Hæstiréttur íslands

Mál nr. 375/2005


Lykilorð

  • Verksamningur
  • Hugverkaréttindi
  • Skaðabætur
  • Skriflegur málflutningur


Fimmtudaginn 19

 

Fimmtudaginn 19. janúar 2006.

Nr. 375/2005.

Hlédís Sveinsdóttir

Gunnar Bergmann Stefánsson og

EON arkitektar ehf.

(Erla S. Árnadóttir hrl.)

gegn 

Erni Arnarsyni

Hildi Ýri Arnarsdóttur

Inga Gunnari Þórðarsyni og

(enginn)

Kópavogsbæ

(Þórður Clausen Þórðarson hrl.)

 

Verksamningur. Hugverkaréttindi. Skaðabætur. Skriflegur málflutningur.

Ö og H fengu úthlutað lóð fyrir parhús í Kópavogi og gerðu samning við E um hönnun hússins. Í nóvember 2001 voru deiliteikningar E lagðar inn til byggingarfulltrúa, en um var að ræða ófullgerðar vinnuteikningar þar sem slitnað hafði upp úr samstarfi aðila vegna ágreinings um greiðslur fyrir vinnu E. Í júní 2002 var umsókn um byggingarleyfi þar sem tekið var fram að hönnuður hússins væri I samþykkt af byggingarfulltrúa og sú afgreiðsla staðfest af byggingarnefnd og bæjarstjórn. Í héraðsdómi, sem staðfestur var með vísan til forsendna hans, var vísað til þess að HL og G hefðu neitað að vinna frekar að verkinu nema reikningar yrðu að fullu greiddir og talið að Ö og H hefðu haft réttmæta ástæðu til að draga í efa að reikningar væru sanngjarnir. Var því talið að Ö og H hefði verið rétt að fá annan hönnuð til að ljúka verkinu þar sem fyrir lá að því yrði ekki lokið með öðrum hætti. Talið var að breytingar sem gerðar voru á hönnun HL og G hefðu verið óverulegar með tilliti til heildarútlits hússins og ekki til þess fallnar að skerða höfundarsérkenni eða höfundarheiður. Voru Ö, H og I því sýknuð af miskabótakröfu HL og G og skaðabótakröfu E.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Markús Sigurbjörnsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Áfrýjendurnir Hlédís Sveinsdóttir og Gunnar Bergmann Stefánsson skutu málinu til Hæstaréttar með áfrýjunarstefnum 19. og 31. ágúst 2005. Þau krefjast þess að stefndu Örn Arnarson, Hildur Ýr Arnarsdóttir og Ingi Gunnar Þórðarson verði óskipt dæmd til að greiða sér 800.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 7. febrúar 2003 til greiðsludags. Þá krefjast þau málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti úr hendi stefndu Arnar, Hildar Ýrar og Inga Gunnars, en málskostnaðar fyrir Hæstarétti úr hendi stefnda Kópavogsbæjar.

Áfrýjandinn EON arkitektar ehf. skaut málinu til Hæstaréttar 5. september 2005 að fengnu áfrýjunarleyfi. Hann krefst þess að stefndu Örn, Hildur Ýr og Ingi Gunnar verði óskipt dæmd til að greiða sér 246.510 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 7. febrúar 2003 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti úr hendi þessara stefndu.

Stefndu Örn, Hildur Ýr og Ingi Gunnar hafa ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti. Samkvæmt 3. mgr. 158. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 12. gr. laga nr. 38/1994, ber að líta svo á að þau krefjist staðfestingar hins áfrýjaða dóms.

Stefndi Kópavogsbær krefst staðfestingar á héraðsdómi og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Með vísan til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur um annað en málskostnað til handa stefnda Kópavogsbæ, en dæma verður áfrýjendurna Hlédísi og Gunnar Bergmann til að greiða honum málskostnað á báðum dómstigum, sem ákveðinn verður í einu lagi eins og nánar greinir í dómsorði. Að öðru leyti dæmist málskostnaður ekki fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður um annað en málskostnað til handa stefnda Kópavogsbæ.

Áfrýjendur, Hlédís Sveinsdóttir og Gunnar Bergmann Stefánsson, greiði stefnda Kópavogsbæ samtals 300.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti. Að öðru leyti fellur málskostnaður fyrir Hæstarétti niður.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 31. maí 2005.

             Mál þetta var þingfest 14. maí 2003 og tekið til dóms 4. maí sl. Stefnendur eru Hlédís Sveinsdóttir, kt. 020565-3659, Álftamýri 20, Reykjavík, Gunnar Bergmann Stefánsson, kt. 250864-4859, Logafold 66, Reykjavík og EON arkitektar ehf., kt. 501299-2279, Brautarholti 1, Reykjavík.  Stefndu eru Örn Arnarson, kt. 180870-4319, Hildur Ýr Arnardóttir, kt. 231072-6089, bæði til heimilis að Suðursölum 10, Kópavogi,  Ingi Gunnar Þórðarson, kt. 280453-3239, Safamýri 87, Reykjavík og Kópavogsbær, kt. 700169-3759, Fannborg 2, Kópavogi.

             Dómkröfur stefnenda eru eftirfarandi: 

I.  Af hálfu Hlédísar Sveinsdóttur og Gunnars Bergmann Stefánssonar:

1. Að stefndu Kópavogsbær, Hildur Ýr Arnardóttir og Örn Arnarson, verði dæmd til að þola ógildingu eftirtalinna samþykkta sveitarfélagsins:

a.  samþykkt byggingarfulltrúa Kópavogsbæjar frá 9. júlí 2002, sbr. dskj. nr. 36, á umsókn stefnda Arnar Arnarsonar og Arnar Jónssonar um byggingarleyfi vegna Suðursala 10 og 12 er fólst í leyfi til að breyta innra skipulagi húsanna, breyta útfærslum á þaki/þakköntum, breyta efnisvali þakkanta, breyta uppbyggingu lofta inni í húsinu og fella út þakglugga, einnig að klæða veggflöt, sem áður var múrhúðaður, með þakpappa, hengja niðurfallsrennu og affallsrör, sem áður var falið, utan á húsinu og með þessu öllu gera heildarbreytingu á útliti hússins.

b.  samþykkt byggingarnefndar Kópavogsbæjar frá 17. júlí 2002, sbr. dskj. nr. 37 um staðfestingu á samþykkt byggingarfulltrúa frá 9. júlí 2002.

c.  samþykkt bæjarstjórnar Kópavogsbæjar frá 20. ágúst 2002, sbr. dskj. nr. 38 um staðfestingu á samþykkt byggingarnefndar frá 17. júlí 2002.

2.  Að stefndu, Örn Arnarson, Hildur Ýr Arnardóttir og Ingi Gunnar Þórðarson, verði dæmd in solidum til að greiða þessum stefnendum skaðabætur að fjárhæð 800.000 krónur ásamt dráttarvöxtum sem Seðlabanki Íslands auglýsir samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 7. febrúar 2003 til greiðsludags.  Dráttarvextir leggist við höfuðstól á 12 mánaða fresti í samræmi við 12. gr. sömu laga, í fyrsta sinn 7. febrúar 2004.

3.  Að allir stefndu verði dæmdir in solidum til að greiða þessum stefnendum málskostnað að mati dómsins eða samkvæmt málskostnaðarreikningi, er lagður verður fram við aðalmeðferð málsins.  Málflutningsþóknun beri virðisaukaskatt samkvæmt lögum nr. 50/1988.

II.  Af hálfu EON arkitekta ehf.:

1.  Að stefndu, Örn Arnarson, Hildur Ýr Arnardóttir og Ingi Gunnar Þórðarson verði dæmd in solidum til að greiða þessum stefnanda skaðabætur að fjárhæð 246.510 krónur ásamt dráttarvöxtum sem Seðlabanki Íslands auglýsir samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 7. febrúar 2003 til greiðsludags.  Dráttarvextir leggist við höfuðstól á 12 mánaða fresti í samræmi við 12. gr. sömu laga, í fyrsta sinn 7. febrúar 2004.

