Hæstiréttur íslands

Mál nr. 383/1998


Lykilorð

  • Gjaldþrotaskipti
  • Gjöf
  • Fjármál hjóna


                                                                                                                 

Fimmtudaginn 29. apríl 1999.

Nr. 383/1998.

Hulda Hendrikka Waage

(Björgvin Þorsteinsson hrl.)

gegn

þrotabúi Ágústs Sverrissonar

(Guðjón Ármann Jónsson hrl.)

Gjaldþrotaskipti. Gjöf. Fjármál hjóna.

Á, eiginmaður H, var eigandi að íbúðinni G þegar hún var seld. Tæpum þremur árum síðar var bú Á tekið til gjaldþrotaskipta. Eina eign búsins var innistæða á bankareikningi. Bar Á að eiginkona sín hefði átt helming íbúðarinnar G og hefði eignarhluta hennar verið varið til kaupa á íbúðinni M og að auki hafi mismunurinn verið lagður inn á bankareikning sem fyrir misskilning hefði verið í nafni beggja. Höfðaði þrotabú Á mál til riftunar á gjöf Á til H. Krafist var frávísunar málsins á grundvelli þess að kröfur væru óskýrar og í ósamræmi hvor við aðra. Var ekki fallist á frávísunarkröfuna. Talið var að greiðslur Á til H hefðu verið gjöf og að kaupmáli milli Á og H hefði ekki verið gerður um gjöf í samræmi við 30. gr. þágildandi laga nr. 20/1923. Var staðfest niðurstaða héraðsdóms um að gjöf Á til H væri ógild.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Arnljótur Björnsson og Gunnlaugur Claessen.

Áfrýjandi skaut til Hæstaréttar 11. september 1998 dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í málinu 16. júní 1998 og auk þess úrskurði dómsins 19. mars sama árs, þar sem hrundið var kröfu áfrýjanda um að því yrði vísað frá dómi. Áfrýjandi krefst aðallega frávísunar málsins frá héraðsdómi, auk málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Til vara krefst hann sýknu af öllum kröfum stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Til þrautavara krefst hann að krafa stefnda verði lækkuð og málskostnaður felldur niður.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I.

Frávísunarkrafa áfrýjanda er einkum studd þeim rökum að kröfugerð stefnda sé óskýr og að kröfur hans um ógildingu og greiðslu séu ekki í samræmi hvor við aðra. Kröfugerðin sé því andstæð ákvæðum d., e. og f. liða 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Stefndi hefur breytt kröfugerð sinni frá því, sem var í fyrra máli aðilanna vegna sömu lögskipta, en því var vísað frá héraðsdómi með dómi Hæstaréttar, sem birtur er í dómasafni 1997, bls. 4. Stefndi krefst í fyrsta lagi ógildingar á gjöf eiginmanns áfrýjanda, Ágústs Sverrissonar, sem fólst í því að hann hafi afhent áfrýjanda fé, er hann fékk fyrir íbúð sína að Garðsenda 12 í Reykjavík samkvæmt kaupsamningi gerðum 25. ágúst 1992. Svo sem fram kemur í héraðsdómi sundurliðar stefndi söluverð íbúðarinnar og greinir frá hvenær greiðslur á því áttu að berast Ágústi eftir ákvæðum kaupsamningsins og í hvaða formi þær voru, en þær námu samtals 6.700.000 krónum. Stefndi kveður sannað með gögnum málsins, að Ágúst hafi gefið áfrýjanda helming þessarar fjárhæðar og krefst því ógildingar á peningagjöf að fjárhæð 3.350.00 krónur.

Ekki liggur fyrir hvenær áfrýjandi fékk fé þetta í hendur og miðar stefndi því eftir framansögðu kröfur sínar við þá gjalddaga, sem inna átti greiðslur af hendi samkvæmt ákvæðum kaupsamningsins. Verður ekki séð að stefndi geti að þessu leyti hagað kröfugerð sinni á annan hátt, þar sem áfrýjandi hefur ekki lagt fram gögn til stuðnings staðhæfingum sínum um að greiðslur til sín hafi ekki borist með þeim hætti, sem stefndi leggur til grundvallar.

