Hæstiréttur íslands

Mál nr. 21/2016

A (Helgi Birgisson hrl.)
gegn
Sjóvá-Almennum tryggingum hf. (Guðjón Ármannsson hrl.)

Lykilorð

  • Skaðabætur
  • Líkamstjón
  • Orsakatengsl
  • Gjafsókn

Reifun

A krafði S hf. um greiðslu skaðabóta vegna líkamstjóns sem hann kvaðst hafa orðið fyrir í umferðarslysi á árinu 2009. Greindi aðila meðal annars á um hvenær A leitaði fyrst til læknis eftir slysið vegna verkja og hvort einhverra samtímagagna nyti við um heilsufar A í kjölfar þess. Vísaði A í því sambandi til læknisvottorðs frá árinu 2012 þar sem fram kom að hann hefði leitað til læknis tæpum tveimur mánuðum eftir slysið. Talið var að við mat á vottorðinu yrði ekki litið fram hjá því að umræddur læknir væri faðir A og sönnunargildi þess því takmarkað. Þá hefði örorkumats sem fyrir lá í málinu verið fengið einhliða af hálfu A og ekki verið stuðst við sjúkraskrá hans við gerð þess. Að þessu virtu og með vísan til þess hversu takmörkuðum gögnum væri til að dreifa um heilsufar A var ekki talið að hann hefði fært fullnægjandi sönnur á að tjónið yrði rakið til slyssins. Fengju gögn úr sjúkraskrá, sem A lagði fyrst fram fyrir Hæstarétti, því ekki breytt. Var S hf. því sýknað af kröfu A.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson og Eiríkur Tómasson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 8. janúar 2016. Hann krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 3.098.101 krónu með 4,5% ársvöxtum af 665.530 krónum frá 26. október 2009 til 26. janúar 2010 og af 3.098.101 krónu frá þeim degi til 21. júní 2012, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af síðastgreindri fjárhæð frá þeim degi til greiðsludags. Í áfrýjunarstefnu krafðist áfrýjandi jafnframt málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar, sem honum hefur verið veitt á báðum dómstigum, en í greinargerð til réttarins krafðist hann aðeins málskostnaðar hér fyrir dómi án tillits til gjafsóknarinnar. Við þá síðarnefndu kröfugerð er áfrýjandi bundinn og kemur því ekki frekar til álita krafa um málskostnað í héraði, sem hann hélt uppi á ný við munnlegan málflutning.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Svo sem rakið er í hinum áfrýjaða dómi leitar áfrýjandi í máli þessu skaðabóta vegna líkamstjóns, sem hann kveðst hafa hlotið af umferðarslysi 26. október 2009. Stefndi hefur andmælt því að sýnt hafi verið fram á að tjón þetta verði rakið til slyssins, meðal annars með vísan til þess að einkenni, sem áfrýjandi finni fyrir í baki, geti stafað af ýmsum öðrum orsökum og liggi ekki fyrir samtímagögn til að tengja þau við slysið.

