Hæstiréttur íslands
Mál nr. 330/2014
Lykilorð
- Líkamsárás
- Barnavernd
- Hylming
- Vopnalagabrot
- Vitni
- Ómerking héraðsdóms
- Heimvísun
|
|
Fimmtudaginn 10. september 2015. |
|
Nr. 330/2014.
|
Ákæruvaldið (Hulda María Stefánsdóttir saksóknari) gegn X (Ábjörn Jónsson hrl.) |
Líkamsárás. Barnavernd. Hylming. Vopnalagabrot. Vitni. Ómerking héraðsdóms. Heimvísun.
X var sakfelldur í héraði meðal annars fyrir líkamsárás og brot á barnaverndarlögum með því að hafa rifið í úlpu A og hent honum út af heimili sínu með þeim afleiðingum að hann féll í jörðina og hlaut sár á hné. Í dómi Hæstaréttar kom fram að framburður A væri misvísandi um það hvort hann hefði fallið á hnéð þegar X fleygði honum út úr íbúðinni eða síðar þegar hann hefði verið að hlaupa í burtu frá X. Þrátt fyrir þetta misræmi hefði A ekki verið kallaður á ný fyrir dóm við meðferð málsins og í hinum áfrýjaða dómi hefði ekki verið vikið að þessu misræmi. Þá hefði ekki verið tekin viðhlítandi afstaða til framburðar A að öðru leyti. Var því talið að niðurstaða héraðsdóms hefði ekki verið studd fullnægjandi rökum eins og áskilið væri í f. lið 2. mgr. 183. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Var dómur héraðsdóms því ómerktur og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar og dómsálagningar að nýju.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 30. apríl 2014 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Ákæruvaldið krefst þess að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur um sakfellingu ákærða og upptöku á hafnaboltakylfu, en refsing hans þyngd.
Ákærði krefst þess aðallega að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað en til vara að hann verði sýknaður af öllum kröfum ákæruvaldsins að undanskildum 3. lið ákæru þar sem hann krefst refsimildunar. Að því frágengnu krefst hann þess að refsing verði milduð og hún bundin skilorði. Þá krefst hann aðallega að einkaréttarkröfum verði vísað frá dómi en til vara að þær verði lækkaðar.
Samkvæmt ákæru er ákærði í fimm ákæruliðum sakaður um líkamsárás, brot á barnaverndarlögum, hylmingu og vopnalagabrot og var hann með hinum áfrýjaða dómi sakfelldur fyrir þá háttsemi sem í ákæru greinir. Í 2. lið ákæru er ákærði sakaður um líkamsárás og brot á barnaverndarlögum með því að hafa, sunnudaginn 9. september 2012, á þáverandi heimili sínu, rifið í bakhluta á úlpu sem A, tólf ára stjúpsonur hans klæddist, og hent honum út af heimilinu með þeim afleiðingum að drengurinn féll í jörðina og rann eftir götunni. Í kjölfarið hafi ákærði hellt yfir hann rigningarvatni úr mjólkurbrúsa og sparkað í kvið hans. Með þessari háttsemi sinni hafi ákærði misþyrmt drengnum bæði andlega og líkamlega þannig að heilsu hans hafi verið hætta búin. Hafi afleiðingar háttseminnar verið þær að A hafi hlotið eymsli við þreifingu á mjúkvefjum undir kjálka, hægra og vinstra megin, og við þreifingu hægra megin neðarlega í kvið, hruflsár og tognun á hægra hné og hruflsár á litla fingri vinstri handar.
Hinn 9. september 2012 kom brotaþoli A á lögreglustöð ásamt föður sínum D til að tilkynna um að ákærði hefði ráðist á sig og hent sér út af heimilinu. Kom fram hjá honum að ákærði hefði kýlt sig í magann, sparkað í rassinn á sér og hellt einhverjum vökva yfir sig. Í lögregluskýrslu kemur fram að drengurinn hafi verið útgrátinn, með skrámu á litla fingri vinstri handar og sár á hægra hné, sem hann hafi sagst hafa fengið er hann datt þegar ákærði henti honum út.
Tekin var skýrsla fyrir dómi af A í Barnahúsi 14. maí 2013. Þar lýsti brotaþoli atburðarásinni þannig að ákærði hefði fleygt honum út, „ ... ég var kominn á ganginn að klæða mig í skóna þá fleygir hann mér bara út. Ég var með svona sirka svona stórt sár yfir hnéskelinni ... og svo var hellt yfir mig vatni ísköldu vatni sem var í einhverri stórri krukku fyrir utan ...“ Brotaþoli var beðinn um að lýsa því nánar þegar honum var fleygt út og þá kvað hann ákærða hafa tekið í peysuna „ ... svona á bakinu reif hettuna og eitthvað rennilásinn datt af, henti mér út og ég fékk svona stórt sár það gerði svona stórt sár á mér.“ Þegar hann var spurður um hvernig það hafi atvikast að hann fékk sár kvaðst hann hafa runnið eftir götunni þegar honum var fleygt út. Nánar spurður um hvers vegna hann hafi dottið þegar honum hafi verið fleygt út og hann runnið eftir götunni sagðist hann hafa verið að reyna að hlaupa. Síðar í skýrslunni kvaðst brotaþoli hafa dottið á hnéð „þegar ég var að hlaupa“ og spurður að því hvers vegna hann hafi verið að hlaupa kvaðst hann hafa verið að hlaupa í burtu svo að ákærði myndi ekki gera meira. Þegar hann var spurður um hvenær það hafi gerst í röðinni að hann hafi meitt sig í hnénu sagði hann að það hafi verið þegar ákærði henti honum út.
Framangreindur framburður brotaþola er misvísandi um það hvort hann hafi fallið á hnéð þegar ákærði fleygði honum út úr íbúðinni eða síðar þegar hann hafi verið að hlaupa í burtu frá ákærða. Þrátt fyrir þetta misræmi var brotaþoli ekki kallaður á ný fyrir dóm við meðferð málsins og í hinum áfrýjaða dómi er ekki vikið að þessu misræmi heldur tekið fram að brotaþoli hafi lýst atvikum eins í Barnahúsi og hjá lögreglu. Þá er ekki tekin viðhlítandi afstaða til framburðar brotaþola að öðru leyti. Er niðurstaða héraðsdóms þannig ekki studd fullnægjandi rökum eins og áskilið er í f. lið 2. mgr. 183. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Verður því ekki hjá því komist með vísan til 1. mgr. 204. gr. og 3. mgr. 208. gr. laganna að ómerkja hinn áfrýjaða dóm og vísa málinu heim í hérað til þess að aðalmeðferð geti farið fram á ný og dómur verði aftur á það felldur.
Ákvörðun sakarkostnaðar í héraði bíður nýs efnisdóms í málinu. Áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun verjanda ákærða sem ákveðin er með virðisaukaskatti eins og greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur er ómerktur og er málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar og dómsálagningar að nýju. Allur áfrýjunarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Ásbjörns Jónssonar hæstaréttarlögmanns, 496.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 8. apríl 2014.
Mál þetta, sem þingfest var 15. janúar sl. og dómtekið 4. mars sl., var höfðað með ákæru lögreglustjórans á Suðurnesjum, dagsettri 9. desember 2013, á hendur X, kt. [...], [...], [...], fyrir eftirtalin brot gegn almennum hegningarlögum, barnaverndarlögum og vopnalögum;
I.
„fyrir líkamsárás, með því að hafa, miðvikudaginn 11. júlí 2012, á þáverandi heimili sínu að [...], [...], slegið B, kt. [...], í höfuðið með þeim afleiðingum að hún féll í gólfið og dregið hana niður tröppur innandyra og að útihurðinni, með þeim afleiðingum að B hlaut glóðarauga á hægra auga, kúlu á hnakka og mar og yfirborðsáverka á hægri og vinstri olnboga og á innanverðum vinstri upphandlegg.
Telst þessi háttsemi ákærða varða við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. lög nr. 20/1981.
II.
fyrir líkamsárás og brot á barnaverndarlögum, með því að hafa, sunnudaginn 9. september 2012, á þáverandi heimili sínu að [...], [...], rifið í bakhluta á úlpu sem A, kt. [...], stjúpsonur hans sem þá var 12 ára, íklæddist og hent honum út af heimilinu með þeim afleiðingum að A féll í jörðina og rann eftir götunni og í kjölfarið hellt yfir hann úr mjólkurbrúsa rigningarvatni og sparkað í kvið hans en með þessari háttsemi sinni misþyrmdi ákærði A bæði andlega og líkamlega þannig að heilsu hans var hætta búin. Urðu afleiðingar háttsemi ákærða þær að A hlaut eymsli við þreifingu á mjúkvefjum undir kjálka, hægra og vinstra megin og við þreifingu hægra megin neðarlega í kvið, hruflsár og tognun á hægra hné og hruflsár á litla fingri vinstri handar.
