Hæstiréttur íslands
Mál nr. 486/2008
Lykilorð
- Skuldamál
- Lögmaður
- Uppgjör
- Sératkvæði
|
|
Þriðjudaginn 7. apríl 2009. |
|
Nr. 486/2008. |
Lögskil ehf. (Hilmar Magnússon hrl.) gegn Filippusi Guðmundssyni
|
Skuldamál. Lögmenn. Uppgjör. Sératkvæði.
L krafði F um greiðslu tveggja reikninga vegna lögmannsþjónustu. Var fallist á höfuðstól kröfu L, en reikningarnir studdust við sundurliðaða vinnuskýrslu og gögn málsins. Hins vegar var F ekki gert að greiða dráttarvexti fyrr en við þingfestingu máls í héraði þar sem dráttur varð á því að L skilaði fullnægjandi gögnum reikningunum til stuðnings.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 5. september 2008. Hann krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 738.996 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 28. október 2005 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I
Eftir að stefndi hafði skilað greinargerð til Hæstaréttar féll þingsókn hans niður. Farið var með málið samkvæmt 4. mgr. 158. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og var það tekið til dóms að fenginni skriflegri sókn áfrýjanda.
Eins og fram kemur í héraðsdómi er áfrýjandi lögmannsstofa hæstaréttarlögmannanna Björns Ólafs Hallgrímssonar og Hilmars Magnússonar og var stefndi í viðskiptum við stofuna um árabil. Áfrýjandi krefur stefnda um greiðslu samkvæmt tveimur reikningum útgefnum 28. október 2005. Annar þeirra, nr. 1262, er að fjárhæð 444.118 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti. Þar kemur fram að hann varði: „Rekstur innheimtumáls á hendur Ós, eignarhaldsfélagi ehf. fyrir héraðsdómi og eftirfarandi fullnustutilraunir. Kröfulýsing í þrotabú og fl.“ Í nánari sundurliðun segir að „málfl.þóknun v/héraðsdóms“ sé 301.406 krónur, en kostnaður við „mót, kröfulýsingar, mótmæli og akstur“ sé 51.500 krónur og „útlagður kostnaður“ er sagður vera 4.750 krónur. Hinn reikningurinn, nr. 1263, er að fjárhæð 294.878 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti. Þar segir í texta: „Kærumeðferð fyrir lögreglustjóranum í Reykjavík og fyrir ríkissaksóknara v/meintrar fölsunar tryggingabréfs á Öldugötu 44 Rvík. (LRmál 010-2001-3199 og mál Ríkissaksóknara nr. 010-2002-1475) Lokið m/afstöðu Ríkissaksóknara.“ Sundurliðast hann nánar í „lögfræðiþjónusta“ 232.050 krónur og „akstur“ 1.200 krónur.
Áður hafði áfrýjandi gefið út tvo reikninga vegna vinnu sinnar í þágu stefnda og eru þeir báðir dagsettir 12. júlí 2001; annars vegar reikning nr. 112 að fjárhæð 149.400 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti þar sem segir í texta „ýmis lögfræðiþjónusta skv. verkbókhaldi“ og hins vegar reikning nr. 113 að fjárhæð 218.124 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti þar sem segir í texta: „Fasteignasöluaðstoð Þóknun v/aðstoð við sölu á Öldugötu o.fl. Akstur”. Stefndi greiddi síðastnefnda tvo reikninga í lok júlí 2001, hinn síðari með fyrirvara, en ekki nýtur við kvittunar vegna greiðslu á hinum reikningnum. Stefndi mun hafa gert athugasemdir við þessa reikninga og óskað eftir tímaskýrslum sem hann síðan mun hafa fengið afhentar.
Áfrýjandi höfðaði mál út af sömu kröfu á hendur stefnda 14. desember 2005. Málinu var vísað frá héraðsdómi án kröfu með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 10. maí 2007 sem staðfestur var í Hæstarétti með dómi 6. júní 2007. Ástæður frávísunar málsins var vanreifun áfrýjanda og tiltekið var sérstaklega í því sambandi að hann hefði ekki gert reka að því að tengja reikninga þá, sem voru grundvöllur kröfugerðar hans, vinnuskýrslu, eða gert grein fyrir vinnu að baki þeim reikningum, sem krafa hans byggði á.