Stefndi krefst í öðru lagi að áfrýjanda verði gert að greiða sér 2.850.000 krónur ásamt dráttarvöxtum, en þetta er 500.000 krónur lægri fjárhæð en ógildingarkrafan nemur. Skýrist sá mismunur með því, að í héraði krafðist stefndi einnig viðurkenningar á að hann einn væri eigandi peninga, sem lagðir voru á tiltekinn reikning við Búnaðarbanka Íslands á árinu 1993, alls að fjárhæð 1.000.000 krónur, en áfrýjandi væri ekki sameigandi hans að fénu. Svarar helmingur þeirrar fjárhæðar, 500.000 krónur, til greinds mismunar. Verður því að telja þennan hluta kröfugerðar stefnda nægilega skýran til að efnisdómur verði lagður á hann.

Samkvæmt þessu er fallist á þá niðurstöðu héraðsdómara í hinum áfrýjaða úrskurði 19. mars 1998, að stefndi hafi með stefnu í héraði bætt úr annmörkum, sem kröfugerð hans í fyrra dómsmáli aðilanna var haldin. Verður úrskurðurinn því staðfestur.

II.

Svo sem greinir í héraðsdómi var eiginmaður áfrýjanda, Ágúst Sverrisson, þinglýstur eigandi að áðurnefndri íbúð í húsinu að Garðsenda 12, er hann seldi hana. Í skýrslu, sem hann gaf fyrir skiptastjóra stefnda 30. maí 1995, bar hann að „eignahluti konu sinnar” af söluverði íbúðarinnar hafi gengið til kaupa á íbúð að Melhaga 17, sem áfrýjandi keypti á árinu 1993. Að auki hafi mismunur verið lagður inn á reikning í Búnaðarbanka Íslands „sem eign konunnar þótt skráð væri á nafn þeirra beggja hvað hann segir hafa verið á misskilningi byggt.” Í skýrslu fyrir skiptastjóra 28. september 1995 kvað Ágúst áfrýjanda hafa fengið rúmlega helming söluverðs íbúðarinnar að Garðsenda 12, líklega 3.400.000 krónur. Áfrýjandi staðfesti í skýrslu fyrir skiptastjóra sama dag að andvirði íbúðarinnar, 6.700.000 krónur, hafi verið skipt milli sín og Ágústs. Hafi hvort þeirra fengið liðlega 3.000.000 krónur, þegar dreginn hafi verið frá kostnaður og afföll af húsbréfum.

Sýknukrafa áfrýjanda er reist á fimm málsástæðum. Í fyrsta lagi að ekki hafi verið um gjöf að ræða, heldur endurgreiðslu á láni eða útborgun á eignarhluta áfrýjanda í fasteign Ágústs að Garðsenda 12. Með vísun til þess, sem áður var rakið, og forsendna héraðsdóms er fallist á, að ljóst sé að umdeildar greiðslur hafi verið gjöf frá Ágústi til áfrýjanda, enda var hann einn þinglýstur eigandi að íbúðinni og hefur áfrýjandi ekki sannað að nein framlög hafi komið úr hans hendi til kaupa á íbúðinni.

Í annan stað ber áfrýjandi fyrir sig, að þótt greiðslurnar yrðu taldar gjöf hafi kaupmáli verið gerður um hana 15. mars 1993 og hafi hún því verið gild. Í kaupmála þessum segir að 27,5% fasteignarinnar Melhaga 17 skuli vera séreign áfrýjanda. Með kaupmálanum var verið að kveða svo á, að tilteknir fjármunir, sem virðast hafa verið hjúskapareign áfrýjanda, yrðu eftirleiðis séreign hans, sbr. heimild í 29. gr. þágildandi laga nr. 20/1923 um réttindi og skyldur hjóna með áorðnum breytingum. Var kaupmálinn því ekki gerður um gjöf með þeim hætti, sem um ræddi í 30. gr. nefndra laga. Af þeim sökum er ekki hald í þessari málsástæðu áfrýjanda.

Í þriðja lagi reisir áfrýjandi sýknukröfu sína á því að stefndi sé ekki réttur aðili málsins, því skuldheimtumenn þess, sem lét af hendi gjöf, geti einir leitað endurgreiðslu andvirðis hennar, sbr. 33. gr. laga nr. 20/1923. Gjaldþrotaskipti eru sameiginleg fullnustugerð allra skuldheimtumanna. Orkar því ekki tvímælis að stefndi geti átt aðild að kröfum þeim, sem hann hefur uppi í málinu.

