Hæstiréttur íslands
Mál nr. 199/2003
Lykilorð
- Bifreið
- Líkamstjón
- Örorka
- Miski
- Skaðabætur
- Uppgjör
|
|
Fimmtudaginn 4. desember 2003. |
|
Nr. 199/2003. |
Sigrún Guðjónsdóttir og Vátryggingafélag Íslands hf. (Hákon Árnason hrl.) gegn Jóni Sveinssyni (Gylfi Thorlacius hrl.) |
Bifreiðir. Líkamstjón. Örorka. Miski. Skaðabætur. Uppgjör.
J varð fyrir slysi árið 1996 og viðurkenndu S og V bótaskyldu vegna þess. Gekk J án fyrirvara til fullnaðaruppgjörs bóta á árinu 1999 á grundvelli matsgerðar dómkvaddra manna sem töldu varanlegan miska hans 15% en varanlega örorku 20%. Á árinu 2000 taldi J sýnt að hann hefði orðið fyrir frekari skaða vegna slyssins og tókst af því tilefni samkomulag með aðilum um að leita til matsmanna að nýju. Töldu matsmenn að varanlegur miski J væri 20% og varanleg örorka hans 25% og að hið aukna tjón mætti rekja til slyssins. Krafðist J endurákvörðunar bóta á grundvelli 11. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Lagði héraðsdómur fyrrgreinda niðurstöðu matsmannanna til grundvallar og tók kröfu J til greina. Í dómi Hæstaréttar var talið að þar sem S og V leituðu ekki yfirmats yrði að staðfesta þá niðurstöðu héraðsdómara að J hefði sýnt fram á að hið aukna tjón hans yrði rakið til umrædds slyss. Hins vegar var talið að sá varanlegi miski og sú varanlega örorka, sem J teldist nú hafa orðið fyrir væri minni en svo að líta mætti þannig á að miskastig hans og örorkustig væri verulega hærra en áður hefði verið talið í skilningi 11. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Voru því ekki talin skilyrði til að taka upp að nýju ákvörðun skaðabóta vegna tjóns J af slysinu og voru S og V sýknuð af kröfu hans í málinu.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Garðar Gíslason og Pétur Kr. Hafstein.
Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 26. maí 2003. Þau krefjast sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I.
Samkvæmt gögnum málsins ók stefndi að kvöldi 3. apríl 1996 bifreið í eigu áfrýjandans Sigrúnar Guðjónsdóttur austur eftir þjóðvegi nr. 1. Í námunda við Sandskeið missti hann stjórn á bifreiðinni í hálku með þeim afleiðingum að hún fór út af veginum og valt. Hann var fluttur eftir slysið á Sjúkrahús Reykjavíkur, þar sem hann kvaðst finna fyrir verk og stirðleika í öxl og brjóstkassa hægra megin. Við læknisskoðun kom fram að hann væri að auki með væg eymsli vinstra megin í hálsvöðvum og hafi hlotið rifbeinsbrot. Hann var útskrifaður af sjúkrahúsinu daginn eftir.
Við endurkomu stefnda á sjúkrahúsið 12. apríl 1996 var tekin röntgenmynd af hægri öxl, sem leiddi í ljós tognunaráverka, og var honum vísað í sjúkraþjálfun. Af henni varð ekki árangur og var gerð segulómrannsókn á öxlinni 16. ágúst 1996. Í framhaldi af því gekkst stefndi undir sams konar rannsókn á vinstri öxl 14. nóvember 1996, þar sem bæklunarlæknir, sem annaðist hann, taldi hann kunna að hafa fengið áverka á báðar axlir í slysinu. Niðurstaða þeirrar rannsóknar varð sú að um slitbreytingar væri að ræða á vinstri öxlinni. Að þessu fram komnu var gerð liðspeglun á hægri öxl stefnda 3. desember 1996. Ekki fékkst bati af þessu og gekkst hann undir skurðaðgerð 9. maí 1997, þar sem liðþófi í hægri axlarhyrnulið var fjarlægður ásamt enda á hægra viðbeini. Vegna alls þessa mun stefndi hafa verið um 42 vikur frá vinnu sem lögreglumaður á Keflavíkurflugvelli á tímabilinu frá slysdegi fram í september 1997.
