Hæstiréttur íslands
Mál nr. 471/2009
Lykilorð
- Samningur
- Riftun
- Brotnar forsendur
- Lögmaður
|
|
Fimmtudaginn 27. maí 2010. |
|
Nr. 471/2009.
|
Hróbjartur Jónatansson Reynir Karlsson og Sveinn Jónatansson (Hróbjartur Jónatansson hrl. Reynir Karlsson hrl.) gegn Þórarni V. Þórarinssyni (Sigurður G. Guðjónsson hrl.) |
Samningar. Riftun. Brotnar forsendur. Lögmenn.
H, R, S og Þ gerðu með sér samkomulag 21. september 2002 um inngöngu Þ í lögmannsstofu og innheimtufyrirtæki, sem þeir ráku. Fyrir hlutinn skyldi Þ greiða kaupverð annars vegar fyrir efnisleg verðmæti og hins vegar fyrir viðskiptavild. Gert var ráð fyrir að framlag Þ í formi viðskiptavildar til félaganna skyldi jafngilda hlutfallslegri viðskiptavild eigendanna sem fyrir voru. Viðskiptavildin var tengd veltuaukningu félaganna og sömdu aðilar um að ef tekjur félaganna hefðu tvöfaldast á árinu 2006 teldist Þ hafa lagt til viðskiptavild til jafns við eldri hluthafa. Næðist það markmið ekki gæti Þ starfað áfram með skertan hlut í viðskiptavild félaganna eða jafnað hlut sinn með greiðslu til eldri hluthafa í samræmi við reiknireglu í hluthafasamkomulagi aðila frá 28. mars 2003. Gerðu aðilar með sér nokkra samninga um útfærslu á þessu. Þegar ljóst varð að framangreint markmið um veltuaukningu myndi ekki nást kaus Þ að greiða H, R og S til þess að jafna það sem á kynni að vanta, en ágreiningur reis um hvernig sú greiðsla skyldi reiknuð. Snéri deila aðila einkum um inngöngu Þ í innheimtufyrirtækið. H, R og S lýstu yfir riftun á samkomulagi aðila 18. apríl 2007, sem Þ mótmælti. Talið var að ekki yrði fallist á sýknukröfu Þ af kröfum H og S vegna aðildarskorts. Þá var ennfremur talið að ekki yrði litið svo á að í efnislegum ágreiningi um túlkun viðbótarsamninga aðila, sem vörðuðu uppgjör á viðskiptavild, hefði falist veruleg vanefnd af hálfu Þ, sem veitt hefði H, R og S heimild til að rifta heildarsamningum um kaup hans á fjórðungshlut í innheimtufyrirtækinu. Þá þóttu hvorki skilyrði til að leggja skaðabótaábyrgð á Þ þótt efnislegur ágreiningur um túlkun samninga hefði risið milli aðila né væri grundvöllur fyrir málsástæðu H, R og S sem reist var á auðgunarreglu kröfuréttar, enda ekki leitt í ljós að Þ hefði auðgast á kostnað þeirra. Ekki var fallist á varakröfu H, R og S þar sem tölulegar forsendur hennar stóðust ekki skoðun. Þrautavarakrafa þeirra hafði verið sett fram í kröfubréfi 29. janúar 2007 með skýringum og var fallist á hana. Var Þ gert að greiða hverjum þeirra 7.494.442 krónur ásamt vöxtum.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Árni Kolbeinsson og Garðar Gíslason.
Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 19. ágúst 2009. Þeir krefjast þess að stefnda verði gert að greiða hverjum þeirra aðallega 13.627.744 krónur, til vara 8.542.512 krónur en að því frágengnu 7.494.442 krónur, með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. mars 2007 til greiðsludags. Þá krefjast þeir hver um sig málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I
Eins og rakið er í héraðsdómi gerðu aðilar máls þessa með sér samkomulag um inngöngu stefnda í lögmannsstofuna AM Praxis sf. og innheimtufyrirtækið AM Kredit ehf. sem áfrýjendur ráku með föður áfrýjendanna Hróbjarts og Sveins, Jónatan Sveinssyni hæstaréttarlögmanni, sem hugðist draga sig í hlé. Áfrýjendur keyptu hlut hans og vildu fá mann í hans stað. Rætt var við stefnda og gerður samningur við hann 21. september 2002 þar sem sagði að aðilar væru sammála um að stefndi gerðist fjórðungs eigandi að félögunum tveimur frá 1. október 2002 og hæfi störf sem lögmaður hjá AM Praxis frá sama tíma. Fyrirkomulagið mun hafa verið að sameignarfélagið greiddi laun til eigendanna en enginn þeirra var launþegi hjá AM Kredit ehf. Fyrir hlutinn skyldi stefndi greiða kaupverð annars vegar fyrir efnisleg verðmæti og hins vegar fyrir viðskiptavild. Hin efnislegu verðmæti voru nánar skilgreind og greiðslur fyrir þau, og er ekki um þau ágreiningur. Viðskiptavild var hins vegar ekki skilgreind en um greiðslu fyrir hana var svofellt ákvæði í samningnum: „ÞVÞ greiðir ekki sérstaklega fyrir viðskiptavild enda er gert ráð fyrir að framlag hans í formi viðskiptavildar til félaganna jafngildi hlutfallslegri viðskiptavild núverandi eigenda.“ Kaupsamningur aðila var síðan undirritaður 26. mars 2003 þar sem áfrýjendur, eigendur félaganna að jöfnu, skuldbundu sig til að selja stefnda að jöfnu 25% hlutafjár að nafnverði 600.000 krónur í AM Kredit ehf. og 25% í sameignarfélaginu AM Praxis fyrir samtals 6.700.000 krónur, þar af var kaupverðið fyrir fjórðungshlut í AM Kredit 4.200.000 krónur. Tveim dögum síðar, 28. mars, undirrituðu aðilar tvo samninga til viðbótar. Annars vegar var um að ræða samkomulag hluthafa félaganna „um líf- og sjúkratryggingar hluthafa og útgöngukjör þeirra úr félögunum og fleira.“ Í 3. gr. þessa hluthafasamkomulags er kveðið á um réttarstöðu hluthafa við sölu hluta sinna þar sem meðal annars er fjallað um forkaupsrétt félaganna og annarra eigenda að fölum hlutum og hvernig endurgjald skyldi ákveðið ef slíkur forkaupsréttur væri nýttur. Í 2. mgr. eru ákvæði um ákvörðun endurgjalds fyrir efnisleg verðmæti en í 3. mgr. er kveðið á um að því til viðbótar skyldi innlausnarverð hlutanna reiknað út frá verðmæti viðskiptavildar félaganna, sem skyldi reiknuð sem 30% af ársveltu þeirra. Verðmæti viðskiptavildar skyldi þó eigi nema hærri fjárhæð en þreföldum meðalhagnaði félaganna síðustu þrjú rekstrarárin fyrir innlausn. Er nánari grein gerð fyrir ákvæðum 2. mgr. og 3. mgr. greinarinnar í hinum áfrýjaða dómi. Hins vegar undirrituðu aðilar þennan sama dag „Samkomulag milli eigenda um viðmið fyrir mati á þróun viðskiptavildar vegna innkomu ÞVÞ í félögin til fyllingar samningi frá 21. september 2002.“ Þau ákvæði þessa samkomulags sem hér skipta máli eru einnig rakin í hinum áfrýjaða dómi.
Í síðarnefnda samkomulaginu er vísað til 3. gr. hins fyrrnefnda hluthafasamkomulags og snýst ágreiningur aðila um túlkun á þessum ákvæðum og ákvæðum samkomulags sem þeir undirrituðu 7. október 2005 í tilefni af sameiningu AM Kredit ehf. við innheimtufyrirtækið Premium Group hf. Í síðastgreindu samkomulagi var í upphafi vísað til samkomulagsins frá 28. mars 2003 um viðmið fyrir mati á þróun viðskiptavildar vegna innkomu stefnda í félögin. Svo segir: „Í samkomulaginu var samið um það, að í stað greiðslu fyrir viðskiptavild félaganna, skyldi ÞVÞ öðlast hlutdeild í viðskiptavild félaganna í samræmi við veltuaukningu þeirra. Var miðað við að ÞVÞ hefði lagt til viðskiptavild til framangreindra félaga til jafns við eldri hluthafa ef tekjur félaganna hefðu tvöfaldast á árinu 2006. Næðist það markmið ekki mætti ÞVÞ jafna hlut sinn með greiðslu á viðskiptavild til eldri hluthafa í samræmi reiknireglu 3. gr. hluthafasamkomulags aðila, dags. 28. mars 2003 en ella starfa áfram með skertan hlut í viðskiptavild félaganna.“ Meginefni þessa samkomulags var að nauðsyn bæri til að breyta viðmiðun um tvöföldun tekna í AM Kredit ehf. með hliðsjón af veltu félagsins Premium og hvernig reikna skyldi nýtt viðmið vegna sameiningar félaganna. Í síðustu málsgrein þessa samkomulags frá 7. október 2005 var síðan ítrekað hvernig með skyldi fara yrði ekki tvöföldun á veltu AM Kredit ehf. á árinu 2006 en stefndi veldi ekki þann kost að nýta rétt sinn til að jafna hlut sinn í viðskiptavild félagsins með greiðslu til eldri hluthafa. En kysi stefndi á hinn bóginn „að jafna það sem á kann að vanta að viðskiptavild félagsins hafi aukist í samræmi við forsendur tilvitnaðs samkomulags, skal hann greiða sameigendum sínum hlutdeild hvers um sig í kaupverði innan 14 daga frá því uppgjör félagsins fyrir árið 2006 liggur fyrir.“
Þegar ljóst varð að framangreint markmið um veltuaukningu myndi ekki nást valdi stefndi þann kost að greiða áfrýjendum til þess að jafna það sem á kynni að vanta að viðskiptavild félagsins hefði tvöfaldast árið 2006 frá því sem hún var 2002, en ágreiningur reis um hvernig sú greiðsla skyldi reiknuð. Samkvæmt skýrslu áfrýjandans Reynis í héraðsdómi kom ágreiningurinn þegar í ljós í árslok 2006 eða um áramótin þegar hann innti stefnda eftir hvort von væri á greiðslunni frá honum. Þá hafi stefndi þegar sagt að hann teldi að hann ætti ekkert að greiða og vísað í hagnaðarviðmið, sem ekki hafi náðst. Stefndi hafi viljað miða við hagnað síðustu þriggja ára, sem áfrýjendum hafi þótt fráleitt þar sem það ætti við þegar jafnsettir hluthafar færu út úr félaginu en stefndi hafi aldrei raunverulega greitt til að komast inn í það.
Vegna þessa rituðu áfrýjendur stefnda bréf 29. janúar 2007 og kröfðu hann um greiðslu vegna uppgjörs á viðskiptavild samkvæmt ofangreindum samningi aðila. Var í bréfinu annars vegar fjallað um uppgjör á viðskiptavild vegna AM Praxis, sem fellur utan ágreiningsefnis þessa máls. Að því er greiðslu vegna viðskiptavildar AM Kredit varðaði var hins vegar tekið fram að svo sem stefnda væri kunnugt lægju fyrir tekjutölur fyrir árið 2006 fyrir AM Kredit og Premium. Samanlögð velta þeirra samkvæmt virðisaukaskattsskýrslum væri 146.115.563 og 50% hlutfall næmi því 73.057.782 krónum. Velta AM Kredit árið 2002 verðbætt til 31. desember 2006 næmi 85.969.222 krónum. Samkvæmt því hefði ekki orðið nein hlutfallsleg aukning á tekjum AM Kredit og leiddi því af samkomulaginu frá 2003 að stefndi teldist ekki hafa áunnið sér viðskiptavild í félaginu. Í ljósi samkomulagsins stæðu honum því tveir kostir til boða: Annað hvort að starfa með skertan hlut og afsala sér hlutabréfunum í Premium Kredit hf. til þeirra eða greiða hverjum þeirra það sem upp á vantaði að verðmæti viðskiptavildar hefði tvöfaldast frá 2002 til 2006 samkvæmt reiknireglu 3. gr. hluthafasamkomulagsins sem gert hafi verið samhliða samkomulaginu um uppgjör viðskiptavildar. Samkvæmt útreikningi endurskoðanda hefði viðskiptavildin í september 2002 verið 30% af veltunni 2002, sem hafi verið 72.012.550 krónur, eða 21.603.765 krónur. Tvöföld verðbætt velta ársins 2002 næmi 171.938.444 krónum en 30% þeirrar fjárhæðar væri 51.581.533 krónur. 30% af því sem upp á vantaði að tekjur hefðu tvöfaldast á tímabilinu næmi því 29.977.768 krónum. Fjórðungshluti hvers eigenda af þeirri fjárhæð væri 7.494.442 krónur og bæri stefnda því að greiða þá fjárhæð, auk nánar tilgreindrar fjárhæðar vegna AM Praxis innan 14 daga frá dagsetningu bréfsins.
