Hæstiréttur íslands
Mál nr. 545/2013
Lykilorð
- Fjármálafyrirtæki
- Slit
- Riftun
- Réttindaröð
|
|
Fimmtudaginn 30. janúar 2014. |
|
Nr. 545/2013. |
Virðing hf. (Ragnar Baldursson hrl.) gegn Byr sparisjóði (Árni Ármann Árnason hrl.) |
Fjármálafyrirtæki.
Slit. Riftun. Réttindaröð.
B krafðist þess að rift yrði með dómi
uppgreiðslu sparisjóðsins á tilteknum skuldabréfum í eigu V hf. sem fram hefði
farið með þeim hætti að uppreiknuðu verðmæti bréfanna hefði verið breytt í
innlán V hf. hjá B með innborgun 21. apríl 2009 inn á bundin innlánsreikning
sem stofnaður hefði verið í nafni V hf. hjá sparisjóðnum. V hf., mótmælti
kröfunni og bar því m.a. við að félagið hefði ekki verið eigandi skuldabréfanna
heldur einungis haft milligöngu um viðskiptin á grundvelli starfsleyfis sem
verðbréfafyrirtæki og til verðbréfamiðlunar. Í niðurstöðu Hæstaréttar sagði
m.a. að V hf. hefði greitt fyrir bréfin af eigin fé allnokkru áður en félaginu
hefði borist greiðsla fyrir innlausn þeirra frá B. Yrði að líta til þess að sá
munur sem hefði verið á því verði sem B innleysti bréfin á og því sem V hf.
greiddi fyrir þau hefði verið úr öllu eðlilegu samhengi við venjulega þóknun
fyrir milligöngu við innlausn skuldabréfa. Taldi Hæstiréttur því að V hf. hefði
komið að viðskiptunum við B sem eigandi skuldabréfanna. Því næst rakti
Hæstiréttur að með því að B leysti til sín skuldabréfin hefðu réttindi og
skyldur samkvæmt þeim komist á sömu hendi og hefði krafa á grundvelli þeirra
þar með fallið niður. Yrði að líta svo á að B hefði greitt V hf. kröfu
félagsins á hendur sér á því tímamarki, sem var tæplega tveimur mánuðum fyrir
frestdag. Höfuðstól skuldar samkvæmt skuldabréfunum hefði átt að greiða í einu
lagi á lokagjalddaga 15. júlí 2011 og hefði B ekki verið unnt að krefjast að fá
að greiða kröfuna fyrir þann tíma. Hefði B því greitt skuld sína við V hf. fyrr
en eðlilegt var í skilningi 134. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.
Þótt framangreindar ráðstafanir hefðu ekki leitt til þess að fé hefði gengið úr
höndum B á því tímamarki hefðu þær á hinn bóginn leitt til þess að V hf. fékk
forgangsrétt gagnvart hliðsettum lánardrottnum sem hann ella hefði ekki notið
sem kröfuhafi samkvæmt skuldabréfi, en óumdeilt var að eigendur innstæðna hjá B
hefðu fengið kröfur sínar að fullu greiddar. Þá var ekki fallist á með V hf. að
greiðsla B hefði verið venjuleg eftir atvikum. Með vísan til þessa var fallist
á kröfu B um riftun greiðslunnar svo og kröfu hans um endurgreiðslu að fullu,
enda yrði að telja að greiðslan hefði komið V hf. að fullum notum.
Dómur
Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 16. ágúst 2013. Hann krefst aðallega sýknu af kröfum stefnda, en til vara að sér verði „að hámarki“ gert að greiða stefnda 9.142.607 krónur. Í báðum tilvikum krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I
Samkvæmt gögnum málsins gaf Sparisjóður Hafnarfjarðar 11. apríl 2006 út skuldabréfaflokk, sem bar auðkennið SPH 06 1, samtals að fjárhæð allt að 2.500.000.000 krónur. Skuldabréfin, sem voru að fjárhæð 5.000.000 krónur hvert, voru bundin vísitölu neysluverðs og báru 5% ársvexti. Höfuðstóll bréfanna skyldi endurgreiddur í einu lagi á lokagjalddaga þeirra 15. júlí 2011, en vexti átti að greiða 15. júlí ár hvert, í fyrsta sinn á árinu 2007. Sparisjóður Hafnarfjarðar mun hafa sameinast öðrum sparisjóði í desember 2006 og fengið nafn stefnda í mars 2007.
Með 6. gr. laga nr. 125/2008 var bætt við 103. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki þeim nýmælum að kröfur vegna innstæðna samkvæmt lögum nr. 98/1999 um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta skyldu njóta rétthæðar samkvæmt 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. við skipti á búi fjármálafyrirtækis. Með 6. gr. laga nr. 44/2009 færðist þetta ákvæði í 102. gr. laga nr. 161/2001, þar sem mælt er svo fyrir í 3. mgr. að við slit fjármálafyrirtækis gildi reglur um rétthæð krafna á hendur þrotabúi, en þó skuli kröfur um innstæður samkvæmt lögum um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta jafnframt teljast til krafna sem njóta rétthæðar samkvæmt 1. og 2. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991.
NBI hf., sem nú heitir Landsbankinn hf., átti skuldabréf samtals að nafnvirði 100.000.000 krónur í framangreindum skuldabréfaflokki. Áfrýjandi, sem hefur starfsleyfi sem verðbréfafyrirtæki og til verðbréfamiðlunar, kveður starfsmann þess félags hafa haft samband við starfsmann sinn í byrjun mars 2009 og óskað eftir að hann leitaði kaupanda að bréfunum. Forstöðumaður verðbréfadeildar áfrýjanda sendi forstöðumanni fjárstýringar hjá stefnda tölvubréf 26. mars 2009, þar sem í fyrsta lagi var fjallað um að nánar tilgreindir og verulegir fjármunir myndu berast stefnda næstu daga að því er virðist fyrir milligöngu áfrýjanda. Í annan stað var stefndi beðinn um að gera áfrýjanda tilboð í skuldabréf úr framangreindum flokki að nafnvirði 100.000.000 krónur miðað við að endurgjaldið yrði bundið á innlánsreikningi hjá stefnda, verðtryggðum eða óverðtryggðum. Í þriðja lagi var loks rætt í almennum orðum um aukin viðskipti áfrýjanda við stefnda, jafnvel að áfrýjandi flytti öll viðskipti sín til hans. Í tölvubréfum 7. apríl 2009 kvaðst fyrrgreindur starfsmaður stefnda ekki geta gert betra tilboð en að kaupa bréfin með 10% ávöxtunarkröfu eða fyrir 125.144.491 krónu, en endurgjaldið yrði annað hvort bundið á verðtryggðum reikningi hjá stefnda með 7,25% ársvöxtum fram að gjalddaga bréfanna eða í 24 mánuði á óverðtryggðum reikningi með nánar tilgreindum kjörum. Í tölvubréfi degi síðar kvaðst fyrrnefndur starfsmaður áfrýjanda geta gengið að þessum kjörum, væntanlega þeim verðtryggðu, en hann ætti þó eftir „að fá það niðurneglt“.
Meðal gagna málsins er svonefnd bráðabirgðakvittun frá áfrýjanda, dagsett 14. apríl 2009 og stíluð á NBI hf., þar sem fram kom að félagið hafi gert „markaðspöntun“ og selt skuldabréf í framangreindum flokki að nafnverði 100.000.000 krónur fyrir 116.057.700 krónur, þannig að greiðsla fyrir þau að frádreginni 0,1% þóknun til áfrýjanda yrði 115.941.642 krónur. Sama dag greiddi áfrýjandi þetta andvirði bréfanna til NBI hf. af sínum eigin tékkareikningi hjá Íslandsbanka hf. Þá liggur og fyrir skjal frá áfrýjanda um „markaðspöntun“, dagsett sama dag og stílað á stefnda, þar sem tilgreint var að stefndi keypti bréf úr framangreindum skuldabréfaflokki að nafnvirði 100.000.000 krónur fyrir 125.083.549 krónur og væri öll sú fjárhæð til greiðslu, en kostnaður enginn. Þessa nótu fyrir kaupunum sendi áðurnefndur starfsmaður áfrýjanda til forstöðumanns fjárstýringar stefnda síðdegis sama dag með tölvubréfi, þar sem sú síðarnefnda var jafnframt minnt á að senda áfrýjanda tilboð um heildarviðskipti hans. Þá er meðal gagna málsins kvittun, sem sýnir að stefndi lagði viku síðar, 21. apríl 2009, fyrrnefndar 125.083.549 krónur inn á innlánsreikning, sem virðist hafa verið stofnaður fyrir áfrýjanda hjá stefnda, en þetta mun hafa verið bundinn reikningur með fyrrgreindum kjörum. Áfrýjandi mun hafa framselt inneign sína á þessum innlánsreikningi hjá stefnda til nafngreinds lífeyrissjóðs, sem millifærði 125.083.549 krónur inn á tékkareikning áfrýjanda hjá Íslandsbanka 20. apríl 2009.
Fjármálaeftirlitið skipaði stefnda bráðabirgðastjórn 22. apríl 2010 með heimild í 100. gr. a. laga nr. 161/2002, sbr. 4. gr. laga nr. 44/2009. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 2. júlí 2010 var stefndi tekinn til slita og honum skipuð slitastjórn. Frestdagur við slitin var 16. júní 2009, sbr. 5. mgr. 101. gr. og 4. mgr. 86. gr. laga nr. 161/2002. Að undangengnum bréfaskiptum aðila lýsti slitastjórn stefnda 11. apríl 2011 yfir riftun á þeim gerningi að áfrýjandi hafi 14. apríl 2009 „innleyst til sín skuldabréf“ úr margnefndum skuldabréfaflokki að fjárhæð 125.083.549 krónur, en andvirðið hafi verið greitt inn á bankareikning áfrýjanda. Jafnframt krafðist stefndi greiðslu á þessari fjárhæð auk vaxta. Áfrýjandi hafnaði þessu með bréfi 18. apríl 2011 og höfðaði stefndi málið 15. febrúar 2012.
II
Áfrýjandi reisir sýknukröfu sína í fyrsta lagi á aðildarskorti. Hann telur kröfu stefnda um riftun ranglega beint að sér, þar sem hann hafi aldrei verið eigandi áðurnefndra skuldabréfa eða kröfuhafi samkvæmt þeim, heldur hafi hann einungis haft milligöngu um umrædd viðskipti, enda sé hann fjármálafyrirtæki sem reki verðbréfamiðlun. Eins og að framan er rakið liggur fyrir í málinu bráðabirgðakvittun 14. apríl 2009 sem stíluð var á þáverandi eiganda skuldabréfanna, NBI hf. Samkvæmt henni seldi það félag skuldabréf úr margnefndum skuldabréfaflokki að nafnverði 100.000.000 krónur gegn endurgjaldi sem skyldi að frádreginni þóknun áfrýjanda nema 115.941.642 krónum, en kaupanda var þar ekki getið. Sama dag var sú fjárhæð millifærð til NBI hf. af tékkareikningi áfrýjanda hjá Íslandsbanka hf. Viku síðar lagði stefndi innlausnarverð bréfanna, 125.083.549 krónur, inn á bundinn innlánsreikning áfrýjanda hjá stefnda. Áfrýjandi greiddi því fyrir bréfin af eigin fé allnokkru áður en honum barst greiðsla fyrir innlausn þeirra frá stefnda. Þá verður til þess að líta að munur á því verði sem stefndi innleysti bréfin á og því sem áfrýjandi greiddi fyrir þau nam 9.141.907 krónum eða 7,9% af staðgreiðsluverði þeirra til seljanda. Sú fjárhæð er úr öllu eðlilegu samhengi við venjulega þóknun fyrir milligöngu við innlausn skuldabréfa, en samkvæmt gjaldskrá stefnda sýnist þóknun fyrir milligöngu um viðskipti af þessu tagi vera 0,6% af fjárhæð þeirra. Að þessu virtu verður að líta svo á að sannað sé að áfrýjandi hafi komið að viðskiptum við stefnda sem eigandi skuldabréfanna. Sýknukröfu áfrýjanda vegna aðildarskorts er því hafnað.