Telst þessi háttsemi ákærða varða við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. lög nr. 20/1981 og ákvæði 98. gr. og 1. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.
III.
fyrir brot á barnaverndarlögum, með því að hafa miðvikudaginn 1. maí 2013, sent A, kt. [...], stjúpsyni sínum, sem þá var 13 ára, eftirfarandi þrjú sms-smáskilaboð í símanúmerið [...] úr sameiginlegu símanúmeri sínu og móður A, [...], þar sem hann lét sem hann væri móðir hans og með skilaboðunum misþyrmdi og misbauð ákærði A andlega þannig að andlegri heilsu hans var hætta búin og sýndi honum bæði ruddalegt og ósiðlegt athæfi, særði og móðgaði A:
„Já A minn eins og vid vorum ad tala um I gær, eg var med [...] afa nokkur skipti en hann er ekki afi tinn A og ekkert skyldur ter elsku drengurinn minn“
„Tegar tú varst búinn til var [...] ekki til stadar tú kallar mig hóru kanski er eg tad og tú ert hórusonur og ekki [...] pabbi tinn veit ekki ad tú ert til en hann býr fyrir vestan sorry strákurinn minn:-/“
„A minn ef eg er hóra tá ert tú hórusonur er tad ekki? [...] er ekki pabbi tinn A minn eg átti tig með ödrum manni pabbi tinn heitir, eg segi ter tad kanski seinna tegar tú verdur eldri [...] er ekki pabbi tinn eg var ad reyna ad segja ter tad i gær sorri“
Telst þessi háttsemi ákærða varða við 98. gr. og 1. og 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.
IV.
fyrir hylmingu og vopnalagabrot, með því að hafa, föstudaginn 24. maí 2013, á heimili sínu að [...], [...], haft í vörslum sínum, í fataskáp í svefnherbergi, án skotvopnaleyfis og án sérstakrar heimildar haglabyssu að gerðinni Benelli, nr. [...] og gikklás sem tilheyrði byssunni og hann geymdi í lyfjaskáp, muni sem hann móttók frá „C“ og er að öðru leyti óþekktur aðili, en munirnir höfðu verið teknir ófrjálsri hendi í innbroti í bílskúr að [...], [...], í febrúar eða mars 2012, og ákærði móttók vitandi það að munirnir væru illa fengnir, og með þeirri háttsemi sinni hélt hann munum ólöglega fyrir eigendum þeirra. Þá ábyrgðist ákærði ekki vörslur haglabyssunnar svo óviðkomandi aðilar næðu ekki til vopnsins með því að geyma það í fataskáp í svefnherbergi.
Telst háttsemi þessi varða við 1. mgr. 254. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 1. mgr. 12. gr. og 1. og 2. mgr. 23. gr, sbr. 1. mgr. 36. gr. vopnalaga nr. 16/1998.
V.
fyrir vopnalagabrot, með því að hafa, föstudaginn 24. maí 2013, á heimili sínu að [...], [...], haft í vörslum sínum kylfu, sem lögregla fann við húsleit umrætt sinn undir hjónarúmi í svefnherbergi.
Telst háttsemi þessi varða við c. lið 2. mgr. 30. gr., sbr. 1. mgr. 36. gr. vopnalaga nr. 16/1998.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.
Þá er þess krafist að kylfa sem lögregla lagði hald sbr. ákærulið V. verði gerð upptæk með vísan til 1. mgr. 37. gr. vopnalaga nr. 16/1998.
Í máli sbr. I. ákærulið gerir B, kt. [...], miskabótakröfu á hendur ákærða, X, kt. [...], að fjárhæð kr. 850.000,- auk vaxta skv. 8. gr., sbr. 4. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 11. júlí 2012 til þess dags þegar mánuður er liðinn frá því að bótakrafan er kynnt fyrir sakborningi en með dráttarvöxtum eftir þann dag skv. 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga til greiðsludags. Þá er gerð krafa um þóknun við réttargæslu samkvæmt mati réttarins eða samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi að viðbættum virðisaukaskatti.
Í málinu, sbr. II. og III. ákærulið, krefst D, kt. [...], miskabóta úr hendi ákærða, X, kt. [...], f.h. ólögráða sonar síns, A, kt. [...], samtals að fjárhæð kr. 1.000.000,- auk vaxta skv. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 9. september 2013 þar til mánuður er liðinn frá birtingu skaðabótakröfunnar en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags. Þá er gerð krafa um þóknun réttargæslumanns að mati dómsins eða samkvæmt síðar framlögðum reikningi, að viðbættum virðisaukaskatti.“
Ákærði kom fyrir dóminn við þingfestingu málsins og neitaði sök í öllum ákæruliðum utan ákæruliðar III en ákærði játaði þá háttsemi sem þar er lýst. Þá mótmælti hann bótakröfunum. Aðalmeðferð hófst þann 4. mars sl. og var málið dómtekið að málflutningi loknum. Krafðist ákærði sýknu en til vara vægustu refsingar sem lög leyfa.
Málsatvik.
Ákæruliður I.
Tilkynnt var um mikil öskur frá íbúð ákærða að [...], [...], til Fjarskiptamiðstöðvar ríkislögreglustjóra kl. 23:40 hinn 11. júlí 2012. Þegar lögreglan kom á vettvang voru þrír aðilar fyrir utan og sögðu húsráðanda innandyra vera að berja konuna sína. Fór einn aðilinn, E, inn í húsið á undan lögreglu og þegar lögreglan kom inn var E að draga ákærða af F, sambýliskonu sinni, sem hafi öskrað og grátið. Var mikil óreiða innandyra. Er lögregla ætlaði að handjárna ákærða streittist hann á móti og varð lögreglan að leggja hann í gólfið til að koma honum í handjárn. Ákærði var með áverka á höndum, höfði og á baki, sem voru ljósmyndaðir. Ákærði virtist ölvaður. Að sögn brotaþola kvaðst hún hafa hringt í F fyrr um kvöldið í þeim tilgangi að heimsækja hana. F hafi afþakkað komu hennar en brotaþoli þrátt fyrir það farið heim til hennar. Þegar brotaþoli bankaði hafi ákærði komið til dyra og sagt að enginn óboðinn kæmi í heimsókn. Kvaðst brotaþoli hafa sagt ákærða að hún væri að heimsækja F, farið inn og síðan inn í svefnherbergi hennar. Ákærði hafi komið á eftir henni og beitt hana ofbeldi, m.a. sparkað í andlitið á henni og bringu. Því næst hafi ákærði tekið hana upp og borið hana út. Brotaþoli hafi þá hringt í kærasta sinn, E, sem hafi komið með vin sinn G með sér. F kvaðst ekki hafa orðið fyrir neinu ofbeldi af hálfu ákærða en hún væri búin að vera í vandræðum með hann en þau væru nýbyrjuð aftur saman eftir að ákærði henti henni út ásamt börnum hennar, ekki fyrir löngu.
Ákæruliður II.
Samkvæmt frumskýrslu lögreglu kom brotaþoli ásamt föður sínum á lögreglustöðina að [...] og tilkynnti að sambýlismaður móður brotaþola hafi ráðist á hann og hent honum út af heimili þeirra sem þá var að [...]. Ástæða þess hafi verið að brotaþoli hafi ekki viljað fara í sturtu að beiðni móður hans. Hafi ákærði kýlt brotaþola í magann, sparkað í rassinn á honum og hellt einhverjum vökva yfir hann. Í framhaldi var farið að heimili ákærða og hann handtekinn. Ákærði hafi neitað að hafa beitt brotaþola ofbeldi en hann hafi slegið tvisvar með flötum lófa á rass hans og skvett á hann rigningarvatni. Kvað ákærði brotaþola hafa látið öllum illum látum á heimili ákærða og móður brotaþola, hringt dyrabjöllunni endalaust, sparkað og barið í útihurð, grýtt grjóti í nærliggjandi bifreiðar, sem og bifreið ákærða og einnig skemmt dyrabjölluna og rispað gler í útihurð. Þau hafi reynt að tala við brotaþola sem hafi þá kastað grjóti í móður sína og ákærða. Þá hafi ákærði tekið upp gamlan mjólkurbrúsa, sem í hafi verið rigningarvatn, til að skýla sér og hellt úr brúsanum til að kæla brotaþola niður. Brotaþoli hafi ætlað að hlaupa í burtu en dottið við það. Þá hafi ákærði tekið í úlpu brotaþola og rassskellt hann tvisvar sinnum.