Stefndi leitaði í janúar 1998 eftir mati örorkunefndar á varanlegum miska sínum og varanlegri örorku vegna slyssins. Í álitsgerð nefndarinnar 13. apríl 1999 var talið að áverkar á hægri öxl ásamt óþægindum frá baki og hálsi hafi valdið stefnda 15% varanlegum miska og 12% varanlegri örorku. Þeirri niðurstöðu vildi hann ekki una og fékk 26. júlí 1999 dómkvadda þrjá menn til að meta tjón sitt. Í matsgerð 18. október sama ár var gengið út frá því að einkenni stefnda af áverkum, sem hann hlaut í slysinu, væru þau sömu og örorkunefnd lagði til grundvallar samkvæmt framansögðu, en jafnframt var þó vísað til þess að hann hafi fljótlega eftir slysið fundið fyrir verkjum í vinstri axlarlið, sem hafi verið vægari en í hægri axlarlið og einkum lýst sér sem stirðleiki og óþægindi í liðnum. Einnig hefði stefndi óþægindi vinstra megin í hálsi, en allt þetta töldu matsmenn mega rekja til slyssins. Mátu þeir varanlegan miska stefnda 15%, en varanlega örorku 20%.
Að fenginni þessari matsgerð gengu stefndi og áfrýjandinn Vátryggingafélag Íslands hf. til uppgjörs á skaðabótum á grundvelli hennar. Greiddi félagið stefnda samtals 4.544.619 krónur að meðtöldum vöxtum og kostnaði í tvennu lagi 29. október og 22. desember 1999, sem hann tók við án fyrirvara og sem fullnaðargreiðslu bóta vegna slyssins.
Stefndi leitaði aftur til læknis í ágúst 2000 vegna eymsla í vinstri öxl. Læknisskoðun leiddi í ljós einkenni um axlarklemmu og óþægindi yfir vinstri axlarhyrnulið. Af þessum sökum gekkst stefndi undir skurðaðgerð á öxlinni 23. október 2000, sem af gögnum málsins virðist hafa verið sambærileg og áðurnefnd aðgerð á hægri öxl í maí 1997. Stefndi taldi að rekja mætti þetta til meiðsla, sem hann varð fyrir í slysinu 3. apríl 1996, og leitaði því 30. júlí 2001 eftir endurupptöku málsins fyrir örorkunefnd til fá mat á varanlegum miska og varanlegri örorku, sem af þessu leiddi. Í álitsgerð 25. september 2001 hafnaði nefndin að taka upp fyrra mat sitt, þar sem hún taldi „útilokað að einkenni sem vísað er til í endurupptökubeiðni þessari séu afleiðingar slyssins 3. apríl 1996.“ Með samkomulagi við áfrýjendur leitaði stefndi 13. mars 2002 eftir því að tveir þeirra manna, sem dómkvaddir voru til að gera matsgerðina frá 18. október 1999, læknarnir Stefán Yngvason og Torfi Magnússon, legðu mat á það hvort einkenni í vinstri öxl hans yrðu rakin til slyssins, svo og hver miski hans og örorka væri af þessum sökum til viðbótar því, sem áður hafði verið metið. Í matsgerð 30. apríl 2002 komust matsmennirnir að þeirri niðurstöðu að varanlegur miski og varanleg örorka stefnda væri vegna einkenna í vinstri öxl 5% hærri en samkvæmt fyrri matsgerðinni og mætti rekja þetta til meiðsla, sem stefndi hlaut í slysinu.
