Hæstiréttur íslands

Mál nr. 128/2005


Lykilorð

  • Kærumál
  • Farbann
  • Schengen-samningurinn


Föstudaginn 1

 

Föstudaginn 1. apríl 2005.

Nr. 128/2005.

Ríkislögreglustjóri

(Þórir Oddsson vararíkislögreglustjóri)

gegn

X

(Hilmar Gunnlaugsson hdl.)

 

Kærumál. Farbann. Schengen-samningurinn.

 

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta farbanni samkvæmt 110. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Hrafn Bragason, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 30. mars 2005, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum næsta dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 30. mars 2005, þar sem varnaraðila var bönnuð för frá Íslandi allt til miðvikudagsins 20. apríl 2005. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Frá varnaraðila hefur borist greinargerð til Hæstaréttar. Ætla verður að hann geri kröfu um að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.

Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.

Meðal skjala málsins er beiðni sem dómsmálaráðuneytinu barst 29. mars 2005 frá dómsmálaráðuneyti Baden-Württemberg í Þýskalandi um framsal á varnaraðila. Með vísan til 1. mgr. 19. gr., sbr. 1. mgr. 15. gr. laga nr. 13/1984 um framsal sakamanna, sbr. og 110. gr. og b.-lið 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 og að öðru leyti til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 30. mars 2005.

Ríkislögreglustjórinn hefur krafist þess að X, verði með úrskurði gert að sæta áframhaldandi farbanni allt  til 20. apríl  2005 kl. 16.00.

Í greinargerð ríkislögreglustjóra segir að krafan sé sett fram með vísan til 19. gr. laga um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum nr. 13,1984 og 110, gr. sbr. b-lið 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19,1991. 

Þá segir ennfremur í greinargerðinni að við venjubunda samkeyrslu áhafna og farþegalista m/s Norrönu hinn 7. mars sl. við Scehengen-upplýsingakerfið hafi komið upp nafn X á skrá yfir eftirlýsta menn á Schengen-svæðinu.  Sirene skrifstofa ríkislögreglustjórans annist samkeyrslu þessara lista í Schengen-upplýsinga­kerfinu samkvæmt lögum um Schengen upplýsingakerfið á Íslandi nr. 16,2000 og reglugerð um útlendinga nr. 53,2003.

Við nánari skoðun á Schengen-upplýsingakerfinu hafi komið í ljós að X hafi verið skráður í kerfið samkvæmt 95. gr. Schengen-samningsins af þýskum yfirvöldum.  Samhliða Schengen-upplýsingkerfinu sé einnig keyrt Sirene-kerfi þar sem fari fram öll samskipti vegna Schengen-skráninga eftir fyrirfram uppsettum formum þar sem hvert svæði krefjist ákveðinna upplýsinga.  Þegar skráður sé einstaklingur í Schengen-upplýsingakerfið samkvæmt 95. gr. Schengensamn­ings­ins, þ.e.

Upp­lýsinga um eftir­lýsta einstaklinga, sem óskað er eftir að verði hand­teknir í þeim tilgangi að verða fram­seldir, verða skráðar að beiðni dóms­mála­yfir­valda þess samnings­aðila sem leggur  fram beiðni.”

Þá sendi skráningarlandið A-form í Sirene kerfinu til allra hinna aðildarlandanna.  Í því formi eigi að koma fram neðangreindar upplýsingar:

 

a)

hvaða yfirvald leggi fram beiðni um handtöku;

b)

hvort fyrir liggi handtökuskipun eða ákvörðun með sama gildi eða aðfarahæfur dómur;

c)

hvers konar refsiverðan verknað um sé að ræða og tilvísun til viðeigandi refsiákvæða;

d)

við hvaða aðstæður hinn refsiverði verknaður hafi verið framinn, þar með talið hvenær og hvar hann hafi verið framinn og hver þáttur hins skráða sé í málinu:

e)

eftir því sem unnt sé, hverjar séu afleiðingar hins refsiverða verknaðar.

 

Viðtökuríkin lesi yfir A-formið og ákveða síðan hvort þau samþykki framsal með hliðsjón af innlendri löggjöf.

Mál X sé skráð í Schengen-upplýsingakerfið af Þjóðverjum þann 16.11. 2003 og A-form sent til hinna aðildarlandanna.  Það form sé móttekið af Sirene skrifstofunni á Íslandi og þar sé málið yfirfarið og samþykkt að ef maðurinn finnist á Íslandi verði hann handtekinn og hann framseldur til Þýskalands - auðvitað að því tilskyldu að skilyrði framsals séu fyrir hendi.