Skýrsla var tekin af brotaþola í Barnahúsi í maí sl. þar sem hann skýrði frá atvikum. Þá skýrði brotaþoli frá meðferð yngri systkina sinna sem hann hefði áhyggjur af og væru á heimili móður hans og ákærða.
Barnaverndarnefnd [...] sendi kæru vegna atviksins til lögreglu þann 29. október 2012 en barnavernd hafði verið í þeirri trú að faðir brotaþola hefði kært atvikið þegar þeir komu á lögreglustöðina 7. september 2012. Svo hafði ekki verið gert.
Ákæruliður III.
Ákærði játaði hjá lögreglu að hafa sent brotaþola þessi skilaboð úr farsíma móður hans í síma brotaþola. Ástæðan hafi verið ljót skilaboð sem brotaþoli hafi sent móður sinni áður, en búið væri að þurrka þau út úr símanum. Þá hafi móðir brotaþola ekki vitað um skilaboðin sem ákærði sendi brotaþola.
Ákæruliður IV.
Við húsleit á heimili ákærða þann 24. maí 2013, að [...], fannst haglabyssa inni í fataskáp í svefnherbergi hans. Ákærði kvaðst, í skýrslutöku hjá lögreglu þann 29. maí sl., hafa keypt byssuna á vefsíðunni Bland.is fyrir einu til einu og hálfu ári. Hann hafi ekki áttað sig á því fyrr en eftir að hann hafi keypt byssuna að „eitthvað gruggugt“ hafi verið við söluna. Byssuna hafi hann keypt á 30.000 krónur og greitt kaupverðið með seðlum. Ákærði kvað seljandann vera kallaðan „C“ og sé lítill kraftlyftingakall, búsettur í miðbæ [...] og tengdur mótorhjólaklúbbnum [...].
Ákæruliður V.
Við ofangreinda húsleit fannst hafnaboltakylfa undir hjónarúmi í herbergi ákærða. Kvað ákærði það gamlan kæk, frá því að hann hafi verið sem mest í lyfjum og „svoleiðis“, að hafa alltaf verið smá „paranojaður“. Þetta sé bara baseballkylfa og honum heimilt að eiga hana.
Læknisvottorð og önnur sýnileg sönnunargögn.
Í gögnum málsins liggja fyrir áverkavottorð vegna ákæruliða I og II.
Læknisvottorð Heilsugæslunnar í [...] liggur fyrir í málinu vegna B. Þar segir að brotaþoli hafi komið á bráðamóttöku [...] aðfaranótt 12. júlí 2012 eftir líkamsárás að [...] í [...]. Kvaðst brotaþoli B hafa verið slegin í höfuðið og dottið við það í gólfið. Hún hafi síðan verið dregin á hárinu niður tröppur og hent í jörðina aftur og sparkað í hægri mjöðm, hægri síðu, vinstri og hægri handlegg hennar. Við skoðun hafi hún verið áttuð á stað og stund en í nokkru áfalli eftir atburðinn. Var hún að sjá nokkuð ölvuð og þvoglumælt. Glóðarauga hafi verið á hægra auga, kúlu mátti finna aftan á hnakka. Þá var mar og yfirborðsáverki á hægri og vinstri olnboga sem og á innanverðum vinstri upphandlegg. Daginn eftir hafi brotaþoli komið aftur á heilsugæsluna með versnandi einkenni og mun meiri verki í hægri öxl og átti þá verra með að hreyfa hana. Einnig hafi verið verkir yfir rifjum vinstra megin TH5-TH9. Þá var brotaþoli komin með skýrara mar á vinstri upphandlegg, eins og fingraför.
Þá liggja fyrir ljósmyndir af ofangreindum áverkum brotaþola í málinu. Einnig liggja fyrir ljósmyndir af áverkum á ákærða, sem hann kveðst hafa fengið í átökum við brotaþola, B. Ekki liggur fyrir læknisvottorð vegna áverka ákærða.
Læknisvottorð vegna A, dagsett 19. apríl 2013, er í gögnum málsins. Kemur þar fram að brotaþoli hafi komið kl. 14.30 þann 9. september 2012 á heilsugæsluna og lýst því að hann hafi orðið fyrir ofbeldi af hálfu stjúpföður á heimili hans og móður sinnar. Eftir brotaþola er haft að stjúpfaðir hans hafi fyrst tekið um háls hans, slegið hann í vörina og einnig nokkrum sinnum í kviðinn og hrint honum út úr húsi þannig að hann hafi dottið og lent með hægri hnéskel á gangstétt. Við skoðun segir að sprunga sé innan á efri vör en engin önnur áverkamerki á höfði. Ekki séu áverkamerki á hálsi en eymsli við þreifingu í mjúkvefjum undir kjálka hægra og vinstra megin. Ekki séu sjáanlegir áverkar á kvið en eymsli séu við þreifingu neðarlega hægra megin í kvið. Grunnt hruflsár sé á hægra hné sem blæði úr og verkur sé ofan við hægri hnéskel við þreifingu. Brotaþoli hafi fengið umbúðir yfir sár á hægra hné og helstu eftirköst séu tognun í hægra hné eftir högg.
Ljósmyndir af A eru í gögnum málsins þar sem sjá má áverka á hægra hné hans og litla fingri.
Vottorð H, læknis við Heilsugæsluna [...], dagsett 8. janúar 2014, vegna B, er í gögnum málsins. Segir þar við komu 27. júlí 2012 að brotaþoli hafi átt erfitt með svefn eftir árásina og þótt erfitt að vera ein. Hún sofi illa og vakni tvisvar til þrisvar sinnum á næturnar og vakni upp við minnsta hljóð. Hafi þetta ágerst eftir árásina en fyrir árásina hafi hún verið búin að ná sér eftir líkamsárás sem hún lenti í árið 2010. B hafi verið þjökuð af kvíða og vanlíðan en hafi náð að vinna sig í gegnum það. Enn í dag eftir árásina 2012 komi einkenni streitu fram. Verkir séu í vöðvafestum við hnakkagrófina og sé hún með ör eftir líkamsárásina 2012. Sé þar um hárlaust svæði að ræða og dofi í svæðinu sem sé um þrír cm í þvermál. Verkir séu við þreifingu á vöðvafestum aftur í hnakka.
Ljósmyndir liggja fyrir í gögnum málsins sem fundust í tölvu við húsleit á heimili ákærða og sambýliskonu hans þar sem sést að þau ásamt þriðja manni handleika byssu utandyra, sem lögregla telur vera sömu byssu og haldlögð var við húsleit heima hjá ákærða.
Ljósmyndir úr síma brotaþola vegna ákæruliðar III, þar sem fram koma þau skilaboð sem ákærði sendi brotaþola 1. maí 2013, liggja fyrir.
Ljósmyndir liggja fyrir af kylfu sem fannst undir hjónarúmi á heimili ákærða og kemur fram að F hafi verið viðstödd húsleitina. Enginn hafnabolti fannst né virðist hafa verið bent á hann við húsleitina.
Ljósmyndir eru af skemmdum á bifreið á bifreiðaplani við [...] og gömlum mjólkurbrúsa. Þar kemur fram að bifreiðastæði fyrir framan íbúð ákærða er með varanlegu slitlagi.
Skýrslur fyrir dómi.
Ákæruliður I.