2.  Að stefndu Örn Arnarson, Hildur Ýr Arnardóttir og Ingi Gunnar Þórðarson verði dæmd in solidum til að greiða þessum stefnanda málskostnað að mati dómsins eða samkvæmt málskostnaðarreikningi er lagður verður fram við aðalmeðferð málsins.

             Stefndu, Örn, Hildur og Ingi, krefjast þess aðallega að þau verði sýknuð af öllum kröfum stefnenda, en til vara að fjárkröfur þeirra verði lækkaðar verulega.  Þau krefjast ennfremur málskostnaðar.

             Stefndi Kópavogsbær krefst sýknu af öllum kröfum stefnendanna Hlédísar Sveinsdóttur og Gunnars Bergmanns Stefánssonar og að þau verði dæmd til að greiða stefnda málskostnað.

I.

Málavaxtalýsing stefnenda

             Stefnendur, Gunnar Bergmann Stefánsson og Hlédís Sveinsdóttir, arkitektar (hér eftir nefnd arkitektarnir) eru hluthafar stefnandans EON arkitektar ehf.  (hér eftir nefndur EON arkitektar).  Arkitektarnir kveða EON arkitekta selja út þjónustu arkitektanna við arkitektastörf en þeir hafi ekki framselt höfundarréttindi sín til félagsins.

             Stefnendur kveða málavexti þá að með verksamningi 12. febrúar 2000 hafi EON arkitektar tekið að sér fyrir stefndu Örn og Hildi að hanna parhús á lóðirnar nr. 10 og 12 við Suðursali í Kópavogi.  EON arkitektar hafi gert stefndu tímaáætlun 2. febrúar sama ár og sé samningurinn byggður á henni.  Samkvæmt samningnum hafi EON arkitektar tekið að sér að vinna verk sem tilgreint sé í fyrsta áfanga tímaáætlunar fyrir fast verð, 900.000 krónur.  Þar hafi verið um að ræða hönnunar- og þróunarvinnu aðaluppdrátta, mótun hugmynda vegna byggingaraðferðar, klæðninga og frágangs, einnig vinnu við að útbúa gögn til samþykktar hjá skipulagsnefnd, til grenndar­kynningar og aðaluppdrætti til samþykktar hjá byggingarnefnd.

             Vinna vegna fyrsta áfanga hafi verið unnin á tímabilinu janúar 2000 til janúar 2001 og hafi stefndu Örn og Hildur greitt fyrir hana.  Byggingarnefndarteikningar EON arkitekta séu dagsettar í febrúar og mars 2001 og samþykktar í byggingarnefnd Kópavogsbæjar 6. mars 2001.

             Ekki hafi verið gerður skriflegur samningur um frekari vinnu EON arkitekta fyrir stefndu en þau hafi óskað munnlega eftir áframhaldandi vinnu stofunnar.  Stefndu Örn og Hildur hafi greitt reikninga vegna útboðs á gluggum en hins vegar neitað að greiða fyrir reikninga vegna verka er unnin hafi verið frá og með marsmánuði 2001 og fram til júlímánaðar það ár vegna steypu- og verkteikninga og vegna deiliteikninga varðandi frágang glugga og klæðningar. Þá hafi þau einnig hafnað reikningi  vegna frágangs útveggja og renna, vegna uppbyggingar og frágangs þaks, þakkanta og þakglugga, vegna frágangs lofta og veggja innanhúss og vegna innbyggðrar lýsingar í lofti anddyris.

 Samhliða þessari málsókn höfði EON arkitektar mál til greiðslu hinna vangoldnu reikninga. 

             Að auki hafi arkitektarnir sinnt störfum sem aðalhönnuðir byggingarinnar, fundað með verkkaupa, byggingarmeistara, byggingartæknifræðingi, lagnahönnuði, framleiðendum/seljendum byggingarefnis og ráðgjafa vegna þróunarvinnu utanhúss­áferðar og áritað séruppdrætti lögum samkvæmt. 

             Arkitektarnir hafi stöðvað vinnu við teikningar haustið 2001 vegna þess að reikningur frá 25. maí 2001 að fjárhæð 479.686 krónur hafi ekki fengist greiddur.  Stefndu Örn og Hildur hafi tjáð arkitektunum að þau óskuðu ekki eftir frekari teiknivinnu við bygginguna.  Í tölvupósti 13. nóvember 2001 hafi EON arkitektar gert stefndu Erni og Hildi ljóst að ekki yrði unnið frekar við verkið nema um greiðslur semdist.  Þá hafi EON arkitektar gert byggingarfulltrúa þetta ljóst í tölvupósti 26. nóvember 2001.  Stefndu Örn og Hildur hafi óskað eftir að fá deiliteikningar til að leggja inn til byggingarfulltrúa en hafi neitað að greiða reikninginn.  EON arkitektar hafi þá afhent teikningarnar á því stigi sem þær hafi verið og jafnframt tilkynnt byggingarfulltrúa stöðu mála og ástæðu þess að teikningar hafi verið afhentar á vinnslustigi.  Vegna athugasemda byggingarfulltrúa hafi arkitektarnir útbúið skýringarmynd og afhent stefndu gegn greiðslu fyrir þá vinnu. 

             Um miðjan marsmánuð 2002 hafi EON arkitektum borist bréf frá stefndu Erni og Hildi þar sem stofunni hafi verið sagt upp störfum við verkið og arkitektunum tjáð að stefndu myndu fá annan aðila til að ljúka við að vinna deililausnir.  EON arkitektar hafi svarað bréfinu 18. mars 2002.  Þáverandi lögmaður stefnenda hafi sent stefndu Erni og Hildi símskeyti 27. mars 2002 og gert þeim grein fyrir því að það fæli í sér brot á höfundarrétti ef annar aðili lyki hönnun hússins.  Afrit þessa símskeytis hafi verið sent byggingarfulltrúa stefnda Kópavogsbæjar. 

             Í apríl 2002 hafi stefndi Örn sótt um byggingarleyfi ásamt Erni Jónssyni.  Með umsókninni hafi verið afhentar byggingarnefndarteikningar og deiliteikningar sem unnar hafi verið af stefnda Inga Gunnari Þórðarsyni byggingarfræðingi.  Hafi hann verið búinn að afrita teikningar arkitektanna og breyta þeim.  Breytingarnar hafi falist í breytingu á innra skipulagi, breytingum á útfærslum á þaki og þakköntum, breytingu á efnisvali þakkanta og teknir út þakgluggar á báðum húsunum.  Þá hafi veggflötur, sem teikningar hafi gert ráð fyrir að yrði múrhúðaður, verið klæddur þakpappa og niður­fallsrennur og affallsrör, sem áður hafi verið falið, hafi nú verið hengt utan á útveggi hússins.  Þessar breytingar feli í sér heildarbreytingu á útliti hússins.  Örn Jónsson hafi síðar afsalað eignarhluta sínum í fasteigninni til stefndu Hildar.

