Hæstiréttur íslands
Mál nr. 545/2002
Lykilorð
- Fjársvik
- Umferðarlagabrot
- Hegningarauki
|
|
Þriðjudaginn 15. apríl 2003. |
|
Nr. 545/2002. |
Ákæruvaldið(Sigríður Jósefsdóttir saksóknari) gegn Goða Jóhanni Gunnarssyni (Hilmar Ingimundarson hrl.) |
Fjársvik. Umferðarlagabrot. Hegningarauki.
G var dæmdur í 9 mánaða fangelsi fyrir fjársvik o.fl. Hafði G í sviksamlegum tilgangi stofnað til reikningsviðskipta við verslunina B hf. og blekkt starfsmenn hennar til frekari reikningsviðskipta með því að greiða skuld fyrir úttektir með tékka, sem hann gaf heimildarlaust út í eigin nafni á tékkaeyðublað í eigu húsfélags og áritaði með bleki sem hvarf þremur dögum síðar. Jafnframt auglýsti hann í dagblaði símasölu á tilgreindum vörutegundum þar sem fólki var gefinn kostur á að panta símleiðis vörur á heildsöluverði og blekkti fólk sem hringdi í tilgreint símanúmer til að greiða nánar tiltekna fjárhæð fyrir vörulista og aðgang að frekari viðskiptum þrátt fyrir að hann hafi hvorki haft á boðstólum þær vörur sem auglýstar voru né staðið í nokkrum viðskiptasamböndum um öflun þeirra.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Gunnlaugur Claessen og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 4. desember 2002 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en einnig af hálfu ákæruvalds, sem krefst þess að refsing ákærða verði þyngd.
Ákærði krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af þeirri háttsemi sem honum er að sök gefin í 1. og 2. tölulið I. kafla ákæru, en til vara að refsing hans verði milduð.
Með vísan til forsendna héraðsdóms verður staðfest niðurstaða hans um sakfellingu ákærða. Ákærði var dæmdur 24. apríl 1996 fyrir skjalafals og 19. desember 2001 fyrir fjárdrátt í maí og júní 2000. Í bæði skiptin hlaut hann fangelsi í tvo mánuði, skilorðsbundið í 2 ár. Við ákvörðun refsingar ákærða verður litið til þessa sakaferils hans og 77. gr. almennra hegningalaga nr. 19/1940. Verður jafnframt að gæta þess að með háttsemi sinni í 2. tölulið I. kafla ákæru beitti hann fjölda manns blekkingum og hefur ekki bætt að fullu fyrir brot sín. Með vísan til þess sem að framan greinir og forsendna héraðsdóms að öðru leyti er refsing ákærða ákveðin fangelsi í 9 mánuði.
Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað verður staðfest.
Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Ákærði, Goði Jóhann Gunnarsson, sæti fangelsi í 9 mánuði.
Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað skal vera óraskað.
Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 100.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 1. nóvember 2002.
Mál þetta, sem dómtekið var 25. október sl., er höfðað samkvæmt ákæru útgefinni af lögreglustjóranum í Reykjavík hinn 18. mars 2002 á hendur Goða Jóhanni Gunnarssyni, Klukkurima 29, Reykjavík, kt. 240970-3179, fyrir fjársvik og brot á umferðarlögum á árinu 2001 svo sem rakið er:
I. Fjársvik:
1.
Þann 23. apríl 2001 í sviksamlegum tilgangi stofnað til reikningsviðskipta við verslun BYKO hf., kt. 460169-3219, Skemmuvegi 2, Kópavogi, með úttektarheimild allt að kr. 500.000 á mánuði, sem greiðast átti í síðasta lagi 20. næsta mánaðar, og hafa jafnframt þann 15. júní blekkt starfsmenn verslunarinnar til frekari reikningsviðskipta með því að greiða skuld fyrir úttektir frá 25. maí til þess dags með tékka að fjárhæð kr. 488.844, sem hann gaf heimildarlaust út í eigin nafni á tékkaeyðublað í eigu húsfélagsins að Klukkurima 27-47, Reykjavík, og áritað með bleki sem hvarf 3 dögum eftir áritun og náð þannig að taka út á tímabilinu frá 25. maí til 18. júní vörur að andvirði alls kr. 685.484, sem ákærði gat ekki greitt.
2.
Þann 5. nóvember auglýst í Fréttablaðinu undir nafninu „Costgo, Pöntunarlistinn-Amerísk dreifing” símasölu á tilgreindum vörutegundum, þar sem fólki var gefinn kostur á að panta símleiðis frá stærstu birgjum heims vörur á heildsöluverði, sem afhendast áttu ýmist samdægurs eða með 5 daga afhendingarfresti og hafa jafnframt, í Reykjavík sama dag og þann næsta, blekkt fólk sem hringdi í tilgreint símanúmer til þess að greiða inn á bankareikninga ákærða kr. 5.000 fyrir svonefndan Costgo-vörulista og aðgang að frekari viðskiptum þrátt fyrir að ákærði hefði hvorki á boðstólum þær vörur sem auglýstar voru né stæði í nokkrum viðskiptasamböndum um öflun þeirra og náð þannig að blekkja 85 manns til að greiða alls kr. 450.750 vegna væntanlegra viðskipta.
Framangreind brot eru talin varða við 248. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
II. Brot á umferðarlögum:
Fimmtudaginn 27. september, ekið bifreiðinni YG-489 með 84 km hraða á klst. norður Strandveg norðan Gufunesvegar þar sem leyfður hámarkshraði er 50 km á klst.
Þetta er talið varða við 1. mgr. 37. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr., umferðarlaga nr. 50/1987.
Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist, að ákærði verði dæmdur til refsingar fyrir ofangreind brot.
Í málinu ef af hálfu BYKO hf., kt. 460169-3219, krafist skaðabóta kr. 275.651 ásamt vöxtum samkvæmt 7. gr. vaxtalaga frá 18. júní 2001 en síðan dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga til greiðsludags.
Verjandi ákærða gerir þær kröfur að ákærði verði alfarið sýknaður af I. ákærulið lið 1 og 2, en til vara að honum verði gerð vægasta refsing sem lög leyfa, þá er krafist vægustu refsingar vegna II. ákæruliðar. Þess er krafist að skaðabótakröfu verði vísað frá dómi. Loks krefst verjandi hæfilegra málsvarnarlauna og réttargæsluþóknunar að mati dómsins.
Málsatvik og málsástæður
Við aðalmeðferð málsins gaf ákærði skýrslu fyrir dómi og vitnin Valmundur Ingi Pálsson gjaldkeri hjá BYKO, Guðmundur Helgi Ólafsson skrifstofustjóri hjá BYKO, Sigurður Steinarsson viðskiptaráðgjafi hjá BYKO, Sveinbjörn Guðbjarnarson útibússtjóri Landsbanka Íslands í Hamraborg, Guðrún Hrönn Ingimarsdóttir gjaldkeri hjá BYKO, Birgir Örn Einarsson innkaupafulltrúi hjá Nýherja, Ingibjörg Reynisdóttir framkvæmdastjóri hjá Skúlasyni hf., Ingibjörg Lárusdóttir flugfreyja, Harpa Guðmundsdóttir skrifstofumaður, Sveinbjörn Ólafsson nemi, Kolbrún Vilhjálmsdóttir nemi, Guðlaugur Kr. Jónsson öryggisvörður, Helga Steinunn Þorbjarnardóttir verkakona, Kári Pétur Sveinsson, Hafliði Þórðarson rannsóknarlögreglumaður og Heiðbjört Gunnlaugsdóttir leiðbeinandi.
