Y sest við hliðina á honum, en ákærði Reynir
staðið fyrir aftan hann. Y hefði spurt hann að nafni og hann svarað honum og
síðan hefði hann einnig spurt ákærða að nafni. Sagðist hann ekki vita hvort
ákærði svaraði honum, en það næsta sem hann vissi var að hann hefði verið
rifinn harkalega upp af stólnum, sennilega af ákærða Reyni, og hefði hann því næst
verið kýldur og laminn. Hann sagðist halda að ákærði Reynir hefði kýlt hann því
hann hefði aðallega tekist á við hann, en þó hefði ákærði Y einnig staðið upp
um leið og ákærði Reynir reif hann upp á öxlinni. Sagðist hann hafa upplifað
árásina í fyrstu þannig að ákærðu væru báðir að ráðast á hann. Aðspurður
sagðist hann ekki muna eftir því hvort ákærði Y sló hann, en ákærðu hefðu báðir
verið í honum í skamma stund þar til [...] hans, sem hefði verið þarna skammt
frá, kom til að hjálpa honum, en þá sagðist brotaþoli hafa verið kominn í
gólfið. Sagðist hann ekki hafa verið sleginn á meðan hann lá í gólfinu. Hann
sagðist síðan hafa staðið upp og þá hefði [...] hans verið farinn að takast á
við ákærða Y á meðan hann sjálfur hefði tekist á við ákærða Reyni. Allt hefði
þetta gerst mjög hratt. Því næst hefðu öryggisverðir komið þarna að, en hann
sagði að þeir hefðu ekki gert mikið til að skakka leikinn. Sagðist hann hafa
fengið mikið af höggum á sig á meðan reynt var að stöðva átökin. Sagðist
brotaþoli hafa fengið langflest hnefahöggin í andlitið, enda hefði hann verið
mjög bólginn í andlitinu á eftir. Hann sagðist ekki vita hversu mörg höggin
voru, en þau hefðu komið í andlit, höfuð og líkama. Þá sagði brotaþoli að föt
sín hefðu rifnað. Sagðist hann hafa náð að verja sig eitthvað og náð að kýla
ákærða Reyni nokkrum sinnum. Hann sagðist hins vegar ekki muna eftir að hafa
kýlt ákærða Y.
Brotaþoli sagði að lýsing ákærðu á atburðarásinni væri ekki
rétt, þ.e að hann hefði staðið snögglega upp og byrjað að kýla ákærða Reyni.
Sagðist brotaþoli hafa lent í slagsmálum áður og sagðist alveg hafa vitað hvað
stóð til þegar ákærðu, sem væru 10 árum eldri en hann, hefðu báðir komið til
hans. Hann játaði því að hafa fengið á sig ákæru vegna líkamsárásar.
Brotaþoli sagði að eftir að átökunum lauk hefði hann farið út
og verið mjög reiður. Hefði hann ætlað að fara aftur inn og ráðast á ákærðu
aftur, enda hefði hann verið ölvaður. Dyraverðirnir hefðu stoppað hann af og
sagðist hann því hafa farið beint heim, en farið á slysadeild daginn eftir.
Brotaþola var þá bent á að samkvæmt framlögðu læknisvottorði hefði hann komið á
slysadeild umrædda nótt kl. 2:13. Sagði brotaþoli þá að það gæti verið.
Brotaþoli sagðist hafa verið blár og marinn í framan og sagðist hann varla hafa
getað opnað annað augað vegna bólgu. Þá sagði hann að brotnað hefði úr tönnum
hjá honum.
Brotaþoli sagðist hafa mætt á fund með ákærðu, föður sínum og
dyravörðum á staðnum daginn eftir. Hann sagði að strákurinn, sem hefði tjáð
ákærðu að hann hefði verið að hóta honum lífláti, væri yngri bróðir stráks sem
hefði kært hann fyrir líkamsárás, en ákærði Y væri vinnufélagi þess manns.
Sagði brotaþoli að þessi mál tengdust því nokkuð.