II
Eins og nánar greinir í héraðsdómi reisir stefndi sýknukröfu sína einkum á því að krafa áfrýjanda sé óljós og umþrættir reikningar ekki studdir nægilega glöggum vinnuskýrslum. Stefndi hafi lokið öllum skilum við áfrýjanda með greiðslu reikninga nr. 112 og 113 í júlí 2001, en þá reikninga hafi hann greitt með fyrirvara. Þá byggir stefndi á því að áfrýjandi hafi sýnt af sér tómlæti. Áfrýjandi hafi látið hjá líða lengur en hæfilegt þyki að gefa út þá reikningana sem hér er deilt um og engin samskipti hafi verið á milli áfrýjanda og stefnda í langan tíma. Því hafi stefndi verið í góðri trú um að uppgjöri hafi verið lokið með greiðslu á reikningum nr. 112 og 113. Stefndi telur jafnframt að reikningagerð áfrýjanda samkvæmt reikningum 1262 og 1263 sé í engu samræmi við venju í fyrri viðskiptum þeirra. Þá bendir stefndi á að lögmaður á annarri lögmannsstofu hefði séð um málefni sín samkvæmt umboði 29. október 2002. Sá hefði óskað eftir gögnum frá áfrýjanda vegna vinnu hans í þágu stefnda, án árangurs.
Áfrýjandi kveðst hafa eftir föngum haldið aðgreint utan um vinnuframlag sitt fyrir stefnda vegna ýmissa verkefna. Í héraðsdómi eru tíundaðar skýringar áfrýjanda vegna umþrættra reikninga. Kemur þar meðal annars fram að hann hafi gert reikninga eftir lok hvers verkefnis fyrir það og þá óháð því hvernig vinnuframlag stóð í öðrum óloknum verkefnum. Áfrýjandi kveðst ekki hafa fengið vitneskju um að stefndi hafi leitað til fyrrgreinds lögmanns fyrr en um sumarmál 2004. Bendir hann á að hann hafi starfað fyrir stefnda eftir þann tíma. Áfrýjandi andmælir því jafnframt að stefndi eða lögmaðurinn hefðu óskað eftir gögnum frá honum vegna óafgreiddra mála eða tímaskýrslum vegna óuppgerðra reikninga fyrr en með bréfi 1. desember 2005.
III
Stefndi greiddi framangreinda reikninga nr. 112 og 113 í júlí 2001 og heldur því fram að með greiðslu þeirra hefði hann gert upp sínar skuldir við áfrýjanda. Af gögnum málsins er ljóst að áfrýjandi starfaði í þágu stefnda að hans ósk eftir að þessir reikningar voru greiddir. Stefndi mun hafa fengið tímaskýrslur frá áfrýjanda vegna þeirra, en þær lúta að annarri vinnu en áfrýjandi krefst greiðslu fyrir í þessu máli. Verður því ekki fallist á með stefnda að greiðsla þessara reikninga hafi falið í sér lokauppgjör milli aðila.
Samkvæmt gögnum málsins er reikningur nr. 1262 vegna vinnu áfrýjanda í tengslum við mál stefnda á hendur Ósi fasteignafélagi ehf. sem keypt hafði fasteign af stefnda að Öldugötu 44, Reykjavík en ekki staðið í skilum með kaupverð. Ritaði áfrýjandi innheimtubréf 6. desember 2000 og í framhaldi af því var höfðað dómsmál á hendur kaupandanum. Áfrýjandi kveðst hafa haldið utan um verkefni þetta í innheimtukerfi til að byrja með en þar sem málið hafi vikið frá stöðluðum ferlum innheimtukerfisins, þegar það hafi farið fyrir héraðsdóm, hafi það einnig verið skráð í tímaskrárkerfi áfrýjanda. Málinu lauk með dómsátt 31. október 2001 þess efnis að kaupandinn féllst á að greiða stefnda 3.850.000 krónur með tilgreindum dráttarvöxtum, auk 380.000 króna í málskostnað. Hinn 12. febrúar 2002 gaf stefndi áfrýjanda sérstakt umboð til að „lýsa kröfu minni í söluandvirði eignarinnar sbr. dómsátt í Héraðsdómi Reykjavíkur 31.10.2001 og gæta hagsmuna minna við uppboðið, þó þannig að honum er ekki heimilt að bjóða meira en kr. 12.000.000,00 í eignina.“ Innheimtutilraunir stefnda héldu því áfram og var fasteignin seld á nauðungaruppboði 12. febrúar 2002. Bú Óss eignarhaldsfélags ehf. var svo tekið til gjaldþrotaskipta 2. október 2002. Skiptum mun hafa lokið 2. júní 2003, án þess að stefndi fengi fullnustu kröfu sinnar. Lauk þá vinnu áfrýjanda vegna þessa máls. Þessi vinna áfrýjanda er nú tíunduð í sundurliðaðri vinnuskýrslu og styðst hún við gögn málsins.
