Hæstiréttur íslands

Mál nr. 320/2013


Lykilorð

  • Kærumál
  • Sönnunarfærsla
  • Vitni


                                              

Þriðjudaginn 14. maí 2013.

Nr. 320/2013.

Ákæruvaldið

(Kolbrún Benediktsdóttir saksóknari)

gegn

X

(Oddgeir Einarsson hrl.)

Kærumál. Sönnunarfærsla. Vitni.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem tekin var til greina krafa X um að tiltekið vitni yrði aftur leitt fyrir héraðsdóm í tengslum við rekstur máls fyrir Hæstarétti. Í ljósi atvika máls var ekki talið bersýnilegt að ný skýrsla af vitninu myndi verða tilgangslaus til sönnunar. Var hinn kærði úrskurður því staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Eiríkur Tómasson og Þorgeir Örlygsson. 

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 10. maí 2013, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 13. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 10. maí 2013, þar sem tekin var til greina krafa varnaraðila um að tiltekið vitni yrði leitt fyrir héraðsdóm í tengslum við rekstur máls fyrir Hæstarétti. Kæruheimild er í c. lið 2. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Krafa varnaraðila lýtur að því að tekin verði á ný skýrsla af vitninu A, sem áður hafði gefið skýrslu við aðalmeðferð sakamáls, sem rekið var gegn varnaraðila fyrir héraðsdómi og hefur verið áfrýjað til Hæstaréttar. Í þeim héraðsdómi var sakfelling varnaraðila meðal annars reist á framburði þessa vitnis. Í ljósi atvika máls verður ekki talið bersýnilegt að ný skýrsla af vitninu muni verða tilgangslaus til sönnunar, sbr. 3. mgr. 110. gr. laga nr. 88/2008. Með þessum athugasemdum en öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 10. maí 2013.

Með beiðni, dags. 5. apríl 2013, sem barst Héraðsdómi Reykjaness 12. apríl 2013, er þess krafist af hálfu X að vitnið A, kt. [...], [...], [...] verði leitt fyrir dóm í tengslum við áfrýjun sóknaraðila á dómi Héraðsdóms Reykjaness í máli nr. S-627/2012 til Hæstaréttar, en þar hafi málið fengið málsnúmerið 754/2013.

Sóknaraðili er X, kt. [...] en varnaraðili er ríkissaksóknari.

Af hálfu ákæruvalds er beiðninni mótmælt og þess krafist að henni verði hafnað.

Í beiðni sóknaraðila kemur fram að tilgangur skýrslutökunnar sé að ganga úr skugga um það hvort vitnið, A, geti staðfest hvort sá sem afhenti henni tösku, sem innihélt fíkniefni, á heimili hennar í [...], var sóknaraðili eða hvort um annan mann var að ræða. Í beiðninni segir að vitnið hafi gefið skýrslu undir rekstri málsins í héraði og þar hafi komið fram að vitnið þekkti ekki manninn sem afhenti henni áðurgreinda tösku og gat ekki lýst honum. Bókað hafi verið eftir verjanda sóknaraðila að hann óskaði eftir því að borið yrði undir vitnið A hvort hún þekkti sóknaraðila og vitnið B í sjón. Engin sakbending hafi farið fram og hvorki sóknaraðili né vitnið B hafi verið í dómsalnum þegar A gaf skýrslu. Hafi verjandi því ekki getað innt vitnið eftir því hvort sóknaraðili væri sami maður og afhenti henni töskuna í [...]. Sóknaraðili telji að héraðsdómur hafi gengið út frá því að sóknaraðili væri sá sem afhenti vitninu töskuna án þess að staðfesting þess efnis hafi legið fyrir því. Sóknaraðili telji að þetta atriði hafi úrslitaáhrif í niðurstöðu dómsins og telji því afar mikilvægt að A verði leidd fyrir dóm og látin staðfesta hvort sóknaraðili afhenti henni töskuna eða einhver annar maður.

Við munnlegan málflutning kom fram af hálfu sóknaraðila að vitnið byggi nú yfir upplýsingum, sem það hefði ekki búið yfir við aðalmeðferð málsins. Í skýrslu sinni fyrir dómi hefði vitnið ekki sagst vita hver sóknaraðili væri, en nú hefði verið upplýst að hún vissi hver hann væri. Var sérstaklega tekið fram að tilgangur skýrslutökunnar væri ekki sá að fá vitnið til að svara því hvort það bæri kennsl á sóknaraðila í dómsal.

Sóknaraðili byggir kröfu sína á XXI. kafla laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, sérstaklega 1. mgr. 141. gr. Í beiðninni er farið fram á að skýrslutakan fari fram í húsakynnum Héraðsdóms Reykjaness og að boðað verði til hennar hið fyrsta.