Vegna þessara varna stefnda hefur áfrýjandi lagt fram í Hæstarétti gögn úr sjúkraskrá, þar sem meðal annars er að finna svonefndan samskiptaseðil vegna komu hans á heilsugæslustöð 24. janúar 2011. Í því skjali kom fram að áfrýjandi hafi leitað til læknis vegna bakverks og sagði jafnframt eftirfarandi: „Lenti í bílveltu f. ca ári. Fann ekkert til fyrst en dagana eftir verkir í mjóbakinu. Hafa verið viðvarandi síðan. Mjög oft bakverkir. Verst ef hann situr lengi. Ekki leiðni í fætur. Hreyfir nú ágætlega í bakinu. Eymsli í neðri hluta mjóbaks. Niður á efsta hluta glut. svæða. Tilkynnti tryggingafélagi á sínum tíma en hefur ekki gert meira í því. Ég mæli með sjúkraþjálfun. Hann vill bíða með það. Ræðum líka [B] bækl.sérfr. Fer e.t.v. til hans. Velkominn hingað aftur.“ Af þessum gögnum úr sjúkraskrá verður ekki séð að áfrýjandi hafi aftur leitað til læknis af þessu tilefni fyrr en 21. júní 2011, eins og nánar er rakið í hinum áfrýjaða dómi. Um þessi nýju gögn um heilsufar áfrýjanda verður jafnframt að gæta að því að meðal þeirra er læknabréf frá Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri 10. maí 2005, þar sem fram kom að áfrýjandi hafi leitað þangað 1. apríl sama ár vegna slyss sem hann varð fyrir á snjóbrettamóti. Hafi áfrýjandi dottið á bretti á töluverðri ferð en úr óverulegri hæð og lent á hægri síðu á hörðu undirlagi. Hann hafi misst meðvitund í örfáar sekúndur, reynt síðan að rísa á fætur en fengið skyndilegan verk í mjóhrygg og síðuna. Hann hafi verið sendur í bráðaflutningi með sjúkrabifreið á sjúkrahúsið, þar sem hann hafi verið yfir nótt til eftirlits, en verið útskrifaður næsta dag við ágæta líðan. Samkvæmt samskiptaseðli, sem einnig var dagsettur 10. maí 2005, óskaði móðir áfrýjanda út af þessu atviki eftir læknisvottorði á heilsugæslustöð vegna þess að hann hafi verið „frá skóla 1 viku og ekki getað stundað íþróttir síðan í skólanum“. Þegar þetta er virt í heild getur síðbúin gagnaöflun áfrýjanda ekki fengið því breytt að hinn áfrýjaði dómur verði að þessu gættu staðfestur með vísan til forsendna hans.

Rétt er að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður, en um gjafsóknarkostnað áfrýjanda hér fyrir dómi fer samkvæmt því sem í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda, A, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, 750.000 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 6. nóvember 2015.

I.

Mál þetta, sem tekið var til dóms 19. október sl., er höfðað 23. september 2014.

Stefnandi er A, […].

Stefndi er Sjóvá-Almennar tryggingar hf., […].

Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða honum 3.098.101 kr. með 4,5% vöxtum af 665.530 kr. frá 26. október 2009 til 26. janúar 2010, en frá þeim degi af 3.098.101 kr. til 21. júní 2012, en frá þeim degi með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, af þeirri fjárhæð til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar að skaðlausu ásamt virðisaukaskatti.

Stefndi krefst þess aðallega að verða sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi eða samkvæmt mati dómsins.

Til vara krefst stefndi þess að dómkröfur stefnanda verði lækkaðar verulega og að málskostnaður verði felldur niður.

II.

Málsatvik

Stefnandi lýsir málsatvikum á þann veg að hann hafi 26. október 2009 verið farþegi í bifreið sem var ekið á um 80-90 km hraða á Miklubraut við Háaleitisbraut. Ökumaður bifreiðar þeirrar sem stefnandi sat í hafi ætlað að taka fram úr annarri bifreið og því beygt yfir á aðra akrein, en bifreiðin sem hann ætlaði að taka fram úr hafi á sama tíma fært sig yfir á sömu akrein. Ökumaður bifreiðarinnar hafi þá rykkt bifreiðinni til hægri og við það misst stjórn á henni með þeim afleiðingum að hún valt eina veltu og endaði á hvolfi.               

Stefnandi leitaði til lögmanns í upphafi nóvember 2009. Með tölvubréfi, dags. 10. nóvember 2009, óskaði lögmaðurinn eftir því að stefndi Sjóvá-Almennar tryggingar ehf. sendi honum öll gögn félagsins vegna slyssins 26. október 2009. Með tölvubréfi frá sömu lögmannsstofu, dags. 19. maí 2011, var óskað eftir frekari upplýsingum af hálfu stefnda um í hvaða farvegi mál hans væri hjá félaginu, enda yrði ekki séð að bótaskylda hefði verið staðfest. Stefndi svaraði fyrirspurninni samdægurs með tölvubréfi þar sem sagði að atvikið sem slíkt væri bótaskylt en ekkert læknisvottorð hefði borist félaginu sem staðfesti áverka eftir slysið. Þá hefðu bæði ökumaður og farþegi sagst vera ómeiddir eftir slysið samkvæmt lögregluskýrslu.

