Hæstiréttur íslands
Mál nr. 221/2006
Lykilorð
- Kaupsamningur
- Hlutabréf
- Kröfugerð
- Frávísun frá héraðsdómi að hluta
|
|
Fimmtudaginn 9. nóvember 2006. |
|
Nr. 221/2006. |
Eiríkur Hans Sigurðsson, Gunnar L. Björnsson og Kristófer Þorgrímsson (Halldór H. Backman hrl.) gegn Þorsteini Hjaltasyni, Jónínu H. Arndal og Hjalta Þorsteinssyni (Gísli Baldur Garðarsson hrl.) |
Kaupsamningur. Hlutabréf. Kröfugerð. Frávísun frá héraðsdómi að hluta.
E, G og K kröfðust þess að samningur þeirra við Þ, J og H um kaup þeirra á 75% hlutafjár í félaginu D ehf. yrði dæmdur ógildur. Byggðu þeir kröfu sína aðallega á því að þeim hefðu verið gefnar rangar upplýsingar um rekstur og hag fyrirtækisins áður en kaupin gerðust. Þegar litið var til þess hvaða upplýsingar Þ, H og H veittu E, G og K fyrir kaupin og þess að þeir síðastnefndu komu inn í fyrirtækið og störfuðu þar í einn mánuð áður en kaupsamningur var gerður og höfðu á þeim tíma óheftan aðgang að bókhaldi og starfsemi fyrirtækisins var ekki unnt að fallast á að Þ, J og H hefðu vanrækt upplýsingaskyldu sína með því að láta undir höfuð leggjast að kanna rekstur og efnahag fyrirtækisins þann mánuð sem þeir höfðu til umráða uns kaupsamningur var gerður. Voru Þ, J og H því sýknaðir af kröfu E, G og K. Til vara kröfðust E, G og K staðfestingar á gildi riftunar samnings aðila en óljóst var með hvaða hætti sú riftun hefði átt sér stað og hvenær. Uppfyllti krafan því ekki skilyrði d. liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og var henni vísað frá héraðsdómi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Hrafn Bragason, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 26. apríl 2006. Þeir krefjast þess aðallega að samningur aðila 2. mars 2003 um kaup áfrýjenda á 75% hlutafjár í félaginu Dælur ehf. verði dæmdur ógildur. Til vara, að viðurkenndur verði réttur áfrýjenda til riftunar á samningi þessum. Þá krefjast þeir málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndu krefjast staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Varakrafa áfrýjenda lýtur að viðurkenningu á rétti þeirra til að rifta hinum tilgreinda samningi málsaðila. Í stefnu til héraðsdóms kemur fram að áfrýjendur telji sig með varakröfunni krefjast staðfestingar á „gildi riftunar samningsins.“ Við munnlegan flutning málsins fyrir Hæstarétti gáfu þeir þá skýringu á kröfunni að þeir hefðu rift samningnum í kjölfar bréfs sem þeir sendu tveimur stefndu 15. júlí 2003, en skýrðu ekki nánar með hvaða hætti sú riftun hefði átt sér stað eða hvenær. Til vara lyti krafan að viðurkenningu á riftun í bréfi lögmanns áfrýjenda til lögmanns stefndu 4. febrúar 2005. Eins og krafa þessi er orðuð uppfyllir hún ekki skilyrði d. liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, og það heldur ekki þó að á henni séu gefnar þær skýringar sem nefndar voru. Verður kröfunni vísað frá héraðsdómi.
Með vísan til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur um sýknu stefndu af aðalkröfu áfrýjenda og um málskostnað.
Áfrýjendur verða dæmdir til að greiða stefndu óskipt málskostnað fyrir Hæstarétti sem ákveðst eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Varakröfu áfrýjenda, Eiríks Hans Sigurðssonar, Gunnars L. Björnssonar og Kristófers Þorgrímssonar, um viðurkenningu á rétti þeirra til riftunar á kaupsamningi 2. mars 2003 við stefndu, Þorstein Hjaltason, Jónínu H. Arndal og Hjalta Þorsteinsson, um 75% hlutafjár í Dælum ehf. er vísað frá héraðsdómi.
Stefndu eru sýknir af kröfu áfrýjenda um að samningur þessi verði dæmdur ógildur.
Ákvæði héraðsdóms um málskostnað skal vera óraskað.
Áfrýjendur greiði stefndu málskostnað fyrir Hæstarétti 400.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 9. nóvember 2005.
Mál þetta var þingfest 16. febrúar 2005 og tekið til dóms 13. október sl. Stefnendur eru Eiríkur Hans Sigurðsson, kt. 040542-3619, Skriðu, Kjalarnesi, Gunnar L. Björnsson, kt. 140847-4539, Hafnargötu 42, Keflavík og Kristófer Þorgrímsson, kt. 310149-5869, Kjarrmóum 20, Njarðvík. Stefndu eru Þorsteinn Hjaltason, kt. 170639-2199, Heimlandi, Hellu, Jónína Arndal, kt. 260239-3179, sama stað og Hjalti Þorsteinsson, kt. 260171-3219, Ársölum 1, Kópavogi.
Dómkröfur stefnenda eru þær aðallega að samningur aðila um kaup stefnenda á 75% hlutafjár í félaginu Dælur ehf. (nú Vandi ehf.) kt. 570599-2919, samkvæmt kaupsamningi 2. mars 2003 verði dæmdur ógildur og óskuldbindandi fyrir stefnendur. Til vara gera stefnendur þá kröfu að viðurkenndur verði réttur stefnenda til riftunar á samningi aðila um kaup stefnenda á 75% hlutafjár í félaginu Dælur ehf. (nú Vandi ehf.) kt. 570599-2919, samkvæmt kaupsamningi 2. mars 2003. Í báðum tilvikum er krafist málskostnaðar.
Stefndu krefjast aðallega sýknu og að stefnendum verði gert að greiða stefndu málskostnað.
I.
Stefnendur kveða málavexti þá að í febrúar 2003 hafi viðræður hafist milli aðila um kaup stefnenda á hlutabréfum í félaginu Dælur ehf. Hafi aðilar ritað undir viljayfirlýsingu í þessu skyni. Í henni komi fram að í upphafi hafi einnig verið ráðgert að stefnendur keyptu fasteignina Fiskislóð 18 í Reykjavík en úr hafi þó orðið að viðskipti aðila hafi einskorðast við kaup stefnenda á 75% hlutafjár í Dælum ehf. Hver stefnenda hafi keypt 25% hlut í félaginu en stefndi Hjalti Þorsteinsson, sonur stefndu Þorsteins og Jónínu, hafi átt að eiga 25% hlut í félaginu með stefnendum. Stefnendur kveða stefndu hafa haft sér til fulltingis endurskoðanda félagsins, Sveinbjörn Sveinbjörnsson, auk þess sem þau hafi notið aðstoðar Kristjáns Ólafssonar hrl. Stefnendur, sem ekki hafi haft yfir sérþekkingu að ráða í þessum viðskiptum, hafi ekki notið faglegrar aðstoðar. Þá hafi stefnendur ekki haft sérþekkingu á þessum rekstri og treyst á leiðsögn og aðstoð stefndu.
Stefnendur hafi tekið þátt í rekstrinum með stefndu í um það bil einn mánuð, í febrúar 2003. Hafi stefnendur fengið aðgang að ýmsum bókhaldsgögnum félagsins en þau gögn ekki sýnt rétta stöðu félagsins. Síðar hafi komið í ljós að bókhald félagsins hafi verið í miklu ólestri. Í viljayfirlýsingu aðila hafi verið gert ráð fyrir að stefndu myndu gera áreiðanleikakönnun en sú könnun hafi aldrei verið gerð. Stefnendur hafi gert kaupsamning við stefndu 2. mars 2003 í trausti þess að þær upplýsingar sem stefndu og endurskoðandi félagsins hafi gefið þeim, væru réttar. Þau takmörkuðu gögn er stefnendum hafi verið boðið að sjá hafi ekki gefið tilefni til annars en að treysta upplýsingum stefndu og endurskoðandans.