Stefndi reisir kröfu sína um riftun einkum á 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991. Samkvæmt því ákvæði má krefjast riftunar á greiðslu skuldar á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag ef greitt var með óvenjulegum greiðslueyri eða fyrr en eðlilegt var eða greidd var fjárhæð sem skerti greiðslugetu þrotamanns verulega, nema greiðslan hafi virst venjuleg eftir atvikum. Með því að stefndi leysti til sín skuldabréfin komust réttindi og skyldur samkvæmt þeim á sömu hendi. Féll krafa samkvæmt þeim þar með niður samkvæmt meginreglu fjármunaréttar. Breytir engu í þeim efnum þótt stefndi hefði getað stofnað á nýjan leik til skuldar með því að selja bréfin öðrum. Að lögum verður því að líta svo á að stefndi hafi greitt áfrýjanda kröfu hans á hendur sér 21. apríl 2009, sbr. dóma Hæstaréttar 16. apríl 2010 í málum nr. 162/2010 og 163/2010. Eins og að framan er rakið var frestdagur við slit stefnda 16. júní 2009 og var greiðslan því innt af hendi tæplega tveimur mánuðum fyrir þann dag. Höfuðstól skuldar samkvæmt skuldabréfunum átti að greiða í einu lagi á lokagjalddaga þeirra 15. júlí 2011 og var stefnda þar ekki veittur réttur til að krefjast að fá að greiða þau fyrir þann tíma. Að þessu virtu greiddi stefndi skuld sína við áfrýjanda fyrr en eðlilegt var í skilningi 134. gr. laga nr. 21/1991.
Með 6. gr. laga nr. 125/2008 var sem áður segir gerð sú breyting á lögum nr. 161/2002 að kröfum vegna innstæðna hjá fjármálafyrirtæki var veittur forgangur samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991 í réttindaröð við slit þess, sbr. nú 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002. Ráðstafanir málsaðila í apríl 2009 leiddu að sönnu ekki til þess að fé gengi úr höndum stefnda að svo komnu máli, en þær leiddu á hinn bóginn til þess að áfrýjandi fékk forgangsrétt gagnvart hliðsettum lánardrottnum sem hann ella hefði ekki notið sem kröfuhafi samkvæmt skuldabréfi og er óumdeilt að eigendur innstæðna hjá stefnda hafi fengið kröfur sínar að fullu greiddar. Áfrýjandi heldur því fram að framangreind greiðsla hafi verið venjuleg eftir atvikum og þurfi hann því ekki að þola riftun samkvæmt 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991. Fyrir því að svo sé hefur hann sönnunarbyrði. Ráðstafanir þær sem hér um ræðir voru gerðar á vormánuðum 2009, um hálfu ári eftir fall þriggja stærstu viðskiptabanka landsins og um mánuði eftir að stærsti sparisjóðurinn hér á landi var tekinn til slita. Þótt nýlega hafi þá verið gripið til opinberra aðgerða til stuðnings sparisjóðunum sem eftir stóðu var ljóst að til beggja vona gat brugðið með gjaldfærni þeirra. Í ljósi þess sem að framan er rakið um aðdraganda viðskipta aðilanna hefur áfrýjanda ekki tekist sönnun um að við þessar aðstæður geti það hafa virst venjulegt eftir atvikum að breyta stórfelldri ógjaldfallinni skuld í innlán sem bundið var til umsamins gjalddaga skuldabréfanna. Að öllu framangreindu virtu er fullnægt skilyrðum 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991 til að rifta greiðslu sem fólst í kaupum stefnda á skuldabréfunum.
Stefndi krefst staðfestingar á því ákvæði hins áfrýjaða dóms að áfrýjanda beri að greiða sér 125.083.549 krónur með dráttarvöxtum frá 11. maí 2011 til greiðsludags. Samkvæmt 1. mgr. 142. gr. laga nr. 21/1991 skal sá sem hefur hag af riftanlegri ráðstöfun greiða þrotabúinu fé sem svarar til þess sem greiðsla þrotabúsins hefur komið honum að notum. Að framan er rakið að líta verður svo á að áfrýjandi hafi verið eigandi skuldabréfanna þegar stefndi innleysti þau og greiddi með því að leggja andvirðið inn á innlánsreikning áfrýjanda. Að því gættu eru engin rök til annars en að telja að sú greiðsla hafi komið áfrýjanda að fullum notum. Liggur raunar fyrir samkvæmt gögnum málsins að hann framseldi inneign sína á hinum bundna reikningi eftir að hafa fengið 20. apríl 2009 millifært inn á reikning sinn hjá Íslandsbanka hf. jafnháa fjárhæð og inneigninni nam. Að þessu gættu og með því að áfrýjandi hefur ekki með haldbærum rökum sýnt fram á að hér standi svo sérstaklega á að skilyrði séu til að beita undantekningarákvæði 145. gr. laga nr. 21/1991 verður varakröfu hans hafnað. Samkvæmt öllu framansögðu verður niðurstaða héraðsdóms staðfest.
Áfrýjanda verður gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Virðing hf., greiði stefnda, Byr sparisjóði, 600.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 17. maí 2013.
Mál
þetta, sem tekið var til dóms 6. maí sl., var höfðað 15. febrúar 2012.
Stefnandi er Byr
sparisjóður, Borgartúni 18, Reykjavík.
Stefndi er
Virðing hf., Digranesvegi 1, Kópavogi.
Af hálfu stefnanda eru gerðar eftirfarandi
dómkröfur:
Að rift verði með dómi uppgreiðslu
skuldabréfs í eigu stefnda, Virðingar hf., útgefið af stefnanda í flokki SPH
06/1, Isin nr. IS000012508, að nafnverði kr.
100.000.000,- sem fram fór með þeim hætti að uppreiknuðu verðmæti bréfsins að
fjárhæð kr. 125.083.549 var breytt í innlán stefnda hjá stefnanda, með
innborgun inn á innlánsreikning stefnda þann 21. apríl 2009.
Að stefnda verði gert að greiða
stefnanda, Byr sparisjóði, kr. 125.083.549,- ásamt innlánsvöxtum banka, sem
Seðlabankinn birtir á heimasíðu sinni á grundvelli 3. mgr. 10. gr. vaxtalaga
nr. 38/2001, sem voru 6,8 % ársvextir frá 21. apríl 2009 til 1. maí 2009, 2,4 %
ársvextir frá þeim degi til 1. júní 2009, 2 % ársvextir frá þeim degi til 1.
ágúst 2009, 1,6 % ársvextir frá þeim degi til 1. september 2009, 1,4 %
ársvextir frá þeim degi til 1. nóvember 2009, 1,3 % ársvextir frá þeim degi til
1. desember 2009, 0,9 % ársvextir frá þeim degi til 1. janúar 2010, 0,8 %
ársvextir frá þeim degi til 1. maí 2010, 0,6 % ársvextir frá þeim degi til 1.
júlí 2010, 0,4 % ársvextir frá þeim degi til 1. ágúst 2010, 0,3 % ársvextir frá
þeim degi til 1. október 2010, 0,2 % ársvextir frá þeim degi til 1. nóvember
2010, 0,1 % ársvextir frá þeim degi til 11. maí 2011, auk dráttarvaxta skv. 1.
mgr. 6. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 af kr. 125.083.549,- frá 11. maí 2011 til
greiðsludags.
Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr
hendi stefnda að mati dómsins.
Stefndi krefst aðallega sýknu af
kröfum stefnanda, en til vara krefst stefndi þess, verði honum gert að þola
riftun, að honum verði gert að endurgreiða stefnanda að hámarki 9.142.607
krónur.
Stefndi krefst málskostnaðar úr hendi
stefnanda að mati dómsins.
I.
Stefnandi lýsir málavöxtum svo að
þann 3. apríl 2006 hafi stjórn stefnanda samþykkt útgáfu á verðtryggðum
skuldabréfaflokki, SPH 06/1, að upphæð allt að 2.500.000.000 krónur. Bréfin
hafi verið gefin út þann 11. apríl 2006 og lokagjalddagi þeirra verið 15. júlí
2011.
Haustið 2008 hafi orðið hrun í
íslenska fjármálakerfinu. Gengi íslensku krónunnar hafði lækkað stöðugt í
nokkra mánuði fram á haustið. Í byrjun september 2008 hafi forstjóri
Fjármálaeftirlitsins varað við slæmri eiginfjárstöðu íslensku sparisjóðanna og
voru þar sérstaklega tilgreindir SPRON, Sparisjóður Mýrarsýslu, Sparisjóður
Keflavíkur og stefnandi, Byr sparisjóður. Í lok september 2008 hafi verið
tilkynnt að íslenska ríkið myndi eignast 75% hlutdeild í Glitni banka. Mikil
óvissa hafi verið uppi um framtíð og stöðu íslensk fjármálalífs.
Sparisjóðakerfið hafi þar ekki verið undanskilið, en í september og október
2008 hafi verið mikil umræða í
þjóðfélaginu um slæma eiginfjárstöðu íslensku sparisjóðanna og óvissa um
framtíð þeirra.
Með lögum nr. 125/2008 um heimild til
fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl.,
oft nefnd ,,neyðarlög“, hafi m.a. verið gerðar breytingar á lögum um
fjármálafyrirtæki nr. 161/2002, með síðari breytingum. Lögin hafi verið sett 6.
október 2008 og verið viðbrögð yfirvalda við slæmri fjárhagsstöðu íslenskra
fjármálafyrirtækja. Með 5. gr. laganna hafi nýrri grein, 100. gr. a, verið bætt
við lög nr. 161/2002, og mælti hún fyrir um víðtækar heimildir
Fjármálaeftirlitsins til afskipta og inngripa í starfsemi fjármálafyrirtækja.
Með 6. gr. laga áðurnefndra laga nr.
125/2008 hafi einnig svohljóðandi málsgrein verið bætt við 103. gr. laga um
fjármálafyrirtæki nr. 161/2002:
„Við skipti á búi fjármálafyrirtækis
njóta kröfur vegna innstæðna, samkvæmt lögum um innstæðutryggingar og
tryggingakerfi fyrir fjárfesta, rétthæðar skv. 1. mgr. 112. gr. laga um
gjaldþrotaskipti o.fl.“
Með gildistöku laga nr. 44/2009 hafi
102. og 103. gr. laga nr. 161/2002 verið breytt með þeim hætti að eftirfarandi
ákvæði sé nú í 3. mgr. 102. gr.:
,,Við slit fjármálafyrirtækis gilda sömu reglur og um rétthæð krafna á hendur
þrotabúi, en þó skulu kröfur um innstæður samkvæmt lögum um innstæðutryggingar
og tryggingakerfi fyrir fjárfesta jafnframt teljast til krafna sem njóta
rétthæðar skv. 1. og 2. mgr. 112. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. Að því
leyti sem rétthæð krafna getur ráðist samkvæmt þeim lögum af þeim tíma sem
úrskurður er kveðinn upp um að bú sé tekið til gjaldþrotaskipta skal miða á
sama hátt við úrskurð um að fjármálafyrirtæki sé tekið til slita.“
Löngu fyrir gjalddaga skuldabréfa úr
flokki SPH 06/01 eða þann 14. apríl 2009 hafi stefndi innleyst skuldabréf úr
ofangreindum flokki SPH 06/1 og hafi nafnverð hins innleysta bréfs verið
100.000.000 krónur. Uppreiknað verðmæti skuldabréfsins hafi verið alls að fjárhæð 125.085.986 krónur og hafi
stefndi fengið andvirðið greitt inn á innlánsreikning í sínu nafni nr.
1175-18-850782. Innstæða reikningsins skyldi vera bundin fram að gjalddaga
skuldabréfsins í júlí 2011. Vaxtakjörin á innlánsreikningnum hafi verið
breytilegir verðtryggðir innlánsvextir Byrs sparisjóðs sem voru í upphafi 7,25%
eða heldur hærri en vextirnir á skuldabréfinu sem voru 5% verðtryggðir vextir.
