Hæstiréttur íslands

Mál nr. 52/2010


Lykilorð

  • Markaðsmisnotkun
  • Verðbréfasjóður
  • Aðfinnslur


Fimmtudaginn 24. mars 2011.

Nr. 52/2010.

Ákæruvaldið

(Hulda María Stefánsdóttir settur saksóknari)

gegn

Daníel Þórðarsyni og

(Jakob R. Möller hrl.)

Stefni Agnarssyni

(Jóhannes Karl Sveinsson hrl.)

Markaðsmisnotkun. Verðbréfasjóðir. Aðfinnslur.

D og S voru sakfelldir fyrir markaðsmisnotkun með því að hafa á tímabilinu 25. janúar 2008 til 22. febrúar 2008, í sex tilvikum, lagt fram kauptilboð í tiltekin skuldabréf í þeim tilgangi að hafa áhrif á dagslokaverð bréfanna og gefa þannig misvísandi til kynna eftirspurn eftir slíkum bréfum og verð þeirra. Var háttsemi þeirra talin varða við a. lið 1. töluliðar 1. mgr. 117. gr. laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti. Refsing hvors ákærða var ákveðin fangelsi í 6 mánuði. Í dómi Hæstaréttar var fundið að drætti á rekstri málsins og því að ríkissaksóknari hefði ekki haft samráð við verjendur ákærðu við gerð málsgagna sem þóttu umfangsmeiri en tilefni var til. 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 26. janúar 2010 í samræmi við yfirlýsingar ákærðu um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er krafist staðfestingar á sakfellingu ákærðu, en þyngingar á refsingu þeirra. 

Ákærði Daníel Þórðarson krefst aðallega sýknu, en til vara að refsing verði milduð.

Ákærði Stefnir Agnarsson krefst aðallega sýknu, til vara að sér verði ekki gerð refsing en að því frágengnu verði hún milduð.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest niðurstaða hans um sakfellingu ákærðu.

Við ákvörðun refsingar er til þess að líta að ljóst er af gögnum málsins að háttsemi ákærðu var til þess fallin að hafa áhrif á opinbert dagslokaverð í kauphöllinni á skuldabréfum Exista hf. í 2. flokki 2007. Eins og málið liggur fyrir er á hinn bóginn ósannað að þessi háttsemi hafi valdið hækkun á gengi hlutdeildarskírteina í peningamarkaðssjóði hjá Rekstrarfélagi Kaupþings banka hf., sem ákærði Daníel stýrði ásamt öðrum. Að þessu athuguðu en öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms er refsing hvors ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 6 mánuði.

Að því verður að gæta að áfrýjunarstefna var sem áður segir gefin út 26. janúar 2010, en fram er komið að Héraðsdómur Reykjavíkur sendi 8. júní sama ár dómsgerðir í málinu til ríkissaksóknara, sem afhenti ekki Hæstarétti málsgögn fyrr en 26. nóvember 2010. Þessi dráttur er aðfinnsluverður og brýtur í bága við 1. mgr. 171. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, sbr. 210. gr. sömu laga og 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar.  Þrátt fyrir þennan drátt á rekstri málsins eru ekki efni til að skilorðsbinda refsingu ákærðu.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað verða staðfest.

Samkvæmt 2. mgr. 202. gr. laga nr. 88/2008 skal ríkissaksóknari, þegar honum hafa borist dómsgerðir frá héraðsdómi og ákærða hefur verið skipaður verjandi fyrir Hæstarétti, búa til málsgögn í samráði við verjanda, en til þeirra teljast afrit þeirra málskjala og endurrit sem aðilarnir telja þörf á við úrlausn málsins eins og áfrýjun er háttað. Óumdeilt er að í máli þessu var ekki sinnt þeirri skyldu að hafa samráð við verjendur ákærðu um gerð málsgagna, en þau eru á áttunda hundrað blaðsíður og er þeim að verulegu leyti ofaukið. Að þessu gættu verða ákærðu ekki dæmdir til að greiða nema þriðjung af kostnaði vegna málsgagna fyrir Hæstarétti, en tveir þriðju hlutar hans skulu greiðast úr ríkissjóði. Að auki verða ákærðu dæmdir til að greiða málsvarnarlaun verjenda sinna, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Ákærðu, Daníel Þórðarson og Stefnir Agnarsson, sæti hvor um sig fangelsi í 6 mánuði.

Ákvæði hins áfrýjaða dóms um sakarkostnað skulu vera óröskuð.

Ákærðu greiði hvor fyrir sig 627.500 krónur vegna málsvarnarlauna skipaðra verjenda sinna, hæstaréttarlögmannanna Jakobs R. Möller og Jóhannesar Karls Sveinssonar, en í sameiningu 29.787 krónur af öðrum áfrýjunarkostnaði málsins. Að öðru leyti greiðist hann úr ríkissjóði.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 9. desember 2009.

Málið er höfðað með ákæru útgefinni af ríkislögreglustjóra 13. febrúar 2009 á hendur:

,,Daníel Þórðarsyni, kt. 070275-5709,

Flétturima 2, Reykjavík og

Stefni Agnarssyni, kt. 301081-3409,

Daltúni 38, Kópavogi,

fyrir markaðsmisnotkun, ákærði Daníel í starfi sínu sem sjóðsstjóri peningamarkaðssjóðs hjá Rekstrarfélagi Kaupþings banka hf. og ákærði Stefnir í starfi sínu sem miðlari í skuldabréfamiðlun Kaupþings banka hf., með því að hafa í sameiningu, í sex tilvikum, á tímabilinu frá 25. janúar til 22. febrúar 2008, sett inn kauptilboð í skuldabréfaflokk Exista 07 2, í Kauphöll Íslands, við lokun markaðar, í öllum tilvikum að fjárhæð kr. 5.000.000, sem viku verulega, til hækkunar, frá þeim kauptilboðum sem voru fyrirliggjandi í viðskiptakerfinu þegar þau voru sett inn, í þeim tilgangi að hafa áhrif á dagslokaverð bréfanna og gefa þannig eftirspurn eftir slíkum bréfum og verð þeirra misvísandi til kynna.

Telst þetta varða við 1. tölulið 1. mgr. 117. gr. sbr. 146. gr. laga um verðbréfaviðskipti nr. 108/2007.

Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“

Verjandi ákærða Daníels krefst aðallega sýknu en til vara vægustu refsingar sem lög leyfa og að refsing, ef dæmd verður, verði skilorðsbundin. Þess er krafist að sakarkostnaður, þ.m.t. málsvarnarlaun, verði greiddur úr ríkissjóði en til vara að ríkissjóði verði gert að greiða hluta sakarkostnaðar að mati dómsins.

Verjandi ákærða Stefnis krefst aðallega sýknu en til vara að refsing ákærða Stefnis verði felld niður að öllu leyti en til þrautarvara að dæmd verði vægasta refsing sem lög leyfa. Þess er krafist að sakarkostnaður, þ.m.t. málsvarnarlaun, verði greiddur úr ríkissjóði. Til vara er þess krafist að sakarkostnaði verði skipt og hann felldur að hluta á ríkissjóð.

Upphaf máls þessa má rekja til bréfs Kauphallar Íslands til Fjármálaeftirlitsins en bréfið er dagsett 4. mars 2008. Bréfið er svohljóðandi: ,,Málavextir eru þeir að miðlari Kaupþings banka hf. Stefnir Agnarsson (auðkenni: STEAGN) hefur á tímabilinu 25. janúar - 22. febrúar 2008 í sex tilfellum, rétt fyrir lokun markaðar, sett inn kauptilboð í tilboðabókina sem vék talsvert frá fyrirliggjandi kauptilboðum á þeirri stundu sem tilboðið var sett inn í viðskiptakerfið. Eins og fyrr greinir voru kauptilboðin sett inn í viðskiptakerfið örfáum mínútum fyrir lokun markaðar og féllu þau út þegar viðskiptadegi lauk. Í næst seinasta tilvikinu var gengið á kauptilboð miðlarans og urðu því viðskipti úr. Í síðasta tilvikinu var kauptilboðið sett inn á síðustu mínútu samfelldra viðskipta en engu að síður var gengið á tilboðið og urðu þá viðskipti. Við nánari athugun Kauphallarinnar kom í ljós að augljós verðmunur var á þeim tilboðum sem sett voru inn við lok viðskiptadags og þeim tilboðum sem fyrir voru í viðskiptakerfinu. Þar að auki má geta þess að fyrirliggjandi kauptilboð STEAGN í skulda­bréfa­flokkinn hljómuðu flest upp á 50.000.000 bréfa, en fyrrgreind tilboð sem sett voru inn á hærra verði hljómuðu einungis upp á 5.000.000 bréfa. Eftirfarandi tafla sýnir þau kauptilboð sem miðlarinn setti inn í lok viðskiptadags og verðbreytinguna frá síðasta tilboði í tilboðaskránni.

