Hæstiréttur íslands
Mál nr. 36/2016
Lykilorð
- Kynferðisbrot
- Skaðabætur
- Ómerkingu héraðsdóms hafnað
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Eiríkur Tómasson, Greta Baldursdóttir og Helgi I. Jónsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 9. desember 2015 í samræmi við yfirlýsingar ákærðu um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að refsing ákærðu verði þyngd.
Ákærði X krefst þess aðallega að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur, til vara að hann verði sýknaður, en að því frágengnu að honum verði gerð vægasta refsing sem lög leyfa. Þá krefst hann þess aðallega að einkaréttarkröfu verði vísað frá héraðsdómi, en til vara að fjárhæð hennar verði lækkuð.
Ákærði Y krefst þess aðallega að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur, en til vara að hann verði sýknaður. Þá krefst hann þess að einkaréttarkröfu verði vísað frá héraðsdómi.
A krefst þess að ákærðu verði sameiginlega gert að greiða sér 2.000.000 krónur með vöxtum eins og dæmdir voru í héraði.
I
Aðalkrafa ákærðu í málinu lýtur að því að ómerkja eigi hinn áfrýjaða dóm. Reisir ákærði Y þá kröfu meðal annars á því að rangt hafi verið farið með nafn sitt í ákæru, hann sé þar kallaður Z en heiti Y. Samkvæmt Þjóðskrá og afriti af vegabréfi ákærða, sem hann sjálfur lagði fram sem nýtt skjal fyrir Hæstarétti, er eiginnafn hans Y og kenninafn Y. Samkvæmt þessu var rétt farið með nafn ákærða í ákæru og verður við þá nafnritun stuðst í dómi þessum.
Ákærðu byggja ómerkingarkröfu á því að ekki hafi verið farið að kröfu þeirra um að framburður ákærðu og vitna væri þýddur á [...] sem sé móðurmál þeirra. Samkvæmt 1. mgr. 12. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála er þingmálið íslenska. Samkvæmt 2. mgr. lagagreinarinnar hvílir sú skylda á ákæruvaldinu að kalla til dómtúlk ef maður sem gefur skýrslu fyrir dómi kann ekki íslensku nægilega vel. Það var gert í máli þessu og var túlkur sem túlkaði fyrir ákærðu á [...] viðstaddur öll þinghöld í málinu. Hvíldi engin skylda á ákæruvaldinu til að láta þýða umrædd gögn yfir á [...]. Eru því ekki skilyrði til að ómerkja hinn áfrýjaða dóm af þessari ástæðu.
Þá reisa ákærðu kröfu um ómerkingu á því að þeim hafi verið vikið úr dómsal meðan brotaþoli gaf skýrslu og þegar þeir gáfu skýrslu hvor fyrir sig. Fyrir liggur að þegar brotaþoli gaf skýrslu bauðst ákærðu að hlusta á framburð hennar úr hliðarsal með túlki, sbr. 3. mgr. 123. gr. laga nr. 88/2008. Enn fremur tók dómari þá ákvörðun að ákærðu hlýddu ekki á framburð hvors annars, svo sem honum var heimilt samkvæmt 2. málslið 2. mgr. 114. gr. sömu laga. Verður því ekki fallist á að þessi framkvæmd á skýrslutöku leiði til ómerkingar héraðsdóms.
Ákærðu telja að rannsókn lögreglu hafi verið áfátt. Slík réttarfarsástæða myndi leiða til frávísunar málsins frá héraðsdómi en ekki ómerkingar hins áfrýjaða dóms. Eru engir slíkir annmarkar á rannsókn málsins sem leiða til þess að vísa beri því sjálfkrafa frá héraðsdómi.
II
Í málinu er ákærða X gefin að sök nauðgun með því að hafa haft samræði og reynt að hafa endaþarmsmök við brotaþola með því að beita hana ofbeldi og annars konar ólögmætri nauðung og þannig brotið gegn 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þá er ákærða Y gefin að sök hlutdeild í broti X með því að hafa veitt honum liðsinni í verki með því að grípa um báða upphandleggi brotaþola og halda henni fastri meðan meðákærði braut gegn henni. Er brot ákærða heimfært undir 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 1. mgr. 22. gr. sömu laga.
Með hinum áfrýjaða dómi voru ákærðu sakfelldir samkvæmt ákæru að því undanskildu að ákærði X var sýknaður af því að hafa reynt að hafa endaþarmsmök við brotaþola og sættir ákæruvaldið sig við þá niðurstöðu.
III
Brotaþoli bar fyrir dómi að hún myndi ekki hvernig hún komst heim til ákærðu umrædda nótt. Hún myndi eftir því að hafa setið í eldhúsi með ákærða X og drukkið bjór og síðan rankað við sér uppi í rúmi þar sem ákærði hafi verið að kyssa hana og reyna að hafa við hana samfarir, en hún beðið hann um að gera það ekki. Hún bar á svipaðan hátt hjá lögreglu. Þegar hún var spurð þar hvort atlot hefðu verið byrjuð milli þeirra áður en hún sagði honum að hætta kvaðst hún ekki muna það en hélt að svo hafi ekki verið.
Í skýrslu um réttarfræðilega skoðun læknis og hjúkrunarfræðings sem tóku á móti brotaþola á Neyðarmóttöku Landspítalans fyrir þolendur kynferðisofbeldis um hálfum sólarhring eftir atburðinn var meðal annars haft eftir brotaþola að hún og ákærði X hafi farið inn í herbergi hans, hann hafi verið mikill að neðan og hún því ekki getað tekið við honum. Fyrir dómi bar hjúkrunarfræðingurinn að brotaþoli hafi lýst því að hún hafi farið heim með ákærða X, þau hafi byrjað að kyssast eitthvað og farið inn í herbergi. Eitt hafi leitt af öðru en hann hafi verið með svo stóran getnaðarlim að henni hafi farið að snúast hugur þarna „hana langaði bara ekkert að sofa hjá honum um nóttina“.