Skuldabréf það sem stefndi innleysti
hafi verið nafnbréf, sem var rafrænt skráð hjá Verðbréfaskráningu Íslands. Um
hafi verið að ræða vaxtakúlu, þar sem greiða átti árlegar vaxtagreiðslur og svo
höfuðstól auk vaxta á lokagjalddaga. Bréfið hafi átt að bera 5% vexti sem
greiðast skyldu af bréfunum þann 15. júlí ár hvert, fram að lokagjalddaga þann
15. júlí 2011. Fjárhæð bréfsins hafi verið bundin vísitölu neysluverðs. Engin
viðskiptavakt hafi verið á bréfunum, né uppgreiðsluheimild. Bréfið hafi ekki
verið selt áfram af hálfu stefnanda.
Þann 22. apríl 2010 hafi
Fjármálaeftirlitið skipað stefnanda bráðabirgðastjórn með heimild í 100. gr. a
laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002, sbr. 4. gr. laga nr. 44/2009. Störfum
bráðabirgðastjórnar hafi lokið þann 2. júlí 2010 er Héraðsdómur Reykjavíkur
skipaði stefnanda slitastjórn samkvæmt heimild í 4. mgr. 101. gr. laga nr.
161/2002, sbr. 5. gr. laga nr. 44/2009. Frestdagur í slitameðferð sparisjóðsins
hafi verið 16. júní 2009, sbr. 5. mgr. 101. gr. laga nr. 161/2002, sbr. 5. gr.
laga nr. 44/2009, en á þeim degi hafi Fjármálaeftirlitið veitt Byr sparisjóði
fyrst frest til að auka eiginfjárgrunn sinn að lágmarki skv. 84. gr. laga nr.
161/2002, sbr. 4. mgr. 86. gr. laganna. Upphafsdagur slitameðferðar sé 2. júlí
2010 og miðast við uppkvaðningu úrskurðar Héraðsdóms Reykjavíkur um skipun
slitastjórnar, sbr. 2. ml. 3. mgr. 102. gr. laga nr.
161/2002, sbr. 2. ml. 3. mgr. 6. gr. laga nr.
44/2009. Slitastjórnin hafi gefið út innköllun til skuldheimtumanna sem birtist
í fyrra sinn í Lögbirtingablaði 13. júlí 2010. Kröfulýsingarfrestur hafi runnið
út 13. október 2010. Í kjölfar skipunar slitastjórnar hafi slitastjórn látið
yfirfara ákveðin atriði úr bókhaldi sjóðsins og hafi þá komið í ljós færsla sú
sem leitast sé við að rifta í máli þessu.
Með bréfi slitastjórnar stefnanda
dagsettu 14. mars 2011 hafi stefnda verið tilkynnt um fyrirhugaða riftun á
áðurnefndri greiðslu til stefnda á grundvelli 134. gr. laga um gjaldþrotaskipti
nr. 21/1991.
Stefndi hafi svarað kröfum stefnanda
með bréfi dagsettu 24. mars 2011. Þar hafi stefndi haldið því fram að
riftunarkröfum stefnanda væri beint að röngum aðila. Kvaðst stefndi aldrei hafa
átt umrætt skuldabréf, heldur hafi hann verið að miðla bréfi sem var í eigu
Landsvaka hf. (NBI). Auk aðildarskorts hafi stefndi borið því við að viðskiptin
hefðu verið eðlileg á þeim tíma sem þau fóru fram og því ætti 134. gr. laga um
gjaldþrotaskipti ofl. nr. 21/1991, ekki við.
Slitastjórn stefnanda hafi ekki
fallist á sjónarmið stefnda og rift gerningnum gagnvart stefnda með bréfi dags.
11. apríl 2011.
Riftunarkröfu stefnanda hafi verið
hafnað af hálfu stefnda með bréfi dags. 18. apríl 2011.
Stefndi
kveður skorta á atvikalýsinguna í stefnu í veigamiklum atriðum er máli skipta
að mati stefnda. Stefndi sé fjármálafyrirtæki og hafi starfsleyfi sem
verðbréfafyrirtæki og verðbréfamiðlun samkvæmt 4. gr. laga nr. 161/2002 um
fjármálafyrirtæki. Starfsmaður í verðbréfamiðlun NBI hf. hafi haft samband við
starfsmann stefnda í byrjun mars 2009 og óskað eftir að hann leitaði að
kaupanda að skuldabréfum, þ. á m. skuldabréfi úr flokki SPH 06/01 að
höfuðstólsfjárhæð 100.000.000 krónur. Skuldabréfið muni hafa verið í eigu eins
af sjóðum Landsvaka. Starfsmaður verðbréfamiðlunar stefnda, Birgir Guðfinnsson,
hafi leitað eftir tilboðum í bréfin og hafi Ásta Friðriksdóttir sýnt bréfinu
áhuga fyrir hönd stefnanda, en hún var forstöðumaður fjárstýringar stefnanda. All nokkrir tölvupóstar og símtöl hafi átt sér stað á milli
Birgis og Ástu vegna viðskiptanna. Þá hafi átt sér stað samskipti Birgis við
starfsmenn NBI hf. og Landsvaka en þau hafi einkum farið fram í síma. Hafi m.a
komið þar fram sú vitneskja starfsmanns
NBI hf., að Byr væri að kaupa og falast eftir sambærilegum viðskiptum á
markaði, þ.e.a.s. Byr, sparisjóður hafi verið að kaupa skuldabréf, fyrir
gjalddaga þeirra, sem sparisjóðurinn hafði sjálfur gefið út.
Stefnandi
hafi gert kröfu um að greiðsla fyrir skuldabréfið yrði greidd með bundnu
innláni hjá stefnanda en seljandi hafi ekki viljað gangast undir þá skilmála.
Þó hafi verið ljóst að stefnandi var tilbúinn til að greiða hærra verð en
Landsvaki var tilbúinn til að sætta sig við. Birgir, forstöðumaður verðbréfamiðlunar
hafi ákveðið fyrir hönd stefnda að bjóðast til að taka á sig
innlánsskuldbindinguna gegn því að mismunur á kaupverði sem Landsvaki var
tilbúinn að sætta sig við og því sem stefnandi greiddi rynni til stefnda sem
þóknun fyrir að taka á sig bindingu innlánsins.
Stefndi hafi þannig miðlað bréfinu og greitt kaupverðið til seljanda að
frádreginni þóknun fyrir bindingu innlánsins, að fjárhæð 9.026.549 krónur, auk
þóknunar fyrir miðlun skuldabréfsins, að fjárhæð 116.058 krónur. Ekki hafi
verið vafi á að stefndi var að miðla skuldabréfinu og leysa úr málum, þannig að
viðskiptin gætu komist á, en ekki orðið eigandi þess.
Stefndi
hafi greitt söluandvirði skuldabréfsins, að frádreginni þóknun til NBI hf. af
innlánsreikningi sínum í Íslandsbanka hf., þann 14.4.2009. Ljóst hafi verið að
stefndi var ekki í stöðu til að binda þetta mikla fjármuni á
innlánsreikningi. Hann hafi því
framselt inneignina á bundna
innlánsreikningum til þriðja aðila er lagði andvirði reikningsins inn á
reikning stefnda í Íslandsbanka hf. þann 20.4.2009. Greiðsla af hendi stefnanda
hafi dregist af ókunnum ástæðum um nokkra daga en hún hafi verið greidd þann
21.4.2009. Í viðskiptakerfi stefnda hafi skuldabréfið verið skráð inn og út með
rúmlega klukkustundar millibili. Seljandi hafi verið skráður NBI hf. og
kaupandi Byr sparisjóður.
Stefndi
bendir á að í stefnu sé ýjað að því að stefnandi hafi tapað á viðskiptunum þar
sem skuldabréfið bar 5% vexti en innlánsreikningurinn 7,25% vexti. Þetta sé
ekki rétt framsetning þar sem skuldabréfið var keypt miðað við 10%
ávöxtunarkröfu sem þýðir að stefnandi var að hagnast umtalsvert á kaupunum og
að auki að bæta eiginfjárstöðu sína að sama marki. Umtalsvert minna hafi verið
greitt fyrir kröfuna en nam uppgreiðsluverðmæti hennar. Markaðsverðmæti
skuldabréfsins þegar viðskiptin fóru fram m.v. vexti þess hafi verið
137.607.000 krónur. Stefnandi hafi keypt bréfið á 125.083.549 krónur og því
hagnast um 12.523.451 krónu á viðskiptunum. Stefnandi hafi því haft augljósan
hag af viðskiptunum. Þá sé rétt að benda að á að það var forstöðumaður
fjárstýringar Byr, sparisjóðs sem stýrði ferðinni og tók ákvörðun um
viðskiptin. Bendi það eindregið til þess að viðskiptin hafi verið hluti af
fjárstýringu og jafnvel að hluta endurfjármögnunar sparisjóðsins.
II.
Stefnandi byggir málatilbúnað sinn á
meginreglum gjaldþrotaréttar, sbr. lög um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991 (gþl.) og að skilyrði fyrir riftun séu óumdeilanlega fyrir
hendi. Umbreyting á skuldabréfi stefnda í innlán hafi ekki verið í samræmi við
greiðslur til annarra kröfuhafa og falið því í sér mismunun á kröfuhöfum.
Riftunarkrafan sé einkum byggð á því
að riftun sé heimil með vísan til 134. gr. gþl., sbr.
4. mgr. 103. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki eins og henni var
breytt með 7. gr. laga nr. 44/2009.
Samkvæmt 134. gr. gþl. sé riftun heimil ef greitt var með óvenjulegum
greiðslueyri, fyrr en eðlilegt var eða greidd var fjárhæð sem hefur skert
greiðslugetu þrotamannsins verulega, nema greiðslan hafi virst venjuleg eftir
atvikum. Skilyrðin þrjú skv. 134. gr. séu sjálfstæð og nægi að einu
þeirra sé fullnægt svo riftun megi ná fram að ganga, allt að því gefnu, að
greiðslan réttlætist ekki af því, að hún sé þrátt fyrir allt, venjuleg eftir
atvikum.
Samkvæmt ákvæði 4. mgr. 103. gr. laga
um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002 megi slitastjórn fjármálafyrirtækis í
slitameðferð krefjast riftunar ráðstafana eftir sömu reglum og gilda um riftun
ráðstafana við gjaldþrotaskipti, ef sýnt sé að eignir fjármálafyrirtækis muni
ekki nægja til að efna skuldbindingar þess að fullu.
Stefnandi telji að hlutlægum
skilyrðum 134. gr. gþl. fyrir riftun sé fullnægt,
enda hafi greiðslan verið í óvenjulegum greiðslueyri auk þess sem greitt var
fyrr en eðlilegt var. Stefnandi telji einnig að skilyrðum 103. gr. laga nr.
161/2002 sé fullnægt og telji að eignir sjóðsins muni ekki duga fyrir
skuldbindingum hans.
Ákvæði 134. gr. gþl.
kveði á um að krefjast megi riftunar á greiðslu skuldar á síðustu sex mánuðum
fyrir frestdag. Frestdagur í slitameðferð sparisjóðsins hafi verið 16. júní
2009, sbr. 5. mgr. 101. gr. laga nr. 161/2002, sbr. 5. gr. laga nr. 44/2009, en
á þeim degi hafi Fjármálaeftirlitið fyrst veitt stefnanda frest til að auka
eiginfjárgrunn sinn að lágmarki skv. 84. gr. laga nr. 161/2002, sbr. 4. mgr.
86. gr. laganna, sjá dskj. 3. Uppreiknuðu verðmæti
bréfsins að fjárhæð 125.083.549 krónur hafi verið breytt í innlán stefnda hjá
stefnanda, með markaðspöntun stefnanda hjá Kauphöll Íslands dags. 14. apríl
2009 og innborgun inn á reikning stefnda þann 21. apríl 2009. Sé það u.þ.b.
tveimur mánuðum fyrir frestdag og því vel innan tímamarka ákvæðisins.