Stefndi svaraði þessu bréfi 7. febrúar 2007 og gerði athugasemdir í fimm tölusettum liðum. Annar liðurinn lýtur að viðskiptavild AM Praxis, sem varðar ekki ágreining aðila í máli þessu. Sá fyrsti og þriðji lúta að gjalddaga greiðslu stefnda. Í fjórða lið sagði stefndi að hann teldi alvarlega galla á kröfu áfrýjenda um greiðslu vegna viðskiptavildar AM Kredit og hann myndi „á næstunni“ gera þeim grein fyrir athugun sinni á efni þeirra samninga sem hér réðu niðurstöðu. Í fimmta lið sagði stefndi að til að taka af tvímæli vildi hann láta koma skýrt fram að hann hygðist ekki afsala sér eignarhlutum í Kredit/Premium heldur bjóða fram uppgjör í samræmi við ákvæði tilvitnaðra samninga.
Með bréfi 25. mars 2007 setti stefndi fram sinn skilning á samkomulagi aðila um greiðslu hans fyrir viðskiptavild AM Praxis. Í því bréfi segir meðal annars: „Hið rétta er, að ég féllst á að fylla samning okkar um að ekki skyldi greitt sérstaklega fyrir viðskiptavild. Þetta var gert með reiknireglu sem einkum tók mið af hugsanlegri útgöngu eiganda úr félaginu. Reglan kemur fram í 4. mgr. hins sérstaka samkomulags frá 28. mars 2003 og segir efnislega, að ef vanti á að tekjur félagsins hafi tvöfaldast á tímabilinu frá 2002 til 2006 þá skuli ÞVÞ greiða sameigendum sínum „fjárhæð sem svarar til þess hlutfalls sem á vantar tvöföldun tekna af núverandi viðskiptavild skv. viðmiði 3. gr. hluthafasamkomulagsins“. Í framkvæmd þýðir þessi regla, að hefðu tekjur félagsins t.d. aukist um 50% á tímabilinu, hefði ÞVÞ átt að svara sameigendum sínum því sem á vantar tvöföldun hlutfallsins, þ.e. 50% af verðmæti viðskiptavildarinnar skv. hinu tilgreinda viðmiði 3. gr. Samkvæmt fyrirliggjandi tölum jókst veltan ekki að raungildi og bæri mér því að öðru jöfnu að greiða sameigendum mínum fjárhæð sem svarar til verðmætis viðskiptavildar félagsins skv. viðmiði 3. gr. hluthafasamkomulagsins, þ.e. 100% hlutfall af umræddu viðmiði.“ Í ljósi þessa, hélt stefndi áfram, lægi næst fyrir að reikna verðmæti viðskiptavildar AM Kredit samkvæmt reiknireglunni sem vísað væri til, það er 3. gr. hluthafasamkomulagsins. Hann vísaði í 3. mgr. 3. gr. og benti á að reglan fæli í sér tvíþættan mælikvarða á verðmæti viðskiptavildarinnar. Fyrra viðmiðið væri 30% af veltu félagsins á síðustu tólf mánuðum en hið síðara viðmið setti „hins vegar hámark við útreiknuðu verðmæti sem miðast við tiltekið hlutfall hagnaðar af rekstrinum. Skv. því skal verðmætið aldrei teljast meira en sem svarar þreföldum meðalhagnaði síðustu þriggja ára. Verðmæti viðskiptavildar félagsins skv. tilvitnuðu ákvæði er með öðrum orðum sú fjárhæð, sem lægri er af þessum tveimur.“ Stefndi rakti síðan að ekki hafi verið um hagnað að ræða að meðaltali síðustu þrjú árin. Í hinu sérstaka samkomulagi aðila hafi enginn fyrirvari verið gerður um að hagnaðarviðmiðið ætti ekki við, en brýnt tilefni hefði verið til að taka fram berum orðum ef einungis annar mælikvarðinn af þessum tveimur hafi átt að gilda í skiptum þeirra. Grunnregla samkomulags þeirra hafi verið sú að honum hafi ekki borið að greiða sérstaklega fyrir viðskiptavild félaganna og hafi það verið skýrt tekið fram í samningnum um inngöngu 21. september 2002. Með vísan til þessara sjónarmiða hafnaði stefndi kröfu áfrýjenda.
Áfrýjandinn Hróbjartur svaraði bréfi stefnda með bréfi 29. mars 2007 fyrir hönd sameigenda og rakti upphaf samninga þeirra þegar stefnda hafi verið boðið að kaupa sig inn í félögin og hvernig umræður um greiðslu fyrir viðskiptavild hafi farið. Stefndi hafi sjálfur farið fram á að í stað þess að greiða með peningum fyrir viðskiptavildina mætti hann leggja félögunum til viðskipti sem myndu metin sem ígildi fjárframlags til kaupanna á viðskiptavildinni, „enda augljóst að aukin viðskipti fyrir félögin myndu þýða aukinn arð fyrir okkur sameigendur.“ Hafi stefndi haft mörg orð um það að með framlagi hans væri mikilla nýrra viðskipta að vænta og hafi þessi umræða ráðið úrslitum um ákvörðun þeirra sameigendanna að ganga til samninga við stefnda um sölu á hlutum í félögunum. Texti hins sérstaka viðaukasamkomulags 28. mars 2003 hafi verið frá stefnda kominn og á tillögu hans hafi verið fallist. Stefndi hafi hins vegar ekki dregið einn einasta viðskiptamann að AM Kredit ehf. allt tímabilið 2002 til 2006. Tillaga hans hafi þó gert það að verkum að ekki hafi verið þörf á að meta hverju verði hann skyldi greiða viðskiptavild félaganna og raunar hafi þeir sameigendur verið „eftir atvikum prýðilega sáttir við þá tillögu þína að greiða okkur peninga í lok viðmiðunartímabilsins ef þú næðir ekki að draga viðskipti að félögunum“. Þetta samkomulag hafi verið ítrekað 7. október 2005 og reikniregla þess aðlöguð að væntanlegri sameiningu AM Kredit og Premium. Ljóst væri að stefndi hygðist freista þess að komast undan greiðsluskuldbindingu. Hagnaður í rekstri AM Kredit hefði engin áhrif á útreikning kaupverðsins en ef leggja ætti hagnað til grundvallar þá ætti að miða við árin áður en hann kom inn í félögin. Með afstöðu hans stefndi í að ágreiningur þeirra yrði útkljáður fyrir dómstólum en rétt væri að kanna hvort unnt væri að leggja hann undir gerðardóm. Því þyrfti hann að svara fyrir 10. apríl.
Svar stefnda barst með bréfi 17. apríl 2007. Þar kvaðst hann reiðubúinn til að greiða hverjum áfrýjenda 2.025.000 krónur enda fælist í því fullnaðaruppgjör á hvers kyns kröfum milli aðila vegna kaupa hans á eignarhluta í AM Kredit, og fæli tilboðið ekki í sér neins konar viðurkenningu á því að meta ætti verðmæti viðskiptavildar AM Kredit með öðrum hætti en hann hafi áður rakið. Áfrýjendur svöruðu með bréfi daginn eftir þar sem þeir lýstu yfir riftun á samkomulagi aðila vegna vanefnda stefnda og kröfðust þess að hann framseldi hlutina í félögunum til þeirra þegar í stað og jafnaði með peningagreiðslum til þeirra að öðru leyti sem næmi þeim hlutum í Premium Kredit hf. sem hann hefði þegar selt. Stefndi svaraði með bréfi 23. sama mánaðar og mótmælti því að þeim væri heimilt að rifta samningi þeirra, enda skapaði ágreiningur um túlkun samnings hvorugum aðila rétt til riftunar. Hann ítrekaði boð sitt frá 17. sama mánaðar um greiðslu til þeirra, sem svaraði til verðmætis viðskiptavildar félagsins á samningsdegi í mars 2003, verðbætt að fullu til apríl 2006.
Áfrýjendur svöruðu með ítarlegu bréfi 4. maí 2007. Þar fóru þeir yfir deiluefni aðila og báru fram sjónarmið sín gegn þeim sem stefndi hafði sett fram. Frekari bréfaskipti urðu ekki og höfðuðu áfrýjendur mál þetta 31. október 2008.
II
Kröfur aðila og málsástæður eru raktar í héraðsdómi.
Með vísan til forsendna héraðsdóms verður staðfest niðurstaða hans um að fallast ekki á sýknukröfu stefnda af kröfum áfrýjendanna Hróbjarts og Sveins vegna aðildarskorts.
Áfrýjendur reisa aðalkröfu sína í fyrsta lagi á yfirlýsingu þeirra um riftun samnings aðila 18. apríl 2007. Yfirlýsingin var í sjálfu sér skýr og verður ekki fallist á með héraðsdómi að kröfur verði ekki á henni reistar vegna óskýrleika. Hins vegar er þess að gæta, þegar samningar aðila eru virtir í heild með þeim löggerningum sem raktir hafa verið, að allt frá samningnum um inngöngu stefnda í félög áfrýjenda 21. september 2002 hefur verið út frá því gengið að stefndi greiddi ekki sérstaklega fyrir viðskiptavild enda gert ráð fyrir því að framlag hans í formi viðskiptavildar til félaganna jafngilti hlutfallslegri viðskiptavild eigendanna, eins þar var orðað. Í kaupsamningi aðila 26. mars 2003 var ekkert sagt um viðskiptavild en 28. sama mánaðar gerðir tveir samningar, annar hluthafasamningur um líf- og sjúkratryggingar og útgöngukjör hluthafanna úr félögunum og hinn um viðmið fyrir mati á þróun viðskiptavildar vegna innkomu stefnda í félögin „til fyllingar“ samningnum frá 21. september 2002. Fram er komið í málinu að við gerð hluthafasamningsins hafi komið fram hugmyndir um að ákveðið yrði hver væri réttur hluthafa sem vildi hætta þátttöku í félagsskapnum og í því samhengi aðilar verið sammála um að óeðlilegt væri að stefndi eignaðist kröfu á áfrýjendur um greiðslu fyrir viðskiptavild kysi hann að ganga úr félaginu að skömmum tíma liðnum. Reikniregla 3. gr. hluthafasamningsins, sem fjalli um mat á endurgjaldi við sölu hluta í félögunum, hafi verið sett til að mæta þessu sjónarmiði. Aðilar gerðu á sama tíma hið sérstaka samkomulag „um viðmið fyrir mati á þróun viðskiptavildar vegna innkomu ÞVÞ í félögin til fyllingar samningi frá 21. september 2002.“ Þar er í fyrstu þremur málsgreinum annars vegar fjallað um það sameiginlega markmið eigenda að auka umfang viðskipta félaganna þannig að eigi síðar en á árinu 2006 hafi tekjur tvöfaldast frá því sem var árið 2002 og að staðreynt teldist að stefndi hefði lagt hlutfallslega jafnt til á við aðra um viðskiptavild þegar markmiðinu um tvöföldun tekna félaganna yrði náð og hins vegar um hugsanlega útgöngu stefnda fyrir þann tíma þannig að við útgöngu innan eins árs og þá eigi hann enga hlutdeild í viðskiptavild félagsins, og hlutfallslegan rétt eftir það. Í 4. mgr. þessa samkomulags segir: „Hafi ofangreindu viðmiði ekki verið náð að fullu á tímabilinu á ÞVÞ þá tvo kosti; að starfa áfram með skertan hlut í núverandi viðskiptavild félagsins eða að greiða núverandi sameigendum fjárhæð sem svarar til þess hlutfalls sem á vantar tvöföldun tekna af núverandi viðskiptavild skv. viðmiði 3. gr. hluthafasamkomulags. Greiðslan fylgi breytingum á verðlagi.“ Eins og rakið hefur verið hafði stefndi greitt tilgreint kaupverð í samningi aðila um inngöngu stefnda 21. september 2002 og kaupsamningi aðila 26. mars 2003, áður en deila reis þeirra í milli um túlkun á ákvæðum þeirra samninga sem aðilar gerðu eftir það og vörðuðu hvort stefndi skyldi greiða sérstaklega fyrir viðskiptavild og þá hvernig því uppgjöri skyldi haga. Fallast verður á með stefnda að þegar svo hafi verið komið sé ekki unnt að líta á að í efnislegum ágreiningi um túlkun þessara viðbótarsamninga hafi falist veruleg vanefnd af hans hálfu, sem veitt hafi áfrýjendum heimild til að rifta heildarsamningum um kaup hans á fjórðungshlut í AM Kredit.
