Hæstiréttur íslands
Mál nr. 203/2007
Lykilorð
- Áfrýjunarstefna
- Birting
- Áfrýjunarfrestur
- Dómur
- Ómerking héraðsdóms
- Sératkvæði
|
|
Fimmtudaginn 27. september 2007. |
|
Nr. 203/2007. |
Ákæruvaldið(Sigríður Elsa Kjartansdóttir, saksóknari) gegn X (Brynjar Níelsson hrl. Jóhannes Ásgeirsson hdl.) |
Áfrýjunarstefna. Birting. Áfrýjunarfrestur. Dómur. Ómerking héraðsdóms. Sératkvæði.
X var ákærður fyrir kynferðisbrot með því að hafa með ofbeldi þröngvað Y til samræðis og var brotið talið varða við 194. gr. almennra hegningarlaga. Héraðsdómur taldi að ekki yrði litið fram hjá því að framburður stúlkunnar um að mökin hefðu verið gegn hennar vilja hefði verið afar óljós og benti ekki skýrlega til þess að X hefði beitt hana ofbeldi eða hótað henni ofbeldi eða að hann hafi mátt skynja af hegðun hennar að mökin væru gegn hennar vilja. Í dómi Hæstaréttar var með vísan til tilvitnana í skýrslur Y fyrir dómi ekki talið rétt það sem fram kom í forsendum héraðsdóms um óskýrleika framburðar hennar um hvort mökin hefðu verið gegn hennar vilja og að hann benti ekki skýrlega til að X hafi mátt skynja af hegðun hennar að svo væri, enda kæmi skýrt fram í tilvitnuðum svörum Y að mökin hefðu verið gegn hennar vilja og að hún segðist hafa gefið X það til kynna með ótvíræðum hætti. Þá var tekið fram að hafi héraðsdómur talið vafa leika á hvort beitt hafi verið ofbeldi eða hótun um það í umrætt sinn hafi borið að veita sakflytjendum kost á að reifa málið út frá því hvort heimfæra ætti brot X undir þágildandi ákvæði 195. gr. almennra hegningarlaga. Af framangreindum ástæðum var héraðsdómur ómerktur og málinu vísað heim í hérað til meðferðar og dómsálagningar að nýju.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinson, Garðar Gíslason, Ingibjörg Benediktsdóttir og Markús Sigurbjörnsson.
Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 16. janúar 2007 af hálfu ákæruvalds, sem krefst þess að ákærði verði sakfelldur samkvæmt ákæru og honum ákveðin refsing.
Ákærði krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá Hæstarétti, en til vara að héraðsdómur verði staðfestur.
I.
Hinn áfrýjaði dómur var kveðinn upp 22. nóvember 2006. Ríkissaksóknari gaf áfrýjunarstefnu því út degi áður en áfrýjunarfresti samkvæmt 152. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála lauk. Áfrýjunarstefnan var birt ákærða rúmum tólf vikum eftir útgáfu hennar. Reisir ákærði aðalkröfu sína á því að of langur tími hafi liðið frá lokum áfrýjunarfrests til birtingar áfrýjunarstefnunnar og valdi það frávísun málsins frá Hæstarétti. Samkvæmt síðbúnum gögnum, sem ákæruvaldið hefur lagt fyrir Hæstarétt, sendi ríkissaksóknari áfrýjunarstefnuna til lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu 17. janúar 2007 með beiðni um að hún yrði birt ákærða. Í tölvubréfi lögreglustjóraembættisins 17. september 2007 til ríkissaksóknara kemur fram að hvorki hafi tekist að finna dvalarstað ákærða né að ná sambandi við hann. Hafi hann verið hættur störfum hjá fyrri launagreiðendum. Birting stefnunnar hafi svo tekist „á lögreglustöðinni Hverfisgötu þann 11. apríl 2007 vegna eftirlýsingar.“ Samkvæmt framansögðu verður að leggja til grundvallar að reynt hafi verið að birta áfrýjunarstefnuna í eðlilegu framhaldi af útgáfu hennar en atriði er vörðuðu ákærða hafi orðið þess valdandi að birting tókst ekki fyrr en raun varð. Verður aðalkröfu hans því hafnað.
II.
Ákærða er gefið að sök að hafa í byrjun sumars 2005 með ofbeldi þröngvað Y til samræðis í bifreið sem lagt hafði verið við A. Á þeim tíma var ákærði 23 ára en Y 14 ára. Mat héraðsdómur það svo að mynd sú sem hún gaf af sér við skýrslugjöf fyrir dómi sem óframfærinn unglingur með lítið sjálfstraust samrýmdist lýsingum foreldra hennar. Ákærði neitar sök. Héraðsdómur taldi engu að síður sannað að ákærði og Y hefðu átt mök í bifreiðinni umrætt sinn og reisti þá niðurstöðu fyrst og fremst á framburði stúlkunnar sem héraðsdómur taldi að þessu leyti trúverðugan. Dómurinn taldi að hins vegar yrði ekki fram hjá því litið að framburður stúlkunnar um að mökin hefðu verið gegn vilja hennar hafi verið afar óljós og bendi ekki skýrlega til þess að ákærði hafi beitt hana ofbeldi eða hótað henni ofbeldi eða að ákærði hafi mátt skynja af hegðun hennar að mökin væru gegn hennar vilja.