Hinn reikningurinn nr. 1263 var vegna vinnu áfrýjanda sem hann innti af hendi frá 24. janúar 2001 til 11. október 2002 í tengslum við opinbera rannsókn vegna meintrar fölsunar á nafni stefnda á tryggingarbréf. Stefndi kom sjálfur nokkuð að þessu máli, en hann óskaði skriflega eftir því 24. janúar 2001 „að Björn Ólafur Hallgrímsson hrl. kæri umrædda fölsun til lögreglunnar auk þess sem bréfinu verði tafarlaust aflýst af eigninni.“ Í tilefni kærunnar mætti hann svo með Hilmari Magnússyni hæstaréttarlögmanni til skýrslugjafar á lögreglustöð 12. september 2001 og veitti rithandasýnishorn 23. janúar 2002 sem lögmaðurinn mun hafa sent lögreglu sama dag. Þá er vinna áfrýjanda vegna þessa máls einnig tíunduð í vinnuskýrslu hans, sem styðst við gögn málsins, en rannsókn lauk með ákvörðun ríkissaksóknara 10. október 2002 um að staðfesta ákvörðun lögreglustjóra um niðurfellingu málsins.
IV
Reikningarnir tveir, sem krafa áfrýjanda byggist á, voru gefnir út 28. október 2005. Tímaskýrslur að baki þeim voru fyrst lagðar fram við meðferð fyrra máls aðila fyrir héraðsdómi Reykjavíkur. Í gögnum málsins er að finna umboð frá stefnda til Sigurðar Guðmundssonar héraðsdómslögmanns 29. október 2001 til þess „að taka við öllum gögnum frá Hilmari Magnússyni, hdl. ... í þeim málum sem hann hefur verið að vinna í fyrir mig á liðnum árum.“ Gegn mótmælum áfrýjanda hefur stefndi ekki sýnt fram á að hann hafi fyrr en með bréfi 1. desember 2005 gert skriflegar athugasemdir við vinnu áfrýjanda og gert kröfu um afhendingu gagna. Verður því miðað við þá fullyrðingu áfrýjanda að hann hafi ekki fengið vitneskju um ætlað umboðsleysi sitt fyrr en um sumarmál 2004 eftir að vinnu hans fyrir stefnda var lokið. Samkvæmt þessu verður ekki annað séð en að áfrýjandi hafi unnið að þeim verkefnum sem greinir í reikningum nr. 1262 og 1263 að beiðni stefnda og að þeir séu ógreiddir. Með hliðsjón af því að hér var um föst viðskipti að ræða um margra ára bil þar sem áfrýjandi gerði stefnda reikninga eftir verkefnum verður ekki fallist á með stefnda að áfrýjandi hafi glatað kröfu sinni vegna tómlætis. Verður stefndi því dæmdur til að greiða höfuðstól stefnukröfu áfrýjanda.
Svo sem fyrr var rakið var fyrra máli áfrýjanda á hendur stefnda vísað frá dómi vegna vanreifunar. Með hliðsjón af því eru ekki efni til að dæma dráttarvexti af kröfu áfrýjanda fyrr frá þingfestingu máls þessa í héraði 13. nóvember 2007.
Með vísan til 3. mgr. 130. gr., sbr. 166. gr., laga nr. 91/1991 skal hvor aðili bera sinn kostnað af málinu á báðum dómstigum.
Dómsorð:
Stefndi, Filippus Guðmundsson, greiði áfrýjanda, Lögskilum ehf., 738.996 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 13. nóvember 2007 til greiðsludags.
Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.
Sératkvæði
Hjördísar Hákonardóttur
Lögmanni er rétt að áskilja sér hæfilegt endurgjald fyrir störf í þágu skjólstæðings, sbr. 24. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Lögmannafélag Íslands setur lögmönnum siðareglur samkvæmt 2. mgr. 5. gr. sömu laga. Í siðareglum lögmanna frá 17. mars 2000 segir að lögmanni beri að gera skjólstæðingi sínum grein fyrir áætluðum verkkostnaði og öðrum málskostnaði eftir föngum, sbr. 1. mgr. 10. gr. Uppgjör og skil lögmanns til skjólstæðings skulu vera greinargóð og hann skal láta honum í té sundurliðaðan reikning yfir verkkostnaði í hverju máli, eftir atvikum tímaskýrslu, sbr. 3. mgr. 14. gr. og 15. gr. reglnanna. Ágreiningur um endurgjald fyrir störf lögmanns verður lagður fyrir úrskurðarnefnd lögmanna eða dómstóla, en úrskurðarnefndin vísar slíku máli frá ef lengri tími en eitt ár er liðinn frá því að kostur var á að koma slíkum ágreiningi á framfæri við nefndina, sbr. 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998. Af öllu framangreindu leiðir að til góðra lögmannshátta heyrir að lögmenn gangi frá skilum við skjólstæðinga sína með skýrum hætti og án ástæðulauss dráttar. Með þessari athugasemd en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms tel ég að eigi að staðfesta hann en fella málskostnað fyrir Hæstarétti niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 6. júní 2008.
