Hæstiréttur íslands

Mál nr. 698/2010


Lykilorð

  • Kærumál
  • Málskostnaður


Föstudaginn 21. janúar 2011.

Nr. 698/2010.

Jón Einar Jakobsson

(sjálfur)

gegn

Lýsingu hf.

(Sigurmar K. Albertsson hrl.)

Kærumál. Málskostnaður.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem mál L hf. á hendur félaginu 1060 ehf. var fellt niður og L hf. gert að greiða félaginu 130.000 krónur í málskostnað. J var lögmaður félagsins 1060 ehf. í héraði og framseldi félagið honum kröfu sína á hendur L hf. um greiðslu málskostnaðar og jafnframt heimildir framseljanda til að kæra málið til Hæstaréttar. J hélt því m.a. fram að samkomulag hefði verið milli sín og félagsins 1060 ehf. að miða skyldi málskostnað við gjaldskrá lögmannsins með tilteknum hætti. Í dómi Hæstaréttar segir m.a. að í héraði hafi hvorki verið lögð fram gjaldskrá J né málskostnaðarreikningur og ekki verði séð af endurriti úr þingbók að framangreint samkomulag hafi náðst með aðilum um viðmiðun við ákvörðun málskostnaðar. Taldi Hæstiréttur miðað við meðferð málsins, umfang þess og þá hagsmuni sem um var deilt að hæfilegt væri að L ehf. greiddi J 400.000 krónur í málskostnað fyrir héraðsdómi.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Viðar Már Matthíasson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 8. desember 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 16. sama mánaðar og 13. janúar 2011. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 1. desember 2010 þar sem mál varnaraðila á hendur 1060 ehf. var fellt niður og varnaraðila gert að greiða félaginu 130.000 krónur í málskostnað. Kæruheimild er í g. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að varnaraðili verði dæmdur til að greiða sér hærri málskostnað en ákveðinn var í héraði svo og kærumálskostnað.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar. Til vara krefst hann þess að kærumálskostnaður verði felldur niður.

I

Sóknaraðili var lögmaður stefnda í héraði, sem var 1060 ehf., en félagið hefur framselt sóknaraðila kröfu sína á hendur varnaraðila um greiðslu málskostnaðar auk lögmæltra vaxta samkvæmt hinum kærða úrskurði. Jafnframt voru sóknaraðila framseldar heimildir til að kæra málið til Hæstaréttar og krefjast þar aukins málskostnaðar fyrir héraðsdómi.

Varnaraðili höfðaði mál þetta 28. október 2009 á hendur 1060 ehf. til greiðslu skuldar að fjárhæð 53.850.793 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 8. apríl 2009 til greiðsludags vegna ætlaðra vanskila á greiðslum samkvæmt samningi aðila um fasteignina Skipholt 50 a í Reykjavík. Snerist deila aðila meðal annars um eðli umrædds samnings og hvort viðmið í honum við svokallað myntkörfugengi væri heimilt að lögum. Málið var eftir þingfestingu tekið sex sinnum fyrir á reglulegu dómþingi, ætíð vegna óska stefnda í héraði um frest til að skila greinargerð, en henni var ekki skilað fyrr en 11. febrúar 2010. Í næsta þinghaldi 29. nóvember 2010 óskaði varnaraðili eftir því að málið yrði fellt niður. Stefndi í héraði krafðist málskostnaðar, en þeirri kröfu andmælti varnaraðili og var málið tekið til úrskurðar sem kveðinn var upp tveimur dögum síðar.

Krafa sóknaraðila er á því reist að dæma beri honum málskostnað í samræmi við málskostnaðarreikning sem lagður hefur verið fyrir Hæstarétt. Heldur sóknaraðili því fram að samkomulag hafi verið milli sín og stefnda í héraði að miða skyldi málskostnað við „gjaldskrá lögmannsins eins og um væri að ræða einfalt innheimtumál án dómsmeðferðar og þá með tilliti til hagsmuna í húfi. Væri sú fjárhæð svipuð og vegna 100 klst. vinnu“, þótt vinnutímar hafi verið fleiri og málið umfangsmikið. Skuli málskostnaður samkvæmt þessu ákveðinn að lágmarki 2.100.060 krónur. Til stuðnings kröfu sinni nefnir sóknaraðili einnig að fyrirætlanir hafi verið um að gagnstefna í héraði en hætt hafi verið við það vegna ákvæða laga um fresti. Þá beri að horfa til þess að til hafi staðið að leggja fram frekari gögn en greinargerð en ekki orðið af því vegna kröfu varnaraðila um niðurfellingu málsins. Auk þess hafi héraðsdómur dregið að taka málið fyrir þar sem beðið hafi verið niðurstöðu Hæstaréttar í öðrum sambærilegum málum. Að lokum vísar sóknaraðili til þess að líta beri til bágrar fjárhagsstöðu stefnda í héraði.

