Hæstiréttur íslands
Mál nr. 516/2006
Lykilorð
- Málefni fatlaðra
- Starfsumsókn
- Stjórnsýsla
|
|
Fimmtudaginn 29. mars 2007. |
|
Nr. 516/2006. |
Hallgrímur Þór Gunnþórsson(Jóhannes Albert Sævarsson hrl.) gegn íslenska ríkinu (Skarphéðinn Þórisson hrl.) |
Málefni fatlaðra. Starfsumsókn. Stjórnsýsla.
H krafðist þess að Í yrði gert að greiða honum skaðabætur og miskabætur þar sem brotið hefði verið gegn 32. gr. laga nr. 59/1992 um málefni fatlaðra við ráðningu í auglýst starf í Héraðsdómi Reykjavíkur. Ekki var talið að mat dómstólsins um að sá umsækjandi sem ráðinn var væri hæfari en H hefði verið ómálefnalegt eða að þau skilyrði sem birtust í auglýsingu um starfið girtu fyrir rétt vinnuveitanda til að velja þann umsækjanda sem hefði meiri menntun en krafist var. H byggði jafnframt á því að röng ályktun um að fötlun hans hefði hreyfihömlun í för með sér hefði ráðið úrslitum um að hann fékk ekki starfið. Talið var að gera yrði ráð fyrir því að H hefði verið krafinn um læknisvottorð um örorku sína hefði umsókn hans verið tekin til nánari skoðunar. H lagði fram í málinu örorkumat lífeyristrygginga þar sem vísað var til læknisvottorðs þar sem fram kom að hann væri óvinnufær og var ályktun tryggingalæknis sú að örorka hans væri 75%. Að því virtu var ekki talið að ályktun sú um hæfni H til starfsins sem vinnuveitandi dró af lýsingu hans á eigin örorku hefði verið röng. Krafa H var jafnframt byggð á lögum nr. 96/2000 um jafna stöðu og jafnan rétt karla og kvenna, en staðhæfingar hans voru taldar ósannaðar enda hafði ekki verið aflað upplýsinga um fjölda starfsmanna og hlutfall kynja hjá dómstólnum. Var Í því sýknað af kröfu H.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Garðar Gíslason.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 29. september 2006 og krefst þess að stefndi greiði sér 1.267.037 krónur með vöxtum samkvæmt II. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 27. nóvember 2002 til 1. ágúst 2005 en dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla sömu laga frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum 215.414 krónum. Hann krefst og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, en til vara að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Svo sem í héraðsdómi greinir reisir áfrýjandi kröfu sína á því að í umsókn sinni um starf það sem auglýst var í Héraðsdómi Reykjavíkur hafi hann getið þess að hann væri 75% öryrki vegna fötlunar í baki. Samkvæmt 32. gr. laga nr. 59/1992 um málefni fatlaðra skuli fatlaðir eiga forgang að atvinnu hjá ríki og sveitarfélagi ef hæfni þeirra til starfsins er meiri eða jöfn hæfni annarra sem um starfið sækja. Veitingarvaldhafi hafi verið krafinn um skriflega greinargerð fyrir ákvörðun sinni um veitingu starfans. Í rökstuðningi dómstólsins komi fram að gert hafi verið ráð fyrir því að örorka áfrýjanda hefði hreyfihömlun í för með sér og að þetta atriði hafi ásamt meiri menntun þess sem ráðinn var ráðið miklu um það að umsókn hans hafi ekki verið sinnt frekar, enda um mjög erilsamt starf að ræða sem krefjist þess að viðkomandi sé snar í snúningum. Með umsókninni hafi hann þó sent meðmæli þar sem fram komi að hann hafi unnið ýmis störf. Umsókn hans hafi því ekki hlotið þá eðlilegu meðferð að hann væri kallaður til viðtals og gefinn kostur á að skýra fötlun sína með tilliti til hæfni í starfi. Röng ályktun um fötlun hans hafi ráðið úrslitum um að hann fékk ekki starfið.