I. kafli, 1. liður
Upphaf máls þessa er það að hinn 20. júní 2001 lagði Valmundur Ingi Pálsson, fyrir hönd BYKO hf., fram kæru hjá lögreglunni í Kópavogi á hendur Goða Jóhanni Gunnarssyni, ákærða í máli þessu, fyrir fjársvik. Kæran laut að því að ákærði hefði verið í reikningsviðskiptum hjá BYKO síðan 23. apríl sama ár og hefði úttektarheimild verið allt að 500.000 krónur. 15. júní hefði ákærði lagt fram útfylltan tékka að fjárhæð 488.844 krónur sem greiðslu fyrir gjaldfallna skuld sína. Þetta hefði verið föstudaginn 15. júní og eftir að reikningurinn hefði verið opnaður aftur hafi ákærði tekið út vörur hjá Elko fyrir 190.309 krónur, 15., 16. og 18. júní. Samkvæmt kærunni var tékkinn lagður inn í banka mánudaginn 18. júní en þá kom í ljós að tékkinn reyndist vera úr afturkölluðu tékkhefti í eigu húsfélagsins Klukkurima 27-47. Prókúra ákærða á þann reikning hafði verið afturkölluð 30. apríl það ár. Fram kemur einnig í kærunni að tékkinn sem lagður var fram virtist óútfylltur. Samkvæmt gögnum málsins dofnaði smám saman það sem ritað var á tékkann og var hann allt að því ólæsilegur þegar leggja átti hann inn í banka. Kærandi lagði fram gögn um úttektir ákærða hjá BYKO og Elko fyrir samtals 685.484 krónur. Ákærði var handtekinn 20. júní 2001. Við yfirheyrslu hjá lögreglu kannaðist hann við yfirlit viðskiptareiknings hjá BYKO hf. og kvittanir fyrir úttektunum og kvaðst ekkert hafa við þau gögn að athuga. Fyrst í stað neitaði hann að hafa fyllt út tékkann til að greiða með skuld sína, kvaðst hann hafa skilið eftir óútfyllt eyðublað og 488.844 krónur í reiðufé. Þegar honum var sýnt eyðublaðið og kynnt rannsókn á því kvaðst hann hafa fyllt út tékkann að hluta en kvaðst ekki muna að hve miklu leyti. Penninn hefði verið bleklaus og hefði hann því hætt við er hann hefði áttað sig á að hann hefði ekki umboð til að gefa út tékka á þennan reikning. Nokkru síðar í sömu yfirheyrslu breytti ákærði enn framburði sínum og eftir að hafa ráðfært sig við verjanda sinn viðurkenndi hann að hafa fyllt út tékkaeyðublaðið með fatapenna sem væri með bleki sem hefði þann eiginleika að hverfa eftir u.þ.b. tvo daga. Kvaðst ákærði hafa gert þetta í því skyni að blekkja starfsmenn BYKO í viðskiptum. Ákærði vísaði á penna þann sem hann hafði notað til útfyllingarinnar.
Lögð hafa verið fram í dóminum gögn um rannsókn á tékkanum með svonefndri ESDA-aðferð. Kemur fram að með henni megi sýna fram á þrýstingsför í pappír sem ósýnileg séu berum augum. Í niðurstöðu rannsóknarskýrslunnar, sem dagsett er 27. október 2001, segir að tékkinn hafi verið áritaður með nafninu Goði Gunnarsson, stílaður á handhafa fyrir fjárhæðinni 488.844 krónur. Einnig segir að tékkinn hafi verið fylltur út með penna sem hafi blek sem hverfi, þ.e. verði ósýnilegt berum augum. Penni sem komið hefði til rannsóknar ásamt tékkanum hafi verið þess konar penni.
Fyrir dómi neitaði ákærði Goði Jóhann Gunnarsson sök. Kvaðst hann hafa sótt um að opna viðskiptareikning hjá BYKO vegna þess að sambýliskona hans hefði flutt út og tekið öll raftæki af sameiginlegu heimili þeirra. Hann hefði þurft að kaupa ný tæki og hefði ætlað að gera það í Elko, en viðskiptakort BYKO hafi einnig verið hægt að nota við úttektir þar. Aðspurður um úttektarheimild kvaðst ákærði fyrst í stað hafa fengið 300.000 króna heimild en síðan fengið hana hækkaða í 500.000 krónur. Aðspurður hvort hann hefði talið sig geta greitt fyrir úttektir sínar játti ákærði því og kvað íbúð sem hann ætti hafa staðið til fullnustu skuldar hans. Föstudaginn 15. júní hefði hann fyllt út tékka til greiðslu á úttekt eins mánaðar, 488.844 krónur, með fatamerkingapenna en hefði ekki gert sér grein fyrir því að letrið myndi hverfa. Þegar hann hefði verið búinn að greiða fyrir það úttektartímabil hefði reikningurinn verið opnaður og þá hefði hann tekið út fyrir um 200.000 krónur í viðbót. Ákærði var þá spurður hvort tékkinn hefði ekki verið úr hefti húsfélagsins Klukkurima 27-47, sem hann hefði ekki lengur haft prókúru fyrir, og hvort ákærði hefði þá ekki verið að gefa út tékka fyrir peningum sem hann hefði ekki átt. Ákærði kvaðst sjálfur hafa haft tékkareikning hjá Landsbanka Íslands og hefði hann ekki vitað hvort tékkinn hefði verið úr hans tékkhefti eða húsfélagsins. Hann kvaðst hafa ritað númer síns eigin reiknings á eyðublaðið. Aðspurður hver innistæðan hefði verið á þeim reikningi kvaðst hann ekki muna það en hann hefði átt eftir að millifæra af reikningi í Búnaðarbanka inn á þennan reikning. Lögregla hefði ekki athugað hvort hann ætti peninga til að greiða reikninginn hjá BYKO á þessum tíma með því að skoða stöðu bankareikninga hans. Nánar spurður hvers vegna hann hefði sagt hjá lögreglu fyrst í stað, þ.e. við skýrslutöku 20. júní 2001, að hann hefði skilið óútfyllt tékkaeyðublað eftir hjá Sigurði Steinarssyni hjá BYKO, kvaðst ákærði hafa skilið eftir tvö eyðublöð, annað útfyllt og hitt óútfyllt. Hann hefði grunað að heftið væri í eigu húsfélagsins þar sem hans eigið tékkhefti frá Landsbankanum hefði verið glatað í einhvern tíma. Borin var undir ákærða játning hans hjá lögreglu, seinna í sömu skýrslutöku 20. júní 2001, um að hann hefði ritað á tékkann með „fatapenna” sem hafi blek sem hverfi eftir tvo daga og hafi hann gert þetta í þeim tilgangi að blekkja starfsmenn BYKO í viðskiptum. Kvaðst ákærði ekki muna eftir að hafa sagt þetta og það væri ekki rétt að hann hefði vitað að blekið myndi hverfa. Hann hefði talið að málinu væri lokið eftir að mununum sem hann hafi keypt hefði verið skilað. Hann kvaðst kannast við allar úttektirnar sem ákæran byggist á.