C, bróðir brotaþola, sagðist hafa setið ásamt félaga sínum á
veitingastaðnum Spot umrætt kvöld, skammt frá brotaþola og kærustu hans, en þau
hefðu verið á leið heim. Sagðist hann hafa séð tvo menn ganga að brotaþola og
tala við hann. Annar hvor mannanna hefði síðan annað hvort rifið brotaþola upp
úr sætinu eða brotaþoli staðið sjálfur upp og því næst hefði annar ákærðu kýlt
brotaþola einu sinni til tvisvar með krepptum hnefa, sennilega í andlitið á
brotaþola því það hefði verið bólgið á eftir. Sagðist hann ekki hafa séð hvor
ákærðu það var. Hann sagði að dimmt hefði verið inni á staðnum og því hefði
hann ekki séð þetta almennilega. Sagðist hann þá hafa stokkið upp, en strax
verið gripinn af ákærða Y og sagðist hann hafa tekist á við hann og þeirra átök
borist út á dansgólfið. Nánar aðspurður sagði ákærði að hann hefði upplifað
atvik með þeim hætti að annar ákærðu hefðu rifið brotaþola upp úr stólnum og að
báðir ákærðu hefðu ráðist á brotaþola, en hann sagðist ekki muna hvor gerði
hvað. Hann sagði að rétt væri eftir sér haft í lögregluskýrslu um að hann gæti
ekki sagt til um hvar höggin lentu á brotaþola. Hann sagði að brotaþola hefði
snúið baki í hann meðan á átökunum stóð.
Lýsing ákærðu á atburðarásinni var borin undir vitnið og
sagðist hann ekki kannast við að atvik hefðu gerst með þessum hætti. Hann
sagðist hafa séð áverka á brotaþola, þ.e. hann hefði verið bólginn í andlitinu.
Aðspurður sagðist hann hafa verið undir áhrifum áfengis.
Vitni gaf skýrslu hjá lögreglu 14. janúar 2010, sem er í
megindráttum í samræmi við framangreint. Þar sagði vitnið að annar ákærðu hefðu
staðið fyrir aftan stól brotaþola, en hinn staðið fyrir framan hann. Þeir hefðu
rifið brotaþola upp af stólnum og byrjað að berja á honum.
B sagðist hafa verið kærasta brotaþola á þessum tíma, en
sagði að þau væru ekki lengur kærustupar. Kvaðst hún hafa verið á árshátíð á
veitingastaðnum Spot í umrætt sinn og sagðist hafa setið við borð ásamt
brotaþola og einhverju af samstarfsfólki hans. Nýbúið hefði verið að opna fyrir
almenning inn á staðinn þegar ákærðu hefðu komið til brotaþola og spurt hvort
hann héti A. Brotaþoli hefði litið á þá en ekki svarað þeim og snúið sér undan.
Hefði þá annar ákærðu, sem hefði verið í rauðum bol, rifið eða kippt í stól
brotaþola og snúið stólnum og brotaþola að sér og síðan hefði hann rifið
brotaþola upp af stólnum á öxlunum. Í kjölfarið hefðu brotist út mikil slagsmál
á staðnum. Sagðist hún hafa séð að brotaþoli var barinn í andlitið. Þá sagðist
hún hafa séð brotaþola ýta frá sér til að verja sig, en sagðist ekki geta sagt
til um það hvort brotaþoli sló ákærðu. Hún sagði að mikil þvaga af fólki
myndast þarna, sem hefði reynt að ganga á milli. Sagðist hún hafa séð brotaþola
fara í gólfið. Þá hefði [...] brotaþola blandað sér í málið. Hún sagðist hafa
farið út þegar slagsmálin brutust út og þegar brotaþoli hefði komið út hefði
skyrtan hans verið í henglum. Hún sagði að systir sín hefði náð í þau og farið
með brotaþola á slysadeild. Hún sagði að þar hefði komið í ljós að brotnað
hafði upp úr tönn hjá honum og þá hefði hann verið mjög marinn næstu daga á
eftir.
Þegar vitnið var spurt að því hvort báðir ákærðu hefðu ráðist
á brotaþola sagði hún að það gæti verið að annar þeirra hefði bara staðið hjá.
Framburður ákærðu var kynntur vitninu og sagði hún ekki rétt að brotaþoli hefði
staðið snögglega upp og byrjað að kýla ákærðu, heldur hefði verið kippt
snögglega í stól brotaþola og hann rifinn upp. Hún sagði að ákærðu hefðu báðir
komið gangandi að brotaþola, en kvaðst ekki muna hvort þeir settust eða stóðu
hjá brotaþola. Nánar aðspurð sagði hún þó að sig rámaði í að annar ákærðu hefðu
sest við hlið brotaþola og talað við hann. Annar þeirra hefði sett höndina á
öxl brotaþola og spurt hann hvort hann væri A. Sá hinn sami hefði síðan rifið í
stól brotaþola. Aðspurð sagðist hún ekki hafa verið undir áhrifum áfengis þetta
kvöld.