Ákærði kom fyrir dóminn og kvað B hafa hringt í sambýliskonu sína umrætt kvöld og viljað koma til þeirra en þau beðið hana um að koma ekki. Þrátt fyrir það hafi B komið og verið komin fyrirvaralaust inn í stofu þar sem ákærði sat. Hafi B rifist við þau dauðadrukkin. Ákærði og F hafi beðið B um að fara en hún hafi neitað. Ákærði hafi því tekið undir handlegg hennar og leitt hana út. B hafi aftur komið inn kolvitlaus og ákærði tekið aftur undir handlegg hennar og leitt hana út. Ákærði kvaðst hafa verið búinn að drekka um fjóra bjóra þegar þetta var. Ákærði kvaðst ekki hafa hugmynd um ástæðu komu B en hún og F hafi verið búnar að vera í einhverju símasambandi fyrr um kvöldið. Ákærði kvaðst aldrei hafa séð B fyrr. Framburður ákærða hjá lögreglu um að hann hafi slegið B flötum lófa í höfuðið var borinn undir ákærða. Kvað ákærði þennan framburð sinn hjá lögreglu vera rangan þar sem ákærði hafi verið undir mikilli pressu. B hafi komið inn á hans heimili, sem ætti að vera friðhelgt, og það valdið honum mikilli pressu. Ákærði kvaðst ekki vita hvað hafi komið fyrir B eftir að hann leiddi hana út, nýbúið væri að skipta um skolplagnir við húsið, þar væri hár kantur, vel gæti verið að hún hafi rúllað þar niður. Ákærði kvaðst þó ekki hafa séð neina áverka á henni þegar hún kom aftur inn í húsið. Ákærði kvað B hafa slegið sig og rispað þegar hann leiddi hana út. Ákærði kvaðst hafa hálfpartinn þurft að bera hana út sem gæti þá skýrt áverka á hlið hennar. Sagði ákærði að hann og F hafi verið ósátt um kvöldið en það væri þeirra einkamál, enda innan veggja heimilisins. Ákærði kvað E hafa komið inn í kjölfar B og ráðist á sig og skellt sér í gólfið. Í sömu andrá hafi lögreglumaður komið inn í húsið. Ákærði og F hafi þá verið inni í herbergi og þau legið í rúminu minnti ákærða. Aðspurður um framburð E um að hann hafi dregið ákærða ofan af F kvað ákærði það vera rangt, E hafi skellt sér í gólfið. Framburður ákærða hjá lögreglu frá 12. júlí 2012 var borinn undir ákærða. Kvaðst ákærði hafa þurft að taka undir B í seinna skiptið sem hún kom inn og hann þurft að henda henni út. B hafi verið dauðadrukkin og örugglega dópuð líka og hann hafi heimild til að henda fólki út sem ráðist inn á heimili hans. Aðspurður um áverka á B kvaðst ákærði ekki geta skýrt þá. Framburð ákærða frá sama tíma um að hann ætti sér engar málsbætur fyrir að slá kvenmann, kvað ákærði ekki vera réttan, hann slái ekki kvenfólk. Kvað ákærði B hafa verið tryllta þegar hún kom inn og látið eins og hún ætti þetta allt saman, hans heimili. Ákærði kvað ástæðu þess að þau F rifust hafi verið framhjáhald F með fyrri manni sínum sem heiti J. Ákærði var inntur eftir málningu og skrifum með málningu á vegg í íbúðinni. Sagði ákærði að þau hafi verið að mála vegginn sem hafi átt að vera abstrakt. Þegar B hafi komið inn hafi málningardós fallið á gólfið og málningin verið blaut þegar lögreglan kom. Aðspurður um skrif með bleikri málningu „Á túr með J“ á vegginn, kvað ákærði þau hafa verið að mála vegginn og „Á túr“ hafi verið skírskotun til þess að þau væru að spá í að fara í túr til Spánar. Annaðhvort F eða hann hafi skrifað „með J“. Ákærði kvað vel vera að hann hafi skrifað það, þau megi mála vegg eins og þau vilji, þetta sé heima hjá þeim. Ákærði kvaðst ekki hafa verið sáttur við framhjáhald F þar sem hann hafi tekið hana inn á heimili sitt. Aðspurður um framburð sinn hjá lögreglu um skrifin á vegginn, kvaðst ákærði ekkert geta skýrt það en þetta væri hans heimili. Ákærði sagði að þegar B kom inn í seinna skiptið, hafi ákærði verið inni á gangi og B hafi komið æðandi inn tryllt og gólandi og ákærði hafi þá tekið í handlegg hennar og leitt hana út. Ákærði kvað klór á andliti sínu vera eftir B.
Vitnið B kom fyrir dóminn og lýsti atvikum svo að vitnið hafi fyrr um kvöldið verið í sambandi við F og verið með áhyggjur af henni og því farið heim til hennar. Útidyrahurðin hafi verið opin og vitnið því farið inn og kallað „halló“. Ákærði hafi kallað á móti „halló“ og vitnið því farið inn. Vitnið hafi spurt um F og hafi ákærði sagt að hún væri inni í herbergi. Vitnið hafi farið inn til F og séð hana liggja grátandi uppi í rúmi. Áður fyrr hafi mikið gengið á á milli F og ákærða og hann áður hent F út og hún þá verið hjá frænku þeirra í mánuð en vitnið hafi verið hjá þeirri frænku fyrr um kvöldið. Vitnið hafi rætt við F fyrr um kvöldið og hafi hún verið grátandi. Vitnið hafi því viljað kanna hvort ekki væri í lagi með hana. Vitnið kvaðst einu sinni áður hafa komið heim til F. Vitnið lýsti því svo að ákærði hafi kýlt sig inni í herbergi þar sem F var. Vitnið hafi vankast og ákærði hafi dregið vitnið niður úr herberginu og út. Vitnið hafi fengið kúlu á hnakkann, glóðarauga og mar á handlegg og axlir. Vitnið taldi að glóðaraugað hafi komið vegna höggsins í höfuðið. Framburður ákærða og F var borinn undir vitnið og kvað vitnið hann ekki réttan. Vitnið kvað marið á handlegg vera eftir ákærða. Vitnið hafi verið með verki í nokkra daga á eftir og farið tvisvar eða þrisvar til læknis. Aðspurt hvort vitnið hafi komið tvisvar inn í íbúðina kvað vitnið það ekki rétt, það hafi bara farið einu sinni inn í íbúðina. Vitnið kvaðst hafa heyrt öskrin í F út fyrir þegar ákærði hafði hent vitninu út og vitnið hringt í fyrsta númer sem því datt í hug sem hafi verið hjá E. Hann hafi síðan komið og lögreglan hafi komið stuttu síðar. Vitnið kvaðst ekki hafa náð að verja sig á nokkurn hátt. Aðspurt kvaðst vitnið ekki hafa verið mikið ölvað, það hafi verið búið að drekka þrjá bjóra fyrr um kvöldið en verið í miklu sjokki þegar það kom á heilsugæsluna. Kannaðist vitnið ekki við að F hafi ekki viljað fá sig í heimsókn þá um kvöldið. Vitnið neitaði því að hafa farið aftur inn í íbúðina eftir að ákærði henti því út nema eftir að lögreglan kom, þá hafi vitnið farið inn og setið með F. Vitnið kvað F hafa farið með sér heim eftir atvikið og gist hjá sér um nóttina þar sem hún óttaðist ákærða. F hafi síðan viljað fá vitnið með sér heim í íbúðina til að taka dótið sitt en vitnið hafi verið búið að útvega henni geymslupláss. Kvaðst vitnið ekki hafa viljað fara í íbúðina aftur með F. F hafi hins vegar flutt aftur til ákærða.
Vitnið F, sambýliskona ákærða, kom fyrir dóminn og kvað þau hafa verið að rífast vegna framhjáhalds hennar. B hafi reynt að hafa samband við sig og ætlað að koma en F beðið hana um að koma ekki þar sem þau væru að rífast. Samskipti hennar og B hafi ekki verið mikil en þær væru systradætur. B hafi þrátt fyrir það komið og ætt inn í íbúðina og beint inn í herbergi þar sem vitnið var. Ákærði hafi komið inn og tekið undir höndina á B og leitt hana út. B hafi komið askvaðandi strax inn aftur með látum og ákærði þá hent henni út aftur. Ákærði hafi komið inn í herbergi til sín og spurt sig hvað gengi á en þá hafi E komið askvaðandi inn og ráðist á ákærða og dregið hann fram á gólf og í beinu framhaldi hafi lögreglumaður komið á eftir honum og ráðist á ákærða. Aðspurt kvað vitnið sig og ákærða hafa rifist áður en B kom en rifrildinu verið lokið. Vitnið kvaðst ekki hafa séð neina áverka á B né hitt hana eftir að henni var hent út. B hafi í raun framið húsbrot og henni hafi ekki komið þetta neitt við. Framburður vitnisins hjá lögreglu um atlögu ákærða að B var borinn undir vitnið. Kvað vitnið það ekki vera rétt en vel gæti verið að B hafi hrasað í tröppum þegar ákærði teymdi B út. B hafi ráðist á ákærða eftir að hún var komin upp tröppurnar í íbúðinni en vitnið kvaðst ekki muna þetta vel. Hausinn á vitninu væri bara ekki í lagi. Vel gæti verið að frásögn hennar hjá lögreglu hafi verið rétt, vitnið myndi það bara ekki. Þegar E hafi komið inn hafi ákærði staðið á gólfinu inni í herberginu hjá vitninu og E ráðist á ákærða. Aðspurt kvað vitnið ákærða hafa verið ódrukkinn í umrætt sinn, þau hafi ekki haft vín um hönd. Vitnið kvaðst hafa séð B ráðast á ákærða. Það hafi verið á ganginum, en þetta hafi allt gerst svo hratt. Vitnið var spurt um „Á túr með J“ sem málað var á vegg, og kvað vitnið ákærða hafa málað þetta þar sem hann hafi verið reiður út í vitnið vegna framhjáhalds. Fatan hafi dottið þegar ákærði var að mála vegginn en vitnið mundi ekki hvenær það gerðist, það hafi ekki verið þegar lögreglan kom.