Við ákvörðun kaupverðs hafi verið miðað við upplýsingar stefndu og hins löggilta endurskoðanda um stöðu félagsins. Stefnendum hafi verið kynnt að viðskiptavild félagsins væri metin á 20.000.000 krónur en engin gögn eða útreikningar hafi verið lagðir til grundvallar þeirri fjárhæð. Þó hafi verið upplýst af hálfu stefndu að félagið hefði yfir að ráða fjölmörgum góðum umboðum erlendra framleiðenda og stóran og góðan hóp traustra viðskiptavina. Upplýst hafi verið að smávægilegt tap hafi orðið á rekstri félagsins 2001 en horfur vegna ársins 2002 væru góðar. Samkvæmt ársreikningi 2001 hafi rekstrartekjur þess árs numið tæpum 65.000.000 króna. Söluupplýsingar í þeim bókhaldsgögnum sem stefnendur hafi fengið að sjá hafi ekki gefið tilefni til annars en að álykta að þessar fullyrðingar ættu við rök að styðjast. Annað hafi hins vegar komið á daginn.
Stefnendur segja að þeim hafi í upphafi verið kynnt að félagið ætti útistandandi viðskiptakröfur upp á tæplega 10.000.000 krónur. Í ljós hafi komið síðar að þessar kröfur hafi verið verulega oftaldar. Vélar, tæki og búnaður hafi verið metinn á um það bil 5.000.000 krónur og lagt til grundvallar að vörubirgðir félagsins væru að verðmæti 8.000.000 krónur. Í ljós hafi komið síðar að vörubirgðir voru að uppistöðu gamall úreldur og óseljanlegur varningur. Lagt hafi verið til grundvallar kaupsamningi að verðmæti eigna og viðskiptavildar væru samanlagt 38.000.000 krónur. Í upphafi hafi stefnendum verið kynnt að skuldir félagsins næmu um 40.000.000 króna. Fram að gerð kaupsamnings hafi sú tala hækkað í 54.440.000 krónur. Þá hafi verið meðtalin skuld félagsins við fyrri eigendur að fjárhæð 30.326.000 krónur. Að kröfu stefnenda hafi verið ákveðið að skuld félagsins við stefndu yrði lækkuð um tæpar 15.000.000 krónur og að félagið myndi gefa út skuldabréf til stefndu Jónínu að fjárhæð 15.500.000 krónur sem tryggt yrði með sjálfskuldarábyrgð stefnenda. Þetta skuldabréf hafi verið meginforsenda kaupanna af hálfu stefndu og þetta bréf í raun verið helsta kaupsamningsgreiðslan.
Aðilar hafi gert með sér viljayfirlýsingu sem hafi borið heitið „Sameiginleg og gagnkvæm viljayfirlýsing.“ Í henni segi meðal annars:
„Kaupendur stefna einnig að sömu eignaraðild að rekstrarfélaginu, Dælur ehf. kt:570599-2919 (rekstrarfélag). Hugmyndir kaupenda er að koma með 6 - 8 milljónir inn í reksturinn sem nýtt hlutafé.
Nú þegar kaupendur lýsa yfir þessum vilja, þá liggur fyrir eftirfarandi hugmynd um mat á eignum rekstrarfélagsins:
|
Áhöld, tæki, bifreiðar og búnaður |
5 millj. kr. |
|
Lager |
12 millj. kr. |
|
Viðskiptavild |
20 millj. kr. |
Gerður verður eignalisti yfir áhöld, tæki, bifreiðar og búnað og þessar eignir metnar í heild sinni. Frá þessum eignum munu dragast allar skuldir félagsins og þannig verður fundinn grunnur að verði á hlutabréfum í rekstrarfélaginu. Samkvæmt rekstrar- og efnahagsreikningi pr. 31.12.2002 sem seljendur lögðu fram á viðræðufundi 30. janúar s.l. nema skuldir félagsins kr. 40 millj. kr. Viðskiptakröfurnar verða metnar miðað við stöðu 31. janúar 2003. Fyrirliggjandi skuldunautalisti dags. 28. janúar 2003 sýnir kr. 9.747.662,17 (fskj. 1) Endanlegar samþykktar kröfur dragast frá skuldum. Taka verður tillit til reikninga sem búið er að gera en eftir að afhenda vöru.
Endanlegt verð á lager mun ráðast af talningu og mati á seljanlegri vöru miðað við 1. febrúar. Við mat á vörunni verður litið til hversu lengi varan hefur verið á lager og nýtingarmöguleika hennar.
Nýjir eigendur taka við rekstri Dælna ehf. 3. febrúar n.k. Allar fjárhæðir á eignum og skuldum miðast við 1. febrúar 2003. Seljendur munu leggja áherslu á að bókhald verði fært til þess dags eins fljótt og hægt er og niðurstaða þess liggi fyrir eigi síðar en 20. febrúar 2003.
Áreiðanleikakönnun skal gerð miðað við stöðu bókhalds 31. janúar 2003 og skal ljúka fyrir 25. febrúar 2003.
Komi fram við áreiðanleikakönnun annað mat á eignum og skuldum en er skv. bókhaldi og frávik nemur 1,5 millj. kr. eða meira, skal kaupverð leiðrétt samkvæmt því.“
Stefnendur kveða aðila hafa gert með sér kaupsamning 2. mars 2003. Í honum segi meðal annars:
,,Kaupendur lofa að kaupa og seljendur að selja hlutabréf í Dælum ehf. kt. 570599-2919 (rekstrarfélag) samtals að nafnvirði kr. 375.000. Hver kaupandi mun kaupa 25% hlut, samtals 75% og Hjalti mun eiga áfram 25% hlut í félaginu. Hluthafaskrá mun líta svo út:
Kristófer Þorgrímsson kt. 310149-5869 með nafnverði kr. 125.000
Gunnar L. Björnsson kt. 140847-4539 með nafnverði kr. 125.000
Eiríkur Hans Sigurðsson kt. 040542-3619 með nafnverði kr. 125.000
Hjalti Þorsteinsson kt. 260171-3219 með nafnverði kr. 125.000
Söluverð þessara hlutabréfa er 1 króna pr. hlut eða hver og einn kaupir að nafnvirði kr. 125.000 á kr. 125.000.
Kaupendur lofa að hlutafé verði aukið strax um a.m.k. fjárhæð kr. 7.500.000. Hjalti mun áfram eiga 25% hlut þar sem hans hlutafjáraukning verður skuldfærð á viðskiptareikning og kemur þar á móti inneign hans í félaginu. Eftir hlutafjáraukningu verður hlutur hvers og eins kr. 2.625.000 og hlutafé samtals kr. 10.500.000.
Kaupendur og seljendur samþykkja að Dælur ehf. kt. 570599-2919 gefi út skuldabréf eitt eða fleiri samtals að fjárhæ kr. 15.500.000 til greiðslu skuldar við Jónínu Arndal kt. 260239-3179. Að öðru leyti munu seljendur ekki eiga kröfur á hendur kaupendum né á hendur Dælum ehf. Skuldabréfin skulu vera Annuitetslán, með mánaðarlegum gjalddögum, verðtryggð með vísitölu neysluverðs, til 15 ára og bera 6,5% vexti frá 1. mars 2003. Allir kaupendur ábyrgjast þessi skuldabréf með sjálfskuldarábyrgð.
Fyrir liggur endanlegur listi yfir eignir en endanlegur skuldalisti er ekki til staðar. Litið er svo á að hér sé um að ræða endanlegar fjárhæðir en þó heimilt að taka þær til skoðunar verði frávik verulegt frá þeim tölum sem um er rætt.
Þessi kaupsamningur kemur í staðinn fyrir sameiginlega og gagnkvæma yfirlýsingu frá 1. febrúar 2003 sem er ógild frá og með deginum í dag.”
Dagana 11. til 14. apríl 2003 hafi stefnendur gefið út alls fjögur skuldabréf til stefndu Jónínu, samtals að fjárhæð 12.500.000 krónur. Ákveðið hafi verið að bíða með útgáfu fimmta skuldabréfsins að fjárhæð 3.000.000 krónur þar til nánari úttekt hefði farið fram á stöðu félagsins. Loks hafi stefnendur yfirtekið allar persónulegar ábyrgðir stefndu Þorsteins og Jónínu á skuldum félagsins við þriðja aðila. Hafi stefnandi Eiríkur Hans yfirtekið ýmsar viðskiptaskuldir að fjárhæð 2.682.794 krónur.