Með tölvubréfi, dags. 24. ágúst 2011, sendi lögmaður stefnanda Sjóvá-Almennum tryggingum gögn vegna umferðarslyssins. Í tölvubréfinu kom fram að lögmaður stefnanda teldi gagnaöflun lokið og tímabært væri að koma stefnda í örorkumat samkvæmt skaðabótalögum. Var C læknir tilnefndur fyrir hönd stefnanda. Í tölvubréfinu kom jafnframt fram að ekki væri hægt að afla vottorðs um fyrra heilsufar þar sem heimilislæknir stefnanda væri jafnframt faðir hans og að hann hefði neitað að láta vottorð af hendi. Því væri ekki ljóst hvort matsmenn gætu aflað upplýsinga um fyrra heilsufar.

Stefndi svaraði þessu bréfi með tölvubréfi 26. ágúst 2011 þar sem annar læknir var tilnefndur til matsins af hálfu félagsins. Sagði þar jafnframt að farið yrði yfir gögn og afstaða félagsins yrði tilkynnt þegar matsbeiðni lægi fyrir.

Með tölvubréfi, dags. 7. september 2011, tilkynnti stefndi lögmanni stefnanda að matsbeiðnin vegna slyssins hefði verið yfirfarin. Í bréfinu kom fram að félagið teldi ósannað að einkenni stefnanda mætti rekja til slyssins. Ekkert áverkavottorð væri til staðar sem staðfesti áverka eftir slysið og dagsetningar gagna stemmdu ekki við slysdag. Óskaði félagið í framhaldinu eftir frekari upplýsingum um hvort stefnandi hefði lent í fleiri slysum og að afrit sjúkraskrár hans fyrir og eftir slysið yrði útvegað.

Þessu bréfi var svarað með tölvubréfi, dags. 12. september 2011, þar sem stefnda var tjáð að stefnandi ætti ekki önnur slys skráð hjá öðrum tryggingafélögum. Auk þess væri engin sjúkraskrá til um hann þar sem faðir hans væri heimilislæknirinn hans og neitaði að gefa lögmanni stefnanda vottorð. Bréfinu fylgdi hins vegar læknisvottorð D bæklunarsérfræðings. Þar segir að stefnandi eigi erfitt með að sitja álútur en finni auk þess til eymsla við bogur, þungaburð og eftir líkamsæfingar. Þá hafi skoðun leitt í ljós væga hreyfiskerðingu og eymsli á mjóbakssvæði.

                Með tölvubréfi, dags. 13. september 2011, hafnaði stefndi bótaskyldu úr ábyrgðartryggingu ökutækisins. Taldi stefndi að ekki væri sýnt fram á að orsakatengsl væru á milli slyssins og þeirra líkamlegu einkenna sem stefnandi ræki til þess. Rökstuddi stefndi höfnunina fyrst og fremst með vísan til þess að læknisfræðileg gögn skorti.

                Stefnandi aflaði í kjölfarið vottorðs frá föður sínum, E, […] og lækni. Í vottorðinu, dags. 20. febrúar 2012, segir eftirfarandi:

„Um miðjan desember 2009 fór [A] sonur minn að kvarta um verk í neðanverðu baki sem ágerðist við setu, en hann var í próflestri á þessum tíma. Rakti hann þessa verki til bílveltu sem hann lenti í þann 20. nóvember sama ár. Ég skoðaði hann með tilliti til hans kvartana og voru eymsli neðst í lendhrygg við þreifingu og stirðleiki við að beygja sig fram. Ekki leiðni niður í fætur. Ég ráðlagði honum að leita til læknis á heilsugæslunni […] með það í huga að fá nánari skoðun og tilvísun á röntgenmyndatöku og bæklunarsérfræðings/sjúkraþjálfara ef þyrfti. Hann kvartaði oft um verki í baki í næstu mánuðum og virtust eymsli vera vinstra megin í brjóstbaki, neðan herðablaðs og hlífði hann sér við átök og að lyfta þungum hlutum. Ég hvatti hann til að gera æfingar og styrkja bakið, auk þess sem hann var hjá sjúkraþjálfara um tíma.

                Í framhaldinu óskaði stefndi eftir því við C, sérfræðing í heimilislækningum, að hann mæti varanlegar afleiðingar slyssins í örorkumati. Var sérstaklega óskað eftir því að mat yrði lagt á orsakatengsl milli slyssins og einkenna stefnanda.