Y gaf tvisvar sinnum skýrslu fyrir dómi. Í fyrra skiptið 3. apríl 2006 á meðan á lögreglurannsókn stóð en í seinna skiptið við aðalmeðferð málsins 3. október 2006. Skýrslurnar voru í bæði skiptin teknar upp á mynddisk, sem dómendur Hæstaréttar hafa horft á. Í fyrri skýrslunni svaraði vitnið spurningu um hvort hún hafi sagt ákærða að hún vildi ekki eiga mök við hann á svofelldan hátt: „Ég sagði nei og allt það ... hann hélt bara áfram ...“. Við skýrslugjöf við aðalmeðferð sagði hún að sér hefði fundist samfarirnar „hrein martröð“. Hún sagðist aðspurð hafa gefið ákærða það til kynna og spurningu um hvernig hún hefði gert það svaraði hún þannig: „Eða þú veist, ég sagði bara svona, sagði honum að hætta þessu og fór bara eiginlega að gráta“. Síðar í sömu skýrslutöku svaraði hún spurningu um hvort hún hefði hrópað á hjálp eða látið ákærða vita með einhverjum skýrum hætti að hún vildi þetta ekki á eftirfarandi hátt: „Ég sagði nei og var alltaf að segja nei og að ég vildi fara til D. Ég er ekki með svo mikið sjálfstraust og hef aldrei verið með það. Þannig að ég vissi ekkert hvað ég átti að segja en ég sagði allavegana nei og eigum við ekki að fara til D og sagði honum líka að hætta. Svo hélt ég að hann mundi hætta af því að ég fór að gráta en hann gerði það ekki.“ Af framangreindum tilvitnunum í skýrslur Y er ljóst að ekki er rétt sem segir í forsendum héraðsdóms um að framburður hennar um hvort mökin hafi verið gegn hennar vilja hafi verið afar óljós og hann bendi ekki skýrlega til að ákærði hafi mátt skynja af hegðun hennar að mökin væru gegn hennar vilja. Kemur skýrt fram í tilvitnuðum svörum að mökin hafi verið gegn vilja stúlkunnar og að hún segist hafa gefið ákærða það til kynna með ótvíræðum hætti.
Í niðurstöðu héraðsdóms segir einnig að til þess verði að líta að í málinu sé ákært fyrir nauðgun en þau brot ein, þar sem beitt er ofbeldi eða hótun um ofbeldi til að þröngva til samræðis, teljist nauðgun. Hafi héraðsdómur talið vafa leika á því hvort beitt hafi verið ofbeldi eða hótun um það í umrætt sinn hefði hann átt að gefa sakflytjendum kost á að reifa málið út frá því hvort heimfæra mætti ætlað brot ákærða undir þágildandi ákvæði 195. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. mgr. 194. gr. laganna eins og þeim var breytt með 3. gr. laga nr. 61/2007.
Af framangreindum ástæðum verður ekki hjá því komist að ómerkja hinn áfrýjaða dóm. Verður lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til meðferðar á ný og fella síðan á það efnisdóm.
Vegna þessara úrslita málsins verður að leggja allan sakarkostnað í héraði og fyrir Hæstarétti á ríkissjóð, þar með talda þóknun skipaðs réttargæslumanns bótakrefjanda í héraði og málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða á báðum dómstigum, sem ákveðin verða í einu lagi eins og nánar greinir í dómsorði, hvort tveggja að meðtöldum virðisaukaskatti.
Dómsorð:
Héraðsdómur er ómerktur og er málinu vísað heim í hérað til meðferðar og dómsálagningar að nýju.
Allur sakarkostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, X, á báðum dómstigum, Brynjars Níelssonar hæstaréttarlögmanns, samtals 622.500 krónur og þóknun skipaðs réttargæslumanns bótakrefjanda í héraði, Guðrúnar B. Birgisdóttur héraðsdómslögmanns, 149.400 krónur.
Sératkvæði
Ingibjargar Benediktsdóttur
Ég er sammála niðurstöðu meiri hluta dómenda um að hafna aðalkröfu ákærða og að ekki sé rétt sú fullyrðing héraðsdóms að framburður Y um hvort mök hennar og ákærða hafi verið gegn hennar vilja hafi verið afar óljós og að hann bendi ekki skýrlega til þess að ákærði hafi mátt skynja af hegðun hennar að mökin væru gegn hennar vilja.
Í niðurstöðu héraðsdóms segir einnig að ekki verið litið fram hjá því að framburður Y bendi ekki skýrlega til þess að ákærði hafi beitt hana ofbeldi eða hótað henni ofbeldi. Í fyrri skýrslu sem tekin var af Y fyrir dómi 3. apríl 2006 lýsti hún atburðinum með þeim hætti að ákærði ,,tók mig að og setti mig ofan á sig ... hann ýtti mér bara niður og byrjaði bara ... byrjaði að bara að þú veist sofa hjá mér þótt ég vildi það ekki“. Aðspurð um hvað hafi svo gerst sagði hún: ,,Hann henti mér svona einhvern veginn ofan á bakið eða eitthvað og hélt hann áfram þá“. Hún svaraði spurningu um hvort ákærði hefði haldið henni eða eitthvað á þá lund með eftirfarandi hætti: ,,... hélt einhvern veginn svona hérna og ýtti mér niður“. Hún kvaðst jafnframt hafa meitt sig í klofinu og í hendinni ,,þegar að hann togaði mig niður“. Spurð að því hvort ákærði hafi sagt henni að leggjast á bakið eða hvort hún hafi sjálf gert það sagði vitnið: ,,Ég reyndi allavega að forða mér þú veist alveg upp við gluggann og síðan einhvern veginn sagði hann mér að leggjast á bakið og tók svona fæturna mínar og bara einhvern veginn ýtti þeim þangað til að ég lá á bakinu.“ Í síðari skýrslu sem tekin var við aðalmeðferð málsins 3. október 2006 lýsti vitnið atburðinum með svofelldum hætti: ,,Hann tekur mig svona upp og síðan lætur mig svona liggja í aftursætinu“. Aðspurð hvort hún hafi reynt að berjast á móti þegar ákærði var að klæða hana úr fötunum sagði vitnið: ,,Ég reyndi að taka buxurnar upp aftur, reyndi að toga þær svona upp aftur“, en hann ,,tók þær bara fastar niður“.
Samkvæmt 48. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála skal dómur reistur á sönnunargögnum sem færð eru fram við meðferð máls fyrir dómi. Í þessu máli ræðst úrlausn um sök ákærða mjög af heildarmati á sönnunargildi framburðar Y fyrir dómi. Á þykir skorta að héraðsdómur hafi litið til tilvitnaðra ummæla hennar fyrir dómi við mat á því hvort ákærði hafi beitt hana ofbeldi eða hótað henni ofbeldi í skilningi þágildandi 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en ákvæðinu var breytt með 3. gr. laga nr. 61/2007. Þykir fullyrðing héraðsdóms um að framburður Y bendi ekki skýrlega til þess að ákærði hafi beitt hana ofbeldi eða hótað henni ofbeldi ekki samræmast framangreindum tilvitnunum í skýrslur hennar.