Hún sagðist hafa munað mun betur eftir atvikum þegar hún gaf
skýrslu hjá lögreglu. Hún sagði að frásögn hennar ætti að vera rétt í
lögregluskýrslu, þ.e. að báðir ákærðu hefðu ráðist á brotaþola og kýlt hann í
andlit og höfuð.
Vitnið gaf skýrslu hjá lögreglu 14. janúar 2010, sem er í
megindráttum í samræmi við framangreint. Þar sagði vitnið að tveir menn hefðu
komið að borðinu þar sem hún og brotaþoli sátu og hefði annar mannanna sest við
hliðina á brotaþola, en hinn staðið fyrir aftan stól hans. Allt í einu hefði
annar þessara manna rifið í stól brotaþola og snúið honum við og síðan hefðu
mennirnir rifið hann upp af stólnum og byrjað að berja á honum.
F sagðist hafa verið á jólahlaðborði með starfsfólki sínu í
umrætt sinn og sagðist hafa staðið við borðið, sem hópurinn hafði setið við um
kvöldið, þegar tveir menn hefðu komið að borðinu. Hefðu þeir tekið sér stöðu
fyrir aftan brotaþola og kærustu hans, sem setið hefðu við borðið. Hún sagðist
ekki hafa vitað fyrr en brotaþoli hefði verið rifinn upp af stólnum og síðan
hefðu brotist út slagsmál. Hún sagði að þetta hefði gerst mjög hratt og átökin
orðið að einni þvögu og því væri erfitt að segja til um hver gerði hvað. Kvaðst
hún muna eftir brotaþola í gólfinu með annan ákærðu ofan á sér, en síðan hefði
fólk byrjað að stía þeim í sundur. Þá hefði bróðir brotaþola reynt að hjálpa
honum. Aðspurð sagði hún að annar ákærðu, sem hefði verið í rauðu að ofan,
hefði rifið brotaþola upp af stólnum, en sagðist ekki vita hvor þeirra það var
eða hvar hann tók í brotaþola, en sennilega hefði hann rifið brotaþol upp á
öxlunum. Fyrir sér hefði þetta atvikast með þeim hætti að annar ákærðu hefði
rifið brotaþola upp af stólnum og byrjað að berja hann og stuttu síðar hefði
brotaþoli verið kominn í gólfið. Hún sagðist muna eftir því að hafa séð að
brotaþoli var kýldur í andlitið og þá hefði skyrtan hans verið rifin í tætlur.
Hún sagðist ekki muna hvor ákærðu kýldi brotaþola í andlitið. Þá kvaðst hún
ekki geta sagt til um hvort báðir ákærðu kýldu brotaþola.
Framburður ákærðu var borinn undir vitnið og sagði hún að
ekki væri rétt að annar ákærðu hefði lagt hönd á öxl brotaþola og að við það
hefði brotaþoli staðið snögglega upp og byrjað að berja ákærðu. Hún sagði að
sér hefði virst augljóst að ákærðu komu til brotaþola í þeim tilgangi að berja
hann. Hún sagði aðspurð að hún hefði ekki verið undir miklum áfengisáhrifum
þetta kvöld. Þá sagðist hún vera samstarfskona brotaþola.
Skýrsla vitnisins hjá lögreglu var borin undir vitnið. Kvaðst
hún ekki muna eftir því nú að annar ákærðu hefðu setið við hliðina á brotaþola
og að sá hefði byrjað að kýla brotaþola. Hún sagðist muna það eitt nú að báðir
ákærðu hefðu komið til brotaþola og átt einhver stutt samskipti við hann áður
slagsmál brutust út.