Vitnið Valmundur Ingi Pálsson, gjaldkeri hjá BYKO, kvaðst hafa lagt fram kæru á hendur ákærða, fyrir hönd BYKO, vegna reikningsviðskipta ákærða við verslunina og uppgjöri vegna þeirra. Hann kvaðst aldrei hafa átt samskipti við ákærða sjálfur en honum væri ekki kunnugt um að ákærði hefði greitt nokkuð af úttektum sínum hjá versluninni. Einhverju af vörunum hefði verið skilað eftir að málið kom upp. Aðspurður kvaðst vitnið hafa séð umræddan tékka á mánudagsmorgni, en ákærði hefði komið til að gera upp skuldina á föstudegi. Þegar hann hefði séð tékkann hefði hann verið nánast ólæsilegur en þó hefði sést ógreinilega það sem skrifað hefði verið. Kassagjaldkerinn hefði einnig verið búinn að rita á tékkann hvað hefði staðið á honum en það gerði hún oft ef erfitt væri að lesa t.d. rithönd útgefandans. Aðspurður hver hefði metið verðmæti þeirra vara sem skilað var eftir að ákærði var handtekinn kvað vitnið það hafa verið gert af starfsmönnum Elko en hann kvaðst ekki hafa komið nálægt því.
Vitnið Guðmundur Helgi Ólafsson, skrifstofustjóri hjá BYKO, kvaðst hafa unnið að bótakröfunni sem höfð er uppi í málinu. Hann hefði ekki samið listann sem krafan byggist á, það hefðu starfsmenn Elko gert. Hann staðfesti að bæði væri byggt á vöru sem vantaði og einnig vöru sem hefði verið skilað af ákærða. Hann kvað vöruna sem skilað hefði verið vera metna sem svokallaða b-vöru, þ.e. hvert hugsanlegt endursöluverð væri. Aðspurður hvort lögregla hefði haft samband við fyrirtækið til að athuga hvort ákærði mætti greiða það sem upp á vantaði kvaðst vitnið ekki vita til þess.
Vitnið Sigurður Steinarsson, viðskiptaráðgjafi hjá BYKO, kvaðst hafa afgreitt umsókn ákærða um reikningsviðskipti hjá BYKO. Hann kvaðst ekki hafa þekkt til ákærða. Hann kvað ákærða ekki hafa greitt neitt inn á skuld sína að öðru leyti en með tékkanum sem málið snýst um. Hann kvað hafa verið talað við ákærða vegna þess að hann hefði verið kominn yfir úttektarheimild sína auk þess sem skuldin hefði verið gjaldfallin. Ákærða hefði verið sagt að hann myndi ekki geta tekið meira út nema hann greiddi skuld sína. Ákærði hefði komið til sín og framvísað umræddum tékka sem greiðslu. Hann hefði ekki séð neitt grunsamlegt við tékkann og hefði afhent hann gjaldkera. Þetta hefði verið á föstudegi en á mánudeginum hefði honum verið sýndur tékkinn og þá hefði letrið verið horfið að mestu leyti. Aðspurður hvort eitthvað hefði verið athugavert við viðskipti ákærða kvað vitnið reikninginn hafa verið opnaðan á þeim forsendum að viðskiptin myndu felast að mestu leyti í úttekt byggingarvara í BYKO en ákærði hefði tekið stærstan hluta út í Elko. Aðspurður kvað hann venjulega heimild vera 300.000 krónur en undir sérstökum kringumstæðum væri hægt að hækka þá heimild. Reikningurinn hefði upphaflega miðast við 300.000 króna úttektarheimild. Vitnið kvaðst ekki vita hvort heimildin hefði verið hækkuð. Aðspurður hvort haft hefði verið samband af hálfu lögreglu, eftir að málið var kært, til þess að spyrja hvort ákærði mætti gera upp skuld sína kvaðst vitnið ekki vita til þess. Hann kvað enga tilraun hafa verið gerða til að greiða fyrir vörurnar.
Vitnið Sveinbjörn Guðbjarnarson, útibússtjóri Landsbanka Íslands í Hamraborg, kvað tékkann hafa verið sýndan í útibúinu og þá hefði verið hægt að stauta sig fram úr því hvað á honum stóð. Hins vegar hefði verið búið að afturkalla umboð ákærða til að gefa út tékka af reikningnum, sem væri í eigu húsfélagsins Klukkurima 27-47, og því hefði hann ekki verið keyptur. Umboðsskorturinn hefði verið ástæða þess en ekki það að tékkinn hefði verið svo til ólæsilegur.
Vitnið Guðrún Hrönn Ingimarsdóttir, gjaldkeri hjá BYKO, kvaðst hafa tekið við tékkanum á föstudegi og þá hefði verið allt í lagi með hann. Á mánudegi hefði letrið hins vegar verið orðið mjög ógreinilegt og hún hefði ritað með blýanti fyrir neðan hverja línu hvað þar stæði. Tékkinn hefði síðan verið sýndur í bankanum en ekki hefði verið hægt að innleysa hann vegna þess að búið hefði verið að afturkalla umboð ákærða til að gefa út tékka af þessum reikningi. Hún hefði tekið tékkann með sér til baka og kært hefði verið til lögreglu þegar í stað. Aðspurð kvaðst vitnið telja að hún hefði verið búin að stroka út blýantsskriftina af tékkaeyðublaðinu áður en farið var með hann til lögreglu.
I. kafli, 2. liður
Upphaf máls þessa er það að dagana 7. til 17. nóvember 2001 voru lagðar fram hjá lögreglunni í Reykjavík 17 kærur af jafn mörgum einstaklingum. Allir þessir einstaklingar kváðust hafa svarað auglýsingu sem birst hefði í Fréttablaðinu 5. nóvember undir fyrirsögninni „Costgo”. Auglýsingin, sem náði yfir heilsíðu, hefur verið lögð fram í dóminum. Í henni voru ýmis raftæki auglýst á mjög lágu verði, t.d gsm-sími á 5.000 krónur, fartölva á 25.000 krónur og DVD spilari á 10.000 krónur. Gefið var upp símanúmer, 553-0600, og einnig kom fram að pöntunarlisti kostaði 5.000 krónur. Auglýst verð á vörunum er sagt vera sértilboð sem gildi dagana 5. til 9. nóvember. Frásagnir kærenda voru svipaðar, þeir lýstu því að þeir hefðu hringt í auglýst símanúmer og karlmaður hefði svarað. Hann hefði lofað afhendingu á vörum sem þau hefðu pantað strax sama kvöld eða daginn eftir. Flestir lýstu því að þeir hefðu þurft að leggja inn 5.000 krónur inn á uppgefinn reikning til þess að fá að taka þátt í viðskiptunum. Kærendum bar saman um að ekkert hefði orðið um efndir. Fyrir lá að sá er hafði birt auglýsinguna og svarað í símann fyrsta daginn var Goði Jóhann Gunnarsson, ákærði. Hinn 7. nóvember, m.a. eftir mikla fjölmiðlaumfjöllun um málið, var ákærði boðaður til lögreglu til skýrslutöku og að henni lokinni var hann handtekinn og vistaður í fangageymslu. Hinn 8. nóvember gerði lögregla húsleit á heimili ákærða, með hans samþykki. Féllst hann á að afsala sér 390.000 krónum til lögreglu til að hægt væri að endurgreiða þá peninga sem fólk hafði lagt inn á reikning hans. Þar var m.a. um að ræða 300.000 krónur í peningaseðlum sem ákærði vísaði á í umslagi á heimili móður sinnar. Kvað ákærði fyrst 2-3000 manns hafa svarað auglýsingunni en síðar kvað hann um 1000 manns að ræða. Samkvæmt gögnum um innlögn peninga á bankareikninga þá sem ákærði gaf upp höfðu 85 aðilar greitt samtals 450.750 krónur inn á reikningana, sem voru nr. 26-14430 og 03-74834, báðir í Búnaðarbanka