Fram er komið í málinu að af 68 umsækjendum hafi 10 verið kallaðir til viðtals. Gera verður ráð fyrir því að hefði umsókn áfrýjanda verið tekin til nánari skoðunar hefði hann verið krafinn um læknisvottorð vegna örorku sinnar. Áfrýjandi hefur sjálfur lagt fram í málinu örorkumat lífeyristrygginga 4. júlí 2000 frá tryggingalækni við Tryggingastofnun ríkisins, sem gilti frá 1. ágúst 2000 til 1. maí 2004. Annarra læknisfræðilegra gagna um heilsufar áfrýjanda nýtur ekki frá umsóknartíma. Þar er vísað í læknisvottorð Svans Sveinssonar 12. maí 2000 þar sem segi: „ ... að Hallgrímur Þór hafi hryggskekkju og kyfosu. Með árunum hafi hann fengið vaxandi bakverki og lungnastarfsemin hafi versnað. Svanur læknir telur Hallgrím Þór óvinnufæran.“ Ályktun tryggingalæknisins var sú að starfsgeta áfrýjanda virtist ekki hafa aukist og örorka hans væri 75%. Þegar þetta er virt verður að telja að ályktun sú um hæfni áfrýjanda til starfsins sem vinnuveitandi dró af lýsingu hans á eigin örorku hafi ekki verið röng. Með þessari athugasemd og að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur.
Rétt er að hvor aðila beri sinn málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 30. júní 2006.
Mál þetta var þingfest 30. júní 2005 og tekið til dóms 15. júní 2006. Stefnandi er Hallgrímur Þór Gunnþórsson, Snorrabraut 40, Reykjavík en stefndi er íslenska ríkið.
Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 1.267.037 krónur í skaða- og miskabætur auk vaxta samkvæmt II. kafla laga nr. 25/1987 frá 27. nóvember 2002 til 1. júlí 2001, samkvæmt II. kafla laga nr. 38/2001 frá þeim degi til 1. ágúst 2005 en samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags og málskostnað eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.
Stefndi krefst sýknu af öllum dómkröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða málskostnað.
Með úrskurði 3. október 2005 úrskurðaði dómstjórinn í Héraðsdómi Reykjavíkur að allir dómarar við dómstólinn skyldu víkja sæti í málinu og sendi Dómstólaráði málið til meðferðar. Þann 4. október 2005 fól Dómstólaráð undirrituðum dómara hjá Héraðsdómi Reykjaness málið til meðferðar samkvæmt 6. mgr. 15. gr. laga nr. 15/1998 um dómstóla. Þingað var í málinu 22. nóvember 2005 og ákveðið að aðalmeðferð færi fram 2. febrúar 2006. Í því þinghaldi krafðist lögmaður stefnanda þess að dómarinn viki sæti og var leyst úr þeim ágreiningi með úrskurði 13. febrúar 2006 sem gekk til Hæstaréttar, sbr. dóm réttarins 23. mars 2006 í málinu nr. 132/2006.
I.
Málavextir eru þeir að stefnandi sótti um laust starf við afgreiðslu í Héraðsdómi Reykjavíkur sem auglýst var 28. október 2002. Starfið var auglýst með svofelldum hætti á svokölluðu Starfatorgi en þar eru auglýst til umsóknar laus störf hjá ríkinu:
„Héraðsdómur Reykjavíkur óskar eftir að ráða starfsmann í afgreiðslu. Um er að ræða fullt starf við almenna afgreiðslu og upplýsingagjöf í móttöku dómstólsins. Starfið krefst lipurðar í samskiptum og vilja til þess að leysa erindi fljótt og vel.
Laun eru samkvæmt kjarasamningi SFR og fjármálaráðherra.