             Byggingarfulltrúi hafi óskað umsagnar lögmanns um hvort heimilt væri að leyfa notkun teikninganna með tilliti til höfundarréttar. Að fenginni álitsgerð lögmannsins hafi byggingarfulltrúi tjáð stefndu Erni og Hildi í bréfi 16. maí 2002 að hann teldi óheimilt að samþykkja teikningarnar.  Að fenginni annarri álitsgerð sama lögmanns hafi byggingarfulltrúi tjáð stefnda Erni með bréfi 10. júní 2002 að umsókn hans yrði samþykkt með því skilyrði að nýr aðal- og samræmingarhönnuður byggingarinnar myndi staðfesta þá séruppdrætti sem samþykktir hefðu verið hjá byggingarfulltrúa.  Byggingarnefnd Kópavogsbæjar hafi á fundi 7. júní sama ár sam­þykkt með þremur atkvæðum gegn tveimur að fela byggingarfulltrúa afgreiðslu málsins.  Byggingarfulltrúi hafi samþykkt umsóknina án þess að séð verði að skilyrði um samþykkt nýs hönnuðar hafi verið uppfyllt.  Þessi afgreiðsla byggingarfulltrúa hafi verið staðfest af byggingarnefnd á fundi 17. júlí sama ár og af bæjarstjórn Kópavogsbæjar 20. ágúst sama ár.  Stefndu hafi haldið áfram að reisa húsið eftir hinum breyttu teikningum.

             Stefnendur segja Arkitektafélag Íslands hafa ritað bæjaryfirvöldum í Kópavogi bréf 14. október 2002 og krafist þess að samþykktirnar yrðu afturkallaðar.  Þá hafi lögmaður stefnenda ritað stefnda Kópavogsbæ bréf 14. nóvember 2002 og krafist þess að samþykktirnar yrðu tafarlaust afturkallaðar þar sem þær fælu í sér brot gegn fyrirmælum skipulags- og byggingarlaga, stjórnsýslulögum og almennum reglum stjórnsýsluréttar.  Með bréfi byggingarfulltrúa 11. desember 2002 hafi lögmanni stefnanda verið tjáð að bæjarráð hafi ekki talið forsendu til að fella úr gildi fyrri ákvörðun.  Lögmaður stefnenda hafi ritað stefndu Erni og Inga Gunnari bréf 7. janúar 2003 og krafið þá um skaðabætur vegna höfundarréttarbrota við að afrita og breyta teikningum arkitektanna. 

             Málsástæður og lagarök stefnenda

1.       Krafa stefnenda Hlédísar og Gunnars um ógildingu samþykkta  stefnda Kópavogsbæjar.

 Stefnendur Hlédís og Gunnar byggja á því að þau séu aðalhönnuðir að byggingu á lóðunum nr. 10 til 12 við Suðursali í Kópavogi.  Með áritun sinni á aðaluppdrætti fyrir bygginguna hafi þau tekið á sig ábyrgð sem slíkir samkvæmt 1. mgr. 47. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Samþykkt byggingarnefndar stefnda Kópavogsbæjar hinn 7. júní 2002 sé ekki unnt að skilja á annan veg en að nefndin heimili að nýr einstaklingur takist á hendur starf aðalhönnuðar við bygginguna í stað arkitektanna.  Sveitarfélagið hafi nú gegn vilja arkitektanna samþykkt séruppdrætti sem þeir hafi hvorki ábyrgst sem slíka né ábyrgst að séu í samræmi við aðaluppdrætti. 

             1.1. Formgallar á stjórnvaldsákvörðun.

             Arkitektarnir hafi gert stefnda Kópavogsbæ viðvart um að þeir heimiluðu ekki breytingar á teikningum sínum sem sé höfundarverk þeirra sbr. 1. mgr. 1. gr. höfundarlaga nr. 73/1972.  Arkitektarnir hafi því verið réttir aðilar að sérhverri stjórnvaldsákvörðun bæjarins sem hafi verið tekin og snert þessa hagsmuni þeirra.  Stefnda Kópavogsbæ beri samkvæmt 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að veita arkitektunum andmælarétt áður en framangreindar ákvarðanir hafi verið teknar.  Brot gegn andmælaréttinum varði ógildingu ákvarðananna.

             1.2. Samþykkt um nýjan aðalhönnuð felur í sér efnislegan ágalla á stjórnvalds­ákvörðun.

             Arkitektarnir telja ekki heimild fyrir því að stefndi Kópavogsbær samþykki einhliða nýjan aðalhönnuð bygginganna enda hvergi heimild fyrir því í skipulags- og byggingarlögum.  Arkitektarnir telja að byggingaryfirvöldum sé óheimilt að samþykkja séruppdrætti við þær aðstæður að aðalhönnuður leggist gegn samþykki þeirra.   Samkvæmt 2. mgr. 47. gr. laga nr. 73/1997 beri aðalhönnuður ábyrgð á því að séruppdrættir séu í samræmi innbyrðis og í samræmi við aðaluppdrætti.  Jafnvel þó fallist yrði á að stefnda Kópavogsbæ hafi verið heimilt að tilgreina einhliða nýjan aðal­hönnuð telja arkitektarnir umdeilda samþykkt of óljósa.  Ekki sé tekið á í sam­þykktinni um ábyrgð þessara tveggja hönnuða hvors um sig til þess að samþykktin geti staðist.  Engan veginn sé tryggt að nýr aðalhönnuður hafi verið tilgreindur í stað arkitektanna þannig að arkitektarnir beri jafnvel ábyrgð áfram sem aðalhönnuðir.  Þetta leiði til þess að ógilda beri samþykkt stefnda Kópavogsbæjar.

             1.3. Samþykkt um nýjan aðalhönnuð ekki framfylgt.

             Verði ekki fallist á framangreinda málsástæðu byggja arkitektarnir á því að stefndi Kópavogsbær hafi ekki framfylgt þeirri samþykkt sinni að nýr einstaklingur sé tiltekin sem aðalhönnuður byggingarinnar.  Umsókn um leyfi sé undirrituð af hús­eigendum sjálfum og yfirlýsing um ábyrgð stefnda Inga Gunnars liggi ekki fyrir. Þar sem ábyrgð nýs aðalhönnuðar hafi verið forsenda leyfisveitingar beri að ógilda hana. 

             1.4. Brot á höfundarrétti.

             Verði ekki fallist á framangreindar málsástæður telja arkitektarnir að ákvörðun stefnda Kópavogsbæjar um leyfisveitingu hafi verið byggð á ólögmætum sjónarmiðum.  Veiting byggingarleyfis og samþykkt breyting á mannvirki eftir að byggingarleyfi hefur verið veitt sé stjórnarathöfn er snerti hagsmuni nokkurra aðila.  Meðal þeirra sé hönnuður mannvirkis sem eigi lögvarða hagsmuni sem höfundar­réttarhafi.  Við umfjöllun slíkra umsókna beri byggingaryfirvöldum að vega og meta hagsmuni allra þeirra sem vitað sé til að afgreiðsla erindisins varði.  Arkitektarnir hafi með símskeyti 27. mars 2002 gert byggingaryfirvöldum ljóst að þau samþykktu ekki að annar aðili tæki við hönnun hússins.  Hinir breyttu uppdrættir feli í sér höfundarréttarbrot gagnvart arkitektunum. Með því að samþykkja teikningar stefnda Inga Gunnars hafi stefndi Kópavogsbær stuðlað að því að þessi brot nái fram að ganga.  Framkvæmdin eftir leyfisveitinguna hafi augljóslega falið í sér höfundar­réttarbrot.  Að þessum sökum hafi stefnda Kópavogsbæ borið að hafna umsókninni.  Þar sem leyfisveitingin hafi verið byggð á ólögmætum sjónarmiðum beri að ógilda hana. 

             2. Krafa stefnanda EON arkitekta um greiðslu bóta fyrir fjárhagslegt tjón úr hendi stefndu Arnar, Hildar og Inga Gunnars og krafa stefnenda Hlédísar og Gunnars  um greiðslu miskabóta úr hendi sömu aðila.

Stefnandi EON arkitektar byggja á því að byggingarlist sé ein tegund þeirra hugverka sem vernduð sé með 1. mgr. 1. gr. höfundarlaga nr. 73/1972.  Teikningar arkitektanna njóti verndar sem byggingarlist samkvæmt fyrrgreindu ákvæði.  Samkvæmt 3. gr. laganna eigi arkitektarnir einkarétt til að gera eintök af verkinu, meðal annars með því að gera nýjar teikningar, hvort heldur óbreyttar teikningar eða í breyttri mynd.  Samkvæmt 4. gr. laganna sé skylt að geta nafns höfundar á eintökum verks og óheimilt sé að breyta verki arkitektanna þannig að brotið sé gegn höfundarheiðri þeirra eða höfundarsérkennum.