Dags

Tilboðsbók

Tími

Miðlari

Verð

Verð síðasta tilboð            Buy/Sell

Magn (fjöldi bréfa)

Verðbr.

25.1.2008

EXISTA 07 2

17:19

STEAGN

98,98

      95,8              B

5.000.000,00

3,32%

14.2.2008

EXISTA 07 2

17:21

STEAGN

99,95

      95,2              B

5.000.000,00

4,99%

15.2.2008

EXISTA 07 2

17:21

STEAGN

99,95

      95,23            B

5.000.000,00

4,96%

18.2.1008

EXISTA 07 2

17:20

STEAGN

99,96

      95,23            B

5.000.000,00

4,97%

19.2.2008

EXISTA 07 2

17:20

STEAGN

99,95

      95,26            B

5.000.000,00

4,92%

22.2.2008

EXISTA 07 2

17:22

STEAGN

99,38

      95,29            B

5.000.000,00

4,29%

Þegar litið er til þess hversu mikill verðmunur er á þeim tilboðum sem miðlarinn setti inn í lok ofangreindra viðskiptadaga og þeim tilboðum sem fyrir voru í tilboðaskránni, hversu skamman tíma tilboðin voru inni í viðskiptakerfinu og hversu lítið magn var um að ræða í samanburði við önnur tilboð miðlarans, þá telur Kauphöllin ástæðu vera til að kanna nánar hvort miðlari Kaupþings, með auðkennið STEGAN hafi farið að lögum við gerð fyrrgreindra tilboða. Nánar tiltekið telur Kauphöllin vert að taka til skoðunar hvort umrædd kauptilboð hafi verið sett inn í lok viðskiptadags í þeim tilgangi að hækka verð skuldabréfanna og hvort að miðlarinn hafi með fyrrgreindri háttsemi sinni brotið gegn 1. mgr. 117. gr. laga um verðbréfaviðskipti nr. 108/2007

Kauphöllin hefur enga vissu fyrir því að brot hafi átt sér stað en telur málið vera þess eðlis að Fjármálaeftirlitið skuli upplýst um það og taki það til frekari meðferðar. Þar sem leiða má líkur að því að umrædd viðskipti feli í sér brot á ákvæðum laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti telur Kauphöllin sér skylt að upplýsa Fjármálaeftirlitið um málið í samræmi við 2. mgr. 21. gr. laga nr. 110/2007 um kauphallir.“

Með bréfi, dagsettu 10. mars 2008, óskaði Fjármálaeftirlitið eftir tilteknum upplýsingum frá Kaupþingi banka hf. vegna viðskiptanna sem að ofan greinir.

Með bréfi Kaupþings banka, dagsettu 18. mars 2008, svaraði bankinn Fjármálaeftirlitinu. Í bréfi bankans segir m.a.: ,,Bankinn hefur lokið frumathugun á málinu og lítur það alvarlegum augum. Bankinn óskar þess að Fjármálaeftirlitið taki málið til efnislegrar skoðunar innan stjórnsýslunnar, í ljósi þeirrar sérþekkingar sem Fjármálaeftirlitið hefur á þessu sviði. Rétt er að geta þess að báðir starfsmennirnir hafa verið leystir frá störfum.

Af hálfu bankans hefur verið rætt við þá starfsmenn sem að málinu komu. Í máli þeirra hafa komið fram þær skýringar að markmið athafna þeirra hafi verið að koma í veg fyrir óeðlilega og skyndilega lækkun á verðmati peningamarkaðssjóðsins. Um er að ræða skuldabréfaflokk þar sem viðskipti hafa verið mjög stopul enda kaupendur skuldabréfanna yfirleitt stórir fjárfestar sem gera ekki ráð fyrir að selja bréfin fyrir gjalddaga þeirra. Verðmyndun er því afar ógagnsæ og tiltölulega lítil viðskipti með skuldabréf í flokknum hafi mikil áhrif á verð bréfanna og þar með verðmat þeirra í sjóðnum. Verðlækkun skuldabréfanna og áhrif þeirra á verðmæti sjóðsins hafi getað leitt til innlausna á sjóðnum til viðbótar við þær innlausnir sem þegar höfðu átt sér stað í kjölfar lækkunar sem varð í byrjun ársins. Það hefði haft í för, með tilheyrandi eignasölu sem hefði haft ófyrirséðar afleiðingar fyrir markaðinn og sjóðsfélaga, í því viðkvæma ástandi sem var ríkjandi á þessum tímapunkti.

Rök starfsmannanna eiga að vissu leyti nokkurn samhljóm með sjónarmiðum laga og reglna um verðjöfnun (e. stabilization). Þótt slík ákvæði eigi vissulega ekki við með beinum hætti í máli þessu, byggja þau á þeim grunni að athafnir sem að öllu jöfnu myndu teljast ólögmætar geti við tilteknar aðstæður fallið innan ramma laga. Þá er rétt að ítreka að hvorugur starfsmannanna hafði persónulegan ávinning af þessari háttsemi og engin leynd var viðhöfð í málinu.  Starfsmennirnir hafa báðir lýst yfir fullum áhuga á að hitta Fjármálaeftirlitið til að fara yfir atvik málsins.

  Með bréfi, dagsettu 8. maí 2008, sendi Fjármálaeftirlitið kæru til lögreglu vegna háttseminnar sem í ákæru greinir. Í inngangskafla kærunnar segir meðal annars: ,,Með vísan til 148. gr. laga um verðbréfaviðskipti nr. 108/2007 (vvl.) vísar Fjármálaeftirlitið hér með máli Stefáns Agnarssonar, miðlara í skuldabréfamiðlun Kaupþings banka hf., og Daníels Þórðarsonar, sjóðsstjóra peningamarkaðssjóðs hjá Rekstrarfélagi Kaupþings banka hf., til lögreglu vegna meintra brota á a – lið, 1. tl., 1. mgr. 117. gr. vvl. um markaðsmisnotkun.“

Teknar voru skýrslur af ákærðu hjá lögreglunni 19. nóvember 2008 og 29. janúar 2009 og verður sá framburður þeirra að hluta rakinn samhliða reifun framburðar þeirra fyrir dómi.

Nú verður rakinn framburður ákærðu fyrir dómi og vitnisburður.

Ákærði Daníel neitar sök. Hann kvaðst hafa verið varasjóðsstjóri peningamarkaðssjóðs hjá Rekstrafélagi Kaupþings banka hf. á þeim tíma sem í ákæru greinir og hann hafi lokið prófi í verðbréfaviðskiptum. Hann kvaðst í einhverju tilvikanna sem í ákæru greinir hafa hringt í meðákærða og þeir rætt saman um að setja inn kauptilboð í skuldabréfaflokk EXISTA 07 2, á ákveðnu gengi. Vísaði ákærði í þessu sambandi til símtala milli ákærðu, en þau voru hljóðrituð og liggja fyrir meðal gagna málsins en vikið verður að símtölunum síðar. Ákærði kvað þannig ýmist hafi hann hringt í meðákærða og beðið hann um að setja inn kauptilboð eða að meðákærði hafi hringt og spurt hvort hann vildi setja inn kauptilboð. Aðspurður hvort ákærðu hefðu sett inn öll sex kauptilboðin í sameiningu, eins og ákært er fyrir, kvað ákærði þá meðákærða hafa hringst á eins og lýst var og þeir rætt álagið á bréfin. Ákærði hefði hins vegar hringt fyrst og spurt hvað væri að gerast varðandi skuldabréfin sem hér um ræðir. Þá hafi ákærði spurt hvort eitthvað væri hægt að gera í þessu en hann hafi talið verð skuldabréfaflokksins óeðlilegt. Aðspurður um skýringar á því hvers vegna kauptilboðin sem í ákæru greinir hafi vikið ,,verulega til hækkunar frá þeim kauptilboðum sem voru fyrirliggjandi í viðskiptakerfinu“, eins og lýst  er í ákærunni, kvaðst ákærði telja að fyrirliggjandi tilboð hafi ekki endilega gefið til kynna rétt verð á skuldabréfunum í skuldabréfaflokknum sem hér um ræðir. Kauptilboðin sem ákærði setti inn hafi verið í samræmi við það sem ákærði kvaðst hafa talið rétt verð og í samræmi við mat verðmatsnefndar bankans sem verð á bréfunum. Ákærði kvað skuldabréfaálagið sem sett var á þessi skuldabréf hafa verið í samræmi við mat verðmatsnefndar Kaupþings banka. Auk þessa hafi þetta verið í samræmi við aðra skuldabréfaflokka EXISTA á þessum tíma. Ákærði kvaðst þannig ekki geta séð að kauptilboðin sem fyrirliggjandi voru í viðskiptakerfinu hafi getað verið þau einu réttu varðandi verð og hafnaði ákærði þeirri lýsingu ákærunnar að tilboðin sex sem í ákæru greinir hafi vikið verulega til hækkunar frá kauptilboðum sem voru fyrirliggjandi í viðskiptakerfinu. Ákærði skýrði þetta álit sitt.