Varnaraðili vísar einkum til þess að mál þetta hafi verið fellt niður sökum dóma Hæstaréttar um að lög nr. 38/2001 heimili ekki að lán í íslenskum krónum séu verðtryggð með því að binda þau við gengi erlendra gjaldmiðla. Auk þess hafi lítil ástæða verið til að halda áfram málinu því 4. nóvember 2010 hafi að beiðni tollstjórans í Reykjavík verið gert árangurslaust fjárnám hjá stefnda í héraði.

II

Í héraði var hvorki lögð fram gjaldskrá sóknaraðila né málskostnaðarreikningur. Sóknaraðili hefur ekki fært rök fyrir því að framangreindar tafir á meðferð málsins á reglulegu dómþingi í héraði eða frestun á meðferð þess síðar skuli leiða til hærri málskostnaðar honum til handa. Þá verður hvorki séð að rök standi til þess að bág fjárhagsstaða stefnda í héraði né fyrirætlanir hans um gagnstefnu skuli hafa áhrif á ákvörðun málskostnaðar. Samkvæmt 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 skal stefnanda gert að greiða stefnda málskostnað ef máli er vísað frá dómi eða það fellt niður af annarri ástæðu en þeirri að stefndi efni þá skyldu, sem hann er krafinn um í máli. Er aðila rétt að krefjast málskostnaðar úr hendi gagnaðila síns eftir mati dómsins eða samkvæmt sundurliðuðum reikningi sem er lagður fram ekki síðar en við aðalmeðferð máls, sbr. 3. mgr. 129. gr. laganna. Þegar málið er virt í heild sinni, meðferð og umfang þess og þá jafnframt að hvorki fór fram gagnaöflun né aðalmeðferð í því eftir að stefndi lagði fram greinargerð sína, er hæfilegt að varnaraðili greiði sóknaraðila 400.000 krónur í málskostnað fyrir héraðsdómi.

Varnaraðili verður dæmdur til að greiða sóknaraðila kærumálskostnað eins og greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Varnaraðili, Lýsing hf., greiði sóknaraðila, Jóni Einari Jakobssyni, 400.000 krónur í málskostnað í héraði.

Varnaraðili greiði sóknaraðila 200.000 krónur í kærumálskostnað.

                                                                           

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 1. desember 2010.

Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 29. nóvember sl., var höfðað 28. október 2009.

Stefnandi er Lýsing, Ármúla 3, Reykjavík.

Stefndi er 1060 ehf., Hörðukór 3, Kópavogi.

Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til greiðslu skuldar að fjárhæð 53.850.793 krónur auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001um vexti og verðtryggingu frá 8. apríl 2009 til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefnda auk virðisaukaskatts af málflutningsþóknun.

Stefndi krefst aðallega sýknu af kröfum stefnanda en til vara að kröfur stefnanda verði verulegar lækkaðar. Þá krefst stefndi málskostnaðar að mati réttarins úr hendi stefnanda.

Í þinghaldi 29. nóvember sl. óskaði lögmaður stefnanda að fella málið niður. Stefndi setti fram kröfu um málskostnað. Lögmenn aðila voru sammála um að leggja ákvörðun málskostnaðar í úrskurð dómsins. Var málið síðan tekið til úrskurðar.

Stefnandi óskar að fella málið niður. Með vísan til c liðar 1. mgr. 105. gr. laga nr. 91/1991 ber að fella málið niður. Með vísan til 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 skal stefnanda gert að greiða stefnda málskostnað.

Málið var tekið fyrir sjö sinnum á reglulegu dómþingi og einu sinni eftir að málinu var úthlutað til dómara. Þá hefur stefndi lagt fram greinargerð af sinni hálfu. Eftir atvikum þykir málskostnaður til stefnda hæfilega ákveðinn 130.000 krónur.

Kristjana Jónsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Mál þetta er fellt niður.

Stefnandi, Lýsing hf., greiði stefnda, 1060 ehf., 130.000 krónur í málskostnað.