Varnaraðili hefur mótmælt beiðni sóknaraðila. Varnaraðili kvaðst telja óeðlilegt að leiða vitni fyrir dóm í því skyni að bera kennsl á sóknaraðila í dómsal og kvað slíka sakbendingu ekki hafa neina þýðingu í málinu. Benti varnaraðili í þessu sambandi á dóma Hæstaréttar í málum nr. 670/2010, 447/2007 og 493/1993.

Þá benti varnaraðili á að skýrslutaka af vitninu á þessu stigi málsins væri tilgangslaus og þarflaus. Vitnið A hefði komið fyrir dómi við aðalmeðferð málsins og þá munað lítið eftir útliti sóknaraðila og vitnisins B. Vitnið hefði borið um að hún hefði lítið talað við sóknaraðila og myndi því lítið eftir honum. Þá hefði hún verið spurð sérstaklega um það hvort hún teldi að hún myndi muna eftir þessu fólki ef hún sæi það aftur og hefði hún þá ekki sagst vera viss um það, en þó gæti hún hugsanlega frekar borið kennsl á stúlkuna en manninn.

Jafnframt benti varnaraðili á að sóknaraðili hefði sjálfur tekið þá ákvörðun að yfirgefa dómsalinn áður en vitnið A gaf skýrslu við aðalmeðferð málsins.

Loks kvaðst varnaraðili telja að skýrsla af vitninu nú, mörgum mánuðum eftir að aðalmeðferð málsins fór fram, hafi enga þýðingu og verði til þess eins að tefja meðferð málsins fyrir Hæstarétti. Þá væri ljóst að héraðsdómur myndi ekki leggja mat á trúverðugleika framburðar vitnisins nú. Jafnframt væri ákveðin hætta á því að sóknaraðili hefði haft áhrif á vitnið eftir að það gaf skýrslu sína við aðalmeðferð málsins. Með hliðsjón af framangreindu væri skýrslutaka af vitninu á þessu stigi málsins tilgangslaus og þarflaus og því bæri að hafna beiðni sóknaraðila.

Niðurstaða:

Í 138. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála segir m.a. að óski aðili eftir að leiða vitni fyrir öðrum dómi en þar sem mál er rekið skuli hann leggja skriflega beiðni um það fyrir dómara í málinu. Þar skuli greint frá nafni vitnisins, kennitölu og heimili, svo og þeim atriðum nákvæmlega sem vætti ætti að varða. Samkvæmt 1. mgr. 140. gr. sömu laga er m.a. tekið fram að fara skuli eftir ákvæðum II. og XVIII. kafla laganna þegar vitni er leitt fyrir dóm samkvæmt fyrirmælum XXI. kafla laganna. Loks segir í 1. mgr. 141. gr. sömu laga að eftir því sem við geti átt skuli ákvæðum 140. gr. beitt þegar sönnunargagna er aflað í héraði í tengslum við rekstur máls fyrir Hæstarétti. Í athugasemdum með 141. gr. laga nr. 88/2008 segir að 1. mgr. ákvæðisins sé efnislega eins og 76. gr. laga um meðferð einkamála, en í athugsemdum með því ákvæði segir að ákvæðið svari til þess sem tíðkast hefur í framkvæmd.

Í beiðni sóknaraðila er óskað eftir að áðurgreint vitni verði leitt fyrir dóminn til að staðfesta hvort sóknaraðili afhenti vitninu tösku, sem innihélt fíkniefni, á heimili vitnisins í [...] eða einhver annar maður. Þá kom fram hjá sóknaraðila við munnlegan málflutning þessa máls að vitnið byggi nú yfir upplýsingum, sem það hefði ekki búið yfir við aðalmeðferð málsins, en í skýrslu sinni fyrir dómi hefði vitnið ekki sagst vita hver sóknaraðili væri, en nú hefði verið upplýst að vitnið vissi hver hann væri.

Samkvæmt framansögðu er óskað eftir að leiða framangreint vitni fyrir dóm til að svara frekari spurningum um málsatvik, sbr. 1. mgr. 116. gr. Verður ekki séð að ákvæði laga nr. 88/2008 girði fyrir að vitni, sem hefur gefið skýrslu við aðalmeðferð máls, verði leitt að nýju fyrir dóm til að upplýsa um málsatvik í tengslum við rekstur sama máls fyrir Hæstarétti, sbr. XXI. kafla laganna.

Með vísan til framangreinds er fallist á beiðni sóknaraðila.

Ragnheiður Bragadóttir héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð:

Krafa sóknaraðila, X, um að vitnið A verði leitt fyrir dóminn í tengslum við áfrýjun á dómi Héraðsdóms Reykjaness í máli nr. S-627/2012, er tekin til greina.