Rannsóknarlögreglumaður sem ræddi við brotaþola á neyðarmóttöku bar fyrir dómi að brotaþoli hafi sagt sér að hún hafi ekki vitað fyrr til en að hún hafi allt í einu verið komin heim til ákærða X og myndi eftir sér inni í eldhúsi hjá honum. Síðan hafi þau farið inn í svefnherbergið og „eitthvað hafi byrjað þar á milli þeirra en síðan hafi hún ekki viljað það, ekki viljað meira, vilja stoppa hann af ... hún hafi ekki treyst sér eins og hún orðaði það, hún hafi ekki tekið á móti, meinandi þá að hann hafi verið með það stórt typpi að hún hafi ekki treyst sér í að hafa mök við þennan mann.“
Vinkona brotaþola sem hafði verið með henni að skemmta sér kvöldið sem umræddir atburðir áttu sér stað bar fyrir dómi að brotaþoli hafi komið til sín eftir að hafa farið á neyðarmóttöku og sagt sér að hún hafi farið heim með ákærða X og vel farið á með þeim og þau byrjað kynmök sem hún hefði viljað stöðva þar sem hann hafi „verið allt of stór og hún hefði sagt stopp.“ Spurð af dómara hvort draga mætti þá ályktun af því sem hún hafi sagt að brotaþoli hefði verið samþykk samförum fram að þessu svaraði hún: „Ég skildi það þannig.“
Þegar framangreint er virt verður því slegið föstu að brotaþoli hafi í upphafi verið því samþykk að hafa samfarir við ákærða X en fljótlega skipt um skoðun og viljað hætta án þess að ákærði skeytti því í nokkru. Með þessum athugasemdum en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður ákærði sakfelldur fyrir nauðgun með því að hafa haft samræði við brotaþola með ofbeldi og annars konar ólögmætri nauðung er hann hélt henni fastri og notfærði sér yfirburða stöðu og aðstöðumun gagnvart henni vegna líkamlegra aflsmuna. Er brot hans rétt fært til refsiákvæðis í ákæru.
IV
Um þátt ákærða Y í því broti sem að framan er lýst hefur brotaþoli verið stöðug í framburði sínum. Á sama hátt hefur ákærði neitað sök staðfastlega og fær framburður hans stoð í framburði meðákærða en þau þrjú eru ein til frásagnar um hvað gerðist umrædda nótt. Stendur því orð gegn orði um þátt þessa ákærða.
Í málinu liggja fyrir ljósmyndir og vottorð læknis, sem skoðaði brotaþola þegar hún kom á neyðarmóttöku um hálfum sólarhring eftir meinta nauðgun meðal annars um áverka á báðum upphandleggjum hennar. Læknirinn staðfesti í skýrslu sinni fyrir dómi að þessir áverkar, sem gætu verið fingraför, kæmu heim og saman við frásögn brotaþola um að henni hafi verið haldið fast niðri og að áverkarnir væru hálfs sólarhrings gamlir. Í hinum áfrýjaða dómi er sakfelling ákærða Y meðal annars byggð á þessum gögnum.
Eftir uppkvaðningu hins áfrýjaða dóms fóru verjendur ákærðu fram á dómkvaðningu manna til að skoða og meta framangreinda maráverka á upphandleggjum brotaþola samkvæmt fyrirliggjandi ljósmyndum. Hinn 8. apríl 2016 voru B prófessor og C réttarmeinafræðingur dómkvaddir til starfans. Í niðurstöðu þeirra 26. apríl 2016 kom fram að ekki væri mögulegt að úrskurða um aldur marsins en þó væri líklegt að áverkinn væri minna en 18 til 24 klukkustunda gamall. Þá var það niðurstaða þeirra að ekki væri mögulegt að álykta af myndunum hver líkamsstaða brotaþola hafi nákvæmlega verið þótt áverkar bentu sterklega til þess að henni hafi verið haldið með valdi.
Framangreind gögn styðja það að brotaþola hafi verið haldið niðri með því að haldið var um handleggi hennar en áverkarnir geta samrýmst því að þeir séu af völdum þess ofbeldis sem ákærði X beitti til að koma fram vilja sínum gagnvart henni. Að öllu því virtu sem nú hefur verið rakið verður ekki gegn eindreginni neitun ákærða Y staðhæft að atvik að því er hann varðar hafi verið með þeim hætti sem greinir í ákæru. Verður hann því sýknaður af sakargiftum í máli þessu, sbr. 108. gr. laga nr. 88/2008.
V
Við ákvörðun refsingar ákærða X verður litið til þess að samkvæmt sakavottorði hans hefur hann ekki áður gerst brotlegur. Þá verður til þess litið að brot hans var gróft og líkamlegir áverkar brotaþola verulegir. Einnig hafði brot ákærða miklar andlegar afleiðingar fyrir brotaþola. Er refsing hans ákveðin fangelsi í þrjú ár.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður ákærða X gert að greiða brotaþola miskabætur með þeirri fjárhæð og vöxtum sem þar var ákveðið. Þá verður ákærði dæmdur til að greiða hluta sakarkostnaðar í héraði eins og nánar greinir í dómsorði, sbr. 3. mgr. 219. gr. laga nr. 88/2008.
Með skírskotun til 1. mgr. 220. gr. laga nr. 88/2008 verður allur áfrýjunarkostnaður hvað snertir ákærða X felldur á ríkissjóð, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans og þóknun réttargæslumanns brotaþola, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og greinir í dómsorði.
Með því að ákærði Y er sýknaður í máli þessu verður allur sakarkostnaður varðandi hann í héraði og fyrir Hæstarétti felldur á ríkissjóð, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans í héraði eins og þau voru ákveðin í hinum áfrýjaða dómi og málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans fyrir Hæstarétti sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði segir.
Dómsorð:
Ákærði, X, sæti fangelsi í þrjú ár.
Ákærði, Y, er sýknaður af kröfu ákæruvaldsins.
Ákærði X greiði A 1.500.000 krónur með vöxtum eins og dæmdir voru í héraði.
Ákærði X greiði málsvarnarlaun verjanda síns í héraði eins og þau voru þar ákveðin og 2/3 hluta annars sakarkostnaðar þar, samtals 1.622.455 krónur.
Málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða Y í héraði eins og þau voru þar ákveðin greiðast úr ríkissjóði.
Allur áfrýjunarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun verjenda ákærðu, hæstaréttarlögmannanna Jóhannesar Ásgeirssonar og Kristjáns Stefánssonar 744.000 krónur til hvors um sig og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Þórdísar Bjarnadóttur hæstaréttarlögmanns, 186.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 20. nóvember 2015.