Í öðru lagi reisa áfrýjendur aðalkröfu sína á því að stefndi hafi skuldbundið sig til að afsala þeim hlutum sínum í AM Kredit ehf. í ársbyrjun 2007 hefði hann ekki staðið við samkomulagið. Hann hefði þess í stað ráðstafað hlutum sínum til þriðja manns, Sparisjóðs Mýra- og Borgarfjarðarsýslu. Áfrýjendur geti því ekki knúið fram efndir in natura og krefjist því efndabóta sem geri þá jafnsetta eða, að því frágengnu, skaðabóta á grundvelli almennu skaðabótareglunnar, þar sem ráðstöfun stefnda hafi verið óheimil og saknæm og valdið þeim tjóni. Fram er komið að stefndi og áfrýjendur hafi sameiginlega staðið að sölu hluta sinna til sparisjóðsins í nóvember 2006. Þá hreyfðu áfrýjendur því ekki að þeir ættu rétt yfir hlutum stefnda. Eins og að framan er rakið var ljóst strax í upphafi árs 2007 að stefndi kysi að taka þann kost að afsala sér ekki eignarhluta sínum í AM Kredit heldur bjóða fram uppgjör í samræmi við sinn skilning á samkomulagi aðila. Engin skilyrði eru til að leggja skaðabótaábyrgð á stefnda þótt efnislegur ágreiningur um túlkun samninga hafi risið milli aðila. Verður því ekki á þessar málsástæður fallist. Ekki er heldur grundvöllur fyrir þeirri málsástæðu áfrýjenda sem reist er á auðgunarreglu kröfuréttar, enda ekki leitt í ljós að stefndi hafi auðgast á kostnað þeirra.
Varakrafa áfrýjenda er á því reist að stefnda beri að greiða hverjum þeirra eftirstöðvar kaupverðs hlutanna, sem numið hafi verðmæti viðskiptavildar. Þar sem tekjur félagsins hafi ekki aukist og þar með ekki viðskiptavildin, reiknuð samkvæmt umsaminni reiknireglu 3. gr. hluthafasamningsins, beri stefnda að greiða þeim fjárhæð, verðbætta til loka ársins 2006, eins og samningur aðila hafi kveðið á um. Í ljós sé leitt að markmið um tekjuaukningu hafi ekki náðst. Stefnda hafi því borið að greiða áfrýjendum fyrir það verðmæti sem fólst í viðskiptavild fjárhæð sem samsvaraði 30% af veltu félagsins árið 2002, 72.012.550 krónum að frádregnum 892.009 krónum, eða 21.336.162 krónur verðbættar frá 1. janúar 2003 til 30. desember 2006 eða 25.357.538 krónur, sem geri 8.452.512 krónur til hvers þeirra. Til þrautavara sé gerð krafa um sömu fjárhæð og gerð var í bréfi áfrýjenda til stefnda 29. janúar 2007, 7.494.442 krónur til hvers, auk dráttarvaxta í báðum tilvikum frá 1. mars 2007.
Svo sem rakið hefur verið reis ágreiningur aðila um þessar kröfur áfrýjenda. Heldur stefndi því fram að tilvísunin í fyllingarsamkomulaginu frá 28. mars 2003 til 3. gr. hluthafasamningsins frá sama degi eigi bæði við um veltuviðmið og hagnaðarviðmið, sem þar séu nefnd, en áfrýjendur að eingöngu hafi verið átt við veltuviðmið.
Af orðalagi fyllingarsamkomulagsins 28. mars 2003, sem stefndi samdi, er ljóst að samningur aðila var að stefndi þyrfti ekki að greiða sérstaklega í peningum fyrir viðskiptavild í félögunum heldur yrði litið svo á að greiðsla hans kæmi í formi aukinnar viðskiptavildar, sem staðreynd yrði þegar tvöföldun á tekjum félaganna yrði náð 2006. Ef ekki yrði um þá tvöföldun að ræða hefði stefndi tvo kosti, að starfa áfram með skertan hlut eða greiða áfrýjendum fjárhæð sem svaraði til þess hlutfalls sem á vantaði tvöföldun tekna af viðskiptavild samkvæmt viðmiði 3. gr. hluthafasamningsins. Í 3. mgr. 3. gr. hluthafasamningsins segir að verðmæti viðskiptavildar félaganna skuli reiknað sem 30% af samanlagðri veltu félaganna á ársgrundvelli, reiknaðri út frá viðkomandi milliuppgjöri. Verðmæti viðskiptavildar félaganna skuli þó eigi nema hærri fjárhæð en sem nemur þreföldum meðalhagnaði beggja félaganna eftir skatta síðustu þrjú rekstrarárin fyrir innlausn hlutanna. Hlutahafasamningurinn fjallar um útgöngukjör hluthafa og 3. gr. hans er um mat á endurgjaldi við sölu hluta í félögunum. Hagnaðarviðmið 3. mgr. 3. gr. lítur til liðins tíma og getur því eðli máls samkvæmt ekki átt við um þann sem er að koma inn í félagið. Hefði tilvísun fyllingarsamkomulagsins átt að taka mið af hagnaði félaganna hefði þurft að taka það sérstaklega fram, en það var ekki gert. Er því eðlilegast að skilja tilvísunina svo, að hún vísi eingöngu til þess að viðskiptavild félaganna skuli reiknast 30% af veltu, en slíkt mun hafa tíðkast í viðskiptum af þessu tagi. Verður því skilningur áfrýjenda á þessu samkomulagi lagður til grundvallar en skilningi stefnda hafnað.
Stefndi hefur borið fyrir sig brostnar forsendur. Þegar aðilar gerðu samkomulagið 7. október 2005 hreyfði því enginn að forsendur hefðu breyst, hvað þá brostið. Þegar þessa er gætt og jafnframt, að í fyllingarsamkomulagi aðila 28. mars 2003 var í lokamálsgrein sérstaklega vikið að því hvað gera skyldi yrðu verulegar breytingar á forsendum samkomulagsins, getur stefndi ekki reist sýknukröfu sína á brostnum forsendum. Stefndi ber loks fyrir sig tómlæti áfrýjenda, sem ekki hafi hirt um að reyna innheimtu krafna sinna fyrr en með málshöfðun í október 2008 og gera verði kröfu til þess að hæstaréttarlögmenn haldi rétti sínum til laga án ástæðulauss dráttar. Eins og rakið hefur verið beindu áfrýjendur bréflega kröfu að stefnda í janúar 2007, þegar ágreiningur þeirra var kominn upp. Þeir héldu því fram rétti sínum án ástæðulauss dráttar. Enda þótt þeir hafi ekki höfðað mál þetta fyrr en í október ári síðar telst það ekki tómlæti sem leitt geti til þess að krafa þeirra falli niður. Verður sýknukrafa stefnda því ekki tekin til greina.
Tölulegar forsendur varakröfu áfrýjenda standast ekki skoðun. Þrautavarakrafa áfrýjenda var sett fram í kröfubréfi þeirra 29. janúar 2007 með þeim skýringum sem þar voru gefnar og raktar hafa verið. Stefndi hefur ekki fært fram töluleg andmæli við henni sem hald er í. Verður hún því tekin til greina og verður stefnda gert að greiða hverjum áfrýjenda fyrir sig 7.494.442 krónur. Dráttarvextir reiknast samkvæmt samningi aðila að liðnum 14 dögum „frá því uppgjör félagsins fyrir árið 2006 liggur fyrir“, en það var með samþykkt ársreiknings á aðalfundi 21. mars 2007.
Rétt er að hver aðila beri sinn málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Stefndi, Þórarinn V. Þórarinsson, greiði áfrýjendum, Hróbjarti Jónatanssyni, Reyni Karlssyni og Sveini Jónatanssyni, hverjum fyrir sig 7.494.442 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 5. apríl 2007 til greiðsludags.
Málskostnaður fellur niður í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 29. maí 2009.
I
Mál þetta, sem dómtekið var föstudaginn 17. apríl, er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Hróbjarti Jónatanssyni, kt. 270458-5649, Ljárskógum 6, Reykjavík, Reyni Karlssyni, kt. 220356-5239, Logafold 102, Reykjavík, og Sveini Jónatanssyni, kt. 130663-2309, Deildarási 16, Reykjavík, með stefnu, birtri 31. október 2008, á hendur Þórarni V. Þórarinssyni, kt. 250654-2869, Einimel 2, Reykjavík.
Endanlegar dómkröfur stefnenda eru þær, aðallega, að stefnda verði gert að greiða hverjum stefnanda kr. 13.627.744, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. mars 2007 til greiðsludags, en til vara, að stefnda verði gert að greiða hverjum stefnanda kr. 8.452.512, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. mars 2007 til greiðsludags. Enn fremur krefjast stefnendur í báðum tilvikum, hver um sig, málskostnaðar úr hendi stefnda að skaðlausu að mati dómsins, og að tekið verði tillit til þess, að stefnendur séu ekki virðisaukaskattskyldir.
Dómkröfur stefnda eru þær, að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnenda og stefnendur in solidum dæmdir til greiðslu málskostnaðar að mati réttarins, auk virðisaukaskatts, en stefndi kveðst ekki vera virðisaukaskattskyldur.
II
Málavextir
Hinn 21. september 2002 gerðu aðilar máls þessa með sér samning um inngöngu stefnda, Þórarins V. Þórarinssonar annars vegar í sameignarfélagið AM Praxis og hins vegar í einkahlutafélagið AM Kredit, en félögin voru í eigu stefnenda. Var samið um, að stefndi myndi gerast eigandi að einu fjórða hluta í félögunum frá og með 1. október 2002 og starfa sem lögmaður AM Praxis frá sama tíma. Í 2. gr. samningsins segir, að ÞVÞ (stefndi) greiði ekki sérstaklega fyrir viðskiptavild, enda sé gert ráð fyrir því, að framlag hans í formi viðskiptavildar til félaganna jafngildi hlutfallslegri viðskiptavild „núverandi eigenda“. Ljósrit af eintaki samningsins, sem liggur fyrir í máli þessu, ber ekki með sér, að frumrit samningsins hafi verið undirritað af stefnanda, Hróbjarti Jónatanssyni, en ekki er ágreiningur með aðilum um gildi samningsins.
Hinn 26. mars 2003 undirrituðu málsaðilar samning um kaup stefnda á 25% hlut í AM Kredit annars vegar og hins vegar í AM Praxis, og var sá samningur byggður á framangreindum samningi frá 21. september 2002 um inngöngu stefnanda í félögin. Umsamið kaupverð beggja félaganna samkvæmt samningnum var kr. 6.700.000 og skiptist þannig, að stefndi greiddi kr. 4.200.000 fyrir hlutinn í innheimtufyrirtækinu AM Kredit og kr. 2.500.000 fyrir hlutinn í lögfræðiskrifstofunni AM Praxis. Við verðlagningu hlutanna í báðum félögunum var horft til bókfærðs verðmætis varanlegra rekstrarfjármuna, veltufjármuna og fastafjármuna, en viðskiptavildar er ekki getið það. Voru kaupin miðuð við 1. janúar 2003. Við samningsgerðina lágu fyrir óendurskoðuð uppgjör ársins 2002 og endurskoðuð níu mánaða milliuppgjör sama árs.
Við undirskrift kaupsamningsins hafði stefndi þegar greitt stefnendum kr. 6.232.717, en eftirstöðvarnar, kr. 467.283 skyldu greiddar kr. 30. mars 2003, enda myndu þá liggja fyrir endurskoðaðir ársreikningar félaganna fyrir árið 2002. Var verðlagning félaganna byggð á verðmati endurskoðanda, dags. 30. september 2002.
Þann 28. mars 2003 gengu stefndi og stefnendur frá hluthafasamkomulagi vegna félaganna, sem stefndi hafði keypt hluti í. Hluthafasamkomulagið fjallaði m.a. um réttarstöðu hluthafanna við sölu hluta sinna, sbr. 3. gr. þess. Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. og samþykktum félaganna áttu stjórnir félaganna fyrir þeirra hönd, og að þeim frágengnum aðrir hluthafar, bæði kauprétt og forkaupsrétt að hlutum þess hluthafa, sem vildi selja hluti sína.