Arkitektarnir hafi ekki samþykkt breytingu stefnda Inga Gunnars á teikningum þeirra.  Breytingin feli því í sér óheimila eftirgerð sem sé brot gegn fjárhagslegum rétti arkitektanna samkvæmt 3. gr. laganna.  Breytingin feli einnig í sér brot gegn sæmdarrétti þeirra samkvæmt 4. gr. laganna en höfundarheiður og höfundarsérkenni hafi verið skert með þeirri útfærslu sem teikningar stefnda Inga Gunnars feli í sér.

Framkvæmd stefndu Arnar og Hildar við að byggja eftir hinum breyttu teikningum feli í sér óheimila eftirgerð sem sé brot gegn fjárhagslegum rétti arkitektanna samkvæmt 3. gr. laganna.  Breytingin feli einnig í sér brot gegn sæmdar­rétti þeirra skv. 4. gr. laganna en höfundarheiður og höfundarsérkenni þeirra, sem birtist í listrænni útfærslu teikninganna, hafi verið skert með nýrri útfærslu.

Samkvæmt 56. gr. laganna séu stefndu bótaskyldir vegna þessara brota.

Krafa um fjárhagslegt tjón sé gerð í nafni EON arkitekta þar sem stofan fénýti fjárhagsleg réttindi arkitektanna.  Krafan sé byggð á fjárhæð er EON arkitektar áætli að þeir hefðu tekið í þóknun fyrir að breyta útliti þakkanta í miðkjarna húsanna, breyta upp­byggingu þaks vegna niðurfellinga þakglugga og aðlögun útlit hússins að þeim breytingum sem stefndu hafi óskað eftir.  Þessa vinnu áætli EON arkitektar 22 klukkustundir á 4.500 krónur auk virðisaukaskatts eða samtals 123.255 krónur.  Krafist er skaðabóta er nemi tvöfaldri þeirri fjárhæð.

 Samkvæmt 2. mgr. 56. gr. höfundarlaga eigi arkitektarnir rétt til miskabóta.  Miskabótakrafan sé 800.000 krónur og felist miski arkitektanna í því að brotið hafi verið gegn sæmdarrétti þeirra.

3. Kröfur um dráttarvexti og málskostnað.

Krafa um dráttarvexti er byggð á vaxtalögum nr. 38/2001 og krafa um málskostnað á 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.

II.

Málavaxtalýsing stefndu Arnar, Hildar og Inga Gunnars

Stefndu Örn og Hildur segjast hafa fengið úthlutað lóð 1999 hjá Kópavogsbæ fyrir parhús að Suðursölum 10-12 í Kópavogi.  Samningur hafi verið gerður við stefnendur 12. febrúar 2000 um hönnun húsanna og umsamið verð verið 900.000 krónur án virðisaukaskatts. Stefnendur Hlédís og Gunnar hafi fullvissað þau um að þessi samningur næði til allrar hönnunarvinnu arkitektanna við húsin svo sem byggingarnefndarteikninga og þeirra deiliteikninga sem krafist yrði af hálfu byggingaryfirvalda.  Þau hafi verið fullvissuð um að enginn annar kostnaður kæmi til viðbótar samningsverðinu.  Á þessum grundvelli hafi vinna við hönnun hafist og stefndu Erni og Hildi sendir reikningar samkvæmt samningi. Stefndu segja stefnendur hafa krafið þau um fullt umsamið endurgjald þrátt fyrir að ekki væri búið að teikna allar þær teikningar sem byggingarfulltrúi hafi krafist.  Upp frá því hafi samskipti aðila orðið erfið.  Þegar verulega háir reikningar hafi haldið áfram að berast til stefndu hafi þeim verið nóg boðið.  Þau hafi þó greitt tiltekna reikninga með fyrirvara til þess að framkvæmdir við byggingu hússins stöðvuðust ekki.  Stefnendur hafi gert þeim reikninga samtals að fjárhæð 2.423.772 krónur með virðisaukaskatti en stefndu hafi greitt 1.490.284 krónur og mótmælt frekari greiðslum.

Svo hafi farið að stefnendur Hlédís og Gunnar hafi neitað að teikna frekar fyrir stefndu nema að undangenginni greiðslu allra reikninga auk vaxta og lögmanns­kostnaðar.  Stefndu Örn og Hildur kveðast þá hafa boðið upp á þá lausn að ágreiningur aðila vegna túlkunar samnings þeirra yrði leystur fyrir dómstólum en haldið yrði áfram með vinnu varðandi deiliteikningar þannig að framkvæmd við bygginguna stöðvaðist ekki.  Á þetta hafi ekki verið fallist og hafi framkvæmdir stöðvast á þessum tíma um haustið 2001.  Þegar hér var komið hafi stefndu Örn og Hildur fengið stefnda Inga Gunnar byggingarfræðing til að teikna þrjár deiliteikningar og leggja inn til samþykkis hjá byggingarfulltrúa.  Að lokinni skoðun hjá byggingarfulltrúa á heimild hans til þess að samþykkja þær teikningar án áritunar samræmingarhönnuða, stefnenda, hafi það orðið niðurstaða byggingarfulltrúa að samþykkja ekki þessar teikningar vegna vöntunar á áritun samræmingarhönnuðar á teikningarnar.  Hafi byggingarfulltrúi vísað til 47. gr. skipulags- og byggingarlaganna nr. 73/1997 þessari niðurstöðu til stuðnings. 

Stefndu Örn og Hildur kveðast nú hafa setið uppi með parhúsið hálfbyggt án þess að getað haldið áfram framkvæmdum.  Á þessum tíma hafi verið búið að steypa veggi upp, setja burðargrind í þak og klæða þakið að miklu leyti.  Stefndu Örn og Hildur kveðast ekki hafa átt önnur úrræði en að fá stefnda Inga Gunnar til að teikna húsin upp eins og þau höfðu verið byggð og árita þær teikningar sem samræmingar­hönnuður.  Þannig hafi verið unnt að leggja inn teikningar frá þeim sama hönnuði, sem þá yrði samræmingarhönnuður, og þannig ættu teikningarnar að fást samþykktar hjá byggingaryfirvöldum.  Þetta hafi gengið eftir.  Á þessum teikningum komi fram hverjir hafi teiknað húsin og stefndi Ingi Gunnar hafi aðeins gerst nýr samræmingar­hönnuður aðalteikninga.  Framkvæmdir hafi loks getað hafist í júlí 2002 en þá hafi stefndu þegar orðið fyrir miklu tjóni vegna tafa á byggingu húsanna. 

Stefndu segja að einu breytingarnar sem gerðar hafi verið á teikningu stefnanda hafi verið nauðsynlegar breytingar til að fá fram úrlausnir á hönnuninni sem óhjákvæmilega hafi þurft að gera til að unnt yrði að halda áfram með bygginguna.

