Hæstiréttur íslands

Mál nr. 96/2006


Lykilorð

  • Kærumál
  • Opinber skipti
  • Félagsbú


Fimmtudaginn 2

 

Mánudaginn 27. febrúar 2006.

Nr. 96/2006.

Guðjón B. Guðmundsson

(Helgi Birgisson hrl.)

gegn

Guðmundi Flosa Guðmundssyni og

Guðmundi Jónssyni

(Karl Axelsson hrl.)

 

Kærumál. Opinber skipti. Félagsbú.

Kröfu GBG um opinber skipti á félagsbúinu E á grundvelli 1. mgr. 116. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o. fl. var hafnað þar sem samningur um félagsbúið áskildi að meirihluti félagsmanna réði félagsslitum. Gat GBG því ekki knúið fram opinber skipti á félagsbúinu upp á sitt eindæmi.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Hrafn Bragason, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 6. febrúar 2006, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 15. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Vesturlands 31. janúar 2006, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að fram færu opinber skipti á félagsbúinu að Emmubergi, Dalabyggð. Kæruheimild er í 1. mgr. 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og framangreind krafa hans um opinber skipti nái fram að ganga. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðilar krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar til hvors þeirra um sig.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Sóknaraðili greiði varnaraðilum kærumálskostnað, svo sem nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Guðjón B. Guðmundsson, greiði varnaraðilum, Guðmundi Flosa Guðmundssyni og Guðmundi Jónssyni, hvorum um sig 50.000 krónur í kærumálskostnað.                                                                                                                                                                                                                                                      

 

Úrskurður Héraðsdóms Vesturlands 31. janúar 2006.

Mál þetta var þingfest 20. desember 2005 og tekið til úrskurðar 23. janúar 2005. Sóknaraðili er Guðjón B. Guðmundsson, Seljalandi í Dalabyggð, en varnaraðilar eru Guðmundur Jónsson og Guðmundur Flosi Guðmundsson, báðir til heimilis að Emmubergi í Dalabyggð.

Sóknaraðili gerir þá kröfu að fram fari opinber skipti á félagsbúinu Emmubergi, kt. 550390-3459, Emmubergi í Dalabyggð. Jafnframt krefst sóknaraðili málskostnaðar úr hendi varnaraðila.

Varnaraðilar krefjast þess að kröfu sóknaraðila um opinber skipti verði hrundið og að honum verði gert að greiða málskostnað.

I.

Með bréfi 20. nóvember 2005 gerði sóknaraðili þá kröfu að Emmubergsbúið yrði tekið til opinberra skipta á grundvelli 116. gr. laga um skipti á dánarbúum o.fl., nr. 20/1991. Málið var þingfest 20. desember sama ár, en við þá fyrirtöku var sótt þing af hálfu varnaraðila og kröfu um opinber skipti andmælt. Með vísan til 120. gr., sbr. 5. mgr. 117. gr. og 3. mgr. 44. gr. laga nr. 20/1991 var mál þetta því þingfest til að leysa úr þeim ágreiningi.

II.

Hinn 3. nóvember 1986 gerður málsaðilar með sér samning um rekstur félagsbús að Emmubergi og Laxárdal á Skógarströnd í Snæfellsnessýslu. Eru málsaðilar feðgar en varnaraðili Guðmundur Jónsson er faðir sóknaraðila og varnaraðila Guðmundar Flosa. Efnisákvæði félagsbússamningsins eru svohljóðandi:

Rekstrar og tekjuhlutfall er 33,33%

Eignarhluti er breytilegur og jafnast til tekna með auknu vinnuframlagi þeirra er minni hlut eiga hverju sinni, eignarhluti hvers rekstararaðila færist á landbúnaðarskýrslu hvert ár.

Ákvarðanataka um málefni er háð samkomulagi hverju sinni.

Félagsslitum ræður meirihluti.

Ábyrgð skulda eignaraðild á hverjum tíma.

Rekstur íbúðarhúsnæðis, útvarps, síma og mötuneytis sameiginlegur.