I
Mál þetta, sem dómtekið var 20. maí 2008, var höfðað 9. nóvember 2007. Stefnandi er Lögskil ehf., Suðurlandsbraut 48, Reykjavík, en stefndi er Filippus Guðmundsson, Lindargötu 57, Reykjavík.
Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda skuld að fjárhæð 738.996 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 28. október 2005 til greiðsludags. Þá krefst stefnandi þess að stefndi verði dæmdur til að greiða honum málskostnað.
Dómkröfur stefnda eru þær aðallega að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda en til vara að stefnukröfur verði lækkaðar stórlega. Þá krefst hann þess að stefnandi verði dæmdur til að greiða honum málskostnað að viðbættum virðisaukaskatti.
II
Stefnandi er lögmannsstofa Björns Ólafs Hallgrímssonar hrl. og Hilmars Magnússonar hrl. Veitti stefnandi stefnda lögfræðiþjónustu um árabil og komu báðir lögmenn lögmannsstofunnar að þeirri vinnu fyrir stefnda.
Meðal þeirra verkefna sem stefnandi vann fyrir stefnda var innheimtumál á hendur Ós eignarhaldsfélagi ehf. sem hafði keypt fasteign af stefnda að Öldugötu 44, Reykjavík, en ekki staðið í skilum með kaupverð. Framangreindu innheimtumáli lauk með dómsátt 31. október 2001. Umrædd fasteign var síðan seld á nauðungaruppboði 12. febrúar 2002 og var bú Óss eignarhaldsfélags ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta 2. október 2002. Skiptum var lokið 2. júní 2003 og var búið eignalaust.
Samkvæmt gögnum málsins lýsti stefnandi kröfum í uppboðsandvirði fasteignarinnar fyrir hönd stefnda og mótmælti frumvarpi til úthlutunar auk þess sem hann lýsti kröfu í þrotabú Óss eignarhaldsfélags ehf. fyrir hönd stefnda.
Þá liggur fyrir að stefnandi tók að sér að kæra til lögreglu fyrir hönd stefnda meinta fölsun á undirskrift stefnda á tryggingarbréf sem var með veði í fasteigninni Öldugötu 44. Sendi stefnandi beiðni um rannsókn til lögreglustjórans í Reykjavík hinn 26. janúar 2001 og lauk rannsókninni með niðurfellingu málsins 20. ágúst 2002. Þeirri niðurstöðu skaut stefnandi fyrir hönd stefnda til ríkissaksóknara sem staðfesti niðurstöðu lögreglu með bréfi 10. október 2002.
Hinn 29. október 2002 undirritaði stefndi umboð til Sveins Guðmundssonar hrl. þar sem honum er veitt umboð til að taka við öllum gögnum frá Hilmari Magnússyni, annars eiganda stefnanda.
Stefnandi krefur stefnda í þessu máli um greiðslu vegna framangreindra verkefna og byggir kröfur sínum á tveim reikningum sem hann gaf út 28. október 2005. Reikningur nr. 1262 að fjárhæð 444.116 krónur vegna innheimtumálsins sundurliðast svo:
|
Málflutningsþóknun v/héraðsdóms |
301.406 |
|
Mót vegna kröfulýsingar, mótmæli og akstur |
51.500 |
|
Útlagður kostnaður |
4.750 |
|
|
|
Reikningur nr. 1263 að fjárhæð 294.878 krónur vegna kærumeðferðarinnar sundurliðast svo:
|
Lögfræðiþjónusta 22,10 x 10.500 |
232.050 |
|
Akstur 4 x 1.200 |
4.800 |
Stefnandi gaf út tvo reikninga á stefnda hinn 12. júlí 2001, annars vegar reikning nr. 112 að fjárhæð 149.400 vegna ýmissar lögfræðiþjónustu og hins vegar reikning nr. 113 að fjárhæð 218.124 krónur vegna fasteignasöluaðstoðar, þóknunar við sölu á Öldugötu og fleira. Óumdeilt er að þessa reikninga greiddi stefndi og telur hann að hann hafi þar með gert upp skuld sína við stefnanda en stefnandi heldur því fram að þeir reikningar hafi verið vegna annarra verkefna en hann krefst greiðslu á í þessu máli.