Með bréfi 13. maí 2002 krafði stefndi áfrýjandann Vátryggingafélag Íslands hf. um greiðslu bóta á grundvelli síðastnefndrar matsgerðar. Þessu hafnaði áfrýjandinn og höfðaði þá stefndi mál þetta 26. júní 2002 til heimtu skaðabóta að fjárhæð 991.264 krónur, svo sem sundurliðað er í hinum áfrýjaða dómi. Í málinu er hvorki deilt um ábyrgð áfrýjenda á tjóni stefnda, sem rekja megi til slyssins, né um fjárhæð kröfu hans.
II.
Í málinu liggur fyrir að stefndi gekkst ekki undir læknisskoðun á vegum örorkunefndar áður en hún komst að áðurgreindri niðurstöðu í álitsgerð 25. september 2001 um að einkenni, sem þá höfðu komið fram í vinstri öxl hans, yrðu ekki rakin til meiðsla, sem hann varð fyrir í slysinu 3. apríl 1996. Aðilar málsins komu sér saman um að tveimur af þremur matsmönnum, sem áður höfðu verið dómkvaddir til að leggja mat á líkamstjón stefnda, yrði falið að taka upp störf sín á ný og leggja mat á þetta atriði ásamt því að meta varanlegan miska og varanlega örorku hans, sem teldist stafa af þessu. Áðurnefndir læknar, sem tóku að sér þennan starfa, töldu nægilega sýnt að einkenni í vinstri öxl stefnda ættu rætur að rekja til slyssins, eins og komið hafði einnig fram að nokkru í upphaflegu matsgerðinni frá 18. október 1999. Þetta álit staðfestu læknarnir í skýrslum, sem þeir gáfu við aðalmeðferð málsins í héraði. Þessu hafa áfrýjendur ekki hnekkt með yfirmati. Verður því að staðfesta þá niðurstöðu héraðsdómara að stefndi hafi sýnt fram á að tjónið, sem hann krefst nú skaðabóta fyrir, verði rakið til umrædds slyss.
Samkvæmt því, sem áður greinir, var lækni, sem annaðist stefnda, kunnugt um það haustið 1996 að hann teldi sig hafa orðið fyrir meiðslum á báðum öxlum í slysinu 3. apríl sama ár. Í vottorðum þessa læknis frá 10. janúar 1997, 12. ágúst 1997 og 7. janúar 1998 var vikið að einkennum, sem stefndi fyndi fyrir í vinstri öxl, þótt meginefni vottorðanna hafi varðað meiðslin í hægri öxl hans. Að þessu var einnig vikið í matsgerð dómkvaddra manna 18. október 1999. Af læknisfræðilegum gögnum, sem liggja fyrir í málinu, verður ekki skýrlega ráðið hvort sú þróun, sem varð á meini í vinstri öxl stefnda eftir áðurnefnt uppgjör skaðabóta á árinu 1999, hafi á þeim tíma mátt vera fyrirsjáanleg. Á hinn bóginn verður ekki litið fram hjá því að sá varanlegi miski og sú varanlega örorka, sem stefnda hefur nú verið metin vegna meiðsla á vinstri öxl, er minni en svo að líta megi þannig á að miskastig hans og örorkustig sé verulega hærra en áður var talið í skilningi 11. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, sbr. dóm Hæstaréttar 22. maí 2003 í máli nr. 514/2002. Er því ekki fullnægt skilyrðum þess lagaákvæðis til að taka upp að nýju ákvörðun skaðabóta vegna tjóns stefnda af slysinu 3. apríl 1996.
Af þeim sökum, sem að framan greinir, verða áfrýjendur sýknuð af kröfu stefnda, en rétt er að aðilarnir beri hvert sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Áfrýjendur, Sigrún Guðjónsdóttir og Vátryggingafélag Íslands hf., eru sýkn af kröfu stefnda, Jóns Sveinssonar.
Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 29. apríl 2003.
Mál þetta, sem dómtekið var 25. apríl sl., er höfðað með stefnu birtri 26. júní 2002.