Stefnandi telji líka ljóst að um
greiðslu á skuld hafi verið að ræða, en ekki hefðbundin viðskipti með
skuldabréf. Engin eiginleg peningagreiðsla hafi farið fram heldur hafi kröfu
stefnda á stefnanda einungis verið breytt úr skuldabréfakröfu í innlán sem
færðist yfir á annan lögaðila Byr hf. í kjölfar ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins
þann 22. apríl 2010. Stefnandi telji að það sé meginregla fjármunaréttar að
krafa falli niður með því að réttindi og skyldur komist á sömu hendi. Geti þar
engu breytt þótt stefnandi hefði í kjölfar kaupa á slíku skuldabréfi getað
stofnað á nýjan leik til skuldar með því að selja það öðrum, sjá hér dóma
Hæstaréttar í málum nr. 162/2010 og 163/2010. Verði því að líta svo á að
stefnandi hafi með ofangreindum löggerningi verið að greiða skuld sína við
stefnda og sú greiðsla stríði gegn meginreglu um jafnræði kröfuhafa, sbr.
tilvitnað ákvæði gjaldþrotalaga.
Stefnandi byggi á því að stefndi hafi
fengið kröfu sína greidda með óvenjulegum greiðslueyri þegar hann fékk
skuldabréfakröfu sína greidda með innlánskröfu. Þessa greiðslu verði að skoða
með tilliti til aðstæðna á íslenskum fjármálamarkaði á þessum tíma og þeirra
lagabreytinga sem höfðu nýlega tekið gildi. Með 6. gr. laga nr. 125/2008 hafi
sem fyrr segir verið gerð sú breyting á lögum nr. 161/2002 að kröfur vegna
innstæðna hjá viðskiptabanka öðluðust forgangsstöðu í réttindaröð við slit
fjármálafyrirtækis, eða eftir atvikum nauðasamningsumleitanir þess eða
gjaldþrotaskipti á því, sbr. nú 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002, eins og
þeim var breytt með 6. gr. laga nr. 44/2009. Ennfremur hafði fjármálaráðherra
landsins á þessum tíma lýst því yfir að allar innstæður í íslenskum bönkum væru
með ríkisábyrgð.
Með innlausn áðurnefnds skuldabréfs
hafi skuldabréfakröfu, sem hefði notið rétthæðar skv. 113. gr. gþl., verið breytt í innlánskröfu sem nyti rétthæðar skv.
112. gr. gþl. ef kæmi til slitameðferðar stefnanda.
Með þessari ráðstöfun hafi líkur stefnda til að endurheimta upphaflega greiðslu
sína orðið mun betri en áður, þó stefnandi færi í slitameðferð
Skuldabréfið hafi ekki verið greitt
með peningagreiðslu með hefðbundnum hætti, heldur hafi stefndi fengið
innlánskröfu sem var bundin fram að gjalddaga skuldabréfsins. Þetta megi sjá
m.a. af tölvupóstum frá starfsmanni stefnanda til starfsmanns stefnda í
aðdraganda viðskiptanna. Þar segir m.a.:
,,SPH 06 1 ber 5% vexti en ég er að
reyna að þrýsta á mögulegan tvist í þessu verðtryggt/óverðtryggt.“
.....„Verðtryggt: NET 36 kjör skv. vaxtatöflu Byrs í dag 7,25 er að skoða
með bónus á vextina. Reikningurinn yrði bundinn til júlí 2011 eða fram að gjalddaga
SPH 06 1. Vaxtakjör reiknings miðast við vaxtatöflu Byrs hverju sinni.“
Ljóst hafi verið að fjárhagsstaða
stefnanda á þessum tíma var ekki góð. Í fréttatilkynningu stefnanda vegna
ársuppgjörs ársins 2008 sé árinu lýst sem erfiðasta rekstrarári í sögu
stefnanda. Afkoma stefnanda samkvæmt uppgjöri ársins 2008 hafi verið neikvæð um
35.833 m. kr. (fyrir skatta).
Þrátt fyrir ofangreint telji
stefnandi það ekki skipta höfuðmáli hvort stefndi hafi verið í góðri trú um
lögmæti umræddra viðskipta þegar þau fóru fram eða um fjárhagslega stöðu
stefnanda. Riftunarregla 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991 mæli eingöngu fyrir
um hlutlæg skilyrði riftunar. Ekki sé um það deilt að umrædd viðskipti
hafi átt sér stað innan síðustu sex mánaða fyrir frestdag við slitameðferð
varnaraðila. Ekki sé áskilið í lagagreininni að viðsemjandinn þurfi að
hafa haft einhverja tiltekna vitneskju um raunverulega fjárhagsstöðu
skuldarans. Peningar séu venjulegur greiðslueyrir í viðskiptum. Umrædd
krafa hafi ekki verið greidd með peningum heldur hafi henni verið breytt í
innlán. Ákvörðun um vexti á innlánsreikningnum hafi tekið mið af vöxtum
skuldabréfsins, og innstæðan verið
bundin fram að gjalddaga bréfsins. Að öðru leyti hafi ekkert uppgjör farið
fram. Sé því um óvenjulegan greiðslueyri að ræða, sjá hér dóma Hæstaréttar í
málum nr. 162/2010 og 163/2010.
Stefnandi telji einnig að umrædd
greiðsla hafi farið fram fyrr en eðlilegt var og sé því riftanleg skv. ákvæðum
134. gr. gþl.
Viðskiptin hafi farið þannig fram að
greitt var inn á innlánsreikning stefnda þann 21. apríl 2009, eða u.þ.b.
tveimur mánuðum fyrir frestdag sem er 16. júní 2009. Eins og fram komi hér að
framan var gjalddagi skuldabréfsins 3. júlí 2011 og engin uppgreiðsluheimild á
bréfunum. Engin trygging hafi verið fyrir því að virkur eftirmarkaður myndaðist
með skuldabréfin við skráningu og útgefandi hafi engar skyldur borið til að
tryggja að slíkur eftirmarkaður væri til staðar. Engin viðskiptavakt hafi heldur verið á bréfunum. Í ljósi þessa verð
að líta svo á að í skilningi 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991 hafi verið um að
ræða greiðslu á skuldabréfinu fyrr en eðlilegt var.
Stefnandi telji að greiðslan geti á
engan hátt talist venjuleg eftir atvikum. Venjuleg viðskipti með skuldabréf
felist í því að andvirði skuldabréfsins sé staðgreitt með peningum á gjalddaga
þess. Umræddri kröfu hafi hins vegar verið breytt í innlán. Þá hafi stefnanda
ekki borið að gegna hlutverki svonefnds viðskiptavaka skv. skilmálum
skuldabréfanna og því ekki tilefni til að ætla að bankinn hafi upphaflega ætlað
sér að eiga viðskipti með skuldabréfin. Þá hafi engin uppgreiðsluheimild verið
á bréfunum og því ljóst að ekki hafi heldur staðið til við útgáfu bréfanna að
stefnandi myndi greiða þau upp fyrr en á gjalddaga þeirra. Þá geti almennt
engan veginn talist venjuleg viðskipti að stórfelldri og ógjaldfallinni skuld
fjármálafyrirtækis samkvæmt skuldabréfi sé breytt í innlán, sem bundið sé til
umsamins gjalddaga skuldabréfsins.
Með tilliti til ofangreinds telji
stefnandi að umrædd viðskipti geti ekki talist venjuleg eftir atvikum, sbr. 1.
mgr. 134. gr. gþl.
Fram komi í ákvæði 4. mgr. 103. gr. laga nr. 161/2002 að ef
ekki sé sýnt að eignir fjármálafyrirtækis muni nægja til að efna skuldbindingar
þess að fullu megi krefjast riftunar eftir sömu reglum og gilda um riftun
ráðstafana við gjaldþrotaskipti.
Í slitameðferð stefnanda hafi verið
stofnað nýtt félag, Byr hf. Inn í það félag runnu allar eignir stefnanda. Á
móti eignunum hafi einnig fylgt inn í félagið innlánskröfur á stefnanda. Með
því að krafa stefnda á hendur Byrs sparisjóð breyttist úr skuldabréfakröfu yfir
í innlánskröfu, hafi verðmæti Byr hf. minnkað. Stefnandi hafi því fengið lægra
kaupverð fyrir hlut sinn, sem nam fjárhæð umræddrar innstæðukröfu. Eignir
þrotabúsins hafi því orðið minni heldur en ef umrædd krafa hefði haldist sem
skuldabréfakrafa.
Þessi eina eign stefnanda, 88,4%
hlutafé í Byr hf., hafi verið seld Íslandsbanka þann 23. nóvember 2011.
Söluverðið á hlut stefnanda hafi verið 5.834.000.000krónur, sbr. tilkynningu
slitastjórnar Byrs sparisjóðs til kröfuhafa sjóðsins. Lýstar kröfur til
slitastjórnar hafi alls numið 83.558.805.561 krónum. Þegar hafi verið
samþykktar kröfur að fjárhæð
55.546.405.917 krónur, en auk þess sé enn óleystur ágreiningur milli
slitastjórnar og kröfuhafa um hluta lýstra krafna. Sé því ljóst að eignir
stefnanda muni ekki duga fyrir skuldbindingum hans.
Með hliðsjón af öllu ofangreindu
byggi stefnandi á því að umræddur gerningur sé riftanlegur með vísan til 1.
mgr. 134. gr. l. 21/1991, sbr. 4. mgr. 103. gr. laga nr. 161/2002.
Riftunarkrafa stefnanda byggi einnig
á 1. mgr. 137. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 4. mgr. 103. gr. laga nr. 161/2002
eins og henni var breytt með 7. gr. laga nr. 44/2009.
Riftunarkrafa stefnanda sé einnig
sjálfstætt byggð á 1. mgr. 137. gr. laga nr. 21/1991. Sé á því byggt að
með umræddum viðskiptum hafi stefndi fengið tryggingarréttindi fyrir kröfu
sinni á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag en ekki um leið og stofnað hafi
verið til skuldarinnar.
Stefnandi telji að þau viðskipti sem
hér um ræðir hafi í reynd ekki snúist um annað en að bæta stöðu stefnda
gagnvart öðrum kröfuhöfum stefnanda. Með því að breyta kröfu stefnda úr
skuldabréfskröfu í innlánskröfu hafi stefndi verið færður upp fyrir aðra
kröfuhafa sem annars hefðu verið með hliðstæðar kröfur á hendur stefnanda.
Telji stefnandi að þarna hafi stefndi fengið sérstök tryggingarréttindi fyrir
kröfu sem annars hefði verið ótryggð, en ákvæði 1. mgr. 137. gr. laga nr.
21/1991 sé einmitt sett til að tryggja réttarstöðu kröfuhafa sem annars myndu
sitja eftir. Ef fallist sé á riftun ráðstöfunarinnar sé stefnda samt sem áður
fært að koma kröfu sinni að við skiptin, sbr. 143. gr. gþl.
og njóta þannig jafnrar stöðu við aðra kröfuhafa sem hafa jafnréttháar kröfur.
Hlutverk riftunarreglna laga um gjaldþrotaskipti ofl.
sé að tryggja enn frekar að markmið laganna um jafnræði kröfuhafa við úthlutun
eigna búsins náist. Þær geri þrotabúinu kleift að ónýta með afturvirkum hætti
ráðstafanir sem gerðar hafa verið og mismuna kröfuhöfum. Jafnræði kröfuhafa
hafi verið raskað með ofangreindum löggerningi og yrði leiðrétt með riftun
hans. Stefnandi telji að skilyrði 137. gr. gþl. séu
uppfyllt og að fallast beri á riftunarkröfu stefnanda.
Endurgreiðslukrafa stefnanda, sbr.
142. gr. laga um gjaldþrotaskipti ofl. nr. 21/1991,
sbr. 4. mgr. 103. gr. laga nr. 161/2002 eins og henni var breytt með 7. gr. laga nr. 44/2009.
Fram
komi í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 21/1991 að ef riftun fer fram með stoð í
131.138. gr. laganna skuli sá sem hafði hag af riftanlegri ráðstöfun eða fullnustugerð
greiða þrotabúinu fé sem svaritil þess sem greiðsla
þrotamannsins hafi orðið honum að notum, þó ekki hærri fjárhæð en sem nemitjóni þrotabúsins. Hafi hann fengið peninga greidda eða
hafi greiðsla þrotamannsins verið seld og greiðsla fengist fyrir hana í
peningum skipti notkun peninganna engu um kröfu þrotabúsins. Ef ljóst sé að
viðsemjanda hafi verið kunnugt um riftanleika ráðstöfunarinnar skuli þó dæma
hann til greiðslu tjónsbóta.