Í 2. og 3. mgr. 3. gr. hluthafasamkomulagsins er að finna nánari útfærslu á kaupréttinum. Samkvæmt 2. mgr. 3. gr. skyldi endurgjaldið (nafnverð x gengi) fyrir hina seldu hluti fundið út með sömu reiknireglu og matsaðferð og notuð var, þegar stefndi samdi um kaup sín á hlutum í félögunum þann 1. október 2002.
Í 3. mgr. 3. gr. er síðan kveðið á um, að til viðbótar verði, byggðu á efnislegum verðmætum, skyldi koma viðbót við kaupverðið, sem reikna skyldi út frá viðskiptavild félaganna. Viðskiptavildin skyldi vera 30% af samanlagðri veltu félaganna á ársgrundvelli, reiknaðri út frá viðkomandi milliuppgjöri. Í lokamálslið greinarinnar segir, að verðmæti viðskiptavildar félaganna skuli þó eigi nema hærri fjárhæð en sem nemi þreföldum meðalhagnaði beggja félaganna eftir skatta síðustu þrjú rekstrarárin fyrir innlausn hlutanna.
Sama dag og gengið var frá hluthafasamkomulaginu var gert sérstakt samkomulag um viðmið fyrir mati á þróun viðskiptavildar vegna innkomu ÞVÞ í félögin til fyllingar samningi aðila frá 21. september 2002 (ranglega sagt vera frá 2001 í samningnum). Segir svo í samkomulaginu, að það sé sameiginlegt markmið eigenda félaganna að auka umfang viðskipta félaganna, þannig að eigi síðar en á árinu 2006 hafi tekjur tvöfaldast frá því sem var á árinu 2002. Þá er ákvæði í samkomulaginu, sem girðir fyrir það, að stefndi eignist hlutdeild í viðskiptavild félagsins gangi hann úr því innan eins árs, en við útgöngu eftir það, en áður en framangreindu markmiði um tvöföldun tekna sé náð, verði réttur hans hlutfallslegur miðað við árangur á tilgreindum mælikvarða.
Í 4. mgr. samkomulagsins er síðan kveðið á um, hvernig með skyldi farið, ef tekjuaukningarmarkmiðum stefnda og stefnenda samkvæmt samkomulaginu yrði ekki náð. Segir þar, að stefndi eigi þá tvo kosti, þ.e. að starfa áfram með skertan hlut í „núverandi viðskiptavild félagsins“, þ.e. eins og hún var við samningsgerð, eða að greiða „núverandi sameigendum“, þ.e. þeim sem stóðu að samningnum, fjárhæð sem svari til þess hlutfalls, sem á vanti tvöföldun tekna af „núverandi viðskiptavild“ skv. viðmiði 3. gr. hluthafasamkomulagsins, og skyldi greiðslan fylgja breytingum á verðlagi.
Í 5. málsgrein samkomulagsins segir loks, að verði orsök þess, að framangreint markmið um tvöföldun tekna náist ekki, rakin til verulegra breytinga á forsendum samkomulagsins, séu aðilar sammála um að meta áhrif þess á efni samkomulagsins og endurskoða þá viðmið, ef frammistaða ÞVÞ og forsendur að öðru leyti gefi tilefni til „að bestu manna yfirsýn“.
Þann 23. mars 2005 tilkynnti stefnandinn, Hróbjartur Jónatansson, sameigendum sínum að AM Praxis og AM Kredit, þ.m.t. stefnda, að hann segði upp hluthafasamkomulagi aðila vegna trúnaðarbrests, sem hann kvað orðinn í samskiptum við sameigandann og meðstefnanda máls þessa, Reyni Karlsson.
Hinn 7. október 2005 gerðu aðilar með sér samkomulag um viðmið fyrir mat á þróun viðskiptavildar vegna innkomu ÞVÞ í félögin AM Praxis ehf. og AM Kredit ehf. til fyllingar á kaup- og hluthafasamningum, sem gerðir voru við innkomuna. Var samkomulagið gert í tengslum við fyrirhugaða sameiningu á AM Kredit og Premium. Segir þar m.a., að komi til sameiningarinnar, þannig að AM Kredit og eigendur þess eignist 50% í sameinuðu fyrirtæki eða eftir atvikum í hvoru fyrirtæki, sé samkomulag um að taka mið af lykiltölum sameinaðs félags á árinu 2006, þannig að til viðmiðunar fyrir veltumarkmið komi sama hlutfall af öllum tekjum sameinaðs félags og svarar til tekna AM Kredit af samanlögðum tekjutölum AM Kredit og Premium á fyrrihluta árs 2005 samkvæmt milliuppgjöri félaganna. Enn fremur segir í lokamálsgrein, að verði ekki um að ræða tvöföldun á veltu AM Kredit á árinu 2006 frá þeim grunni, sem greinir í samkomulagi aðila, en ÞVÞ kjósi ekki að hagnýta sér rétt sinn til að jafna hlut sinn í viðskiptavild félagsins með greiðslu til eldri hluthafa, skuli hlutur ÞVÞ frá og með 1. janúar 2007 í AM Kredit/Premium skerðast í samræmi við reiknireglu samkomulagsins, með þeirri aðlögum, sem í samkomulaginu greinir. Við útreikning eignarhluta í félaginu skuli þá taka tillit til eignarhluta ÞVÞ í „platformi“ félagsins. Ný eignarhlutföll taki þá gildi miðað við 1. janúar 2007, og skuli ÞVÞ þá afsala sér hlutum til sameigenda sinna í AM Kredit að tiltölu, þannig að hver eigi frá þeim tíma hlut í félaginu í samræmi við tilvitnaðar leikreglur. Kjósi ÞVÞ að jafna það, sem á kunni að vanta, að viðskiptavild félagsins hafi aukist í samræmi við forsendur tilvitnaðs samkomulags, skuli hann greiða sameigendum sínum hlutdeild hvers um sig í kaupverði innan 14 daga frá því að uppgjör félagsins frá 2006 liggur fyrir.
Hinn 6. desember 2005 gerðu aðilar með sér nýtt hluthafasamkomulag varðandi rekstur AM Praxis. Leiddi áðurgreind uppsögn til þess, að samstarfi um þann rekstur, sem stefndi hafði keypt sig inn í, var slitið. Stefndi kveður uppgjöri vegna slitanna hafa átt að vera lokið eigi síðar en 31. desember 2005, en því sé enn ólokið og ekki ljóst, hver skuldi hverjum hvað í því félagi.
Þann 16. desember 2005 var Fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra tilkynnt, að AM Kredit hefði verið skipt upp og hluti eigna og skulda færður yfir til Premium Group hf. Fengu hluthafar í AM Kredit hluti að nafnverði kr. 43.733.333 í Premium Group hf., eða kr. 10.933.333,25 hver. Svaraði það til 50% alls hlutafjár Premium Group hf., sem var kr. 87.466.666. Í gögnum tengdum skiptingunni var kveðið á um, að enginn hluthafi nyti sérréttinda við skiptinguna.
Síðla árs 2006 seldi stefndi helming hluta sinna í Premium Kredit hf. til Sparisjóðs Mýrarsýslu (SPM) og var söluverðið kr. 24.982.666. Samdi stefndi jafnframt um sölurétt á þeim hlutum, sem hann hélt eftir, á sama verði, að viðbættum vöxtum, sem námu REIBOR. Hið sama gerðu stefnendur málsins, fyrir utan Hróbjart, sem seldi strax alla hluti sína í félaginu. Stefndi seldi eftirstöðvar hluta sinna til SPM í mars 2008 á umsömdu verði, kr. 24.982.666 (með vöxtum alls kr. 29.574.668). Samanlagt söluverð var því kr. 49.965.332 (fyrir utan REIBOR vexti). Heitir félagið nú Veita fjármálaþjónusta hf.
Í gögnum málsins kemur fram, að sama dag, 25. október 2006, geri Sparisjóður Mýrasýslu tilboð í hlutabréf Jónasar Jónatanssonar í Premium Kredit hf., en ekki kemur fram í öðrum gögnum málsins, hvenær eða hvernig hann eignaðist hlut í fyrirtækinu.
Samkvæmt ársreikningi AM Kredit ehf. fyrir árið 2002 var velta fyrirtækisins á því ári kr. 72.012.550. Velta ársins 2003 nam kr. 68.036.242, árið 2004 kr. 70.734.710 og kr. 62.356.110 á árinu 2005. Velta hins sameinaða félags (AM Kredit ehf. og Premium hf.) á árinu 2006 var kr. 145.809.118. Nam 50% hlutfall veltu því kr. 72.904.559.
Stefnendur kveða, að í byrjun árs 2007, þegar veltutölur ársins 2006 lágu fyrir, hafi verið ljóst, að markmið um tvöföldun tekna (veltu) hafi verið fjarri því að hafa náðst og raunar engin veltuaukning orðið. Skyldi stefndi því, sbr. samkomulag aðila frá 7. október 2005, annað hvort sæta skerðingu á eignarhlutdeild sinni í AM Kredit ehf., nú hinu sameinaða félagi, eða greiða stefnendum það, sem á vantaði, að markmið aðila um tvöföldun viðskiptavildar næðist. Hafi stefnendur því óskað eftir fundi með stefnda til að ræða uppgjörsmál, en stefndi hafi ekki gefið færi á því. Stefnendur hafi þá óskað eftir því við endurskoðanda félagsins, að hann reiknaði út verðmæti ógreiddrar viðskiptavildar á grundvelli samkomulaga aðila. Í framhaldi af því hafi stefnendur sent stefnda bréf, dags. 29. janúar 2007, þar sem stefndi var krafinn formlega um greiðslu á grundvelli samninga aðila. Hafi verið krafist kr. 7.494.442 til hvers stefnanda, eða samtals kr. 22.483.326, og óskað eftir greiðslu innan 14 daga frá dagsetningu bréfsins. Stefndi hafi hafnað kröfum stefnenda, meðal annars þar sem hann hafi lýst sig ósammála túlkun stefnenda á samkomulagi aðila, svo sem fram komi í bréfaskiptum aðila, dags. 7. febrúar 2007, 25. mars 2007, 29. mars 2007, 17. apríl 2007, 18. aprí1 2007, 23. aprí1 2007 og 4. maí 2007.
Með bréfi, dags. 18. aprí1 2007, lýstu stefnendur yfir riftun gagnvart stefnda á samkomulagi aðila um kaup stefnda á viðskiptavild í félaginu, á grundvelli verulegra vanefnda stefnda, og var gerð krafa um, að stefndi skilaði til baka (framseldi) hlutina í Premium Kredit hf., en greiddi með peningum, sem næmi þeim hlutum, sem hann hefði þegar selt, að frátöldu því verðmæti, sem fólst í „platformi“ félagsins. Með bréfi, dags. 23. aprí1 s. ár, hafnaði stefndi kröfu stefnenda um riftun. Var riftunarkrafan ítrekuð af hálfu stefnenda með bréfi, dags. 4. maí 2007. Stefndi féllst heldur ekki á þá tilkynningu um riftun og ráðstafaði eftirstöðvum hluta sinna í Premium Kredit hf. eftir þetta.
Aðilar náðu ekki samkomulagi um kröfu stefnenda á hendur stefnda um greiðslu vegna viðskiptavildar.
III
Málsástæður stefnenda
Aðalkrafa
Stefnendur byggja kröfur sínar á því, að þeir hafi, með riftunaryfirlýsingu hinn 18. aprí1 2007, rift kaupsamningi við stefnda um kaup á hlutum í AM Kredit ehf., síðar Premium Kredit hf., að frádregnum þeim hlutum, sem samsvarað hafi verðmæti eigin fjár félagsins hlutfallslega (platformi, sbr. síðar). Skilyrði riftunar hafi verið uppfyllt, þ.e. að á þeim tíma hafi legið fyrir veruleg vanefnd af hálfu stefnda á samningsskyldum.