Íslands, Austurbæjarútibúi. Hinn 12. nóvember fór lögregla þess á leit við það útibú Búnaðarbankans að innistæður á nefndum reikningum yrðu frystar um ótiltekinn tíma, eða meðan á rannsókn málsins stæði. Kemur fram í beiðninni að þetta sé gert með samþykki ákærða. Samkvæmt skýrslu lögreglu, dagsettri 8. janúar 2002, voru samtals 85 einstaklingum endurgreiddar 4.315 krónur hverjum að undandskildum einum, sem greitt hafði 25.750 krónur inn á reikninginn, en sá fékk í sinn hlut 22.222 krónur og einn, sem hafði greitt 10.000 krónur, fékk endurgreiddar 8.630 krónur. Mismuninn hafði ákærði notað í eigin þágu áður en hann var handtekinn. Við skýrslutöku hjá lögreglu eftir handtöku staðhæfði ákærði að hann hefði haft í hyggju að flytja inn vörur og selja fólki á heildsöluverði í gegnum pöntunarlista, sem greiða hafi þurft 5.000 krónur fyrir. Hann viðurkenndi þó að hafa ekki haft neinar vörur til afhendingar þegar auglýsingin birtist. Tölva ákærða var haldlögð og var hún rannsökuð með tilliti til þess hvort einhver gögn væru í henni sem ætla mætti að tengdust pöntunarlistanum, t.d. samskipti við aðila með tölvupósti varðandi hugsanleg vörukaup erlendis frá. Niðurstaða tölvurannsóknarinnar kemur fram í skýrslu tæknirannsóknastofu ríkislögreglustjóra, dagsettri 12. desember 2001. Samkvæmt henni fundust skjöl sem tengdust auglýsingum um pöntunarlistann Costgo. Engin merki fundust um samskipti við aðila vegna hugsanlegra vörukaupa erlendis frá. Ákærði greindi frá því við yfirheyrslur að fyrsta daginn, þ.e. 5. nóvember, hefðu svo margir hringt til að panta að hann hefði gert samning við fyrirtækið Skúlason ehf. um símsvörun. Skúlason ehf., en Ingibjörg Reynisdóttir framkvæmdastjóri hefur komið fram fyrir þess hönd, hefði annast símsvörun fyrir hann frá 6. nóvember. Ingibjörg lét lögreglu í té ýmis gögn, m.a. drög að samningi við ákærða um símsvörun, lista með mögulegum spurningum þeirra sem hringdu og svör við þeim og reikning fyrir þjónustuna gefinn út á ákærða að fjárhæð 166.208 krónur.
Ákærði hefur frá upphafi neitað því að hann hafi haft fjársvik í hyggju. Fyrir dóminum kvaðst hann hafa fengið hugmyndina að Costgo tveimur árum áður en hann hefði hrint henni í framkvæmd. Aðspurður kvaðst hann hafa átt fjármuni til að kaupa inn þær vörur sem hann auglýsti í Fréttablaðinu. Hann kvaðst hafa verið að búa til dreifikerfi sem hefði átt að byggjast á því að hann sækti vöruna til heildsala og staðgreiddi hana. Hann kvaðst hafa búist við því að um 60 manns myndu svara auglýsingunni en hann hefði haft vörur fyrir um 10 manns. Hann hefði ekki gert sér grein fyrir því hversu umfangsmikil starfsemin yrði. Hann kvaðst hafa haft trú á því að hann myndi geta afgreitt pantanirnar. Hann kvað rétt sem kæmi fram hjá vitnum um loforð um afhendingu vara en hann hefði ekki búist við þeim fjölda sem hringdi. Hann kvaðst hafa ætlað að nota peningana sem fólk hefði greitt fyrir vörulistann til þess að kaupa vörur. Aðspurður hvers vegna hann hefði talið fólki trú um að hann væri með vörur til afhendingar kvaðst hann hafa getað keypt vörur hvar sem væri hér á landi. Aðspurður kvaðst hann hafa verið búinn að gera samning við Costco í Bandaríkjunum, nánar spurður um þann samning kvað hann ekki þörf á að gera neinn samning, það væri nóg að versla beint við þá. Hann hefði verið í Miami í Bandaríkjunum vikunni áður en hann hefði birt auglýsinguna. Hann hefði ætlað að flytja vörur inn í gámum á 15 daga fresti. Hann hefði einnig leitað eftir samningum við matvöruheildsala hér á landi. Hann kvaðst hafa ætlað að senda fólki vörulistann í tölvupósti. Hann hefði haft 30 daga frest til að standa við fjarsölusamninga samkvæmt lögum og hann hefði ætlað að nota tímann til að afgreiða vörulistann. Hann kvaðst aðeins hafa lofað þeim sem hringdu fyrsta daginn að vörurnar yrðu afgreiddar strax. Fólki sem hefði hringt seinni daginn hefði ekki verið lofað neinu nema að fá vörulistann. Endir hefði verið bundinn á allt þegar lögreglan hefði lagt hald á þá peninga sem hann hefði verið kominn með en hann hefði ætlað að panta vörur að utan. Hans hagnaður hefði átt að koma frá eins konar fyrirframgreiddum þjónustugjöldum, þ.e. því sem greitt væri til að fá aðgang að viðskiptunum. Hann kvað rétt að íbúð sem hann ætti væri félagsleg íbúð.
Vitnið Ingibjörg Reynisdóttir, framkvæmdastjóri hjá Skúlason ehf., kvað það fyrirtæki taka að sér t.d. símsvörun fyrir önnur fyrirtæki. Vitnið kvaðst hafa gengið frá samkomulagi við ákærða um símsvörun vegna auglýsingar sem hann hefði birt í Fréttablaðinu, mánudaginn 5. nóvember 2001. Ákærði hefði þá verið hættur að geta sinnt öllum þeim símtölum sem honum bárust. Hún hefði þurft að kalla út aukamannskap til að sinna þessu verki þar sem mikið hefði verið hringt. Ákærði hefði gefið fyrirmæli um hvað skyldi segja þegar spurt yrði um afhendingu. Þau hefðu fengið fyrirmæli um að segja að ákveðið magn hefði verið til á lager en von væri á meiru fljótlega. Henni hefði þótt þetta trúverðugt þar sem svo mikið hefði verið hringt. Þau hefðu aðallega verið að taka á móti beiðnum um bæklinginn eða pöntunarlistann en hefðu helst ekki átt að taka við pöntunum á vörum. Sumir hefðu sótt það mjög stíft að fá að panta. Hún kvaðst ekki muna eftir því að hafa gefið þær skýringar að fyrst yrði afhent á landsbyggðinni en seinna á höfuðborgarsvæðinu. Aðspurð hvort hún hefði gert samning við ákærða kvað hún þau hafa gert drög að samningi. Aðspurð hvað hefði loks vakið tortryggni hennar kvaðst hún ítrekað hafa beðið ákærða um að fá að sjá bæklinginn en hann hefði alltaf „verið á leiðinni”. Eftir tæpa tvo sólarhringa hefði fyrirtækið hætt símsvörun fyrir ákærða. Lagt hefði verið fyrir þau að ítreka við fólk að leggja strax inn á bankareikning svokallað staðfestingargjald, kortanúmer hefði helst ekki verið tekið niður og fólk hefði alls ekki átt að greiða andvirði þess sem það vildi panta inn á reikninginn. Hún kvað fólkið sem hringdi oft hafa sótt það mjög stíft að fá að panta og jafnvel eftir að málið kom í fréttum og vafamál var orðið hvort um löglega starfsemi væri að ræða hefði alls ekki dregið úr hringingum, þvert á móti hefði þeim fjölgað. Aðspurð hvort öll þau gögn sem hún hefði látið lögreglu í té væru meðal gagna málsins kvaðst vitnið sakna þaðan lista með nöfnum þeirra sem hringt hefðu og pantað pöntunarlistann.