I
Mál þetta, sem dómtekið var 27. október síðastliðinn, var höfðað með ákæru ríkissaksóknara, útgefinni 5. júní 2015, á hendur X, kennitala [...], [...], [...], og Y, kennitala [...], [...], [...], „fyrir eftirgreind brot aðfaranótt sunnudagsins 17. nóvember 2013, að [...], [...]:
1. Gegn ákærða X fyrir nauðgun, með því að hafa haft samræði og reynt að hafa endaþarmsmök við A, kennitala [...], með því að beita hana ofbeldi og annars konar ólögmætri nauðung. Ákærði hélt A fastri með því að grípa um neðri hluta fótleggja hennar og aðra ristina og leggjast ofan á hana og naut auk þess verklegs liðsinnis meðákærða Y, sem nánar greinir í 2. ákærulið. Ákærði notfærði sér einnig yfirburða stöðu og aðstöðumun gagnvart A vegna líkamlegra aflsmuna og að hún var ein og mátti sín lítils gegn honum og meðákærða Y í lokuðu herbergi, lömuð af hræðslu og fjarri öðrum á ókunnugum stað.
2. Gegn ákærða Y fyrir hlutdeild í nauðgun samkvæmt 1. ákærulið, með því að hafa veitt meðákærða X liðsinni í verki með því að grípa um báða upphandleggi A og halda henni fastri á meðan meðákærði X braut gegn henni.
Telst brot samkvæmt 1. ákærulið varða við 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 3. gr. laga nr. 61/2007, en brot samkvæmt 2. ákærulið telst varða við sömu ákvæði, sbr. 1. mgr. 22. gr. almennra hegningarlaga.
Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.
Einkaréttarkrafa:
Í málinu gerir Þórdís Bjarnadóttir, hæstaréttarlögmaður, fyrir hönd A, kt. [...], kröfu á hendur ákærðu um miskabætur, in solidum, að fjárhæð kr. 2.000.000, auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá 28. nóvember 2013 þar til mánuður er liðinn frá birtingu bótakröfu, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Einnig er þess krafist að ákærðu verði gert að greiða málskostnað, in solidum, að mati dómsins eða samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi, að viðbættum virðisaukaskatti á málflutningsþóknun.
Ákærðu neita sök og krefjast sýknu. Þeir krefjast þess að bótakröfunni verði vísað frá dómi en til vara að bætur verði lækkaðar. Þess er krafist að málsvarnarlaun verjenda verði greidd úr ríkissjóði sem og annar sakarkostnaður.
Það athugast að í ákæru er annar ákærðu nefndur Z. Hann kvaðst heita Y og verður því nefndur það í dóminum. Þá kom það fram að ákærðu eru [...].
II
Undir kvöld sunnudaginn 17. nóvember 2013 var lögreglukona send á slysadeild og hitti hún þar fyrir brotaþola. Brotaþoli skýrði svo frá að kvöldið áður hefði hún farið á skemmtistað og hitt þar mann. Það hefði farið vel á með þeim. Næst kvaðst brotaþoli muna eftir sér í eldhúsi á heimili mannsins, en ekki kvaðst hún muna hvernig hún hefði komist þangað eða hvort hún hefði viljað fara þangað. Síðan kvað brotaþoli sig og manninn hafa verið komin upp í rúm og „eitthvað byrjað milli þeirra“ eins og haft er eftir henni. Þessu næst segir í skýrslunni að brotaþoli hafi „stoppað það af“ sem var byrjað því hún sagðist ekki hafa getað „tekið á móti“. Aðspurð hvað hún ætti við með því sagði hún að maðurinn hefði verið með svo stórt typpi að hún treysti sér ekki til þess að hafa við hann samfarir.“ Maðurinn hefði þá kallað á annan mann og hefðu þeir rætt saman á erlendu tungumáli sem hún hefði ekki skilið. Maðurinn, sem kallað var á, hefði nú komið að brotaþola, tekið um hendur hennar og axlir og haldið henni meðan hinn hefði nauðgað henni í leggöng. Að því búnu kvaðst brotaþoli hafa sofnað í rúminu ásamt manninum sem nauðgaði henni. Hún kvaðst ekki hafa þorað að fara, enda hefði hinn maðurinn setið fullklæddur fyrir framan herbergið og verið að fylgjast með. Í lok skýrslunnar segir að brotaþoli hafi ekki viljað kæra „að svo stöddu, henni fannst þetta vera sér að kenna og sagðist hafa hugsað um það um morguninn að þetta hefði verið gott á hana fyrst hún hefði hagað sér svona óábyrgt.“
Það kom fram hjá brotaþola að ákærði X hefði sent henni smáskilaboð og einnig hringt í hana. Skilaboðin voru send föstudaginn 22. nóvember 2013 kl. 15.38 og eru svohljóðandi: TAK.FYRIR.SIDASTI.LAUGARDAG.GAMAN.DANSA.TESU.KVOLD.VIL.SJA.TIG.AFTUR.TEGAR.TU.VILT.[X].“
Brotaþoli var skoðuð á neyðarmóttöku áður en lögreglukonan hafði tal af henni. Í vottorði læknis er höfð eftir brotaþola sama frásögn um atburðinn og rituð var hér að framan. Síðan segir: „1. Greinileg vanlíðan við komu á nmt. Skelfur og grætur við skoðun. Frásögn skýr og trúverðug. 2. Mar og þreyfieymsli á báðum upphandleggjum sem passar við frásögn konunnar að henni hafi verið haldið niðri. Einnig er mar á hægri rist og klór og eymsli á handarbaki.“ Þá segir að engir áverkar hafi fundist á endaþarmi. „Við skoðun á ytri kynfærum var labia minor og major talsvert bólgin og þrútin. Innanvert á labia minor við vagina op eru svæði sín hvorum megin sem eru með nuddsári. Einnig voru talsverð þreifieymsli yfir lífbeini, meira hægra megin.“
Brotaþoli kærði ákærðu 31. janúar 2014 og var þá tekin af henni skýrsla. Hún skýrði svo frá að hún hefði verið á skemmtistað með vinkonu sinni og hitt þar mann er hún hefði farið með heim en ekki hefði hún vitað hvernig. Hún myndi næst eftir sér í eldhúsinu hjá manninum og því næst hefði hún verið komin nakin upp í rúm í svefnherbergi en ekki kvaðst hún vita hvort hún hefði sjálf klætt sig úr. Maðurinn hefði viljað hafa við sig samræði en hún hefði ekki viljað það og þá hefði hann kallað og annar maður komið er hefði haldið henni. Þeir hefðu talað saman á erlendu tungumáli er hún hefði ekki skilið. Þá hefði hún verið stjörf af hræðslu og ekki vitað hvort mennirnir ætluðu að meiða hana eða drepa. Maðurinn hefði þröngvað sér inn í hana og haft við hana samræði. Einnig hefði hann reynt að hafa endaþarmsmök við hana. Þegar þessu var lokið hefði maðurinn sem hélt henni farið en hinn hefði legið eftir í rúminu. Hún kvaðst hafa tekið föt sín og farið fram á baðherbergi og þá séð aðstoðarmanninn sitja þar eins og á vakt. Hún kvaðst því ekki hafa þorað annað en fara aftur inn í herbergið eftir að hafa klætt sig og þar hefði hún sofnað. Um morguninn hefði hún ákveðið að „spila með“ eins og hún orðaði það, til þess að komast út. Hún hefði því þegið kaffi og eins ritað nafn sitt á miða og látið manninn hafa.