Stefnendur kveða formlega yfirtöku á rekstri félagsins hafa verið daginn fyrir kaupsamningsgerð eða 1. mars 2003. Þá hafi enn verið ólokið færslu bókhalds vegna ársins 2002. Bæði stefndu og endurskoðandi félagsins hafi fullvissað stefnendur um að allt væri með felldu og að forsendur kaupanna væru réttmætar. Stefnendur hafi þó fljótlega komist að raun um að ýmislegt hafi verið með öðrum hætti en stefndu hafi lofað. Komið hafi í ljós að skuldir félagsins hafi verið vantaldar um tæplega 6.000.000 króna. Útistandandi viðskiptakröfur hafi verið litlar sem engar. Meintar inneignir hjá erlendum birgjum hafi ekki verið fyrir hendi. Upplýsingar úr sölubókhaldi hafi verið rangar í verulegum atriðum. Mestu hafi þó skipt að hin meinta viðskiptavild hafi ekki verið nein. Raunverulegar tekjur af rekstrinum hafi verið miklu lægri en stefnendur hafi verið upplýstir um og hagnaður enginn. Í ljós hafi komið að umtalsvert tap hafi verið af rekstrinum, öfugt við það sem stefnendum hafi verið talin trú um. Margir af traustustu viðskiptavinum félagsins hafi hætt viðskiptum vegna slæmrar þjónustu og takmarkaðs vöruframboðs. Verulegar skuldir hafi verið við helstu birgja þannig að þurft hafi að staðgreiða öll innkaup.
Vegna alls þessa hafi stefnendur sent stefndu Þorsteini og Jónínu bréf þann 15. júlí 2003 og krafist endurmats á kaupsamningi. Þá hafi þess seinna verið krafist að stefnda Jónína afhenti þau skuldabréf sem gefin hafi verið út vegna viðskiptanna. Öllum kröfum stefnenda hafi verið hafnað með bréfi þáverandi lögmanns stefndu 7. ágúst 2003. Kröfur stefnenda hafi verið áréttaðar með bréfi lögmanns stefnenda 5. september 2003. Sáttafundur hafi verið haldinn í kjölfarið en án árangurs.
Stefnendur kveða ársreikninga vegna ársins 2002 fyrst hafa komið fram 31. júlí 2003. Þá hafi komið í ljós að tekjur félagsins hafi verið 16.000.000 króna lægri en árið 2001 en ekki hærri eins og stefnendum hafi verið talin trú um. Rekstrartap árið 2002 hafi numið 17.000.000 krónum og tap af reglulegri starfsemi numið 23.000.000 krónum. Eignir félagsins hafi í þokkabót rýrnað um tæplega 8.000.000 krónur og skuldir aukist um 15.000.000 krónur. Þessar niðurstöður ársreikningsins hafi verið reiðarslag fyrir stefnendur því þessar upplýsingar hafi verið verulega frábrugðnar þeim upplýsingum sem þeim hafði verið gefnar fyrir kaupin. Félagið hafi í raun verið ógjaldfært er kaupin hafi verið gerð. Engu hafi breytt þó að stefnendur hafi lagt félaginu til 7.500.000 króna í formi nýs hlutafjár.
Í lok árs 2003 hafi verið ljóst að félaginu yrði ekki bjargað. Til þess að draga úr tjóni sínu og í því skyni að vernda atvinnuhagi starfsmanna félagsins hafi verið ákveðið að stofna nýtt félag, Dælur og ráðgjöf ehf. Þetta nýja félag hafi keypt vörubirgðir, tækjabúnað og viðskiptavild Dælna ehf. Hinn 15. apríl 2004 hafi Dælur ehf. verið úrskurðað gjaldþrota.
Stefnendur kveðast hafa sent Héraðsdómi Reykjaness beiðni um dómkvaðningu matsmanna þann 31. mars 2004 til að meta helstu grundvallaratriði kaupsamnings aðila. Matsmennirnir, Einar S. Hálfdánarson hrl. og löggiltur endurskoðandi og Guðmundur Óskarsson löggiltur endurskoðandi, hafi skilað matsgerð í október 2004. Í niðurstöðum sínum komist þeir meðal annars að þeirri niðurstöðu að samkvæmt ársreikningi 2002 hafi í árslok 2002 vantað tæplega 27.500.000 krónur upp á að félagið ætti fyrir skuldum og að skammtímaskuldir hafi á þessum tíma numið tæplega þreföldum veltufjármunum félagsins. Matsmenn telji að félagið hafi átt í verulegum greiðsluerfiðleikum í árslok 2002, skömmu áður en kaupsamningur milli aðila hafi verið gerður. Matsmenn hafi jafnframt talið að engin viðskiptavild hafi verið til staðar hjá félaginu er kaupin hafi átt sér stað. Matsmenn hafi talið að hlutabréf í félaginu hafi verið einskis virði á kaupsamningsdegi. Loks hafi matsmennirnir talið að félagið hafi augljóslega verið ógjaldfært í skilningi 64. gr. laga um gjaldþrotaskipti o. fl. nr. 21/1991 er kaupin hafi verið gerð.
Þrátt fyrir framangreint hafi stefnda Jónína hafið innheimtu áðurnefndra skuldabréfa sem hafi leitt til þess að bú stefnanda Kristófers hafi verið tekið til gjaldþrota með úrskurði 19. maí 2004. Þá hafi stefnda Jónína krafist fjárnáms hjá stefnanda Eiríki Hans á grundvelli sömu skuldabréfa.
II.
Stefndu segja atvik málsins þau að í desember 2002 og í janúar 2003 hafi stefnendur komið að máli við stefndu og rætt hugsanleg kaup sín á Dælum ehf. Á þeim tíma hafi stefnandinn Gunnar L. Björnsson margoft heimsótt fyrirtækið og fundað með stefnda Hjalta Þorsteinssyni um hugsanleg kaup. Stefnandinn Gunnar hafi starfað áður hjá Gísla J. Jónssyni sem hafi áður verið eigandi hins selda.
Með tölvupósti þann 1. febrúar 2003 hafi stefnandi Eiríkur Hans endursent áðurnefnda viljayfirlýsingu með breytingum til Sveinbjörns Sveinbjörnssonar löggilts endurskoðanda og þann 3. febrúar hafi aðilar undirritað viljayfirlýsingu um kaup stefnenda á Dælum ehf. Í kjölfar þessarar undirritunar hafi stefnendur allir komið inn í rekstur Dælna ehf. og tekið fullan þátt í starfsemi þess. Þeir hafi fengið aðgang að öllum bókhaldsgögnum og tekið fullan þátt í starfsemi félagsins. Þeim hafi þannig gefist kostur á að kynna sér rekstur félagsins með nákvæmum hætti. Sveinbjörn Sveinbjörnsson, sem hafi komið að málinu sem ráðgjafi, hafi síðan tekið við endurskoðun félagsins samkvæmt stjórnarfundi 2. mars 2003. Hann hafi veitt allar upplýsingar um rekstur félagsins sem stefnendur hafi óskað eftir.