Umsóknarfrestur er til 18. nóvember n.k.“
Í umsókn sinni, sem dagsett er 28. október 2002, greindi stefnandi frá menntun sinni og fyrri starfsreynslu. Þar kemur meðal annars fram að stefnandi hafi skrifstofutækninám frá Tölvuskóla Reykjavíkur og að hann hafi einnig tekið ýmis námskeið hjá Stjórnunarfélagi Íslands. Hann hafi starfað í 1 ár sem skrifstofumaður hjá Hraðfrystihúsi Grundarfjarðar, annast umboðsafgreiðslu fyrir Eimskip og skipadeild SÍS á Grundarfirði og leyst af sem vaktstjóri hjá Esso. Þá hafi hann verið sjómaður í ein 8 ár og einnig starfað sem undirverktaki við húsaviðgerðir hér heima og á Norðurlöndunum um fjögurra ára skeið. Þá hafi hann búið og starfað erlendis frá 1983 til 1999 við ýmis iðnaðarstörf. Undanfarið hafi hann starfað sem húsvörður fyrir þjónustunefnd Tjarnargötu 20 og umsjónarmaður fyrir samhjálp í Hlaðgerðarkoti. Í umsókn sinni kveðst stefnandi hafa verið metinn til 75% örorku hjá Tryggingastofnun ríkisins vegna fötlunar í baki og minnir í því sambandi á lög um málefni fatlaðra nr. 59/1992 þar sem segir meðal annars í 32. gr. að fatlaðir skulu eiga forgang að atvinnu hjá ríki og sveitarfélögum ef hæfni þeirra til starfsins er meiri eða jöfn hæfni annarra sem um starfið sækja.
Með bréfi Héraðsdóms Reykjavíkur 27. nóvember 2002 var stefnanda tilkynnt að annar umsækjandi hefði verið ráðinn í starfið. Með bréfi 16. desember 2002 óskaði stefnandi eftir rökstuðningi. Í rökstuðningi Héraðsdóms Reykjavíkur 8. janúar 2003 kemur meðal annars fram að umsóknir um stöðuna hafi verið 68 talsins. Guðrún Sigríður Magnúsdóttir hafi verið ráðin í stöðuna en hún hafi stúdentspróf og kennarapróf og sótt ýmis námskeið á sviði kennslumála. Tekið er fram í rökstuðningnum að almenn tölvukunnátta sé út af fyrir sig góð en skipti ekki sköpum í þessu starfi þar sem viðkomandi starfsmaður þurfi aðeins að læra á sérhannað tölvukerfi fyrir dómstólana. Í afgreiðslu héraðsdóms vinni tveir starfsmenn. Annar svari í síma en hinn sinni allri almennri afgreiðslu. Hafi Guðrún verið ráðin í þá stöðu. Það starf sé mjög erilsamt og krefjist þess að viðkomandi sé snar í snúningum auk þess sé nauðsynlegt að fara víða um húsið, svo sem í geymslur og á aðra staði til þess að getað unnið afgreiðslustörfin að fullu. Geymslur hússins séu ekki með sérstöku aðgengi fyrir fatlaða. Þá segir í rökstuðningi að í umsókn stefnanda komi fram að hann sé 75% öryrki vegna fötlunar í baki. Að vísu komi ekki fram í umsókninni hvort örorkan hafi hreyfihömlun í för með sér en gera verði ráð fyrir því. Þetta atriði ásamt því að Guðrún hafi meiri menntun hafi ráðið því að ekki hafi þótt tækt að sinna umsókn stefnanda.
Á fundi Svæðisráðs um málefni fatlaðra í Reykjavík þann 6. janúar 2004 var ákveðið að óska eftir skriflegri greinargerð frá Héraðsdómi Reykjavíkur vegna afgreiðslu atvinnuumsóknar stefnanda. Með bréfi Héraðsdóms Reykjavíkur 20. janúar 2004 var vísað í fyrri rökstuðning dómsins.
Stefnandi kvartaði til Umboðsmanns Alþingis 14. maí 2003 og með bréfi umboðsmanns 9. október 2003 var komist að þeirri niðurstöðu að álitamál gæti verið hvort kvörtun stefnanda gæti fallið undir starfssviðs Umboðsmanns Alþingis. Stefnandi skaut málinu á ný til Umboðsmanns Alþingis með bréfi 15. apríl 2004 en umboðsmaður komst að sömu niðurstöðu og áður með bréfi 26. apríl 2004.