Vitnið gaf skýrslu hjá lögreglu 14. janúar 2010. Þar sagðist
hún hafa staðið við borðið sem brotaþoli og kærasta hans sátu við. Hefði þá
komið að borðinu ókunnugur maður sem sest hefði við hliðina á brotaþola. Annar
ókunnugur maður sem einnig hefði komið þarna að borðinu hefði staðið fyrir
aftan stól brotaþola. Maðurinn sem sest hefði við hliðina á brotaþola hefði
farið að tala við hann, en síðan hefði brotaþoli snúið sér aftur að kærustu
sinni. Allt í einu og fyrirvaralaust hefði maðurinn, sem staðið hefði fyrir
aftan brotaþola, rifið hann upp af stólnum, en hinn byrjað að berja hann
nokkrum höggum, sem hún hefði ekki séð betur en að lentu öll í andliti
brotaþola. Sagðist hún síðan hafa litið af mönnunum, en þegar hún hefði litið
til þeirra aftur hefði hún sé að sá sem sló brotaþola hefði verið í átökum við
hann á gólfinu.
G sagðist hafa setið við borð með brotaþola og fleira fólki
þegar ákærðu hefðu komið báðir aftan að brotaþola við borðið. Sagðist hún muna
eftir að þeir stóðu báðir fyrir aftan brotaþola. Annar þeirra hefði dregið stól
brotaþola að sér og frá borðinu og síðan rifið brotaþola í burtu frá borðinu. Í
framhaldinu hefðu brotist út slagsmál. Sagðist hún halda að sá, sem dregið
hefði brotaþola í burtu frá borðinu, hefði byrjað slagsmálin. Hún sagðist ekki
geta sagt til um það hvort báðir ákærðu slógu brotaþola, en sagðist a.m.k. hafa
séð annan þeirra slá brotaþola. Hún sagðist ekki hafa fylgst frekar með
slagsmálunum og því gæti hún ekki skýrt nákvæmlega frá því hver gerði hvað. Hún
sagði þó að annar ákærðu hefði kýlt brotaþola og brotaþoli hefði reynt að svara
fyrir sig. Hún sagði að mikil þvaga hefði myndast kringum brotaþola og ákærðu
og því hefði hún ekki séð nákvæmlega hvað gerðist. Allt hefði þetta gerst mjög
snöggt.
Framburður ákærðu um að brotaþoli hefði allt í einu staðið
upp og ráðist á þá var borinn undir vitnið og sagði vitnið þá að fyrir sér
hefði atburðarásin verið með þeim hætti að ákærðu hefðu ráðist á brotaþola og
dregið hann í burtu. Hún sagði að bróðir brotaþoli hefði reynt að aðstoða hann.
Hún sagðist muna eftir að skyrta brotaþola hefði öll verið rifin á eftir. Hún
sagðist ekkert tengjast brotaþola, sen sagði að kærasti hennar hefði verið að
vinna með brotaþola. Aðspurð sagðist hún hafa drukkið eitt hvítvínsglas með
matnum fyrr um kvöldið. Hún sagði að hún hefði munað betur eftir atvikum þegar
hún gaf skýrslu hjá lögreglu og sagðist kannast við frásögn sína þar.
Vitnið gaf skýrslu hjá lögreglu 10. janúar 2010. Þar sagði
hún að brotaþoli hefði ekki viljað tala við annan manninn og reynt að færa
stólinn sem hann sat á að borðinu aftur. Mennirnir hefðu þá rifið sitt hvoru
megin í brotaþola og kippt honum upp af stólnum og frá borðinu. Sá þeirra, sem
virst hefði ágengari við brotaþola, hefði slegið til hans en hún sagðist ekki
hafa séð nákvæmlega hvar höggið lenti, en það hefði annað hvort verið í öxlina
eða á kjálkann. Sagðist hún hafa forðað sér, en síðan hefðu dyraverðir komið
þarna að og gengið á milli og á meðan brotaþola var haldið sagðist hún hafa séð
manninn, sem hafði verið ágengari, ná að slá brotaþola.
H, dyravörður á veitingastaðnum Spot, sagðist hafa staðið í
aðalinngangi veitingastaðarins þegar tilkynning hefði komið í talstöðina um
slagsmál á dansgólfinu. Sagðist hann hafa hlaupið inn og séð áflog í gangi.
Vinstra megin í salnum hefðu tveir strákar verið að slást og berja hvorn annan.