Fjórða málsástæða áfrýjanda er sú, að andvirði hafi komið fyrir gjöfina og beri því að sýkna hann af kröfum stefnda. Þar sem áfrýjandi hefur ekki stutt málsástæðu þessa viðhlítandi rökum, verður ekki fallist á hana.

Í fimmta lagi ber áfrýjandi fyrir sig að Ágúst hafi haldið eftir nægum efnum til greiðslu skuldbindinga sinna, þrátt fyrir gjöfina. Áfrýjandi hefur engar sönnur fært að þeirri staðhæfingu. Verður því ekki fallist á þessa málsástæðu.

Samkvæmt framansögðu verður hvorki fallist á varakröfu áfrýjanda um sýknu né þrautavarakröfu hans um lækkun á kröfu stefnda.

Fyrir Hæstarétti var því lýst yfir að við meðferð málsins í héraði hafi stefndi breytt vaxtakröfu sinni í það horf, sem fram kemur í dómsorði héraðsdóms. Stefndi hefur ekki krafist endurskoðunar á málskostnaðarákvæði héraðsdóms. Verður dómurinn því staðfestur.

Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti, eins og segir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Hulda Hendrikka Waage, greiði stefnda, þrotabúi Ágústs Sverrissonar, 300.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 16. júní 1998.

Mál þetta, sem tekið var til dóms 19. maí s.l., er höfðað með stefnu útgefinni 16. apríl 1997 og birtri 22. apríl 1997.

Stefnandi er þrotabú Ágústs Sverrissonar, kt. 130831-2069, Suðurlandsbraut 30, Reykjavík.

Stefnda er Hulda Hendrikka Waage, kt. 100633-4349, Melhaga 17, Reykjavík.

Dómkröfur stefnanda eru þær að ógilt verði með dómi gjöf Ágústs Sverrissonar til eiginkonu sinnar, stefndu Huldu, á peningum er hann fékk sem greiðslu vegna sölu fast­eignar sinnar að Garðsenda 12, Reykjavík, í fyrsta lagi helmingshluta greiðslu að fjárhæð 345.000 krónur sem innt var af hendi við undirritun kaupsamnings 25. ágúst 1992, í öðru lagi helmingshluta peningagreiðslu er hann fékk samkvæmt kaupsamningi 1. október 1992 að fjárhæð 1.000.000 krónur, í þriðja lagi helmingshluta peningagreiðslu er hann fékk samkvæmt kaupsamningi 1. janúar 1993 að fjárhæð 1.000.000 krónur, í fjórða lagi helming af andvirði fasteignaveðbréfs útgefnu 21. ágúst 1992 að fjárhæð 4.355.000. Alls er því krafist ógildingar á gjöf á peningum að fjárhæð 3.350.000.

Þess er einnig krafist að viðurkennt verði með dómi að stefnandi sé réttur eigandi allrar innistæðu stjörnubókar nr. 650349 í Austurbæjarútibúi Búnaðarbanka Íslands, sem stofnað var til annars vegar með innborgun að fjárhæð 700.000 krónur 11. maí 1993 og hins vegar með innborgun að fjárhæð 300.000 krónur 6. ágúst 1993.

Þá er þess krafist að stefnda Hulda verði dæmd til að greiða þrotabúinu 2.850.000 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga frá 22. apríl 1997 til greiðsludags.

Að lokum krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefndu auk virðisaukaskatts.

Dómkröfur stefnda eru þær aðallega að stefnda verði sýknuð af öllum kröfum stefnanda og stefnandi verði dæmdur til að greiða ríflegan málskostnað að mati dómsins. Til vara krefst stefnda þess að dómkröfur stefnanda verði stórlega lækkaðar og málskostnaður felldur niður.

Málavextir

Málavextir eru þeir að með kaupsamningi undirrituðum 25. ágúst 1992 seldi Ágúst Sverrisson, eiginmaður stefndu, fasteign sína að Garðsenda 12 hér í borg. Umsamið kaupverð var 6.700.000 krónur og skyldu kaupendur greiða seljanda 2.345.000 krónur í peningum á nánar tilteknum gjalddögum og að auki skyldi kaupandi gefa út fasteignaveðbréf að fjárhæð 4.355.000 krónur, en samkvæmt afsali var veðbréfið gefið út 21. ágúst 1992.  Afsal var gefið út 13. maí 1993.

Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur var bú Ágústs tekið til gjaldþrotaskipta 28. apríl 1995 og er frestdagur við skiptin 23. febrúar sama ár. Eina eignin sem komið hefur fram í búinu er innistæða á sparisjóðsbók í Búnaðarbanka Íslands sem skráð er á nafn þrotamanns og stefndu. Innistæðan nam 1.109.705.34 krónum 26. júní 1996. Við skýrslutöku af þrotamanni 30. maí 1995 kvaðst hann vera eignalaus. Hann kvað sig og konu sína hafa átt íbúð að Garðsenda 12, skráða á hans nafn. Eignahluti konunnar hafi gengið til kaupa á íbúð á Melhaga 17 árið 1993, hafi kaupverð verið 7,4 milljónir króna og hafi mismunur verið lagður inn á stjörnubók í Búnaðarbanka Íslands sem eign konunnar en fyrir misskilning hafi hún verið skráð á nafn þeirra beggja. Þrotamaður kvað eiginkonu sína hafa átt einhverja fjármuni sem arf eftir föður sinn sem hafi verið notaðir til kaupa á eigninni að Melhaga. Samkvæmt gögnum málsins voru lagðar 700.000 krónur inn á umrædda stjörnubók 11. maí 1993 og 300.000 krónur 6. ágúst sama ár.

Stefnda gaf skýrslu hjá skiptastjóra 28. september 1995. Skýrði hún svo frá að þau hjónin hafi áður átt íbúð í Mávahlíð sem einnig hafi verið eingöngu á nafni Ágústs. Þegar Garðsendaíbúðin var seld hafi lán sem á henni hvíldu verið flutt yfir á fasteign tengdamóður hennar, þar sem kaupandi hafi ekki viljað yfirtaka áhvílandi lán. Stefnda sagði þau Ágúst hafa skipt söluandvirði Garðsendans til helminga og hafi hún notað af því fé til greiðslu kaupverðsins á Melhaga. Stefnda var ekki viss um hvaða peningar voru á stjörnubókinni.

Þrotamaður skýrði svo frá hjá skiptastjóra 28. september 1995 að stefnda hafi fengið rúman helming í Garðsenda á móti honum, líklega 3,4 milljónir kr. Þrotamaður mundi ekki eftir ráðstöfun húsbréfa er komu vegna sölu Garðsendans, en hann taldi stefndu hafa fengið eitthvað. 

Samkvæmt gögnum málsins gerðu Ágúst og stefnda með sér kaupmála 15. mars 1993, en samkvæmt honum varð fasteignin að Melhaga 17 hér í borg séreign stefndu

Sama sakarefni og hér um ræðir hefur verið til meðferðar fyrir dóminum áður, sbr. mál nr. E-1426/1996, en því máli var vísað frá með úrskurði uppkveðnum 27. nóvember 1996 og var talið að málshöfðunarfrestur 1. mgr. 148. gr. laga nr. 21/1991 væri liðinn. Með dómi Hæstaréttar Íslands upp kveðnum 3. janúar 1997 var frávísunarúrskurðurinn staðfestur og var að hluta til byggt á því að málshöfðunarfrestur væri liðinn, en að öðru leyti var ekki fallist á að tilteknar kröfur sóknaraðila væru riftunarkröfur í skilningi XX. kafla laga nr. 21/1991 og eigi að sæta frávísun vegna ákvæðis 1. mgr. 148. gr. laganna. Í máli þessu gerði stefnda kröfu um frávísun en henni var hrundið með úrskurði upp kveðnum 19. mars s.l.

Málsástæður og lagarök

Stefnandi byggir kröfur sínar um ógildingu gjafagernings á því að gjöf Ágústs til stefndu á helmingi af söluverðmæti fasteignar sinnar að Garðsenda 12, sem var hjúskapareign hans, sé ógild og óskuldbindandi fyrir stefnanda og kröfuhafa í þrotabúið, þar sem ekki hafi verið gerður kaupmáli um gjöfina eins og lögskylt er til að gjöfin sé gild og hafi skuldbindingargildi samkvæmt 1. mgr. 30. gr., sbr. 32. gr. laga nr. 20/1923 um réttindi og skyldur hjóna, sbr. nú 72. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993.