Í matsgerð C, dags. 10. maí 2012, kemst hann að þeirri niðurstöðu að orsakatengsl væru þarna á milli og mat hann varanlegan miska stefnanda vegna slyssins 7 stig og varanlega örorku 5%. Í matsgerðinni segir meðal annars svo:

   „Um er að ræða hraustan ungan mann sem ekki hafði fyrir slysið nein þekkt stoðkerfisvandamál. Hann lendir í árekstri og bílveltu á miklum hraða eða 80-90 km/hraða þannig að um háorku slys er að ræða. Hann finnur fyrir vægum þrýstingsverk sama kvöld en er ekki skoðaður sérstaklega en kvartar við sína nánustu. Verkirnir fara svo versnandi og 6 vikum seinna er hann skoðaður af föður sínum sem er læknir. Hann stundaði æfingar sjálfur og reyndi að styrkja bakið en tók sér frí frá námi á vorönn eftir slysið þar sem verkir voru miklir. Verkir voru viðvarandi og hann leitaði til bæklunarlæknis sumarið 2011 eða rúmu 1 ½  ári eftir slysið. Reynd var sjúkraþjálfun en einkenni hafa verið óbreytt.

   Þar sem slysaatburðurinn sjálfur er staðfestur með þeim atvikum sem lýst er og að einkenni voru til staðar frá byrjun og ágerðust við álag verður að álykta sem svo að einkennin megi rekja til slyssins. Sérstaklega þegar tekið er tillit til þess að tjónþoli hafði ekki nein bakvandamál fyrir slysið. Skoðun á matsfundi og mat á slysatvikum renna stoðum undir að einkenni megi rekja til slyssins. Það að tjónþoli bar sig sannanlega upp við sína nánustu vegna einkennanna sama dag og slysið varð og svo seinna þegar álag var meira á honum og einkenni versnuðu bendir til þess að slysið sé orsökin og algengt er að ungir frískir einstaklingar reikni með að einkenni batni án læknisaðstoðar og dragi að leita læknis. Þannig telst vera orsakasamhengi milli einkenna tjónþola á matsfundi og slyssins og yfirgnæfandi líkur á að slysið valdi einkennum tjónþola.

   [...]

Við mat á varanlegum miska er lagt til grundvallar að í slysinu hafi tjónþoli hlotið tognunaráverka á mjóbak. Þetta hamlar honum við ýmis áhugamál og hefur dregið úr úthaldi hans og líkamlegri getu. Með hliðsjón af miskatöflu örorkunefndar telst varanlegur miski rétt metin 7 stig.

   [...]

   Af upplýsingum um tekjur er ekki hægt að meta framtíðartekjur þetta ungs tjónþola. Hjá þetta ungum tjónþola ber að meta möguleika hans á vinnumarkaði og áhrifa áverkanna á framtíðar aflahæfi. Til skoðunar koma því atvinna viðkomandi og tekjur fyrir og eftir slys. Liggi ekki fyrir upplýsingar um lækkaðar tekjur eða breytingu á vinnugetu eða atvinnu eftir slys hlýtur mat á líkamstjóninu og hugsanlegum áhrifum þess á vinnugetu að vera ráðandi við mat á örorku samkvæmt 5. gr. [skaðabótalaga]. Við mat á varanlegri örorku samkvæmt 5. gr. [skaðabótalaga] er því hér m.a. miðað við læknisfræðilegar afleiðingar slyssins og er byggt á hefðbundnum sjónarmiðum varðandi svipaða áverka og áætlaðrar atvinnuþátttöku þetta ungs tjónþola ef slysið hefði ekki komið til. Telst tjónþoli hafa orðið fyrir áverka á mjóbaki sem hafi skert getu hans til erfiðisvinnu en einnig skert úthald og getu hans við lengri setur og stöður og þannig lítillega skert aflahæfi hans. Að öllum gögnum virtum er örorka metin 5%.“

 

Ofangreind matsgerð var send stefnda með bréfi, dags. 21. maí 2012. Með bréfi, dags. 25. september 2012, hafnaði stefndi bótaskyldu vegna slyssins með vísan til þess að orsakatengsl væru enn ósönnuð í málinu. Í bréfinu sagði meðal annars svo:

„Af hálfu félagsins hefur verið farið aftur yfir öll fyrirliggjandi gögn og þar á meðal er örorkumat [C] læknis, dags. 10.05.2012.