Sagðist hann hafa þekkt annan þeirra, þ.e. ákærða Reyni, en hann hefði verið
starfsmaður á veitingastaðnum. Sagðist hann hafa stíað þeim í sundur með því að
ýta ákærða Reyni í burtu og róa hann niður. Hann sagðist hafa séð út undan sér
að annar dyravörður var að reyna að stöðva önnur slagsmál hægra megin í salnum
og að þriðji dyravörðurinn hélt stráknum, sem ákærði Reynir var að slást við.
Hann sagðist ekki hafa séð ákærða Y. Hann sagði að ákærði Reynir og brotaþoli
hefðu skipst á ókvæðisorðum og síðan hefðu þeir rifið sig lausa og þeim lent aftur
saman. Sagðist hann þá hafa tekið ákærða Reyni í burtu og hinn dyravörðurinn
hefði tekið í brotaþola og þeir ákveðið að stoppa þetta alveg. Hann sagði að
þegar hann hefði verið að leiða ákærða Reyni í burtu hefði ákærði Y komið á
eftir þeim og verið með stórt bitfar á hálsinum. Sagðist hann hafa farið með
ákærðu inn í eldhús, en hann sagðist ekki hafa vitað hvað varð af brotaþola og
bróður hans.
Vitnið gaf skýrslu hjá lögreglu 5. febrúar 2010, sem
samrýmist framangreindu.
I sagðist hafa verið á veitingastaðnum með ákærðu umrætt
kvöld. Hún sagði einhver strákur hefði komið til þeirra og beðið ákærðu um að
hjálpa sér því brotaþoli hefði verið að hóta honum um kvöldið. Ákærðu hefðu því
farið til brotaþola til að ræða við hann og hefði ákærði Y sest við hliðina á
honum, en ákærði Reynir staðið fyrir aftan brotaþola. Hún sagðist hafa séð að
þeir voru að ræða saman og síðan hefði ákærði Reynir lagt höndina á öxl
brotaþola og þá hefði brotaþoli staðið snögglega upp og kýlt ákærða Reyni. Þeir
hefðu síðan lent í áflogum. Bróðir brotaþola hefði síðan komið þarna að ætlað
að ráðast líka á Reyni, en þá hefði ákærði Y farið fyrir hann og síðan lent í
átökum við bróðurinn á dansgólfinu. Sagðist hún hafa reynt að ná bróðurnum ofan
af ákærða Y. Hún sagði að bróðir brotaþola hefði bitið ákærða Y í hálsinn. Hún
sagði að ákærði Y hefði verið með stórt bitfar á hálsinum á eftir og orðið að
fara á slysavarðstofu um kvöldið vegna þess. Hún sagðist vera fyrrverandi maki
ákærða Y. Hún sagðist ekki hafa verið undir áhrifum áfengis, enda neytti hún
ekki áfengis.
J sagðist hafa komið á veitingahúsið Spot umrætt kvöld og þar
hefðu setið við borð brotaþoli, kærasta og bróðir hans og tvær vinkonur
vitnisins. Sagðist hún hafa sest við borðið hjá þeim og farið að spjalla við
þau. Einhverjir tveir strákar hefðu allt í einu komið aftan að brotaþola, snúið
stólnum sem hann sat á að sér og rætt eitthvað við hann. Brotaþoli hefði þá
snúið stólnum aftur að borðinu, en þá hefðu þessir menn rifið hann upp af
stólnum og byrjað að berja brotaþola, þ.e. slá hann með krepptum hnefa í
andlitið. Hún sagðist aðspurð ekki muna eftir að annar mannanna hefði sest
niður. Hún sagði að báðir mennirnir hefðu tekið þátt í árásinni á brotaþola, en
sagðist ekki geta sagt til um hvor þeirra gerði hvað. Annar hvor þeirra hefði
hins vegar rifið í stól brotaþola og síðan hefði annað hvort þeir báðir eða
annar hvor þeirra rifið brotaþola upp af stólnum. Hún sagðist ekki geta sagt
til um það hvort báðir eða annar hvor þeirra kýldi brotaþola. Sagðist hún hafa
forðað sér eftir að átökin byrjuðu og því ekki séð meira af þeim. Á eftir hefði
skyrta brotaþola verið rifin og þá hefði brotaþoli verið blóðugur. Hún sagði að
ekki væri rétt að brotaþoli hefði staðið upp og látið höggin dynja á ákærðu. Hún
sagðist muna eftir að bróðir brotaþola hefði staðið upp til að aðstoða
brotaþola. Hún sagðist aðspurð hafa verið undir áhrifum áfengis, en ekki
miklum. Hún sagðist vera gamall vinur brotaþola.