Vitnið G kom fyrir dóminn og minnti að B hafi hringt í E með þau skilaboð að ákærði hefði lagt hendur á sambýliskonu sína. Þeir hafi því farið að heimili þeirra en vitnið mundi ekki hvort einhver hávaði hafi verið fyrir utan. Vitnið og E hafi farið inn í húsið og ákærði verið með einhver dólgslæti en vitnið mundi ekki eftir því frekar. Þá mundi vitnið eftir því að eitthvað hafi séð á B. Vitnið mundi ekki til þess að B hafi verið mjög drukkin en hún hafi verið í uppnámi.
Vitnið E kom fyrir dóminn og kvað B hafa hringt í sig og sagt að það hafi verið ráðist á hana. Vitnið hafi farið með G og K, konu hans, á staðinn. Þeir hafi hitt B úti á götu og þeir heyrt mikil læti frá íbúðinni og vitnið heyrt rifrildi þaðan. Það hafi verið opið inn og vitnið og G farið inn. Þar hafi ákærði verið mjög ölvaður, svo ölvaður að þegar lögreglan var að handjárna ákærða hafi hann sagt við F: „F nennirðu að hringja á lögregluna“. Vitnið kvaðst ekki hafa séð nein átök á milli ákærða og F, eingöngu heyrt rifrildi. Lýsing á atviki í lögregluskýrslu um að vitnið hafi verið að draga ákærða ofan af F þegar lögregla kom inn var borin undir vitnið. Kvaðst vitnið ekki muna til þess. Þau hafi verið inni í barnaherbergi og myrkur þar inni og minnti vitnið að þau hafi staðið. Vitnið kvaðst hafa séð áverka á B, bólgu á vanga og áverka fyrir ofan augabrún, á vettvangi. Vitnið kvaðst ekki vita hvort B hafi verið ölvuð en hún hafi verið í uppnámi.
Vitnið L lögreglumaður kom fyrir dóminn og kvaðst lítið muna eftir umræddu atviki, enda langt um liðið. Vitnið mundi þó að það hafi komið eitt á vettvang en fleiri lögreglumenn hafi komið fljótlega. Vitnið rámaði í að dimmt hafi verið inni og einhver óreiða og mundi eftir öskrum en það myndi ekki frá hverjum þau voru. Vísaði vitnið til lögregluskýrslu sinnar sem það ritaði um atvikið.
Ákæruliður II.
Skýrsla var tekin af brotaþola í Barnahúsi þann 14. maí 2013. Lýsti hann aðdraganda atviksins þannig að hann hafi ekki viljað fara í bað og ætlað út, verið að klæða sig í skó þegar ákærði kom, reif í úlpuna hans þannig að hettan rifnaði og henti honum út og sagði „djöfulsins krakki“. Hann hafi reynt að hlaupa en runnið fyrir utan og dottið og fengið sár yfir hnéskelina við það. Brotaþoli hafi tekið um hné sér, ákærði hafi komið út, hent dótinu hans út á eftir honum, tekið einhverja skál með handföngum og hellt yfir hann ísköldu vatni og sparkað í maga brotaþola þar sem hann lá og lamið brotaþola í öxlina þegar hann stóð upp og sagt brotaþola að drulla sér í burt. Hann hafi viljað fá síma sinn en ekki fengið en dótinu hans hafi verið hent út á eftir honum. Brotaþoli kvað M, fósturmóður sína, hafa sótt sig sama kvöld. Aðspurður um sprungna vör sagðist brotaþoli hafa verið með varaþurrk og væri það ekki ákærða að kenna.
Ákærði lýsti atvikum svo að móðir brotaþola hafi tekið símann af stráknum umrætt sinn. Strákurinn hafi ekki viljað fara út að leika sér og móðir hans þá beðið hann að fara í sturtu en strákurinn hafi þá tekið æðiskast og rokið út úr húsinu. Hann hafi grýtt húsið og bílinn þeirra og þau með grjóthnullungum sem hann tók upp úr næstu lóð sem hafi verð ófrágengin. Ákærði og F hafi reynt að stöðva strákinn og þau reynt að halda dóttur F inni í húsinu svo að strákurinn réðist ekki á hana. Kvaðst ákærði aldrei hafa upplifað önnur eins viðbrögð hjá nokkrum manni. Ákærði hafi tekið upp mjólkurbrúsa sem var fyrir utan húsið og hlaupið á móti stráknum og hellt yfir hann rigningarvatni, einum eða tveimur lítrum. Ákærði hafi tekið í úlpuna á stráknum og slegið í rassinn á honum og strákurinn þá gjörsamlega brjálast. Ákærði hafi sleppt stráknum og hann þá hlaupið í burtu og skutlað sér í jörðina öskrandi og veinandi og svo, sem betur fer, hlaupið í burtu. Aðspurður hvers vegna strákurinn hafi átt að fara í sturtu kvað ákærði strákinn hafa verið svartan af drullu, hann hafi verið nýkominn til þeirra og komið mjög skítugur. Þau hafi bara viljað að drengurinn færi hreinn heim til sín aftur. Aðspurður hvers vegna síminn hafi verið tekinn af drengnum, kvað ákærði móður hans hafa séð skilaboð sem henni hafi ekkert litist á, skilaboð um fíkniefni, en ákærði hafi ekki séð þau skilaboð. Ákærði kvað strákinn hafa verið í úlpu, sem ákærði hafði gefið honum, og gauðrifnum gallabuxum. Ákærði kvaðst ekki hafa hugmynd um hvort úlpan hafi rifnað þegar ákærði tók í úlpuna og sló í rassinn á honum. Ákærði kvaðst hafa slegið einu sinni og laust. Ákærði kvaðst ekki hafa hent drengnum út og skýringar á rifnum fötum væri bara hans geðveiki. Kvað ákærði atlögu stráksins hafa varað í um fimm til tíu mínútur, strákurinn hafi eyðilagt dyrabjöllu og grýtt bíla fyrir utan, áður en þau fóru út til hans. Ákærði kvaðst hafa farið inn á eftir og fengið sér bjór til að jafna sig og þá hafi lögreglan allt í einu birst. Ákærði kvaðst ekki geta skýrt út þá áverka sem voru á drengnum, hann væri ekki læknismenntaður. Aðspurður um framburð sinn hjá lögreglu um að hann hafi rassskellt drenginn tvisvar, kvaðst ákærði bara hafa gert það einu sinni. Ákærði kvað drenginn tvisvar hafa sofið undir sama þaki og ákærði frá því að hann og F hófu sambúð, umrætt sinn hafi verið í seinna skiptið en drengurinn væri í fóstri.
Vitnið F kvað, varðandi þennan ákærulið, A hafa komið í heimsókn til þeirra á föstudeginum um [...] og þau átt notalegt kvöld og borðað snakk. A sé ofvirkur á hæsta stigi með athyglisbrest og einbeitingarskort. Á laugardagsmorguninn hafi yngri bróðir hans og sonur ákærða farið út að leika sér en A ekki viljað út með þeim, heldur viljað vera í tölvunni í einhverju mótþróakasti. Vitnið kvaðst hafa tekið símann af honum kvöldið áður án þess að hann vissi, þar sem vitnið hafi séð smáskilaboð í símanum frá töluvert eldri strákum. Vitnið hafi því spurt brotaþola hvort hann vildi ekki í bað eða sturtu þannig að hægt væri að þvo föt af honum en hann ekki viljað. Allt hafi verið ómögulegt hjá honum, en honum verið bent á að hann yrði að fara eftir sömu reglum og hinir krakkarnir og hann gæti ekki verið í tölvunni í tíma og ótíma. Strákurinn hafi verið ósáttur, tekið poka með fötunum sínum og rokið út en áttað sig á því að síminn hans var ekki með og því komið inn aftur til að sækja hann. Vitnið hafi neitað drengnum um símann og drengurinn þá rokið út aftur og kallað vitnið ljótum orðum. Drengurinn hafi þá byrjað að grýta bílana fyrir utan með grjóthnullungum. Vitnið hafi reynt að stoppa drenginn en ákærði og vitnið þá líka verið grýtt. Ákærði hafi þá komið út og tekið mjólkurbrúsa, sem var þar með einhverju vatni í, og hellt yfir drenginn til að kæla hann niður. Við það hafi drengurinn bókstaflega tryllst og haldið áfram að kasta grjóti. Ákærði hafi þá náð taki á hettunni á úlpunni á drengnum og skellt einu sinni á rassinn á honum. Við það hafi drengurinn sturlast og hent sér í jörðina og hent dótinu sínu út um allt. Þau hafi farið inn en drengurinn komið aftur inn til að fá símann og eyðilagt dyrabjölluna, skemmt rúðuna í útidyrahurðinni. Vitnið hafi þá opnað hurðina aftur og beðið hann að róa sig niður og við það hafi drengurinn farið í burtu. Eftir að ákærði rassskellti drenginn hafi drengurinn hent sér í götuna viljandi, sennilega til að fá vorkunnsemi frá vitninu. Vitnið neitaði því að hafa hlegið en kvaðst þó ekkert hafa gert og verið öskureitt við drenginn. Drengurinn hafi verið eina nótt hjá þeim og mátt vera aðra nótt ef hann hagaði sér vel. Aðspurt um sturtuferðina, kvað vitnið þau hafa sagt honum að fara í sturtu þar sem fötin hans hafi verið óhrein, snakk og matarleifar á þeim. Drengurinn hafi ekki verið skítugur að öðru leyti og hann hafi verið með önnur föt með sér. Aðspurð um smáskilaboðin sem voru í síma drengsins, kvað vitnið þau hafa verið frá átján ára strák um að „get drunk“ o.fl. Aðspurð kvað hún drenginn hafa verið hreinan í alla staði þegar hann kom til þeirra á föstudeginum. Vitnið kvaðst enga áverka hafa séð á drengnum nema eftir að hann henti sér í jörðina, þá hafi verið rispur á buxunum hans. Aðspurt um áverkana sem lýst er í læknisvottorði, kvaðst vitnið halda að þeir hafi komið við að drengurinn kastaði sér í götuna en vitnið væri ekki læknir og kunni ekki á „svona áverkadæmi“ en drengurinn hafi hent sér í götuna. Vitnið kvaðst hafa verið búið að gefast upp á drengnum og því beðið barnaverndaryfirvöld að hjálpa sér við að koma drengnum í fóstur.