Stefndu segja það rangt að þau hafi notið aðstoðar Kristjáns Ólafssonar hrl. við samningsgerðina. Hann hafi hvergi komið nærri. Sveinbjörn Sveinbjörnsson hafi hins vegar verið viðstaddur samningsgerðina en hann hafi verið kvaddur til af öllum aðilum málsins. Stefndu mótmæla því að stefnendur hafi fengið rangar upplýsingar um stöðu Dælna ehf. Hið rétta sé að stefnendum hafi verið veittur aðgangur að öllum þeim gögnum sem fyrir hafi legið. Þá sé það rangt hjá stefnendum að gert sér ráð fyrir í viljayfirlýsingu að stefndu standi fyrir áreiðanleikakönnun. Hið rétta sé að þar segi einfaldlega að gerð verði áreiðanleikakönnun. Eðli málsins samkvæmt sé það hagur stefnenda að slík könnun fari fram en þeir hafi ekki talið þörf á slíku. Rangt sé það hjá stefnendum að viðskiptavild hafi verið kynnt og metin á 20.000.000 króna. Einungis hafi legið frammi hugmynd um viðskiptavild að þeirri fjárhæð. Það hafi síðan verið stefnenda að kanna og skoða hvort slíkt mat væri rétt. Rangt sé í málavaxtalýsingu stefnenda að stefndu hafi upplýst sérstaklega að horfur vegna rekstrarársins 2002 væru góðar og að sala hafi aukist verulega milli ára. Engar slíkar upplýsingar hafi verið veittar. Rangt sé að kynnt hafi verið að félagið ætti útistandandi viðskiptakröfur að fjárhæð 10.000.000 króna. Hið rétta sé að í viljayfirlýsingu komi fram að hugmynd aðila sé að viðskiptakröfur séu að fjárhæð 10.000.000 króna. Í skýringum komi fram að þetta sé ekki endanleg tala. Í ljós hafi komið að kröfurnar voru mun lægri og hafi þær upplýsingar legið fyrir áður en kaupsamningur hafi verið gerður. Sama sé að segja um vélar, tæki og búnað. Í viljayfirlýsingunni komi fram hugmynd um að þetta atriði sé að verðmæti 5.000.000 króna en engu sé slegið föstu um það. Mótmælt er að vörubirgðir hafi verið óseljanlegar og úreltar. Stefnendur hafi sjálfir talið birgðirnar um mánaðarmótin febrúar/mars 2003 og þannig kynnt sér ástand þeirra með nákvæmum hætti.
Þá er því mótmælt að yfirtaka stefnenda á persónulegum ábyrgðum stefnda Þorsteins sé hluti af greiðslu kaupverðs samkvæmt kaupsamningi. Þá er því mótmælt að stefndu Þorsteinn og Jónína hafi notið ávinning af viðskiptum þessum umfram greiðslu kaupverðshlutanna. Hið rétta sé að stefnda Jónína hafi ekki fengið neitt greitt af andvirði skuldabréfsins.
Fyrir gerð kaupsamnings hafi legið frammi yfirlitsskjal þar sem fram komi að eigið fé félagsins hafi verið neikvætt um rúmlega 26.000.000 krónur. Sú niðurstaða sé í fullu samræmi við rekstrar- og efnahagsreikning fyrir árið 2002 og önnur bókhaldsgögn sem stefnendur hafi átt kost á að kynna sér. Við kaupsamningsgerð hafi legið fyrir að bókhald vegna ársins 2002 hafi ekki verið endurskoðað. Allar upplýsingar um bókhaldið hafi þó legið fyrir í gögnum. Rangt sé í málavaxtalýsingu stefnenda að Sveinbjörn Sveinbjörnsson hafi ítrekað fullvissað stefnendur um að allt væri með felldu og forsendur kaupanna réttmætar. Þá sé einnig rangt að skuldir Dælna ehf. hafi verið vantaldar um tæplega 6.000.000 króna. Sérstaklega hafi verið rætt um skuld félagsins við umrædda erlenda lánardrottna fyrir gerð kaupsamningsins og mikilvægi þess að ná samningum við þá sem fyrst.
Stefndu mótmæla þeirri fullyrðingu stefnenda að raunverulegar tekjur af rekstrinum hafi verið miklu lægri en stefnendur hafi verið upplýstir um. Þá hafi allar skuldir við birgja legið fyrir við kaupsamningsgerð.
III.
Stefnendur byggja á því að kaupsamningurinn sé haldinn svo verulegum annmörkum að það beri að ógilda hann í heild sinni. Telja stefnendur að stefndu hafi gefið beinlínis rangar upplýsingar um hag félagsins, horfur þess og framtíð. Stefndu hafi vitað það þegar á árinu 2002 og jafnvel á árinu 2001 að félagið Dælur ehf. hafi verið ógjaldfært og þannig í raun gjaldþrota og verðlaust. Byggja stefnendur á því að stefndu hafi þannig beitt svikum til að koma á viðskiptum, veitt rangar og villandi upplýsingar, leynt mikilvægum staðreyndum um fjárhag félagsins og fengið með því stefnendur til að setja verulegar fjárhæðir inn í félagið í formi nýs hlutafjár auk þess að fá stefnendur til að ábyrgjast persónulega háar kröfur stefndu á hendur félaginu og leysa stefndu úr persónulegum ábyrgðum á skuldum félagsins við þriðja aðila. Beinn ávinningur stefndu af samningnum hafi numið nærri 20.000.000 króna. Svik stefndu séu því veruleg að eigi því 30. gr. samningalaga nr. 7/1936 við í málinu.
Dómkvaddir matsmenn hafi komist að þeirri niðurstöðu að engin viðskiptavild hafi verið í félaginu og það í raun gjaldþrota. Í raun hafi stefndu átt að gefa bú félagsins upp til gjaldþrotaskipta samkvæmt ákvæði 2. mgr. 64. gr. laga um gjaldþrotaskipti o. fl. nr. 21/1991. Þrátt fyrir það hafi stefndu fengið stefnendur til viðskiptanna með framangreindum afleiðingum.
Verði ekki fallist á að stefndu hafi beitt svikum samkvæmt 30. gr. samningalaga beri að beita 33. og 36. gr. laganna sem leiði til sömu efnislegu niðurstöðu. Telja stefnendur það hvorki geta talist heiðarlegt né sanngjarnt að samningurinn standi.
Ljóst sé að það hafi verið forsenda stefnenda fyrir kaupunum að félagið myndi halda velli og skila hagnaði áður en langt um liði. Félagið hafi verið kynnt með þeim hætti að viðskiptavild væri 20.000.000 króna. Með því að kynna viðskiptavild að þessari fjárhæð hafi stefndu verið að gefa til kynna að reksturinn yrði arðbær. Fráleitt verði að telja að stefnendur hefðu gengið til viðskiptanna hefðu þeir verið upplýstir um þá staðreynd að félagið hafi í raun verið ógjaldfært. Nærri megi geta að ef bókhaldið hefði verið réttilega fært og sýnt rétta stöðu félagsins hefðu stefnendur þegar í stað getað séð þær niðurstöðutölur er síðar hafi komið í ljós. Fullyrða megi að stefnendur hefðu aldrei gengið til viðskiptanna hefði sú staða sem fram kom í ársreikningum blasað við í febrúar 2003.
Að framangreindu virtu byggja stefnendur á því að verulegur forsendubrestur hafi verið fyrir hendi. Efni samningsins sé slíkt að gildi hans í heild sinni sé í senn ósanngjarnt og andstætt góðri viðskipavenju. Stefndu hafi haft yfirburðarstöðu við samningsgerðina, þekkt rekstur félagsins og fjárhagslega stöðu þess enda átt félagið og rekið árum saman. Stefndu hafi borið að upplýsa stefnendur um slæman fjárhag félagsins. Upplýsingaskyldu hafi einfaldlega ekki verið sinnt. Stefnendur hafi reynt að gæta skoðunarskyldu sinnar en aðstæða þeirra til skoðunar hafi verið takmörkuð. Í þessu sambandi vísa stefnendur til 18. gr. kaupalaga nr. 50/2000 og lokamálsliðar 2. mgr. 20. gr. sömu laga.
Stefnendur benda á að bæði í viljayfirlýsingu aðila og í kaupsamningi séu ákvæði um endurskoðun fjárhæða samningsins. Leiði nánari könnun á bókhaldsgögnum í ljós verri stöðu en byggt hafi verið á. Stefnendur telja að í þessu felist að endurskoða megi samninginn í heild sinni og fella niður.