Mál út af sömu kröfum stefnanda höfðaði hann á hendur stefnda 14. desember 2005. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur, uppkveðnum 10. maí 2007, var því máli vísað frá dómi ex officio vegna vanreifunar og var sú niðurstaða staðfest með dómi Hæstaréttar Íslands 6. júní 2007.
III
Stefnandi kveður verkefni sín fyrir stefnda hafa falist í ýmiss konar ráðgjöf og umsýslu tengdri fasteignum stefnda, meðal annars gerð samninga um leigu og sölu, riftunarmálum og innheimtu krafna.
Hafi ætíð verið haldið skipulega utan um vinnuframlag í þágu stefnda. Hafi það verið gert með tvennum hætti, annars vegar í innheimtukerfi stefnanda þegar um staðlaða innheimtuferla hafi verið að ræða og hins vegar í verkskýrslukerfi þegar um hafi verið að ræða ýmsa aðra þjónustu sem veitt var á grundvelli tímagjalds. Eftir föngum hafi vinnuframlagi verið haldið aðgreindu og yfirleitt gerður reikningur eftir lok hvers verkefnis þannig að ákveðinn reikningur tengdist ákveðnu verkefni, óháð því hvernig staðan væri á öðrum óloknum verkefnum. Þannig hafi ekki verið sjálfgefið að hver útgefinn reikningur fæli í sér allt það vinnuframlag sem stefnandi hefði innt af hendi í þágu stefnda fram að útgáfutíma reiknings. Það hafi þó komið fyrir að stefnda hafi verið gerður reikningur fram að ákveðnu tímamarki án þess að verkefni væri lokið. Þóknun hafi ætíð verið reiknuð út frá fyrirliggjandi gögnum um vinnuframlag og samkvæmt gildandi gjaldskrá stefnanda. Þá hafi stefnandi viðhaft það verklag að þegar reikningur hafði verið gerður vegna vinnu hafi sú vinna verið færð á geymsluskrá en með því móti hafi verið komið í veg fyrir að rukkað væri aftur fyrir sömu vinnu.
Kveður stefnandi að í áranna rás hafi stefnda verið gerðir fjölmargir verkþáttatengdir reikningar en í undantekningartilvikum hafi honum verið gerðir áfangareikningar þótt verkefni væri ekki lokið. Þeir hafi hins vegar afmarkast af tilteknu tímabili og borið það glögglega með sér. Við útgáfu slíkra reikninga hafi þeirra verið getið sérstaklega í texta verkskýrslu á útgáfudögum slíkra reikninga en ekki við lok þess tímabils er reikningurinn hafi tekið til enda hefði það leitt til þess að þessar upplýsingar hefðu lent í geymsluskrá. Hafi stefndi ávallt greitt þá reikninga er honum hafi verið gerðir að frátöldum þeim tveim sem mál þetta fjalli um.
Reikningur nr. 1262 sé vegna reksturs máls stefnda á hendur Ósi eignarhaldsfélagi ehf. fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur, vegna vanefnda þess síðarnefnda á greiðslu kaupverðs fasteignar stefnda og eftirfarandi fullnustutilraunir í framhaldinu. Hafi gjaldþrotaskiptameðferð á búi Óss eignarhaldsfélags ehf. lokið 2. júní 2003 og hafi verkefni stefnanda fyrir stefnda að þessu leyti lokið í kjölfar þess er stefndi hafi verið látinn vita um þær málalyktir. Þannig hafi vinna við þetta verkefni staðið frá desember 2000 fram á mitt sumar 2003. Dómsmálinu hafi lokið með sátt en það hafi verið tekið fyrir fjórum sinnum hjá dómara.
Samkvæmt reikningnum sé stefndi annars vegar krafinn um greiðslu málskostnaðar samkvæmt dómsátt. Málskostnaður í sáttinni sé 380.000 krónur en innifalið í þeirri fjárhæð sé útlagður kostnaður 4.750 krónur, lögmannsþóknun 301.406 og virðisaukaskattur 73.844 krónur. Hins vegar sé í þessum sama reikningi gerð krafa um eftirfarandi vinnu við fullnustuaðgerðir á grundvelli sáttarinnar, mót, kröfulýsingar, ritun mótmæla og akstur. Þóknun fyrir þessa vinnuliði hafi numið 51.500 krónum auk virðisaukaskatts.