Stefnandi telji að skýra beri ákvæðið
svo að stefnda beri að endurgreiða stefnanda höfuðstól kröfunnar ásamt
innlánsvöxtum skv. 4. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá því stefndi fékk greiðsluna
inn á bankareikning sinn þann 21. apríl 2009 og fram til 11. maí 2011 og
dráttarvexti skv. 1. mgr. 6. gr. vxl. frá þeim degi
til greiðsludags.
Á grundvelli 1. mgr. 142. gr. l.
21/1991 þá krefjist stefnandi innlánsvaxta á kröfu sína sbr. innlánsvexti sem
Seðlabankinn birtir á heimasíðu sinni á grundvelli 3. mgr. 10. gr. vaxtalaga
nr. 38/2001 og þar til krafan beri dráttarvexti vegna riftunar þrotabúsins. Að
öðrum kosti verði stefndi fyrir óréttmætri auðgun sem nemi þeim vöxtum sem
falla til á því tímabili. Ef riftunarþoli þyrfti ekki að greiða vexti af slíkri
endurgreiðslukröfu myndi hreinlega borga sig fyrir aðila í viðskiptum að taka
við riftanlegum greiðslum og geyma inni á bankabók. Slík túlkun væri ekki í
samræmi við megintilgang laganna eða orðalag ákvæðisins í 142. gr. l. 21/1991.
Um innlánsvexti sé einnig vísað til dómafordæma Hæstaréttar Íslands sbr. dóma
479/1990 (1993:2292) og 219/1988 (1990:409).
Telji stefnandi því ljóst að stefnda
ber að endurgreiða 125.083.549 krónu auk vaxta skv. 4. gr. vxl.
frá 21. apríl 2009 til 11. maí 2011, og dráttarvöxtum frá 11. maí 2011 til
greiðsludags, en samkvæmt 3. mgr. 5. gr. vaxtalaga eigi stefnandi rétt á
dráttarvöxtum á kröfuna frá og með 11. maí 2011, en þá sé mánuður liðinn frá
því stefnandi krafði stefnda um greiðslu, sbr. bréf dags. 11. apríl 2011.
Kröfu sína skv. 1. tl. dómkrafna um riftun á greiðslu reisir stefnandi á
ákvæðum XX. kafla laga um gjaldþrotaskipti ofl. nr.
21/1991, aðallega 134. gr. en einnig á 137. gr. laganna, sbr. 4. mgr. 103. gr.
laga nr. 161/2002 eins og henni var breytt með 7. gr. laga nr. 44/2009.
Krafa um fjárgreiðslu skv. 2. tölulið
dómkrafna er reist á ákvæðum XX. kafla laga nr. 21/1991, einkum 142. gr. þeirra
laga.
Kröfur sínar um innlánsvexti byggir
stefnandi á XX. kafla laga nr. 21/1991, einkum 142. gr. laganna, 3. gr.
vaxtalaga nr. 38/2001, sbr. 4. mgr. 10. gr. sömu laga en sú grein vísar m.a.
til innlánsvaxta banka eins og Seðlabankinn birtir þá á heimasíðu sinni (sjá
vaxtatöflu sbr. dskj. nr. 29). Upphafsdagur vaxta er stofndagur kröfunnar,
sbr. 3. gr. vaxtalaga nr. 38/2001.
Kröfur sínar um dráttarvexti styður
stefnandi við ákvæði III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001, einkum 1. mgr. 6. gr.
laganna, en upphafsdagur dráttarvaxta styðst við 3. mgr. 5. gr. laganna.
Umræddri ráðstöfun var rift með bréfi 11. apríl 2011 og stefndi var þá krafinn
um greiðslu kröfunnar. Dráttarvextir reiknast frá 11. maí 2011 sem er sá dagur
þegar liðinn er mánuður frá því að kröfuhafi sannanlega krafði skuldara um
greiðslu.
Varðandi kröfu um málskostnað vísar
stefnandi til 129. gr. og 130. gr. l. nr. 91/1991 og ákvæða 21. kafla laga nr.
91/1991 um meðferð einkamála og laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt, en
stefnandi er ekki virðisaukaskattsskyldur aðili.
Um fyrirsvar slitastjórnar vísar
stefnandi til 4. mgr. 101. gr. og 103. gr. laga um fjármálafyrirtæki nr.
161/2002, sbr. XIX kafla laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti ofl.
Varnarþing í umdæmi Héraðsdóms
Reykjaness styðst við 33. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Um málshöfðunarfrest vísast til 103.
gr. laga nr. 161/2002, sbr. 148. gr. laga nr. 21/1991, en fresturinn er 24
mánuðir frá því kröfulýsingarfrestur vegna slitameðferðar stefnanda rann út
þann 13. október 2010.
III.
Stefndi
byggir kröfu sýna um sýknu í fyrsta lagi á aðildarskorti. Stefndi sé
fjármálafyrirtæki sem rekur verðbréfamiðlun. Eins og gerð hafi verið grein
fyrir í lýsingu á málsatvikum hafi verðbréfamiðlun stefnda miðlað því bréfi sem
keypt var af stefnanda og andvirðið verið greitt inn á bankareikning stefnda.
Stefndi hafi ráðstafað kaupverðinu að frádreginni þóknun til eiganda
bréfsins(kröfuhafa) NBI hf., sem hafði óskað eftir sölu skuldabréfsins.
Samkvæmt
1. mgr. 134. gr. laga um gjaldþrotaskipti nr. 21/1991(gþl),
sem málatilbúnaður stefnanda sé einkum reistur á, megi krefjast riftunar á
greiðslu skuldar á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag að nánar tilgreindum
skilyrðum uppfylltum. Þar sem um riftun á greiðslu skuldar sé að ræða þurfi að
beina riftunarkröfu að kröfuhafanum en ekki verðbréfamiðlun eins og gert sé í
þessu máli.
Hið
sama megi segja um ákvæði 1. mgr. 137.
gr. laganna sem stefnandi byggi einnig á í málinu. Í ákvæðinu sé fjallað um
riftun á veðrétti eða öðrum tryggingarréttindum sem kröfuhafi fékk á síðustu
sex mánuðum fyrir frestdag. Samkvæmt
ákvæðinu þurfi riftunarkrafa að beinast að kröfuhafanum.
Ljóst
sé að kröfugerð og málatilbúnaður stefnanda í þessu máli beinist gegn
verðbréfamiðlun er annaðist milligöngu um viðskipti með skuldabréf. Kröfum um
riftun á viðskiptunum verði ekki beint að verðbréfamiðluninni heldur verði hún
að beinast að kröfuhafanum sem fékk skuldabréf sitt greitt. Stefnandi hafi ekki
greitt stefnda skuld heldur hafi hann greitt til stefndanda
andvirði skuldabréfs sem hann keypti og stefndi tekið á móti greiðslunni og
miðlað áfram til seljanda, kröfuhafans, að frádreginni þóknun.
Viðskipti
þau sem um sé þrætt í þessu máli hafi farið í gegnum verðbréfamiðlun stefnda
eins og hver önnur verðbréfaviðskipti. Skuldabréfið hafi farið inn á
verðbréfareikning og út aftur innan viðskiptadagsins. Stefnanda beri að sanna
að stefndi hafi verið eigandi og þar með kröfuhafi skuldabréfsins og að
stefnandi hafi greitt honum skuld enda sé það grundvallaratriði í málinu að
réttum aðila sé stefnt. Þetta hafi stefnandi ekki gert og séu engin gögn í
málinu sem benda til annars en að stefndi hafi miðlað skuldabréfinu og greitt
andvirðið til kröfuhafans að frádreginni þóknun. Sýkna beri því stefnda vegna
aðildarskorts, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Verði
talið að stefndi sé réttur aðili að þessu máli styður hann sýknukröfu sína í
öðru lagi á því að skilyrðum þeirra ákvæða gþl., er
stefnandi byggir málatilbúnað sinn á, sé ekki fullnægt. Þrátt fyrir að byggt sé á hlutlægum
riftunarreglum verði að túlka þær með hliðsjón af þeim megintilgangi
riftunarreglnanna að koma í veg fyrir að ráðstafanir sem gerðar eru í þeim
tilgangi að mismuna kröfuhöfum nái fram að ganga. Hvorki aðilar þessa máls né
seljandi skuldabréfsins hafi komið að viðskiptunum í þeim tilgangi að bæta hag
eins kröfuhafa á kostnað annarra. Tilgangur viðskiptanna fyrir alla
hlutaðeigandi hafi verið sá að hafa hag af þeim á þeim tíma sem þau áttu sér
stað.
Samkvæmt
134. gr. gþl. megi krefjast riftunar á greiðslu
skuldar á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag ef greitt var með óvenjulegum
greiðslueyri, fyrr en eðlilegt var eða greidd var fjárhæð sem skert hafi
greiðslugetu þrotamannsins verulega, nema greiðslan hafi virst venjuleg eftir
atvikum. Eins og áður greinir hafi stefndi ekki verið eigandi skuldabréfsins í
flokki SPH 06 á hendur stefnanda og því geti greiðsla þess til hans ekki talist
greiðsla skuldar. Verði litið svo á að stefndi hafi eignast skuldabréfið og
tekið við greiðslunni sem slíkur þá sé skilyrðinu um greiðslu skuldar ekki
heldur fullnægt því um viðskipti með skuldabréf hafi verið að ræða sem
stefnandi keypti á 10% ávöxtunarkröfu og gat hæglega selt áfram á öðru verði.
Skuldabréfið hafi því ekki verið uppgert við kaupin og hafi því ekki verið um
greiðslu skuldar að ræða í skilningi ákvæðis 1. mgr. 134. gþl.
Í
stefnu sé á því byggt að stefndi hafi fengið kröfu sína greidda með óvenjulegum
greiðslueyri þegar hann fékk skuldabréfið greitt með innlánskröfu. Því sé
haldið fram af stefnanda að greiðsla inn á innlánsreikning sé ekki
peningagreiðsla. Ekki sé rökstutt nánar hvað sé óvenjulegt við þessa
greiðsluaðferð. Staðreyndin sé sú að öll viðskipti af þessu tagi fara fram með
greiðslu inn á innlánsreikninga. Það sé því ekkert óvenjulegt við það að
greiðslan hafi farið fram með millifærslu á innlánsreikning. Greiðslueyrir sé
íslenskar krónur lagðar inn á innlánsreikning í íslenskum krónum. Það sem
kannski sé óvenjulegt sé að lagt er inn á innlánsreikning þar sem innistæðan er
bundin í tiltekinn tíma. Það í sjálfu sér geri greiðslueyrinn sjálfan ekki
óvenjulegan. Ekki sé heldur á því byggt í stefnu að sú staðreynd að innistæðan
á innlánsreikningnum sé bundin í tiltekin tíma geri greiðslueyrinn óvenjulegan
heldur sé aðeins á því byggt að óvenjulegt sé að leggja greiðsluna inn á
innlánsreikning. Það sé fjarstæða og nær undantekningalaust að greiðslur fari
fram með þessum hætti enda kalli greiðslur með reiðufé á víðtækar rannsóknir í
samræmi við ákvæði laga nr. 64/2006 um aðgerðir gegn peningaþvætti og
fjármögnun hryðjuverka. Hvort sú staðreynd að peningainnistæðan á
innlánsreikningnum var bundin um tiltekinn tíma teljist óvenjuleg skipti því
ekki máli hér, þar sem ekki sé á því byggt, en þó svo væri verði að horfa til
aðstæðna er uppi voru á þeim tíma sem viðskiptin fóru fram. Þegar viðskiptin
fóru fram hafi innlánsstofnanir keppst við að fá sem mest innlán til sín og
boðið betri kjör eftir því sem innlánin voru bundin lengur. Þetta hafi ekki
aðeins átt við stefndanda heldur íslenskar
bankastofnanir almennt. Það hafi því ekkert óvenjulegt verið við það á þessum
tíma að binda innlán eins og gert var í þessum viðskiptum.
