Hæstiréttur íslands

Mál nr. 530/2014


Lykilorð

  • Ákæruvald
  • Frávísun frá héraðsdómi


                                     

Fimmtudaginn 27. nóvember 2014.

Nr. 530/2014.

Ákæruvaldið

(Kolbrún Benediktsdóttir saksóknari)

gegn

X

(Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson hrl.)

Ákæruvald. Frávísun máls frá héraðsdómi.

Máli ákæruvaldsins gegn X var vísað frá héraðsdómi þar sem lögreglustjóra brast heimild að lögum til að gefa út ákæru í málinu fyrir brot gegn 233. gr. b. almennra hegningarlaga.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.  

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 30. júlí 2014 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að málinu verði vísað frá héraðsdómi.

Ákærði krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá héraðsdómi, til vara að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað, en að því frágengnu að hann verði sýknaður. Að öllu þessu frágengnu krefst hann mildunar á refsingu.  

Málið var flutt skriflega eftir ákvörðun Hæstaréttar samkvæmt 2. málslið 1. mgr. 205. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Eins og í hinum áfrýjaða dómi greinir var málið höfðað með ákæru lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu 3. júní 2014 á hendur ákærða fyrir ærumeiðingar og brot gegn friðhelgi einkalífs gagnvart fyrrverandi sambýliskonu sinni, A, með því að hafa tiltekinn dag sent tilgreindum aðilum tölvubréf er innihélt nánar tilgreindar trúnaðarupplýsingar og vörðuðu hagi A. Var þessi háttsemi talin varða við 233. gr. b. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þá var ákærða gefið að sök brot gegn nálgunarbanni með því að hafa á tilteknu tímabili sent A 350 nánar tilgreind skilaboð í gegnum farsíma, samskiptavefinn Facebook og með tölvupósti, þrátt fyrir að honum hefði með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness verið bannað að setja sig í samband við hana. Var háttsemin talin varða við 1. mgr. 232. gr. almennra hegningarlaga. Í þinghaldi 4. júlí 2014 játaði ákærði sök og var því farið með málið eftir 1. mgr. 164. gr. laga nr. 88/2008. Með hinum áfrýjaða dómi var ákærði sakfelldur samkvæmt ákæru og honum gert að sæta fangelsi í átta mánuði.

Krafa ákæruvalds og ákærða um vísun málsins frá héraðsdómi er reist á því að lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu fari ekki með ákæruvald vegna brota gegn 233. gr. b. almennra hegningarlaga. Í 1. mgr. 24. gr. laga nr. 88/2008 er lögreglustjórum falið að höfða önnur sakamál en þau sem ríkissaksóknari og héraðssaksóknari höfða samkvæmt ákvæðum laganna. Samkvæmt f. lið 1. mgr. 23. gr. laganna, sbr. e. lið 3. mgr. VII. ákvæðis þeirra til bráðabirgða, höfðar ríkissaksóknari sakamál vegna brota á ákvæðum XXIV. og XXV. kafla almennra hegningarlaga, öðrum en 231., 232. og 233. gr., en ákvæði 233. gr. b. er í XXV. kafla laganna. Brast lögreglustjórann á höfuðborgarsvæðinu því heimild að lögum til að gefa út ákæru í máli þessu fyrir brot gegn 233. gr. b. almennra hegningarlaga og ber af þeim sökum að vísa málinu frá héraðsdómi.

Allur sakarkostnaður í héraði og áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða fyrir Hæstarétti, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá héraðsdómi.

Allur sakarkostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun verjanda ákærða í héraði, eins og þau voru ákveðin í hinum áfrýjaða dómi, og málsvarnarlaun verjanda hans fyrir Hæstarétti, Vilhjálms Hans Vilhjálmssonar hæstaréttarlögmanns, 125.500 krónur.