Hæstiréttur íslands

Mál nr. 454/2008


Lykilorð

  • Kærumál
  • Nauðungarvistun


Fimmtudaginn 21

 

Fimmtudaginn 21. ágúst 2008.

Nr. 454/2008.

A

(Ólafur Rúnar Ólafsson hdl.)

gegn

B

(Arnbjörg Sigurðardóttir hdl.)

 

Kærumál. Nauðungarvistun.

Staðfest var niðurstaða héraðsdóms um að hafna kröfu A, um að fella niður nauðungarvistun á sjúkrahúsi, sem ákveðin var af dómsmálaráðuneytinu 9. ágúst 2008.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Hjördís Hákonardóttir. 

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 14. ágúst 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 19. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 14. ágúst 2008, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að felld yrði úr gildi ákvörðun dóms- og kirkjumálaráðuneytisins 9. ágúst sama ár um að hann skyldi nauðungarvistaður á sjúkrahúsi. Kæruheimild er í 4. mgr. 31. gr., sbr. 1. mgr. 16. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Sóknaraðili krefst þess aðallega að framangreind ákvörðun verði felld úr gildi en til vara að nauðungarvistuninni verði markaður skemmri tími. Þá krefst hann að þóknun skipaðs verjanda síns verði greidd úr ríkissjóði. 

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og að þóknun skipaðs talsmanns hennar verði greidd úr ríkissjóði.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Samkvæmt 4. mgr. 31. gr., sbr. 17. gr. lögræðislaga, greiðist þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila og talsmanns varnaraðila vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti úr ríkissjóði eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila, Ólafs Rúnars Ólafssonar héraðsdómslögmanns, og skipaðs talsmanns varnaraðila, Arnbjargar Sigurðardóttur héraðsdómslögmanns, 100.000 krónur handa hvoru, greiðist úr ríkissjóði.

 

 

                                Úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 14. ágúst 2008.

Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 13. ágúst sl. er til komið vegna kröfu A, kt. [...], [...], Akureyri, sem með bréfi dagsettu 11. ágúst og mótteknu 12. s.m., krefst þess að fellt verði úr gildi samþykki Dómsmálaráðuneytisins til nauðungarvistunar hans á grundvelli 3. mgr., 19. gr. lögræðislaga nr. 71, 1997 á geðdeild Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri (FSA) hinn 9. ágúst sl.

Kröfuna byggir sóknaraðili á 1. mgr. 30. gr. lögræðislaga og er ástæða kröfunnar sú, að hann telur skilyrði 3. mgr. 19. gr. ekki vera fyrir hendi og því beri að fella samþykkið úr gildi.

Skipaður verjandi sóknaraðila er Ólafur Rúnar Ólafsson hdl.  Gerir hann þær sömu dómkröfur og hér að framan eru raktar, en krefst jafnframt málskostnaðar að mati dómsins.

Varnaraðili málsins er B, kt. [...], [...], en hún er dóttir sóknaraðila.  Skipaður talsmaður varnaraðila Arnbjörg Sigurðardóttir hdl. krefst þess að kröfu sóknaraðila verði hafnað, en jafnframt krefst hún málskostnaðar.

Hinn kærða ákvörðun um nauðungarvistun er reist á beiðni sem dagsett er 8. ágúst sl., sem aftur er reist á vottorði Halls Þorgils Sigurðssonar heilsugæslulæknis frá 9. ágúst sl.

                Í greindu læknisvottorði er þess í upphafi getið að nefndur læknir hafi um árabil verið heimilislæknir sóknaraðila.  Er tekið fram að sóknaraðili hafi leitað sér lækninga vegna þunglyndis síðla árs 2002 og þá fengið viðeigandi lyf auk svefnlyfs, en vegna þessa hafi hann verið óvinnufær í um hálft ár.  Þá hafi hann einnig verið á þunglyndislyfjum árin 2004, 2006 og 2008.  Tekið er fram að sóknaraðili hafi búið einn frá því að kona hans lést í desember sl. og að frá fráfalli hennar hafi hann átt í erfiðleikum með svefn og af þeim sökum tekið svefnlyf og þunglyndislyf.  Greint er frá því að sóknaraðili hafi komið í viðtal til læknisins þann 30. júlí sl., en tilefni þess hafi verið að hann hafi talið sig verða fyrir miklu andlegu álagi vegna atviks er átt hafi sér stað við kirkjutónleika í Borgarfjarðarsýslu nokkru áður.  Að auki hafi hann litið svo á að honum hafi verið misboðið vegna eftirfarandi viðbragða kirkjunnar manna, neyðarlínu, landlæknis og fleiri aðila.  Að beiðni varnaraðila hafi verið farið í vitjun á heimili sóknaraðila þann 7. ágúst sl., en í framhaldi af því hafi hann með fortölum fengist til að eiga viðtal við vakthafandi geðlækni á geðdeild FSA.  Þá hafi sóknaraðili daginn eftir, þann 8. ágúst, að eigin ósk verði færður á bráðamóttöku FSA af sjúkraflutningamönnum.  Í vottorðinu er atvikum nánar lýst þar um þannig:  „Þegar að bráðamóttöku FSA kemur er hann æstur og órólegur og lendir í átökum við starfsfólk, skvettir vatni og tók hjúkrunarfræðing hálstaki og var þá lögregla kölluð á staðinn.  Tveir geðlæknar koma til að ræða við hann og meta en hann var einnig mjög æstur við þá, ógnandi, tekur engum fortölum og skvettir vatni á annan lækninn.  Hann tjáði sig mjög skýrt að hann vildi ekki leggjast inn á geðdeild og þiggja meðferð.  Var honum þá gerð grein fyrir að hann yrði lagður inn á geðdeild FSA til nauðungarvistunar og meðferðar vegna alvarlegs geðsjúkdóms samkvæmt 48 klst. reglunni.  Hann reyndi þá að fara út en lögreglumenn sem voru á staðnum stöðvuðu hann...“  