Innlegg afurða búsins getur farið eftir samkomulagi inn á sameiginlegan reikning búsins, reikninga á nöfnum aðila og svo annarra fjölskyldumeðlima og færst þá sem reiknuð laun á landbúnaðarframtali.

Vinna utan bús fellur ekki undir rekstur félagsbúsins.

Búið gerir sér landbúnaðarskýrslu og ber að óskiptu fasteignaskatta, aðstöðugjald og tryggingar.

Heiti félagsbúsins er “EMMUBERGSBÚIГ.

Í beiðni sóknaraðila um opinber skipti kemur fram að síðustu ár hafi skipting eignarhluta í búinu verið þannig að sóknaraðili og varnaraðili Guðmundur Flosi farið með sitt hvort 40% hlut en varnaraðili Guðmundur Jónsson með 20% hlut. Heldur sóknaraðili því fram að varnaraðili Guðmundur Jónsson hafi einhliða gert þá breytingu á landbúnaðarskýrslu sem fylgdi skattframtali ársins 2005 að lækka eignarhlut sóknaraðila í 35% en hækka sinn hlut sem því nam.

Einnig kemur fram í skiptabeiðni að málsaðilar hafi verið sameigendur að jörðunum Emmubergi og Laxárdal en félagsbúið hafi annast rekstur jarðanna. Með kaupsamningi 15. júlí 2005 hafi sóknaraðili selt eignarhlut sinn í jörðunum, en sameigendur hans nýtt sér forkaupsrétt og síðan selt Kristínu Guðmundsdóttur, dóttur varnaraðila Guðmundar Jónssonar, eignarhluta í jörðunum. Eignarhald jarðanna mun nú vera þannig að þær eru í jafnri eign systkinanna Kristínar og varnaraðila Guðmundar Flosa.

Sóknaraðili rekur nú bú á Seljalandi í Dalabyggð og telur hann óhjákvæmilegt að krefjast opinberra skipta á félagsbúinu þar sem ekki hafi orðið að samkomulagi að varnaraðilar leystu til sín hlut sóknaraðila í búinu.

III.

Sóknaraðili heldur því fram að fullnægt sé öllum skilyrðum 116. gr. laga um skipti dánarbúa o.fl., nr. 20/1991, til að fallist verði á kröfu hans um opinber skipti. Vísar sóknaraðili til þess að félagsbú samkvæmt jarðalögum sé stofnað í fjárhagslegum tilgangi um atvinnustarfsemi og því sé búið í eðli sínu sameignarfélag með ótakmarkaðri ábyrgð félagsmanna á skuldbindingum þess.

Sóknaraðili hafnar því að félagsbússamningurinn verði skilinn þannig að ábyrgð málsaðila út á við sé skipt eftir eignarhlutföllum. Þannig komi aðeins fram í samningnum að ábyrgð fylgi eignaraðild á hverjum tíma án þess að nokkuð sé vísað til eignarhlutfalla. Því geti eignarhlutföllin eingöngu haft áhrif við innbyrðis uppgjör milli aðila.

Þá telur sóknaraðili að félagsbússamningurinn útiloki ekki opinber skipti þótt þar komi fram að meirihluti ráði félagsslitum. Telur sóknaraðili að þetta ákvæði hindri aðeins að félagsmaður geti leyst upp búið en komi ekki í veg fyrir að félagsmaður geti leyst hlut sinn úr félaginu með opinberum skiptum.

IV.