Ljóst er að engin samtímagögn liggja fyrir sem staðfesta áverka umbjóðanda þins. Í lögregluskýrslu sem tekin var af umbjóðanda þínum á vettvangi var haft eftir honum að hann væri ómeiddur. Þá eru engar skráðar komur til læknis vegna slyssins fyrr en að liðnu einu og hálfu ári frá slysi. Þar að auki eru einkenni tjónþola nokkuð almenns eðlis og hefðu í raun getað komið til óháð slysi, t.d. við mikla íþróttaiðkun. Rannsóknir sýna að mikill fjöldi einstaklinga er útsettur fyrir einkennum frá baki, herðum og hálsi.

Samkvæmt almennum sönnunarreglum nýtur tjónþoli aðilastöðu í málinu og verður sönnun um líkamstjón því ekki byggð á frásögn hans nema að því marki sem hún styðst við skjalfestar læknisfræðilegar staðfestingar frá þeim tíma. Hvað sönnunargildi framburðar föður tjónþola áhrærir þá er það mat félagsins að sönnunargildi hans sé litið sem ekkert í ljósi þess hversu nátengdur hann er aðila málsins.

Jafnvel þótt [C], matslæknir, hafi komist að þeirri niðurstöðu að orsakatengsl væru á milli slyssins og þeirra einkenna sem hann greindi hjá umbjóðanda þínum á matsfundi, þá telur félagið að ekki verði byggt á matsgerðinni, enda hafi matsmaðurinn brotið allar þær læknis- og lögfræðilegu kröfur sem gerðar eru til sönnunar.“

III.

Málsástæður stefnanda og lagarök

Stefnandi telur að fyrirliggjandi gögn sýni svo ekki verði um villst að hann hafi orðið fyrir líkamstjóni í slysinu. Stefnandi mótmælir jafnframt þeirri fullyrðingu stefnda að engin samtímagögn liggi fyrir um slysið og að hann hafi ekki leitað til læknis fyrr en einu og hálfu ári eftir slys. Í því sambandi vísar hann til vottorðs föður síns, sem er læknir og stefnandi leitaði til skömmu eftir slysið, en í vottorðinu komi fram að hann hafi kvartað undan einkennum strax í kjölfar slyssins og að verkir hafi farið að há honum verulega í próflestri örfáum vikum eftir slysið.

Stefnandi bendir á það sem fram kemur í gögnum málsins að hann þjáðist ekki af neinum þeim einkennum sem hann rekur til slyssins fyrir slysið. Hafnar hann því alfarið þeirri staðhæfingu stefnda að orsakatengsl þyki ósönnuð. Þá telur stefnandi ekkert í læknisfræðilegum gögnum málsins benda til þess að hann hafi hlotið nein af þeim einkennum sem hann tengir við slysið vegna íþróttaiðkunar eða annars en slyssins, eins og haldið hafi verið fram af hálfu stefnda. Í matsgerð C læknis, dags. 10. maí 2012, komi fram skýr og afdráttarlaus greining matsmanns á því að orsakasamhengi sé á milli einkenna stefnanda og slyssins og að yfirgnæfandi líkur séu á því að slysið valdi einkennum hans. Er sú niðurstaða m.a. byggð á því að stefnandi hafi sannanlega borið sig upp við föður sinn, sem er menntaður læknir, vegna einkennanna strax í kjölfar slyssins.

Stefnandi hafnar því alfarið að sönnunargildi læknisvottorðs frá föður hans sé minna vegna þess hversu nátengdur hann er honum sem aðila málsins. Hafa ber í huga að læknar eru bundnir af læknaeiðum og læknalögum í allri sinni vinnu hvort heldur sem hún er í þágu fjölskyldumeðlima eða annarra. Vottorð lækna hafa sönnunargildi í samræmi við það. Stefnandi bendir á að algengt sé að fjölskyldumeðlimir lækna og heilbrigðisstarfsfólks leiti til þeirra í stað þess að leita á heilsugæslu eða aðrar slíkar heilbrigðisstofnanir, enda felst fyrsta meðferð læknis eftir slys fyrst og fremst í ráðleggingum og uppáskrift lyfseðla. Í tilviki stefnanda verður ekki séð að það geti talist óeðlilegt að hann hafi leitað læknisaðstoðar frá föður sínum sem er læknir í stað þess að fá tíma hjá heimilislækni sem er í senn tímafrekara og dýrara. Hann hafði þjónustu heimafyrir og nýtti sér hana. Gera verður ráð fyrir því að læknar sem rita læknisvottorð, hvort sem það er fyrir fjölskyldumeðlimi, vini, kunningja eða ókunnuga, geri slíkt af heilindum og í samræmi við ábyrgð sína.