Stefnandi er Jón Sveinsson, Freyjuvöllum 14 Keflavík
Stefndu eru Sigrún Guðjónsdóttir, Freyjuvöllum 14, Keflavík, og Vátryggingafélag Íslands hf., Ármúla 3, Reykjavík.
Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndu verði in solidum dæmd til að greiða stefnanda 991.264 krónur auk vaxta skv. 16. gr. skaðabótalaga frá 3. apríl 1996 til 13. júní 2002 en af þeirri fjárhæð með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 13. júní 2002 til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar.
Dómkröfur stefnda eru þær að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og honum dæmdur málskostnaður.
MÁLSATVIK
Stefnandi höfðar mál þetta vegna líkamstjóns sem hann hlaut í bifreiðaslysi þann 3. apríl 1996. Stefnandi var ökumaður bifreiðar sem valt á Suðurlandsvegi við Sandskeið. Eigandi bifreiðarinnar var stefnda, Sigrún, og var hún skylduvátryggð hjá stefnda, Vátryggingafélagi Íslands hf. Í kjölfar slyssins var stefnandi til læknismeðferðar vegna einkenna, aðallega frá baki, hálsi og hægri öxl. Örorkunefnd skilaði álitsgerð þann 13. apríl 1999 þar sem stefnandi var metinn með 15% varanlegan miska og 12% varanlega örorku. Stefnandi vildi ekki una þeirri niðurstöðu og voru því dómkvaddir þrír matsmenn til að meta afleiðingar slyssins fyrir stefnanda. Matsmennirnir, þeir Stefán Yngvason læknir, Torfi Magnússon læknir og Þorgeir Örlygsson lögfræðingur, skiluðu matsgerð þann 18. október 1999 þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að varanlegur miski stefnanda væri 15% og varanleg örorka 20%. Niðurstaðan var fyrst og fremst byggð á einkennum sem stefnandi hafði við skoðun frá hægri öxl, hálsi og baki. Hið stefnda félag og lögmaður stefnanda gengu síðan til uppgjörs málsins á grundvelli matsgerðar hinna dómkvöddu matsmanna.
Tæpu ári eftir að gengið hafði verið frá uppgjöri skaðabóta vegna slyssins ágerðust óþægindi sem stefnandi hafði haft frá vinstri öxl. Hann leitaði þá til Ágústs Kárasonar læknis sem hafði haft hann til meðferðar vegna einkenna frá hægri öxl. Við skoðun kom í ljós að stefnandi hafði einkenni axlarklemmu í vinstri öxlinni og óþægindi yfir vinstri axlarhyrnulið. Hann fékk í fyrstu sprautumeðferð en hún virkaði einungis tímabundið og varð hann að gangast undir aðgerð til lagfæringar á öxlinni. Einkenni stefnanda lögðust nokkuð við aðgerðina en hann hefur samt eftir sem áður veruleg einkenni frá öxlinni sem hann ekki hafði fyrir slysið.
Ákveðið var að óska eftir dómkvaðningu matsmanna til að láta endurmeta afleiðingar slyssins fyrir stefnanda en áður en að dómkvaðningu kom varð það að samkomulagi milli lögmanns stefnanda og hins stefnda félags að fá þá lækna, sem verið höfðu dómkvaddir matsmenn í máli stefnanda í október 1999, til að framkvæma mat á stefnanda og meta hvort hann hefði orðið fyrir tjóni umfram það sem fram kom í matsgerðinni frá 18. október 1999.