Brotaþoli gekk til sálfræðings og samkvæmt vottorði hans var rætt við hana 8 sinnum á tímabilinu frá 22. nóvember 2013 til 14. febrúar 2014. Í vottorðinu segir að brotaþoli hafi upplifað mikla ógn, ofsaótta, bjargarleysi og lífshættu í meintu kynferðisbroti. Niðurstöður endurtekins greiningarmats sýni að hún þjáist af áfallastreituröskun vegna hins meinta brots. „Sálræn einkenni hennar í kjölfar áfallsins samsvara einkennum sem þekkt eru hjá fólki sem hefur upplifað alvarleg áföll eins og líkamsárás, nauðgun, stórslys eða hamfarir. Niðurstöður sjálfsmatskvarða samsvöruðu vel frásögnum hennar í viðtölum. Hún virtist ávallt hreinskilin, trúverðug og samkvæm sjálfri sér.“
Á neyðarmóttökunni voru tekin sýni úr brotaþola og voru sáðfrumur í sýnunum. Rannsókn sýndi að þær voru úr ákærða X.
Ákærði X var yfirheyrður af lögreglu og kannaðist hann við að hafa haft samfarir við brotaþola umrædda nótt. Þær hefðu verið með samþykki hennar. Hann kvað meðákærða hafa verið sofandi og ekki komið inn í herbergið þar sem hann hefði verið með brotaþola. Hann neitaði að hafa reynt að hafa endaþarmsmök við brotaþola.
Ákærði Y kvaðst við yfirheyrslu hjá lögreglu hafa verið sofandi heima hjá sér en rumskað við það að meðákærði kom heim með konu. Kvaðst hann hafa heyrt stunur en svo sofnað aftur. Um morguninn, þegar hann vaknaði, hefðu þau verið sofandi. Hann kvaðst svo hafa hitt konuna skömmu áður en hún fór. Hann neitaði alfarið að hafa haldið brotaþola eins og hann er ákærður fyrir.
III
Ákærði X bar við aðalmeðferð að hann hefði farið með nokkrum löndum sínum niður í miðbæ og hefðu þeir farið þar á skemmtistað. Á staðnum kvaðst hann hafa hitt brotaþola en ekki orðið var við vinkonu hennar. Þau hefðu spjallað saman og hefði hún meðal annars spurt hvaðan hann væri. Þau hefðu ræðst við á íslensku enda kvaðst ákærði hafa verið hér í [...] ár. Þá hefði hún beðið hann um að borga fyrir sig vínglas og hefði hann gert það. Þessu næst hefði hún beðið hann að dansa við sig og hefði hann gert það. Þau hefðu drukkið meira, hún vínglas en hann bjór. Þegar komið var miðnætti kvaðst hann hafa viljað fara heim en hún hefði viljað dansa meira og hefði það endað með því að hún hefði dottið á bakið. Þá kvaðst hann hafa ætlað að fara og hún hefði þá sagt „bíddu, ég ætla að koma með“. Þau hefðu síðan farið út á götu og þar hefði hún sest á gangstéttina. Þar hefðu orðið umræður um hluti er hún taldi sig hafa glatað en hún hefði síðan fundið hlutina og þá kvaðst ákærði ekki hafa viljað vera þarna lengur heldur ætlaði hann heim. Brotaþoli kvaðst þá líka ætla að fara. Ákærði kvaðst hafa spurt hana hvort hún ætlaði heim til sín eða heim til hans og hefði hún sagst ætla heim til hans. Hann kvaðst hafa sagt að hann ætlaði að ganga en hún hefði viljað fara í leigubíl og hefði það orðið úr. Ákærði kvaðst ekki hafa verið ölvaður og brotaþoli hefði heldur ekki verið ölvuð. Hann kvaðst ekki minnast þess að hún hafi hringt á leiðinni heim til hans.
Þegar heim til ákærða var komið hefðu þau sest inn í eldhús og fengið sér að borða, en meðákærði hafi ekki verið vakandi. Á eftir hefðu þau drukkið kaffi og einnig bjór. Þarna hefðu þau setið í um klukkutíma og ræðst við, en þá hefði brotaþoli tekið bjórinn sinn og gengið inn í herbergið hans sem er beint á móti eldhúsinu. Brotaþoli hefði lagst í rúmið hans í öllum fötum og án þess að fara úr skónum. Ákærði kvaðst einnig hafa lagst í rúmið skömmu síðar og verið í öllum fötum. Ákærði kvað brotaþola hafa lagt hönd sína yfir hann og farið að káfa á honum og hafi það staðið yfir í um15 mínútur og einnig hefðu þau kelað. Í framhaldinu hefðu þau elskast. Hann kvaðst ekkert hafa gert við brotaþola annað en það sem hún vildi.