Stefnandi hafnar því enn fremur að matsgerð sem C ritaði eftir skoðun og yfirferð læknisgagna standist ekki þær kröfur sem gerðar eru til sönnunar. Ekki verði séð að matsgerðin byggi á öðrum sjónarmiðum en hefð er fyrir enda byggir hún á hefðbundnum læknisfræðilegum gögnum og frásögn stefnanda á matsfundi svo sem venjubundið er. Af þeim sökum beri stefnda að greiða bætur í samræmi við þær niðurstöður sem fram koma í matsgerð C.

Að því er snertir kröfu um miskabætur vísar stefnandi til 4. gr. skaðabótaalaga nr. 50/1993 og áðurgreinds mats C um 7% varanlegan miska. Fjárhæð bótanna tekur mið af grunnfjárhæðinni, 4.000.000 kr., uppfærðri miðað við lánskjaravísitölu í maí 2012 þegar kröfubréf var sent til stefnda, sbr. 15. gr. skaðabótalaga.

Um bótakröfu vegna varanlegrar örorku er einnig vísað til matsgerðar C ásamt 5.-7. gr. skaðabótalaga. Við ákvörðun bóta fyrir varanlega örorku er tekið mið af 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga. Dómkröfur stefnanda sundurliðast annars þannig:

1.       Bætur samkvæmt 4. gr. skaðabótalaga (miskabætur)

4.000.000 x (7801/3282) x 7% = kr. 665.530.

2. Bætur samkvæmt 5.-7. gr. skaðabótalaga (örorkubætur)

             1.200.000 x (7801/3282) = kr. 2.852.285.

Um lagarök fyrir kröfu stefnanda er vísað til umferðarlaga nr. 50/1987, einkum 91. gr. laganna um ábyrgðartryggingu ökutækis, og skaðabótalaga nr. 50/1993, með síðari breytingum, svo og til almennra ólögfestra reglna íslensks réttar um skaðabætur.

Um vaxtakröfuna vísar stefnandi sérstaklega til 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, með síðari breytingum, og um dráttarvaxtakröfuna til 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu.

Málsástæður stefnda

Aðalkrafa stefndu um sýknu er byggð á því að ekki hafi verið færðar sönnur á að orsakatengsl séu á milli þeirra líkamlegu einkenna sem stefnandi hefur og umferðarslyssins 26. október 2009. Sönnunarbyrði um tjón, umfang tjóns og orsakatengsl hvíli á stefnanda.

                Stefndi bendir á að engin samtímagögn liggi fyrir sem staðfesti áverka stefnanda eftir slysið og mjög takmörkuð gögn hafi verið lögð fram í málinu sem styðji málatilbúnað stefnanda. Stefndi bendir á að stefnandi hafi leitað fyrst til læknis 21. júní 2011, þ.e. 20 mánuðum eftir slysið, sbr. vottorð D bæklunarsérfræðings, þrátt fyrir að stefnandi hafi að eigin sögn þegar um áramótin 2009 til 2010 hætt námi vegna verkja. Í því vottorði hafi læknirinn eftir stefnanda það sem hann telur vera orsök áverkanna án þess þó að taka sjálfur afstöðu til þess hvort áverkana sé að rekja til umferðarslyssins 26. október 2009 eða ekki. Að mati stefnda verður sönnun um líkamstjón og orsakatengsl ekki byggð á einhliða frásögn stefnanda. Í vottorði D greini læknirinn einnig frá því að stefnandi hafi tognað í mjóbaki 2006 þegar hann var á snjóbretti en þau einkenni hafi gengið yfir. Stefndi bendir jafnframt á að samkvæmt vottorði D byrjaði stefnandi að finna fyrir óþægindum eftir áramótin 2009 til 2010 þegar hann hóf á ný skólasetu og vinnu eftir jólafrí. Þá sé í vottorðinu greint frá því að stefnandi hafi verið skoðaður á Heilsugæslunni […], þar sem móðir stefnanda starfi sem […]. Engin gögn hafi hins vegar verið lögð fram um þessa heimsókn stefnanda.