Ákærði neitaði niðurlagi ákærunnar um að tilgangurinn með háttseminni sem í ákæru greinir hafi verið sá að hafa áhrif á dagslokaverð og gefa þannig eftirspurn eftir slíkum bréfum og verð þeirra misvísandi til kynna. Hann kvaðst ekki skilja hvernig háttsemin sem í ákæru greinir hafi átt að geta haft áhrif á eftirspurn eins og í ákæru greinir.

Eins og rakið var voru kauptilboðin sem hér um ræðir í öll skiptin sett inn við lokun markaðar. Þá kemur fram í hinum hljóðrituðu samtölum ákærðu að það hafi verið brýnt að kauptilboðin yrðu sett inn í lok dags. Aðspurður hvort þetta gæfi ekki vísbendingu um það að fyrir ákærðu hafi vakað að hafa áhrif á dagslokaverð bréfanna, eins og ákært er fyrir, kvað ákærði svo ekki vera. Kauptilboð hefði getað myndað dagslokaverð hvenær dags sem þau væru sett inn. Ákærði kvaðst einnig með kauptilboðunum hafa verið að kanna hvort einhver ,,virkni“ væri með bréfin og að setja kauptilboðin inn í lok dags hafi verið hluti af þessu. Ákærði lýsti því að kauptilboðin hafi ekki verið nein ,,gervitilboð“ og hann hefði keypt skuldabréf í tveimur síðustu tilvikunum.

Í skýrslutöku af ákærða Daníel hjá lögreglunni 19. nóvember 2008 er svofelldur kafli: ,,Ég vildi síður taka meira af þessum bréfum og þess vegna vildi ég síður að það yrði gengið að þessum tilboðum en ég varð því að vera tilbúinn að kaupa.“

Aðspurður hvort ástæða þess að kauptilboðin voru öll sett við lokun markaðar hafi verið sú að ákærði hafi vonast til að tilboðunum yrði ekki tekið kvaðst ákærði hafa verið reiðubúinn að kaupa fyrir fimm eða tíu milljónir sem hafi verið lágar fjárhæðir samanborið við þá rúmu fjóra milljarða EXISTA 07 2, skuldabréfa sem voru í peningamarkaðssjóðnum.

Við skýrslutöku af ákærða Daníel hjá lögreglunni 19. nóvember 2008 er svofelldur kafli: ,,Við Stefnir klárlega settum inn þessi tilboð. Við gerðum þetta til þess að koma í veg fyrir ákveðna atburði sem voru að gerast með peningamarkaðssjóðinn. Það urðu viðskipti þarna skömmu áður sem urðu til þess að gengi bréfanna lækkaði verulega. Við áttum 4 milljarða í bréfum í EXISTA 07 2 og við sáum fram á að það mundi lækka gengi þessara bréfa. Lækkun var um c.a. 0,27% í ávöxtun fyrir sjóðinn. Á þessum tíma voru 65 milljarðar í sjóðnum. Það hefði þýtt að verðmæti sjóðsins mundi lækka um c.a. 175 milljónir.“ Síðar í sömu skýrslu er svofelldur kafli: ,,Haustið 2007 fóru að verða erfiðleikar með Peningamarkaðssjóð Kaupþings og við óttuðumst að geta ekki mætt innlausnum.“ Ákærði skýrði þetta nánar í skýrslunni og að í janúar 2008 hafi verið 65 miljarðar króna í sjóðnum. 

Í lögregluskýrslunni er svofelldur kafli: ,,Það var mikil pressa á okkur frá viðskiptavinum í byrjun árs 2008.  Við höfðum því miklar áhyggjur þegar við sáum að gengi fór að lækka í bréfum EXISTA 07 2. Þetta er ástæðan fyrir því að við fórum að reyna að hafa áhrif á gengi bréfa EXISTA 07 2 með því að setja inn tilboð.“

 Síðar í sömu lögregluskýrslu er svofelldur kafli: ,,Við ætluðum ekki að hafa áhrif á markaðsverðið þ.e. það verð sem menn geta keypt og selt þessi bréf á. Tilboðið átti að hafa áhrif á skráð gengi lokagengi dagsins og hafa áhrif á gengi bréfanna í peningamarkaðssjóðnum. Við vorum að reyna að viðhalda stöðugleika á gengi bréfanna. Ég sagði við Stefni að ég væri tilbúinn til að kaupa þessi bréf ef það kæmi tilboð en ég vildi síður bæta við bréfum í EXISTA 07 2. Ég ítreka það að við vorum að vonast til að geta losnað við þessi bréf út úr sjóðnum.“

                Fyrir dómi var ákærði spurður um þessa kafla úr lögregluskýrslunni. Kvaðst ákærði hafa sett inn kauptilboð sem hann taldi eðlileg. Hann kvað Kaupþing hafa gert samning við EXISTA um viðskiptavaka með þessi skuldabréf og skýrði ákærði það nánar. Hann kvað verðmyndun hafa verið eðlilega meðan viðskiptavakanum var sinnt. Eftir að samningurinn um viðskiptavakann hafi verið brotinn og látið var af  viðskiptavakanum hafi kauptilboð í þessi skuldabréf tekið að lækka. Verð á bréfum í EXISTA 07 2, eftir þetta, hafi verið í ósamræmi við verðin sem voru meðan viðskiptavakinn var virkur, að sögn ákærða sem kvaðst þannig ekki hafa haft annan kost en að gera þau kauptilboð sem í ákæru greinir eftir að samningurinn um viðskiptavakann var brotinn eins og ákærði bar. Aðspurður hvort ákærði hafi, á þeim tíma sem hér um ræðir, haft áhyggjur af því að verð skuldabréfanna í EXISTA 07 2, færi lækkandi kvaðst ákærði telja verðlagningu skuldabréfanna ,,út úr korti“ þar sem viðskiptavakasamningurinn hafi verið brotinn og aðeins hafi verið send inn kauptilboð en engin sölutilboð og skýrði ákærði áhrif þessa. Þetta kvað ákærði ,,markaðsbrest“ og skýrði hann það álit sitt. Ákærði taldi að hann hefði rætt við aðilana sem sinna áttu viðskiptavakanum á þessum tíma og greint þeim frá því að sér fyndist það sem væri að gerast afar óheppilegt. Ákærði vissi ekki hvernig á því stóð að viðskiptavakinn féll niður. Hann skýrði hverjir væru helstu kaupendur skuldabréfa eins og þeirra sem hér um ræðir og hversu viðskipti með þessi skuldabréf voru fátíð. Þá skýrði ákærði álag sem reiknað er á skuldabréf sem þessi. Ákærði kvaðst hafa rætt kauptilboðin sem hér um ræðir við Þorkel Magnússon, yfirmann sinn hjá bankanum. Hann kvað aldrei hafa hvarflað að sér að háttsemin kynni að vera markaðsmisnotkun.

Ákærði var spurður hvort hann hefði á þessum tíma óttast að verð á skuldabréfum í EXISTA 07 2, hefði farið lækkandi á markaðnum og að ákærði hefði með háttsemi sinni reynt að koma í veg fyrir lækkun bréfanna. Hann kvað svo ekki vera. Verð á þessum skuldabréfaflokki hafi verið að ,,hrynja“ af ástæðum sem ákærði hafi talið mjög óeðlilegar. Ákveðinn markaðsbrestur hafi orðið og vísaði ákærði þá enn til þess að samningurinn um viðskiptavakann hafi ekki verið efndur og viðbrögð ákærða hafi verið þau sem hér um ræðir. Hann hafi reynt að finna rétt verð á markaðnum. Hann nefndi að síðar á árinu 2008 hafi verð á þessum bréfum orðið hærri en á þeim tíma sem viðskiptavakinn hafi ekki verið efndur.