Í
stefnu sé á því byggt að greitt hafi verið fyrr en eðlilegt var í skilningi
ákvæðis 1. mgr. 134. gr. gþl. Eins og fram komi hér
að framan hafi verið um kaup á skuldabréfi að ræða en ekki greiðslu þess til
kröfuhafa. Skuldabréfið hafi verið keypt m.v. ákveðna ávöxtunarkröfu en ekki
m.v. uppgreiðslustöðu þess. Í ljósi þess að stefnandi fékk verulegan afslátt af
kröfunni með því að kaupa skuldabréfið fyrir gjalddaga verði greiðslan að
teljast eðlileg þrátt fyrir að hún hafi farið fram fyrir gjalddaga. Þá hafi
greiðslan verið eðlilegur liður í fjárstýringu stefnanda enda hafi það verið
forstöðumaður fjárstýringar hans sem stóð að kaupunum á skuldabréfinu.
Ofangreindar ástæður réttlæti greiðsluna á þeim tíma sem hún fór fram og verði
hún alls ekki talin óeðlileg af þeim sökum.
Þá sé
sú málsástæða stefnanda að greitt hafi verið fyrr en eðlilegt var illa rökstudd
og ekki ljóst af framsetningu hennar af hverju hann telji greiðslu hafa farið
fram fyrr en eðlilegt var. Af þeim sökum verði að telja rökstuðninginn svo
óljósan að einnig þess vegna sé ekki unnt að fallast á málsástæðuna.
Verði
litið svo á að stefndi hafi eignast skuldabréfið, fengið það greitt og verði
fallist á að greitt hafi verið með óvenjulegum greiðslueyri eða greiðsla hafi
farið fram fyrr en eðlilegt var, þá sé ekki unnt að rifta greiðslunni ef hún
teljist hafa verið venjuleg eftir atvikum. Stefndi byggi á því að greiðslan
hafi verið venjuleg eftir atvikum, sbr. ákvæði þess efnis í 1. mgr. 134. gr. gþl. Þegar atvik séu skoðuð komi í ljós að um venjuleg
viðskipti var að ræða.
Megintilgangur
riftunarreglna gþl. sé að auka jafnræði milli
kröfuhafa og leiðrétta óeðlilegar ráðstafanir. Ætlunin sé þannig að koma í veg
fyrir að skuldarinn bregðist kröfuhöfum þegar honum er ljóst að fjárhagurinn er
að bresta. Þá sé tilgangurinn að koma í veg fyrir að kröfuhafar þvingi fram
greiðslur þegar fjárhagur skuldara er að bresta. Tilgangurinn og þau
varnaðaráhrif sem riftunarreglum sé ætlað að hafa leiði til þess að
riftunarreglum eigi ekki að beita gegn ráðstöfunum sem þrátt fyrir allt séu
eftir atvikum venjulegar. Miðað hafi verið við það að greiðslur sem greiddar
hafa verið án þess að það sé vegna aðsteðjandi fjárhagsvandræðum skuldara
teljist venjulegar eftir aðstæðum.
Í þeim
viðskiptum sem hér eru til umfjöllunar sé það einmitt svo að greiðslan var
venjuleg miðað við þær aðstæður sem uppi voru. Ákvörðun um viðskiptin hafi af
öllum sem að þeim komu verið tekin út frá viðskiptalegum forsendum. Stefndi
hafi fengið fullvissu um það frá stefnanda að svo væri og að fjárhagur hans
væri tryggur. Meðal annars sé að finna yfirlýsingu af forsíðu heimasíðu
Viðskiptaráðuneytisins frá 21. mars 2009, þar sem fram komi að gripið hafi
verið inn í starfsemi SPRON og Sparisjóðabankans en gripið hafi verið til
aðgerða til að treysta rekstur Byrs og fleiri sparisjóða. Þá sé að finna
tilkynningu er birt var á heimasíðu Byrs, sparisjóðs 21. mars 2009 þar sem fram
komi að aðgerðir stjórnvalda hafi engin áhrif á viðskiptavini og rekstur Byrs
og sé sérstaklega áréttað að lausafjárstaða sjóðsins sé góð og
eiginfjárhlutfall innan tilskilinna marka. Í fréttatilkynningu frá Byr,
sparisjóði, dags. 8. apríl 2009 komi fram að náðst hafi samkomulag við erlenda
lánardrottna sparisjóðsins. Sparisjóðurinn hafi unnið mikinn sigur.
Áður
hafi verið gerð grein fyrir því að stefnandi hagnaðist um 12.523.451 krónu á
viðskiptunum og því eðlilegt að hann vildi kaupa skuldabréfið á því góða verði
sem bauðst. Mikil samkeppni hafi verið um innlán á þessum tíma á milli banka og
sparisjóða og því eðlilegt að stefnandi vildi binda greiðslu fyrir innlánið í
innláni hjá sér og gert það að skilyrði fyrir kaupunum af sinni hálfu. Miklu
skipti hér að tilgangurinn með hinu bundna innláni hafði ekkert með fjárhagsstöðu
stefnanda að gera á þessum tíma og þaðan af síður að nokkur sem að viðskiptunum
kom væri að velta fyrir sér stöðu krafna við hugsanleg gjaldþrotaskipti
stefnanda. Dómskjöl nr. 34 og 35 beri því skýrt merki að aðilar töldu
fjárhagsstöðu stefnanda sterka og að ekki væri hætta á gjaldþroti. Mikil
áhersla hafi verið lögð á þetta í símtölum milli starfsmanns stefnanda og
starfsmanns stefnda er önnuðust viðskiptin.
Umbjóðandi
NBI hf., Landsvaki, eigandi skuldabréfsins hafi verið að gera upp sjóði sína og
selja eignir þeirra eins hratt og honum var unnt. Hann hafi því verið tilbúinn
til að selja skuldabréfið á hárri ávöxtunarkröfu en ekki taka á sig innlán af
þeirri ástæðu að hann þurfti fjármunina til að geta gert sjóðinn upp. Ef hann
hefði verið að hugsa um að bæta stöðu sína gagnvart öðrum kröfuhöfum hefði hann
vart sett fyrir sig að taka við bundna innláninu. Forsendur viðskiptanna hafi
því verið allt aðrar og fullkomlega
eðlilegar.
Stefndi
hafi haft milligöngu um viðskiptin. Hann hafi enga kröfu átt á hendur stefnanda
en haft hag af því að koma viðskiptunum á. Hann hafi fengið þóknun fyrir
miðlunina sjálfa og fengið að auki þóknun fyrir að takast á hendur hið bundna
innlán. Augljóst sé að það er eðlilegt að verðbréfamiðlun sé tilbúin að hagnast
á að koma á viðskiptum um kaup og sölu verðbréfa. Stefndi hafi leitt saman
aðila sem vildu eiga viðskipti en skilyrði um að greitt yrði með bundnu innláni
hafi ekki reynst hafi aðgengileg fyrir seljanda. Stefndi hafi leyst hnútinn
gegn greiðslu þóknunar sem fólst í mismun á þeirri fjárhæð sem kaupandinn var
tilbúinn til að greiða og þeirri fjárhæð er seljandinn var tilbúinn til að
sætta sig við fyrir skuldabréfið. Augljóst sé að stefndi var ekki að bæta stöðu
sína gagnvart öðrum kröfuhöfum við hugsanleg gjaldþrotaskipti stefnanda við
miðlun skuldabréfsins, þar sem hann átti ekki kröfu á hendur stefnanda áður en
gengið var til viðskiptanna.
Samkvæmt
framangreindu hafi viðskiptin verið eðlileg eftir atvikum í skilningi 1. mgr.
134. gr. gþl. enda hafi allir sem af þeim komu haft
hag af þeim á þeim tíma sem þau fóru fram og fengið þá niðurstöðu sem þeir
óskuðu eftir. Viðskiptin hefðu farið fram á sama tíma og með sama hætti þótt
fjárhagsvandræði stefnanda hefðu ekki komið til. Raunar hafi fjárhagsvandræði
stefnanda virst að baki þegar viðskiptin fóru fram þannig að þau voru ekki
hvati viðskiptanna. Þau hafi því verið eðlileg eftir atvikum og sé því ekki
unnt að rifta greiðslum vegna þeirra eins og stefnandi krefjist.
Ef
litið verði svo á að greitt hafi verið með óvenjulegum greiðslueyri í
viðskiptunum þá sé ljóst auk þess er að framan greinir að það voru ekki
fjárhagsvandræði stefnanda sem réðu þar baggamuninn. Þess vegna eigi
undantekningarregla 1. mgr. 134. gr. gþl. við.
Verði
litið svo á að greitt hafi verið fyrr en eðlilegt var þá hafi það verið
venjulegt eftir atvikum þar sem stefnandi mat aðstæður svo að hann hagnaðist á
því að kaupa skuldabréfið þegar í stað enda hafi hann fengið af því verulegan
afslátt. Þó að vextir af innlánsreikningnum væru hærri en af láninu sjálfu hafi
heildarniðurstaða viðskiptanna verið hagstæð fyrir stefnanda og ekki verði
horft fram hjá því að fjármunir af bundnum innlánum eru fjármunir sem stefnandi
gat endurlánað á jafnvel enn hærri vöxtum til þriðja aðila. Viðskiptin hafi því
verið mjög hagkvæm fyrir stefnanda.
Samkvæmt
ofangreindu hafi greiðsla stefnanda verið eðlileg eftir atvikum og verði henni
því ekki rift með stoð í riftunarreglu 1. mgr. 134. gr. gþl.
Stefnandi
byggi í stefnu sjálfstætt á 137. gr. gþl. Í þessu felist sú þversögn að með því að
byggja á 137. gr. gþl. sé stefnandi jafnframt að
halda því fram að ekkert mark sé takandi á riftunarkröfu hans á grundvelli 134.
gr. gþl. 134.
gr. gþl. byggi á því að skuld hafi verið greidd en
137. gr. gþl. að trygging hafi verið veitt fyrir skuld
án þess að hún hafi verið greidd. Með þessum ruglingi sé málatilbúnaður
stefnanda kominn í algert öngstræti. Málatilbúnaðurinn sé þannig að erfitt er
fyrir stefnda að átta sig á því á hvaða staðreyndum stefnandi byggir í raun. Í málavaxtalýsingu og málatilbúnaði öllum sé
byggt á því af hálfu stefnanda, að skuld samkvæmt skuldabréfi í flokki SPH 06
hafi verið greidd en hér sé öllu snúið á hvolf og sagt að svo sé ekki og vísað
til 137. gr. gþl. og því haldið fram að veitt hafi
verið trygging fyrir skuldinni. Afar óljóst sé hvernig stefnandi telji ákvæðið
geta átt við viðskiptin og verði stefnandi að bera hallann af því. Ákvæði 137.
gr. geti ekki átt við í þessu máli. Engin tryggingarráðstöfun hafi farið fram
til að tryggja greiðslu skuldabréfsins í skilningi ákvæðisins. Greiðsla fyrir
andvirði skuldabréfsins hafi verið lögð inn á innlánsreikning og fólst ekki
trygging í því fyrir kröfuhafa bréfsins enda hafi stefnandi eftir viðskiptin
verið sjálfur orðinn eigandi skuldabréfsins og þar með kröfuhafi. Inneign á
innlánsreikningi við hugsanleg skipti á búi stefnanda í framtíðinni geti ekki
talist til tryggingarréttinda í skilningi ákvæðisins enda sé um
peningainnistæðu að ræða sem heimilt hafi verið að taka út af reikningnum að
tilteknum tíma liðnum. Jafnvel þó litið væri svo á að um tryggingarréttindi
væri að ræða þá stofnist þau um leið og fjármunirnir eru lagðir inn á
reikninginn og því um leið og stofnað er til skuldbindingarinnar. Ákvæðið eigi
því ekki við um þau atvik sem uppi eru í þessu máli.