Af þessu leiðir að niðurstaða héraðsdóms um sönnunargildi munnlegs framburðar fyrir dómi kann að vera röng svo að einhverju skipti um úrslit máls. Að þessu virtu er með vísan til 5. mgr. 159. gr. laga nr. 19/1991, sbr. 19. gr. laga nr. 37/1994, óhjákvæmilegt að ómerkja héraðsdóm og vísa málinu heim til munnlegs málflutnings og dómsálagningar að nýju.
Ég er sammála niðurstöðu meiri hluta dómenda um málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Við yfirheyrslu fyrir dómi 3. október 2006 voru þrír héraðsdómarar viðstaddir skýrslugjöf Y, sem þá var 15 ára, í sérútbúnu herbergi sem ætlað er til að yfirheyra börn. Í ljósi þess hversu íþyngjandi yfirheyrsla í kynferðisbrotamálum er fyrir barn hefði verið nægilegt að dómsformaður hefði annast yfirheyrsluna en meðdómsmenn fylgst með henni í þar til gerðu herbergi við hlið þess fyrrnefnda, enda gátu þeir beint því til dómsformanns að leggja spurningar um sakarefnið fyrir barnið hefðu þeir óskað þess.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 22. nóvember 2006.
Mál þetta sem dómtekið var 1. nóvember sl. er höfðað með ákæru Ríkissaksóknara útgefinni 10. júlí 2006 á hendur X, kt. [...], Kópavogi ,,fyrir kynferðisbrot, með því að hafa, í byrjun sumars 2005, í bifreiðinni [...], sem lagt hafði verið við A við [...]í Reykjavík, með ofbeldi þröngvað Y, kennitala [...], til samræðis“.
Telur ákæruvaldið þessa háttsemi varða við 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. lög nr. 40/1992 og krefst þess að ákærði verði dæmdur til refsingar.
Af hálfu Y er þess krafist að ákærði verði dæmdur til greiðslu miskabóta að fjárhæð 1.500.000 krónur auk vaxta og dráttarvaxta samkvæmt lögum nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu og til greiðslu kostnaðar vegna lögmannsaðstoðar.
Ákærði krefst sýknu af kröfum ákæruvaldsins, en til vara vægustu refsingar sem lög leyfa. Þá krefst verjandi þess að bótakröfu verði vísað frá dómi. Einnig krefst verjandi ákærða málsvarnarlauna er greiðist úr ríkissjóði.
Málsatvik.
B, faðir Y, lagði fram kæru hjá lögreglunni í Reykjavík 16. mars 2006, á hendur ákærða fyrir meint kynferðisbrot gegn dóttur hans. Hann kvað C hafa komið til sín og eiginkonu sinnar mánudaginn 13. mars 2006 og sagt þeim frá því að Y hefði greint henni frá því að ákærði hefði nauðgað henni í bíl í lok maí eða byrjun júní árið 2005, við A. Hefði D, dóttir C, orðið vitni að nauðguninni, en ákærði hefði rekið hana út úr bifreiðinni.
Ákærði var fyrst yfirheyrður hjá lögreglu 17. mars 2006. Kvaðst hann einungis hafa haft aðgang að kremlitaðri Toyota Corollu og kvaðst aldrei hafa notað aðra bíla en þann bíl. Hann kvaðst ekki hafa hugmynd um hver Y sé og hafi aldrei sofið hjá nokkurri stelpu við A. Ákærði var aftur yfirheyrður 14. júní 2006 og neitaði enn sök, en viðurkenndi að hann hefði einhverju sinni ekið bifreiðinni [...], sem er Volkswagen Golf, dökkblár. Þá kvaðst ákærði ekki þekkja Y. Hann kvaðst vera vinur föður D, vinkonu Y og kvað því útilokað að hann færi að vera með dóttur hans. Hann kvað D aldrei hafa stigið fæti inn í ofangreindan bíl.
Tæknideild lögreglunnar í Reykjavík skoðaði bifreiðina [....], 23. mars 2006, en um er að ræða Volkswagen Golf, árgerð [...], bláa að lit, 5 dyra. Lífssýnaleit var gerð í aftursætum bifreiðarinnar og á áklæðum sem voru í aftursætum. Engin lífssýni fundust eða önnur álíka gögn sem ætla mátti að tengdust rannsókn málsins. Á báðum rúðum í vinstri afturhurð voru límdar einhvers konar filmur sem gerðu rúðurnar dökkar. Filman í stærri glugganum hafði að miklum hluta verið fjarlægð en í minni rúðunnu hafði lítill hluti filmunnar verið fjarlægður. Í hægri afturhurð voru engin ummerki um filmu, utan lítill filmubútur sem er sams konar filma og í rúðum á vinstri afturhurð. Þá var skoðað hvort vindskeið hefði einhvern tíma verið á bifreiðinni og kom í ljós að þvert yfir þak bifreiðarinnar var einhvers konar límefni fast á þakinu.
Í málinu liggja frammi handskrifuð blöð, rituð af móður D, C, þar sem hún skráði niður frásögn Y af atburðum þeim sem urðu tilefni ákæru í málinu.