Fallist dómurinn ekki á aðalkröfu um ógildingu samningsins í heild sinni sé til vara gerð krafa um staðfestingu á gildi riftunar samningsins. Stefnendur hafi margsinnis lýst yfir riftun og lögmaður stefnenda sent sérstaka yfirlýsingu þar að lútandi. Sú krafa sé að mestu leyti byggð á sömu forsendum og að framan greinir um ógildingarkröfu stefnenda. Stefnendur byggja á að hið keypta hafi verið haldið verulegum göllum sem sé alfarið á ábyrgð stefndu, sbr. 17. og 30. gr. kaupalaga nr. 50/2000. Um rétt stefnenda til riftunar vísa stefnendur til 39. gr. sömu laga. Byggja verði jafnframt á því að stefndu hafi sýnt af sér vítavert gáleysi, jafnvel ásetning, og framferði þeirra í viðskiptunum stríði í öllum aðalatriðum gegn heiðarleika og góðri trú. Stefnendur byggja jafnframt á því að engu skipti þó að Dælur ehf. hafi orðið gjaldþrota og ekki sé unnt að skila hinu selda. Um þetta atriði vísa stefnendur til 9. kafla kaupalaganna, einkum a-liðar 1. mgr. 66. gr. laganna. Ástæður gjaldþrotsins verði eingöngu raktar til eiginleika hins selda.
Stefndu byggja sýknukröfur sínar á þeirri grundvallarreglu samninga og kröfuréttar að samninga skuli efna.
Sú fullyrðing stefnenda að stefndu hafi beitt þau svikum standist ekki því stefnendur hafi haft aðgang að öllum upplýsingum um hag félagsins. Þá hafi stefnendur tekið fullan þátt í rekstri félagsins í einn mánuð og meðal annars haft aðgang að öllum bókhaldsgögnum félagsins. Stefnendur hafi sjálfir talið birgðir félagsins um mánaðarmótin febrúar/mars 2003 og eftir þá talningu hafi birgðir verið færðar úr 12.000.000 króna niður í 8.000.000 krónur.
Þá beri að líta til þess að stefnandi Eiríkur Hans hafi mikla reynslu af fjármálastjórn og færslu bókhalds. Hann hafi starfað sem fjármálastjóri og framkvæmdastjóri, auk þess sem hann hafi gengt útibússtjórastöðu í Íslandsbanka um langt árabil.
Þannig sé fráleitt að halda því fram að stefnendur hafi verið beittir svikum í skilningi 30. gr. samningalaga. Þessar fullyrðingar stefnenda séu ekki studdar neinum gögnum.
Þá sé ómögulegt að fallast á með stefnendum að í ljós hafi komið verulegir annmarkar eftir sölu. Engin rök séu færð fyrir þessari fullyrðingu og eigi því 33. og 36. gr. samningalaga ekki við í málinu.
Stefnendur hafi keypt fyrirtækið eftir að hafa kynnt sér það í þaula. Þeir hafi talið sig geta snúið rekstrinum við og þannig séð tækifæri til að yfirtaka augljóslega illa statt fyrirtæki gegn vægu gjaldi. Kaupverð hafi í raun verið aðeins 375.000 krónur og mánaðarleg afborgun af útgefnu skuldabréfi um 100.000 krónur á mánuði.
Stefndu halda því fram að Sveinbjörn Sveinbjörnsson endurskoðandi hafi verið ráðgjafi allra aðila en ekki sérstakur ráðunautur stefndu. Megi meðal annars sjá það af tölvupósti stefnanda Eiríks Hans til Sveinbjörns þar sem Eiríkur Hans biður endurskoðandann um að stilla upp samningi fyrir stefnendur. Þá hafi Sveinbjörn tekið við endurskoðunarstarfi eftir kaup stefnenda á félaginu.
Að lokum benda stefndu á að krafa stefnenda um ógildingu kaupsamningsins hafi fyrst verið sett fram með bréfi lögmanns stefnenda 5. febrúar 2005 eða tæpum tveimur árum eftir undirritun samningsins. Slík krafa hljóti að vera fallin niður sökum tómlætis.
Varakröfu stefnenda um riftun er mótmælt með sömu rökum og fram koma varðandi aðalkröfu. Þá verði ekki fram hjá því horft að félagið Dælur ehf. sé nú gjaldþrota og því geti stefnendur ekki skilað hinu selda til baka. Í ofanálag hafi stefnendur keypt allar eigur Dælna ehf. og reki nú starfsemina undir nýju heiti. Þannig hafi stefnendur náð öllum verðmætum sem eftir hafi verið í Dælum ehf. Í þessu sambandi vísa stefndu til c-liðar 67. gr. laga nr. 50/2000 um þá aðstöðu er kaupandi endurselur hlut þrátt fyrir vitneskju sína um verulegan galla á hinu selda.
Þá beri einnig að líta til þess að riftunarkrafan hafi fyrst verið sett fram 5. febrúar 2005 eða tæpum tveimur árum eftir undirritun samningsins. Með vísan til 2. mgr. 39. gr. laga nr. 50/2000 verði að telja að réttur til að rifta hafi verið fallinn niður sökum tómlætis.
IV.
Stefnandi Eiríkur Hans Sigurðsson kom fyrir dóm. Í máli hans kom meðal annars fram að stefnendur hafi verið að leita að rekstri til þess að vinna við og hafa lifibrauð af. Hann hafi farið ásamt stefnanda Kristófer og skoðað fyrirtækið í desember 2002 og haft tal af framkvæmdastjóra þess Eyvindi Gunnarssyni. Þeim hafi ekki litist nógu vel á og ekkert velt kaupum frekar fyrir sér. Að áeggjan Kristófers hafi þeir þó farið aftur og skoðað fyrirtækið síðustu vikuna í janúar 2003. Hafi þeir þá átt fund með stefndu Hjalta og Þorsteini en ennfremur hafi verið viðstaddur fundinn Sveinbjörn Sveinbjörnsson endurskoðandi og Kristján Ólafsson hrl. Á fundinum hafi verið upplýst að Dælur ehf. væri gamalgróið fyrirtæki og leiðandi í sölu dælna og tilheyrandi búnaðar. Fram hafi komið á fundinum af hálfu stefndu að lausafjárskortur hrjáði fyrirtækið en ef úr yrði bætt mætti gera ráð fyrir að reksturinn færi á fleygiferð. Sagði Eiríkur að stefndu hafi hrifið stefnendur með sér og þeir undirritað viljayfirlýsingu. Í framhaldi af þessu hafi stefnendur hafið störf hjá fyrirtækinu en stefnandi Eiríkur kvaðst hafa verið fjármálastjóri hjá Frigg ehf. á þessum tíma og því ekki haft mikla viðveru hjá Dælum ehf. Nýbúið hafi verið að skipta um bókhaldskerfi í annað skipti á nokkrum mánuðum og hafi enginn í fyrirtækinu verið búinn að ná tökum á nýju bókhaldskerfi. Það hafi legið fyrir að mikið af gögnum hafi misfarist í keyrslu á milli þessara kerfa. Stefnendur hafi því ekki verið í þeirri stöðu að geta kynnt sér bókhaldið til hlítar. Þeir hafi síðar komist á raun um að nánast allar skuldir hafi verið gjaldfallnar og sumar komnar í lögfræðilega innheimtu. Þegar þeir hafi haft samband við birgja hafi verið hlegið að þeim og sagt að það væri búið að semja oft áður. Stefnandi Eiríkur kvaðst hafa litið á Sveinbjörn Sveinbjörnsson endurskoðanda sem ráðgjafa stefndu og að hann hafi komið fram fyrir þeirra hönd. Hann hafi hins vegar komið vel fyrir og þess vegna hafi stefnendur beðið hann um að vera endurskoðanda félagsins áfram. Sveinbjörn hafi sagt honum í október 2003 að hann hafi fært það í tal við stefndu í desember 2002 að félagið væri gjaldþrota. Kvaðst Eiríkur Hans ekki hafa keypt fyrirtækið ef hann hefði vitað þetta. Eiríkur kvaðst hafa gengið í sjálfskuldarábyrgð fyrir skuldum stefnda Þorsteins. Það hafi ekki verið að kröfu stefnda Þorsteins heldur hafi honum fundist sjálfsagt að hann gengi í ábyrgð fyrir skuldum fyrirtækisins og að stefndi Þorsteinn yrði leystur undan þeim ábyrgðum. Stefnandi Gunnar L. Björnsson hafi komið strax inn í fyrirtækið og hafið þar vinnu allan daginn. Stefnandi Kristófer hafi unnið frá um það bil kl. 14:00 á daginn en hann hafi unnið minnst þeirra vegna starfa sinna hjá Frigg ehf. Eiríkur Hans kvaðst vera bifvélavirki að mennt en hafa unnið hjá Samvinnutryggingum á Ísafirði og síðar orðið umboðsmaður Samvinnutrygginga í Keflavík. Árið 1983 hafi hann orðið útibússtjóri banka í Keflavík og starfað við það til 1995. Hann hafi þá hætt sem útibússtjóri og starfað við eigin rekstur eftir það uns hann gerðist fjármálastjóri hjá Frigg ehf. Stefnandi Gunnar L. Björnsson sagði fyrir dómi að hann væri skriftvélavirki að mennt og hefði ekki þekkingu á bókhaldi. Hann hafi verið viðstaddur skoðun á vörubirgðum en síðar hafi komið í ljós að vörubirgðir hafi verið gamlar og óseljanlegar. Gunnar sagðist nú vinna hjá Dælum og ráðgjöf ehf.
