Hæstiréttur íslands
Mál nr. 252/2006
Lykilorð
- Kærumál
- Vitni
|
|
Fimmtudaginn 11. maí 2006. |
|
Nr. 252/2006. |
Ákæruvaldið(enginn) gegn X (Helgi Birgisson hrl.) |
Kærumál. Vitni.
Úrskurður héraðsdóms um að ákæruvaldinu væri heimilt að leiða tvö nafngreind vitni í opinberu máli á hendur X var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Jón Steinar Gunnlaugsson og Hjördís Hákonardóttir.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 9. maí 2006, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 10. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 9. maí 2006 um að heimila ákæruvaldinu að leiða tvö nafngreind vitni í máli þess á hendur varnaraðila. Kæruheimild er í c. lið 2. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og að kröfu sóknaraðila um vitnaleiðsluna verði hafnað.
Sóknaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.
Svo sem fram kemur í hinum kærða úrskurði var með dómi Hæstaréttar 4. maí 2006 í máli nr. 223/2006 felld úr gildi ákvörðun sem héraðsdómur hafði tekið um ágreiningsefni málsins 25. apríl 2006, þar sem borið hafi samkvæmt 2. mgr. 61. gr. laga nr. 19/1991 að kveða upp úrskurð. Var þessi úrlausn Hæstaréttar í samræmi við dóma réttarins sem birtir eru á blaðsíðu 3257 í dómasafni 2002 og blaðsíðu 161 í dómasafni 2003.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 9. maí 2006.
Mál þetta var tekið til úrskurðar í dag um þá kröfu ákæruvaldsins að fá að leiða tvö nafngreind vitni við aðalmeðferð málsins, en þeirri kröfu mótmælti verjandi ákærða.
I.
Í máli þessu er ákærða með ákæru útgefinni 22. nóvember 2005 gefin að sök líkamsárás samkvæmt 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 gagnvart kæranda, A. Er ákærði, kærandi og móðir kæranda B höfðu gefið skýrslu við aðalmeðferð málsins, sem hófst þann 25. apríl sl. og komið var að því að taka skýrslur af vitnunum C unnusta kæranda A og Vigdísi Erlendsdóttur sálfræðingi, sem ákæruvaldið hugðist leiða sem vitni í málinu, lagðist verjandi ákærða gegn því og ítrekaði þar með fyrri afstöðu ákærða sem fram hafði komið í símbréfi til dómsins.
Var sakflytjendum gefinn kostur á að tjá sig um ágreining þeirra um vitnaleiðsluna. Að því loknu tók fjölskipaður dómur í málinu ákvörðun um að heimila að þessi tvö vitni yrðu leidd með svofelldri bókun: “Það er mat dómsins að því verði ekki slegið föstu að sönnunarfærsla, sem felst í töku vitnaskýrslu af C, sé sýnilega þarflaus til að upplýsa málið, sbr. 4. mgr. 128. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Þá sér dómurinn ekkert því til fyrirstöðu að Vigdís Erlendsdóttir sálfræðingur komi fyrir dóm sem vitni og gefi skýrslu að því marki sem þýðingu kann að hafa varðandi bótaþátt málsins. Því er heimilað að framangreind vitni gefi skýrslu í málinu.”
Til stuðnings því að leiða ágreining sakflytjenda til lykta með ákvörðun í stað úrskurðar hafði dómurinn til hliðsjónar dóma Hæstaréttar Íslands frá 28. maí 1999 í málinu nr. 202/1999 og frá 2. september 2002 í málinu nr. 300/2002.
Ákærði kærði ofangreinda ákvörðun til Hæstaréttar Íslands sem með dómi 4. maí felldi ákvörðunina úr gildi og lagði fyrir dóminn að kveða upp úrskurð um ágreining málsaðila.
II.
Vitnið C er unnusti kærandans í máli þessu A. Hann gaf skýrslu við lögreglurannsókn málsins og kom þar fram að kærandi hafi skýrt honum frá atvikum. Hann var ekki vitni að hinni ætluðu líkamsárás ákærða. Eins og ráða má af gögnum málsins eru tengsl milli máls þessa og afskipta ákærða af sambandi kæranda A og C. Þykir því ekki unnt að slá því föstu, að sönnunarfærsla, sem felst í töku vitnaskýrslu af C, sé sýnilega þarflaus til að upplýsa málið, sbr. 4. mgr. 128. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Er því heimilað að hann gefi skýrslu í málinu.
Vitnið Vigdís Erlendsdóttir sálfræðingur var ekki vitni að þeim atburði sem mál þetta er sprottið af. Henni var ekki falin sérfræðileg rannsókn að beiðni ákæruvalds á rannsóknarstigi málsins samkvæmt 1. mgr. 70. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála og þá var hún ekki dómkvödd í málinu sem mats- og skoðunarmaður samkvæmt 63. gr. sömu laga. Á hinn bóginn er upplýst að kærandi leitaði í desember árs 2005 til Vigdísar vegna hinnar ætluðu líkamsárásar ákærða og afleiðinga hennar og að kærandi hefur síðan verið í viðtölum hjá henni. Engin gögn liggja fyrir dóminum frá Vigdísi Erlendsdóttur varðandi þau viðtöl og afleiðingar hins ætlaða brots á kæranda. Á hinn bóginn verður þrátt fyrir það ekkert séð því til fyrirstöðu að Vigdís komi fyrir dóminn og gefi skýrslu að því marki sem þýðingu kann að hafa fyrir bótaþátt málsins. Er því heimilað að Vigdís Erlendsdóttir gefi skýrslu í málinu.
Finnbogi H. Alexandersson héraðsdómari kveður úrskurðinn upp.
Úrskurðarorð:
Ákæruvaldinu er heimilað að leiða sem vitni í máli þessu C og Vigdísi Erlendsdóttur.