Hæstiréttur íslands

Mál nr. 406/2002


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991


Þriðjudaginn 3

 

Þriðjudaginn 3. september 2002.

Nr. 406/2002.

Lögreglustjórinn í Reykjavík

(Egill Stephensen saksóknari)

gegn

X

(Páll Arnór Pálsson hrl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.

Hæstiréttur staðfesti úrskurð héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 30. ágúst 2002, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 2. september sama árs. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 27. ágúst 2002, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 19. nóvember nk. kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefst hann þess að sér verði dæmdur kærumálskostnaður.

Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 27. ágúst 2002.

Lögreglustjórinn í Reykjavík hefur krafist þess að X, nú gæsluvarðhaldsfanga á Litla-Hrauni, verði á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi þar til dómur gengur í máli hans en þó ekki lengur en til þriðjudagsins 19. nóvember 2002 klukkan 16.00.

Í greinargerð lögreglustjórans í Reykjavík kemur fram að kl. 05.48 aðfaranótt laugardagsins 25. maí 2002 hafi lögreglunni í Reykjavík borist tilkynning um að ráðist hefði verið á mann fyrir utan Hafnarstræti 15 í Reykjavík. Þegar lögreglan hafi komið á vettvang hafi maður legið meðvitundarlaus í götunni og hafi hann virst vera mikið slasaður. Hafi lögreglumönnum verið tjáð að árásarmennirnir hefðu verið tveir en þeir hafi reynst vera farnir af vettvangi. Maðurinn, sem hafi legið á götunni hafi reynst vera Z. Z hafi látist á Landspítalanum í Fossvogi sunnudaginn 2. júní sl. af völdum þeirra áverka er hann hafi hlotið í líkamsárásinni.

Meintir árásarmenn hafi gefið sig fram hjá lögreglunni daginn eftir en þeir séu kærði, X og Y. Allmörg vitni hafi verið yfirheyrð og hafi flest borið að kærði, X, hafi ráðist á Z og margsinnis slegið hann með krepptum hnefa í andlit og höfuð og margsinnis sparkað í höfuð hans, bæði með hné og fæti. Þá beri flestum vitnum saman um að þegar Z hafi verið að standa upp, sýnilega mjög vankaður, hafi kærði Y hlaupið að Z og sparkað í háls hans eða bringu með þeim afleiðingum að hann hafi skollið aftur fyrir sig með höfuðið í götuna. Kærði, X, hafi viðurkennt að hafa lent í átökum við Z en neiti því að hafa veist að honum á þann hátt sem vitni málsins lýsi. Í málinu liggi fyrir upptökur úr eftirlitsmyndavélakerfi miðborgarinnar og sjáist atburðarás allvel á upptökunum og verði ekki annað ráðið af þeim en atlaga kærða, X, hafi verið svo sem flest vitnin lýsa.

Rannsókn máls þessa sé lokið og verði málið sent ríkissaksóknara svo fljótt sem verða má til ákærumeðferðar, sbr. c-lið 3. mgr. 27. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.

Kærði hafi verið með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur þann 26. maí sl. gert að sæta gæsluvarðhaldi til 4. júní sl. á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Þann dag hafi gæsluvarðhaldi hans verið framlengt til 16. júlí sl. á grundvelli 2. mgr. 103. gr. sömu laga. Þann 16. júlí sl. hafi gæsluvarðhaldinu verið framlengt til dagsins í dag.

Lögreglan kveður kærða liggja undir rökstuddum grun um að hafa veist að Z með fjöldamörgum höggum og spörkum sem flest hafi lent í andliti og á höfði hans. Af atlögu kærðu, X og Y, hafi Z hlotið áverka sem dregið hafi hann til dauða rúmri viku síðar. Mál þetta varði mjög alvarlegt sakarefni sem geti varðað allt að 16 ára fangelsi. Með tilliti til alvarleika brotsins beri því brýna nauðsyn til að kærði sæti áfram gæsluvarðhaldi enda verði að telja að ríkir almannahagsmunir standi til þess.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum, þar á meðal myndbandsupptaka sem liggur frammi í málinu og dómarinn hefur kynnt sér, þykir sterkur grunur leika á því að kærði hafi veist með hrottafengnum hætti að Z. Samkvæmt framlagðri krufningsskýrslu þykir ljóst að Z hafi látist af völdum áverka sem hann varð fyrir í átökum við kærða og Y, og þykja því sterkar líkur fyrir því að kærði hafi ásamt Y veitt Z þá áverka sem drógu hann til dauða. Samkvæmt því þykja sterkar líkur fyrir því að kærði hafi framið brot sem varði við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en refsing samkvæmt því ákvæði getur varðað allt að 16 ára fangelsi. Er því uppfyllt skilyrði 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 og verður krafa lögreglustjórans í Reykjavík tekin til greina.

Greta Baldursdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð:

Kærði, X, sæti áfram gæsluvarðhaldi þar til dómur gengur í máli hans en þó ekki lengur en til þriðjudagsins 19. nóvember 2002 klukkan 16.00