           Í læknisvottorðinu er skráð að sjúkdómsgreining sóknaraðila sé: „Manic psychosis (F31).  Niðurlag vottorðsins er sem hér segir:

 „Að mati undirritaðs er A mjög veikur af alvarlegu örlyndi (maníu) með geðrofi.  Hann hefur síðustu sólarhringa verið hátt stemmdur, með ranghugmyndir og hafa veikindi farið vaxandi.  Hann er órólegur, haldinn mikilli þráhyggju og sefur illa.  Hefur lítil tengsl við raunveruleikann og ekkert sjúkdómsinnsæi.  Upplausn er í tilfinningum hans og hann er mjög ósamvinnuþýður.  Hann er skipandi, ógnandi í hegðun og  því hættulegur sjálfum sér og öðrum.  Undirritaður telur því óhjákvæmilegt að nauðungarvista hann á geðdeild FSA.

Fyrrnefnd krafa barst Héraðsdómi Norðurlands eystra þann 12. ágúst sl. fyrir tilstilli ráðgjafa nauðungarvistaðs fólks á Akureyri, sem tilnefndur er af Dóms- og kirkjumálaráðuneytinu.  Af hálfu dómsins var óskað eftir vottorði frá forstöðumanni geðdeildar FSA, sbr. heimildarákvæði 11. gr., sbr. 4. mgr. 31. gr. lögræðislaga nr. 71, 1997. 

Liggur fyrir í málinu vottorð Karls Reynis Einarssonar geðlæknis, sem dagsett er 13. ágúst 2008.  Í upphafsorðum þess er áréttað að sóknaraðili sé ekkill, en hann hafi misst eiginkonu sína mjög skyndilega í desember sl., að hann eigi þrjár uppkomnar dætur og búi í eigin húsnæði.  Því er og lýst að sóknaraðili hafi verið lagður inn á geðdeild FSA vegna hratt versnandi einkenna um oflæti og hafi hann m.a. í viðtali þann dag haft orð á því að Guð hefði valið hann til að sameina öll trúarbrögð heimsins og að hann hefði náð að leysa lífsgátuna kvöldið fyrir innlögn er hann las Kóraninn.   Þá segir að umræddan innlagnardag hafi sóknaraðili verið metinn algjörlega innsæislaus á ástand sitt og því hafi ekki verið komist hjá því að nauðungarvista hann inn á geðdeild.  Við innlögn hafi hann verið ósamvinnuþýður og því hafi þurft að gefa honum  geðrofslyf, róandi lyf í sprautuformi gegn vilja hans.  Tekið er fram að undanfarna daga hafi sóknaraðili fallist á að þiggja lyf í töfluformi, geðrofslyf, en hann hafi þó látið það skýrt í ljós að hann væri ósáttur við að taka inn lyfin því að hann teldi sig ekki veikan.  Greint er frá því í vottorðinu að læknirinn hafi framkvæmt geðskoðun í tilefni af ósk Héraðsdóms um vottorð, þann 12. ágúst sl.  Greint er frá því að sóknaraðili hafi í viðræðum lýst aðdraganda innlagnarinnar á geðdeildina og þá m.a. vísað til fyrrnefndra tónleika og eftirmála þeirra, en einnig viðrað hugmyndir um alheimstrúarbrögð og verkefna hans á því sviði.  Segir um þetta nánar í vottorðinu:  „Þegar þessar hugmyndir voru kannaðar nánar sagði hann að allir þeir erfiðleikar sem hann hefði gengið í gegnum undanfarin misseri, starfslok, atvinnuleysi, og missir eiginkonu hefðu sannfært æðri máttarvöld um að hann væri öðrum fremur hæfur til þess að taka að sér þetta verkefni.  Hann sagðist hins vegar ekki vera með mótaðar hugmyndir á þessu stigi hvernig hann myndi takast á við þetta verk.  Það kom einnig fram í viðtalinu að fyrir innlögn var hann farinn að missa svefn og segist á sama tíma hafa liðið illa andlega.  Í viðtalinu kom ekki fram talþrýstingur.  A sýndi ekkert innsæi í sitt ástand.  Hann hafði fallist á að fara í blóðprufur um morguninn en innlagnardag hafði hann ekki fallist á að gangast undir líkamsskoðun hjá innleggjandi lækni.  Rætt var við hann að fara í tölvusneiðmynd af höfði til að kanna hvort að einhverjar líkamlegar orsakir gætu hugsanlega verið fyrir hans ástandi.  Hann neitaði að segja hvort að hann myndi þiggja slíka rannsókn eða ekki. A er áttaður á stað, stund og sjálfum sér.“  Lokaorð vottorðsins er svofellt: „Ég er sammála innleggjandi lækni að A er í manísku ástandi með geðrofseinkennum og uppfyllir greiningarskilmerki Alþjóða heilbrigðisstofnunarinnar, WHO, ICD 10 fyrir tvíhverfa lyndisröskun, yfirstandandi lota geðhæð með geðrofseinkennum, F31.2.  Hann hefur þurft að taka háa skammta af geðrofslyfjum til að ná tökum á ástandi hans.  Að mínu mati er brýnt að A hljóti áframhaldandi meðferð á geðdeild.   ... Í framhaldinu telur undirritaður ennfremur brýnt að A fáist til samstarfs um að gangast undir líkamsskoðun sem og tölvusneiðmynd af höfði til þess að útiloka líkamlegar orsakir fyrir veikindum hans.“