                Stefndi telur lítið vera um gögn í málinu og að í því gæti ósamræmis í upplýsingum um slysið og hvenær einkenni stefnanda komu fram. Þannig sé í beiðni um sjúkraþjálfun frá 8. júlí 2009 vísað til umferðarslyss sem hafi átt sér stað 6. nóvember 2009 en til slyss 20. nóvember í bréfi frá E föður stefnda, dags. 20. febrúar 2012. Stefndi telur enn fremur að bréf E hafi lítið sem ekkert sönnunargildi vegna tengsla hans við stefnanda.

                Stefndi telur að of langt hafi liðið frá slysinu til þess að einkenni stefnanda komu fram til þess að hægt sé að tengja einkennin slysinu. Stefndi bendir í því sambandi á að einkenni stefnanda séu mjög almenns eðlis og algeng meðal fólks. Telur stefndi því að einkennin geti átt sér ýmsar orsakir og ósannað sé að þau megi rekja til umferðarslyssins.             

                Stefndi vekur enn fremur athygli á því að stefnandi hafi þann 5. nóvember 2009, það er nokkrum dögum eftir slysið, veitt lögmanni sínum og lögmannsstofunni Tort ehf. fullt og ótakmarkað umboð til að gæta hagsmuna sinna vegna afleiðinga slyssins þrátt fyrir að áverkar hafi – miðað við þau fáu gögn sem liggja fyrir í málinu – fyrst komið fram í desember 2009 eða janúar 2010. Það liggur því fyrir að stefnandi leitaði sér strax aðstoðar lögmanns og naut því frá upphafi sérfræðiaðstoðar. Stefnanda hafi því strax átt að vera ljós nauðsyn þess að leita strax læknisaðstoðar, þá í senn til að tryggja að hann fengi þá læknismeðferð sem nauðsynleg var til að takmarka tjón sitt og að til væru samtímagögn um afleiðingar slyssins til að sanna orsakatengsl. Stefndi vekur einnig athygli á því að stefnandi tók þátt í 10 kílómetra hlaupi […] 2010 og hugðist ganga í kringum landið sumarið 2011, hvort tveggja áður en hann leitaði til bæklunarsérfræðings vegna verkja sumarið 2011.

                Stefndi mótmælir einnig sönnunargildi matsgerðar C, þar sem hennar hafi verið aflað einhliða, án aðkomu stefnda og án þess að stefnda væri sent afrit af matsbeiðni eða hann boðaður á matsfund. Stefndi telur matsgerðina einnig vera haldna þeim annmarka að þar séu misvísandi upplýsingar um hvenær matsmaðurinn telur að heilsufar stefnanda hafi orðið stöðugt. Þá mótmælir stefndi niðurstöðu matsgerðar um námstafir enda liggi engin gögn fyrir um skólagöngu stefnanda eða tafir á henni og því einungis byggt á frásögn stefnanda sjálfs.

                Stefndi mótmælir enn fremur vöxtum eldri en 4 ára sem fyrndum og því að reikna beri dráttarvexti fyrr en frá dómsuppsögudegi. Um lagarök vísar stefndi til reglna skaðabótaréttar, einkum um sönnun tjóns, sönnunarbyrði og orsakatengsl. Þá er vísað til umferðarlaga nr. 50/1987 og laga nr.30/2004, um vátryggingarsamninga og vátryggingarskilmála.

IV.

Niðurstaða

Ágreiningur þessa máls lýtur að því hvort orsakatengsl séu á milli umferðarslyss sem stefnandi lenti í 26. október 2009 og núverandi einkenna hans og hvort stefnandi hafi orðið fyrir tjóni af þeim sökum sem stefndi beri ábyrgð á samkvæmt 91. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.

Samkvæmt meginreglu skaðabótaréttar ber þeim sem heldur fram skaðabótakröfu að sanna að hann hafi orðið fyrir tjóni, auk þess sem hann ber sönnunarbyrðina fyrir því að orsakatengsl séu milli tjóns hans og bótaskylds atviks. Af því leiðir að það er stefnanda í þessu máli að sanna tjón sitt og jafnframt að tjónið megi rekja til atvika sem stefndi, Sjóvá-Almennar tryggingar ehf. beri ábyrgð á í samræmi við ákvæði 91. gr. umferðarlaga. Telja verður að stefnanda hafi átt að vera þetta fulljóst fljótlega í kjölfar slyssins, enda liggur fyrir að stefnandi leitaði strax lögmannsaðstoðar 9. nóvember 2009, eða um tveimur vikum eftir slysið, og naut því sérfræðiaðstoðar um hvaða gagna nauðsynlegt var að afla til stuðnings hugsanlegum bótakröfum. 