Í málinu hefur verið lagt fram bréf tryggingalæknis hjá Tryggingastofnun ríkisins til stefnanda, dagsett 4. júlí 2000. Segir í bréfinu að fyrir liggi læknisvottorð Svans Sveinssonar frá 12. maí 2000. Síðan segir: „Segir þar að Hallgrímur Þór hafi hryggskekkju og kyfosu. Með árunum hafi hann fengið vaxandi bakverki og lungnastarfsemin hafi versnað. Svanur læknir telur Hallgrím Þór óvinnufæran. Starfsgeta þessa mann virðist ekki hafa aukist. Örorka 75%, frá 01.08.2000 til 31.05.2004. Endurmat fari fram 05.2004.“
Í læknisvottorði Svans Sveinssonar frá 5. nóvember 2004 segir: „Ofangreindur er fæddur með hryggskekkju (kyfoscolisis). Lá í gifsi sem barn. Nokkur óþægindi í baki af þessum sökum. Hefur minna úthald til erfiðari vinnu en jafnaldarar. Á ekki erfitt með gang innanhúss. Er 75% öryrki af þessum sökum.“
II.
Stefnandi byggir á því að samkvæmt starfsauglýsingu Héraðsdóms Reykjavíkur hafi ekki verið krafist annarra starfsskilyrða eða starfshæfni en lipurðar í samskiptum og vilja til þess að leysa erindi fljótt og vel. Telur stefnandi sig uppfylla að öllu leyti þetta skilyrði eins og meðmæli hans sýni. Þetta hefði mátt sannreyna ef stefnandi hefði verið boðaður til atvinnuviðtals eða haft samband við meðmælendur. Ekki hafi verið áskilið í auglýsingunni að krafist væri stúdentsprófs eða kennaraprófs enda erfitt að sjá hvaða nauðsyn beri til slíkrar menntunar í því starfi sem auglýst hafi verið. Þrátt fyrir 75% örorku sé stefnandi ekki bundinn í hjólastól og geti því farið allra sinna ferða um hvaða húsnæði sem er, rétt eins og ófatlaður væri. Því skipti ekki máli þó aðgengi fyrir hjólastóla sé að skornum skammti í húsi Héraðsdóms Reykjavíkur. Fötlun hans sé vegna bakeinkenna, það er hryggskekkju og kyfosu. Stefnandi sé af þeim sökum ófær um að sinna líkamlegri erfiðisvinnu en ekki öðru. Þetta starf hafi hentað honum í alla staði mjög vel og hefði hann ráðið vel við það þrátt fyrir fötlun sína. Héraðsdómur hafi ranglega ályktað að hann væri bundinn hjólastól.
Rök Héraðsdóms Reykjavíkur fyrir því að ráða stefnanda ekki til starfsins séu í andstöðu við ákvæði laga um málefni fatlaðra og einnig í andstöðu við sjálfa auglýsinguna um starfið og þær forsendur sem þar séu gefnar um starfshæfi. Telur stefnandi að sú ákvörðun að hafna umsókn hans feli í sér réttindabrot sem ekki fái staðist og skapi stefnanda bótarétt gagnvart stefnda.
Þetta álitaefni hafi verið borið undir Svæðisráð um málefni fatlaðra í Reykjavík, sbr. 2. málsliður 32. gr. laga um málefni fatlaðra nr. 59/1992 og hafi svæðisráðið talið að brotið hafi verið réttur á stefnanda.
Stefnandi telur einnig að Héraðsdómur Reykjavíkur hafi brotið gegn ákvæðum laga nr. 96/2000 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Meðal almennra starfsmanna Héraðsdóms Reykjavíkur, það er aðrir starfsmenn en dómarar og löglærðir aðstoðarmenn þeirra, séu karlmenn í miklum minnihluta. Úr því kynjamisvægi hefði mátt bæta með ráðningu stefnanda og þá hefði jafnframt verið hægt að uppfylla ákvæði 32. gr. laga um málefni fatlaðra nr. 59/1992.