Samkvæmt reiknireglu 3. gr. hluthafasamkomulags aðila, sbr. dskj. nr. 6, sem samkomulag aðila, dags. 7. október 2005, vísi til, skyldi viðskiptavild reiknast sem 30% af veltu á ársgrundvelli. Þessi velta hafi síðan, á grundvelli samkomulaga aðila, átt að hafa tvöfaldast eigi síðar en í lok árs 2006, til að stefndi teldist hafa áunnið sér þau verðmæti til jafns við stefnendur, sem falist hafi í viðskiptavild, og þannig greitt að fullu fyrir hina keyptu hluti. Þar sem veltan hafi hins vegar ekkert aukist, hafi stefndi engan rétt átt til hlutdeildar í viðskiptavild um áramótin 2006/2007 (nú hins sameinaða félags, sbr. viðbótarsamkomulag aðila, dags. 7. október 2005), nema því aðeins að hann greiddi fyrir hana í samræmi við reiknireglu samkomulagsins. Í ljósi þess að stefndi hafi ekki greitt í samræmi við samkomulagið, hafi honum borið að sæta skerðingu á hlutum sínum í félaginu og afsala þeim til stefnenda, þannig að hlutur hans í félaginu svaraði aðeins til þeirra verðmæta, sem falist hafi í eigin fé félagsins eða „platforminu“, sbr. og viðbótarsamkomulag aðila, dags. 7. október 2005, dskj. nr. 7.
Með bréfum, dags. 29. janúar 2007, 25. mars, 29. mars og 18. aprí1 s.á., hafi stefnendur ítrekað skorað á stefnda að virða samningsskuldbindingar sínar og greiða það, sem á hafi vantað, að greitt hefði verið fyrir viðskiptavild, eða að afsala sér (framselja) til stefnenda hlutum í félaginu, þá Premium Kredit hf., í samræmi við tilvísuð samkomulög, sbr. einkum samkomulag, dags. 7. október 2005. Við þessu hafi stefndi ekki orðið, heldur hafi hann ráðstafað umræddum hlutum til þriðja manns í andstöðu við framangreint. Teljist stefnendur hafa átt rétt á að rifta umræddum kaupum stefnda og krefjast greiðslu á andvirði hins selda úr hendi stefnda, sbr. nánar síðar. Í kröfu um endurgreiðslu felist krafa um viðurkenningu á umræddri riftun.
Af riftun stefnenda leiði, sbr. hér að framan, að stefnda hafi borið að afhenda stefnendum til baka hið selda, að því leyti sem hann hafi enn haft það undir höndum, enda hafi þeir áskilið sér að fá hið selda afhent til baka, sbr. samkomulag aðila frá 7. október 2005, en ella greiða andvirði þess og tryggja þannig skaðleysi stefnenda. Á hinn bóginn sé ljóst, að af hvorugu hafi orðið, en stefndi hafi hins vegar ráðstafaði hinu selda til þriðja manns. Af hálfu stefnenda sé því gerð sú krafa á hendur stefnda, að hann greiði stefnendum fjárhæð, sem geri þá eins setta og ef stefndi hefði afhent stefnendum til baka hluti í félaginu, svo sem honum hafi borið. Stefnendur byggi á því, að sú fjárhæð nemi kr. 13.627.744 til hvers stefnenda, þ.e. þeim hluta söluverðmætis 12,5% hluta stefnda í sameinuðu félagi, síðar Veitu fjármálaþjónustu hf., sem hafi verið umfram verðmæti bókfærðs eigin fjár félagsins á viðmiðunartíma samkvæmt samkomulagi aðila, þ.e. í árslok 2006.
Nánar tiltekið hafi söluverð, samkvæmt kaupsamningi stefnda og SPM, verið 12,5% eignarhluta stefnda í félaginu, að nafnvirði kr. 10.933.333,25, alls kr. 49.965.332. Bókfært eigið fé Veitu fjármálaþjónustu hf. hafi í árslok 2006 verið kr. 72.656.799. Hlutdeild 12,5% hlutar í bókfærðu eigin fé félagsins hafi numið kr. 9.082.099. Af því leiði, að hluti viðskiptavildar í söluverðmæti hlutar stefnda hafi numið kr. 40.883.232, eða sem nemi 81.823% af söluverðmæti hlutarins (kr. 49.965.332, að frádregnum kr. 9.082.099). Hlutur stefnda eftir skerðingu hafi því átt að nema kr. 1.987.242 að nafnvirði, þ.e. 18,176% af kr. 10.933.333. Með því að stefndi hafi selt alla hlutina til SPM samkvæmt framangreindu, beri honum að greiða stefnendum söluandvirði 12,5% í félaginu, sem hann hafi selt umfram andvirði síns hluta, sem hafi verið kr. 9.082.099 eða kr. 13.627.744 til hvers stefnenda (3 x 13.627.744, eða kr. 40.883.232). Sé stefndi þá eins settur og hann hefði selt einungis þann hluta sinn í sameinuðu félagi, Veitu fjármálaþjónustu hf., sem hann hafi átt rétt til samkvæmt samningum aðila.
Verði ekki fallist á riftun, leiði af kaupsamningi aðila, sbr. og samkomulag, dags. 7. október 2005, að stefndi hafi skuldbundið sig til þess að afsala hlutum sínum í félaginu AM Kredit ehf. (síðar sameinað félag AM Kredit ehf. og Premium hf.) til stefnenda í upphafi árs 2007, þar sem hann hafi ekki áunnið sér rétt til þeirra verðmæta, sem hafi falist í viðskiptavild félagsins, og hafi heldur ekki greitt stefnendum umsamda fjárhæð fyrir hana samkvæmt samkomulagi aðila. Stefndi hafi hins vegar ráðstafað hlutum sínum til þriðja manns, þ.e. SPM, gagnstætt samkomulagi aðila. Stefnendur eigi þess því ekki lengur kost að knýja fram efndir in natura, þ.e. að stefndi afsali til þeirra þeim hlutum, sem skerðingin hafi tekið til. Í stað efnda in natura, og í samræmi við meginreglur kröfuréttar um efndir fjárskuldbindinga, krefjist stefnendur því fjárgreiðslu úr hendi stefnda, sem geri þá eins setta og ef stefndi hefði afsalað (framselt) stefnendum hlutum í félaginu, svo sem honum hafi borið, í samræmi við það eðli efndabóta að gera kröfuhafa eins settan og ef réttar efndir hefðu átt sér stað. Stefnendur byggi á því, að fjárhæð efndabóta nemi kr. 13.627.744, þ.e. þeim hluta söluverðmætis 12,5% hluta stefnda í sameinuðu félagi, síðar Veitu fjármálaþjónustu hf., sem sé umfram verðmæti bókfærðs eigin fjár félagsins, sbr. það sem áður er sagt.
Verði ekki fallist á kröfu stefnenda um efndabætur, leiði af kaupsamningi aðila, sbr. og samkomulag, dags. 7. október 2005, að fyrst stefndi hafi kosið að greiða ekki fyrir viðskiptavildina, hafi honum borið að sæta skerðingu á eignarhlutdeild og honum því verið óheimilt að ráðstafa hlutum sínum til SPM, nema að því marki sem hafi numið réttri eignarhlutdeild hans í félaginu. Stefnendur eigi rétt á að fá umræddan mismun bættan á grundvelli almennra skaðabótareglna, enda um óheimila, og þar með saknæma, ráðstöfun stefnda að ræða, sem valdi stefnendum tjóni sem þessari fjárhæð nemi, þ.e. kr. 13.627.744, sbr. og framangreinda útreikninga.
Stefnendur byggi jafnframt á því, að sama niðurstaða og að ofan greini leiði af auðgunarreglu kröfuréttar. Stefndi hafi, án réttmætrar ástæðu, öðlast verðmæti, þ.e. í formi verðmætis viðskiptavildar, sem hafi tilheyrt stefnendum, þar eð stefndi hafi ekki uppfyllt samningsbundnar skyldur fyrir yfirfærslu verðmætanna. Með því að ráðstafa þessum verðmætum síðan til þriðja aðila, hafi stefndi auðgast á kostnað stefnenda þannig að óréttmætt teljist, enda hafi hann, eins og sakir standi, fengið verðmætin, án greiðslu nokkurs endurgjalds. Beri stefnda að skila stefnendum andvirði þessarar auðgunar, þ.e. kr. 13.627.744 til hvers stefnenda, sbr. framangreindan útreikning.
Dráttarvaxta af aðalkröfu sé krafist frá og með 1. mars 2007, þ.e. mánuði eftir dagsetningu kröfubréfs stefnenda, dags. 29. janúar 2007, sbr. dskj. nr. 13 og 3. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001, en þá hafi stefnda mátt vera ljóst, að hann héldi umræddum verðmætum frá stefnendum með saknæmum og ólögmætum hætti.
Varakrafa
Verði ekki fallist á aðalkröfu stefnenda, sé þess krafist, að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnendum hverjum um sig kr. 8.452.512. Stefnendur byggi á því, að stefnda beri að greiða stefnendum eftirstöðvar kaupverðs hlutanna, sem hafi numið verðmæti viðskiptavildar. Þar sem tekjur félagsins hafi ekki aukist, og þar með ekki viðskiptavildin, reiknuð samkvæmt umsaminni reiknireglu 3. gr. hluthafasamkomulagsins, sbr. að framan, beri stefnda að greiða stefnendum fjárhæð, verðbætta til loka ársins 2006, sem svari til þess, sem á vanti, að viðskiptavild hefði tvöfaldast á tímabilinu 2002-2006, sbr. samkomulag aðila, dags. 28. mars 2003, sbr. dskj. nr. 5, og viðbótarsamkomulag aðila, dags. 7. október 2005, til fyllingar því, sbr. dskj. nr. 7.
Velta félagsins á árinu 2002 hafi numið kr. 72.012.550. Tvöföldun veltu til loka ársins 2006 hefði því átt að nema kr. 144.025.100. Veltuviðmiðun á árinu 2006, skyldi miðast við helming veltu sameinaðs félags, Premium Kredit hf. Velta þess félags árið 2006 hafi numið kr. 145.809.118. Helmingur þeirrar fjárhæðar hefði því numið kr. 72.904.550 og því ljóst, að markmið um tekjuaukningu hafi ekki náðst. Stefnda hafi því borið, samkvæmt samkomulagi aðila, að greiða stefnendum fyrir það verðmæti, sem falist hafi í viðskiptavild, fjárhæð, sem samsvaraði 30% af veltu ársins 2002. Nemi sú fjárhæð samkvæmt 3. gr. hluthafasamkomulagsins, leiðrétt með tilliti til veltuhækkunar hjá Premium 2006 (50% af ársveltu 2006) kr. 72.012.550 mínus kr. 72.904.559, eða kr. 892.009 hækkun. Kr. 72.012.550 mínus kr. 892.009 geri kr. 71.120.541. 30% af þeirri fjárhæð geri kr. 21.336.162. Sú fjárhæð hækkuð samkvæmt vísitölu neysluverðs frá janúar 2003 til desember 2006 (223,9x266,1) geri kr. 25.357.538. Krafa hvers stefnanda nemi því kr. 8.452.512 samkvæmt varakröfu. Krafist sé dráttarvaxta frá 1. mars, 2007, þ.e. mánuði eftir dagsetningu kröfubréfs stefnenda, dags. 29. janúar 2007, sbr. dskj. nr. 13 og 3. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001.
Í samræmi við framangreint hafni stefnendur afdráttarlaust þeim skilningi stefnda, sbr. nánar dskj. nr. 15, að útreikningur á viðskiptavild til greiðslu til stefnenda skv. samningum aðila skyldi miðast við tilvísaðar veltutölur, en þó aldrei meira en hagnaði þriggja ára eftir gerð kaupsamnings. Í samningum aðila frá 26. mars 2003, sbr. og 28. mars s.á., hafi stefndi skuldbundið sig til þess, ef hann vildi eignast hlutdeild í viðskiptavild félagsins til jafns við stefnendur, að greiða það, sem vantað hafi upp á tvöföldun á „núverandi viðskiptavild skv. viðmiði 3. gr. hluthafasamkomulags. Greiðslan fylgi breytingum á verðlagi“ Hafi bersýnilega verið vísað til viðskiptavildar félagsins á þeim tíma, sem samningurinn var gerður, skv. útreikningsaðferð 3. gr. hluthafasamkomulagsins, sbr. dskj. nr. 6. Tilvísun í 3. gr. hluthafasamkomulagsins hafi þannig eingöngu lotið að því, hvernig skilgreina skyldi viðskiptavild, þ.e. að miða skyldi við 30% af ársveltu, svo sem orðalag samkomulags aðila beri ljóslega með sér. Ákvæði 3. gr. varðandi hámarksgreiðslu, sem miðast skyldi við þrefaldan meðalhagnað, eigi eingöngu við um það tilvik, þegar hluthafi gangi úr félaginu í framtíðinni (útganga fullgilds félaga), en eigi ekki við um ákvörðun kaupsverðs skv. samkomulagi aðila, dags. 26. mars 2003, sbr. og dags. 28. mars s.á.