Eins og að ofan segi hafi X fundist í samkeyrslu áhafnar- og farþegalista farþegaferjunnar Norrönu þann 7. mars sl.  Norröna hafi svo lagst við höfn á Seyðisfirði þann 8. mars sl. kl. 09.00.  Vð almenna tollskoðun hafi X verið tekinn til skoðunar af tollvörðum, ásamt samferðakonu sinni A [...], en þau hafi verið saman í bifreiðinni [...].  Ekkert hafi fundist við leit í bifreiðinni, en tollayfirvöld í Færeyjum hafi látið vita að við skoðun í Færeyjum, hafi fíkniefnahundur tollgæslunnar merkt lykt af fíkniefnum í bifreiðinni, án þess að leit bæri árangur.  Í framhaldi af þessu hafi X verið handtekinn og færður í yfirheyrslu á lögreglustöðinni á Seyðisfirði.

Í Schengen-upplýsingakerfinu sé meintri háttsemi X lýst svo:  […]

Samkvæmt nánari gögnum sem liggi til grundvallar skráningunni sést að X sé eftirlýstur af ”Staatsanwaltschaft Baden-Baden”, á grundvelli ákvörðunar ”Amtsgericht Baden-Baden” í Þýskalandi frá 16.04. 2003, í máli nr. 9. GS 247/03, fyrir ætluð brot á þýskum fíkniefnalögum (German Narcotic Drugs Act, Paragraph 30A absatz 1 beta ubungsmittelsgesetz).  Samsvarandi ákvæði íslenskra laga er 173. gr. a, almennra hegningarlaga nr. 19,1940.  Hámarksrefsing samkvæmt þýskum lögum fyrir hið ætlaða brot sé 15 ára fangelsi en hámarksrefsing samkvæmt íslensku hegningalögunum sé 12 ára fangelsi.

Skráning þýskra yfirvalda í Schengen-upplýsingakerfið samkvæmt 95. gr. Schengen-samningsins, jafngildi beiðni um handtöku og gæslu í skilningi 16. gr. Evrópusamnings um framsal sakamanna frá 13. september 1957, sbr. 64. gr. Schengen-samningsins.

X hafi verið yfirheyrður þann 8. mars sl. og hafi hann neitað að hafa framið þá háttsemi sem honum sé gefið að sök.  Dómsmálaráðuneytinu og ríkissaksóknara hafi þegar verið gert viðvart um málið, enda sé framsalsmálið til meðferðar hjá þessum stofnunum lögum samkvæmt.

Krafist hafi verið gæsluvarðhalds yfir X í Héraðsdómi Austurland þann 8. mars sl.  Þeirra kröfu hafi verið hafnað en dómurinn gert honum að sæta farbanni til 30. mars 2005 kl. 16.00.  Úrskurður Héraðsdóms Austurlands hafi verið kærður til Hæstaréttar sem staðfest hafi úrskurðinn með dómi þann 14. mars 2005. 

X hafi dvalist í Reykjavík frá því að úrskurður héraðsdóms lá fyrir og hafi honum verið gert að tilkynna sig á lögreglustöðinni í Reykjavík tvisvar á dag.  X hafi sinnt þeirri skyldu að fullu.

Meðan framsalsmálið sé ekki til lykta leitt sé nauðsynlegt að krefjast áframhaldi farbanns yfir X til að tryggja nærværu hans.

Með vísan til 19. gr. laga nr. 13/1984 sé krafa þessi áréttuð.

Fyrir liggur að kærði er eftirlýstur af þýskum yfirvöldum vegna meints brots á þýskum fíkniefnalögum og að þýsk yfirvöld muni ætla að krefjast framsals hans. Um meðferð framsalsmálsins fer samkvæmt lögum nr. 13/1984 um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum.

Kærði er ríkisborgari í Litháen og búsettur þar í landi.  Til að tryggja að hann hverfi ekki af landi áður en meðferð málsins lýkur þykir ríkislögreglustjóranum nauðsynlegt að hann sæti áframhaldandi farbanni.  Verður að fallast á það mat.  Krafa ríkislögreglustjórans verður samkvæmt þessu tekin til greina samkvæmt 110. gr., sbr. b-lið 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19,1991, sbr. 2. mgr. 18. gr. laga nr. 13,1984. 

Ásgeir Magnússon héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð:

Farbann er X, sætir er framlengt til 20. apríl  2005 kl. 16.00.