Reikningur nr. 1263 sé fyrir ráðgjafarvinnu vegna beiðni stefnda um opinbera rannsókn svo og nauðsynlega eftirfylgni vegna meintrar fölsunar nafns hans á tryggingabréf að fjárhæð 13 milljónir króna sem með hinni meintu fölsun hafði verið komið á fasteignina Öldugötu 44. Vegna þess að verulegur hluti kaupverðs fasteignarinnar hafi verið ógreiddur hafi ekki verið búið að gefa út afsal til Óss eignarhaldsfélags ehf. Nái reikningur þessi yfir verktímabil frá 24. janúar 2002 til 11. október 2002 og beri reikningurinn með sér hvert verkefnið hafi verið og umfang þess. Þá megi sjá af reikningnum að hann nái fram til loka árs 2002. Framangreinda þjónustu hafi stefndi beðið um og hafi hann haldið því fram að hann hefði hvergi nærri komið að útgáfu umrædds tryggingabréfs. Reikningur þessi byggi á framlagðri tímaskýrslu og sé heiti þessa verkefnis „FILIP. KÆRA“. Það hafi þótt heppilegra að hafa sérstakt heiti um verkið en fram að því hafi þetta verið skráð á verkefnaheitið „FILIPPUS G. “ Hafi stefndi ekki með fyrri reikningum verið krafinn um vinnu við þetta verkefni.
Reikningar nr. 112 að fjárhæð 149.400 krónur hafi verið fyrir 15 klst vinnu vegna ósérgreindrar lögfræðiþjónustu fram til loka aprílmánaðar 2001, eins og fram komi á reikningnum, og reikningur nr. 113 að fjárhæð 218.124 hafi verið fyrir afmarkað verkefni sem var aðstoð við sölu á Öldugötu 44 og fleira því tengt en síðar hafi komið upp ágreiningur milli stefnda og kaupanda fasteignarinnar um meinta galla á fasteigninni.
Stefnandi kveður Hilmar Magnússon hrl. hafa hitt núverandi lögmann stefnda á förnum vegi um sumarmál 2004 og hafi hann tilkynnt Hilmari að stefndi hefði falið honum að gæta hagsmuna sinna. Hafi löngu síðar komið á daginn að lögmaðurinn hefði fengið skriflegt umboð frá stefnda 29. október 2002 en það umboð hafi aldrei verið formlega kynnt stefnanda fyrr en undir rekstri fyrra máls aðila fyrir héraðsdómi. Hafi lögmanni stefnda verið tilkynnt við þetta tækifæri að stefndi væri í skuld við stefnanda sem gera þyrfti upp samhliða því að vinnugögn yrðu afhent nýjum lögmanni stefnda. Hafi dregist úr hömlu að nýr lögmaður gengi frá málunum sem stefnanda verði ekki um kennt.
Sé umstefnd viðskiptakrafa stefnanda vegna lögfræðiþjónustu sem stefndi hafi óskað eftir og hafi hún verið veitt í nánu samráði og samvinnu við hann. Geti stefnda ekki dulist til hvaða þjónustu reikningarnir taki en þeir séu studdir fjölmörgum sönnunargögnum. Sé stefndi að kröfurétti skuldbundinn til að greiða fyrir veitta þjónustu samkvæmt reikningum stefnanda byggðum á gjaldskrá hans sem stefnda hafi verið kunn í langvarandi viðskiptasambandi aðila. Hafi grundvelli reikninganna ekki verið hnekkt.
Um lagarök vísar stefnandi til almennra reglna samninga- og kröfuréttar um loforð og efndir fjárskuldbindinga/samninga. Þá sé málið endurhöfðað innan þess frests sem getið sé í 11. gr. laga nr. 14/1905. Um málskostnaðarkröfu vísar stefnandi til XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
IV
Stefndi byggir sýknukröfu sína á því fyrst og fremst að stefnandi eigi engar fjárkröfur á hendur honum. Sé krafa stefnanda verulega á reiki. Hann hafi aldrei lagt fram vinnuskýrslur með reikningum. Stefndi hafi ávallt þurft að hafa nokkuð fyrir því að kalla eftir staðfestingu á meintu vinnuframlagi með því að fá vinnuskýrslur til að bera saman við reikninga, fyrst með reikningum nr. 112 og 113 á árinu 2001 og síðar með reikningum nr. 1262 og 1263 á árinu 2005 en þær vinnuskýrslur hafi ekki verið lagðar fram fyrr en undir rekstri fyrra máls aðila fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.
Telji stefndi sig hafa lokið öllum skilum við stefnanda þessa máls með greiðslu á reikningi nr. 113 að fjárhæð 218.124 krónur hinn 30. júlí 2001. Skömmu áður hafi hann greitt reikning nr. 112 að fjárhæð 149.400 krónur.