Í skýrslu um réttarlæknisfræðilega skoðun frá neyðarmóttöku kemur fram að brotaþoli hafi komið á neyðarmóttöku 17. mars 2006 kl. 17.30, skömmu eftir að aðstandendum hennar var kunnugt um málið. Hún hafi skýrt hjúkrunarfræðingi svo frá að hún hafi gist hjá vinkonu sinni í maí/júní 2005 og hafi ákærði boðið þeim vinkonum í bíltúr um hádegisbil á laugardegi. Hann hafi ekið með þær að A og rekið vinkonu hennar út. Ákærða hafi tekist að klæða meintan brotaþola úr að neðan, sett á sig smokk og sett hana ofan á sig. Hún hafi sagt að hún hefði frosið og grátið mikið. Í niðurstöðu læknis kemur fram að meyjarhaft hafi verið rofið að hluta en að öðru leyti hafi skoðunin verið eðlileg. Stúlkan hefði að sögn sýnt fleiri kreppuviðbrögð, eins og einbeitingarskort og agavanda í skóla. Svefn og matarlyst hefðu breyst og hegðun hennar í samskiptum við fjölskyldu hefði breyst. Hún forðist að vera ein úti, sérstaklega eftir myrkur.
Í samantekt og áliti í greinargerð Margrétar Magnúsdóttur sálfræðings frá 16. október 2006 kemur fram að Y hafi á tímabilinu frá 19. apríl sótt 8 viðtöl til hennar. Viðtölin hafi leitt í ljós að hún glími við mikla vanlíðan sem oft megi sjá hjá þolendum kynferðisofbeldis. Hún uppfylli greiningarskilmerki felmtursröskunar og áfallaröskunar. Hún hafi átt við einbeitingarörðugleika að stríða auk svefnörðugleika sem hvort tveggja hafi komið niður á námsárangri hennar. Skólasókn hennar hafi dalað verulega þar sem hún hafi oft ekki verið í stakk búin að mæta í skólann eftir svefnlausar nætur. Hún hafi verið verulega hrædd og kvíðin og ekki þorað að vera ein á ferli og ekki þorað að sækja ákveðna staði af ótta við að rekast á meintan geranda og/eða vini hans. Þetta hafi því skert verulega lífsgæði hennar. Hún tengi vanlíðan sína við meinta nauðgun sem hún kveðist hafa orðið fyrir og sem hún sjálf sjái ekki fyrir endann á. Y sæki enn viðtalstíma hjá sálfræðingnum.
Í málinu hefur verið lögð fram skaðabótakrafa af hálfu B fyrir hönd Y að fjárhæð 1.500.000 krónur með dráttarvöxtum. Í kröfunni er vísað til þess að Y hafi verið aðeins fjórtán ára gömul þegar brotið hafi átt sér stað og hafi það haft mikil áhrif á hennar andlegu líðan. Krafa um skaðabætur er studd við 170. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991 og 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.
Verður nú rakinn framburður ákærða og vitna fyrir dómi við aðalmeðferð málsins.
Ákærði kvaðst ekki þekkja Y og neitar sök. Hann kvaðst hins vegar þekkja D vinkonu hennar en hann hafi leigt íbúð af foreldrum hennar í átta mánuði árið 2002-2003. Hann hafi stundum séð D þegar faðir hennar kom til að ræða við sig. Kvað hann hana hafa gefið honum jólagjöf eitt árið. Ákærði kvaðst ekki hafa verið með D og vinkonum hennar. Hann kvað það rétt sem fram kæmi í lögregluskýrslu að hann hafi haft bifreiðina [...]til umráða í eina viku árið 2004 eða 2005 en hún hafi verið í eigu annars manns. Sá maður hafi þekkt til D. Kannaðist hann við að hafa verið tekinn tvívegis réttindalaus á bifreiðinni. Hann kvaðst ekki hafa haft aðgang að lítilli svartri bifreið á þeim tíma er ákæran tekur til. Hins vegar hafi hann haft til umráða kremlitaða tveggja dyra Toyotu Corollu að hann taldi seinni hluta árs 2004. Hann kvað gælunafn sitt vera E.
Vitnið, Y, gaf fyrst skýrslu fyrir dómi 3. apríl 2006. Hún kvaðst hafa gist hjá vinkonu sinni, D, er ákærði hefði hringt í hana og spurt hvort hún vildi hitta hann. Vinkonurnar hafi hitt hann um ellefuleytið um morgun. Vitnið kvaðst ekki muna hversu langt væri síðan þetta gerðist, en kvaðst halda að það væri um ár síðan. Hann hafi beðið þær að setjast í aftursæti bifreiðarinnar og þær hafi gert það. Bíllinn hafi verið svartur. Hann hafi alltaf verið að segja við þær að hann gæti alveg ,,tekið þær báðar“ en hún hafi bara sagt nei. Síðan hafi ákærði ekið að A og þar hafi hann beðið D að fara út úr bifreiðinni, sem hún hafi gert. Allt í einu hafi ákærði verið búinn að klæða vitnið úr skónum, en hún hafi ,,haldið sér í hurðina“. Síðan hafi ákærði allt í einu farið fram í og náð í smokk og þá hafi vitnið farið aftur í skóna, eða reynt það. Þá hafi ákærði einhvern veginn náð henni úr buxunum og öllu. Síðan hafi hann sagt henni að koma til sín, en vitnið hafi spurt hvort þau ættu ekki að fara að ná í D. Ákærði hafi ekki svarað því. Síðan hafi ákærði tekið vitnið og sett hana ofan á sig. Þetta hafi allt gerst í aftursæti bifreiðarinnar. Ákærði hefði svo ýtt henni niður og farið að hafa við hana samfarir. Þá hafi ákærði hent henni á bakið og haldið áfram. Síðan hafi ákærði hætt og náð í D og ekið þær í Hagkaup og sagst ætla að ná í þær síðar, en ekki komið. Það hafi verið rigning, en þær hafi að lokum gengið heim.
Vitnið kvaðst hafa þekkt ákærða er hún var yngri, þar sem ákærði hafi þá alltaf að passa hana og vinkonu hennar, D.