Þá eigi
hin meintu tryggingarréttindi undir 112. gr. GÞL og séu því ekki
tryggingarréttindi í lagalegum skilningi enda eigi slík réttindi undir 111. gr.
gþl. Staða innlána við gjaldþrotaskipti verði ekki
túlkuð með rúmri skýringu þannig að þau verði talin tryggingarréttindi í
skilningi gþl.. Ákvæði riftunarreglna gþl. beri að skýra þröngt þar sem um íþyngjandi lagareglur
sé að ræða.
Þau
tryggingarréttindi sem 137. gr. taki til séu réttindi eða eign sem þrotamaður
afhendir móttakanda með formlegum hætti til að tryggja kröfu sem áður hefur
verið stofnað til. Slíkt sé ekki uppi á teningnum hér þar sem trygging
innistæðna byggi á lögum og séu ekki réttindi sem þrotamaður geti
ráðstafað. Ennfremur af þessari ástæðu
geti staða innistæðna á innlánsreikningi ekki fallið undir 137. gr. gþl.
Varakrafa
stefnda varði endurgreiðslukröfu stefnanda. Ef stefnda verði gert að sæta
riftun að kröfu stefnanda krefjist stefndi þess að honum verði ekki gert að
endurgreiða stefnda 125.083.549 krónur auk vaxta eins og stefnandi krefst
heldur að hámarki 9.142.607 krónur. Það
sé meginregla við riftun að sá sem ráðstöfunar naut eigi að greiða búinu fé, að
því leyti, sem greiðsla skuldara kom honum að notum. Hann eigi því að verða
eins settur fjárhagslega og ráðstöfunin hefði aldrei átt sér stað. Stefnandi hafi greitt til stefnda 125.083.549
til greiðslu fyrir skuldabréfið SPH 06 að höfuðstól 100.000.000 krónur. Stefndi hafi greitt til NBI hf., seljanda
skuldabréfsins, 115.941.642 krónur. Mismunurinn 9.142.607 krónur hafi verið
ráðstafað til greiðslu þóknunar stefnda, annars vegar fyrir miðlun
skuldabréfsins 116.058 krónur og hins vegar fyrir að taka á sig hið bundna
innlán 9.026.549 krónur. Stefndi hafi þannig aðeins notið 9.142.607 króna af
greiðslunni.
Varakröfu
sína byggir stefndi á 142. og 145. gr. gþl..
Samkvæmt
1. mgr. 142. gr. gþl. skal sá sem hafði hag af
riftanlegri ráðstöfun greiða þrotabúinu fé sem svarar til þess sem greiðsla
þrotamannsins hefur orðið honum að notum. Samkvæmt því sem greint sé frá hér að
framan hafi greiðslan komið stefnda að notum sem nemi 9.142.607 krónum, en að
öðru leiti hafi greiðsla stefnanda runnið til umboðsmanns eiganda
skuldabréfsins NBI hf., sem hafi ráðstafað fjármununum áfram til seljanda
bréfsins Landsvaka.
Þær
hlutlægu riftunarreglur sem byggt sé á í málinu séu undantekningarreglur í
íslenskum rétti og séu ekki skaðabótareglur. Sannað sé hvaða fjárhæð kom í hlut
stefnda í viðskiptunum og verði hann ekki gerður ábyrgur fyrir hærri fjárhæð en
sem því nemur.
Rétt sé
að nefna í þessu sambandi að í stefnu heldur stefndandi
því fram að skuldabréfið hafi ekki verið greitt með peningum heldur með
bundinni innlánskröfu, sem hann teli ekki vera ígildi
peningagreiðslu. Komi því ákvæði 2. ml. 1. mgr. 142. gr. gþl.um
riftun afhendingar á peningum ekki til skoðunar í þessu sambandi. komi hins
vegar ákvæði 2. ml. 1. mgr. 142. gr. gþl.til skoðunar í málinu ,beri að líta til þess að sannað
er að greiðslur og afhending skuldabréfs er fram fóru voru einn löggerningur og
hver þáttur hans háður öðrum til að af viðskiptunum gæti orðið. Það liggi því
ljóst fyrir hver fjárhæð varð eftir hjá stefnda eftir að viðskiptin voru um
garð gengin. Sönnunarvandkvæði eða óvissa séu því ekki til staðar hvað það
varðar og því eigi ákvæði 2. ml. 1. mgr. 142. gr.
ekki við einnig af þeirri ástæðu.
Með
vísan til ákvæðis 142. gr. gþl. verði stefnda því að
hámarki gert að endurgreiða stefnanda 9.142.607 krónur verði fallist á
riftunarkröfu hans.
Með
sömu rökum sé ekki unnt að fallast á vaxtakröfu stefnanda. Stefndi hafi engra innlánsvaxta notið, þar
sem hann framseldi innlánsreikninginn til þriðja aðila. Þá verði stefndi ekki
dæmdur til greiðslu dráttarvaxta þar sem fjárhæð kröfu stefnanda hafi frá
upphafi verið langt umfram það sem gæti orðið niðurstaða málsins og því ekki um
annað að ræða fyrir stefnda en að hafna greiðslu.
Stefndi
byggi varakröfu sína einnig á ákvæði 145. gr. gþl.. Í
ákvæðinu segir að ef sérstaklega standi á megi lækka eða fella niður kröfu á
þann sem hafði hag af ráðstöfun eða fullnustugerð ef greiðsla kröfunnar væri
svo miklum erfiðleikum bundin að ósanngjarnt megi teljast og önnur atvik leiði
til þess sama. Ljóst sé af málavöxtum
öllum að full endurgreiðsla eins og stefnandi gerir kröfu um kæmi
sérstaklega hart niður á stefnda og væri verulegum erfiðleikum bundin. Mun
meira en allt handbært fé hans færi til að endurgreiða fjármuni sem hann hefur
ekki nema að litlum hluta notið vegna riftunar á grundvelli harkalegra
hlutlægra riftunarreglna. Handbært fé stefnda 8. maí 2012 hafi verið 46.144.230
krónur og inneign í sjóði sem unnt sé að innleysa með eins dags fyrirvara hafi
verið 30.000.000 krónur. Samtals
handbært fé stefnda hafi því verið er greinargerð þessi er skrifuð 76.144.230
krónur. Miðað við fjárhagsstöðu stefnda væri því afar þungbært fyrir hann að
fjármagna greiðslu þeirrar fjárhæðar er stefnandi krefst.
Stefndi
hafi verið fullvissaður um að fjárhagsstaða stefnanda væri traust þegar
viðskiptin fóru fram og því verið grandlaus um að gjaldþrot gæti vofað yfir.
Hið sama megi segja um stefnanda sjálfan sem taldi sig hafa fullvissu fyrir því
að fjárhag sínum væri borgið. Auðgun
stefnda hafi verið að fjárhæð 9.142.607 krónur. Það væri í hróplegu ósamræmi
við tilgang riftunarreglna gjaldþrotalaga og bersýnilega ósanngjarnt að dæma
stefnda til að greiða 125.083.549 krónur við þessar aðstæður. Af kröfuskrá í
málinu megi ljóst vera að kröfuhafar í bú stefnanda eru einkum stórar
fjármálastofnanir bæði innlendar og erlendar og lífeyrissjóðir. Það væru þessir
aðilar sem nytu góðs af endurgreiðslu stefnda, þar sem fyrir liggi að búið eigi
fyrir greiðslu á öllum lýstum forgangskröfum. Þá sé fjárhæðin smávægileg borin
saman við samþykktar almennar kröfur í bú stefnanda. Öll önnur atvik málsins
leið því til þess sama, þ.e. að ósanngjarnt verði að teljast að gera stefnda að
endurgreiða stefnanda hærri fjárhæð en þá sem hann bar úr bítum í viðskiptunum.
Stefndi
ítreki rétt sinn samkvæmt 143. gr. GÞL ef honum verð gert að sæta endurgreiðslu
til stefnanda að einhverju eða öllu leyti.
Stefndi
byggir kröfur sínar einkum á 134., 137., 142, 143. og 145 gr. laga nr. 21/1991
um gjaldþrotaskipti. Krafa um
málskostnað er reist á 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og
krafa um virðisaukaskatt af málskostnaði á lögum nr. 50/1988.
IV.
Við
aðalmeðferð málsins gáfu skýrslur Brynjólfur Þór Gylfason, Birgir Guðfinnsson
og Ásta Friðriksdóttir.
Samkvæmt gögnum málsins samþykkti
stjórn stefnanda þann 3. apríl 2006 útgáfu á verðtryggðum skuldabréfaflokki,
SPH 06/1, að upphæð allt að 2.500.000.000 krónur. Bréfin voru gefin út þann 11.
apríl 2006 og var lokagjalddagi þeirra 15. júlí 2011.
Skuldabréf það sem stefndi innleysti
var úr framangreindum skuldabréfaflokki. Það var nafnbréf, sem var rafrænt
skráð hjá Verðbréfaskráningu Íslands. Um var að ræða vaxtakúlu, þar sem greiða
átti árlegar vaxtagreiðslur og svo höfuðstól auk vaxta á lokagjalddaga. Bréfið
átti að bera 5% vexti sem greiðast skyldu af bréfunum þann 15. júlí ár hvert,
fram að lokagjalddaga þann 15. júlí 2011. Fjárhæð bréfsins var bundin vísitölu
neysluverðs. Á bréfunum var hvorki viðskiptavakt né uppgreiðsluheimild. Bréfið
var ekki selt áfram af hálfu stefnanda.
Eins og að framan getur varð hrun í
íslenska fjármálakerfinu haustið 2008. Gengi íslensku krónunnar lækkaði stöðugt
í nokkra mánuði fram á haustið. Í byrjun september 2008 varaði forstjóri
Fjármálaeftirlitsins við slæmri eiginfjárstöðu íslensku sparisjóðanna og
tilgreindi þar sérstaklega SPRON, Sparisjóð Mýrarsýslu, Sparisjóð Keflavíkur og
stefnanda, Byr sparisjóð.
Með lögum nr. 125/2008 um heimild til
fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl.,
oft nefnd ,,neyðarlög“, voru m.a. gerðar breytingar á lögum um
fjármálafyrirtæki nr. 161/2002, með síðari breytingum. Lögin voru sett 6.
október 2008 og voru þau viðbrögð yfirvalda við slæmri fjárhagsstöðu íslenskra
fjármálafyrirtækja. Með 5. gr. laganna var nýrri grein, 100. gr. a, bætt við
lög nr. 161/2002, og mælti hún fyrir um víðtækar heimildir Fjármálaeftirlitsins
til afskipta og inngripa í starfsemi fjármálafyrirtækja.
Með 6. gr. laga laga nr. 125/2008 var
bætt við 103. gr. laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002 þeim nýmælum að kröfur
samkvæmt lögum nr. 98/1999 um innistæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir
fjárfesta skyldu njóta rétthæðar samkvæmt 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 við
„skipti á búi fjármálafyrirtækja“.
Með gildistöku laga nr. 44/2009 var
102. og 103. gr. laga nr. 161/2002 breytt með þeim hætti að eftirfarandi ákvæði
er nú í 3. mgr. 102. gr.: ,,Við slit fjármálafyrirtækis gilda sömu reglur og um
rétthæð krafna á hendur þrotabúi, en þó skulu kröfur um innstæður samkvæmt
lögum um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta jafnframt teljast
til krafna sem njóta rétthæðar skv. 1. og 2. mgr. 112. gr. laga um
gjaldþrotaskipti o.fl. Að því leyti sem rétthæð krafna getur ráðist samkvæmt
þeim lögum af þeim tíma sem úrskurður er kveðinn upp um að bú sé tekið til
gjaldþrotaskipta skal miða á sama hátt við úrskurð um að fjármálafyrirtæki sé
tekið til slita.“
Fyrir gjalddaga skuldabréfa úr flokki
SPH 06/01 eða þann 14. apríl 2009 var af hálfu stefnda innleyst skuldabréf úr
ofangreindum flokki SPH 06/1 og var nafnverð hins innleysta bréfs 100.000.000
krónur. Uppreiknað verðmæti skuldabréfsins var alls að fjárhæð 125.085.986
krónur og fékk stefndi andvirðið greitt inn á innlánsreikning í sínu nafni nr.