Fyrrgreindir læknar, þeir Stefán Yngvason og Torfi Magnússon, endurmátu afleiðingar slyssins í matsgerð, dags. 30. apríl 2002. Það er niðurstaða matsmanna í endurmati að stefnandi hafi vegna umferðarslyssins þann 3. apríl 1996 orðið fyrir tjóni umfram það sem fram kom í matsgerðinni frá 18. október 1999. Niðurstaða þeirra var sú að varanlegur viðbótar miski stefnanda væri 5% og varanleg viðbótar örorka væri 5%. Sú niðurstaða þeirra byggðist á því að stefnandi hafi fyrst eftir slysið haft mun meiri einkenni frá hægri öxl en þeirri vinstri og einkenni frá vinstri öxl verið lengur að koma í ljós en frá þeirri hægri en hafi loks leitt til þess að stefnandi hafi þurft að gangast undir aðgerð til lagfæringar á vinstri öxl. Matsmennirnir telja að starfshæfni stefnanda hafi skerst nokkuð vegna þessara einkenna frá vinstri öxl til viðbótar fyrri skerðingu og þessi viðbótareinkenni muni skerða tekjuöflunarhæfi stefnanda nokkuð.
Með bréfi þann 13. maí 2002 var hið stefnda félag krafið um bætur vegna viðbótartjónsins. Með bréfi, dags. 27. maí 2002, var kröfum stefnanda hafnað þar sem félagið taldi ekki að niðurstaða úr endurmati réttlætti endurupptöku málsins með vísan til 11. greinar skaðabótalaga nr. 50/1993.
Stefnandi getur ekki fallist á þá niðurstöðu félagsins og er honum því nauðugur einn sá kostur að höfða mál þetta til heimtu skaðabóta vegna þess tjóns sem hann varð fyrir í umferðarslysinu þann 3. apríl 1996.
Kröfur stefnanda sundurliðast þannig:
Bætur fyrir varanlegan miska 5% af 5.345.000.- kr. 267.250.
Bætur fyrir varanlegan 5% örorku kr. 882.944.
Frádráttur vegna aldurs 18% kr. (158.930.-)
Samtals kr. 991.264.
Að auki krefst hann vaxta skv. 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, dráttarvaxta skv. l. mgr. 6. gr. laga 38/2001 og málskostnaðar, þ.m.t. útlagðs kostnaðar vegna læknisvottorða og matsgerðar, samtals 161.470 krónur.
Við útreikning á bótum fyrir varanlegan miska er miðað við miskafjárhæð skaðabótalaga að teknu tilliti til vísitöluhækkunar fram í maí 2002. Við útreikning á bótum vegna varanlegrar örorku er miðað við árslaun stefnanda kr. 2.354.517.- x 7,5 x 5% varanleg örorka að frádregnum 18% vegna aldurs tjónþola í samræmi við þágildandi ákvæði skbl.
MÁLSÁSTÆÐUR OG LAGARÖK
Tjón stefnanda er rakið til notkunar ökutækis sem var tryggt ábyrgðartryggingu hjá hinu stefnda félagi. Ekki er deilt um bótaskyldu í málinu.
Af hálfu stefnanda er á því byggt að hið stefnda félag verði í samræmi við ákvæði 11. greinar skaðabótalaga nr. 50/1993 að taka að nýju ákvörðun um bætur fyrir varanlegan miska og örorku hans vegna afleiðinga slyssins enda hafi orðið ófyrirsjáanlegar breytingar á heilsu hans og fyrir liggur að miska- og örorkustig hans er verulega hærra vegna afleiðinga slyssins en áður var talið.
Í málinu liggi fyrir læknisvottorð og matsgerð sem staðfesti að breytingar hafa orðið á heilsu stefnanda sem ekki hafi verið fyrirséðar þegar gengið var frá samkomulagi um uppgjör málsins við hið stefnda tryggingafélag. Þannig liggi fyrir að einkenni stefnanda frá vinstri öxl hafi orðið allt önnur og meiri en dómkvaddir matsmenn hafi gengið út frá í niðurstöðu sinni sem byggt var á við uppgjör málsins enda hafi stefnandi þurft m.a. að gangast undir aðgerð sem ekki hafi verið fyrirsjáanleg þegar matið var gert í október 1999.
Af hálfu stefnanda er á því byggt að ákvæði 11. greinar skaðabótalaga eigi við í máli hans og því beri hinu stefnda félagi að greiða honum bætur fyrir það viðbótartjón sem hann hefur orðið fyrir vegna slyssins.