Nánar lýsti ákærði þessu svo að brotaþoli hefði legið í rúminu í kjólnum og hefði byrjað að fróa sér utan klæða. Síðan hefðu þau afklæðst, hún hefði klætt sig úr og hann hefði klætt sig úr. Hann kvaðst hafa lagst ofan á brotaþola og hefðu þau haft samfarir. Limur hans hefði farið inn í leggöng hennar. Eftir samfarirnar hefði hún tekið utan um hann og sofnað. Hann kvaðst hafa snúið sér á hlið og sofnað líka. Ákærði kvað brotaþola hafa viljað hafa kynmök við sig og ekkert gefið til kynna um að hún vildi það ekki eða að þau yllu henni óþægindum. Hann neitaði alfarið að hafa reynt að hafa endaþarmsmök við brotaþola. Hann kvað þau hafa haldið utan um hvort annað meðan á samförunum stóð og kvaðst hann hafa þreifað á brjóstum hennar og víðar á líkama hennar, en kynmökin hefðu verið eðlileg og ekki harkaleg. Brotaþoli hefði tekið þátt í þeim og meðal annars sagt „frábært“. Hún hefði kysst hann og tekið utan um hann. Þá hefði hún fært í sundur fæturna. Ákærði kvaðst telja að sér hefði orðið sáðlát. Kynmökin hefðu tekið um 15 til 20 mínútur. Þá kvaðst hann ekki hafa komið þannig við brotaþola að það hefði getað valdið þeim áverkum er brotaþoli bar á neyðarmóttökunni. Ákærði kvaðst ekkert hafa orðið var við meðákærða um nóttina.
Um morguninn kvaðst ákærði hafa farið á fætur þegar klukkuna vantaði 15 mínútur í níu og lagað kaffi. Hann kvaðst svo hafa spurt brotaþola hvort hún ætlaði að drekka kaffi eða hvort hún ætlaði að sofa lengur og kvað hann hana hafa sagt að hún ætlaði að sofa aðeins lengur. Hún hefði síðan farið á fætur, kallað á hann og beðið um hreint handklæði. Þessu næst hefði hún klætt sig, drukkið kaffi og reykt. Þau hefðu nú setið og ræðst við, einnig hefði hún hringt. Þá hefði hún skrifað símanúmer sitt, að hans beiðni, á blaðsnepil og sagt sér að hringja í sig í lok vikunnar. Þá myndu þau fara á ítalskan veitingastað. Ákærði kvaðst hafa sagt henni að hann myndi hringja í hana. Brotaþoli hefði nú hringt á leigubíl og kvaðst hann hafa farið með henni út og þau beðið í um 20 mínútur. Á meðan á biðinni stóð hefði brotaþoli kysst sig og eins hefði hún kysst hann í kveðjuskyni og þakkað fyrir sig.
Ákærði kvaðst hafa hringt í brotaþola en ekki hefði verið svarað. Hann hefði einnig sent henni smáskilaboð en þeim hefði heldur ekki verið svarað.
Ákærði Y neitaði sök. Hann kvaðst hafa verið heima hjá sér þessa nótt. Hann hefði farið að sofa um klukkan ellefu kvöldið áður. Hann kvaðst hafa rankað við sér þegar hurð hefði opnast og heyrt meðákærða og brotaþola vera að ræðast við, en ekki kvaðst hann vita hvað klukkan var þá. Hann kvaðst hafa heyrt þau ræðast við í eldhúsinu en ekki hefði hann heyrt um hvað þau ræddu. Þá kvað hann þau hafa farið inn í herbergi meðákærða eftir einhvern tíma. Milli herbergis hans og herbergis meðákærða er þunnur veggur og kvaðst hann hafa heyrt þau ræðast við og eftir nokkrar mínútur hefði hann heyrt í þeim „eins og venjulegt er þegar fólk elskast“ eins og ákærði orðaði það. Hann kvaðst ekki hafa farið inn í herbergið og hann hefði ekki heyrt konuna mótmæla einhverju eða láta í ljós að hún vildi ekki eitthvað. Í framhaldinu hefði hann sofnað og vaknað um klukkan átta og lagað sér kaffi sem hann hefði drukkið í sínu herbergi. Um klukkan níu kvaðst hann hafa heyrt einhvern fara inn á baðherbergið. Nokkrum mínútum síðar hefði kona opnað hurðina að herbergi hans og boðið góðan daginn og hefði hann svarað í sömu mynt. Meðákærði og brotaþoli hefðu verið í íbúðinni í um hálftíma til 45 mínútur en svo hefðu þau farið. Hann kvaðst hafa séð þau tvö fyrir utan íbúðina og hafi þau verið að tala saman og kyssast.
Brotaþoli bar að hún hefði farið á skemmtistað með vinkonu sinni og hitt ákærða X þar. Hún kvað allt hafa farið vel fram, eins og hún orðaði það, en síðan hefði allt orðið svart. Hún kvaðst ekki hafa verið mikið undir áhrifum áfengis og kvaðst ekkert vita, en muna næst eftir sér þar sem hún hefði setið á móti ákærða í eldhúsi, væntanlega í íbúð ákærðu. Þar hefði hún verið að drekka bjór sem hún geri aldrei. Hún kvaðst hafa orðið mjög hissa á því að vera í þessu húsi og með þessum manni en síðan hefði allt slokknað aftur. Næst kvaðst hún muna eftir sér þar sem hún hafi legið nakin uppi í rúmi og ákærði X hafi legið ofan á sér og verið að þröngva sér inn í hana. Hún kvaðst hafa beðið hann um að gera þetta ekki en þá hefði hann kallað á erlendu tungumáli og í framhaldinu hefði annar maður komið inn í herbergið sem hún hefði ekki séð áður og ekki vitað af. Þessi maður hefði haldið um upphandleggi hennar á meðan ákærði hefði haft samræði við hana. Maðurinn sem komið hefði inn hefði verið fyrir ofan sig og til hliðar við hana. Brotaþoli kvaðst hafa reynt að berjast á móti með líkama sínum og höndum, en gefist upp og allt hefði slokknað aftur. Þá kvað hún ákærða hafa reynt að hafa endaþarmsmök við hana eftir samfarir í leggöng en það hefði ekki tekist. Næst kvaðst hún muna eftir sér er hún hefði verið í rúminu við hlið aðalgeranda, eins og hún orðaði það, og hefði hann verið sofandi. Hún kvaðst hafa tekið fötin sín, farið fram á bað og klætt sig. Þá kvað hún hinn manninn hafa setið við útidyrahurðina. Hann hefði verið klæddur í dökkan jakka, líklega leðurjakka. Hún hefði því farið aftur inn í herbergið og lagst þar við hliðina á ákærða X og legið þar þangað til hann vaknaði. Þá hefði ákærði viljað að hún drykki kaffi hjá sér og hefði hún þegið það. Þá hefði hann beðið hana að skrifa símanúmer hennar á blað fyrir sig og hefði hún gert það af hræðslu við ákærða. Hún kvað þau eitthvað hafa ræðst við en ekki sagðist hún muna um hvað. Næst hefði hún sagst þurfa að fara en það hefði liðið um klukkutími þar til hann hefði samþykkt það. Hún hefði þessu næst tekið leigubíl heim til vinkonu sinnar sem hafði verið með henni á skemmtistaðnum. Ákærði X hefði fylgt henni út en ekki kvaðst hún muna eftir samskiptum við hann, enda hefði hún verið stjörf af hræðslu.