Vitnið kvað ákærða hafa farið úr buxunum eftir að hann klæddi vitnið úr fötunum. Vitnið kvað D hafa verið rétt hjá bifreiðinni á meðan þessu fór fram og að hún hafi sagt vitninu að hún ,,hefði séð“. Spurð um það hvort ákærði hefði beitt vitnið valdi eða látið vitnið gera eitthvað, svaraði vitnið:
,,Nei hann lét mig ekki gera neitt, hann sagði mér bara að koma til sín og eitthvað þannig.“
Spurð um það hvort ákærði hefði haldið henni, svaraði vitnið: ,,Nei, hélt einhvern veginn svona hérna og ýtti mér niður.“ Þá kvaðst vitnið hafa meitt sig þegar ákærði togaði hana niður, hún hefði meitt sig í klofinu og í hendinni. Það hefði blætt úr klofinu. Vitnið kvað þetta hafa verið í fyrsta skiptið sem hún hafði samfarir.
Spurð um það hvort hún myndi hvernig ákærði hefði lagt hana á bakið, og hvort ákærði hefði sagt henni að gera það eða hvort hún hefði sjálf lagst á bakið, svaraði vitnið: ,,Ég reyndi alla vega að forða mér, þú veist, alveg upp við gluggann og síðan einhvern veginn sagði hann mér að leggjast á bakið og tók svona fætur mína og bara einhvern veginn ýtti þeim þangað til að ég lá á bakinu en ég er ekki alveg 100% viss hvernig þetta var.“
Spurð um það hvort ákærði hefði þá verið ofan á henni sagði hún það ekki vera, hann hefði sett fæturna, ,,einhvern veginn upp í loftið“ og haft við hana mök þannig. Spurð um það hvort hún hafi reynt að fara út úr bílnum sagði vitnið:
,,Nei, eða jú, ég sagði alltaf svona eigum við ekki að fara að ná í D og allt svoleiðis“ en ákærði hafi ekki svarað.
Vitnið kvað bifreið ákærða hafa verið alveg svarta, og engar afturdyr hafi verið á henni og kvað þær vinkonurnar hafa þurft að stíga inn um framdyr bifreiðarinnar til að komast í aftursæti bifreiðarinnar.
Spurð um það hvenær hún hefði sagt D frá þessu, svaraði vitnið:
,,Þú veist, ég vissi strax að þú veist, þegar hérna að við vorum búin og þegar hann skildi okkur eftir þá sagði ég henni það og hún bara svona, ég man ekki hvað hún sagði en við ákváðum að leyna þessu af því að ég gæti ekki talað um þetta, ég gæti ekki sagt mömmu frá þessu.“ Hún kvað ákærða ekki hafa beðið hana um að halda þessu leyndu. Þá kvað hún sér kunnugt um að D hafi sagt stóru systur sinni frá þessu, en sú þekki F sem sé fyrrverandi kærasta ákærða.
Vitnið kvað sér hafa liðið svo illa eftir þetta að hana hafi langað til að drepa sig. Hún hafi misst alla einbeitingu í skólanum og hafi tekið upp á því að prófa að reykja og drekka til að gleyma. Það ,,spóli stundum upp í hausnum“ á henni og þá líði henni ,,svo geðveikt illa“.
Vitnið kom aftur fyrir dóm við aðalmeðferð málsins og kvaðst muna að hafa gist hjá D, þegar ákærði hringdi, en hún kvaðst ekki muna hvort hann hringdi í hennar síma eða D. Vitnið kvaðst halda að ákærði hefði ekki vitað símanúmer sitt, en fyrir hefði komið að D hefði gefið öðrum símanúmer hennar. Vitnið kvaðst hafa þekkt E og hefði hann verið besti vinur pabba D og þær hafi verið hrifnar af honum. Hún kvað þær einhvern tíma hafa gefið honum jólagjöf, og hann hafi verið góður vinur þeirra. Umrætt sinn hefði hann beðið þær að hitta sig og hafi þær vinkonur hitt hann við Krónuna. Þær hafi sest í aftursæti bifreiðarinnar, sem var Volkswagen Polo eða Golf, dökkblár eða svartur að lit. Engar græjur hafi verið í bílnum og kvað vitnið ,,G “, vin vinkonu D, hafa átt bílinn. Vitnið kvaðst ekki alveg muna hvort um var að ræða fjögurra dyra bíl eða þriggja dyra.
Ákærði hafi alltaf verið ,,ofan í þeim“ og hafi hann stöðvað bifreiðina við A og sagt D að fara út úr bifreiðinni og hún hafi farið út. Áður en hann bað D að fara út úr bílnum hafi ákærði reynt við þær báðar og sagt að hann gæti ,,tekið þær báðar“. Hann hafi spurt hvort hann mætti snerta á þeim brjóstin. Hún kvaðst þó hafa haldið að hann vildi bara tala við hana, þegar D fór út úr bílnum.