1175-18-850782. Innstæða reikningsins skyldi vera bundin fram að gjalddaga
skuldabréfsins í júlí 2011. Vaxtakjörin á innlánsreikningnum voru breytilegir
verðtryggðir innlánsvextir Byrs sparisjóðs sem voru í upphafi 7,25% eða heldur
hærri en vextirnir á skuldabréfinu sem voru 5% verðtryggðir vextir.
Stefndi
byggir sýknukröfu sína í fyrsta lagi á aðildarskorti. Stefndi sé
fjármálafyrirtæki sem reki verðbréfamiðlun. Verðbréfamiðlun stefnda hafi miðlað
því bréfi sem keypt var af stefnanda og hafi andvirðið verið greitt inn á
bankareikning stefnda. Stefndi hafi ráðstafað kaupverðinu að frádreginni þóknun
til eiganda bréfsins, NBI hf., sem hafði óskað eftir sölu þess. Stefnandi hafi
gert kröfu um að greiðsla fyrir skuldabréfið yrði greidd með bundnu innláni hjá
stefnanda en seljandi hafi ekki viljað gangast undir þá skilmála. Stefndi hafi
ákveðið að bjóðast til að taka á sig innlánsskuldbindinguna gegn því að
mismunur á kaupverði sem Landsvaki var tilbúinn að sætta sig við og því sem
stefnandi greiddi rynni til stefnda sem þóknun fyrir að taka á sig bindingu
innlánsins. Stefndi hafi þannig miðlað bréfinu og greitt kaupverðið til
seljanda að frádreginni þóknun fyrir bindingu innlánsins, að fjárhæð 9.026.549
krónur auk þóknunar fyrir miðlun skuldabréfsins, að fjárhæð 116.058 krónur.
Ekki hafi verið vafi á að stefndi var að
miðla skuldabréfinu og leysa úr málum, þannig að viðskiptin gætu komist á, en
ekki orðið eigandi þess. Stefndi hafi greitt söluandvirði skuldabréfsins, að
frádreginni þóknun til NBI hf. af innlánsreikningi sínum í Íslandsbanka hf.,
þann 14.4.2009. Ljóst hafi verið að stefndi var ekki í stöðu til að binda þetta
mikla fjármuni á innlánsreikningi. Hann hafi því framselt inneignina á bundna innlánsreikningum til
þriðja aðila er lagði andvirði reikningsins inn á reikning stefnda í
Íslandsbanka hf. þann 20.4.2009.
Greiðsla af hendi stefnanda hafi dregist af ókunnum ástæðum um nokkra
daga en hún hafi verið greidd þann 21.4.2009. Í viðskiptakerfi stefnda hafi
skuldabréfið verið skráð inn og út með rúmlega klukkustundar millibili.
Seljandi hafi verið skráður NBI hf. og kaupandi Byr sparisjóður.
Þessum
málsástæðum stefnda hefur verið mótmælt af hálfu stefnanda og að því vikið í
munnlegum málflutningi að stefndi hafi alltaf komið fram gagnvart stefnanda sem
eigandi umrædds skuldabréfs en ekki sem miðlari. Stefndi hafi sjálfur orðið að
leysa til sín skuldabréfið svo af viðskiptum við stefnanda gæti orðið. Stefndi
hafi ekki getað ráðstafað kaupverðinu frá stefnanda til NBI sökum þess að það
var bundið í innláni en stefnandi hafi greitt söluverðið inn á bundinn
innlánsreikning stefnda. Fram komi og í greinargerð stefnda að hann viðurkenni
að hafa keypt skuldabréfið sjálfur og greitt það út af innlánsreikningi sínum í
Íslandsbanka þann 14. apríl 2009. Stefndi hafi því keypt skuldabréfið þann 14.
apríl 2009 og greitt seljanda það sama dag, en stefnandi hafi ekki keypt
skuldabréfið af stefnda, sem þá var orðinn eigandi þess fyrr en 21. apríl sama
ár. Af hálfu stefnanda var vikið að fleiri atriðum sem renndu stoðum undir það
að stefndi hafi komið fram sem eigandi bréfsins gagnvart stefnanda, m.a. hafi
stefndi keypt bréfið af NBI hf. fyrir 115.941.642 krónur en selt stefnanda
bréfið fyrir 125.083.549 krónur og hagnast um 9.141.907 krónur, en það bendi
til stöðutöku (eigin viðskipta) en ekki miðlunar. Sé um þóknun að ræða þá hafi
hún verið 7,9% en þóknun stefnda vegna miðlunar svona skuldabréfa hafi verið
0,6% samkvæmt gjaldskrá. Þá hafi stefnandi ekki greitt neina þóknun en það
bendi til þess að ekki hafi verið um miðlun að ræða.
Þegar til allra atvika er litið svo
og hvernig umræddum viðskiptum var háttað, verður að hafna þeirri málsástæðu
stefnda að hann teljist hafa komið fram sem miðlari viðskiptanna en ekki sem
kröfuhafi þess skuldabréfs sem umrædd viðskipti snerust um. Að mati réttarins
þykir ekki vafa undirorpið að stefndi kom að viðskiptunum sem eigandi
skuldabréfsins gagnvart stefnanda. Verður því þegar af þessum ástæðum að hafna
sýknukröfu stefnda á grundvelli aðildarskorts.
Í fjármunarétti er það meginregla að
krafa falli niður með því að réttindi og skyldur komist á sömu hendi. Í dómi
Hæstaréttar Íslands frá 16. apríl 2010 í máli nr. E-162/2010 segir um þetta í
tilviki þar sem gert hafði verið ráð fyrir að málsaðili kynni að eiga viðskipti
með skuldabréf sem hann hafði sjálfur gefið út: „Þrátt fyrir þessa ráðagerð
stendur engin haldbær réttarheimild til að víkja við þessar aðstæður frá þeirri
meginreglu fjármunaréttar að krafa falli niður með því að réttindi og skyldur
komist á sömu hendi og getur það engu breytt þótt varnaraðili hefði í kjölfar
kaupa á slíku skuldabréfi getað stofnað á nýjan leik til skuldar með því að
selja það öðrum“. Í dómnum var litið svo á að varnaraðili í málinu sem um var
að ræða hefði greitt kröfu sóknaraðila á hendur sér án tillits til þess að í skiptum
þeirra hafi orðum verið hagað þannig að varnaraðili hafi keypt skuldabréfið sem
hann hafði gefið út. Þetta átti sér stað fyrir gjalddaga allrar skuldarinnar og
var talið að þessi varnaraðili hefði greitt skuld sína við sóknaraðila fyrr en
eðlilegt væri í skilningi 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991. Með vísan til
þessara röksemda í dómnum, verður að fallast á þá málsástæðu stefnanda að
stefnandi hafi verið að greiða stefnda skuld með innlausn umrædds skuldabréfs
sem stefnandi hafði gefið út og að þá skuld hafi stefnandi einnig greitt fyrr
en eðlilegt var í skilningi 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991.
Stefnandi innleysti umrætt
ógjaldfallið skuldabréf sem hann hafði gefið út, gegn því að kaupverðið yrði
bundið innlán hjá sér fram að lokagjalddaga bréfsins. Með innlausn
framangreinds skuldabréfs var kröfu sem hefði notið rétthæðar samkvæmt 113. gr.
laga nr. 21/1991 breytt í innlánskröfu sem nýtur rétthæðar 112. gr. sömu laga
ef til slitameðferðar stefnanda kæmi. Með ráðstöfuninni urðu líkur stefnda á að
endurheimta kröfu sína meiri en áður, þó stefndi færi í slitameðferð.
Þá ber að fallast á það að geti ekki
talist venjulegt að hárri ógjaldfallinni skuld eins og skuldinni samkvæmt
skuldabréfinu hafi eins og aðstæður voru verið breytt í innlán, sem bundið var
til umsamins gjalddaga skuldabréfsins.
Ráðstafanir málsaðila, sem voru
gerðar innan sex mánaða fyrir frestdag við slit stefnanda, teljast hafa miðað
að því að stefndi fengi forgangsrétt gagnvart hliðsettum lánardrottnum, sem
hann hefði ella ekki notið. Verður því að telja að stefndi hafi fengið skuld
samkvæmt umræddu skuldabréfi greidda með óvenjulegum greiðslueyri.
Að mati réttarins eru ekki skilyrði
til að fallast þá málsástæðu stefnda að greiðslan teljist engu að síður hafa
verið venjuleg eftir atvikum, þrátt fyrir að hún hafi verið innt af hendi með
óvenjulegum greiðslueyri, fyrr en eðlilegt var og að með greiðslunni hafi
hagsmunum annarra kröfu hafa verið raskað,
Að framangreindu virtu þykir fullnægt
skilyrðum 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991 til að rifta greiðslu, sem fólst í
kaupum stefnanda á því skuldabréfi sem hér um ræðir og þykja því ekki efni til
að fjalla um það hvort skilyrði riftunar samkvæmt 1. mgr. 137. gr. laga nr.
21/1991 séu fyrir hendi.
Samkvæmt 142.
gr. laga nr. 21/1991 skal sá sem hefur hag af riftanlegri ráðstöfun greiða
þrotabúinu fé sem svarar til þess sem greiðsla þrotamannsins hefur orðið honum
að notum. Ágreiningur er um fjárhæð kröfu stefnanda og krefst stefndi þess í
varakröfu sinni að honum verði einungis gert að greiða stefnanda 9.142.607
krónur verði honum gert að þola riftun. Þá byggir stefndi lækkunarkröfu sína
einnig 145. gr. sömu laga. Þar segir að ef sérstaklega standi á megi lækka eða
fella niður kröfu á þann sem hafði hag af ráðstöfun ef greiðsla kröfunnar væri
svo miklum erfiðleikum bundin að ósanngjarnt megi teljast og önnur atvik leiði
til þess sama. Stefndi hefur vísað til
fjárhagslegrar stöðu stefnda í þessu sambandi. Þrátt fyrir það þykir stefndi að
mati dómsins ekki hafa sýnt fram á með haldbærum gögnum að svo standi
sérstaklega á í þessu máli að skilyrði séu til að beita undantekningarákvæði
þessu.
Að öllu því
virtu sem nú hefur verið rakið verður að fallast á það með stefnanda að
eðlilegt sé að miða fjárkröfuna á hendur stefnda við þá fjárhæð sem stefnandi
lagði inn á hinn bundna innlánsreikning stefnda. Sú fjárhæð þykir svara til
þess sem greiðslan kom stefnda að notum. Hann fékk greitt skuldabréf, sem hefði
notið rétthæðar sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 við
slitameðferð á búi stefnanda, með bundnum innlánsreikningi sem hefði notið
rétthæðar samkvæmt 1. mgr. 112. gr. sömu laga við slitameðferðina. Samkvæmt
þessu verður að taka fjárkröfu stefnanda til greina.
Kröfu stefnda
um ársvexti af kröfunni samkvæmt 3. mgr. 10. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og
verðtryggingu er hafnað með vísan til dómafordæma, en á hinn bóginn þykir rétt
að krafan beri dráttarvexti frá 11. maí 2011, en þá var liðinn mánuður frá því
að stefnandi lýsti yfir riftun á umræddri ráðstöfun og krafði stefnda um
greiðslu hennar, sbr. 3. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001.
Eftir þessum
úrslitun verður stefnda gert að greiða stefnanda málskostnað sem þykir hæfilega
ákveðinn 800.000 krónur. Hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts
af málflutningsþóknun.
Finnbogi H.
Alexandersson héraðsdómari kveður dóminn upp.
Dómsorð:
Staðfest er
riftun á uppgreiðslu skuldabréfs í eigu stefnanda, Virðingar hf., útgefnu af
stefnanda í flokki SPH 06/1, Isin nr. IS000012508, að
nafnverði 100.000.000 krónur, sem fram fór með þeim hætti að uppreiknuðu
verðmæti bréfsins, 125.083.549 krónum, var breytt í innlán stefnda hjá
stefnanda, með innborgun inn á innlánsreikning stefnda þann 21. apríl 2009.
Stefndi
greiði stefnanda 125.083.549 krónur
með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og
verðtryggingu frá 11. maí 2011 til greiðsludags.
Stefndi greiði stefnanda 800.000 krónur í málskostnað.