Sé það viðurkennd höfuðregla að kröfuhafi verði að gæta réttar síns og halda honum til haga og verði hann að bera allan halla af vanrækslu sinni á því sviði. Með tómlæti sínu hafi stefnandi glatað kröfu sinni í þessu máli. Hafi hann látið hjá líða lengur en hæfilegt þyki, að gera einhverjar ráðstafanir sem venja mæli fyrir um til að tryggja meintan rétt sinn eða viðgang kröfunnar. Mæli rök með því að samskiptum milli aðila ljúki endanlega áður en mjög langt um líði frá réttum efndartíma þannig að aðilar geri upp mál sín innan hæfilegs frests. Réttarreglunum um tómlæti og tómlætisáhrif sé meðal annars ætlað að stuðla að þessu markmiði.
Verði að teljast mjög bagalegt gagnvart stefnda að vera knúinn til að greiða meinta skuld sem legið hafi niðri til margra ára. Hafi meint skuld verið til staðar gefi það stefnda tilefni til að ætla að stefnandi hafi gefið hana eftir vegna aðgerðarleysis.
Þá sé reikningsgerð stefnanda í þessu máli í engu samræmi við það sem áður hafði viðgengist gagnvart stefnda. Beri reikningar nr. 112 og 113 með sér að með útgáfu reiknings hafi stefnandi gert upp áfallna vinnu fyrir stefnda frá fyrri tíma í beinu framhaldi þegar vinnan var afstaðin.
Að mati stefnda sé einkennilegt að stefnandi hafi beðið með reikningsgerð þá sem um er fjallað í þessu máli í mörg ár út af afhendingu á gögnum. Fyrst stefnandi ætlaði að gera reikning fyrir meintri vinnu sinni í þágu stefnda hefði verið eðlilegt að hann hefði verið útgefinn á árinu 2002 eða í síðasta lagi 2004 þegar samskipti hafi átt sér stað milli lögmanna aðila sem stefnandi viðurkenni að hafi átt sér stað á árinu 2004.
Sé ljóst að þegar á árinu 2002 hafi stefndi verið kominn með nýjan lögmann sem óskað hafi eftir gögnum og öðru varðandi vinnu stefnanda í þágu stefnda. Þá þegar hefði stefnanda átt að vera ljóst að vatnaskil væru í samskiptum aðila og hefði þá átt að gera reikning vegna meintrar skuldar og skilyrða afhendingu gagna við greiðslu hans.
Verði krafa stefnda um sýknu ekki tekin til greina sé krafist verulegrar lækkunar og verði að leggja mat á vinnuframlag, með tilliti til þeirra hagsmuna sem hann hefur þar haft að gæta fyrir um það bil fimm árum síðan. Hafi stefnandi nánast eingöngu annast innheimtumál vegna vangoldinnar leigu fyrir stefnda og hafi önnur lögfræðileg vinna ekki komið til af hans hálfu í þágu stefnda fyrr en með sölu á fasteigninni Öldugötu 44. Hafi sú sala verið í höndum fasteignasala sem séð hafi um alla þætti málsins. Aðkoma stefnanda að þeirri sölu hafi verið til að tryggja framgang sölunnar þannig að tryggt væri að hagsmunum stefnda væri sem best borgið og að hann fengi að endingu greitt söluverðið. Hafi stefnandi áskilið sér nánast sömu fjárhæð fyrir vinnu sína og fasteignasalinn sem séð hafi um alla miðlun og skjalagerð. Hafi hagsmunum stefnda ekki verið nægilega gætt og hafi stefndi ekki fengið söluverð fasteignarinnar greitt nema að litlum hluta og hafi reikningar sem tengist með beinum og óbeinum hætti sölu fasteignarinnar ítrekað verið að berast honum, fyrst á árinu 2001 og síðan á árinu 2005.
Þá mótmæli stefndi þeirri aðferðafræði sem stefnandi virðist beita í málatilbúnaði sínum þegar hann skyndilega vísi til þess að hann beiti hagsmunatengdum árangri varðandi reikning 1262 að stærstum hluta en að hluta vísi hann til tímaskýrslu. Sé krafa stefnanda þannig á reiki og byggð á mismunandi uppgjörsleiðum án þess að um það hafi verið samið fyrir fram.
Kröfu um málskostnað kveðst stefndi byggja á 129. gr. og 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og kröfu um virðisaukaskatt á lögum nr. 50/1988.
V
Ekki er ágreiningur með aðilum um að stefnandi vann ýmis lögfræðistörf fyrir stefnda um árabil. Hefur stefnandi í málatilbúnaði sínum leitast við að reyna að útskýra hvernig hafi verið háttað reikningagerð vegna þeirra viðskipta. Hann heldur því fram að ætíð hafi verið haldið skipulega utan um vinnuframlag hans í þágu stefnda í nánar tilgreindum tveim tegundum kerfa sem stefnandi hafi til að halda utan um vinnuframlagið. Þá kemur fram hjá stefnanda að yfirleitt hafi stefnda verið gerður reikningur eftir lok hvers verkefnis fyrir sig en fyrir hafi þó komið að stefnda hafi verið gerður reikningur fram að ákveðnu tímamarki án þess að verkefni væri lokið og þá hafi þeir reikningar borið glögglega með sér fyrir hvaða tímabil reikningurinn væri.