Þessi skilningur sé síðan áréttaður í samkomulagi aðila frá 7. október 2005, sbr. dskj. nr. 7, þar sem einungis sé samið um nýjar viðmiðanir hvað varði veltu. Hefði það verið ætlun og skilningur aðila, að það væru tveir mælikvarðar, þannig að það yrði að miða bæði við veltu og hagnað, þá hefði verið nauðsynlegt að semja einnig um nýtt viðmið, hvað varðaði hagnað. Þetta hafi sérstaklega átt við, þar sem ljóst hafi verið, að umbreyting yrði á rekstri hins selda félags, þegar það rynni saman við Premium, enda ljóst, að hinn sameinaði rekstur yrði á breyttum vettvangi, þar sem mikil áhersla yrði lögð á markaðssetningu en ekki hagnað fyrstu árin.
Skilningur stefnda feli jafnframt í sér þá rökrænu mótsögn við skuldbindingu hans, að eftir því sem framtíðarhagnaður félagsins væri minni, þeim mun lægri væri greiðsla stefnda til stefnenda, og hann hefði því bersýnilega fjárhagslegan ávinning af því að leggja félaginu ekki til þau viðskipti og viðskiptavild, sem hann hafi lofað, í því skyni að komast hjá greiðslu fyrir viðskiptavildina í lok árs 2006.
Þá eigi þessi skilningur sér hvorki stoð í orðalagi umræddra samninga né öðrum gögnum málsins, og beri stefndi sönnunarbyrðina fyrir öðru. Stefnendur bendi einnig á, að slík túlkun leiði til óeðlilegrar niðurstöðu í viðskiptalegu tilliti, þ.e.a.s. að stefndi skuli, eins og hér sé ástatt, í engu greiða fyrir umþrætta viðskiptavild, þrátt fyrir að hann hafi ráðstafað henni til þriðja aðila fyrir tæplega fimmtíu milljónir króna.
Af hálfu stefnenda sé sérstaklega byggt á því, að umrædd útfærsla á greiðslu fyrir viðskiptavild, og eftir atvikum afhendingu hluta til baka, sé frá stefnda komin, en ekki stefnendum.
Stefnendur vísi um samlagsaðild stefnenda til 1. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991, en dómkröfur þeirra eigi rætur að rekja til sama löggernings og sömu atvika. Þá vísi stefnendur til meginreglna kröfu- og samningaréttar um efndir skuldbindinga og vanefndaúrræða kröfuréttar, þ.m.t. auðgunarreglu kröfuréttar, auk almennra skaðabótareglna. Um dráttarvaxtakröfu vísist til III. kafla laga nr. 38/2001, og um málskostnaðarkröfu til XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Málsástæður stefnda
Stefndi byggi á því, að við sölu hlutanna í Premium Kredit þann 25. október 2006 hafi Hróbjartur Jónatansson framselt Sparisjóði Mýrasýslu, hlutina með öllum réttindum og skyldum þeim tengdum. Kaupverðið, sem Sparisjóður Mýrasýslu hafi greitt Hróbjarti fyrir hluti hans í Premium Kredit, kr. 4,57 á hlut, hafi tekið mið af öllum efnahag félagsins, þ.m.t. viðskiptavild og framtíðartekjustreymi þess. Hróbjartur hafi horfið úr hópi hluthafa. Sala Hróbjarts hafi verið gerð með samþykki annarra hluthafa, sem fallið hafi frá forkaupsrétti sínum, og þá væntanlega einnig stjórnar AM Kredit/Premium, sem hafi átt kauprétt að þeim samkvæmt hluthafasamningi. Við framsal hlutanna frá stefnandanum Hróbjarti til Sparisjóðs Mýrasýslu hafi sparisjóðurinn eignast öll réttindi, sem hlutunum tilheyrðu, þó að hann yrði ekki að sama skapi bundinn af hluthafasamkomulaginu. Við söluna hafi Hróbjartur horfið úr hópi hluthafa og hafi því ekki eftir það getað verið aðili hluthafasamnings í félaginu eða viðaukum við hann. Hróbjartur hafi enga fyrirvara gert við söluna um það gagnvart stefnda, sem hafi á sama tíma verið að selja helming hluta sinna, að hann kynni að eiga hlutdeild í söluandvirði hluta hans eða hlutdeild í þeim hlutum, sem stefndi hafi ekki selt og hafði eignast sölurétt að til Sparisjóðs Mýrasýslu, samkvæmt samkomulagi frá 1. nóvember 2006. Hróbjartur Jónatansson eigi því enga kröfu á hendur stefnda, og beri að sýkna stefnda af öllum kröfum hans vegna aðildarskorts.
Sömu sjónarmið eigi við um stefnandann, Svein Jónatansson, sem hafi hætt þátttöku í sameiginlegum rekstri undir merkjum AM Praxis í árslok 2005 og látið af störfum í þágu AM Kredit og hins sameinaða félags, sem þó hafi verið aðalstarfi hans árum saman. Hafi sameigendur hans frá þeim tíma átt kröfu um að innleysa hlut hans í félaginu og fjarstæða, að hann eigi kröfu á hendur öðrum sameigendum, sem grundvallist á takmörkuðu gengi AM Kredit/Premium, eftir að hann hafi hætt að leggja því starfskrafta sína, og það fullu ári áður en viðmið fyrir árangri í uppbyggingu viðskiptavildar félagsins skyldi mælt.
Með vísan til þessa geti hvorki Sveinn né Hróbjartur átt aðild að máli þessu, þar sem þeir hafi gengið út úr samstarfinu við stefnda, áður en því tímamarki hafi verið náð, sem miða hafi átt tekjuaukninguna við samkvæmt samningnum frá 7. október 2005. Breyti engu í því sambandi þó að Sveinn hafi haldið hlutum sínum, þar sem þeir hafi verið bundnir kauprétti félagsins og annarra hluthafa, eftir að hann lét af störfum.
Verði ekki fallist á framangreint, byggi stefndi á því að sýkna eigi hann af kröfum allra stefnenda máls þessa vegna forsendubrests.
Stefndi byggi sýknukröfu sína á því, að hann hafi, með samningi, dagsettum 26. mars 2002, keypt sig inn í rekstur tveggja félaga. Verð hlutanna í þeim viðskiptunum hafi tekið mið af verðmæti varanlegra rekstrarfjármuna, veltufjármuna og fastafjármuna, að undanskilinni viðskiptavild. Fyrir viðskiptavildina hafi hann aldrei átt að greiða stefnendum, nema í því undantekningartilviki, að hann og stefnendur næðu ekki því tekjumarkmiði, sem þeir hafi sett sér að ná. Með ákvæði í samþykktum hlutafélaganna og hluthafasamkomulaginu hafi sérstakar hömlur verið lagðar á meðferð hlutanna og stjórn og öðrum hluthöfum tryggður bæði kaupréttur og forkaupsréttur að hlutum, vildi einhver hluthafi selja hlut sinn og hverfa á braut. Við ákvörðun kaupréttarverðs hafi, auk grunnverðs hlutanna, sem byggja hafi átt á verðmæti varanlegra rekstrarfjármuna, veltufjármuna og fastafjármuna, að undanskilinni viðskiptavild, átt að greiða viðbót, sem byggðist á tilteknum hundraðshluta veltu yfir ákveðið tímabil, eða meðaltali tekna eftir skatta um ákveðinn tíma, væru þær lægri en veltan. Þessari aðferð hafi átti þó aðeins átt að beita, hefðu forsendur í rekstri eða rekstrarumhverfi félaganna ekki breytst. Þrátt fyrir þessi skýlausu ákvæði hafi stefndi fallist á, að hann mætti ekki selja hluti sína verði, sem grundvallaðist á reglu 3. mgr. 3. gr. hluthafasamkomulagsins, fyrr en tekjur félaganna hefðu tvöfaldast, og hafi verið stefnt að því, að það yrði í síðasta lagi 2006. Næðist það markmið ekki, hafi stefndi átt tvo kosti, annars vegar að greiða stefnendum viðbótarkaupverð eða hins vegar að eignast minni hlut, en um hafði verið samið. Stefndi hafi þó verið undanþeginn þessu, ef ástæða þess, að markmiði um tvöföldun tekna hafi ekki verið náð vegna verulegra breytinga á forsendum samkomulagsins.
Stefndi bendi í þessu sambandi á, að samstarfið í AM Praxis hafi farið út um þúfur í upphafi árs 2005 og hafi verið að engu orðið á innan við tveimur árum, fyrir uppsögn Hróbjarts Jónatanssonar, og þær aðstæður sem hann hafi borið fyrir sig af því tilefni. Ekkert hafi vantaði upp á, að stefndi hafi skilað sínu tekjulega til félagsins árin 2003 og 2004. Bókfærðartekjur stefnda þessi ár hafi verið kr. 25.594.000 og 25.018 [sic], samtals kr. 50.612.000. Þá hafi komið í ljós, að afkoma AM Praxis árið 2002 hafi reynst verri en kynnt hafi verið og í raun hafi enginn botn fengist í uppgjör þess félags í kjölfar breytinga á rekstrinum í desember 2005. Stefndi hafi fallist á ný tekjuviðmið fyrir hluthafasamkomulagið þann 7. október 2005, þegar fyrir hafi legið, að skipta ætti AM Kredit upp og sameina hluta þess öðru félagi. Hann hafi hins vegar ekki þá fallið frá öðrum þáttum hluthafasamkomulagsins, m.a. að miða bæri verðmæti viðbótarkaupverðs við útgöngu úr félaginu við meðaltal þriggja ára tekna eftir skatta, væri sú tala lægri. Þá hafi fyrirvari hluthafasamkomulagsins um forsendubrest gilt áfram.
Áður en tímamarki veltuviðmiðunar, samkvæmt hluthafasamningnum og viðaukum við hann, hafi verið náð, þ.e. við lok rekstrarárs 2006, hafi stefndi og stefnendur ákveðið að selja helming hluta sinna, og stefnandinn Hróbjartur að öllu leyti, og hafi hann þar með horfið frá rekstrinum. Brotthvarf Sveins hafi verið sama marki brennt. Við þetta hafi allar forsendur fyrir hluthafasamkomulaginu og viðaukum við það brostið, og beri því að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnenda. Allt, sem stefndi hafði keypt sig inn í rekstur á, hafi ýmist verið liðið undir lok AM Praxis, eða aðeins orðið sameiginlegt skrifstofuhald, og AM Kredit sameinað öðru félagi, og upphaflegir hluthafar AM Kredit ýmist búnir að selja hluti sína að öllu leyti eða hluta. Stefndi og stefnendur hafi því í raun misst alla stjórn, rekstrarumhverfi og rekstur félaganna hafi verið breyttur.
Stefndi bendir einnig á, að ákvæði 3. gr. hluthafasamningsins um ákvörðun verðs hafi fyrst og fremst átt við um viðskipti milli stefnda og stefnenda á grundvelli samningsbundins kaupréttar, en ekki í viðskiptum við þriðja mann, því þá hafi forkaupsréttur orðið virkur. Ákvæðið eigi því alls ekki við þegar hluthafarnir hafi allir sem einn ákveðið að selja mismikið af hlutum sínum, eins og reyndin hafi verið í október 2006, þegar þeir seldu Sparisjóði Mýrasýslu hluti í Premium Kredit. Stefndi hafi rakið þessi sjónarmið í bréfum til stefnenda, sem ekki hafi hirt um að reyna innheimtu meintra krafna sinna fyrr en með málssókn þessari, nærri 22 mánuðum eftir að þeir hafi talið þær gjaldfallnar. Verði ekki fallist á að sýkna beri vegna forsendubrests, verði að sýkna vegna tómlætis, þar sem gera verði kröfu til þess, að hæstaréttarlögmenn haldi rétti sínum til laga án ástæðulauss dráttar, telji þeir sig á annað borð eiga einhvern rétt samkvæmt þeim samningum, sem þeir geri. Hafi það verið sérlega brýnt, þar sem þeim hafi strax í byrjun árs 2007 verið ljós afstaða stefnda.