Ákærði neitaði því að með kauptilboðunum sem í ákæru greinir hafi verið búið til verð á skuldabréfin. Í hljóðrituðu símtali milli ákærðu 25. janúar 2008, sem er fyrsta hljóðritaða samtal þeirra, kemur fram að ákærði Daníel spyr meðákærða um það hvort kauptilboðið sem rætt var um væri ,,markaðsmyndandi“ fyrir verð á skuldabréfum sem hér um ræðir. Meðákærði Stefnir svaraði því þannig ,,Já ætli það ekki hreinlega bara.“

Ákærði Daníel var fyrir dóminum spurður um það hvort ákærðu hefðu verið ljós hugsanleg áhrif háttsemi þeirra sem hér um ræðir. Ákærði kvað svo ekki hafa verið og hann hefði efasemdir um að háttsemin væri ,,markaðsmyndandi“ á verð eða eftirspurn. Ákærðu hefðu hins vegar rætt möguleika þessa. Ákærði taldi markaðinn sem hér um ræðir ekki hafa verið skipulegan markað og skýrði hann það álit sitt einkum út frá því sem rakið var, að viðskiptavakinn hafi ekki verið virkur. Ákærði var spurður nánar um það hvernig hann hafi litið á kauptilboðin sem í ákæru greinir ef hann hafi ekki litið á markaðinn sem skipulegan. Kvað hann markaðinn í vissum skilningi hafa verið skipulegan, en hann hafi ekki verið skilvirkur og framboð og eftirspurn hafi ekki verið eðlilegt og átti hann einkum við það að viðskiptavakinn hafi ekki verið virkur eins og ítrekað hefur verið lýst að framan.

Í framangreindri lögregluskýrslu af ákærða Daníel er svofelldur kafli: ,,Ætlunin var að hafa áhrif á verð sjóðsins og dagslokaverð bréfanna. Ég bar hagsmuni sjóðsfélaga minna fyrir brjósti. Ég held að þetta hafi ekki haft áhrif á neina aðra vegna þess að það voru svo lítil viðskipti með þessi bréf. Ég tel að það sé enginn að færa verðsveiflur af þessu tagi inn í sjóðina sína, eins og sjá má ef gengisrunur peningamarkaðssjóða eru skoðaðar.“ Síðar í sömu lögregluskýrslu segir ákærði: ,,Ég tel að við höfum haft áhrif í nokkra daga, með því að setja inn þessi tilboð, að gengi á bréfum í skuldabréfaflokki 07 2 í EXISTA að gengi bréfanna lækkaði ekki.“

Aðspurður í þessu samhengi hvort ákærði hafi með háttsemi sinni verið að reyna að hafa áhrif á dagslokaverð bréfanna og að búa til verð á bréfunum kvaðst hann hafa verið að reyna að finna verð sem hann hafi talið eðlileg á bréfunum og þá ,,í samræmi við allt annað á markaðnum“. Hann kvaðst ekki hafa haft aðra möguleika þar sem forsendur markaðarins hafi verið brostnar og vísaði hann þá enn til þess að viðskiptavakinn hafi ekki verið virkur. Hann kvað þá meðákærða hafa rætt sín á milli um álag sem sett skyldi á þessi skuldabréf ef tilboðin yrðu send inn.

Ákærði Daníel kvað peningamarkaðssjóðinn sem í ákæru greinir hafa verið um 65 til 70 milljarða króna á þeim tíma sem hér um ræðir. Hann kvaðst þó ekki viss um þetta. Hlutur skuldabréfanna í EXISTA 07 2 hafi verið um 4,2 milljarðar króna.

Ákærði Daníel var spurður um efni símtals milli ákærðu frá 14. febrúar 2008. Meðákærði Stefnir spyr ákærða hvort hann sé reiðubúinn að kaupa ef tilboði verði tekið. Þá segir ákærði Daníel ,,Já ja já við þurfum bara að passa að þetta gerist þannig að það taki enginn eftir því.“  Meðákærði Stefnir svarar að þetta gerist alveg í lokin.

Ákærði var spurður fyrir dóminum um það hvað það væri sem þyrfti að passa að enginn tæki eftir eins og fram kom í tilvitnuðu símtali. Hann kvaðst vísa til fyrra svars varðandi það hvers vegna kauptilboðin voru sett inn í lok dags. Hann kvaðst ekki hafa verið að reyna að leyna neinu. Hann var spurður hvort þetta hefði verið gert á þann hátt sem raunin var í þeirri von að enginn tæki eftir kauptilboðinu í lok dags og ákærði þyrfti þá ekki að kaupa skuldabréf í EXISTA 07 2. Ákærði kvaðst hafa verið reiðubúinn að kaupa á því verði sem tilboðin kveða á um óháð því hvenær dagsins væri.

Síðar í sama símtali nefnir ákærði Daníel við meðákærða að setja inn nýtt kauptilboð rétt fyrir lokun og að það kauptilboð sé rétt fyrir ofan 50 milljón króna kauptilboðin í sama skuldabréfaflokk sem meðákærði hafi sett inn sama dag. Spurður um þetta endurtók hann fyrra svar sitt varðandi það að engu hefði skipt hvenær dagsins þetta kauptilboð var sett inn. Hann hefði verið reiðubúinn að kaupa bréf á verðinu sem sett var fram.

Í hljóðrituðu símtali milli ákærðu frá 15. febrúar 2008, spyr meðákærði ákærða hvort hann vilji ,,leika sama leikinn og í gær“. Ákærði svarar: ,,hvað vorum við að gera þá, já heyrðu það er nauðsynlegt til að þetta haldist.“ 

Aðspurður hvað hann ætti við með því að eitthvað haldist kvaðst ákærði hafa átt við það að hann hafi verið reiðubúinn að setja inn tilboð á verðum sem hann taldi vera rétt. Í sama símtali kemur fram hjá ákærða að hann biður meðákærða að gera þetta fyrir sig í 10 daga. Ákærði kvaðst hafa átt við það að setja inn kauptilboð á hærra verði en því sem lá fyrir í kerfinu, en ákærði kvað það verð hafa verið ,,út í hött“  eins og áður var rakið. Ákærði kvaðst hafa talið að markaðurinn yrði kominn á réttan kjöl aftur um leið og viðskiptavakinn yrði virkur. Aðspurður kvaðst ákærði hafa haft rétt til þess að setja fram þá skoðun sína á verði bréfanna með því að setja inn kauptilboðin sem hér um ræðir.

Ákærði Stefnir neitar sök. Hann kvaðst hafa verið miðlari í skuldabréfamiðlun Kaupþings banka hf. á þeim tíma sem í ákæru greinir, en ákærði kvaðst hafa B.A. gráðu í hagfræði og hann hafi hafið störf hjá Kaupþingi banka 1. maí 2007. Aðspurður hvort hann þekki reglur Kauphallarinnar, kvaðst ákærði hafa tekið svokallað kauphallarpróf og haft í höndum staðfestingu á því að hann þekkti reglur Kauphallarinnar. Þrátt fyrir þetta kvaðst ákærði aldrei hafa gert ráð fyrir því að háttsemin sem í ákæru greinir hafi verið andstæð lögum.