Stefndi Ingi Gunnar sagði m.a. fyrir dómi að stefndi Örn hafi leitað til sín og óskað eftir aðstoð. Hann hafi tjáð honum hvernig húsbyggingin hafi strandað vegna afstöðu stefnenda og að stefndu  Örn og Hildur stefndu í gjaldþrot nema breyting yrði á. Á þessum grunni hafi hann ákveðið að hjálpa þeim. Við skoðun á teikningum og á húsinu hafi hann séð að mörgu var ábótavant í hönnun og gera yrði breytingar til þess að húsið fengist samþykkt. Hann hafi því gert nýjar sérteikningar sem hafi verið skilað inn til byggingarfulltrúa. Teikningarnar hafi hins vegar ekki verið samþykktar vegna þess að áritun samræmingarhönnuðar hafi skort. Málið hafi nú aftur verið strandað og þau íhugað hvað væri til ráða. Úr hafi orðið að hann teiknað nýjar aðalteikningar af húsunum þannig að hann gæti áritað þær og verkteikningar. Hann hafi mælt húsin upp eins og þau voru, þ.e. uppsteypt og komin með sperrur og þakklæðningu að einhverju leyti. Taldi hann sig ekki brjóta höfundarétt með þessu þar sem aðalhönnuða, stefnenda, var getið á aðalteikningum og litlu breytt frá þeim. Þó hafi hann breytt nokkrum atriðum. Þannig hafi stigum í báðum húsunum verið breytt að kröfu byggingarfulltrúa þar sem útfærsla stefnenda hafi ekki staðist byggingarreglugerð varðandi ganghæð í stiga. Heitum á rými í húsi nr. 12 hafi verið breytt þar sem lofthæð hafi ekki verið lögleg.  Það herbergi hafi því verið skráð geymsla á teikningu í stað herbergis. Palli á millihæð hafi einnig þurft að breyta að kröfu byggingarfulltrúa. Efnisvali á þakkanti hafi verið breytt að óska húsbyggenda til þess að spara kostnað. Ytra útliti þakkantsins hafi hins vegar ekki verið breytt heldur aðeins uppbyggingu hans. Hann hafi þurft að breyta þakinu vegna þess að öndun hafi verið ófullnægjandi. Tæknileg útfærsla stefnenda hafi ekki gengið upp og breyting nauðsynleg. Hann hafi ákveðið í samráði við stefnda Örn að sleppa þakglugga vegna þess að hann hafi verið allt og flókinn og öruggt að það myndi leka með honum þar sem lítill sem engin halli sé á þakinu. Á einum stað hafi teikningar gert ráð fyrir að múrað yrði á ál og krossvið en það sé tæknilega útilokað. Hann hafi breytt því.

Málsástæður og lagarök stefndu Arnar, Hildar og Inga Gunnars 

Stefndu mótmæla miskabótakröfu stefnenda og dráttarvaxtakröfu.  Þau byggja sýknukröfu sína á því að höfundarréttur stefnenda hafi ekki verið brotinn.  Hagsmunir stefndu Arnar og Hildar hafi falist í því að getað lokið við byggingu húsanna og að þessu leyti hafi hagsmunir þeirra verið mun meiri en hagsmunir stefnenda.  Ótækt sé að nota höfundarrétt sem aðferð við innheimtu reikninga og hafi aðrar lausnir verið stefnendum færar.  Stefndu byggja á því að í 4. gr. höfundarlaga nr. 73/1972 sé skylt að geta nafn höfundar og það hafi verið gert.  Stefndi Ingi Gunnar hafi ekkert gert til þess að gera hönnun húsanna að sinni hönnun.  Hann hafi aðeins gerst samræmingarhönnuður en nöfn stefnenda Hlédísar og Gunnars komi alls staðar fram á þeim teikningum sem þau hafi teiknað.  Byggt er á því að í 13. gr. höfundarlaga komi fram heimild til breytinga að því leyti sem þær séu taldar nauðsynlegar vegna afnota eða að tæknilegum ástæðum. 

Stefndu mótmæla málskostnaðarkröfum stefnenda. 

Verði ekki fallist á sýknukröfu stefndu byggja þau varakröfu sína á því að lækka beri stefnukröfur verulega og er sú krafa byggð á sömu sjónarmiðum og varðandi aðalkröfu.

III.

Málavaxtalýsing stefnda Kópavogsbæjar

Stefndi Kópavogsbær kveður Örn Arnarson og Örn Jónsson hafa sótt um byggingarleyfi árið 2000 fyrir parhús að Suðursölum 10-12 í Kópavogi.  Á fundi byggingarnefndar Kópavogs 24. janúar 2001 hafi byggingarfulltrúa verið falið að afgreiða byggingarleyfi þeim til handa sem hann hafi gert 1. febrúar 2000.  Hinn 6. mars 2001 hafi byggingarnefndarteikningar stefnanda EON arkitekta verið áritaðar af byggingarfulltrúa Kópavogs.  Uppdrættirnir hafi verið áritaðir af samræmingar­hönnuðum, stefnendum Hlédísi og Gunnari.  Í nóvember 2001 hafi deiliteikningar verið lagðar inn til byggingarfulltrúa Kópavogs.  Í tölvupósti stefnanda EON arkitekta  til byggingarfulltrúa 26. nóvember 2001 hafi verið frá því greint að deiliteikningar þær sem EON arkitektar hefðu skilað inn vegna parhússins væru einungis vinnuteikningar.  Enginn samningur væri milli verkkaupa og arkitekta um frekari teikningar.  Arkitektarnir gætu því ekki haldið áfram frekari hönnun og teikningu á umræddu verki.  Í framhaldi af ofangreindum tölvupósti hafi byggingarfulltrúi ritað arkitektunum bréf 10. desember 2001 þar sem athugasemdir hafi verið gerðar vegna sérteikninga.  Því næst hafi byggingarfulltrúa Kópavogs borist afrit símskeytis þá­verandi lögmanns stefnanda EON arkitekta 27. mars 2002.  Efni skeytisins hafi verið ógreiddir reikningar stefndu Arnar og Hildar og árétting á höfundarrétti arkitektanna.  Í marsmánuði 2002 hafi stefndu Örn og Hildur lagt fram sérteikningar sem unnar hafi verið af Inga Gunnari Þórðarsyni byggingarfræðingi.  Byggingarfulltrúi hafi synjað um samþykki fyrir þeim teikningum þar sem áritun samræmingarhönnuðar hafi skort. 

Með bréfi byggingarfulltrúa Kópavogs 26. apríl 2002 hafi verið óskað álits lögmanns á því hvort byggingarfulltrúa væri heimilt að leyfa notkun á nefndum sérteikningum meðal annars með tilliti til uppgjörsmála og höfundarréttar eða hvort til álita kæmi að heimila notkun með fyrirvara.  Niðurstaða álitsgerðarinnar hafi verið sú að byggingaryfirvöldum bæri ekki að taka afstöðu til álitaefna af höfundarréttarlegum toga né atriða sem vörðuðu fjárhagslegt uppgjör milli aðila.  Þá segir og í álitsgerðinni að byggingaryfirvöldum væri ekki heimilt að samþykkja séruppdrætti sem ekki hafi verið áritaðir af samræmingarhönnuði.  Með bréfi byggingarfulltrúa 16. maí 2002 hafi stefndu Arnari og Hildi verið greint frá þessari niðurstöðu.

Hinn 4. júní 2002 hafi stefndi Örn og Örn Jónsson sótt um byggingarleyfi að nýju og þá hafi þess verið getið að hönnuður hússins væri stefndi Ingi Gunnar.  Byggingarfulltrúi óskaði á ný eftir áliti lögmanns og samkvæmt hans áliti væri því ekkert til fyrirstöðu að byggingaryfirvöld samþykktu nýja hönnun aðaluppdrátta enda tæki samræmingarhönnuður ábyrgð á þeim.

Stefndi Kópavogsbær kveður byggingarnefnd hafa tekið fyrir umsókn um byggingarleyfi á fundi 7. júní 2002 og falið byggingarfulltrúa að ljúka afgreiðslu málsins að uppfylltum framlögðum athugasemdum: „Í samræmi við meðfylgjandi álitsgerð Eyvindar G. Gunnarssonar hdl. dagsett 7. júní 2002 er það skilyrði fyrir samþykkt teikninga að nýr aðal- og samræmingarhönnuður hússins staðfesti með áritun sinni sem samræmingarhönnuður þá séruppdrætti sem samþykktir hafa verið hjá byggingarfulltrúa.  Að þessu uppfylltu mun byggingarfulltrúi afgreiða umsóknina að afloknum bæjarstjórnarfundi þann 25. júní næstkomandi.“

Með bréfi byggingarfulltrúa 10. júní 2003 hafi verið tilkynnt um að byggingarnefnd hafi vísað erindi sínu til fullnaðarafgreiðslu byggingarfulltrúa að uppfylltri ofangreindri athugasemd.  Umsókn stefnda Arnar og Arnar Jónssonar hafi síðan verið samþykkt 9. júlí 2002.  Á fundi bæjarstjórnar Kópavogs 20. ágúst 2002 hafi samþykkt byggingarnefndar Kópavogs frá 17. júlí 2002 verið samþykkt án umræðu. 