Stefnandi hefur til stuðnings kröfu sinni fyrir dómi einkum vísað til matsgerðar C læknis, dags. 10. maí 2012, þar sem varanleg örorka hans er metin 5% og varanlegur miski 7 stig. Þá hefur stefnandi einnig vísað til vottorða D, dags. 21. júní 2011 og vottorðs E, dags. 20. febrúar 2012.

                Aðila málsins greinir á um það hvenær stefnandi leitaði fyrst læknismeðferðar vegna verkja í kjölfar slyssins 26. október og hvort einhverra samtímagagna njóti við um heilsufar stefnanda í kjölfar slyssins. Stefnandi hefur í því sambandi vísað til vottorðs E frá 20. febrúar 2012 en þar komi fram að stefnandi hafi leitað til hans um miðjan desember vegna verkja og kvartað yfir bakverkjum næstu mánuði á eftir. Staðfesti vitnið efni vottorðsins fyrir dómi.

Við mat á framburði vitnisins og þess vottorðs sem lagt hefur verið fram verður ekki litið fram hjá því að vitnið er faðir stefnanda og sönnunargildi framburðar þess því takmarkað af þeim sökum, sbr. 59. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Jafnframt verður að horfa til þess að vottorðið sem vitnið lagði fram er dagsett meira en tveimur árum eftir að slysið átti sér stað, auk þess sem vitnið neitaði um nokkra hríð að láta slíkt vottorð af hendi.

Ljóst er að þrátt fyrir að stefndi hafi gert tillögu um tilnefningu annars matsmanns í tölvubréfi 26. ágúst 2011, kom ekki til þess að sá matsmaður kæmi að örorkumati á stefnanda í málinu. Fyrir liggur því að stefnandi stóð einhliða að því að afla þeirrar matsgerðar C sem hann hefur lagt fram í málinu til stuðnings kröfu sinni. Samkvæmt framburði C fyrir dómi var ekkert samráð haft við stefnda við ritun matsgerðarinnar. Þá upplýsti vitnið jafnframt að það hefði ekki aflað sjúkraskrár stefnanda við gerð matsins.

Stefnandi hefur að frátöldum þeim gögnum sem nefnd hafa verið hér að framan ekki lagt fram nein frekari gögn um heilsufar sitt fyrir og eftir slysið 26. október 2009. Þá hefur stefnandi ekki kosið að neyta heimildar samkvæmt 1. mgr. 48. gr. laga nr. 91/1991 til að gefa skýrslu fyrir dómi um atvik málsins,

Með vísan til framangreindra atriða og þegar haft er í huga hversu takmörkuðum gögnum er til að dreifa um heilsufar stefnanda verður ekki talið að stefnandi hafi fært fullnægjandi sönnur á að hann hafi orðið fyrir líkamstjóni sem rekja megi til slyss sem hann lenti í 26. október 2009 og stefnda beri að bæta. Af þeim sökum verður ekki hjá því komist að sýkna stefnda af kröfum stefnanda í máli þessu. Eftir atvikum og með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 þykir rétt að málskostnaður milli aðila falli niður. 

Stefnandi hefur gjafsókn í máli þessu samkvæmt bréfi innanríkisráðuneytisins 13. nóvember 2014 og greiðist allur gjafsóknarkostnaður hans því úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, Viktoríu Hilmarsdóttur hdl., sem telst hæfilega ákveðin 1.100.000 krónur. Við ákvörðun málskostnaðar hefur verið tekið tillit til virðisaukaskatts á málflutningsþóknun.

Kjartan Bjarni Björgvinsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð :

Stefndi, Sjóvá-Almennar tryggingar hf., skal vera sýkn af kröfum stefnanda, A.

Málskostnaður fellur niður.

Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, Viktoríu Hilmarsdóttur hdl., 1.100.000 krónur.