Ákærði kvað kauptilboðin hafa verið sett inn á þeim tíma sem í ákæru greinir en deila megi um það hvort ákærðu hafi gert það í sameiningu eins og lýst er í ákærunni. Síðar í framburði sínum neitaði ákærði því að ákærðu hefðu gert þetta í sameiningu eins og ákært er fyrir. Hann kvað ekki hafa skipt máli hvor ákærðu hringdi í hinn í einstök skipti þar sem það hafi ávallt verið meðákærði sem tekið hefði ákvörðun um verð kauptilboðanna sem hér um ræðir. Ákærði hafi verið milliliður sem miðlari í viðskiptum fyrir viðskiptavini sína og hann hafi miðlað viðskiptunum sem hér um ræðir fyrir Rekstrarfélag Kaupþings banka í öll skiptin samkvæmt fyrirmælum frá meðákærða Daníel. Kauptilboðin hafi verið sett inn við lok markaðar samkvæmt fyrirmælum frá meðákærða. Ákærði kvaðst hafa sett kauptilboðin inn samkvæmt fyrirmælum, bæði hvað varðar verð, magn og tímasetningar. Ákærði kvað öll tilboð eins, óháð því hvenær þau séu gerð og óháð fjárhæðum og fleiru. Hann hafi ekki skýringar á því hvers vegna kauptilboðin átti að setja inn við lokun markaðar. Ákærði kvaðst ekki hafa ákvörðunarvald um verð. Hann hafi fengið fyrirmæli um verð kauptilboðanna og því ekki haft með það að gera hvort kauptilboðin, sem hér um ræðir, viku verulega til hækkunar frá þeim kauptilboðum sem voru fyrirliggjandi í viðskiptakerfinu þegar þau voru sett inn eins og lýst er í ákærunni. Ákærði var spurður um það í hvaða tilgangi kauptilboðin voru gerð. Kvaðst hann einungis miðla tilboðum sem hann væri beðinn um. Hann kvað tilgang sinn aldrei hafa verið þann að hafa áhrif á dagslokaverð bréfanna og gefa þannig eftirspurn eftir slíkum bréfum og verð þeirra misvísandi til kynna eins og lýst er í ákærunni.

Við skýrslutöku af ákærða Stefni hjá lögreglunni 29. janúar 2009 bar hann að á ákveðnum tímapunkti hafi hann verið búinn að átta sig á því að raunveruleg ástæða Daníels fyrir því að setja inn þessi tilboð hafi verið önnur en sú að eiga viðskipti. Ákærði var spurður um þetta fyrir dóminum. Hann kvað erfitt að svara þessu eftir á en kvað tilgang viðskiptanna ekki hafa skipt sig máli, hann hafi aðeins verið miðlari. Ákærði kvað ekki hægt að eiga viðskipti á þeim markaði sem hér um ræðir án þess að hafa áhrif á verðmyndun. Markaðurinn hafi verið þannig vaxinn að í raun hafi hann ekki verið til staðar og því hafi hver hreyfing áhrif.

Við skýrslutöku af ákærða Stefni hjá lögreglu 29. janúar 2009 var borin undir hann tafla sem sýndi verðbreytingar vegna þeirra 6 tilboða sem í ákæru greinir og einnig yfirlit frá Kauphöllinni um verðþróun á skuldabréfum EXISTA 07 2, á tímabilinu 16. nóvember 2007 til 19. mars 2008. Við skýrslutökuna hjá lögreglunni kvaðst ákærði sjá, er þessi gögn voru kynnt, að tilboðin sem hann setti inn í EXISTA 07 2, og hér um ræðir, hafi verið verðmyndandi og það hafi haft áhrif á allan skuldabréfaflokk EXISTA 07 2, og þar með á alla sjóði sem áttu í þessum bréfum. Ákærði bar á sama veg um þetta fyrir dóminum. Hann kvað sér hafa orðið þetta ljóst er hann sá gögnin frá Kauphöllinni við yfirheyrslu hjá lögreglunni.

Í reglum Norex kafla 4.6.2. segir að kauphallaraðili, hér miðlari, megi ekki gera tilboð eða stofna til viðskipta sem ein og sér eða í heild er ætlað að hafa óeðlileg áhrif á verðmyndun í viðskiptakerfinu og sem sneydd eru viðskiptalegum tilgangi. Ákærði var spurður hvort viðskiptalegur tilgangur hafi legið að baki tilboðunum sem hér um ræðir í skilningi ofangreindrar reglu. Kvaðst ákærði ekki geta svarað fyrir rekstrarfélagið sem gerði tilboðin. Ákærði kvaðst hafa talið að honum hafi borið að miðla tilboðunum sem bárust og sér hafi verið gerð grein fyrir því að staðið yrði við kauptilboðin sem hér um ræðir, yrði þeim svarað. Ákærði kvað tilboðin raunveruleg í þeim skilningi að meðákærði hafi staðið við þau kauptilboð sem sett voru inn og því hafi verið viðskiptalegur tilgangur með kauptilboðunum.

Ákærði kvað ekki hafa vakað fyrir sér að hafa áhrif á dagslokaverðið enda hafi starf miðlara ekki neitt með verð að gera að hans sögn.

Í hljóðrituðu símtali milli ákærðu frá 25. janúar 2008 kemur fyrir orðið ,,markaðsmyndandi“ eins og rakið var við reifun framburðar meðákærða hér að framan. Aðspurður hvað átt væri við með þessu hugtaki kvaðst ákærði hafa lagt þann skilning í orðið að það ætti við um tilvik þar sem tilboð sem sett sé inn hafi áhrif á verð í Kauphöllinni. Ákærði tók fram að þetta hafi verið óhjákvæmilegt þar sem öðrum tilboðum hafi ekki verið til að dreifa.

Í hljóðrituðu símtali milli ákærðu frá 14. febrúar 2008, fyrsta símtali þeirra þann dag, nefnir ákærði að hann hafi skoðað reglur Kauphallarinnar um lokaverð.

Fyrir dómi kvað ákærði hafa borið á góma milli þeirra meðákærða í fyrstu hugtakið markaðsmyndandi sem ákærði nefndi verðmyndandi fyrir dóminum. Hann kvaðst ekki hafa þekkt reglur Kauphallarinnar um lokaverð og því hafa kynnt sér reglurnar. Ákærði kvað ekki unnt að skilja ummæli sín í þessu símtali þannig að hann hafi með gerðum sínum reynt að hafa áhrif á dagslokaverð bréfanna eins og lýst er í ákærunni.

Í lok  símtalsins milli ákærðu 14. febrúar 2008 segir ákærði að hann sé til í að ,,henda inn bara alltaf í lok dags einhverju smotteríi, þetta er náttúrulega alveg út í hött“. Í samtalinu jánkar meðákærði þessu og ákærði segir: ,,hendi þessu á þig.“ Ákærði kvaðst þarna hafa verið að setja inn kauptilboð samkvæmt fyrirmælum meðákærða Daníels. Ummælin um að eitthvað sé út í hött, kvað ákærði eiga við um það hvernig álagið á þennan eina flokk skuldabréfa hafi verið komið úr samræmi borið saman við önnur skuldabréf sama skuldara. Ákærði tók fram að kauptilboð sín hafi ekki verið misvísandi eins og í ákæru greinir.

Í hljóðrituðu símtali milli ákærðu frá 15. febrúar 2008 spyr ákærði Stefnir meðákærða hvort hann vilji ,,leika sama leikinn og í gær“. Meðákærði svarar: ,,hvað vorum við að gera þá, já heyrðu það er nauðsynlegt til að þetta haldist.“ Ákærði kvaðst með þessu hafa átt við það að halda áfram að setja inn 5 milljón króna kauptilboð á markaðinn. Þá kemur fram í ofangreindu símtali að þessu verði að halda gangandi á hverjum einasta degi. Aðspurður hvað hann átti við með þessu kvaðst ákærði hafa átt við það að setja þyrfti inn kauptilboð á markaðinn á hverjum degi og að verðið yrði hærra en fyrirliggjandi verð þar sem það hafi ekki verið rétt eftir því sem ráða mátti af framburði ákærða.

Ákærði var spurður um efni hljóðritaðs símtals milli ákærðu frá 22. febrúar 2008. Þar kemur fram að kauptilboðið eigi að setja inn á ,,síðustu sekúndunni“. Ákærði kvaðst ekki hafa haft neina fjárhagslega hagsmuni af miðlun tilboðanna sem í ákæru greinir. Hann andmælti því sem fram kemur í bréfi Kaupþings banka, dagsettu 18. mars 2007, þar sem segir að efni bréfsins sé að hluta haft eftir ákærðu. Ákærði kvað það sem fram komi í bréfinu ekki frá sér komið. Ekki hafi verið rætt við sig um þetta og honum ekki gefist tækifæri til að koma að sínum sjónarmiðum sem hér hafa verið rakin.

Ákærði var spurður hvort honum væri ljóst hvers vegna viðskiptavakinn hafi ekki verið virkur eins og meðákærði bar. Ákærði kvaðst ekki hafa skýringar á því hvers vegna hann lagðist af, en er hann sinnti viðskiptavakanum hafi hann fengið fyrirmæli um það hvernig honum skyldi sinnt. Hann geti ekki svarað því hvers vegna viðskiptavakinn lagðist af.