Svo hafi hann ekið bifreiðinni áfram og þar hefði ákærði sest í aftursæti bifreiðarinnar og reynt að fá vitnið til að ,,sofa hjá sér“. Einhvern veginn hafi ákærði náð henni úr fötunum, en vitnið kvaðst ekki muna hvernig hann gerði það. Fyrst hafi hann klætt hana úr skónum og síðan buxunum, en hann hafi ekki klætt hana úr bol eða peysu. Vitnið kvaðst hafa reynt að toga buxurnar aftur upp, en ákærði hefði tekið fastar í þær og klætt hana úr. Hann hafi klætt sig úr buxunum og skónum. Svo hafi hann sett á sig smokk, sem hann geymdi í hólfi í framsæti bifreiðarinnar. Spurð um það hvort vitnið hefði reynt að fara út úr bílnum, þegar ákærði fór fram í og náði í smokkinn, kvaðst vitnið ekki hafa þorað það. Svo hafi ákærði tekið hana upp og látið hana sitja ofan á honum. Síðan hafi hann látið hana liggja á bakinu í aftursætinu. Þá hafi ákærði byrjað að ,,sofa hjá henni“. Vitnið kvað að sér hefði þótt það hrein martröð. Spurð um það hvort hún hefði gefið ákærða það til kynna, sagði vitnið: ,,Já, eða þú veist ég sagði bara svona, þú veist bara, sagði honum að hætta þessu og síðan fór ég náttúrulega að gráta, og síðan var svona, ég veit ekki hvað þetta var lengi, mér fannst það vera vika eða eitthvað. Hún hafi sagt: ,,Eigum við ekki að fara til D “ en hún hafi ekki vitað hvað hún hefði átt að gera, því að hún væri ekki með mikið sjálfstraust og hefði aldrei haft það. Síðan hafi ákærði byrjað að klæða sig og vitnið hafi spurt hvort hún mætti það líka og þá hafi þau farið að ná í D. Síðan hafi ákærði sagt að hann þyrfti að fara og þær hafi beðið við Krónuna, en ákærði hafi sagt við D að hann ætlaði að sækja þær. Ákærði hefði ekki komið og þær hefðu gengið heim. Vitnið var spurt að því hvað hún sagði við D er hún kom aftur inn í bifreiðina. Sagði þá vitnið að hún hefði ekki sagt neitt frá þessu. Vitnið sagði: ,,Ég sagði bara að þetta hafi gerst, en ekkert svona.“ Hún kvaðst hafa sagt D að þau hefðu bara sofið saman, en hún hefði ekki viljað segja D að samfarirnar hefðu verið gegn hennar vilja. Hún kvað D ekki hafa séð hana grátandi, hún hafi verið hætt að gráta þegar D kom aftur inn í bílinn. Vitnið kvað að sig hefði ekki langað til að tala um þetta og bara viljað gleyma þessu. Síðar hafi D sagt mömmu sinni, C, frá þessu, þar sem ákærði var fjölskylduvinur D. Eftir það hafi vitnið sagt C allt sem gerðist. Spurt um það hvort vitnið hefði meitt sig eitthvað, svaraði vitnið að þetta hafi verið í fyrsta skiptið sem hún hafði samfarir og hún hafi meitt sig þegar ,,hann fór inn“ og eftir á, þá hafi henni verið illt í maganum. Þá kvað vitnið að blætt hefði úr leggöngum hennar. Hún kvaðst ekki muna eftir því að hún hefði fengið marblett umrætt sinn.
Vitnið kvað að sér liði mun betur í dag en henni hefði liðið og kvað það vera eftir að hún fór í samtalsmeðferð til Margrétar sálfræðings. Hún kvað þó að stundum kæmu kaflar þar sem henni liði verr.
Vitnið, B, faðir Y, gerði grein fyrir því að móðir D hefði skrifað bréf sem hefði að geyma framburð Y um það sem gerðist. Hafi þetta orðið til þess að hún hafði samband við vitnið og vildi ræða það sem gerðist. Hafi hún þá afhent vitninu bréfið en hann kvaðst ekki hafa lesið það heldur afhent lögreglu það. Hann kvað Y og D hafa verið mjög góðar vinkonur á þessu tímabili og hún hafi stundum gist hjá henni. Spurður um andlega líðan Y kvað vitnið hafa velt fyrir sér hvers vegna henni hafi þegar í byrjun skólaárs byrjað að ganga illa með námið. Hún hafi verið uppstökk og hafi hann kennt gelgjunni um það. Sjálfsmat hennar hafi verið lítið og einbeitingarleysi gert vart við sig. Hún hafi viljað taka sig á en það hafi alltaf dottið upp fyrir. Lýsti hann Y svo að hún hafi verið glaðlynd stúlka en kvað hana þó alla tíð hafa verið óframfærna. Til að mynda hafi hún ekki leitað eftir aðstoð í skólanum, þyrfti hún á henni að halda heldur hafi óskað eftir því að foreldrar hennar leituðu eftir aðstoðinni fyrir hennar hönd. Hún hafi hins vegar ekki tjáð sig mikið um persónuleg málefni við foreldra sína. Hún hafi ekki enn treyst sér til að ræða þetta mál við móður sína. Kvaðst vitnið ekki þekkja það hvernig samskipti hennar við hitt kynið væru. Vitnið kvað sér hafa verið ljóst, áður en þetta mál kom upp, að þörf hafi verið á því að hjálpa Y. Hún hafi farið á sjálfstyrkingarnámskeið hjá Hinu húsinu og kvað vitnið þau foreldrana hafa verið mjög sátta við að hún reyndi að efla sjálfsmat sitt.
Vitnið, H, móðir Y, kvaðst ekki hafa rætt þetta mál við hana. Hún kvað hana hafa sagt sér að ákærði leigði hjá foreldrum D, vinkonu hennar. Þær hafi verið mjög góðar vinkonur og Y hafi stundum gist hjá henni. Eftir að þetta gerðist kvað vitnið sjá að hún væri alls ekki hamingjusöm og taugaveikluð. Hún svæfi illa, borðaði sama og ekkert og liði illa. Þá hafi henni hrakað í námi. Hún hafi leitað til sálfræðings hjá Barnahúsi vegna þessa. Vitnið lýsti Y svo að hún væri mjög óframfærin og feimin að eðlisfari. Hafi þetta versnað eftir að mál þetta kom upp.