Þeir reikningar sem mál þetta fjalla um bera ekki með sér, svo óyggjandi sé, hvenær sú vinna var unnin sem krafist er greiðslu fyrir. Hins vegar má af gögnum málsins ráða að vinna vegna reiknings 1263 vegna fölsunarmálsins hafi verið unnin frá janúar 2001, þegar meint fölsun var kærð, fram í október 2002, er rannsókn málsins var felld niður. Þá er ljóst að meginhluti reiknings 1262 varðar dómsmál sem stefnandi rak fyrir stefnda og lauk með dómsátt 31. október 2001. Þá bera gögn málsins með sér að vinnunni sem innt var af hendi í kjölfarið, var að mestu lokið í október 2002. Stefnandi heldur því fram að vinna vegna vanefnda kaupanda fasteignarinnar að Öldugötu 44 hafi staðið fram á sumar 2003 þegar hann hafi tilkynnt stefnda um skiptalok þrotabúsins í júní 2003. Hins vegar bera hvorki framlagðar vinnuskýrslur né dómskjal 20, sem stefnandi vísar til þessari kröfu til stuðnings, með sér að nokkur vinna hafi verið innt af hendi af hálfu stefnanda að þessu leyti eftir 21. október 2002 þegar stefnandi lýsti kröfu í þrotabú kaupandans. Kostnaðarliður reikningsins, að fjárhæð 51.500 krónur, samanstendur af kostnaði vegna uppboðs sem gögn bera með sér að hafi fallið til 12. febrúar 2002 og fyrrgreindrar kröfulýsingar að fjárhæð 5.000 krónur sem féll til 21. október 2002.
Vinnuskýrslur þær sem stefnandi hefur lagt fram í málinu eru mjög misvísandi og ægir þar saman færslum vegna ýmissa verkefna sem stefnandi hefur skráð á tímabilinu desember 1998 til október 2002 og verður ekki annað séð en að sömu skjöl séu að einhverju leyti lögð fram oftar en einu sinni í málinu. Er þessi framsetning stefnanda mjög til þess fallin að draga úr skýrleika málatilbúnaðar hans og vandséð hvaða tilgangi framlagning sumra þessara skjala á að þjóna þótt ekki þyki ástæða til að vísa málinu frá af þessum sökum.
Stefnandi gerði stefnda reikninga 12. júlí 2001 vegna lögfræðiþjónustu og aðstoðar við sölu á Öldugötu og fleira. Voru reikningar þessir greiddir af stefnda. Eins og að framan er rakið var stefnandi að vinna fyrir stefnda fram í október 2002 og þykir ljóst að eigi síðar en þá lauk þeim verkefnum sem stefnandi krefur stefnanda um greiðslu fyrir í þessu máli. Þá liggur fyrir að stór hluti krafna stefnanda varðar dómsmál sem lauk með sátt í lok október 2001. Gerði stefnandi þá ekki nokkurn reka að því að krefja stefnda um greiðslu sem þó mætti ætla að hefði verið eðlilegt miðað við fullyrðingar stefnanda í málatilbúnaði hans um að yfirleitt hafi verið gerður reikningur eftir lok hvers verkefnis. Stefnandi gerði stefnda hins vegar ekki reikninga fyrir meintum kröfum sínum fyrr en 28. október 2005 eða þremur árum eftir að hann lauk störfum fyrir stefnanda án þess að nokkur haldbær skýring hafi komið fram á þessum drætti og er allsendis ósannað að stefndi hafi átt nokkra sök þar á. Með þessu hefur stefnandi sýnt af sér stórfellt tómlæti varðandi það að halda fram kröfum sínum og þegar af þeirri ástæðu verður stefndi sýknaður af öllum kröfum stefnanda.
Eftir atvikum þykir þó rétt að hvor aðila beri sinn hluta kostnaðar af máli þessu.
Af hálfu stefnanda flutti málið Björn Ólafur Hallgrímsson hrl. en af hálfu stefnda flutti málið Sveinn Guðmundsson hrl.
Greta Baldursdóttir héraðsdómari kveður upp dóminn.
D Ó M S O R Ð
Stefndi, Filippus Guðmundsson, er sýknaður af öllum kröfum stefnanda, Lögskila ehf., í máli þessu.
Málskostnaður fellur niður.