Um útreikning bótakröfu og vexti er vísað til ákvæða skaðabótalaga nr. 50/1987 eins og þau voru á slysdegi.
Um heimild til endurupptöku er sérstaklega vísað til 11. greinar skaðabótalaga og almennra reglna fjármunaréttarins.
Um aðild málsins er vísað til 1. mgr. 97. greinar umferðarlaga.
Kröfur um dráttarvexti styður stefnandi við ákvæði vaxtalaga nr. 38/2001.
Um málskostnað er vísað til 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 og um virðisaukaskatt til laga nr. 50/1988. Stefnandi er ekki virðisaukaskattsskyldur og ber honum því að nauðsyn til að fá dóm fyrir skatti þessum úr hendi stefnda.
Sýknukrafa stefndu er í fyrsta lagi byggð á því, að ekki sé sannað, að umstefnd 5% varanleg viðbótarörorka og 5% varanlegur viðbótarmiski stefnanda verði rakin til bílslyssins þann 3. apríl 1996. Sé hér um að ræða 5% örorku og miska, sem tveir hinna dómkvöddu matsmanna grundvalla á kvörtunum stefnanda um versnun einkenna í vinstri öxl hans eftir aukið starfsálag hjá honum á Keflavíkurflugvelli í kjölfar hryðjuverkanna í Bandaríkjunum 11. september 2001. Þrír matsmenn örorkunefndar, tveir læknisfróðir og einn lögfróður, bendi hins vegar á, að í vottorðum læknis slysadeildar Sjúkrahúss Reykjavíkur sé ekkert minnst á einkenni frá vinstri öxl stefnanda af völdum slyssins og í vottorðum heilsugæslulæknis Suðurnesja aðeins lauslega og ekki þannig, að benti til áverka þar af völdum slyssins. Í ítarlegu viðtali við stefnanda hjá örorkunefnd og við læknisskoðun á honum hjá nefndinni hefði líka einungis komið fram, að hann fyndi fyrir stirðleika í vinstri öxl, en ekkert komið fram sem benti til áverka þar eftir slysið. Þá benda matsmenn örorkunefndar á, að meinsemdir stefnanda í vinstri öxl, þ.e. þrengsli undir axlarhyrnu, bólga í axlarhyrnubelg og slit í axlarhyrnulið, séu algeng vandamál hjá einstaklingum á miðjum aldri eins og stefnanda án þess að bílslys komi til. Telji örorkunefnd af þessum sökum útilokað, að aukin einkenni stefnanda í vinstri öxl séu afleiðingar bílslyssins 3. apríl 1996. Þessu áliti örorkunefndar hafi ekki verið hnekkt. Hafi órökstutt álit hinna dómkvöddu þess efnis, að einkenni stefnanda frá vinstri öxl sé að rekja til slyssins harla lítið sönnunargildi, en þeir virðist byggja fyrst og fremst á sögusögn stefnanda í þessu efni.
Sýknukrafa stefndu er í annan stað á því byggð, að ekki séu skilyrði til þess að lögum að taka upp að nýju þá ákvörðun um varanlegan miska og varanlega örorku stefnanda, sem byggt var á í bótauppgjörinu þann 29. október 1999 og dæma stefnanda viðbótarbætur svo sem hann krefjist - jafnvel þótt lagt væri til grunvallar, að umstefnda 5% viðbótarörorku og viðbótarmiska væri að rekja til slyssins.