Krafa stefnanda um að viðurkenndur verði eignarréttur að allri innistæðu stjörnubókar er á því byggð að helmingur innistæðunnar sé vegna gjafar eiginmanns stefndu til hennar sem er ógild og því óskuldbindandi gagnvart stefnanda og kröfuhöfum í þrotabúið. Sú fjárhæð sem greidd var inn á reikninginn var hluti söluverðs fasteignar eiginmanns stefndu að Garðsenda 12 og sé þrotabúið réttur eigandi að allri innistæðunni.

Krafa stefnanda um að stefnda verði dæmd til að greiða þrotabúinu 2.850.000 krónur byggir á því að um ógilda gjöf eiginmanns stefndu til hennar sé að ræða sem sé óskuldbindandi fyrir stefnanda og kröfuhafa þrotabúsins. Eiginmaður stefndu og stefnda hafi lýst því fyrir skiptastjóra að stefnda hafi hlotið að minnsta kosti helming söluverðs fasteignarinnar að Garðsenda 12 sem var hjúskapareign hans og greiddi hún ekkert gagngjald fyrir. Hafi því verið um gjöf að ræða. 

Stefnandi sundurliðar kröfu sína þannig að 2.345.000 krónur hafi fengist í peningum fyrir eignina og 4.355.000 krónur í fasteignaveðbréfum. Að teknu tilliti til þess að 1.000.000 króna af söluverði eignarinnar vori lagðar inn á stjörnubókina og krafist er eignarréttar að þeim fjármunum, standi eftir 5.700.000 krónur og er gerð krafa um að stefnda endurgreiði helming þeirrar fjárhæðar eða 2.850.000 krónur.

Stefnandi vísar til laga nr. 20/1923, einkum 30. og 32. gr., sbr. 72. gr. laga nr. 31/1993, III. kafla vaxtalaga og 72. gr. og 122. gr. laga nr. 21/1991. Krafa um málskostnað styðst við 129. gr. og 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991.

Stefnda rökstyður sýknukröfu sína þannig í fyrsta lagi að ekki hafi verið um gjafir að ræða. Stefnda telur sig hafa átt það fé sem hún fékk við skiptingu andvirðis Garðsenda 12. Hún hafi fjármagnað að jöfnu við Ágúst kaup fasteignar er þau áttu að Mávahlíð 45 og þegar sú eign var seld var andvirði hennar notað til kaupa á íbúð að Garðsenda 12. Því hafi ekki verið um gjöf að ræða þegar stefnda fékk af andvirði Garðsenda 12 heldur endurgreiðslu á láni og/eða útborgun á eignarhluta hennar í íbúðinni.

Í öðru lagi byggir stefnda á því  að hafi verið um gjöf að ræða hafi verið gerður um hana kaupmáli og því sé gjöfin fullgild. Stefnda og Ágúst hafi gert með sér kaupmála 15. mars 1993 þar sem fasteignin Melhagi 17 var gerð að séreign stefndu.  Fasteignin hafi verið keypt fyrir þá fjármuni sem Ágúst hafði afhent stefndu og var gerð kaupmálans því staðfesting á þeirri „gjöf” og veitir fulla vernd gagnvart skuldheimtumönnum Ágústs, sbr. 30. gr. laga nr. 20/1923.

Í þriðja lagi byggir stefnda á því að stefnandi sé ekki réttur aðili að máli til ógildingar á gjöf milli hennar og Ágústs og beri því að sýkna hana með vísan til 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991. Þeir einir geti krafist ógildingar á gjöf sem áttu kröfur á gefanda þegar gjöf var gefin samkvæmt 33. gr. laga nr. 20/1923. Þrotabúið hafi enga kröfu átt á hendur Ágústi þegar hann innti af hendi peningagreiðslur til stefndu. Þrotabú hafi einvörðungu þær heimildir sem fram koma í lögum nr. 21/1991. Stefnandi geti ekki komið fram ógildingu þar sem krafa sú er lá til grundvallar er bú Ágústs var tekið til gjaldþrotaskipta hafi verið fallin niður þar sem kröfuhafi samkvæmt skuldabréfi varð sami aðili og aðalskuldari þess. Hafi krafan því ekki verið til á hendur Ágústi þegar hann afhenti stefndu hluta af andvirði Garðsenda 12.

Í fjórða lagi byggir stefnda á því að andvirði hafi komið fyrir „gjöfina”. Hún hafi látið fjármuni þessa af hendi við að kaupa íbúðirnar að Mávahlíð 45 og Garðsenda 12 og hafi þetta verið endurgreiðsla á framlögum hennar. Beri því að sýkna hana með vísan til 33. gr. laga nr. 20/1923.