Vitnið Birgir Örn Einarsson, innkaupafulltrúi hjá Nýherja, kvaðst hafa séð auglýsingu í Fréttablaðinu 5. nóvember sl. um ýmsar vörur, þ. á m. raftæki, á mjög góðu verði. Hann kvaðst hafa hringt í númerið sem gefið hefði verið upp í auglýsingunni og hefði honum verið lofað að vörurnar yrðu keyrðar heim til hans að kvöldi sama dags. Hann hefði greitt 5.000 krónur í staðfestingargjald sem hann hefði látið millifæra inn á bankareikning. Hann kvaðst ekki muna hvað hann pantaði. Þegar engar vörur hefðu komið hefði hann hringt kvöldið eftir og hefði hann talað við einhverja stúlku sem hefði sagt að einhverjar tafir yrðu. Þegar ekkert hefði gerst daginn eftir hefði honum verið ráðlagt að kæra málið til lögreglu. Aðspurður kvað vitnið það rétt eftir sér haft að þegar hann hringdi í seinna skiptið hefði honum verið tjáð að ákveðið hefði verið að vörurnar yrðu fyrst afhentar á landsbyggðinni en síðar á höfuðborgarsvæðinu.
Vitnið Ingibjörg Lárusdóttir flugfreyja kvaðst hafa fengið upplýsingar frá eiginmanni sínum um auglýsingu í Fréttablaðinu um ýmsar vörur á ótrúlega góðu verði. Hún hefði hringt í uppgefið númer og karlmaður hefði svarað. Hún hefði viljað panta sjónvarp, tölvu og DVD-spilara. Maðurinn hefði sagt henni að hún þyrfti að borga 5.000 krónur fyrir bækling sem hún myndi fá sendan og hefði henni verið boðið að gefa upp númer á kreditkorti eða millifæra peninga á reikning sem hann hefði gefið henni upp númerið á. Vörunum hefði verið lofað sama kvöld eða kvöldið eftir. Hún hefði hringt aftur daginn eftir til að spyrja eftir vörunum og þá hefði kona svarað í símann. Hún hefði gefið þær upplýsingar að byrjað væri að keyra út vörurnar en einhverjar tafir yrðu þar sem svo mikið væri að gera. Auglýsing yrði birt í Fréttablaðinu eftir helgi, eða 12. nóvember, þar sem gefin yrði upp staðsetning á vöruskemmu þangað sem fólk ætti að sækja vörurnar sem það hefði pantað.
Vitnið Harpa Guðmundsdóttir skrifstofumaður kvaðst hafa séð auglýsinguna í Fréttablaðinu og hringt í símanúmerið sem gefið hefði verið upp sama morgunn. Fyrst hefði hún ekki náð í gegn en loks hefði karlmaður svarað í símann. Hún hefði spurt hvort til væru Nokia farsímar og hann hefði svarað að svo væri. Hún hefði þurft að borga 5.000 krónur inn á reikning í Búnaðarbanka Íslands samdægurs og kvöldið eftir myndi hún fá símann. Enginn sími hefði borist og síðan hefði hún tekið eftir umræðunni í fjölmiðlum um að líklega væri um svik að ræða. Hún kvaðst hafa spurt manninn sérstaklega að því hvort þetta væri örugglega rétt verð og hvort ekki yrði staðið við allt og hann hefði fullvissað hana um að þetta myndi allt ganga eftir. Hún taldi sig hafa verið að greiða þessar 5.000 krónur fyrir símann en ekki sem staðfestingargjald eða gjald fyrir listann. Ef hún vildi fá listann hefði hún átt að borga aukalega fyrir það.
Vitnið Sveinbjörn Ólafsson nemi kvaðst hafa séð heilsíðu auglýsingu í Fréttablaðinu og ákveðið að hringja í númerið sem auglýst var til að kaupa tæki fyrir sig og vin sinn. Hann hefði náð sambandi síðdegis eftir að hafa reynt að hringja stanslaust í tvær klukkustundir. Karlmaður hefði svarað og kvaðst vitnið hafa pantað hjá honum tvo Nokia gsm-síma og 29” sjónvarpstæki. Maðurinn hefði tekið niður nafn og heimilisfang en síðan tjáð honum að hann þyrfti að leggja 5.000 krónur inn á bankareikning eða borga með greiðslukorti. Vitnið kvaðst hafa spurt hann um fartölvu en maðurinn hefði sagt að þær væru uppseldar en kæmu síðar, líklega á um helmingi hærra verði, um 50.000 krónur. Maðurinn hefði sagt að um leið og búið væri að borga 5.000 krónur kæmi hann með tækin innan nokkurra daga. Vitnið kvaðst hafa millifært peningana strax eftir samtalið og nafnið á reikningnum hefði verið Goði. Hann hefði hringt aftur morguninn eftir til að láta vita af millifærslunni og panta einn Nokia síma í viðbót. Kona hefði svarað í símann og sagt að símarnir væru uppseldir. Aðspurður kvaðst vitnið telja að hann hefði greitt 5.000 krónurnar til að geta tekið þátt í viðskiptunum en ekki sem innborgun fyrir vörurnar. Hann kvaðst hafa beðið heima næstu kvöld en enginn hefði komið og loks hefði honum orðið ljóst að ekkert yrði úr þessu.
Vitnið Kolbrún Vilhjálmsdóttir nemi kvaðst hafa verið ein af hópi fólks sem hefði séð auglýsinguna í Fréttablaðinu og hefði hún hringt síðdegis sama dag og hún birtist. Hún hefði talað við karlmann sem hefði sagt henni að hún yrði að greiða 5.000 krónur til að fá vörulista og það yrði um leið innborgun á pöntunina. Vitnið kvaðst muna ógreinilega hvað hún hefði pantað en héldi að það hefði verið DVD-spilari og eitthvað annað. Nánar spurð kvaðst hún ekki vera viss um hvort að greiðslan hefði átt að vera innborgun eða einungis greiðsla fyrir listann. Listinn hefði átt að berast henni strax daginn eftir en varan hefði átt að koma nokkrum dögum seinna. Nánar spurð kvað vitnið vörurnar hafa átt að koma sama kvöld og greiðslan bærist á reikninginn. Ekkert hefði borist og síðan hefði komið í ljós að um gabb hefði verið að ræða. Vitnið kvaðst telja að hún og fleiri hefðu átt að gera sér grein fyrir því að um svik væri að ræða þar sem hlutirnir hefðu átt að kosta ótrúlega lítið og allt hefði verið mjög loðið varðandi viðskiptin. Aðspurð kvaðst vitnið hafa kært málið af sjálfsdáðum.
Vitnið Guðlaugur Kr. Jónsson öryggisvörður kvaðst hafa séð auglýsinguna í Fréttablaðinu og hringt samdægurs í símanúmer sem þar hefði verið auglýst. Karlmaður hefði svarað og sagt að vitnið yrði að kaupa vörulistann á 5.000 krónur og leggja peningana inn á bankareikning sem gefinn var upp. Vitnið kvaðst hafa lagt inn peningana en aldrei fengið neinn lista. Hann hefði einnig pantað sjónvarp, fartölvu og síma hjá manninum sem hefði sagt að vörurnar yrðu sendar innan viku. Eftir viku hefði vitnið hringt aftur og spurt um vörurnar og listann en þá hefði maðurinn sagt að lögreglan hefði tekið tölvuna hans og hann hefði engar upplýsingar um þá sem hefðu pantað. Kvaðst vitnið hafa beðið í nokkurn tíma í viðbót áður en hann lagði fram kæru hjá lögreglu.