Ákvæði 32. gr. laga nr. 59/1992 og lög nr. 96/2000 sæki styrk í jafnréttisákvæði stjórnarskrárinnar, sbr. 65. gr. laga nr. 33/1944.
Stefnandi sundurliðar kröfu sína þannig að skaðabótakrafan sé að fjárhæð 1.017.037 krónur ásamt vöxtum og dráttarvöxtum en miskabótakrafan að fjárhæð 250.000 krónur. Krafan taki mið af sex mánaða launum starfsmanns í almennum störfum hjá ríkinu samkvæmt ákvæði 1.3.1., sbr. 1.3.2. í kjarasamningi SFR og ríkisins sem gilt hafi frá 1. mars 2001 til 30. nóvember 2004. Dómvenja sé að miða skaðabætur í vinnurétti við sex mánuði vegna samningsrofs á ráðningarsamningi. Gert sé ráð fyrir að uppsagnarfrestur starfsmanns hjá Héraðsdómi Reykjavíkur sé sex mánuðir. Í kröfugerð sé miðað við að hið bótaskylda tilvik hafi gerst þann 27. nóvember 2002 þegar bréf hafi borist frá skrifstofustjóra Héraðsdóms Reykjavíkur um að umsókn stefnanda hafi verið hafnað. Að öðru leyti vísar stefnandi til kjarasamnings milli SFR, stéttarfélags í almannaþjónustu, og fjármálaráðherra. Um sé að ræða laun starfsmanns í afgreiðslu sem gert sé ráð fyrir að raðist í hæsta þrep og efsta flokk en laun þar hafi numið 146.661 krónu á mánuði frá og með 1. mars 2001 auk 3% kjarasamningsbundinnar hækkunar launa 1. janúar 2002. Þannig nemi mánaðarlaun starfsmannsins 151.060 krónum frá 27. nóvember 2002 auk 10,17% orlofs eða samtals 166.423 krónur. Samtals nemi krafan um laun í sex mánuði því 998.537 krónum. Við bætist desemberuppbót að fjárhæð 18.500 krónur og nemi krafan því samtals 1.017.037 krónum auk miskabóta að fjárhæð 250.000 krónum eða alls 1.267.037 krónum.
Stefnandi vísar til laga nr. 59/1992 um málefni fatlaðra, einkum 32. gr. sbr. 21. gr. og til laga nr. 96/2000 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, sbr. einkum 1. gr., 13. gr. 15. og 28. gr. Þá vísar stefnandi til almennu skaðabótareglunnar og 26. gr. laga nr. 50/1993. Um vexti og dráttarvexti vísar stefnandi til laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu og kröfu sína um málskostnað styður stefnandi við lög nr. 91/1991, einkum 1. mgr. 130. gr. Kröfu um virðisaukaskatt af málskostnaði reisir stefnandi á lögum nr. 58/1988 og bendir á að stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur.
III.
Stefndi byggir á að stefnandi hafi ekki átt lögvarinn rétt umfram aðra umsækjendur til þessa starfs. Stefndi byggir á því að einungis hæfni umsækjanda, það er samanburður á hæfni og reynslu umsækjanda, hafi ráðið því hver hafi verið ráðinn til starfsins. Þá byggir stefndi ennfremur á því að staðið hafi verið málefnalega að ráðningu í umrætt starfs.
Stefndi mótmælir þeirri málsástæðu stefnanda að brotinn hafi verið réttur á stefnanda á grundvelli efnisákvæða 32. gr. laga nr. 59/1992 um málefni fatlaðra. Þetta lagaákvæði kveði ekki á um eiginlegan forgang fatlaðra til starfs hjá hinu opinbera. Hæfni viðkomandi einstaklings til starfs þurfi að minnsta kosti að vera jöfn við hæfni annarra umsækjenda. Hæfni annarra umsækjenda í þessu tilviki hafi verið talin meiri en hæfni stefnanda og því hafi endanlegt mat yfirstjórnar Héraðsdóms Reykjavíkur verið að sá umsækjandi sem ráðinn hafi verið hafi verið hæfastur. Af þessu leiðir að stefnandi geti ekki byggt bótakröfu á grundvelli 32. gr. laga nr. 59/1992. Við mat á hæfni stefnanda verði ekki litið framhjá þeirri staðreynd að stefnandi hafi á þessum tíma verið 75% öryrki vegna fötlunar í baki. Af því hafi mátt með réttu draga þá ályktun að svo mikil örorka geti komið niður á færni hans til að sinna starfinu sem sé erilsamt.