Með bréfi stjórnar Arkitektafélags Íslands 14. október 2002 til bæjarstjórnar Kópavogs hafi þess verið óskað að bæjaryfirvöld ógiltu ákvörðun byggingarnefndar frá 7. júní 2002 með þeim ráðum sem tiltæk væru.

Með bréfi lögmanns stefnenda til Kópavogsbæjar 14. október 2002 hafi þeim sjónarmiðum stefnenda verið lýst að þeir teldu teikningar stefnda Inga Gunnars fela í sér brot gegn höfundarrétti stefnenda.  Hafi þess verið krafist að samþykktir bæjarstjórnar og byggingarnefndar yrðu tafarlaust afturkallaðar.  Með bréfum byggingarfulltrúa Kópavogs 11. desember 2002 til Arkitektafélags Íslands og lögmanns stefnenda hafi verið greint frá því að bæjarráð teldi ekki forsendu til að fella úr gildi fyrri ákvörðun.

Málsástæður og lagarök stefnda Kópavogsbæjar

1. Meintir formgallar á stjórnvaldsákvörðun.

Stefndi Kópavogsbær mótmælir því að andmælaréttar stefnenda hafi ekki verið gætt.  Stefnendur hafi ekki verið aðilar að umsókn stefnda Arnar og Arnar Jónssonar um hið umdeilda byggingarleyfi.  Breyti það engu um þótt stefnda hafi verið kunnugt um deilur milli stefnenda og stefndu Arnar og Hildar.  Þá sé einnig til þess að líta að meginregla 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um andmælarétt sæti undantekningum.  Í ákvæðinu sé sérstaklega mælt fyrir um tvenns konar undanþágur frá andmælarétti.  Annars vegar þegar afstaða og rök aðila liggi fyrir í gögnum málsins og hins vegar þegar augljóslega sé óþarfi að veita aðila kost á að tjá sig um efni máls áður en stjórnvöld taki ákvörðun.  Í þessu máli sé ljóst að báðar undanþágurnar eigi við.  Afstaða stefnenda hafi legið fyrir í tölvupósti stefnenda til byggingarfulltrúa og í afriti símskeytis þáverandi lögmanns stefnenda 27. mars 2002 til stefndu Arnar og Hildar en það skeyti hafi einnig verið sent byggingarfulltrúa Kópavogs.  Af þessu leiði að ekki þurfi að gefa stefnendum kost á að tjá sig sérstaklega um efni málsins áður en stjórnsýsluákvarðanir bæjaryfirvalda hafi verið teknar.  Þá hafi verið óþarfi að veita stefnendum kost á að tjá sig um efni máls áður en ákvarðanir voru teknar.  Ákvörðun byggingarnefndar um að heimila breytingar á teikningum hafi alfarið byggst á hlutlægum forsendum.  Undirritanir hönnuðar á aðal- og séruppdrætti hafi legið fyrir er stjórnvaldsákvarðanir bæjaryfirvalda hafa verið teknar.  Öllum formskilyrðum hafi því verið fullnægt.  Upplýsingar og atvik máls hafi verið þess eðlis að ekki hafi verið við því að búast að stefnendur gætu þar neinu breytt.  Loks bendir stefndi á að mál þetta hafi átt sér langan aðdraganda.  Bréfaskriftir hafi gengið milli aðila og byggingaryfirvöld hafi kannað sérstaklega réttarstöðu sína. 

2.  Meintur efnislegur ágalli á stjórnvaldsákvörðun.

             Stefndi mótmælir því að honum hafi ekki verið heimilt að samþykkja einhliða aðalhönnuð bygginganna.  Það sé meginatriði 47. gr. skipulags- og byggingarlaga að samræmingarhönnuður beri ábyrgð gagnvart byggingaryfirvöldum á því að séruppdrættir  séu í samræmi innbyrðis og í samræmi við aðaluppdrætti.  Ekkert í tilvitnuðu ákvæði eða öðrum ákvæðum skipulags- og byggingarlaga girði fyrir að nýr samræmingarhönnuður taki við verki og ljúki því.  Þá sé ekki gerður neinn áskilnaður um að samþykki fyrri samræmingarhönnuðar þurfi að koma til. 

             Í málinu liggi fyrir að annar hönnuður, stefndi Ingi Gunnar, hafi áritað aðal- og séruppdrætti eigin hendi og þannig tekið á sig ábyrgð á því að hönnun sé í samræmi við lög og reglur um byggingarmálefni.  Ekkert hafi verið því til fyrirstöðu og beri stefndi Ingi Gunnar því einn ábyrgð á verkinu eftir að hann tekur við því.  Hann hafi og skilað inn aðaluppdráttum í eigin nafni.  Af þessu leiði að ekkert hafi verið því til fyrirstöðu að byggingaryfirvöld samþykktu nýjan hönnuð aðaluppdrátta sem samræmingarhönnuð samkvæmt 47. gr. skipulags- og byggingarlaga.

             3.  Fullyrðing um að samþykkt um að nýjan aðalhönnuð hafi ekki verið framfylgt.

             Stefndi mótmælir því að samþykkt um nýjan aðalhönnuð hafi ekki verið framfylgt.  Af framlögðum gögnum megi sjá að stefndi Ingi Gunnar áriti sem aðal­hönnuður bæði aðal- og séruppdrætti.  Byggingarfulltrúi Kópavogsbæjar hafi krafist þess að stefndi Ingi Gunnar áritaði þá uppdrætti sem þegar hafi verið samþykktir. 

             4.  Meint brot á höfundarrétti.

             Stefndi Kópavogsbær mótmælir kröfu stefnenda um að ógilda beri leyfisveitingu stefnda þar sem hún sé byggð á ólögmætum sjónarmiðum.  Stefnendur telja að stefndi hafi með samþykki teikninga stefnda Inga Gunnars stuðlað að því að brot á höfundarrétti hafi náð fram að ganga.  Stefndi vísar þessu á bug og bendir á að ekkert liggi fyrir um brot á höfundarrétti stefnenda á þessu stig málsins og hafi stefndi ekki tekið neina afstöðu til þess, hvorki fyrr né nú.  Stefndi bendir á að ákvæði laga og reglugerða um byggingareftirlit sé sett vegna almannahagsmuna og til að efla almennt öryggi.  Hlutverk byggingaryfirvalda sé fyrst og fremst að framfylgja því að farið sé að settum lögum við byggingaframkvæmdir.  Leggja verði áherslu á að byggingar­yfirvöldum beri ekki að skipta sér af ágreiningi einkaréttar eðlis, svo sem höfundar­réttarmálum eða fjárhagsuppgjöri.  Byggingaryfirvöldum beri fyrst og fremst að taka til skoðunar hvort umræddar teikningar uppfylli þær kröfur sem gerðar séu í lögum og reglugerðum um byggingarmálefni svo og því hvort hönnuður sé með löggildingu sem slíkur.  Því er mótmælt af hálfu stefnda að það sé í hans verkahring að leggja mat á það hvort teikningar sem berist byggingaryfirvöldum feli í sér brot á höfundarrétti.  Þegar þetta sé virt hafni stefndi því að hann geti gripið til svo íþyngjandi aðgerða að fella úr gildi byggingarleyfi og stöðvað framkvæmdir á grundvelli meints brots á höfundarrétti.  Sá hönnuður sem tekið hafi við verkinu af stefnendum hafi löggildingu ráðherra samkvæmt 48. gr. skipulags- og byggingarlaga.  Aðaluppdráttur hafi fullnægt kröfum laga og reglugerða um byggingarmálefni.  Af þessu leiði að byggingaryfirvöldum hafi verið rétt að afgreiða umsókn stefnda Arnar og Arnar Jónssonar um byggingarleyfi.