Vitnið Helga Steinunn Þorbjarnardóttir verkakona kvaðst hafa séð auglýsinguna í Fréttablaðinu hefði hún hringt í uppgefið símanúmer síðdegis sama dag. Hún hefði viljað panta tölvu og farsíma og maðurinn sem svaraði hefði sagt henni að hún fengi vöruna afhenta heim daginn eftir að hún hefði greitt 5.000 krónur fyrir vörulista. Hún hefði greitt inn á bankareikning en ekkert hefði bólað á vörunum. Eiginmaður hennar hefði hringt tveimur dögum seinna og spurt manninn hvernig stæði á þessu og hefði fengið þau svör að eitthvað drægist að fá vörurnar að utan. Nánar spurð kvað vitnið það geta staðist að þetta hefði verið einhverju síðar og að í samtalinu hefði komið fram að lögregla hefði lagt hald á alla peningana sem greiddir hefðu verið af fólki sem hefði viljað panta. Aðspurð hvort hana hefði grunað að um svik væri að ræða kvaðst vitnið hafa velt því fyrir sér, m.a. vegna þess að um óeðlilega lágt verð hefði verið að ræða, en kvaðst hafa talið ólíklegt að einhver stæði að svikum á svo augljósan hátt. Vitnið kvaðst hafa fengið endurgreiddar rúmlega 4.000 krónur af því sem hún lagði inn hjá ákærða.
Vitnið Kári Pétur Sveinsson kvaðst hafa hringt í uppgefið símanúmer eftir að hafa séð auglýsingu frá Costgo í Fréttablaðinu. Hann hefði pantað Toshiba fartölvu og maðurinn sem hann hefði talað við hefði sagt að möguleiki væri að fá slíka tölvu ef hann myndi borga 5.000 krónur fyrir vörulista. Greiðslan ætti ekki að vera innborgun á vöruna heldur einhvers konar greiðsla fyrir aðgang að viðskiptunum. Vitnið kvaðst hafa greitt tilskilda fjárhæð inn á reikning í Búnaðarbankanum en listinn hefði aldrei borist. Hann hefði farið til lögreglunnar að eigin frumkvæði og kært málið. Hann hefði síðar fengið endurgreitt fyrir tilstilli lögreglunnar 4.315 krónur af þeirri fjárhæð sem hann lagði inn á reikning ákærða.
Vitnið Heiðbjört Gunnlaugsdóttir leiðbeinandi kvaðst hafa séð auglýsingu í Fréttablaðinu að morgni 5. nóvember sl. og hefði hún haft áhuga á að kaupa raftæki sem þar voru auglýst. Hún hefði hringt í uppgefið símanúmer og karlmaður hefði svarað. Hún hefði viljað pantað þrjú sjónvörp, tvo DVD-spilara, eina uppþvottavél og einn gsm-síma og auk þess tvær fartölvur á nafn Arctic trading company. Henni hefði verið sagt að leggja inn 5.000 krónur á ákveðinn reikning til þess að fá vörulista sem hún gæti pantað úr. Henni hefði verið lofað afhendingu daginn eftir eða þarnæsta dag, en sagt að afhending gæti dregist eitthvað. Hún hefði fengið mestan hluta peninganna endurgreiddan.
Vitnið Hafliði Þórðarson rannsóknarlögreglumaður kvaðst hafa komið að rannsókn Costgo-málsins. Aðspurður hvort Ingibjörg Reynisdóttir hefði sent honum einhver gögn á tölvutæku formi kvaðst vitnið muna eftir að hafa fengið upplýsingar frá henni um hversu margir hefðu hringt í Skúlason ehf. vegna auglýsingarinnar. Ekki hefði verið um nafnalista að ræða heldur einungis töluleg gögn. Einnig hefði Ingibjörg sent þeim samning um símsvörun og lista yfir spurningar og svör sem hefðu einnig haft að geyma upplýsingar um inn á hvaða bankareikning ætti að leggja. Ákveðið hefði verið að vinna rannsóknina samkvæmt upplýsingum um hverjir hefðu lagt inn tilskilda fjárhæð.
Niðurstaða
I. kafli, 1. liður
Ákærði hefur neitað sök samkvæmt þessum lið ákæru.
Samkvæmt málsgögnum sótti ákærði um að komast í reikningsviðskipti hjá BYKO hinn 23. apríl 2001 og var tilgangur viðskiptanna sagður „nýbygging”. Eru viðskiptin samþykkt með úttektarheimild allt að 300.000 krónur. Ákærði gekkst undir skilmála fyrirtækisins um að reikningsmánuður væri almanaksmánuður og gjalddagi 10. næsta mánaðar, en eindagi þann 20. Úttektir ákærða hófust hinn 25. maí 2001 og hinn 1. júní hafði hann tekið út vörur að andvirði 495.175 krónur, aðallega hjá Elko. Föstudaginn 15. júní greiddi ákærði 488.844 krónur með tékka sem hann útfyllti og afhenti Sigurði Steinarssyni viðskiptaráðgjafa hjá BYKO. Eftir þá greiðslu fékk hann á ný heimild til úttektar og 15. til 18. júní tók hann út til viðbótar vörur að andvirði um 190.000 krónur, allt hjá Elko. Vörurnar voru m.a. ryksuga, þvottavél, straubretti, straujárn og hraðsuðuketill, rafmagnsrakvél, tvennir öryggisskór, ferðatölva, prentari, skanni, myndbandsupptökuvél, digital myndavél, fjölmargir DVD mynddiskar, nokkrir tölvuleikir og ýmislegt smádót. Ljóst er að vörur þessar voru ekki ætlaðar til nýbyggingar, og einungis lítill hluti þeirra telst heimilistæki. Hjá lögreglu var farið yfir hverja úttekt fyrir sig og kannaðist hann við þær allar og undirritun sína fyrir móttöku. Ákærði gaf þá skýringu fyrir dómi á úttekt varanna að sambýliskona hans hefði farið að heiman og tekið með sér öll heimilistækin. Þegar ákærði var handtekinn 20. júní 2001 var hann samkvæmt lögregluskýrslum í fylgd með konu sem gaf upp nafnið Anita og kvaðst vera kona hans. Á heimili ákærða var sonur Anitu fæddur 1992. Af framangreindu er ljóst að skýringar ákærða hafa verið óstöðugar og ótrúverðugar.
Þá er upplýst m.a. með vætti Valmundar Inga Pálssonar, Sigurðar Steinarssonar, Sveinbjörns Guðbjarnarsonar og Guðrúnar Hrannar Ingimarsdóttur að á mánudeginum 18. júní hafi það sem skrifað var á tékkann sem ákærði greiddi með föstudaginn 15. júní nánast verið horfið. Ákærði játaði fyrir dóminum að hafa fyllt tékkann út með fatamerkingapenna en bar að hann hefði ekki gert sér grein fyrir því að letrið myndi hverfa. Er þetta ekki í fullu samræmi við það sem hann bar hjá lögreglu, þar sem hann játaði að hafa vitað að blekið myndi hverfa. Við yfirheyrslu hjá lögreglu 20. júní 2001 var ákærða sýnt tékkaeyðublað nr. 0056582 á Landsbanka Íslands nr. >0114< sem virtist óútfyllt og kannaðist hann í fyrstu ekki við að hafa notað það, en kvaðst þó hafa farið með það á vettvang í því skyni að nota það, en hætt við þar sem hann hefði áttað sig á að hann væri ekki með prókúru á reikninginn sem það tilheyrði. Hann vildi taka fram að hann væri vörsluaðili tékkheftisins sem eyðublaðið væri úr. Hann kvaðst hafa afhent vitninu Sigurði tékkaeyðublaðið óútfyllt og greitt 488.844 krónur í peningum. Er ákærða hafði verið kynnt rannsókn tæknideildar á tékkanum, þar sem lesa má það sem áður var ritað á tékkann, játaði hann að hafa fyllt hann út með „fatapenna” sem var með bleki sem hafði þann eiginleika að hverfa eftir u.þ.b. tvo daga. Kvaðst hann hafa gert þetta í því skyni að blekkja starfsmenn BYKO í viðskiptum, þar sem hann vissi að blekið myndi hverfa og tékkinn færi ekki í innlausn sem slíkur.