Vitnið Rúna Malmquist kvaðst m.a. hafa verið sjóðsstjóri peningamarkaðssjóðs hjá Rekstrarfélagi Kaupþings banka á þeim tíma sem hér um ræðir og hún væri löggiltur verðbréfamiðlari. Hún kvað þau ákærða Daníel hafa starfað saman hjá fyrirtækinu á þessum tíma og lýsti hún samstarfinu. Hún kvað sig minna að ákærði Daníel hafi í janúar 2008 rætt við sig um að setja inn eitt tilboð í skuldabréfaflokkinn EXISTA 07 2. Hann hefði ekki nefnt við sig að til stæði að gera kauptilboðin 6 sem í ákæru greinir.

Í lögregluskýrslu, sem tekin var af Rúnu Malmquist 20. janúar 2009, kvaðst hún ekki mundu hafa samþykkt að setja inn tilboð dag eftir dag í lok dags, en við skýrslutökuna hjá lögreglunni voru tilboðin 6 sem í ákæru greinir kynnt henni. Fyrir dómi var hún spurð um þessa afstöðu sína. Hún kvað ástæðuna þá að eðlilegra væri að bíða til næsta dags, maður reyni að setja inn tilboð fyrr. Hún kvaðst hafa frétt af kauptilboðunum sem hér um ræðir á fundi hjá fyrirtækinu 13. mars 2008. Hún kvað engar reglur hjá Kaupþingi varðandi það hvaða viðskipti væru verðmyndandi.

Vitnið Baldur Thorlacius starfar við eftirlit hjá Kauphöll Íslands. Hann lýsti viðskiptakerfinu sem skuldabréfin sem um ræðir í ákærunni voru skráð í og eftirlitskerfi Kauphallarinnar en meginhluti þess eru svokallaðar bjöllur sem gefa merki er eitthvað á sér stað sem er frábrugðið öðru á markaðnum. Hann lýsti viðbrögðum er bjöllurnar gefa viðvörun, en þá sé m.a. leitað skýringa. Baldur kvað viðvörunarbjöllu hafa gefið merki vegna viðskiptanna sem lýst er í ákæru er sölur áttu sér stað í tveimur síðustu tilvikunum. Þar hafi verið gefnar til kynna miklar verðhreyfingar. Verð hafi ,,hoppað upp“ á milli viðskipta. Þetta hafi leitt til nánari könnunar og þá komið í ljós að kauptilboð höfðu verið sett inn í lok dags nokkrum sinnum og tilboðin voru talsvert hærri en önnur kauptilboð. Þetta hafi þótt grunsamlegt og engin augljós skýring fundist á þessu. Hafi þetta því kallað á frekari rannsókn. Í kjölfarið hafi verið tekinn saman listi yfir kauptilboðin sem í ákæru greinir og málið sent Fjármálaeftirlitinu. Baldur kvað viðvörunarbjöllurnar hafa gert viðvart er kauptilboðunum sem hér um ræðir var tekið. Hann kvað stillingu viðvörunarkerfisins hafa gert það að verkum að viðvörunarbjöllurnar hringdu ekki við kauptilboðin sem ekki var tekið. Hins vegar hefði það átt að gerast að hans sögn. Hann kvað nafnverð útgefinna skuldabréfa í flokknum EXISTA 07 2, hafa numið rúmum 10 milljónum króna. Baldur skýrði hvernig dagslokaverð er ákvarðað. Hann skýrði að opinbert dagslokaverð væri notað til að reikna út vísitölur, bæði hlutabréfa og skuldabréfa. Viðskipti sem hafa haft áhrif á dagslokaverð eru m.a. viðskipti sem verða til í viðskiptabók þar sem tilboð er sett inn. Hann lýsti því að kauptilboð geti haft áhrif á dagslokaverð t.d. ef kauptilboð er hærra en síðasta viðskiptaverð sem gefi þá til kynna að bréf sé metið hærra verði en er síðustu viðskipti fóru fram, eða söluverð sé lægra en síðasta viðskiptaverð. Ef tilboð í lok dags krossast við síðustu viðskipti, þá þyki það vera næg vísbending um að tilboðið sé virði bréfsins. Þá ákvarðast opinbert dagslokaverð af tilboðinu sem þannig háttar til um. Dagslokaverðið sé þá verðið sem miðað er við daginn eftir. Hann kvað dagslokaverð almennt það viðmið sem skoðað sé þegar verðþróun bréfa aftur í tíma er skoðuð. Þá sé dagslokaverð oftast notað við verðmat á eignasöfnun. Hærra dagslokaverð gefi almennt til kynna meiri eftirspurn eftir viðkomandi skuldabréfum.

Borið var undir vitnið Baldur skjal frá Kauphöll Íslands, þar sem listuð eru upp kauptilboð ákærða Stefnis í skuldabréfaflokkinn EXISTA 07 2, á tímabilinu 24. janúar 2008 til 22. febrúar 2008, en á listanum eru kauptilboðin sem í ákæru greinir. Aðspurður hvort kauptilboð ákærða Stefnis, sem hér um ræðir, væru verulegar hækkanir, kvað Baldur þessar hækkanir þykja talsverðar, einkum á skuldabréfamarkaði eins og þeim sem hér um ræðir. Hann kvað hækkanirnar í öll sex skiptin hafa átt að leiða til þess að viðvörunarbjöllur Kauphallarinnar gerðu viðvart. Baldur kvað tilboðin sem í ákæru greinir hafa verið verðmyndandi og í flestum tilvikum hafa myndað dagslokaverð viðkomandi dags. Baldur lýsti því að ein viðskipti hefðu verið með skuldabréf í skuldabréfaflokknum EXISTA 07 2, frá júní 2007 til desember 2007. Þetta teljist ekki djúpur markaður en sýni eðli markaðarins með slík fyrirtækjabréf. Baldur kvað það ekki varða Kauphöllina þótt markaður sé ekki virkur, það þýði einungis að aðilar vilji hvorki selja né kaupa bréf. Hann kvað eitt viðvörunarkerfi í Kauphöllinni óháð því hvernig markaður með viðkomandi bréf sé. Hins vegar séu viðvörunarbjöllurnar stilltar eftir mismundandi viðmiðunum, t.d. viðskiptamagni, almennum verðsveiflum og lítt seljanlegum bréfum en viðvörunarbjöllur hefðu átt að hringja í máli þessu vegna fráviks í kauptilboðunum. Hann kvað Kauphöllina ekki hafa eftirlit með því hvort viðskiptavaki sé á skuldabréfum. Það sé útgefanda skuldabréfa að fylgjast með því.

Vitnið Þorkell Magnússon lýsti stöðu sinni hjá Kaupþingi banka en hann kvaðst hafa verið yfirmaður ákærða Daníels þann tíma sem í ákæru greinir. Þorkell kvaðst fyrst hafa frétt af kauptilboðunum sem í ákæru greinir eftir að bréf barst til Kaupþings banka vegna málsins. Við skýrslutöku af Þorkeli hjá lögreglu 20. janúar 2009 kvaðst hann ekki muna að ákærði Daníel hefði rætt við sig um kauptilboðin sem hér um ræðir, hann hefði aldrei samþykkt að kauptilboðin yrðu sett inn svona seint og ítrekað. Spurður um þetta fyrir dóminum kvaðst Þorkell hafa talið litlar líkur á því að kauptilboðunum yrði tekið. Þorkell kvað engar reglur eða viðmið hafa verið hjá bankanum, á þeim tíma sem hér um ræðir, sem notaðar voru til að hafa áhrif á gengi bréfa. Aðspurður kvað Þorkell verðmyndun á markaði með þau skuldabréf sem hér um ræðir ekki hafa verið mjög skilvirka. Hann hafi reynt að fylgjast með verði skuldabréfa í flokki EXISTA 07 2, eins og hægt var og hann telji að markaðsverð bréfanna á þeim tíma sem hér um ræðir hafi alveg getað endurspeglað rétt markaðsverð. Aldrei hafi verið fært í tal við sig að verð bréfanna kynni að vera of hátt eða of lágt og ekki hafi borið á góma að viðskiptavakinn væri ekki virkur. Hann kvað ákærða Daníel ekki hafa rætt þetta við sig.