Frumskilyrði fyrir endurupptöku og greiðslu viðbótarbóta, sbr. 11. gr. skbl. nr. 50/1993, sé, að ófyrirsjánlegar breytingar verði á heilsu tjónþola eftir að bótauppgjör fari fram og að um sé að ræða verulegar heilsufarslegar breytingar, þannig að varanlegt miska- eða örorkustig sé verulega hærra en lagt var til grundvallar við bótauppgjör. Hvorugu þessu sé til að dreifa í tilviki stefnanda. Í fyrsta lagi hafi engar nýjar eða ófyrirsjánlegar breytingar á heilsu stefnanda átt sér stað frá því bótauppgjörið fór fram þann 29. október 1999. Það uppgjör hafi verið grundvallað á matsgerðinni frá 18. október 1999, þar sem miðað sé við að verkir og eymsli í vinstri öxl stefnanda sé að rekja til slyssins. Sé ekkert nýtt eða ófyrirsjáanlegt við það, þó þessi einkenni geti vaxið eitthvað við aukið starfsálag. Eigi það við um flest líkamleg mein og líkamlegt ástand yfirleitt, að versna við aukið álag. Í öðru lagi sé breyting á örorku og miskastigi um 5% stig til hækkunar svo lítil, að aldrei geti talist um verulega hækkun að ræða í skilningi 11. gr. skbl. nr. 50/1993. Séu örorku- og miskamöt engin nákvæmnisvísindi og svari 5% stig aðeins eðlilegu fráviki. Stefnandi hafi notið aðstoðar lögmanns við bótauppgjörið, sem hafi engan fyrirvara gert um miska og örorkustig stefnanda og fallið frá öllum frekari kröfum á hendur stefndu. Séu því engin skilyrði til að verða við kröfum stefnanda.
Kröfu um dráttarvexti er mótmælt frá fyrri tíma en dómsuppsögudegi.
NIÐURSTAÐA
Í matsgerð læknanna Stefáns Yngvasonar og Torfa Magnússonar frá 30. apríl 2002 segir svo m.a:
"3. apríl 1996 lenti Jón Heiðar Sveinsson í bifreiðaslysi. Í slysinu hlaut hann, skv. fyrirliggjandi gögnum, áverka á báðar axlir. Hann hafði í upphafi mun meiri einkenni í hægri öxlinni en þeirri vinstri og gekkst undir aðgerð á hægri öxl 3. desember 1996. Vegna afleiðinga slyssins undirgekkst hann mat á örorku og var rituð matsgerð vegna þess 18. október 1999. Fram kom í þeirri matsgerð að einkenni væru í vinstri öxl, en þau voru þó væg. Nokkru eftir að matsgerð var rituð fóru einkenni í vinstri öxl vaxandi, og leiddi það til aðgerðar sem framkvæmd var 23. október. Eftir aðgerðina fóru einkenni batnandi í fyrstu, en fóru síðan versnandi á ný.
Í desember fékk Jón Heiðar einkenni kransæðaþrengingar og undirgekkst hann þá viðeigandi aðgerð. Lá hann einungis á sjúkrahúsi í þrjá daga vegna þess og hefur ekki haft brjóstverki eða einkenni um kransæðaþrengsli í kjölfarið. Einkenni í vinstri öxl fóru hins vegar versnandi. Með viðeigandi meðferð rénuðu axlareinkennin á ný er leið á árið 2001, og komst Jón Heiðar til vinnu að hluta til í maí 2001 og til fullrar vinnu í ágúst 2001. Á því tímabili, er hann var frá vinnu, hélt hann launum, að undanskildum fáeinum vikum að því er hann telur. Þrátt fyrir að einkenni hafi farið batnandi um mitt ár 2001 og Jón Heiðar komist til fullra starfa, virðist heldur hafa sigið á ógæfuhliðina með auknu álagi á seinni hluta ársins 2001. Hefur Jón Heiðar því áfram einkenni frá vinstri öxl, sem skerða almenna færni hans og hamla honum einnig nokkuð í starfi. Þarf hann af og til að nota verkjalyf vegna einkennanna í öxlinni. Matsmenn telja að starfshæfni Jóns hafi skerst nokkuð vegna einkenna í vinstri öxl, til viðbótar við fyrri skerðingu og telja að þessi viðbótareinkenni muni í heild skerða tekjuöflunarhæfi nokkuð.