Stefnandi Kristófer Þorgrímsson sagði að hann væri bifvélavirki að mennt og hefði rekið bifreiðaverkstæði í 12 ár en starfað á lager hjá Keflavíkurverktökum síðastliðin 9 ár. Hann kvaðst ekki hafa þekkt til dælusölu. Þeir félagar hafi verið að leita sér að framtíðarstarfi og hafi þeir talið þetta gott fyrirtæki og traust og heiðvirt fólk sem þeir væru að kaupa af. Það hafi einnig verið sérstaklega traustvekjandi að sonur stefndu Þorsteins og Jónínu, stefndi Hjalti Þorsteinsson, hafi ætlað að vera eignaraðili að félaginu og starfa áfram við það. Eftir undirritun viljayfirlýsingarinnar hafi hann komið til starfa við fyrirtækið og hafið störf venjulega klukkan 14:00 á daginn.
Stefndi Hjalti Þorsteinsson sagði að aðilar hafi fyrst haldið fund í byrjun desember 2002. Stefnandi Gunnar hafi nokkrum sinnum komið í fyrirtækið eftir það til að kynna sér málin. Aðilar hafi síðan hist aftur í janúarlok og þá kvaðst Hjalti hafa verið með útprentun úr bókhaldi félagsins og kynnt fyrir stefnendum stöðu þess. Á þessum fundi hafi þeir rætt framtíðarhorfur en hann hafi tekið fram að hann væri ekki inni í daglegum rekstri heldur væri hann innkaupa- og tæknistjóri. Þess vegna hafi Kristján Óli Hjaltason, bróðir stefnda Þorsteins, komið að málinu og komið fram fyrir hönd stefndu. Nokkrum dögum seinna, eða laugardaginn 1. febrúar 2003, hafi þeir hist. Þá hafi viljayfirlýsingin legið fyrir og hafi verið farið vandlega ofan í rekstur fyrirtækisins. Á fundinum hafi verið tekið fram að reksturinn væri í erfiðleikum og það þyrfti aukið fjármagn og kraft til þess að koma honum af stað. Farið hafi verið yfir bókhald félagsins lið fyrir lið með skjávarpa. Á fundinum hafi einnig verið talað um skuld við erlenda aðila sem væri verið að semja um. Á mánudagsmorgun hafi verið haldinn starfsmannafundur og starfsmönnum tilkynnt um skipulagsbreytingar. Framkvæmdastjórinn Eyvindur Gunnarsson hafi hætt sama dag og stefnandi Eiríkur tekið við framkvæmdastjórastöðu. Stefnandi Gunnar hafi orðið sölu- og markaðsstjóri en Kristófer vöru- og birgðarstjóri. Hjalti kvaðst hafa verið áfram innkaupa- og tæknistjóri. Hjalti sagði að aðilar hafi talið birgðir saman ásamt Sveinbirni endurskoðanda. Allt hafi verið skráð og verðlagt. Hjalti kvaðst hafa verið búinn að vera í þessum rekstri alla tíð. Honum hafi litist vel á stefnendur og því ákveðið að vera með þeim í fyrirtækinu. Hafi hann verið vongóður um að þeim myndi takast saman að rétta reksturinn við og gera hann arðbæran. Þá hafi stefnendur einnig verið með áform um kaup á öðru fyrirtæki og hafi honum litist vel á þær hugmyndir.
Í máli stefndu Þorsteins Hjaltasonar og Jónínu Arndal kom meðal annars fram að þau hafi hætt afskiptum af daglegum rekstri fyrirtækisins fyrir nokkrum árum. Stefnandi Gunnar hafi komið í heimsókn á heimili þeirra í desember og þau rætt málin. Sagði stefndi Þorsteinn að hann hafi sagt stefnanda Gunnari að erfiðleikar væru í rekstri fyrirtækisins og það þyrfti um 20.000.000 króna til að setja fyrirtækið á fulla ferð á ný. Þau hafi beðið bróður stefnda Þorsteins, Kristján Óla Hjaltason, að annast sölu fyrirtækisins fyrir þeirra hönd.
Eyvindur Albertsson löggiltur endurskoðandi tók við starfi endurskoðanda í júlí 2003. Hann sagðist hafa setið fund með Sveinbirni Sveinbjörnssyni endurskoðanda og stefnanda Eiríki Hans í október 2003. Á þeim fundi hafi Sveinbjörn sagt þeim að hann hafi upplýst stefndu um það áður en félagið var selt að það ætti ekki fyrir skuldum.
Kristín Sveinbjörnsdóttir var bókari félagsins frá 1998 og er nú bókari hjá Dælum og ráðgjöf ehf. Hún staðfesti þá frásögn stefnenda að afstemming lánardrottna hafi ekki verið í lagi og einhverjir erlendir reikningar hafi ekki verið færðir í nýtt tölvukerfi. Nokkuð hafi verið um að innheimtubréf lögmanna hafi borist á þessum tíma. Kostnaður vegna slíkrar innheimtu hafi ekki verið bókfærður en höfuðstóll skuldanna hafi þó verið færður til bókar. Í einu tilviki hafi sölunóta verið bókfærð að fjárhæð 1.700.000 krónur og hafi sú nóta verið færð að beiðni þáverandi framkvæmdastjóra til að sýna betri stöðu fyrirtækisins í sambandi við bankalán. Þessi nóta hafi síðar verið bakfærð. Kristín sagðist muna eftir einni erlendri skuld að fjárhæð 5-6.000.000 krónur sem ekki hafi verið færð í bókhald.
Kristján Óli Hjaltason viðskiptafræðingur sagðist hafa séð um sölu fyrirtækisins fyrir hönd bróður síns, stefnda Þorsteins og annarra stefndu. Hann hafi verið viðstaddur fund þegar viljayfirlýsingin hafi verið undirrituð en hins vegar hafi stefnandi Eiríkur Hans og Sveinbjörn endurskoðandi séð um gerð kaupsamningsins. Hann sagðist hafa kallað Kristján Ólafsson hrl. til af því að honum hafi þótt rétt að hafa lögmann á fundinum til þess að lesa yfir skjöl þannig að þau væru réttilega frá gengin. Ekki vissi Kristján Óli hvernig fjárhæðin 20.000.000 krónur fyrir viðskiptavild hafi komið til en hélt að sú tala hafi verið óumdeild allt frá fyrsta fundi.