Vitnið D, faðir A, kom fyrir dóminn og sagði A hafa komið með leigubílstjóra á heimili sitt. Áverkar hafi verið á drengnum og honum hafi verið illt í maganum. Drengurinn hafi verið hágrátandi en hann hafi komið frá móður sinni. Drengurinn hafi sagt sér að hann hafi átt að fara í sturtu, hann hafi ekki viljað það og honum hafi þá verið hent út. Drengurinn hafi sagt sér að hann hafi hent grjóti í bíl fyrir utan hjá móður sinni og ákærði hafi hellt yfir sig vatni úr einhverjum bala. Vitnið kvaðst ekki vera í nokkrum vafa um að drengurinn hafi sagt sér satt og rétt frá. Vitnið kvað samskipti sín og drengsins vera mjög góð og hann komi til sín í helgarumgengni.
Vitnið N kom fyrir dóminn og kvaðst hafa verið að koma frá [...] og verið að keyra í gegnum hringtorg við [...] þegar hann sá dreng liggja þar í grasinu grátandi. Vitnið hafi rætt við drenginn og hann þá spurt hvort hann mætti sitja í til ömmu sinnar í [...]. Drengurinn hafi sagt sér að honum hafi verið hent út heima hjá sér af stjúpföður sínum og móðir hans hafi ekkert aðhafst. Vitnið kvaðst því hafa ekið drengnum til ömmu sinnar þar sem faðir hans var staddur. Vitnið hafi í framhaldi boðið þeim að aka föðurnum ásamt drengnum til lögreglu sem þeir hafi þegið. Vitnið kvaðst ekkert hafa þekkt til drengsins eða fjölskyldu hans. Aðspurt kvað vitnið drenginn hafa sagt sér að stjúpi hans hafi skemmt fyrir honum diska og verið búinn að drekka einn bjór. Vitnið kvaðst hafa séð ákomur á hnjám drengsins og í lófa sem drengurinn hafi sagt sér að hann hafi hlotið þegar honum var hent út.
O, starfsmaður barnaverndarnefndar í [...], kom fyrir dóminn og kvaðst hafa haft aðkomu að málinu þegar A varð fyrir árásinni þann 9. september 2012. Vitnið kvaðst ekki hafa vitað til að drengurinn hafi verið að fikta við fíkniefni eða vín á þessum tíma. Móðir drengs sem hafði sent drengnum skilaboð hafi hringt til sín vegna skilaboðanna „lets get drunk“ og sé það eina tilvikið sem upp hafi komið. Önnur skilaboð frá þessum dreng hafi verið saklaus.
P kom fyrir dóminn og kvað A vera í fóstri hjá sér. A hafi fengið að fara heim til móður sinnar þessa helgi og átt að vera í sólarhring. Það hafi verið í annað sinn sem hann fór í umgengni til móður sinnar eftir að hann fór í fóstur. Sólarhringurinn hafi ekki verið liðinn þegar hringt var í vitnið og það beðið um að sækja drenginn og móðir hans hafi margoft hringt í sig. Vitnið kvaðst ekki hafa komist fyrr en um kvöldið og þá hafi drengurinn verið með rifna úlpu, hruflaður á hné o.fl. A hafi sagt sér að ákærði hefði rifið úlpuna hans, hettan hafi verið rifin og ermin, en vitnið kvaðst hafa keypt þessa úlpu á drenginn hálfum mánuði fyrir atvikið. Drengurinn hafi verið reiður út í móður sína, þar sem hún hjálpaði honum ekki, og verið mjög svekktur. Vitnið kvaðst ráma í atvik þar sem annar drengur, sem hafði verið í fóstri hjá sér, hafi sent eitthvert sms og móðir þess drengs hafi hringt í vitnið og beðið það um að stoppa samskipti á milli drengjanna. Vitnið kvað drenginn ekki hafa verið í neinni neyslu. Kvað vitnið drenginn vera mjög brotinn einstakling en samskipti við móður hans og stjúpa hafi ekki verið nein frá því á árinu 2012. Drengurinn hafi þó fengið jólapakka um síðustu jól frá móður sinni. Drengurinn væri hins vegar í samskiptum við föður sinn. Yngri systkini drengsins væru komin til vitnisins í fóstur og væri drengnum mjög umhugað um velferð þeirra. Aðspurt kvað vitnið drenginn hafa farið hreinan og með hrein föt frá sér í umgengnina og því ekki skilið hvers vegna hann hafi átt að fara í sturtu morguninn eftir hjá móður sinni. Vitnið kvað drenginn vera greindan með ADHD en ekki væru neinir hegðunarerfiðleikar með hann. Kvað vitnið drenginn vera ósáttan við að móðir hans búi með ákærða.
Ákæruliður III.
Ákærði kvað skýringuna á því að hann sendi drengnum skilaboð, sem ákært er fyrir, vera að strákurinn hafi verið búinn að senda móður sinni ófögur skilaboð og ákærði bara verið búinn að fá upp í kok. Ákærði kvað A hafa búið hjá móður sinni ásamt yngri systkinum þegar ákærði kynntist F en hann hafi ekki flutt með F þegar þau fóru að búa og hann því aldrei kynnst drengnum.
Vitnið F kvaðst staðfesta að drengurinn hafi verið búinn að senda sér smáskilaboð í langan tíma þar sem hann vildi að móðir sín sækti sig og fleira.
Ákæruliður IV.
Ákærði var inntur eftir tilurð byssunnar sem ákært er fyrir og kvað ákærði hana hafa verið inni í fataskáp og gikklásinn inni í lyfjaskáp. Ákærði kvaðst ekki vera með vopnaleyfi. Ákærði kvaðst hafa keypt byssuna á Bland.is á 50.000 krónur af strák sem heiti C. Ákærði hafi greitt inn á hana 30.000 krónur og strákurinn ætlað að koma með nótu og fá eftirstöðvarnar greiddar síðar en hafi aldrei komið. Ákærði hafi síðan ætlað að fá sér byssuleyfi og hafa byssuna um borð í trillu sem hann hafi átt. Það hafi bara ekki verið komið svo langt. Ákærði kvaðst ekkert vit hafa á skotvopnum. Ákærði kvaðst ekki hafa haft hugmynd um að byssan hafi verið illa fengin en farið að gruna að svo væri þar sem seljandinn var ekki farinn að sækja eftirstöðvar kaupverðsins. Hann hafi þó ekkert gert í því. Ákærði kvaðst hafa geymt byssuna inni í fataskáp þar sem hún hafi verið óvirk og engin skot í húsinu. Ákærði kvaðst hafa keypt byssuna líklega í september 2012. Ákærði hafi verið farinn að huga að því að hafa samband við lögregluna en ekki gert það.
Vitnið F kvaðst ekkert hafa vitað um byssuna fyrr en lögreglan gerði húsleit. Ákærði hafi sagt sér að hann hafi keypt byssuna á Bland.is. Vitnið kvaðst ekkert vilja vita um vopn almennt, sér væri illa við öll vopn.
Ákæruliður V.