Vitnið, D, kvað atburði þá sem ákæra tekur til, hafa gerst að sumri til og kvaðst halda að það hafi verið um helgi. Vitnið kvað það rétt að Y hefði gist hjá henni. Vitnið kvað Y hafa þekkt ákærða áður en þetta gerðist, þar sem ákærði hefði búið fyrir neðan vitnið. Vitnið kvaðst muna eftir því að þær hefðu einhverju sinni gefið ákærða jólagjöf. Spurð um það hvers vegna þær fóru að hitta ákærða, kvaðst vitnið ekki muna hvernig og hvers vegna. Þegar rifjaður var upp framburður vitnisins í lögregluskýrslu, kvað vitnið ákærða hafa hringt í Y og spurt hvort þær vildu hitta hann og hafi vitnið sagt já, já. Vitnið kvað ákærða hafa haft símanúmerið hjá Y, en kvaðst ekki alveg vita hvernig hann fékk símanúmerið hennar. Þær hafi farið og hitt ákærða við Krónuna. Ákærði hafi verið á dökkum bíl, ekki stórum og hafi bíllinn verið fjögurra dyra og svartar rúður aftur í. Þær hafi sest í aftursæti bifreiðarinnar og hafi ákærði ekið eitthvað og stöðvað bifreiðina hjá einhverjum skóla. Hafi þau verið að tala saman, en vitnið kvaðst ekki muna um hvað þau voru að tala. Síðan hafi ákærði spurt hvort vitnið vildi fara út úr bílnum og hafi þá vitnið horft á Y, en hún hafi verið á svipinn eins og vitnið ætti ekki að fara út úr bílnum, eins og það væri rangt að vitnið færi út úr bílnum. Spurð um það hvort hún hafi reynt að fá Y til að fara með sér út úr bílnum, sagði vitnið: ,,Nei, sko, þegar hann bað mig um að fara út úr bílnum, þá horfði ég sko og ég bara, ég spurði hana, ætlar þú að vera inni í bílnum. Hún eitthvað, hún svaraði mér ekki og eitthvað var eitthvað hérna, ég veit það ekki, geðveikt feimin og eitthvað.“ Spurð um það hvað vitnið héldi að myndi gerast þegar hún færi út úr bílnum, kvað vitnið að hún hefði ekki verið að spá í það að ákærði gerði Y eitthvað og kvaðst ekki hafa trúað því að ákærði væri að gera Y eitthvað rangt. Ákærði hafi ekki sagt hvers vegna vitnið hafi átt að fara út úr bílnum og hafi ákærði ekið aðeins áfram, en vitnið hafi þó séð bílstjórahlið bílsins, og séð inn um rúður bifreiðarinnar. Vitnið hafi farið út úr bílnum og sest á hvítan vegg, sem sýndur sé sem blár steinveggur á bls. 5 í ljósmyndum þeim sem liggja frammi í dóminum. Bíllinn hafi verið á þeim stað sem merktur er með gulri ör á bls. 6. Vitnið hafi einnig séð ákærða færa sig í aftursætið og skömmu síðar hafi hún séð annan fótinn á Y inn um rúðuna og þá hafi vitnið orðið hrædd og ekki vitað hvort hún ætti að hringja í einhvern. Síðan þegar þetta var búið hafi ákærði ekið aftur til baka og vitnið farið aftur inn í bílinn. Ákærði hafi sagt við þær: ,,Ekki segja mömmu þinni og pabba“, en vitnið kvaðst hafa túlkað það þannig að þær mættu ekki segja frá því að þær hefðu hitt ákærða, þangað til Y hafi farið að ræða um að henni væri illt í kynfærunum. Hafi þá Y verið mjög þögul og ,,alla vega búin að vera að tárast geðveikt mikið“, því að hún hafi verið ,,geðveikt rauð í augunum og alltaf að nudda þau og eitthvað“. Ákærði hafi síðan skilið þær eftir hjá McDonalds og þær setið þar hjá ísbúðinni. Vitnið kvað Y hafa sagt að henni væri illt í kynfærunum, en Y hafi helst ekki viljað tala við vitnið. Vitnið kvað Y hafa fengið að fara á salernið í ísbúðinni. Vitnið kvað ákærða hafa ætlað að ná í þær þangað, en hann hafi ekki gert það og hafi Y helst ekki langað til að fara aftur með ákærða. Þær hafi svo gengið heim í grenjandi rigningu.
Er vitnið var spurt um það hvort ákærði hefði haft í frammi kynferðislegt tal, áður en vitnið fór út úr bílnum, sagði vitnið: ,,Já, það var eitthvað þú veist, eitthvað, ég man það ekki, hann var eitthvað, talandi um eitthvað, nei hann var, ég man ekki alveg eftir því... “ Þegar borinn var undir vitnið framburður hennar fyrir lögreglu að ákærði hefði sagt að þær væru ógeðslega sætar, sagði vitnið, að hann hefði verið að tala um eitthvað ,,threesome“ og vitnið hafi sagt neiiii, og Y hafi sagt neiiii, og verið ,,geðveikt feimin“. Vitnið kvað Y vera mjög feimna. Síðan hafi ákærði snúið sér að Y og farið að tala við hana, en vitnið kvaðst ekki muna um hvað þau voru að tala. Vitnið kvaðst ekki vita hvort ákærði og Y voru í fötunum inni í bílnum, en Y hafi alla vega ekki verið í buxum, þegar vitnið sá fótinn á henni. Hún hafi þó verið í sokknum.
Vitnið var spurð hvort þær Y hefðu rætt þetta eitthvað eftir á. Svaraði vitnið þá: ,,Ég var bara alltaf að spyrja, þú veist hvort eitthvað hefði gerst fyrir hana eða hvort henni liði illa og þá var hún alltaf að tala um að hann hafi verið að nauðga, ég man ekki hvort hún hafi verið að segja mér, að hann hafi nauðgað henni.“ Og síðan hafi hún sagt henni nokkru eftir að þetta gerðist, hvað gerst hefði. Spurð um það hvort þær Y hefðu rætt um að segja frá því sem hefði gerst svaraði vitnið: ,,Nei, jú, við vorum eitthvað byrjaðar að tala um það áður ... en síðan sögðum við bara frá þessu og ég byrjaði að segja mömmu minni frá þessu og pabba mínum.“ Þetta hafi verið um einu ári eftir atburðinn. Spurð um það hvers vegna þær hafi ekki sagt frá þessu fyrr, svaraði vitnið: ,,Ég veit það ekki, hún var alltaf bara aldrei, hún var bara hætt að tala um þetta og útilokaði þetta alveg bara, eins og þetta hefði aldrei gerst.“
Vitnið sagði þetta hafa haft þau áhrif á Y að hún hefði orðið miklu feimnari og ,,down“. Vitnið staðfesti að sá framburður sem vitnið gaf hjá lögreglu væri réttur.