Stefndi styðji sýknukröfu sína einnig þeim rökum, að markmiði með viðauka I og viðauka II við hluthafasamkomulagið frá 28. mars 2003 um aukningu viðskiptavildar hafi sannanlega verið náð og allir stefnendur hafi hagnýtt sér það með sölu hluta sinna í innheimtufyrirtækinu. Í bréfi stefnenda frá 29. janúar 2007, sbr. dskj. nr. 13, komi fram talnaleg útfærsla þeirra á því, að þeir telji, að viðskiptavild innheimtufyrirtækisins hafi átt að nema kr. 51.581.533 hinn 31. desember 2006. Fyrir liggi, að við sameiningu AM Kredit í Premium Kredit, nú Veitu hf., hafi verið bókfært verðmæti framlags AM Kredit, kr. 21.818.903. Stefnendur hafa allir selt hluti sína til Sparisjóðs Mýrasýslu á gengi, sem svarað hafi til þess, að heildarverðmæti AM Kredit hafi numið kr. 199.867.000. Sé því augljóst, að í þeirri sölu, sem átt hafi sér stað fyrir margnefndan viðmiðunardag í árslok 2006, hafi það í raun gerst, að viðskiptavild innheimtufyrirtækisins hafði ekki aðeins tvöfaldast, heldur nálega áttfaldast frá því, sem stefnendur miði kröfu sína við. Hafi markmiði um tvöföldun viðskipavildar því verið náð, og fái þeir því enga kröfu reist á hendur stefnda um bætur fyrir ætlað tjón af völdum vöntunar á aukningu viðskiptavildar.
Stefndi hafni því, að hann hafi vanefnt kaupsamninginn frá 23. mars 2003, eins og stefnendur byggi málssókn sína á. Kaupsamningurinn frá 23. mars 2003 fjalli um kaup stefnda af stefnendum á 25% hlut í tveimur félögum. Stefndi hafi að fullu staðið við þær skuldbindingar, sem sá samningur kveði á um, og því fráleitt, að forsendur hafi verið til að rifta honum. Samningi verði heldur ekki rift, nema samtímis fari fram uppgjör milli samningsaðila. Stefnendur geri ekki ráð fyrir neinu slíku í málssókn sinni, og því sé krafa þeirra í raun ódómtæk.
Stefndi bendi á, að ágreiningur máls þessa snúist um skyldu stefnda til að greiða viðbót við kaupverðið, þar sem markmiðum um tekjuaukningu hafi ekki verið náð. Samkomulag um greiðslu þessa sé að finna í viðauka við hluthafasamning aðilanna, en ekki kaupsamninginn frá 28. mars 2003.
Stefndi hafni því, að stefnendur eigi einhverja kröfu á hendur honum um efndabætur, þar sem hann hafi, andstætt samkomulagi við stefnendur, ráðstafað hlutum sínum í Premium Kredit til Sparisjóðs Mýrasýslu ,,gagnstætt samkomulagi aðila“, eins og segi á bls. 6 í stefnu á dskj. nr. 1. Stefndi bendir í þessu sambandi á, að hann og allir stefnendur hafi sameiginlega staðið að sölu hluta í Premium Kredit til Sparisjóðs Mýrasýslu, sbr. dskj. nr. 28. Við þá sölu hafi því ekki verið hreyft af hálfu stefnenda, að þeir ættu einhvern rétt yfir hlutum stefnda, sem hafi aðeins selt helming hluta sinna.
Stefndi hafni því með sömu rökum, að stefnendur eigi skaðabótakröfu á hendur honum á grundvelli almennu skaðabótareglunnar, þar sem sala hans á helmings hluta í Premium Kredit hafi verið ólögmæt og saknæm. Kröfugerð þessi sé hrein fjarstæða, þar sem það hafi verið sameiginleg ákvörðun stefnda og stefnenda að selja Sparisjóði Mýrarsýslu helming alls hlutafjár í Premium Kredit. Sala stefnda, sem hafi farið fram samhliða sölu stefnenda, hafi því ekki verið ólögmæt og saknæm, eins og byggt sé á af hálfu stefnenda. Færi svo ólíklega, að dómstóll teldi hann skaðabótaskyldan, verði að horfa til þess við ákvörðun skaðabóta, að stefnendur hafi ekkert gert til að takmarka tjóns sitt og hafi sýnt af sér mikið tómlæti við að halda meintri skaðabótakröfu til laga.
Stefndi hafni því, að auðgunarregla kröfuréttar leiði til þess, að stefnendur eigi hver um sig kr. 13.627.744 kröfu á hendur honum. Stefndi hafi ekki á nokkurn hátt auðgast á kostnað stefnenda. Allir stefnendur, að frátöldum stefnandanum Reyni Karlssyni, hafi selt hluti sína í Premium Kredit á undan stefnda og því í raun hlaupist undan merkjum við rekstur þeirra félaga, sem þeir hafi selt stefnda hlut í þann 23. mars 2003.
Stefndi hafni því, að hann skuldi stefnendum eftirstöðvar kaupverðs þeirra hluta, sem stefnendur hafi selt honum í AM Praxis og AM Kredit með kaupsamningi, dags. 28. mars 2003, eins og byggt sé á í varakröfu málsins, þ.e. kr. 8.558.256 skuld við hvern stefnanda fyrir sig. Stefnendur virðist byggja málssókn sína á því, að stefndi einn hafi, með störfum sínum og viðskiptasamböndum, átt að sjá til þess, að velta fyrirtækjanna, sem hann keypti hluti í af stefnendum, tvöfaldaðist frá árinu 2002 til ársins 2006. Um slíkt hafi aldrei verið samið, heldur hafi það verið markmið stefnda og stefnenda sameiginlega að stefna að tvöföldun veltu á greindu tímabili. Áður en viðmiðunartímabil tekjutvöföldunar var úti, hafi það bæði gerst, að stefnendur og stefndi hafi orðið ásáttir um að hætta að reka AM Praxis í því formi, sem verið hafði, þegar stefndi keypti sig inn í það, og eins hitt, að stefnendur allir hafi sameinað rekstur AM Kredit við rekstur annars innheimtufyrirtækis og hafi þeir því aðeins átt helming hlutafjár. Það hafi því ekki lengur verið á valdi stefnda og stefnenda að ná settum tekjumarkmiðum. Þessar ráðstafanir hafi breytt öllum forsendum samkomulagsins um, að stefndi bætti stefnendum að einhverju leyti upp meint verðmæti viðskiptavildar AM Praxis og AM Kredit.
Stefndi mótmæli fjárhæð allra krafna, sem stefnendur setji fram í máli þessu. Að baki þeim liggi engir útreikningar. Þá vísi stefndi til þess, að markmið þess að fresta uppgjöri á greiðslu fyrir hugsanlega viðskiptavild hafi aðeins verið að lækka hugsanlegt endurgjald um það hlutfall, sem verðmæti viðskiptavildar kynni að aukast. Hámark hugsanlegrar kröfu um greiðslu hafi því verið sú viðskiptavild, sem, samkvæmt útreikningum 3. gr. hluthafasamkomulagsins, hafi talist vera til staðar í AM Kredit við kaup hans. Sú fjárhæð hafi numið 30% af raunverulegum tekjum AM Kredit á árinu 2002. Athugun endurskoðanda á dskj. nr. 30 leiði fram, að miklir ágallar hafi verið á uppgjöri AM Kredit, sem lagt hafi verið til grundvallar við söluna til stefnda. Tekjur hafi verið oftaldar, en gjöld vantalin. Þegar tekið hafi verið tillit til samningsbundinnar eftirgjafar tekna vegna viðskipta AM Kredit og Sjóvár á árinu 2002, að fjárhæð kr. 3,7 milljónir, hafi hagnaður AM Kredit numið 20,5 milljónum króna. 25% af þeirri fjárhæð sé það hámark, sem kaupverð þeirrar viðskiptavildar hefði getað numið, ef ekki hefði verið samið svo um, að sú greiðsla kæmi því aðeins til, að ekki tækist að auka viðskiptavildina á næstu fjórum árum, svo sem nánar hafi verið fjallað um hér að framan. Þá hafi greiðslan jafnhliða verið bundin því skilyrði, að hagnaður, meðalhagnaður, þriggja undanfarandi ára hafi verið að minnsta kosti jafnhár. Viðmiðun í þessu efni hafi verið árin 2004 til 2006 og hafi að meðaltali verið tap á rekstri innheimtufyrirtækisins á þeim tíma. Leiðir það eitt og sér til þess, að greiðsluskylda hafi ekki skapast, sbr. 3. gr. hluthafasamkomulagsins á dskj. nr. 6.
Stefndi bendi einnig á, að samkvæmt skýrslu endurskoðanda á dskj. nr. 30, hafi þau efnislegu verðmæti, sem honum hafi verið seld, verið stórlega ofmetin, og með greiðslu þess hafi stefndi því einnig í raun verið að greiða fyrir óefnisleg verðmæti, sem hann hafi ekki átt að greiða fyrir.
Verði ekki fallist á framangreindar málsástæður, byggi stefndi á því, að sýkna beri hann á grundvelli 36. gr. samningalaganna nr. 7/1936, sem heimili dómstólum að víkja til hliðar samningum eða einstökum samningsákvæðum, teljist það óheiðarlegt eða andstætt góðri viðskiptavenju að bera þá fyrir sig m.a. vegna breytinga sem orðið hafi frá því samningurinn var gerður, eins og reyndin sé í þessu máli. Stefnendur hafi allir selt hluti sína með miklum hagnaði, meiri en nokkru sinni hefði verið hægt að fá út úr þeim rekstri, sem stefndi hafi keypt sig inn í, enda hafi ríkt þar lítil eining meðal hluthafa, sem sumir hverjir hafi hlaupist undan merkjum um leið og færi gafst.
Það sé óheiðarlegt og andstætt góðum viðskiptaháttum af hálfu stefnenda að krefja hann nú um greiðslu fyrir viðskiptavild, sem honum hafi ekki verið ætlað að greiða neitt fyrir í upphafi samstarfsins, og ekkert ef markmið þeirra allra um tekjuaukningu innan ákveðins tíma næðist. Samstarfið hafi ekki enst út þann tíma óbreytt. Teljist samningurinn því enn í gildi, þrátt fyrir breyttar forsendur, verði að víkja honum til hliðar vegna atvika, sem hafi komið til, áður en efna hafi átti hann, sbr. 36. gr. samningalaga nr. 7/1936.
Stefndi mótmæli upphafstíma dráttarvaxtakröfu stefnenda bæði vegna aðal- og varakröfu og krefjist þess, að dráttarvextir verði ekki undir neinum kringumstæðum látnir falla á kröfur stefnenda, verði þær að einhverju leyti teknar til greina, fyrr en frá uppsögu dóms í máli þessu.
Þá sé hvergi í samningum aðila kveðið á um það, að kröfurnar skuli verðtryggðar miðað við vísitölu neysluverðs, eins og byggt virðist á í útreikningi endurskoðanda stefnenda. Stefnendur allir séu starfandi lögmenn, hafi haft veg og vanda af allri samningsgerð við stefnda og verði því að bera allan halla af óskýrleika þeirra.
Við munnlegan málflutning byggði lögmaður stefnda, auk framangreinds, á þeirri málsástæðu, að þar sem í ljós hefði komið við söluna til Sparisjóðs Mýrasýslu, að stefnandinn, Sveinn Jónatansson, hefði aðeins átt 6,25% hlut í félaginu, en krefjist þrátt fyrir það greiðslu, eins og hann hefði átt 12,5%, verði honum ekki dæmdur nema helmingur umkrafinnar fjárhæðar, fallist dómurinn á kröfur stefnanda.
Málsástæðu þessari var mótmælt af hálfu stefnenda sem of seint framkominni og einnig sem þýðingarlausri.
IV
Forsendur og niðurstaða
Aðilar gáfu allir skýrslu fyrir dómi og enn fremur Guðmundur Sveinsson löggiltur endurskoðandi.
Stefnendur byggja kröfur sínar á því í fyrsta lagi, að þeir hafi, með riftunaryfirlýsingu, dags. 18. apríl 2007, rift kaupsamningi aðila um kaup stefnda á hlutum í AM Kredit ehf., síðar Premium Kredit hf., að frádregnum þeim hlutum, sem samsvarað hafi verðmæti eigin fjár félagsins hlutfallslega, þar sem stefndi hafi vanefnt samningsskyldur sínar verulega.
Stefndi hafnar þessari málsástæðu.
Riftunaryfirlýsing sú, sem stefnendur vísa til, er á dskj. nr. 18. Í yfirlýsingunni segir svo m.a.: „Með því að hafna báðum kostunum sem þér stóðu til boða samkvæmt samkomulaginu til þess að eignast viðskiptavild í félaginu til jafns við okkur, teljum við að þú hafir vanefnt samkomulagið svo verulega að heimili riftun þess af okkar hálfu. Er samkomulaginu því hér með rift vegna vanefnda þinna og gerum við kröfu til þess að þú framseljir hlutina í félögunum til okkar nú þegar og jafnir til okkar að öðru leyti með peningagreiðslum sem nemur þeim hlutum Premium kredit hf. sem þú hefur þegar selt að frátöldu því verðmæti sem felst í „platformi“ félagsins, sem þú átt nú þegar skv. kaupsamningi við okkur.“
Upphaflegur samningur aðila um inngöngu stefnda í félögin AM Kredit og AM Praxís var gerður árið 2002. Hinn 26. mars 2003 var síðan gerður kaupsamningur um kaup stefnda á hlutum í félögunum. Svo sem rakið hefur verið í kafla um málavaxtalýsingu voru síðan gerð nokkur viðbótarsamkomulög í tengslum við kaupin og síðar vegna sameiningar félaganna við önnur félög, svo sem áður hefur verið rakið.