Vitnið Birgir Örn Arnarson, framkvæmdastjóri áhættustýringar Kaupþings banka á Íslandi á þeim tíma sem hér um ræðir, lýsti reglum við gengisútreikninga í verðbréfasjóðum og skýrði reglur við gengisútreikninga í verðbréfasjóðum. Hann skýrði hvernig lítil viðskipti, eins og þau sem í ákæru greini, væru ekki tekin með í gengisútreikning sjóðsins sem bréfin eru í. Borinn var undir vitnið tölvupóstur frá Kaupþingi banka 11. nóvember 2009, þar sem fram kemur að engar reglur eins og vitnið lýsti hefðu verið í gildi hjá bankanum árið 2008, stuðst væri við reglur Kauphallarinnar. Birgir kvaðst ekki kunna skýringu á svari Kaupþings. Hann kvað reglur sem hann lýsti e.t.v. ekki gilda innan Kaupþings en vitnið væri að ræða um Rekstrarfélag Kaupþings og félagið sem reikni út gengi verðbréfasjóða heiti Arion og þar séu þessar reglur notaðar. Þetta séu því í raun reglur Arions.

Vitið Helgi Sigurðsson var framkvæmdastjóri lögfræðisviðs Kaupþings banka þann tíma sem ákæran tekur til. Hann var spurður um efni bréfs Kaupþings banka frá 18. mars 2008. Hann skýrði sjónarmiðin sem þar koma fram. Hann kvað engin viðskipti hafa verið með skuldabréfin EXISTA 07 2, á þessum tíma. Mjög lítil viðskipti hafi þannig mjög mikil áhrif. Helgi kvað ákærðu hafa verið sagt upp störfum hjá bankanum vegna þessa máls. Hann hafi talið málið þannig vaxið og að það þyrfti að rannsakast frekar og kynni að leiða til ákæru. Af þessum sökum hafi ekki verið rétt að ákærðu störfuðu áfram hjá bankanum. Helgi kvað bankann hafa litið þannig á að ákærðu hafi staðið saman að því að setja inn tilboðin 6, sem ákært er fyrir. Hann kvaðst telja að til hafi verið reglur hjá bankanum um útreikninga á gengi sjóða. Hann kvaðst telja að það að Kaupþing hætti markaðsvakanum á skuldabréfunum í EXISTA 07 2, þannig að einungis voru sett inn kauptilboð en ekki sölutilboð, hafi verið vegna markaðsbrests og því ekki verið hægt að halda uppi viðskiptavaka. Engin viðskipti hafi verið og ekki unnt að mynda neitt verð. Helgi kvaðst ekki viss um það að haft sé eftir ákærða Stefni það sem fram kemur í framangreindu bréfi bankans um markmið athafna ákærðu.

Niðurstaða

Ákærðu, sem neita báðir sök, er gefin að sök markaðsmisnotkun sem varði við 1. tl. 1. mgr. 117. gr. laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti. Lagagreinin er svohljóðandi: ,,Markaðsmisnotkun er óheimil. Með markaðsmisnotkun er átt við að:

1. eiga viðskipti eða gera tilboð sem:

a. gefa eða eru líkleg til að gefa framboð, eftirspurn eða verð fjármálagerninga ranglega eða misvísandi til kynna, eða

b. tryggja óeðlilegt verð eða búa til verð á einum eða fleirum fjármálagerningum, nema aðilinn sem átti viðskiptin eða gaf fyrirmæli um þau geti sýnt fram á að ástæður að baki þeim séu lögmætar og að viðskiptin eða fyrirmælin hafi verið í samræmi við viðurkennda markaðsframkvæmd á viðkomandi skipulegum verðbréfamarkaði.“

 Efnislýsing í ákæru svarar til a-liðar 1. tl. 1. mgr. 117. gr. ofangreindra laga, og þótt ekki sé vísað til a-liðarins í ákæru er ljóst að vörn var ekki áfátt af þessum sökum, sbr. 180. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Þykir því hvorki af þessum sökum né af neinum öðrum ástæðum skorta á skýrleika ákærunnar eða skýrleika refsiheimilda sem vísað er til í ákærunni. Dómurinn hafnar þannig kröfu verjanda um sýknu á grundvelli þess að refsiheimild sem vísað er til í ákæru sé óskýr og þar með andstæð meginreglu 1. mgr. 69. gr. stjórnarskrárinnar.

Við efnisúrlausn málsins koma fram frekari rök dómsins vegna þessarar varnarástæðu. Hér að neðan verður vikið sérstaklega að sumum vörnum ákærðu en í efnisumfjöllun dómsins um sakarefnið kemur fram afstaða dómsins til allra varnarástæðna án þess að þeirra sé getið sérstaklega.

Ákærði Daníel hefur borið að hann hafi gegnt stöðu varasjóðsstjóra peningamarkaðssjóðs hjá Rekstrarfélagi Kaupþings banka hf. á þeim tíma sem hér um ræðir, en ekki stöðu sjóðsstjóra eins og lýst er í ákæru. Framburður ákærða Daníels er lagður til grundvallar um stöðu hans hjá fyrirtækinu. Þetta hefur ekki áhrif eins og á stendur.

Sannað er með framburði beggja ákærðu og með öðrum gögnum málsins að þau 6 kauptilboð sem í ákæru greinir, voru öll sett inn við lokun markaðar á tímabilinu 25. janúar 2008 til 22. febrúar 2008.

Ákærðu hafa báðir neitað því að hafa sett kauptilboðin inn í sameiningu eins og ákært er fyrir. Eins og rakið var voru ákærðu í símasambandi vegna kauptilboðanna, ræddu þau og skipulögðu símleiðis. Ræddu þeir m.a. um áhrif kauptilboðanna, eins og rakið var, og í því sambandi að þau væru markaðsmyndandi, en fyrir dómi skýrði ákærði Stefnir það svo að átt væri við verðmyndandi áhrif. Dómurinn hefur hlýtt á upptöku allra símtalanna á milli ákærðu sem reifuð voru að hluta. Að símtölunum virtum í heild og af framburði ákærðu hjá lögreglu, sem rakinn var að framan, og að hluta með framburði þeirra fyrir dómi um símtölin, er sannað að ákærðu, þrátt fyrir neitun þeirra,  settu inn kauptilboðin í sameiningu. Við mat á þessu er einnig höfð hliðsjón af því að ákærðu höfðu yfir að ráða sérþekkingu og að mati dómsins var þeim báðum ljóst í hvaða skyni kauptilboðin voru gerð, eins og síðar verður rakið.

Með vísan til þess sem nú var rakið og að teknu tilliti til sérþekkingar beggja ákærðu er hafnað þeirri varnarástæðu ákærða Stefnis að um afsakanlega vanþekkingu hans á réttarreglum sé að ræða í skilningi 3. tl. 1. mgr. 74. gr. almennra hegningarlaga. Eiga engin slík sjónarmið við hér. Þá er einnig hafnað kröfu ákærða Daníels um að háttsemi ákærða megi jafna til atvika sem lýst er í 13. gr. almennra hegningarlaga sem varðar neyðarrétt. Kemur hvorug þessara varnarástæðna til álita til sýknu eða niðurfellingar refsingar.

Því var lýst að framan hvernig kauptilboðin sem hér um ræðir viku frá kauptilboðum sem voru fyrirliggjandi í viðskiptakerfinu er þau voru sett inn en fyrir liggur að kauptilboðin, sem voru fyrirliggjandi í viðskiptakerfinu, voru öll sett inn af ákærða Stefni. Vitnið Baldur Thorlacius bar um það að viðvörunarkerfi Kauphallarinnar hefði gefið merki við 2 síðustu kauptilboðin sem var tekið, en með réttu hefði viðvörun átt að koma fram vegna hvers og eins kauptilboðs sem hér um ræðir. Ástæður sem raktar voru leiddu til þess að þetta gerðist ekki. Vitnið Baldur bar um það að kauptilboðin sem hér um ræðir hafi myndað dagslokaverð. Ákærði Daníel bar fyrir dóminum að verðmyndun skuldabréfaflokksins EXISTA 07 2 hafi verið ,,út úr korti“ og hann hafi verið að reyna að finna verð sem hann taldi eðlilegt  á bréfunum og í samræmi við allt annað á markaðnum á þessum tíma samanborið við verðið sem var á skuldabréfunum meðan viðskiptavakanum var sinnt að hans sögn. Vísað er til þess sem áður var rakið um áhyggjur ákærða Daníels um lækkun skuldabréfa í EXISTA 07 2, og aukinnar innlausnar á bréfunum. Með því sem nú hefur verið rakið, og með öðrum gögnum málsins, þar á meðal með vitnisburði Baldurs Thorlacius, og er hafður er í huga tilgangur kauptilboðanna, sbr. það sem síðar verður rakið, er sannað, gegn neitun ákærðu, að kauptilboðin viku verulega til hækkunar frá fyrirliggjandi kauptilboðum í viðskiptakerfinu, eins og í ákæru greinir.