Brotaþoli kvaðst hafa sagt vinkonunni að hún þyrfti að komast á spítala en hún hefði ekki trúað sér. Brotaþoli kvaðst því hafa lagst upp í sófa og beðið eftir að vinkonan færi í boð með börn sín. Þegar þau voru farin kvaðst brotaþoli hafa hringt í vin sinn og sagt honum hvað hefði gerst. Hann hefði lagt að henni að hafa samband við neyðarmóttökuna sem hún gerði og hefði henni verið sagt að koma þangað. Það hefði hún gert.
Brotaþoli var spurð nánar út í samskiptin við ákærða og kvaðst hún muna eftir að hafa dansað við hann og að þau hefðu ræðst við á ensku og íslensku. Hún kvaðst ekki muna eftir að hafa dottið, ekki muna eftir sér í leigubíl og ekki að hafa hringt í vinkonu sína eftir að hún fór af skemmtistaðnum. Hún kvaðst ekki muna til þess að hafa neytt matar í íbúðinni en hún hefði verið með bjór. Þá kvaðst hún ekki muna eftir að hafa afklætt sig. Brotaþoli kvaðst ekki eiga vanda til að muna ekki eftir því sem hefði gerst og hún kvað minnisleysi sitt um atburðinn ekki tengjast of mikilli áfengisneyslu. Þá kvaðst hún ekki telja að kynfæri ákærða hefðu verið of stór, enda ætti það ekki að skipta máli ef allt væri í lagi milli manns og konu eins og hún orðaði það. Hún hefði ekki viljað vera með ákærða og hefði það ekkert haft með stærð kynfæra hans að gera. Brotaþoli kvaðst ekki hafa viljað kæra meinta nauðgun strax enda hefði hún verið mjög hrædd. Hún hefði ekki vitað um hvaða menn hefði verið að ræða og ekki hvers væri að vænta af þeim. Hún kannaðist við að hafa skrifað gælunafn sitt og símanúmer á blað og látið ákærða X hafa. Þetta hefði hún gert að hans beiðni. Hann hefði hringt í hana og sent henni smáskilaboð en hún hefði ekki svarað og skipt um símanúmer í framhaldinu.
Brotaþoli lýsti mikilli vanlíðan, bæði andlegri og líkamlegri, í kjölfar atburðarins. Þá hefði hann einnig haft áhrif á starf hennar og nám og hindrað hana félagslega. Auk þess hefði hún átt erfitt með svefn, sérstaklega í fyrstu.
Vinkona brotaþola, sem tók á móti henni eftir að hún kom af neyðarmóttökunni, kvað hana hafa verið í mikilli geðshræringu. Þá hefði brotaþoli átt erfitt með að sitja og hún hefði ekki verið eins og hún var vön. Þá hefði hún til dæmis ekki þorað með sér í Kringluna. Vinkonan kvað brotaþola hafa sagt sér að hún hefði farið með vinkonu sinni á skemmtistaði. Á einum staðnum hefði hún hitt mann en síðan „dottið út“ og rankað við sér í íbúð, en ekki hefði hún vitað hvernig hún hefði komist í íbúðina. Hún hefði svo „dottið aftur út“, en rankað við sér með karlmann ofan á sér. Hún hefði ekki kært sig um þetta og sagt manninum það og streist á móti. Þá hefði maðurinn kallað á máli, sem hún ekki skyldi, og þá hefði komið annar maður er hefði aðstoðað hinn við að koma fram vilja sínum. Vinkonan kvað brotaþola hafa gist hjá sér fyrstu vikurnar eftir atburðinn og hefði hún átt erfitt með svefn auk þess að hafa forðast að fara út af ótta við að hitta mennina. Hún kvaðst þekkja brotaþola vel og ekki vita til þess að hún hafi átt í vandræðum með áfengisneyslu.
Vinur brotaþola, sem hún hringdi í, bar að hafa verið austur á landi er hún hefði hringt í hann á sunnudegi. Hún hefði sagt honum að henni hefði verið nauðgað. Vinurinn kvaðst hafa talið hana á að fara á neyðarmóttökuna. Hann kvað brotaþola hafa sagt sér að tveir menn hefðu brotið á henni og hefði annar þeirra haldið henni. Þá hefði hún sagt að maðurinn, sem hefði farið inn í hana, hefði meitt hana.
Maður, sem var á skemmtistaðnum með brotaþola og vinkonu hennar, kvaðst hafa rætt við brotaþola um kvöldið. Hann kvað hana hafa verið lítillega undir áhrifum áfengis. Þá kvaðst hann hafa séð mann „draga“ brotaþola um staðinn og út á dansgólfið. Þessi maður hefði verið mjög drukkinn. Hann kvaðst ekki hafa séð brotaþola fara af staðnum.