Í lögregluskýrslunni frá 20. júní er skráð að eyðublaðið sem tékkinn var skrifaður á, hafi verið úr tékkhefti reiknings Húsfélagsins Klukkurima 27-47 hjá Landsbanka Íslands, sem ákærði hafði áður verið með prókúru fyrir, en að prókúra hans hefði verið afturkölluð 30. apríl 2000. Ákærði bar fyrir dómi að hann hefði sjálfur haft reikningsviðskipti í Landsbanka Íslands og hefði hann ekki vitað hvort tékkinn hefði verið úr hans eigin tékkhefti eða húsfélagsins. Hann kvaðst hafa ritað sitt eigið reikningsnúmer á eyðublaðið. Spurður um inneign á hans eigin reikningi kvaðst hann ekki muna það en hann hefði átt eftir að millifæra peninga af reikningi sínum hjá Búnaðarbanka Íslands. Samkvæmt bankayfirlitum sem ákærði hefur sjálfur lagt fram var hann með tékkareikning hjá Búnaðarbanka Íslands, Austurbæjarútibúi, reikningsnúmer 1443, staða reikningsins var neikvæð á því tímabili sem um ræðir. Inn á sparireikning ákærða nr. 74834 við sama banka hafa, eins og hann heldur fram, verið lagðar inn fjárhæðir á um hálfs mánaðar fresti á árinu 2001, en upphæð hefur verið breytileg, frá 58.000 krónum til 340.000 króna. Svipuð fjárhæð hefur einnig nær undantekningarlaust verið tekin út aftur sama dag. Engin innlögn var í maímánuði 2001, en 15. júní voru lagðar inn 125.000 krónur og teknar út sama dag. Þykir ákærði ekki hafa sýnt fram á að hann hafi átt fjármuni til að greiða fyrir hinar kærðu úttektir eins og hann gekkst undir að gera við opnun viðskiptareiknings hjá BYKO.
Framburður ákærða um sakarefni samkvæmt þessum ákærulið hefur ekki verið stöðugur og á stundum verulega ótrúverðugur. Afturhvarf hans frá skýrri játningu hjá lögreglu, að viðstöddum verjanda, á vísvitandi notkun „fatapennans” er ótrúverðug. Skýringar ákærða á úttektum varanna og greiðslu þeirra hafa einnig verið þversagnarkenndar og ákærði hefur ekki gert líklegt að hann hafi getað greitt þá skuld sem hann stofnaði til með þeim. Því þykir sannað að ákærði hafi beitt blekkingum við stofnun reikningsviðskiptanna og að hann hafði fyrirsjáanlega ekki haft bolmagn til þess að greiða vörurnar. Einnig er sannað að ákærði blekkti starfsmenn BYKO með útgáfu greinds tékka, bæði með því að hann hafði ekki prókúru fyrir þeim reikningi sem tékkaeyðublaðið var til ávísunar á, og með því að fylla það vísvitandi út með bleki, sem hann vissi að myndi hverfa og eyðublaðið þá líta út sem óútfyllt. Loks tók hann út fleiri vörur strax og hann hafði með þessum blekkingum opnað sér leið til þess. Ákærði hefur með allri þessari háttsemi gerst sekur um fjársvik, sem varða hann refsingu samkvæmt 248. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
I. kafli, 2. liður
Ákærði lét birta heilsíðu auglýsingu í Fréttablaðinu 5. nóvember 2001 þar sem hann auglýsir vörur á heildsöluverði fyrir einstaklinga og fyrirtæki. Gefið er upp verð á pöntunarlista, 5.000 krónur, og tilgreind nokkur sértilboð mánaðarins, dagana 5. nóvember til 9. nóvember. Vörur þessar voru á gjafverði, til dæmis Toshiba fartölva 750 Mhz á 25.000 krónur og AEG þvottavél 1600 snúninga á 25.000 krónur. Tilgreint er í auglýsingunni að matvara og raftæki verði send samdægurs og aðrar vörur eftir fimm virka daga. Fjölmargir brugðust við auglýsingunni og 85 manns greiddu 5.000 krónur inn á uppgefna reikninga ákærða við Búnaðarbanka Íslands dagana 5. og 6. nóvember. Að kvöldi mánudagsins 5. nóvember hafði ákærði samband við fyrirtækið Skúlason ehf. og falaðist eftir símaþjónustu og naut hann svarþjónustu þeirra á þriðjudeginum 6. nóvember eða þar til þeim var orðið ljóst að kvöldi þess dags að allt var í óvissu með þær vörur og vörulista sem hann lofaði. Ákærði greiddi ekki uppsett endurgjald fyrir auglýsinguna í Fréttablaðinu 166.208 krónur og hann greiddi ekki Skúlasyni ehf. umsamið stofngjald þjónustu þeirra 134.700 krónur. Af málsgögnum er ljóst að hann hafði ekki haldbært fé til að greiða fyrir þjónustu þessara aðila þegar hann fór fram á hana.
Sautján þeirra sem reyndu viðskipti samkvæmt auglýsingu ákærða lögðu fram formlega kæru. Níu þeirra báru vitni fyrir dóminum. Er framburður þeirra rakinn hér að framan. Sjö kváðust hafa greitt 5.000 krónur til þess að fá vörulistann eða til að geta tekið þátt í viðskiptunum, tveir töldu að greiðslan hefði verið innborgun á vöruna. Allir höfðu beðið um ákveðnar vörur. Flest vitnin báru skýrt að lofað hefði verið að varan yrði keyrð heim til þeirra sama kvöld, daginn eftir, innan nokkurra daga eða innan viku, en nokkur að vörulistinn yrði sendur og síðan varan. Svör sem vitnin fengu þegar hringt var og innt eftir efndum voru á ýmsa lund.
Ákærði bar fyrir dóminum að hann hefði búist við viðbrögðum frá um 60 manns og að hann hefði haft vörur fyrir um 10 manns. Hann staðfesti að hann hefði lofað þeim sem hringdu fyrst að vörur yrðu afhentar strax. Nánar spurður um vörurnar kvaðst hann hafa getað keypt vörur hvar sem væri hér á landi og hann hefði ætlað að flytja vörur inn í gámum á hálfsmánaðar fresti og hann hefði samkvæmt lögum haft 30 daga frest til að afgreiða vörurnar. Við yfirheyrslu hjá lögreglu kvaðst hann hafa verið búinn að undirbúa þessi viðskipti í um það bil eitt ár, hann kvaðst vera í tengslum við amerískt fyrirtæki, Costco, en neitaði að gefa upp tengilið sinn þar. Hann kvaðst hafa ætlað að taka niður allar pantanirnar og síðan að láta senda sér vörurnar frá Ameríku og tæki það fimm daga í flugfrakt. Hann kvaðst ekki hafa lofað vörum strax og kvað 5.000 krónu gjaldið vera endurgjald fyrir aðgang að heildsöluverðum þeim sem hann bauð.