Skýrsla vitnisins hjá lögreglu var kynnt fyrir vitninu og
kvaðst hún kannast við hana og sagði að rétt væri eftir sér haft í skýrslunni.
Sagðist hún hafa munað þetta betur á þessum tíma. Hún sagðist þó stórefast um
að báðir hefðu snúið stólnum, en sagði að báðir hefðu ráðist á brotaþola.
Vitnið gaf skýrslu hjá lögreglu 29. janúar 2010. Þar sagði
hún að mennirnir hefðu snúið stólnum sem brotaþoli sat á frá borðinu. Brotaþoli
hefði snúið stólnum aftur að borðinu og þá hefðu mennirnir rifið brotaþola upp
af stólnum og byrjað að berja hann.
D, sérfræðingur á bráða- og slysadeild
Landspítala-háskólasjúkrahúss. Hann staðfesti vottorð vegna brotaþola á skjali
IV, 1-1. Hann sagði að um hefði verið að ræða yfirborðsáverka og áverka á tönn.
Ákærðu Y og Reynir komu aftur fyrir dóminn og voru þeir
inntir eftir því af hverju þeir hefðu ekki bent á vitnið I fyrr eða þegar þeir
gáfu skýrslu við rannsókn málsins hjá lögreglu. Sögðu þeir þá báðir að þeir
hefðu talið að málið væri ekki þess eðlis að það myndi fara fyrir dóm.
III.
Í máli þessu er ákærðu gefið að sök að hafa í félagi ráðist á
brotaþola, rifið hann á fætur þar sem hann sat við borð og slegið hann
hnefahöggum í andlit, höfuð og líkama með þeim afleiðingum sem greinir í ákæru.
Brotaþoli hefur borið um það að hafa verið rifinn harkalega
upp af stól sínum, sennilega af ákærða Reyni, og síðan hafi hann verið kýldur
og laminn. Sagðist hann halda að ákærði Reynir hefði kýlt hann því hann hefði
aðallega tekist á við hann. Hann sagðist ekki geta sagt til um það hvort ákærði
Y sló hann. Ákærði Reynir hefur einnig borið um það að hafa tekist á við
brotaþola og kvaðst hann viðurkenna að hafa tekið nokkuð harkalega í öxlina á
honum. Kvað hann ákærða Y engan þátt hafa átt í átökunum við brotaþola.
Vitnið C hefur borið um það að annar ákærðu hefði rifið
brotaþola upp úr sætinu og því næst kýlt brotaþola einu eða tveimur
hnefahöggum, sennilega í andlitið. Á sama veg hefur borið vitnið F en hún sagði
að hún hefði ekki vitað fyrr en annar ákærðu, sem hefði verið rauðklæddur að
ofan, hefði rifið brotaþola upp af stólnum og byrjað að berja hann. Vitnin B, G
og J hafa allar borið um það að annar ákærðu hefði rifið í stól brotaþola og
snúið stólnum þannig að brotaþoli hefði snúið að ákærðu og frá borðinu. Sagði B
að þessi sami ákærði hefði verið í rauðum bol. B og G sögðu að sá hinn sami og
reif í stólinn hefði síðan rifið brotaþola upp af stólnum og frá borðinu, en J
sagði að annað hvort báðir ákærðu eða annar hvor þeirra hefði rifið brotaþola
upp af stólnum. Vitnin B og F sögðu að brotaþoli hefði verið rifinn upp af
stólnum á öxlunum. Vitnin B, F, G og J sögðu að brotaþoli hefði verið kýldur og
sögðu vitnin B og F að brotaþoli hefði verið kýldur í andlitið. Ekkert
framangreindra vitna gat borið um það hvor ákærðu kýldu brotaþola eða hvort
ákærðu kýldu hann báðir. Sum vitnanna báru um að hafa séð a.m.k. annan ákærðu
berja brotaþola, þ.e. slá hann með krepptum hnefa í andlitið. Ljóst þykir af
framburðum vitnanna að sá ákærðu, sem reif brotaþola upp af stólnum, kýldi hann
í andlitið. Framburður allra þessara vitna þykir trúverðugur þó að framburður þeirra
hafi borið þess nokkur merki hversu langt er um liðið frá því að atvik málsins
áttu sér stað.