Vinkona brotaþola, sem var með henni á skemmtistaðnum, kvað hana hafa hitt mann á staðnum og hefðu þau dansað og eins farið saman út að reykja. Hún kvaðst ekki hafa rætt við manninn og ekki geta borið um ástand hans. Hún kvað það hafa verið augljóst að vel fór á með þeim en hann hafi ekki verið ágengur við hana. Vinkonan kvaðst hafa leitað að brotaþola áður en hún hefði farið heim en ekki séð hana á staðnum. Hún kvaðst hafa farið heim og verið þar að spjalla við vin sinn þegar brotaþoli hefði hringt í hana og verið skrítin í símanum. Þær hefðu heilsast en síðan hefði brotaþoli ekki sagt neitt. Vinkonan hefði þá spurt hana hvort hún væri ennþá niðri í bæ og hefði brotaþoli jánkað því. Hún hefði einnig svarað því játandi er vinkonan hefði spurt hvort hún væri með manninum og eins hefði hún svarað er vinkonan hefði spurt hvort hún ætlaði að fara með honum. Brotaþoli hefði aldrei svarað öðruvísi en að segja já sem væri mjög ólíkt henni.
Morguninn eftir hefði brotaþoli hringt í hana milli klukkan tíu og ellefu og beðið hana um að sækja sig. Vinkonan kvaðst ekki hafa getað gert það en brotaþoli hefði komið sjálf og orðið eftir í íbúðinni meðan hún hefði farið í boð. Þegar vinkonan kom úr boðinu hefði brotaþoli verið að koma úr sturtu og hefði klukkan þá verið fjögur eða fimm. Brotaþoli hefði þá sagt að hún þyrfti að fara á slysadeild og gert það. Hún hefði svo komið mörgum tímum seinna. Þá hefði brotaþoli sagt henni að hún hefði farið með manninum og hefði farið vel á með þeim. Þau hefðu byrjað kynmök en hann hefði verið alltof stór og hún hefði sagt stopp, hún gæti þetta ekki og að hún meiddi sig. Þá hefði komið til átaka og vinur mannsins hefði komið og haldið henni meðan hinn maðurinn hefði lokið sér af. Vinkonan kvaðst hafa skilið brotaþola svo, að hún hefði verið samþykk kynmökunum allt þar til hún hefði sagt stopp.
Vinkonan kvaðst hafa lagt hart að brotaþola að leggja fram kæru en hún hefði ekki viljað það í fyrstu en síðan gert það. Þá kvað hún brotaþola ekki hafa verið mikið undir áhrifum áfengis á skemmtistaðnum.
Læknir á neyðarmóttökunni, sem ritar framangreint vottorð, staðfesti það. Læknirinn kvað brotaþola hafa liðið mjög illa við komuna. Áverkinn á vinstri upphandlegg hefði verið mar og hefði það komið heim og saman við frásögn brotaþola, þar á meðal um það hvenær hún fékk hann og hvernig. Á hægri upphandlegg hefðu verið tveir marblettir og gæti hafa verið um fingraför að ræða. Þessir áverkar hefðu einnig komið heim og saman við frásögn brotaþola um það hvernig þeim var valdið og hvenær. Þá kvað læknirinn brotaþola hafa borið áverka á kynfærum sem sé ekki algengt að sjá á fórnarlömbum nauðgana. Þessir áverkar komi heim og saman við lýsingu brotaþola á málavöxtum. Þessir áverkar gætu hafa orsakast af stórum lim og mögulega vegna valdbeitingar. Þá hafi brotaþoli verið aum að neðanverðu en við skoðun hafi ekkert bent til endaþarmsmaka. Áverkarnir á kynfærum brotaþola hafi getað valdið því að hún hafi átt erfitt með að sitja.
Hjúkrunarfræðingur á neyðarmóttökunni kvað brotaþola hafa hringt og sagt að sér hefði verið nauðgað um nóttina. Hefði hún viljað vita hvernig hún ætti að bera sig að. Henni hefði verið boðið að koma og hefði hún gert það. Þegar hún kom hefði verið talað við hana og kvaðst hjúkrunarfræðingurinn hafa tekið eftir því að brotaþoli hefði átt mjög erfitt með að sitja. Hún hefði skýrt svo frá málavöxtum að hún hefði farið á skemmtistað með vinkonu sinni og þar hefði hún hitt meintan geranda sem hefði boðið henni heim með sér og hefði hún farið þangað með honum. Þar hefði hún drukkið bjór þótt hún væri ekki mikið fyrir bjór. Þau hefðu byrjað að kyssast og farið inn í herbergi. Þar hefði eitt leitt af öðru en maðurinn hefði verið með svo stóran lim að henni hefði snúist hugur og ekki viljað vera með honum. Þá hefði maðurinn kallað á sínu máli á annan mann er hefði komið og haldið brotaþola meðan hinn kom fram vilja sínum.
Við komuna hefði brotaþoli verið miður sín, grátandi og liðið illa líkamlega og andlega. Brotaþoli hefði verið skýr í frásögn sinni og yfirveguð. Þá kvaðst hjúkrunarfræðingurinn hafa komið að mörgum nauðgunarmálum en aldrei séð svona mikla áverka á kynfærum kvenna og á brotaþola. Hún hafi bæði verið bólgin og með nuddsár. Þá hefði brotaþoli talað um að reynt hefði verið hafa við hana mök um endaþarm.
Sálfræðingur, sem ritar framangreint vottorð, staðfesti það. Brotaþoli hefði verið frekar illa stödd er hún kom fyrst til sín og lýst bjargarleysi og vanlíðan í kjölfar atburðarins. Þá hefði hún verið með mjög skerta öryggiskennd og greint frá áfallastreitueinkennum. Hún hefði upplifað atburðinn þegar hún kom í nágrenni íbúðarinnar. Allt séu þetta dæmigerð einkenni um áfallastreituröskun. Brotaþoli hefði þegið meðferð gegn áfallastreitu og gengið vel. Sálfræðingurinn kvað brotaþola hafa verið undir pressu frá vinum sínum um að kæra og hefði henni fundist það mjög óþægilegt. Þá kvað brotaþola minningar sínar um atburðinn hafa verið brotakenndar en hún hefði ekki talað um svonefnt „black out“.