Ákærði kvaðst aðspurður ekki eiga umrædda hafnaboltakylfu. F eigi kylfuna og haldi hann að bolti hafi líka fylgt henni. Aðspurður um framburð sinn hjá lögreglu um tilurð kylfunnar kvaðst hann stundum hafa verið „paranojaður“ vegna læknismeðferða. Aðspurður um framburð F um að kylfan væri til að verjast fyrrverandi eiginmanni hennar kvað ákærði það ekki vera rétt, hún hafi líklega keypt kylfuna í Rúmfatalagernum.
Vitnið F kvaðst aðspurð eiga hafnaboltakylfuna og hafa keypt hana í Sport Direct en boltinn hafi verið frammi á gangi. Vitnið hafi geymt kylfuna undir rúmi þar sem hún hafi ekki viljað láta krakkana leika sér með hana. Aðspurt um framburð sinn hjá lögreglu að ákærði hafi útvegað kylfuna til að verjast fyrrverandi eiginmanni vitnisins, kvað það kylfuna líka hafa verið í þeim tilgangi ef vitnið væri eitt heima og hann kæmi en vitnið hafi keypt kylfuna. Hafi vitnið sagt annað hjá lögreglu hafi það bara mismælt sig.
Forsendur og niðurstöður.
Ákæruliður I.
Ákærði er sakaður um að hafa veist að brotaþola með nánar tilgreindum afleiðingum eins og lýst er í þessum ákærulið. Ákærði neitar sök. Ágreiningslaust er að brotaþoli kom umrætt kvöld á heimili ákærða og sambýliskonu hans og í framhaldi kom lögreglan á vettvang. Aðilum ber hins vegar ekki saman um hvað hafi gerst þar. Ákærði segir brotaþola hafa ráðist inn til sín í tvígang og hann leitt hana út. Ákærði bar ýmist að brotaþoli hafi verið dauðadrukkin eða snarvitlaus. Er það ósannað en í læknisvottorði vegna brotaþola kemur fram að hún væri að sjá nokkuð ölvuð. Breytir það engu við úrlausn málsins. Áverkar þeir sem lýst er í læknisvottorðinu frá sama kvöldi voru ljósmyndaðir á heilsugæslunni og er ekkert sem gefur til kynna að þeim sé ekki rétt lýst, en ákærði dró sönnunargildi læknisvottorðsins í efa. Þá er framburður ákærða og vitnisins F fyrir lögreglu og dóminum misvísandi og lítið á honum byggjandi en meta verður framburð F með hliðsjón af því að hún er sambýliskona ákærða og í sambúð með honum nú. Þá bera ummerki á heimili ákærða þess merki að þar hafi andlegu ofbeldi verið beitt en frásögn ákærða um ástæðu þess að málað var á vegg í íbúðinni „Á túr með J“ var með öllu fjarstæðukennd, enda kom fram hjá báðum að þau hafi rifist vegna framhjáhalds F með J. Ákærði gat ekki skýrt þá áverka sem sannanlega voru á brotaþola við komu á heilsugæsluna nema þá fingraför á handlegg sem gætu hafa komið er hann leiddi brotaþola út. Þá staðfesti vitnið E að það hafi séð áverka í andliti brotaþola þegar það kom á vettvang.
Verður að öllu virtu að meta framburð ákærða og F ótrúverðugan, enda engar trúverðugar skýringar fram komnar sem skýra þá áverka sem sannanlega voru á brotaþola og lýst er í ákærulið I. Telur dómurinn lögfulla sönnun fram komna um að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem lýst er í þessum ákærulið og verður hann sakfelldur fyrir hana. Er háttsemin réttilega heimfærð til refsiákvæða í ákæru.
Ákæruliður II.
Ákærði neitar sök í þessum ákærulið en kvaðst hafa verið að stöðva drenginn við að eyðileggja bíla fyrir utan hús þeirra.
Óumdeilt er að leigubílstjóri fann brotaþola liggjandi á grasflöt við hringtorg í [...] þar sem brotaþoli lá grátandi. Lýsti brotaþoli því strax fyrir leigubílstjóranum að stjúpfaðir hans hafi ráðist á sig og móðir hans ekki gert neitt honum til bjargar. Þá lýsti brotaþoli atlögunni eins fyrir föður sínum, sem hitti hann skömmu síðar. Brotaþoli lýsti atlögunni eins þegar hann kom á lögreglustöðina í beinu framhaldi og einnig fyrir lækni á heilsugæslustöðinni. Í vottorði frá BUGL kemur fram að brotaþoli hafi sagt frá því að stjúpfaðir hans hafi beitt hann hörku og meitt hann á fæti. Þá var skýrsla tekin af brotaþola í Barnahúsi þar sem hann lýsti atvikum eins. Hefur framburður brotaþola í öllu því er skiptir máli verið trúverðugur. Ákærði skýrði svo frá bæði hjá lögreglu og fyrir dóminum að hann hafi tekið í úlpu brotaþola og skellt á rassinn á honum. Ákærði kvaðst líka hafa keypt úlpuna á brotaþola. Fer sá framburður í bága við framburð P er fóstrar drenginn en hún kvaðst hafa keypt úlpuna fyrir skólann handa brotaþola.
Brotaþoli er fæddur í [...] og var því rúmlega tólf ára þegar atvikið átti sér stað. Frá því í september 2010 og þar til brotaþoli fór til fósturfjölskyldu voru miklir erfiðleikar tengdir hegðun hans og m.a. er tekið fram í vottorði frá BUGL að við komu [...]. febrúar 2012 ljúgi hann í viðtalinu og segist hafa gaman af því að ljúga og hann geri mikið af því. Á því tímabili var hann ósáttur við skilnað foreldra sinna og hafði áhyggjur af fjárhagsstöðu móður sinnar en hann fór í fóstur í kjölfarið. Þrátt fyrir þetta vottorð getur dómurinn ekki séð að það breyti nokkru um trúverðugleika framburðar brotaþola í þessu máli þar sem hann segir frá á sama hátt á öllum stigum og frásögn hans fær stoð í framburði móður hans og stjúpföður um aðdraganda atviksins auk þess sem áverkavottorð styður framburð brotaþola. Telur dómurinn hafið yfir skynsamlegan vafa að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem lýst er í ákæru og verður hann sakfelldur fyrir hana. Er háttsemin réttilega heimfærð til refsiákvæða í ákæru.
Ákæruliður III.
Ákærði játaði þá háttsemi sem lýst er í þessum ákærulið. Í gögnum málsins liggja fyrir ljósmyndir af smáskilaboðunum. Þá gaf ákærði þá skýringu að ástæða þess að hann sendi smáskilaboðin hafi verið að brotaþoli hafi verið búinn að senda móður sinni ljót skilaboð á undan og hafi ákærði fengið nóg. Móðir drengsins lýsti því einnig fyrir dóminum að hann hafi áður sent sér svo ljót skilaboð að hún gæti ekki endurtekið þau. Umrædd skilaboð hafa ekki verið lögð fram í málinu og réttlætti ákærði gjörðir sínar með því að brotaþoli hafi áður verið búinn að senda ljót skilaboð. Brotaþoli var þá þrettán ára.
Að mati dómsins eru umrædd skilaboð, send af stjúpföður til þrettán ára drengs, sem er í fóstri frá móður sinni og yngri systkinum, send í þeim eina tilgangi að særa brotaþola. Er slíkt athæfi, að mati dómsins, siðleysi á hæsta stigi í fullkomnum ljótleika og eingöngu til þess ætlað að skemma sál barns sem er í afar erfiðum aðstæðum auk þess að valda barninu þjáningum og miska. Á ákærði sér engar málsbætur. Verður ákærði sakfelldur fyrir þessa háttsemi en hún er réttilega heimfærð til refsiákvæða.
Ákæruliður IV.
Í þessum ákærulið játaði ákærði að hafa haft byssuna í sínum vörslum en neitaði hylmingu. Ákærði kvaðst, við þingfestingu málsins, ekki eiga byssuna en fyrir lögreglu og dóminum kvaðst hann hafa keypt hana af „C“ á Bland.is. Fyrir dóminum kvaðst hann hafa ætlað að fara með byssuna í bát sem hann átti en hann hafi verið farið að gruna að ekki væri allt með felldu með eignarhald á henni fyrst seljandinn kom ekki með kvittun fyrir henni til sín og innheimti eftirstöðvar kaupverðsins. Þá kvaðst ákærði ekki vera með byssuleyfi og byssan hafi ekki verið notuð sem vopn. Í tölvu ákærða fundust ljósmyndir sem sýndu hann, sambýliskonu hans og þriðja mann handleika byssu úti við og skjóta úr henni. Er framburður ákærða ótrúverðugur. Þá skyldu verður að leggja á ákærða, að hafi hann grunað eftir viðskiptin við „C“ að byssan hafi verið illa fengin, að tilkynna það til lögreglu, sem ákærði gerði sannanlega ekki. Að ákærði hafi verið farinn að velta því fyrir sér felur í sér staðfestingu á því að ákærði ætlaði að byssan væri illa fengin. Þá er framburður F, um að hún hafi ekki vitað um byssuna þar sem hún var geymd í fataskáp í svefnherbergi, ótrúverðugur en byssan hafði verði í vörslum ákærða í um níu mánuði áður en lögregla haldlagði hana. Verður ákærði því sakfelldur fyrir þá háttsemi sem lýst er í þessum ákærulið og gerð refsing fyrir en háttsemin er réttilega heimfærð til refsiákvæða.