Kauptilboðin sem um ræðir voru öll sett inn við lokun markaðarins. Í hljóðrituðum símtölum ákærðu kemur fram að þeir ræða þar ítrekað um að setja kauptilboðin inn við lokun markaðar. Að virtum símtölunum, því sem þar kemur fram og gögnum málsins, er það mat dómsins að tilgangur þess að setja tilboðin inn við lokun markaðar hafi verið sá að freista þess að hafa áhrif á dagslokaverð skuldabréfanna. Þessi ályktun dómsins fær einnig stoð í framburði ákærða Daníels hjá lögreglunni, þar sem hann greindi svo frá að hann hafi síður viljað taka meira af skuldabréfum í EXISTA 07 2, flokknum og hann hafi síður viljað að gengið yrði að kauptilboðunum sem hér um ræðir. Fleira af því sem rakið var úr framburði ákærða Daníels hjá lögreglu og fyrir dómi styður þetta álit dómsins og vísast til reifunar framburðar ákærða Daníels að framan um þetta. Auk þessa liggur fyrir tölvupóstur milli ákærðu frá 22. febrúar 2008, en þann dag var síðasta kauptilboðið samkvæmt ákærunni sett inn. Í einum tölvupóstanna segir ákærði Stefnir að kauptilboð sem sett var inn þennan dag hafi lifað inni í 1 sekúndu. Ákærði Daníel svaraði strax og segir: ,,já, við skulum bara hætta þessu alveg.“ Gengið var að kauptilboðunum í 2 síðustu skiptin sem þau voru sett inn í viðskiptakerfi Kauphallarinnar þrátt fyrir að þau væru sett inn við lokun markaðar og að síðasta kauptilboðið hafi aðeins verið inni í viðskiptakerfinu í 1 sekúndu eins og ákærði Stefnir lýsti í ofangreindum tölvupósti. Þá kemur fram í tölvupósti milli ákærðu 19. febrúar 2008, að aðrir aðilar á markaðnum hafi verið farnir að fylgjast með. Tölvupóstur frá ákærða Stefni til ákærða Daníels er svohljóðandi ,,Ég var hittaður á EXISTA 07 2. Er stemning fyrir því að halda þessu áfram? Landsbankinn er farinn að fylgjast vel með vaktinni.“ Ákærði Daníel svaraði á sömu mínútu og segir: ,,Nei við verðum þá að hætta þessu.“ Það að tveimur síðustu kaup­tilboðunum skyldi hafa verið tekið, þrátt fyrir að þau hafi verið sett inn skömmu fyrir lok markaðar, rennir stoðum undir það álit dómsins, sem rakið var að framan, að kauptilboðin hafi vikið verulega til hækkunar frá þeim kauptilboðum sem voru fyrirliggjandi í viðskiptakerfinu, og að kauptilboðin hafi þannig gefið eftirspurn eftir slíkum bréfum og verð misvísandi til kynna eins og lýst er í niðurlagi ákærunnar.

Með því sem nú hefur verið rakið og með öðrum gögnum málsins, en gegn neitun ákærðu, er sannað að tilgangurinn með kauptilboðunum 6 hafi verið sá að hafa áhrif á dagslokaverð bréfanna og gefa þannig eftirspurn eftir slíkum bréfum og verð þeirra misvísandi til kynna eins og lýst er í ákæru enda ljóst af því sem hefur verið rakið að ákærði Daníel vildi í raun ekki kaupa bréf í þeim skuldabréfaflokki sem hér um ræðir.

Skuldabréfin í EXISTA 07 2, voru á markaði í Kauphöll Íslands sem er skipulegur verðbréfamarkaður í skilningi XII. kafla laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti. Ákærði Daníel bar að markaður með þessi skuldabréf hafi verið ,,grunnur“ eða ,,óskilvirkur“ og er vörn ákærða að hluta á þessu byggð og að háttsemi hans sem hér um ræðir sé af þessum sökum ekki saknæm. Í lögum nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti er ekki gert ráð fyrir að aðrar reglur en þær sem í ákæru greinir gildi um markaði með verðbréf sem kunna að vera þessu marki brenndir. Það er því mat dómsins að ekki hafi verið færð fram rök af hálfu ákærðu sem sýni fram á að ástæður að baki kauptilboðunum hafi verið lögmætar og að þau hafi verið í samræmi við viðurkennda markaðsframkvæmd á þeim skipulega verðbréfamarkaði sem hér um ræðir, sbr. b-lið 1. mgr. 117. gr. laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti. Sú vörn ákærða að sýkna beri hann af þessum sökum eða að markaðsmisnotkun geti ekki átt sér stað nema fyrir hendi sé ,,virkur markaður“ verður því ekki tekin til greina.

Eins og rakið var að ofan er sannað gegn neitun ákærðu að þeir hafi gerst sekir um þá háttsemi sem í ákæru greinir og varðar háttsemi þeirra við a-lið 1. tl. 1. mgr. 117. gr. laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti en brot ákærðu voru fullframin er þeir settu inn kauptilboðin 6, óháð því hvort tilboðunum var tekið eða ekki, enda höfðu tilboðin þau áhrif sem lýst er í niðurlagi ákærunnar, eins og áður var rakið.

Hvorugur ákærðu hefur áður sætt refsingu. Markaðsmisnotkun varðar sektum eða fangelsi allt að 6 árum, sbr. 146. gr. laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti. Því var lýst að framan að peningamarkaðssjóður sá sem að ákærði Daníel stýrði átti skuldabréf í EXISTA 07 2 fyrir um 4,2 milljarða króna á þeim tíma sem hér um ræðir. Ljóst var að lítil breyting var til þess fallin að hafa mikil áhrif á heildarverðmæti skuldabréfanna og þar með á virði eigna sjóðsins. Brot ákærðu eru alvarleg og var brotið gegn trausti fjárfesta í peningamarkaðssjóðnum sem hér um ræðir og almennt á verðbréfamarkaði. Ákærðu unnu verkin í sameiningu og er það virt ákærðu til refsihækkunar, sbr. 2. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga. Þá voru brotin ítrekuð, en ákærðu settu inn 6 kauptilboð. Ákærðu voru fagmenn, hvor á sínu starfssviði. Þótt hvorugur þeirra hafi haft persónulegra hagsmuna að gæta við framningu brotanna þykir háttsemi þeirra sýna styrkan og einbeittan brotavilja. Er ofangreint virt báðum ákærðu til þyngingar við ákvörðun refsingar, sbr. 6. tl. 1. mgr. 70. gr. almennra hegningalaga. Að öllu þessu virtu þykir refsing hvors um sig hæfilega ákvörðuð fangelsi í 8 mánuði, en ekki er að mati dómsins efni til að greina á milli hlutar hvors ákærða um sig í málinu.

Ákærði Daníel greiði Þórólfi Jónssyni héraðsdómslögmanni 1.120.500 krónur í málsvarnarlaun.

Ákærði Stefnir greiði Hákoni Þorsteinssyni héraðsdómslögmanni 1.120.500 krónur í málsvarnarlaun. Tekið hefur verið tillit til virðisaukaskatts við ákvörðun þóknunar lögmanna.

Eyjólfur Ármannsson saksóknarfulltrúi flutti málið fyrir ákæruvaldið.

Dóminn kveða upp héraðsdómararnir Guðjón St. Marteinsson, sem dómsformaður, Ingimundur Einarsson og Áslaug Björgvinsdóttir, settur héraðsdómari.

Dómsorð:

Ákærðu, Daníel Þórðarson og Stefnir Agnarsson sæti hvor um sig fangelsi í 8 mánuði.

Ákærði Daníel greiði Þórólfi Jónssyni héraðsdómslögmanni 1.120.500 krónur í málsvarnarlaun.

Ákærði Stefnir greiði Hákoni Þorsteinssyni héraðsdómslögmanni 1.120.500 krónur í málsvarnarlaun.

Tekið hefur verið tillit til virðisaukaskatts við ákvörðun þóknunar lögmanna.