Við mat á þeim viðbótareinkennum, sem komið hafa fram í vinstri öxl eftir að matsgerð var rituð í október 1991, leggja matsmenn til grundvallar versnun á einkennum í vinstri öxl með aukinni hreyfiskerðingu. Telja matsmenn að þótt Jón Heiðar hafi komist til sinna fyrri starfa, sé vinnugeta hans nokkuð skert af völdum einkennanna í vinstri öxlinni.
Samkvæmt 2. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 skal ákveða bætur fyrir atvinnutjón fyrir tímann frá því að tjón varð þangað til tjónþoli getur hafið vinnu að nýju eða þar til ekki er að vænta frekari bata. Með hliðsjón af því að einkenni í vinstri öxl má rekja til slyssins á árinu 1996, telja matsmenn að á því tímabili, sem hér er til umfjöllunar, hafi Jón ekki getað vænst frekari bata, og telja því viðbótar tímabundið atvinnutjón ekki vera fyrir hendi. Af sömu ástæðu meta matsmenn ekki þjáningabætur.
Matsmenn meta varanlegan viðbótarmiska 5%.
Varanlega viðbótarörorku meta matsmenn 5%.
VIII
Niðurstaða
1. Viðbótar tímabundið atvinnutjón, skv. 2. gr. laga nr. 50/1993, meta matsmenn að hafi ekkert orðið.
2. Viðbótar varanlegan miska, skv. 4. gr. laga nr. 50/1993, meta matsmenn 5% - fimm af hundraði.
3. Viðbótar þjáningarbætur í skilningi 3. gr. laga nr. 50/1993 meta matsmenn engar.
4. Viðbótar varanlega örorku meta matsmenn 5% - fimm af hundraði."
Matsmennirnir Stefán Yngvason og Torfi Magnússon komu fyrir dóminn og staðfestu matsgerð sína og kom fram í framburði þeirra beggja að orsök aukinnar örorku og aukins miska væri slys það er stefnandi varð fyrir 3. apríl 1996. Yrði ástand stefnanda fyrst og fremst rakið til þessa en ekki þess að um væri að ræða eðlilegt slit í vinstri öxl sem kæmi með aldri. Þá hefur því mati þeirra að um sé að ræða 5% varnlegan viðbótarmiska og 5% varanlega viðbótarörorku ekki verið hnekkt og verður það lagt til grundvallar hér.
Dómurinn telur, með vísan til matsgerðar læknanna og framburðar þeirra hér fyrir dómi, komna fram sönnun um að aukin örorka og miski stefnanda stafi af slysinu 3. apríl 1996.
Af hálfu stefndu er því borið við að sú viðbótarörorka og sá viðbótarmiski sem hér sé um að ræða sé ekki verulegur í skilningi 11. gr. skaðabótalaga. Við úrlausn í þessa samhengi verður litið til þess að fram er komið að stefnandi hefur orðið fyrir annarri og meiri örorku og miska en upphaflega var byggt á við uppgjör bóta til hans, þ.e.a.s. hann á við einkenni að stríða frá vinstri öxl sem í ljós hefur komið, að eru veruleg, en að óverulegu leyti var byggt á því við uppgjörið. Samkvæmt þessu verður fallist á það með stefnanda að skilyrði 11. gr. skaðabótalaga til endurupptöku séu fyrir hendi og samkvæmt öllu framansögðu verða kröfur stefnanda teknar til greina, þó þannig að vextir fyrir 26. júní 1998 eru fyrndir.
Eftir úrslitum málsins verða stefndu dæmd til að greiða stefnanda 450.000 krónur í málskostnað.
Allan V. Magnússon héraðsdómari kvað upp dóminn.
DÓMSORÐ
Stefndu, Sigrún Guðjónsdóttir og Vátryggingafélag Íslands hf., greiði stefnanda, Jóni H. Sveinssyni, 991.264 krónur auk vaxta skv. 16. gr. skaðabótalaga frá 26. júní 1998 til 26. júní 2002 en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 13. júní 2002 til greiðsludags.
Stefndu greiði stefnanda 450.000 krónur í málskostnað.