Ákæruliður V.
Í þessum ákærulið er ákærði sakaður um brot á vopnalögum þar sem hann hafði undir rúmi sínu kylfu er fannst við húsleit á heimili hans. Ákærði neitar sök og sagði fyrir dóminum að sambýliskona hans hafi átt þessa kylfu og hann hafi ekki vitað af henni. Fyrir lögreglu kvaðst ákærði hafa verið „paranojaður“ vegna læknismeðferða og því haft kylfuna undir rúmi.
Framburður ákærða og F er út og suður fyrir lögreglu og dómi. Sambýliskona hans sagði hjá lögreglu að ákærði hafi útvegað kylfuna til að verjast fyrrverandi eiginmanni hennar ef hann kæmi á heimilið en fyrir dóminum kvað hún kylfuna hafa verið barnaleikfang sem hún hafi keypt í Sport Direct. Þegar framburður hennar fyrir lögreglu var borinn undir hana kvað hún það kannski hafa verið rétt að kylfan hafi verið til að verjast J. F sagði lögregluna ekki hafa leitað að bolta sem fylgdi kylfunni við húsleit en hann hafi verið frammi á gangi. F var viðstödd húsleitina sjálf og er ekkert sem bendir til þess í gögnum málsins að hún hafi borið þessari ástæðu við þá, né bent lögreglu á bolta sem átti að fylgja kylfunni.
Alþekkt er að hafnaboltakylfur eru notaðar sem vopn hér á landi, sem víðar, við vissar aðstæður þó svo að upprunalegur tilgangur þeirra sé að stunda íþrótt með þeim og telur dómurinn vörslur þeirra falla undir c-lið 2. mgr. 30. gr. vopnalaga nr. 16/1998 komi trúverðugar skýringar á vörslu þeirra ekki fram. Svo er ekki í þessu máli. Verður ákærði sakfelldur fyrir þá háttsemi sem lýst er í þessum ákærulið og er hún er réttilega heimfærð til refsiákvæða.
Dómurinn hefur komist að þeirri niðurstöðu að sakfella beri ákærða fyrir þá háttsemi sem lýst er í ákæruliðum I-V. Samkvæmt sakavottorði ákærða á hann sakaferil að baki frá árinu 1987 en þá var honum fyrst gerð refsing fyrir ofbeldisbrot. Þá var honum gerð refsing á árinu 1993 fyrir ofbeldisbrot og aftur á árinu 2004. Eru ítrekunaráhrif þessara refsinga fallin niður, sbr. 3. mgr. 71. gr. almennra hegningarlaga. Aðrar refsingar sem ákærði hefur hlotið hafa ekki áhrif við ákvörðun refsingar nú.
Brot ákærða samkvæmt ákærulið I er ófyrirleitið og á ákærði sér engar málsbætur. Brot samkvæmt ákæruliðum II og III beinast að stjúpsyni ákærða, þá tólf og þrettán ára gömlum. Á þeim tíma var brotaþoli vistaður utan heimilis forsjáraðila en í fyrra skiptið var hann í helgarheimsókn á heimili móður sinnar. Telur dómurinn atlögu ákærða að barninu óforskammaða og ófyrirleitna og á ákærði sér engar málsbætur, þrátt fyrir að ákærði telji drenginn hafa sýnt af sér óásættanlega hegðun. Ákærði, sem var í uppeldishlutverki og brotaþoli átti að geta reitt sig á, brást þannig algjörlega skyldum sínum gagnvart brotaþola. Verður refsing ákærða metin með hliðsjón af þessu, sbr. 3. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga.
Er refsing ákærða ákveðin fangelsi í tólf mánuði. Með hliðsjón af háttsemi ákærða þykja ekki efni til að skilorðsbinda refsinguna.
Að þessum niðurstöðum fengnum ber að dæma ákærða til greiðslu alls sakarkostnaðar. Samkvæmt yfirliti yfir sakarkostnað er þess krafist að ákærði greiði kostnað við ritun endurgerðar af skýrslutöku í Barnahúsi. Verður ákærði ekki dæmdur til að greiða þann kostnað. Þá verður ákærði ekki dæmdur til að greiða kostnað vegna fíkniefnarannsóknar í blóði þar sem sú niðurstaða hefur ekki þýðingu við niðurstöður í málinu né er ákært fyrir þá háttsemi. Þá verður ákærði ekki dæmdur til að greiða kostnað við bílaleigubíl lögreglunnar við rannsókn málsins. Ákærði verður hins vegar dæmdur til að greiða kostnað vegna læknisvottorðs, 28.000 krónur, og kostnaðar vegna vitnaskýrslu að fjárhæð 29.760 krónur auk málsvarnarlauna skipaðs verjanda síns, Ásbjörns Jónssonar hrl., 753.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti og ferðakostnað, 74.246 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.
Ákærði sæti einnig upptöku á kylfu eins og krafist er í ákæru.
Einkaréttarkröfur.
Í málinu gerir Gunnhildur Pétursdóttir hdl., skipaður réttargæslumaður A, fyrir hönd D, miskabótakröfu á grundvelli 26. gr. skaðabótalaga úr hendi ákærða að fjárhæð 1.000.000 króna auk vaxta. Ákærði hefur verið sakfelldur fyrir líkamsárás og brot á barnaverndarlögum og beinist brot ákærða að barni. Er atlaga hans í alla staði ófyrirleitin og óafsakanleg. Hefur ákærði með háttsemi sinni valdið brotaþola miska og þjáningum og verður hann dæmdur til að greiða brotaþola 500.000 krónur í miskabætur ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. vaxtalaga frá 9. september 2012 til 2. febrúar 2014, en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr., sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærði verður einnig dæmdur til að greiða réttargæsluþóknun skipaðs réttargæslumanns, Gunnhildar Pétursdóttur hdl., sem þykir hæfilega ákveðin 328.392 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.
B gerir kröfu um greiðslu miskabóta úr hendi ákærða að fjárhæð 850.000 krónur auk vaxta skv. 8. gr. vaxtalaga frá 11. júlí 2012 til 2. febrúar 2014, en með dráttarvöxtum skv. 9. gr. vaxtalaga frá þeim degi til greiðsludags auk kostnaðar við að halda kröfunni uppi. Ákærði hefur verið sakfelldur fyrir að ráðast á brotaþola og valda henni líkamlegum áverkum. Er árásin til þess fallin að valda árásarþola einnig andlegum áverkum og eru þeir tilgreindir í læknisvottorði fylgjandi málinu. Verður ákærði dæmdur til greiðslu miskabóta að fjárhæð 300.000 krónur ásamt vöxtum skv. 8. gr. vaxtalaga frá 11. júlí 2012 til 2. febrúar 2014 en með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr., sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Þá verður ákærði einnig dæmdur til að greiða brotaþola þann kostnað sem hlotist hefur af því að halda kröfunni uppi, skv. 2. mgr. 172. gr. laga nr. 88/2008, sem er þóknun Úlfars Guðmundssonar hdl., 170.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.
Ástríður Grímsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan. Dómsuppsaga hefur dregist vegna veikinda dómara. Gætt var ákærða 1. mgr. 184. gr. laga nr. 88/2008 og töldu aðilar óþarft að flytja málið aftur.
Dómsorð.
Ákærði, X, sæti fangelsi í tólf mánuði.
Ákærði greiði allan sakarkostnað, samtals 855.246 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Ásbjörns Jónssonar hrl., 753.000 krónur, og 74.246 krónur í aksturskostnað. Hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.
Ákærði greiði B 470.000 krónur í miska- og skaðabætur ásamt vöxtum skv. 8. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá 11. júlí 2012 til 2. febrúar 2014 en með dráttarvöxtum skv. 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr., sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærði greiði D, fyrir hönd A, 500.000 krónur auk vaxta skv. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 9. september 2012 til 2. febrúar 2014, en með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr., sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærði greiði réttargæslumanni brotaþola, Gunnhildi Pétursdóttur hdl., réttargæsluþóknun, 328.392 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.
Hafnaboltakylfa er gerð upptæk.