Sveinbjörn Sveinbjörnsson löggiltur endurskoðandi sagðist hafa komið að málinu fyrst um miðjan desember 2002 en þá hafi verið haldinn fundur með aðilum. Á þeim tíma hafi hann ekki verið búinn að kynna sér fyrirtækið og því ekki getað ráðlagt neitt í sambandi við sölu þess. Hann hafi síðan verið beðinn um að gera uppkast af viljayfirlýsingu sem hafi verið lögð fram á fundi aðila 31. janúar 2003. Hann sagðist fyrst hafa sent viljayfirlýsinguna í tölvupósti til Kristjáns Ólafssonar hrl. Hafi hann gert það til þess að fá leiðbeiningar um orðalag þar sem hann hafi ekki verið vanur að útbúa slíka yfirlýsingu. Að því búnu hafi yfirlýsingin verið send til stefnanda Eiríks Hans sem aftur hafi sent hana til baka daginn eftir. Sveinbjörn taldi að með viljayfirlýsingunni væru aðilar að lýsa því yfir að stefnt væri að sölu félagsins en jafnframt hafi legið ljóst fyrir að stefnendum væri frjálst að ganga frá kaupunum ef þeir kysu svo. Í viljayfirlýsingunni hafi ekki falist nein skuldbinding að hans mati. Á þessum fundi aðila hafi verið farið yfir rekstur og efnahag félagsins. Til grundvallar hafi legið útprentun úr bókhaldi félagsins frá 27. janúar 2003. Sveinbjörn sagðist hafa skýrt það fyrir fundarmönnum. Hann sagði að ekkert hafi verið rætt um viðskiptavild en frá upphafi hafi verið gert ráð fyrir henni að fjárhæð 20 milljónir króna. Vörulager hafi verið talinn nákvæmlega með stefnendum 1. mars 2003. Áður en kaupsamningur var undirritaður hafi hann útbúið skjal (dómskjal nr. 10) þar sem hann hafi reynt að leiðrétta fyrri útprentun úr bókhaldi og koma með nýjustu tölur um efnahag og rekstur félagsins. Í raun hafi verið um óverulegar breytingar að ræða frá fundi aðila er viljayfirlýsingin var undirrituð. Aðspurður um hvort rétt væri að hann hafi á fundi í október 2003 sagt stefnanda Eiríki Hans og endurskoðandanum Eyvindi Albertssyni að hann hafi í desember 2000 sagt stefndu að félagið væri ógjaldfært svaraði Sveinbjörn því til að það væri rétt og það hafi ekki verið neitt launungarmál því bókhaldsgögn hafi sýnt það í desember 2002. Hins vegar bæri að líta til þess að félagið væri rótgróið, með góð umboð, góða starfsmenn í vinnu og nokkra veltu en kaupverð ekki hátt.
V.
Fram er komið í málinu að stefnendur voru að leita fyrir sér með kaup á atvinnurekstri. Nokkrum mánuðum áður höfðu þeir átt í samningaviðræðum um kaup á öðru fyrirtæki án þess að um semdist. Fyrir liggur að þeir áttu fund með forsvarsmönnum stefndu í desember 2002 og aftur í lok janúar 2003. Síðari fundurinn leiddi til þess að aðilar hittust aftur laugardaginn 1. febrúar 2003. Sveinbjörn Sveinbjörnsson, löggiltur endurskoðandi, hafði þá útbúið viljayfirlýsingu þá sem að framan er getið og var hún undirrituð á fundinum. Þá eru aðilar sammála um að á fundinum hafi legið frammi yfirlit yfir rekstur og efnahag Dælna ehf. sem Sveinbjörn hafði unnið upp úr bókhaldi félagsins miðað við stöðu þess 27. janúar 2003. Aðilar eru einnig sammála um að farið hafi verið yfir fjárhagsstöðu félagsins lið fyrir lið. Á mánudegi 3. febrúar var haldinn fundur með starfsmönnum fyrirtækisins og þeim tilkynnt um væntanlega nýja eigendur. Framkvæmdastjóri félagsins lét af störfum þennan dag og stefnandi Eiríkur tók við framkvæmdastjórastöðu. Stefnandi Gunnar tók við stöðu sölu- og markaðsstjóra en stefnandi Kristófer við stöðu vöru- og birgðastjóra. Stefndi Hjalti, sem var orðinn meðeigandi stefnenda, hélt áfram starfi sínu sem innkaupa- og tæknistjóri. Aðilar eru sammála um að stefnandi Gunnar hafi strax byrjað að vinna fullan vinnudag í fyrirtækinu, stefnandi Kristófer hafi hafið störf um klukkan 14:00 á daginn en stefnandi Eiríkur hafi haft minnstu viðveru á staðnum vegna þess að hann hafi enn verið í fullu starfi annars staðar.
Stefnendur störfuðu við fyrirtækið í einn mánuð og eru aðilar sammála um að þessi háttur hafi verið hafður á til þess að stefnendur gætu kynnt sér fyrirtækið áður en gengið yrði til kaupsamnings. Kaupsamningur var gerður 3. mars 2003. Um morguninn þennan dag sendi Sveinbjörn stefnanda Eiríki í tölvupósti yfirlit yfir rekstur fyrirtækisins. Í því yfirliti leitaðist Sveinbjörn við að leiðrétta fyrra yfirlit sem lá til grundvallar viljayfirlýsingunni mánuði áður.
Með bréfi 15. júlí 2003 óskuðu stefnendur eftir endurmati á kaupsamningi en því var hafnað af hálfu stefndu. Stefnendur segja að ljóst hafi verið í lok árs að félaginu yrði ekki bjargað og hafi þeir því stofnað nýtt félag, Dælur og ráðgjöf ehf., sem hafi keypt vörulager, tækjabúnað og viðskiptavild Dælna ehf. Dælur ehf. var úrskurðað gjaldþrota 15. apríl 2004.
Því er haldið fram af hálfu stefnenda, og er það megin málsástæða þeirra, að þeim hafi verið gefnar rangar upplýsingar um rekstur og hag fyrirtækisins áður en kaup gerðust. Ársreikningur fyrir árið 2002 hafi ekki borist fyrr en í júlí 2003 og hafi niðurstaða hans verið reiðarslag fyrir stefnendur þar sem allt aðrar upplýsingar hafi verið veittar fyrir kaupin, bæði af stefndu og endurskoðanda.
Við úrlausn máls þessa kemur þá fyrst til skoðunar hvaða upplýsingar voru veittar af hálfu stefndu fyrir kaupin. Eins og áður sagði lá fyrir við gerð viljayfirlýsingar yfirlit yfir rekstur og efnahag Dælna ehf. vegna ársins 2002 eins og það stóð í bókhaldi félagsins 27. janúar 2003. Í því yfirliti er árið 2001 jafnframt sýnt til samanburðar. Stefnandi Eiríkur er bókhaldsfróður maður, fyrrverandi útibússtjóri banka, á tímabili með eigin rekstur en starfaði á þessum tíma sem fjármálastjóri hjá nokkuð stóru fyrirtæki.
Fyrir dómi kom fram að hann skildi allar meginstærðir sem fram koma í yfirliti um rekstur og efnahag Dælna ehf. vegna ársins 2002. Hann skildi einnig hvaða áhrif breytingar á einstökum liðum hefðu á aðra liði. Þannig gerði hann sér grein fyrir að yfirlitið gerði ráð fyrir tapi að fjárhæð 10.927.228 krónur vegna ársins 2002 og að afskriftir væru engar í yfirlitinu og því eftir að reikna þær. Eiríkur kvaðst gera sér grein fyrir að heildarskuldir væru 39.719.528 krónur og heildareignin 24.231.018 krónur og því væri mismunurinn neikvætt eigið fé að fjárhæð 15.488.510 krónur.
Við undirritun viljayfirlýsingar 1. febrúar 2003 var gert ráð fyrir að lager væri metinn á 12.000.000 krónur en í fyrrnefndu yfirliti um rekstur og efnahag var lager skráður 18.065.613 krónur. Eiríkur kvaðst gera sér grein fyrir að þessi lækkun lagers hefði þau áhrif að eigið fé lækkaði einnig og tapið hækkaði. Hann gerði sér grein fyrir að eigið fé yrði þá neikvætt um 21.554.123 krónur og tap yrði 16.992.841 króna.