Lögreglukona, sem hitti brotaþola á neyðarmóttökunni og ritar frumskýrslu málsins, staðfesti hana. Hún kvað brotaþola hafa skýrt sér frá því að hún hefði farið með vinkonu sinni á skemmtistað og þar hefði hún hitt mann. Þau hefðu spjallað saman en síðan hefði hún ekki vitað fyrr en hún hafi verið komin heim til mannsins og setið inni í eldhúsi. Þau hafi síðan farið inn í svefnherbergi og þar hefði eitthvað byrjað milli þeirra en síðan hefði hún ekki viljað meira og stoppað manninn af. Hún hefði ekki getað tekið á móti manninum. Hann hefði verið með svo stóran lim að hún hefði ekki treyst sér til að eiga mök við hann. Þá hefði maðurinn kallað á erlendu máli og hefði annar maður komið inn og haldið utan um efri hluta líkama hennar meðan hinn hefði nauðgað henni. Brotaþoli hefði sagst hafa ætlað að fara en þá hefði hinn maðurinn setið frammi og hún því ekki þorað að fara. Lögreglukonan kvað brotaþola hafa verið yfirvegaða og rólega. Þá kvaðst hún hafa tekið eftir því að brotaþoli hafi átt erfitt með að sitja og notað aðra hvora rasskinnina. Brotaþoli hefði sagt að kynfærin væru svo bólgin að hún ætti erfitt með að sitja. Þá hefði brotaþoli verið hrædd við að kæra, meðal annars talið mennina í einhverskonar mafíu.
IV
Ákærðu neita báðir sök. Ákærði X hefur staðfastlega borið hjá lögreglu og fyrir dómi að hann hafi haft samfarir við brotaþola með hennar vilja eins og rakið var. Ákærði Y hefur á sama hátt borið að hafa verið í herbergi sínu þessa nótt og ekki séð brotaþola fyrr en um morguninn er hún hefði litið inn í herbergi hans eins og rakið var.
Brotaþoli hefur borið á annan veg eins og rakið var. Frá upphafi hefur hún borið að hún viti ekki hvernig hún komst á heimili ákærðu en hún muni þar fyrst eftir sér inni í eldhúsi og svo hafi hún verið komin nakin upp í rúm þar sem ákærði X hafi verið að reyna að hafa við hana samfarir. Hún hefði ekki viljað það og sagt honum það og streist á móti. Ákærði hafi þá kallað á meðákærða, er hafi komið og haldið henni á meðan ákærði hefði lokið sér af.
Hér að framan var gerð grein fyrir komu brotaþola á neyðarmóttökuna og viðræðum hennar þar við lögreglukonu, lækni og hjúkrunarfræðing. Einnig var rakinn framburður þeirra í kaflanum hér að framan. Þar var og rakinn framburður vitna er brotaþoli hafði samband við í beinu framhaldi af því að hún yfirgaf heimili ákærðu. Loks ber að nefna gögn um skoðun líkama brotaþola á neyðarmóttökunni. Framburður allra þessara vitna er samhljóða um að frásögn brotaþola af því sem gerðist í samskiptum hennar og ákærðu hafi verið sú sama og brotaþoli bar um í skýrslu sinni við aðalmeðferð málsins. Þá styðja myndir, sem eru meðal gagna málsins, og vottorð læknis að brotaþoli hafi borið áverka við skoðun, er geta komið heim og saman við lýsingu hennar á atferli ákærðu gagnvart henni. Þar á meðal talsverða áverka á kynfærum.
Það er niðurstaða dómsins að brotaþoli hafi verið trúverðug í framburði sínum fyrir dómi og fær framburður hennar stuðning af framangreindum gögnum. Framburður hennar var í öllum meginatriðum samhljóða skýrslu hennar hjá lögreglu. Þá þykir dóminum það auka á trúverðugleika brotaþola að þótt hún kærði ekki fyrr en tveimur og hálfum mánuði eftir atburðinn, hafði hún þegar í kjölfar hans skýrt frá honum eins nú var rakið. Þá leitaði hún til sálfræðings nokkrum dögum eftir atburðinn og skýrði þar frá á sama hátt.
Samkvæmt framanrituðu er sannað að ákærði X nauðgaði brotaþola eins og honum er gefið að sök í ákærunni og á þann hátt sem þar er lýst nema hvað hann verður sýknaður af því að hafa reynt að hafa endaþarmsmök við brotaþola. Brotaþoli bar engin merki þess og gegn neitun ákærða er það ósannað. Á sama hátt verður ákærði Y sakfelldur fyrir hlutdeild í broti meðákærða eins og honum er gefið að sök í ákærunni. Ákærðu verða því sakfelldir samkvæmt ákærunni. Samkvæmt sakavottorðum ákærðu hafa þeir ekki áður gerst brotlegir. Við ákvörðun refsingar ákærðu verður að hafa í huga að þeir voru saman um að fremja brotið, það var óvenju gróft og áverkar brotaþola voru verulegir, bæði andlegir og líkamlegir eins og rakið hefur verið. Refsing ákærða X er hæfilega ákveðin fangelsi í fjögur ár og refsing ákærða Y er hæfilega ákveðin fangelsi í þrjú ár. Brot ákærðu eru rétt færð til refsiákvæða í ákærunni.
Brotaþoli á rétt á miskabótum úr hendi ákærðu, sbr. 26. gr. laga nr. 50/1993. Þegar tekið er mið af aðferð ákærðu við nauðgunina og þeim áverkum er hún bar, eru bætur til hennar hæfilega ákveðnar 1.500.000 krónur með vöxtum eins og í dómsorði greinir. Það athugast að ekki verður séð að ákærðu hafi verið birt bótakrafan fyrr en við þingfestingu málsins og miðast upphaf dráttarvaxta við það er liðnir voru 30 daga frá þeim degi.
Loks verða ákærðu dæmdir til að greiða sakarkostnað og þóknun réttargæslumanns brotaþola óskipt en hvor um sig skal greiða málsvarnarlaun síns verjanda. Launin og þóknunin eru ákvörðuð með virðisaukaskatti í dómsorði.
Dóminn kváðu upp héraðsdómarnir Arngrímur Ísberg, dómsformaður, Hervör Lilja Þorvaldsdóttir og Þórður Clausen Þórðarson.
D ó m s o r ð :
Ákærði, X, sæti fangelsi í fjögur ár.
Ákærði, Y, sæti fangelsi í þrjú ár.
Ákærðu greiði óskipt A 1.500.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 17. nóvember 2013 til 3. október 2015, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærði X greiði einn málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Brynjólfs Eyvindssonar hdl., 920.700 krónur.
Ákærði Y greiði einn málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Kristjáns Stefánssonar hrl., 613.800 krónur.
Ákærðu greiði óskipt 454.177 krónur í sakarkostnað og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Þórdísar Bjarnadóttur hrl., 598.455 krónur.