Á dómþingi þann 13. ágúst sl. gaf sóknaraðili skýrslu, en auk þess létu þá til sín taka skipaður verjandi hans og talsmaður varnaraðila. 

Álit dómsins.

Í máli þessu er einkum byggt á læknisvottorði Halls Þorgils Sigurðssonar, heilsugæslulæknis og heimilislæknis sóknaraðila, og læknisvottorði Karls Reynis Einarssonar, geðlæknis á geðdeild FSA. 

Verjandi sóknaraðila áréttaði við flutning kröfu hans hér að framan.  Vísaði hann sérstaklega til þess að í nefndum vottorðum hefði ekki eða fyllilega verið fjallað um miðakaup skjólstæðings hans á fyrrnefnda kirkjutónleika og hvort að lausn á þeim þætti gæti haft jákvæð áhrif á heilsufarsstöðu hans. 

Dómurinn fellst ekki á að nefnd málsástæða sóknaraðila eigi við rök að styðjast þannig að hún dragi úr réttmæti umræddra gagna.  Það er og álit dómsins að ekkert sé fram komið er hnekki mati áðurnefndra lækna, að sóknaraðili sé haldinn alvarlegum geðsjúkdómi, skorti á sjúkdómsinnsæi og að sjúkrahúsvist sé brýn.   Telur dómurinn því sannað að ástand sóknaraðila sé þannig að það uppfylli öll skilyrði 3. mgr., sbr. 2. mgr. 19. gr. lögræðislaga nr. 71, 1997 og því sé ekki tilefni til að hnekkja samþykki Dóms- og kirkjumálaráðuneytisins frá 9. ágúst sl.  Er því kröfu sóknaraðila hafnað.

Samkvæmt 31. gr., sbr. 17. gr. lögræðislaga ber að greiða þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila, Ólafs Rúnar Ólafssonar hdl., og skipaðs talsmanns varnaraðila, Arnbjargar Sigurðardóttur hdl., sem þykir hæfilega ákveðin til hvors um sig 62.250 krónur, að virðisaukaskatti meðtöldum, úr ríkissjóði.

Úrskurð þennan kveður upp Ólafur Ólafsson dómstjóri.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Hafnað er kröfu sóknaraðila, A, um að fellt verði úr gildi samþykki Dóms- og kirkjumálaráðuneytisins frá 9. ágúst 2008 til meðferðar á sjúkrahúsi, sbr. 3. mgr, sbr. 2. mgr. 19. gr. lögræðislaga nr. 71, 1997.

Þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila, Ólafs Rúnars Ólafssonar hdl., og þóknun skipaðs talsmanns varnaraðila, Arnbjargar Sigurðardóttur hdl., að fjárhæð 62.250 krónur, greiðist úr ríkissjóð.