Þá mótmælir stefndi því að jafnstöðulög hafi verið brotin við ráðningu í það starf sem hér sé deilt um. Sú fullyrðing sé ósönnuð og úr lausu lofti gripin. Það sé alkunna að tilgangur þeirra laga sé að rétta hlut kvenna í samfélaginu en ekki öfugt. Þá hafi engin rannsókn heldur farið fram af hálfu kærunefndar jafnréttismála um réttarstöðu stefnanda á grundvelli jafnstöðulaganna eins og lögin geri ráð fyrir.
Hvergi í ákvæðum stjórnsýslulaga nr. 37/1993 séu ákvæði sem kveði á um að vinnuveitandi eða veitingarvald eigi að gefa umsækjendum um starf kost á að sýna fram á hæfni sína enda sé vinnuveitanda ekki skylt að kalla til umsækjendur í viðtöl. Vinnuveitanda sé frjálst að ákveða hvaða aðferðir hann viðhefur við mat á umsóknum svo fremi sem reglur stjórnsýsluréttar séu virtar. Stundum sé hægt að meta umsækjendur á grundvelli upplýsinga þeirra sjálfra. Við þá ráðningu sem hér um ræðir hafi verið valinn hópur umsækjenda til þess að fara í viðtal og af þeim umsækjendum hafi síðan verið valinn einn sem talinn hafi verið hæfastur. Stefndi byggir á því að þessi aðferðarfræði sé eðlileg og í fullu samræmi við stjórnsýslulög enda verði að leggja áherslu á að vinnuveitandi hafi nokkuð svigrúm til að meta umsækjendur út frá forsendum þess starfs sem auglýst sé.
Stefndi mótmælir tölulegum dómkröfum stefnanda í heild sinni sem og vaxtakröfum. Þá er því mótmælt að miða eigi við sex mánaða laun. Samkvæmt ráðningarsamningum hins opinbera, sbr. 42. gr. starfsmannalaga, sé gagnkvæmur uppsagnarfrestur einn mánuður á fyrstu þremur mánuðum í starfi. Eðlilegra hefði verið af hálfu stefnanda að miða kröfugerð við þann grundvöll. Þá sé bótakrafan sett fram á þeim grunni að stefnandi hafi verið tekjulaus á því tímabili sem krafan taki til. Stefnandi hafi engar upplýsingar lagt fram um tekjur sínar á þessu tímabili og sé því mótmælt sérstaklega. Fjártjón stefnanda sé því ósannað. Krafa um miskabætur sé að öllu leyti órökstudd.
IV.
Stefnandi sótti um starf í afgreiðslu Héraðsdóms Reykjavíkur sem auglýst var laust til umsóknar 28. október 2002. Annar var ráðinn úr röðum 68 umsækjenda sem yfirstjórn dómsins taldi hæfari. Stefnandi byggir málsókn þessa annars vegar á 32. gr. laga nr. 59/1992 um málefni fatlaðra sem kveður á um forgang fatlaðra og hins vegar á lögum nr. 96/2000 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla en stefnandi kveður karlmenn í miklum minnihluta í hópi skrifstofufólks hjá Héraðsdómi Reykjavíkur.
Engin rannsókn hefur farið fram af hálfu kærunefndar jafnréttismála um réttarstöðu stefnanda á grundvelli jafnstöðulaganna, sbr. 5. og 6. gr. laga nr. 96/2000. Engin upplýsingaöflun hefur farið fram í tengslum við málið hvað þetta varðar, svo sem um fjölda starfsmanna og hlutföll kynja hjá Héraðsdómi Reykjavíkur. Staðhæfingar stefnanda um þetta efni teljast því ósannaðar og verður því krafa hans á þessum grunni ekki tekin til greina.