Ljóst er af gögnum málsins, framburði ákærða sjálfs og vitna að hann var ekki með neinar vörur til afhendingar þegar hann hóf söluferlið og ekkert í málinu bendir til þess að hann hafi þá verið búinn að leggja raunhæf drög að því að útvega vörur á þeim sérkjörum sem hann bauð. Hann hefur ekki sýnt fram á neina viðskiptasamninga hérlendis, né erlendis, sem gætu verið grundvöllur þeirra viðskipta sem hann auglýsti. Hann taldi hins vegar viðskiptavinum sínum trú um að hann gæti afhent þessar vörur á því lága verði sem auglýst var. Vegna þeirrar blekkingar greiddi fólkið honum 5.000 krónur sem eins konar aðgang að viðskiptunum, sem engin voru, eða sem greiðslu fyrir meintan vörulista. Samkvæmt vætti Ingibjargar Reynisdóttur, forsvarsmanns Skúlasonar ehf., bað hún ákærða ítrekað um að fá að sjá vörulistann, en þrátt fyrir ítrekuð loforð hefði hann ekki komið. Enginn kærenda fékk vörulistann þrátt fyrir greiðslu, hvorki í pósti né rafrænt. Krafinn fyrir dóminum um skýringar á þeim vörulista sem hann seldi undir nafninu „Costgo”, benti hann á vefslóð fyrirtækisins „Costco” í Bandaríkjunum. Dómurinn hefur skoðað þá síðu og er langt í frá að þar sé í dag að finna efni sem uppfylli skilgreiningu vörulista eins og ákærði seldi. Ljóst þykir að sá vörulisti sem ákærði kvaðst myndu senda þegar greiðsla hefði verið innt af hendi var ekki til í söluhæfu formi. Ákærði hefur ekki getað sýnt fram á nein tengsl við fyrirtækið Costco.
Hinn 5. og 6. nóvember voru lagðar inn á reikning ákærða 303-26-14430 hjá Búnaðarbanka Íslands, Austurbæjarútibúi, 140.750 krónur og inn á reikning 303-03-74834 333.000 krónur, samtals 473.750 krónur. Ákærði tók samtals 405.000 krónur út af reikningunum hinn 6. nóvember. Haldlagðar voru 300.000 krónur í reiðufé sem hann geymdi heima hjá móður sinni. Samkvæmt lögregluskýrslu hafði hann eytt um 44.800 krónum í eigin þágu, en 23.000 krónur hafði hann endurgreitt konu sem einnig hafði greitt fyrir vörur. Skýringar hans á því hvað hann hefði ætlað að gera við féð voru óstöðugar. Hjá lögreglu kvaðst hann hafa ætlað að nota það til að greiða fyrir leigu á vöruskemmu. Fyrir dóminum kvaðst hann hafa ætlað að kaupa vörur til endursölu fyrir það fé sem hann fengi fyrir sölu á vörulistunum eða viðskiptagjaldinu. Aðspurður kvað hann sinn hagnað hafa átt að koma af aðgangsgjaldi.
Með framburði vitna og þeim gögnum sem fram hafa verið lögð er sannað að ásetningur ákærða stóð til þess að fá fólk til þess að greiða 5.000 krónur án þess að hann hefði nokkur tök á eða raunhæfa áætlun um að standa við þau loforð sem sú greiðsla var grundvölluð á. Með háttsemi sinni blekkti ákærði fjölda fólks til þess að greiða þessa fjárhæð fyrir vörulista sem ekki var til og/eða fyrir aðgang að viðskiptum um kaup á vörum sem ekki voru til staðar og komst þannig hann yfir 450.750 krónur á einum sólarhring, dagana 5. og 6. nóvember 2001. Á hinn bóginn má telja upplýst að ásetningur ákærða hafi ekki staðið til þess að komast yfir meint vöruverð. Skýringar ákærða á athöfnum sínum og áætlunum hafa verð óstöðugar og að hluta fráleitar. Hefur hann með þeirri háttsemi sem lýst er í ákæru gerst sekur um fjársvik og varðar brot hans við 248. gr. almennra hegningarlaga.
II. kafli
Ákærði játaði sök samkvæmt þessum lið ákæru fyrir dóminum. Með vísan til framangreinds þykir ekki ástæða til að reifa málavexti frekar, en skírskotað er til ákærunnar um málavaxtalýsingu.
Skýlaus játning ákærða er í samræmi við gögn málsins að öðru leyti og er þannig sannað að hann hafi gerst sekur um háttsemi þá sem honum er gefin að sök í þessum lið ákæru. Brotið er þar rétt fært til refsiákvæða.
Refsiákvörðun
Ákærði gekkst sex sinnum undir greiðslu sektar með sátt á árunum 1988 til 1992, einu sinni fyrir nytjastuld og fimm sinnum fyrir umferðarlagabrot. Á árinu 1996 hlaut hann dóm, 2 mánaða fangelsi skilorðsbundið í 2 ár, fyrir skjalafals. Loks hlaut ákærði dóm fyrir fjárdrátt hinn 19. desember 2001, 2 mánaða fangelsi skilorðsbundið í 2 ár. Þar var um að ræða fjárdrátt á tæplega hálfri milljón króna úr sjóði húsfélagsins að Klukkurima 27-47 og var það brot framið í maí og júní árið 2000. Refsing sú er ákærða verður ákveðin nú er hegningarauki við dóminn frá 19. desember 2001 og er hann nú tekinn upp samkvæmt 60. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 7. gr. laga nr. 22/1955 og refsing ákveðin í einu lagi fyrir öll brotin eftir reglum 78. gr. almennra hegningarlaga. Ákærði hefur sér ekkert til málsbóta, en til þess má líta að það tókst að endurgreiða brotaþolum samkvæmt ákærulið I.2 mestan hluta fjárhæðarinnar. Hæfileg refsing ákærða þykir vera fangelsi í 6 mánuði. Ljóst er að hefði ákærða verið ákveðin refsing fyrir öll þrjú brotin hinn 19. desember sl. hefði refsingin ekki verið skilorðsbundin og þykja ekki forsendur nú til að skilorðsbinda hana.
Skaðabótakrafa
Af hálfu BYKO hf. hefur verið gerð skaðabótakrafa í málinu, sem byggir á lista fyrirtækisins yfir verðgildi þar tiltekinna vara. Við aðalmeðferð málsins upplýstist ekki hver hefði samið þennan lista né hvernig að því hefði verið staðið. Ljóst er að mikið af þeim vörum, sem ákærði tók, var skilað og að hér er að hluta um að ræða endursöluverð að mati verslunarinnar á þeim vörum. Af hálfu ákærða er bótakröfunni hins vegar mótmælt og er verðmatið vefengt af hans hálfu. Eins og málið er lagt fyrir dóminn verður að fallast á það að kröfugerð þessi sé vanreifuð og er henni vísað frá dómi.
Ákærði skal greiða allan sakarkostnað, þar með talið málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns Arnar Clausen hæstaréttarlögmanns sem ákvarðast 150.000 krónur.
Af hálfu ákæruvaldsins var málið flutt af Guðjóni Magnússyni fulltrúa lögreglustjórans í Reykjavík.
Hjördís Hákonardóttir héraðsdómari kvað upp dóminn.
D Ó M S O R Ð :
Ákærði, Goði Jóhann Gunnarsson, skal sæta fangelsi í 6 mánuði.
Skaðabótakröfu BYKO hf. er vísað frá dómi.
Ákærði skal greiða allan sakarkostnað, þar með talið málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns Arnar Clausen hæstaréttarlögmanns 150.000 krónur.