Ekki kemur fram í yfirlýsingu stefnenda á dskj. nr. 18 hvaða samkomulagi aðila er verið að rifta, og í stefnu byggja stefnendur á því, að kaupsamningi aðila hafi verið rift, að frátöldum þeim hlutum, sem kaupsamningurinn sjálfur, sem er á dskj. nr. 3, fjallar um, að því er virðist. Hvorki í samningi aðila um inngöngu stefnda í félögin né í kaupsamningnum á dskj. nr. 3 er minnst á, að greiðslur skuli koma fyrir hlut stefnda í viðskiptavild félaganna, en í inngöngusamningnum segir einungis, að gert sé ráð fyrir því, að framlag ÞVÞ í formi viðskiptavildar jafngildi hlutfallslegri viðskiptavild núverandi eigenda. Þá er stefndi krafinn um framsal hluta í „félögunum“, sem vísar til þess, að riftunin taki til fleiri en eins félags, án þess að skilgreint sé í yfirlýsingunni, við hvaða félög sé átt. Loks er ekki gert ráð fyrir uppgjöri milli aðila í yfirlýsingunni, að öðru leyti en því, að krafist er einhliða skila stefnda á hlutum og greiðslu.
Eins og riftunaryfirlýsingunni er háttað er ekki fallist á, að hún fái staðist vegna óskýrleika, og verða kröfur stefnenda ekki á henni byggðar.
Stefndi byggir á því, að sýkna beri hann af kröfum stefnandans Hróbjarts vegna aðildarskorts, þar sem hann hafi horfið úr hópi hluthafa, áður en tímabilinu lauk, sem samningar aðila kváðu á um, að skyldi nota til að tvöfalda veltuna. Hafi Sparisjóður Mýrasýslu (SPM) eignast öll réttindi, sem hlutum stefnandans heyrðu til við framsal hlutanna til sjóðsins.
Svo sem að framan greinir er hvorki fjallað um greiðslur fyrir viðskiptavild í inngöngusamningi ÞVÞ í félögin frá 21.09. 2002 né í kaupsamningi aðila frá 26. mars 2003. Tveimur dögum síðar, eða hinn 28. mars 2003, gerðu aðilar með sér hluthafasamkomulag, sem samkvæmt yfirskrift fjallar um „líf- og sjúkratryggingar hluthafa og útgöngukjör þeirra úr félögunum og fleira.“ Í 3. mgr. 3. gr. þess samkomulags er fjallað um, hvernig reikna skuli viðskiptavild félaganna, en greinin ber yfirskriftina „Mat á endurgjaldi við sölu hluta í félögunum“. Í 3. mgr. þeirrar greinar er fjallað um hvernig reikna skuli innlausnarverð hlutanna út frá verðmæti viðskiptavildar félaganna, sem reiknuð skuli sem 30% af samanlagðri veltu félaganna á ársgrundvelli, reiknað út frá viðkomandi milliuppgjöri. Síðan segir, að verðmæti viðskiptavildar félaganna skuli þó eigi nema hærri fjárhæð en sem nemi þreföldum meðalhagnaði beggja félaganna eftir skatta síðustu þrjú rekstrarárin fyrir innlausn hlutanna.
Þennan sama dag, 28. mars 2003, gerðu hluthafar með sér samkomulag um viðmið fyrir mat á þróun viðskiptavildar vegna innkomu ÞVÞ í félögin til fyllingar inngöngusamningi ÞVÞ frá 21. september 2002. Segir í því samkomulagi m.a., að náist markmið aðila um tvöföldun tekna ekki, skuli ÞVÞ greiða „núverandi sameigendum“ fjárhæð eins og nánar er lýst í samkomulaginu. „Núverandi sameigendur“ samkvæmt samkomulaginu eru stefnendur í máli þessu, og er því þegar af þeim sökum ekki fallist á með stefnda, að með útgöngu sinni úr félaginu hafi stefnandinn Hróbjartur afsalað sér rétti samkvæmt þessu ákvæði samkomulagins. Hið sama á við um stefnandann Svein Jónatansson, en stefndi byggir einnig á því, að hann verði sýknaður af kröfum hans vegna aðildarskorts, þar sem þessi stefnandi hafi hætt þátttöku í sameiginlegum rekstri undir merkjum AM Praxis í árslok 2005 og látið af störfum í þágu AM Kredit og hins sameinaða félags. Þá liggur ekki annað fyrir en að stefnandinn Sveinn hafi átt jafnan hlut á við aðra félagsmenn, þegar samningar aðila voru gerðir. Er því ekki fallist á sýknukröfu stefnda af kröfum stefnendanna Hróbjarts og Sveins, sem byggir á aðildarskorti.
Stefnendur byggja á því, að stefnda beri að greiða þeim efndabætur, þar sem hann hafi ekki staðið við margnefnt samkomulag um tvöföldun veltu/tekna. Verði ekki fallist á kröfu um efndabætur, byggja stefnendur á því, að þeir eigi skaðabótakröfu á hendur stefnda, þar sem hann hafi auðgast á kostnað stefnenda með því að selja hlut sinn, þ.m.t. viðskiptavild, til þriðja aðila, í stað þess að standa við margnefnt samkomulag um tvöföldun veltu/tekna en greiða ella bætur samkvæmt tilgreindri reiknireglu.
Stefndi byggir sýknukröfu sína á forsendubresti.
Forsendur hafi m.a. brostið við það, að samstarfið í AM Praxis hafi farið út um þúfur í upphafi ársins 2005 þegar stefnandinn Hróbjartur gekk úr félaginu, og hafi það verið að engu orðið á innan við 2 árum. Þá hafi afkoma AM Praxis árið 2002 verið verri en kynnt hafði verið. Áður en tímamarki veltuviðmiðunar samkvæmt samningum aðila var náð, hafi stefndi og stefnendur selt helming hluta sinna í fyrirtækinu, og stefnandinn Hróbjartur reyndar allan sinn hlut, og hafi hann þar með horfið frá fyrirtækinu. Þá hafi brotthvarf stefnandans Sveins verið sama marki brennt.
Af hálfu stefnenda er því haldið fram, að stefndi geti ekki borið fyrir sig forsendubrest, þar sem hann hafi ekki virt samningsákvæðið um forsendubrest og farið fram á, að viðmið viðskiptavildarinnar yrði endurskoðað að bestu manna yfirsýn.
Ekki er fallist á, að stefndi hafi glatað rétti til að bera fyrir sig forsendubrest hér fyrir dómi, enda þótt hann hafi ekki farið fram á endurskoðun viðskiptavildarinnar samkvæmt margnefndu samkomulagi, en sú endurskoðun skyldi byggð á því, að frammistaða stefnda og forsendur að öðru leyti gæfu tilefni til endurskoðunar „að bestu manna yfirsýn“. Ákvæði þetta þykir svo óljóst, að það telst ekki girða fyrir það, að stefndi geti borið fyrir sig forsendubrest í máli þessu.
Í fyrstu málsgrein samkomulagsins um viðmið fyrir mati á þróun viðskiptavildar vegna innkomu stefnda í félögin segir, að eigendur staðfesti, að þeirra sameiginlega markmið sé að auka umfang viðskipta félaganna, þannig að eigi síðar en á árinu 2006 hafi tekjur tvöfaldast frá því sem var á árinu 2002. Í 4. mgr. samkomulagsins segir síðan svo: „Hafi ofangreindu viðmiði ekki verið náð að fullu á tímabilinu á ÞVÞ þá tvo kosti; að starfa áfram með skertan hlut í núverandi viðskiptavild félagsins eða að greiða núverandi sameigendum fjárhæð sem svarar til þess hlutfalls sem á vantar tvöföldun tekna af núverandi viðskiptavild skv. viðmiði 3. gr. hluthafasamkomulagsins. Greiðslan fylgir breytingum á veðlagi“ [sic]. Loks segir svo í 5. mgr. samkomulagins: „Ef orsök þess að framangreint markmið um tvöföldun tekna næst ekki verður rakin til verulegra breytinga á forsendum samkomulags þessa eru aðilar sammála um að meta áhrif þess á efni samkomulagsins og endurskoða þá viðmið ef frammistaða ÞVÞ og forsendur að öðru leyti gefa tilefni til að bestu manna yfirsýn“.
Samkvæmt framansögðu var það hluti af samkomulagi aðila, að allir hluthafar skuldbundu sig til að vinna að tvöföldun tekna, enda þótt stefnendur telji, að stefndi hafi einn átt að bera áhættuna af því, að það markmið næðist ekki. Í samningum aðila er reyndar ýmist talað um tvöföldun tekna eða tvöföldun veltu, en markmiðið virðist í raun hafa verið það, samkvæmt gögnum málsins og málatilbúnaði aðila, að tvöfalda viðskiptavildina, sem átti að reikna sem 30% af veltu.
Þegar litið er til útreikninga stefnenda fyrir kröfugerðinni, sem byggjast á ársreikningum félagsins, sýnist engin aukning veltu hafa orðið á tímabilinu, sem um ræðir, þannig að enginn hluthafanna virðist hafa staðið við sinn hlut samkomulagsins, hvað þetta varðar. Þá er og ljóst, að hvorki stefnandinn Hróbjartur né stefnandinn Sveinn gat sinnt umsaminni skyldu sinni við að ná þessu markmiði, eftir að þeir hættu afskiptum af félaginu. Má því fallast á með stefnda, að svo verulegar breytingar hafi orðið á rekstri og rekstrarumhverfi fyrirtækisins við útgöngu stefnandans Hróbjarts, starfslok stefnandans Sveins, og sölu annarra hluthafa á hlutum sínum, að telja megi, að verulegar forsendur hafi brostið fyrir þeim samningum, sem gerðir voru um verðmat á viðskiptavild stefnda, auk þess sem stefnendur lögðu ekki til veltuaukningar í fyrirtækinu fremur en stefndi. Er stefndi því ekki bundinn af þeim ákvæðum, og er kröfum stefnenda um efndabætur því hafnað.
Skaðabótakrafa stefnenda byggist, svo sem að framan greinir, á óréttmætri auðgun stefnda og kostnað stefnenda.
Það liggur fyrir, að aðilar seldu allir hluti sína til SPM. Af gögnum málsins verður ráðið, að stefnendum hafi verið fullkunnugt um sölu stefnda á sínum hlut, án þess að fyrir liggi, að þeir hafi gert ráðstafanir til að stöðva þá sölu á þeim grundvelli, að stefndi ætti ekki hlutina, sem hann seldi. Krafa stefnenda byggist á því, að hlutur viðskiptavildar í söluandvirði hluta stefnda hafi numið samtals kr. 40.883.232. Mun hlutur viðskiptavildar annarra hluthafa verið hinn sami við söluna. Heildarverðmæti viðskiptavildar við sölu fyrirtækisins til SPM nam þannig kr. 163.532.928. Þrátt fyrir það að ársreikningar fyrirtækisins sýni ekki neina veltuaukningu, eins og stefnendur leggja upp með í málatilbúnaði sínum, er ljóst, að verðmæti viðskiptavildar við söluna var margfalt verðmæti viðskiptavildarinnar, eins og hún var, þegar stefnandi gekk inn í félagið. Hafa stefnendur því ekki sýnt fram á, að þeir hafi orðið fyrir tjóni fyrir tilstilli stefnda af þeim sökum að markmiði þeirra um tvöföldun viðskiptavildar hafi ekki verið náð.
Að öllu framangreindu virtu ber að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnenda í máli þessu.
Eftir atvikum þykir rétt, að aðilar beri hver sinn kostnað af málinu.
Sigríður Ólafsdóttir héraðsdómari kvað upp dóminn
D Ó M S O R Ð
Stefndi, Þórarinn V. Þórarinsson, er sýkn af kröfum stefnenda, Hróbjarts Jónatanssonar, Reynis Karlssonar og Sveins Jónatanssonar.
Málskostnaður fellur niður.