             Verði talið að byggingaryfirvöldum hafi borið að taka tillit til höfundarréttar stefnenda er á því byggt af hálfu stefnda Kópavogsbæjar að hagsmunamat hafi í öllu falli átt að leiða til þess að stefnda hafi borið að veita hið umdeilda byggingarleyfi.  Í því sambandi bendir stefndi á að hann sé bundinn af meðalhófsreglu 12. gr. stjórn­sýslulaga.  Hafi honum borið að veita byggingarleyfið enda hagsmunir umsækjanda um byggingarleyfi, sem og bæjarfélagsins, af því að ljúka við bygginguna meiri en hagsmunir stefnenda af því að stöðva framkvæmdir.  Réttur stefnenda sé nægilega tryggður með skaðabótum.

             Máli sínu til stuðnings vísar stefndi til skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, einkum 47. gr., byggingarreglugerðar nr. 441/1998, stjórnsýslulaga nr. 37/1993, einkum 12. og 13. gr. sem og meginreglna stjórnsýsluréttar. 

IV.

Niðurstaða

             Stefndu Örn og Hildur fengu úthlutað lóð hjá stefnda Kópavogsbæ 1999 að Suðursölum 10-12 fyrir parhús.  Reistu þau bæði húsin, seldu annað en búa í hinu.  Byggingarfulltrúi stefnda Kópavogsbæjar gaf út byggingarleyfi 1. febrúar 2000.  Þann 12. febrúar 2000 gerðu þau samning við stefnendur um hönnun húsanna og hófst vinna arkitektanna þegar.  Samningsfjárhæð var 900.000 krónur án virðisaukaskatts og töldu stefndu að það væri heildarfjárhæð fyrir allar þær teikningar sem nauðsynlegar væru til þess að byggja húsin.  Af hálfu stefnenda er þessu hafnað og bent á ákvæði samningsins um að vinna við deiliteikningar standi fyrir utan samninginn. 

             Sérstakt mál er rekið samhliða þessu máli um þennan ágreining en samtals gerðu stefnandi EON arkitektar stefndu Erni og Hildi reikninga að fjárhæð 2.423.772 krónur með virðisaukaskatti en stefndu hafa greitt 1.490.284 krónur með virðisaukaskatti.  Í því máli var aflað mats og yfirmats.  Yfirmatsgerð staðfestir undirmat að mestu leyti og er komist að þeirri niðurstöðu í yfirmati að sanngjarnt og eðlilegt endurgjald fyrir vinnu stefnenda í þágu stefndu sé 1.083.950 krónur með virðisaukaskatti og hafi þá verið tekið tillit til þeirra niðurstöðu matsmanna að teikningar stefnenda væru haldnar ágöllum sem réttlæti afslátt af vinnu þeirra. 

             Hinn 6. mars 2001 voru byggingarnefndarteikningar EON arkitekta áritaðar af byggingarfulltrúa. Uppdrættirnir voru áritaðir af samræmingarhönnuðum, stefnendum Hlédísi og Gunnari.  Með tölvupósti 26. október 2001 höfnuðu stefndu greiðslu á reikning að fjárhæð 385.290 krónur vegna verkteikninga, svokallaðra steyputeikninga, á þeirri forsendu að ekki hafi verið óskað eftir þeirri vinnu og hún hafi verið óþörf. Í nóvember 2001 voru deiliteikningar lagðar inn til byggingarfulltrúa.  Í tölvupósti EON arkitekta til byggingarfulltrúa 26. nóvember 2001 segir að framlagðar teikningar séu aðeins ófullgerðar vinnuteikningar og stafi það af því að slitnað hafi upp úr samstarfi arkitektanna og húsbyggjenda og muni arkitektarnir ekki vinna frekar fyrir húsbyggjendur nema nýr samningur komist á.  Í framhaldi af ofangreindum tölvupósti ritaði byggingarfulltrúi EON arkitektum bréf og gerði athugasemdir við teikningarnar. Í tölvupósti stefnenda til stefndu Arnar og Hildar 13. nóvember 2001 kemur meðal annars fram að stefndu hafi gert stefnendum ljóst að ekki sé óskað eftir frekari vinnu stefnenda.  Í tölvupóstinum benda stefnendur stefndu á að samkvæmt höfundar­lögum geti enginn annar tekið við vinnu þeirra og haldið áfram með að teikna húsin.  Stefnendur muni hins vegar ekki gera fleiri teikningar nema samið sé um greiðslur.  Þessi sjónarmið eru ítrekuð í skeyti þáverandi lögmanns stefnenda 27. mars 2002 þar sem segir meðal annars að stefnendur hafi beitt verkstöðvun og arkitektarnir hafi einkarétt á fullnaðarútfærslu og breytingum á eigninni.  Með bréfi 13. febrúar 2002 sögðu stefndu samningi aðila upp og áskildu sér rétt til að láta vinna þær deililausnir sem þörf væri á.

             Í marsmánuði 2002 lögðu stefndu Örn og Hildur fram hjá byggingarfulltrúa sérteikningar sem unnar höfðu verið af stefnda Inga Gunnari Þórðarsyni byggingar­fræðingi.  Byggingarfulltrúi synjaði um samþykki þar sem áritun samræmingar­hönnuðar skorti, sbr. fyrirmæli 2. mgr. 47. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og 17. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998.

             Hinn 4. júní 2002 sótti stefndi Örn og Örn Jónsson að nýju um byggingarleyfi og á umsókninni var þess getið að hönnuður hússins væri stefndi Ingi Gunnar.  Byggingarfulltrúi samþykkti umsóknina 9. júlí 2002, byggingarnefnd 17. júlí 2002 og bæjarstjórn 20. ágúst 2002.

             1.  Af hálfu stefnenda Hlédísar og Gunnars er þess krafist að stefndu Kópavogsbær, Örn og Hildur verði dæmd til að þola ógildingu á: a) Samþykkt byggingarfulltrúa frá 9. júlí 2002 á umsókn stefnda Arnar og Arnar Jónssonar um byggingarleyfi sem fólst í leyfi til að breyta nánar tilgreindum atriðum í húsinu. b)  Samþykkt byggingarnefndar Kópavogsbæjar frá 17. júlí 2002 um staðfestingu á ofangreindri samþykkt byggingarfulltrúa. c) Samþykkt bæjarstjórnar Kópavogsbæjar frá 20. ágúst 2002 um staðfestingu á ofangreindri samþykkt byggingarnefndar. 

Stefnendur halda því í fyrsta lagi fram að formgalli sé á ákvörðun stefnda Kópavogsbæjar.  Stefnendur voru ekki aðilar að umsókn stefnda Arnar og Arnar Jónssonar um byggingarleyfi.  Stefnda Kópavogsbæ bar því ekki skylda til þess að veita stefnendum andmælarétt áður en framangreindar ákvarðanir voru teknar. 

Í öðru lagi telja stefnendur að ákvörðun stefnda Kópavogsbæjar að samþykkja nýjan aðalhönnuð bygginganna sé haldinn efnislegum ágalla.  Í 1. mgr. 47. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 segir að aðal- og séruppdrættir skuli gerðir af hönnuðum sem hafi fengið löggildingu.  Hönnuðir skulu árita teikningar sínar og þannig ábyrgjast að hönnun sé faglega unnin og í samræmi við lög og reglugerðir um byggingarmál.  Í 2. mgr. sömu greinar er kveðið á um að sá sem áriti aðaluppdrátt sé samræmingarhönnuður.  Hann beri ábyrgð gagnvart byggingaryfirvöldum á að séruppdrættir, sem lagðir eru fram til samþykktar, séu í samræmi innbyrðis og við aðaluppdrætti, sbr. einnig 17. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998.