Framburður vitnisins I kom fyrst fram við
framhaldsaðalmeðferð. Í ljósi þess, tengsla vitnisins við ákærða Y og þess að
framburðurinn er mjög á skjön við framburð allra annarra vitna í málinu þykir
hann ótrúverðugur. Verður ekki byggt á honum við meðferð málsins.
Ljóst er af framburði vitnanna C, B, F, G og J að
framangreind atburðarás gerðist mjög hratt. Þá er ljóst að ákærði Y átti í
átökum við bróður brotaþola, C, á meðan ákærði Reynir tókst á við brotaþola,
samanber og framburð dyravarðarins H. Í ljósi framangreinds, framburðar ákærða
Reynis, brotaþola og annarra vitna í málinu þykir í ljós leitt svo hafi sé yfir
skynsamlegan vafa að ákærði Reynir Örn réðst á brotaþola, reif hann á fætur þar
sem hann sat við borð og sló hann að fyrra bragði hnefahöggum í andlit og höfuð
með þeim afleiðingum sem greinir í ákæru. Með hliðsjón af framburði vitna þykir
hins vegar ósannað að ákærði Reynir hafi slegið brotaþola í líkamann, en með
hliðsjón af því að ákærði Reynir reif brotaþola upp af stólnum á öxlunum þykir
ljóst að rispur og mar á hálsi og öxlum séu afleiðingar árásarinnar.
Með hliðsjón af framburði ákærða Reynis, brotaþola og annarra
vitna í málinu þykir hins vegar slíkur vafi vera uppi um þátt ákærða Y í
árásinni á brotaþola að ekki verði hjá því komist að sýkna hann af kröfum
ákæruvalds.
Niðurstaða málsins er því sú að ákærði Reynir er sakfelldur
fyrir þá háttsemi sem greinir í ákæru, að því tilskyldu að ekki þykir sannað að
hann hafi slegið brotaþola hnefahöggum í líkama. Ákærði Y er hins vegar
sýknaður af refsikröfu ákæruvalds.
Háttsemi ákærða Reynis er réttilega heimfærð til refsiákvæða
í ákærunni.
Samkvæmt sakavottorði gekkst ákærði Reynir Örn á árunum 2002 og
2003 alls þrisvar undir lögreglustjórasátt vegna hraðakstur, sviptingaraksturs
og ölvunaraksturs. Síðast var ákærði hinn 31. janúar 2005 dæmdur í tveggja
mánaða fangelsi, skilorðsbundið í tvö ár, fyrir húsbrot. Sakarferill ákærða
hefur ekki áhrif á ákvörðun refsingar í málinu.
Refsing ákærða Reynis þykir hæfilega ákveðin fangelsi í 30
daga. Í ljósi þess að um 12 mánuðir liðu frá því að rannsókn lauk og þar til
ákæra var gefin út í málinu þykir rétt að binda refsinguna skilorði eins og
nánar greinir í dómsorði.
Sakarkostnaður nemur alls 407.550 krónum og eru þ.m.t.
málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærðu, Sveins Andra Sveinssonar hrl., sem
þykja hæfilega ákveðin 376.500 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.
Ákærði Reynir Örn greiði helming þessa sakarkostnaðar eða
203.775 krónur, en helmingur sakarkostnaðar er felldur á ríkissjóð.
Dóm þennan kveður upp Ragnheiður Bragadóttir héraðsdómari.
Uppkvaðning dómsins hefur dregist vegna embættisanna dómarans.
Dómsorð:
Ákærði, Y, er sýkn af kröfum ákæruvalds í máli þessu.
Ákærði, Reynir Örn Auðarson, sæti fangelsi í 30 daga en
fullnustu refsingarinnar er frestað og skal hún falla niður að liðnum tveimur
árum frá uppkvaðningu dómsins haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra
hegningarlaga. nr. 19/1940.
Ákærði, Reynir Örn, greiði helming alls sakarkostnaðar, sem
er alls að fjárhæð 407.550 krónur að meðtöldum málsvarnarlaunum skipaðs
verjanda ákærðu, Sveins Andra Sveinssonar hrl., 376.500 krónur, en helmingur
sakarkostnaðar greiðist úr ríkissjóði.