Varnaraðilar vísa til þess að bú félags verði ekki tekið til skipta á grundvelli 1. mgr. 116. gr. laga um skipti á dánarbúum o.fl., nr. 20/1991, nema allir félagsmenn beri ótakmarkaða ábyrgð á skuldum félagsins. Þessu skilyrði telja varnaraðilar ekki fullnægt þar sem ábyrgð málsaðila út á við á skuldum búsins sé takmörkuð samkvæmt félagsbússamningi við eignaraðild. Þannig sé ábyrgðin skipti (pro rata) miðað við eignarhlutföll en ekki ótakmörkuð (in solidum) á öllum skuldum búsins. Varnaraðilar hafna því að félagsbússamningurinn taki eingöngu til innbyrðis ábyrgðar félagsmanna, enda leiði af sjálfu sér og sé óþarft að taka fram að uppgjör þeirra á milli ráðist af eignarhlutföllum. Þá vísa varnaraðilar til þess að félagafrelsið sé varið af 74. gr. stjórnarskrár, en í því felist að félagsmenn ráði fyrirkomulagi og eðli félagsins, þar með talið um ábyrgð félagsmanna á skuldum út á við. Jafnframt telja varnaraðilar með öllu haldlausa þá fullyrðingu sóknaraðila að félagsbú sé í eðli sínu sameignarfélag með ótakmarkaða ábyrgð.

Varnaraðilar telja einnig að ekki sé fullnægt því skilyrði 1. mgr. 116. laga nr. 20/1991 að einn maður geti krafist slita á félaginu. Halda varnaraðilar því fram að félagsbússamningurinn standi þessu í vegi þar sem í honum sé gerður áskilnaður um að meirihluti félagsmanna þurfi að standa að félagsslitum. Þannig geti sóknaraðili ekki upp á sitt eindæmi þvingað fram slit á félagsbúinu með opinberum skiptum.

V.

Með félagsbúi í skilningi jarðalaga er átt við bú þar sem tveir eða fleiri einstaklingar gera með sér samning um að standa sameiginlega að búrekstri á einu eða fleiri lögbýlum, enda hafi aðilar félagsbúsins meiri hluta tekna sinna af rekstri félagsbúsins og séu allir búsettir á viðkomandi lögbýli/lögbýlum, sbr. 8. mgr. 2. gr. laga nr. 81/2004 og 2. mgr. 25. gr. eldri jarðalaga nr. 65/1976.

Samkvæmt 2. mgr. 25. gr. laga nr. 81/2004 ber að gera skriflegan félagsbússamning og þar skal meðal annars tilgreina hvernig fari um ákvarðanatöku um málefni búsins og hvernig slitum þess skuli háttað. Samhljóða ákvæði að þessu leyti var að finna í 1. mgr. 27. gr. eldri laga nr. 65/1976.

Í samningi málsaðila um Emmubergsbúið frá 3. nóvember 1986 kemur fram að ákvarðanataka um málefni búsins sé háð samkomulagi hverju sinni. Þá segir að meirihluti ráði félagsslitum.

Samkvæmt 1. mgr. 116. gr. laga um skipti dánarbúa o.fl., nr. 20/1991, getur félagsmaður í félagi þar sem félagsmenn bera ótakmarkaða ábyrgð á skuldum þess krafist opinberra skipta til slita á félaginu að því leyti sem lög heimila og félagssamþykktir eða aðrir löggerningar standa því ekki í vegi. Þar sem félagsbússamningur um Emmubergsbúið áskilur að meirihluti ráði félagsslitum getur sóknaraðili ekki upp á sitt eindæmi knúið fram opinber skipti á félaginu, enda leiðir óhjákvæmilega af opinberum skiptum að búinu sem slíku verði slitið. Þegar af þessari ástæðu og án þess að skera þurfi úr um hvernig hagað sé ábyrgð málsaðila út á við vegna búsins verður krafa sóknaraðila um opinber skipti ekki tekin til greina.

Eftir þessum málsúrslitum verður sóknaraðila gert að greiða varnaraðilum málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn svo sem í úrskurðarorði greinir.

Benedikt Bogason, héraðsdómari, kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Kröfu sóknaraðila, Guðjóns B. Guðmundssonar, um opinber skipti á Emmubergsbúinu er hafnað.

Sóknaraðili greiði varnaraðilum, Guðmundi Flosa Guðmundssyni og Guðmundi Jónssyni, hvorum um sig 30.000 krónur í málskostnað.