Í 32. gr. laga nr. 59/1992 um málefni fatlaðra segir að fatlaðir skuli eiga forgang að atvinnu hjá ríki og sveitarfélagi ef hæfni þeirra til starfsins sé meiri eða jöfn hæfni annarra sem um starfið sækja. Sem áður sagði var það mat yfirstjórnar Héraðsdóms Reykjavíkur að annar umsækjandi en stefnandi væri hæfari til starfsins. Skiptir þar mestu að sá umsækjandi hafði stúdentspróf og kennaramenntun og var hann því kallaður í viðtal ásamt nokkrum öðrum sem þóttu koma til álita. Stefnandi var ekki á meðal þeirra en samkvæmt umsókn hans hefur hann lokið grunnskólaprófi og skrifstofutækninámi hjá Tölvuskóla Reykjavíkur auk ýmissa námskeiða á sviði tölvunotkunar. Það var mat yfirstjórnar Héraðsdóms Reykjavíkur að sá umsækjandi, sem ráðinn var, væri hæfari en stefnandi og var það grunnmenntun hans sem skipaði honum framar stefnanda um ákvörðun um ráðningu. Ekki liggur annað fyrir í málinu en að það hafi fyrst og fremst verið þessi samanburður á hæfni og reynslu umsækjanda sem réði því hver hlaut starfið. Stefnandi hefur ekki sýnt fram á að þetta mat hafi verið ómálefnalegt.
Því er haldið fram af hálfu stefnanda að ekki hafi verið krafist annars í auglýsingu en lipurðar í samskiptum og vilja til þess að leysa erindi fljótt og vel. Þess vegna hafi menntun þess sem ráðinn var ekki átt að skipta sköpum varðandi mat á umsækjendum. Ekki verður fallist á þessi sjónarmið stefnanda og verður talið að þau skilyrði sem birtast í atvinnuauglýsingu girði ekki fyrir þann rétt vinnuveitanda að velja þann umsækjanda sem hefur meiri menntun, umfram það sem krafist er, ef margir sækja um starfið.
Stefnandi tók fram í umsókn sinni að hann væri 75% öryrki vegna fötlunar í baki. Svo mikil örorka gefur til kynna að viðkomandi sé að einhverju leyti hreyfihamlaður eða með skertan líkamsstyrk. Héraðsdómi Reykjavíkur var því rétt að álykta að svo væri, fyrst annað var ekki tekið fram í umsókn stefnanda, og gera ráð fyrir að fötlun stefnanda kæmi niður á færni hans til að sinna starfinu sem er talið erilsamt.
Þá verður einnig fallist á með stefnda að vinnuveitanda sé frjálst að ákveða hvaða aðferð hann viðhefur við mat á atvinnuumsóknum svo fremur sem reglur stjórnsýsluréttar séu virtar. Héraðsdómi Reykjavíkur var því ekki skylt að kalla stefnanda til viðtals, eins og stefnandi heldur fram, heldur mátti meta umsækjendur á grundvelli upplýsinga þeirra sjálfra enda verður að játa vinnuveitanda nokkuð svigrúm til að meta umsækjendur út frá forsendum þess starfs sem auglýst er.
Samkvæmt öllu framansögðu verður stefndi sýknaður af kröfum stefnanda í málinu. Rétt þykir að málskostnaður falli niður milli aðila. Gjafsóknarkostnaður stefnanda sem að mati dómsins þykir hæfilega ákveðinn 250.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, greiðist úr ríkissjóði.
Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
DÓMSORÐ:
Stefndi, íslenska ríkið, er sýkn af kröfum stefnanda, Hallgríms Þórs Gunnþórssonar, í málinu.
Gjafsóknarkostnaður stefnanda, þar með talin þóknun lögmanns stefnanda, Jóhannesar Alberts Sævarssonar hrl., 250.000, krónur greiðist úr ríkissjóði.