Í fimmta lagi byggist sýknukrafan á því að Ágúst hafi haldið eftir nægum fjármunum til greiðslu skuldbindinga sinna þrátt fyrir „gjöfina”. Leiði það til sýknu með vísan til 33. gr. laga nr. 20/1923.

Stefnda mótmælir sérstaklega kröfu um viðurkenningu á eignarrétti á innistæðu stjörnubókar. Sé krafan órökstudd og ósannað með öllu að um sé að ræða fjármuni sem komu frá Ágústi. Fjármunir þeirra hjóna hafi runnið saman og verður fé þeirra ekki aðgreint og bendir stefnda á að hún hafi fengið arf eftir föður sinn nokkrum árum áður.

Þá telur stefnda að taka þurfi tillit til söluþóknunar sem Ágúst þurfti að greiða og jafnframt þurfi að taka tillit til affalla af húsbréfum.

Stefnda krefst ríflegs málskostnaðar úr hendi stefnanda með vísan til 130. gr. og 131. gr. laga nr. 91/1991.

Forsendur og niðurstaða

Telja verður nægilega upplýst í máli þessu að umrædd fasteign að Garðsenda 12 hér í borg hafi verið þinglýst eign Ágústs Sverrissonar og því hjúskapareign hans. Þá hafa stefnda og Ágúst eiginmaður hennar lýst því fyrir skiptastjóra að stefnda hafi fengið í sinn hlut að minnsta kosti helming söluverðs fasteignarinnar. Stefnda hefur hvorki sýnt fram á að um endurgreiðslu á láni hafi verið að ræða né að hún hafi fjármagnað fasteignakaup Ágústs. Ljóst er því að hér var um gjöf að ræða og var ekki gerður kaupmáli um hana eins og boðið er í 30. gr. laga nr. 20/1923, sbr. nú 72. gr. laga nr. 31/1993.

Stefnda byggir á þeirri málsástæðu að kaupmáli er stefnda og Ágúst gerðu 15. mars 1993 um fasteignina að Melhaga 17 hér í borg feli í sér staðfestingu á gjöfinni þar sem sú eign var keypt fyrir þá fjármuni sem Ágúst afhenti stefndu. Hér er til þess að líta að Ágúst hefur upplýst að stefnda hafi að hluta notað fjármuni sem hún fékk í arf eftir föður sinn til kaupa á eigninni að Melhaga 17. Verður því ekki talið að umræddur kaupmáli hafi lotið að þeirri gjöf er mál þetta snýst um. Verður þessari málsástæðu stefndu því hafnað.

Stefnda reisir sýknukröfu sína einnig á aðildarskorti. Með vísan til 72. gr. og 122. gr. laga nr. 21/1991 verður að telja að stefnandi sé réttur aðili að kröfum á hendur stefndu. Þá verður ekki talið að stefnda geti reist sýknukröfur sínar á 33. gr. laga nr. 20/1923, enda á sú lagagrein einungis við þegar afhending gjafar hefur farið fram með gildum hætti, þ.e.a.s. með kaupmála.

Fallast ber á þá málsástæðu stefndu að krafa um viðurkenningu á eignarrétti á innistæðu stjörnubókar sé órökstudd. Ekki hefur verið nægilega sýnt fram á að um sé að ræða fjármuni sem að öllu leyti stafa af sölu Garðsenda 12 og verður ekki hjá því komist að vísa þessum kröfulið frá dómi. Kröfur stefnanda verða að öðru leyti teknar til greina með vöxtum eins og í dómsorði greinir.

Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður.

Hjörtur O. Aðalsteinsson héraðsdómari kvað upp dóminn.

Dómsorð:

Ógild er gjöf Ágústs Sverrissonar til stefndu Huldu Hendrikku Waage á peningum samtals að fjárhæð 3.350.000 krónur.

Kröfu stefnanda um viðurkenningu á eignarrétti á allri innistæðu stjörnubókar nr. 650349 í Austurbæjarútibúi Búnaðarbanka Íslands er vísað frá dómi.

Stefnda, Hulda Hendrikka Waage, greiði stefnanda, þrotabúi Ágústs Sverris­sonar, 2.850.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga frá 22. apríl 1997 til greiðsludags.

Málskostnaður fellur niður.