Daginn fyrir undirritun kaupsamnings, þann 1. mars 2003, töldu aðilar lagerinn í sameiningu og stjórnaði Sveinbjörn verkinu. Niðurstaða þeirrar talningar varð að verðmæti vörulagers væri 8.000.000 króna. Við gerð kaupsamnings lá fyrir útreikningsblað unnið af Sveinbirni þar sem settar eru upp helstu stærðir bókhaldsins í fjórum dálkum. Þar kemur meðal annars fram að vörubirgðir eru nú metnar á 8.000.000 króna. Stefnandi Eiríkur kvaðst fyrir dómi hafa fengið þetta útreikningsblað til skoðunar áður en gengið hafi verið til kaupsamnings en vildi ekki fullyrða að nákvæmlega þetta skjal hafi borist honum þar sem skjalið hafi farið milli manna í tölvupósti og því breytt eftir því sem nýtt mat hafi verið lagt á einstaka liði. Eiríkur kvaðst þó hafa gert sér grein fyrir að með enn frekari lækkun vörubirgða breyttust jafnframt aðrar stærðir rekstrar- og efnahagsreiknings. Þannig væri eigið fé nú neikvætt um 25.554.123 krónur og tap hækkaði nú í 20.992.841 króna.
Samkvæmt framansögðu voru stefnendur upplýstir af stefndu um framangreindar meginstærðir í bókhaldi félagsins og stefnandi Eiríkur hefur viðurkennt að hafa sem bókhaldsfróður maður gert sér grein fyrir stöðu félagsins að þessu leyti.
Kemur þá næst til skoðunar ársreikningur Dælna ehf. 2002 en hann er dagsettur 31. júlí 2003. Segja stefnendur að þá fyrst hafi þeir gert sér grein fyrir bágum efnahag félagsins. Þegar ársreikningur vegna ársins 2002 er borinn saman við áðurnefnt yfirlit um rekstur og efnahag frá 27. janúar 2003, sem lá frammi við gerð viljayfirlýsingar, kemur eftirfarandi í ljós:
|
|
Ársreikningur |
Yfirlit |
Mismunur |
|
Tekjur |
48.763.343 |
48.818.310 |
-54.967 |
|
Afskriftir |
999.651 |
0 |
999.651 |
|
Tap ársins |
22.821.365 |
10.784.860 |
12.036.505 |
|
|
|
|
|
|
Birgðir |
9.671.914 |
18.065.613 |
-8.393.669 |
|
Heildareignir |
19.130.323 |
24.231.018 |
-5.100.695 |
|
|
|
|
|
|
Eigið fé |
-27.497.208 |
-15.488.510 |
-12.008.698 |
|
Skuldir alls |
46.627.531 |
39.719.528 |
6.908.003 |
Samkvæmt ársreikningi er tap ársins 12.036.505 krónum hærra en samkvæmt yfirliti og eigið fé er lægra sem nemur nánast sömu fjárhæðum. Þessi mismunur skýrist annars vegar af lægri birgðum að fjárhæð 8.393.699 krónur og hins vegar af vantöldum fyrningum að fjárhæð 999.651 króna. Eins og áður sagði var stefnendum kunnugt um þessar breytingar. Af 12.036.505 króna mismun á framangreindum liðum má rekja 9.393.350 krónur (8393.699+999.651) til birgða og afskrifta og stendur þá eftir óútskýrt 2.643.155 krónur. Þann mismun má rekja til vantaldra skulda í yfirliti og færa má rök fyrir að hafi komið stefnendum á óvart. Í málinu hafa stefnendur lagt fram yfirlitsblað um vantaldar skuldir að fjárhæð 5.701.261 króna. Stefndu hafa ekki mótmælt þessu yfirliti en fram hefur komið að þessar skuldir, sem eru aðallega skuldir við erlenda aðila, voru ræddar í samningum aðila og töldu stefndu þá skuldina vera lægri. Fram hefur komið að Sveinbjörn tók tillit til þessara skulda að hluta með því að gera ráð fyrir skuld að fjárhæð 2.000.000 króna á yfirlitsblaði sem hann útbjó fyrir gerð kaupsamnings. Mismunurinn, sem rekja má til vantaldra skulda við erlenda aðila, er því 3.701.261 króna.
Af upphaflegum mismun 2.643.155 krónur skýrast því 3.701.261 króna af vantöldum skuldum við erlenda aðila, en það sem umfram er, -1.058.106 krónur (2.643.155-3.701.261) má rekja til annarra eigna (vantaldar) og skulda (oftaldar)
Niðurstaðan er því sú að réttmætt sé að ætla að mismunurinn á ársreikningi vegna ársins 2002 og áðurnefndu yfirliti er lá frammi við gerð viljayfirlýsingar, að teknu tilliti til breyting sem stefnendur gerðu sér grein fyrir, sé einungis 2.643.155 krónur.
Í ljósi óvissu sem ávallt er til staðar í viðskiptum sem þessum og með tilliti til þess að stefnendur voru að kaupa fyrirtæki með nokkra veltu og átta manns í vinnu, telur dómurinn ofangreindan mismun ekki veruleg frávik frá því sem um var samið og stefnendur höfðu verið upplýstir um. Niðurstaða ársreiknings hefði því ekki átt að koma stefnendum verulega á óvart.
Fram hefur komið að viðskiptavild að fjárhæð 20.000.000 króna var lögð til grundvallar kaupunum. Við málsmeðferð var því ekki mótmælt að fjárhæðin hafi upphaflega komið frá stefndu en stefnendur gerðu aldrei athugasemd við fjárhæðina. Fyrir liggur í gögnum málsins að viðskiptavildin var ekki eignfærð í yfirliti því sem stuðst var við er viljayfirlýsingin var undirrituð. Í skjali því sem Sveinbjörn útbjó fyrir gerð kaupsamnings kemur fram að bókfærð staða viðskiptavildar sé 0 krónur en matsverð 20.000.000 krónur.
Í margnefndri viljayfirlýsingu frá 1. febrúar 2003 kemur fram að gera skuli áreiðanleikakönnun sem miði við stöðu bókhalds 31. janúar 2003 og skuli þeirri könnun ljúka fyrir 25. febrúar 2003. Ekki er getið um hver skuli gera þessa könnun en að mati dómsins stóð það nær stefnendum að hafa frumkvæði að slíkri vinnu. Áreiðanleikakönnun er fyrst og fremst til hagsbóta fyrir kaupendur og má ætla að þá hefðu til dæmis vantaldar skuldir við erlenda aðila, sem áður er minnst á, komið í ljós.
Þá verður ekki framhjá því litið við úrlausn málsins að stefnendur tóku við fyrirtækinu í einn mánuð áður en þeir gengu til kaupanna. Höfðu þeir óheftan aðgang að bókhaldi félagsins og allri starfsemi þess. Tók stefnandi Eiríkur við framkvæmdastjórastöðu fyrirtækisins er þáverandi framkvæmdastjóri hætti störfum. Stefnandi Kristófer tók við stöðu vöru- og birgðarstjóra og stefnandi Gunnar við stöðu sölu- og markaðsstjóra.
Þegar allt framangreint er virt er ekki unnt að fallast á með stefnendum að stefndu hafi vanrækt upplýsingaskyldu sína við sölu á Dælum ehf. Ákvæði 30. gr., 33. og 36. gr. samningalaga nr. 7/1936 eiga því ekki við í málinu. Þá verður heldur ekki talið að vanefndir hafi verið það verulegar að riftun sé heimil.
Stefnendur þykja hins vegar hafa vanrækt skoðunarskyldu sína samkvæmt 20. gr. laga nr. 50/2000 með því að láta undir höfuð leggjast að kanna rekstur og efnahag fyrirtækisins þann mánuð sem þeir höfðu til umráða uns kaupsamningur var gerður.
Stefndu verða því alfarið sýknuð af kröfum stefnenda í málinu og eftir þeim úrslitum verða stefnendur dæmdir til að greiða stefndu málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 650.000 krónur og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.
Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan ásamt meðdómsmönnunum Árna Tómassyni og Sverri Ingólfssyni löggiltum endurskoðendum.
DÓMSORÐ:
Stefndu, Þorsteinn Hjaltason, Jónína H. Arndal og Hjalti Þorsteinsson, skulu verða sýkn af kröfum stefnenda, Eiríks Hans Sigurðssonar, Gunnars L. Björnssonar og Kristófers Þorgrímssonar, í máli þessu.
Stefnendur greiði stefndu 650.000 krónur í málskostnað.