Í tilvitnuðum ákvæðum eða í öðrum ákvæðum skipulags- og byggingarlaga er þess hvergi krafist eða gerður áskilnaður um að fyrri samræmingarhönnuður þurfi að samþykkja að nýr samræmingarhönnuður taki við verki og ljúki því.  Beint lagaákvæði hefði þurft til slíkrar takmörkunar.  Vandséð er reyndar hvernig byggingu húss verði lokið ef samræmingarhönnuður af einhverjum ástæðum vill ekki eða getur ekki lokið teikningu húss.  Stefndi Ingi Gunnar áritaði aðal- og séruppdrætti og tók þannig á sig ábyrgð á því að hönnun væri í samræmi við lög og reglur um byggingarmálefni.  Verður því ekki fallist á að samþykkt um nýjan aðalhönnuð feli í sér efnislega ágalla á ákvörðun stefnda Kópavogsbæjar.

Í þriðja lagi byggja stefnendur á því að stefndi Kópavogsbær hafi ekki framfylgt samþykkt sinni um að nýr einstaklingur skyldi tiltekinn sem aðalhönnuður.  Með vísan til þess sem áður sagði um áritun stefnda Inga Gunnars á teikningar og ábyrgð hans í því sambandi verður ekki fallist á þessa málsástæðu stefnenda.

Í fjórða lagi byggja stefnendur kröfu sína á hendur stefnda Kópavogsbæ á því að leyfisveitingin hafi verið byggð á ólögmætum sjónarmiðum þar sem stefndi Kópavogsbær hafi brotið höfundarrétt á stefnendum. Samkvæmt skipulags- og byggingarlögum skal sveitarstjórn og undirstofnanir hennar, byggingarnefnd, byggingarfulltrúi og byggingareftirlit fylgjast með að þær kröfur sem gerðar eru í lögum og reglugerðum um byggingarmálefni séu uppfylltar.  Þegar teikningar eru lagðar fyrir byggingaryfirvöld ber þeim einungis að skoða þessi atriði og hvort hönnuðir hafi löggildingu en ekki hvort farið sé að lögum um höfundarrétt enda er það matsatriði hverju sinni hvort mannvirki falli undir verndarsvið 1. gr. höfundarlaga nr. 73/1972.  Engin lagastoð er fyrir því fyrir byggingaryfirvöld að grípa til svo íþyngjandi ráðstafana að fella byggingarleyfi úr gildi og stöðva þar með framkvæmdir á grundvelli óútkljáðar deilu um höfundarrétt.  Verður því ekki fallist á þessa málsástæðu stefnenda.

Samkvæmt framansögðu verður stefndi Kópavogsbær, Örn og Hildur sýknuð af þessum kröfum stefnenda í málinu.

2. Stefnendur Hlédís og Gunnar gera þá kröfu að stefndu Örn, Hildur og Ingi Gunnar verði in solidum dæmd til að greiða stefnendum, Hlédísi og Gunnari, skaðabætur að fjárhæð 800.000 krónur með dráttarvöxtum eins og nánar greinir í kröfugerð.  Þessi krafa er miskabótakrafa samkvæmt 2. mgr. 56. gr. höfundarlaga.

Af hálfu EON arkitekta ehf. er gerð sú krafa að sömu stefndu verði in solidum dæmd til þess að greiða stefnanda skaðabætur að fjárhæð 246.510 krónur ásamt nánar tilgreindum dráttarvöxtum.  Þessi krafa er skaðabótakrafa fyrir meint fjárhagslegt tjón, byggð á því hvað ætla megi að kosti að gera teikningar vegna þeirra breytinga sem gerðar voru.

Það hefur komið fram í málinu að stefnendur neituðu stefndu Erni og Hildi um frekari vinnu nema reikningar væru fyrst greiddir að fullu. Þau beittu höfundarrétti sínum sem innheimtuúrræði þó aðrar og mildari aðferðir væru tiltækar.  Stefndu höfðu réttmæta ástæðu til að draga í efa að reikningar væru sanngjarnir og hefur það nú verið staðfest með yfirmatsgerð. Stefndu Erni og Hildi var því rétt að fá annan hönnuð til þess að ljúka verkinu þar sem fyrir lá að því yrði ekki lokið með öðrum hætti nema gegn óaðgengilegum skilyrðum af stefnenda hálfu.

Byggingarlist og byggingarverk falla undir vernd höfundarlaga nr. 73/1972, sbr. 1. mgr. 1. gr. laganna.  Samkvæmt 3. gr. eiga höfundar einkarétt til að gera eintök af verki sínu og breyting á verki höfundar getur skert höfundarheiður hans eða höfundarsérkenni.  Það verður að meta hverju sinni hvort meira má sín, tillit til hagsmuna höfundar varðandi hið listræna form eða tillit til hagsmuna eiganda, sem oft er fjárhagslegs eðlis. Í 13. gr. laganna eru heimilaðar breytingar án samþykkis höfundar ef breytingin er talin nauðsynleg vegna afnota mannvirkis eða af tæknilegum ástæðum. Eins og hér háttar þykja hagsmunir eiganda mun meiri. Stefndu Örn og Hildur sátu uppi með tvö hálfbyggð parhús án þess að geta haldið áfram með framkvæmdir. Hagsmunir þeirra að halda áfram með bygginguna, fá fokheldisvottorð og lán frá Íbúðarlánasjóði voru mun brýnni en hagsmunir stefnenda. Breytingar Inga Gunnars eru að nokkru leyti af tæknilegum toga og einnig að ósk eigenda til þess að spara kostnað. Breyting á innra skipulagi var að kröfu byggingarfulltrúa.  Öðruvísi fengust húsin ekki samþykkt.  Þá gætti stefndi Ingi Gunnar þess er hann teiknaði húsin upp að geta stefnenda sem hönnuða á aðalteikningum. Almennt séð eru þær breytingar sem gerðar voru á hönnun stefnenda óverulegar með tilliti til heildarútlits hússins og ekki til þess fallnar að skerða höfundarsérkenni eða höfundarheiður.

Stefndu Örn, Hildur og Ingi Gunnar verða því sýknuð af miskabótakröfu stefnanda Hlédísar og Gunnars svo og af skaðabótakröfu EON arkitekta ehf.

Niðurstaða málsins er því sú að allir stefndu verða sýknaðir af kröfum stefnenda í málinu.  Eftir þessum úrslitum og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 verða stefnendur Hlédís og Gunnar dæmd til þess að greiða Kópavogsbæ 630.000 krónur í málskostnað að meðtöldum virðisaukaskatti.  Allir stefnendur greiði stefndu Erni, Hildi og Inga Gunnari 630.000 krónur í málskostnað að meðtöldum virðisaukaskatti.

Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan ásamt meðdómsmönnunum Pétri H. Ármannssyni arkitekt og Stefáni Veturliðasyni verk­fræðingi.

DÓMSORÐ:

Stefndu, Kópavogsbær, Örn Arnarson, Hildur Ýr Arnardóttir og Ingi Gunnar Þórðarson, skulu vera sýkn af öllum kröfum stefnenda, Hlédísar Sveinsdóttur, Gunnars Bergmanns Stefánssonar og EON arkitekta ehf., í máli þessu.

Stefnendur, Hlédís og Gunnar, greiði stefnda Kópavogsbæ, 630.000 krónur í málskostnað.

Allir stefnendur greiði stefndu, Erni, Hildi og Inga Gunnari 630.000 krónur í málskostnað.