Vitnið, I, kvaðst þekkja ákærða, en hann hafi leigt hjá vitninu árið 2003, neðri hæð hússins þar sem vitnið bjó. D, dóttir vitnisins, hafi einnig þekkt ákærða, þar sem samgangur hafi verið þar á milli eins og um fjölskyldu væri að ræða. Vitnið kvað þær Y hafa verið vinkonur og hafi hún stundum verið hjá vitninu og fjölskyldu hans. Vitnið kvaðst ekki muna eftir því að ákærði hefði einhvern tíma passað þær þegar þær voru yngri. Vitnið kvaðst ekki vita hvort einhver samskipti voru milli ákærða og Y. Vitnið kvaðst hafa séð ákærða á bílnum [...], dökkum að lit en kvaðst ekki geta sagt nákvæmlega til um hvenær hann sá ákærða á þeim bíl. Vitnið kvaðst einnig hafa það eftir öðrum að ákærði hefði verið á þessum bíl. Vitnið kvað litaðar rúður hafa verið aftur í og hafi bíllinn verið tveggja dyra, að því er vitnið minni.
Vitnið, C, kvaðst þekkja ákærða, þar sem hann hefði leigt hjá þeim hjónum árið 2003. Á þeim tíma hafi Y komið á heimili vitnisins, enda hafi hún verið vinkona D, dóttur vitnisins. Vitnið kvað D oft hafa hitt ákærða, en vitnið kvaðst ekki vita hvort Y hafi þekkt ákærða. Vitnið kvað Y fyrst hafa sagt vitninu frá því sem gerst hefði. D hefði í fyrstu sagt vitninu frá því sem gerst hefði, að þær vinkonurnar hefðu farið með ákærða í bíl, en vitnið kvaðst ekki muna nákvæmlega hvað D sagði. Þó kvaðst vitnið muna að D hefði sagt að ákærði hefði tekið þær upp í bíl og þar hefði nauðgunin farið fram. Hafi þá vitnið sagt við D að hún ætti að spyrja Y hvort hún vildi ekki ræða þetta við vitnið. Svo hafi Y komið til vitnisins og sagt frá þessu. Vitnið kvað Y hafa sagt að ákærði hefði beðið þær að hitta sig út við Krónuna. Þær hafi sest í aftursæti bifreiðarinnar og svo hefði ákærði ekið með þær að einhverju skólaplani. Þar hafi ákærði eitthvað farið að segja við þær og komið eitthvað við þær. Ákærði hafi spurt hvort þær vildu koma í ,,threesome“ eða að hann gæti tekið þær báðar. Svo hafi hann spurt D hvort hún vildi fara út úr bílnum. D hafi verið treg til, en þó farið út úr bílnum. Hafi þá ákærði ekið eitthvað í burtu. Y hafi sagt vitninu að ákærði hefði ,,tekið eitthvað niður um sig og eitthvað togað til hennar að láta hana koma til sín og hafi hún neitað því og farið að gráta“. Það hefði endað með því að hann hefði togað í hana og tekið hana úr og ,,látið hana koma yfir sig“. Hún hefði grátið mikið og sagt bara nei. Hann hafi svo ,,lagt hana upp og lyft upp á henni bossanum“. Svo hefði hann hent smokknum sem hann var með út um gluggann.
Vitnið kvað handskrifuðu blöðin sem liggja frammi í réttinum vera þau blöð sem vitnið skrifaði frásögn Y á. Vitnið kvaðst hafa reynt að skrifa jafnóðum niður það sem Y sagði vitninu. Síðan hefði vitnið farið til foreldra Y og látið þau hafa þessi blöð.
Vitnið, Rannveig Pálsdóttir, læknir, var spurð út í skoðun sína á Y. Kvað hún meyjarhaft hafa verið rofið að hluta til og hafi sést að þar væri hrufótt svæði eins og eftir sár sem blætt hafi frá. Um það væru hins vegar skiptar skoðanir hvort það merkti að samfarir hefðu átti sér stað. Oftast nær væri sú raunin. Yfirgnæfandi líkur væru á því að meyjarhaft rofnaði að hluta eða öllu leyti við samfarir, sérstaklega óundirbúnar samfarir. Rifa í meyjarhaft gæti myndast á annan hátt, t.d. við iðkun íþrótta eða notkun tíðartappa. Ekki væri sjálfgefið að meyjarhaft rofnaði að fullu við endurteknar samfarir. Kvað vitnið Y hafa tjáð sér að hún hefði ekki haft samfarir eftir að atburðurinn átti sér stað. Þá kvað hún hana hafa tjáð sér að ákærði hafi haldið sér niðri og því hafi myndast mar á handleggjum. Hafi hún sýnt greinileg einkenni langvarandi streitu, eins og þyngdartap, einbeitingarskort í skóla, hræðslu við að vera ein í myrkri auk þess sem hún hafi dregið sig í hlé frá fjölskyldu sinni. Henni hafi verið létt eftir að málið kom upp á yfirborðið.
Vitnið, Margrét K. Magnúsdóttir, kvað Y hafa verið í sálfræðimeðferð hjá henni. Hún lýsti ástandi hennar svo að hún hafi í fyrstu verið mjög óttaslegin en verið létt eftir að málið kom upp á yfirborðið. Henni hafi fundist mjög erfitt að ræða þetta mál. Kvað vitnið hana vera virka feimna og óörugga. Hún hafi tjáð sér að hún hafi ekki átt náin samskipti við stráka áður. Ekki hafi orðið mikil breyting á líðan hennar en sjálf segðist hún vonast til þess að geta byggt sig upp þegar þessu væri lokið. Hún kvað endurupplifun Y hafa verið mjög sterka. Hún sæi atvikið fyrir sér og dreymdi það jafnframt. Hún hefði hliðrunareinkenni, þ.e. forðaðist umræðu tengda kynferðisafbrotum og ákveðna staði. Þá hafi hún stöðugt verið á varðbergi og hrædd við að vera ein á ferli.
Vitnið, Þórir Ingvarsson lögreglumaður, kvaðst hafa tekið skýrslu af Y á rannsóknarstigi. Hann hafi sýnt henni mynd af bifreið sem ákærði hafði haft til umráða á þeim tíma sem um ræðir eftir að hún hafði með eigin orðum lýst bifreiðinni.
Vitnið, Kristján Ingi Kristjánsson lögreglumaður, kvað bifreiðina [...] hafa verið haldlagða í [...]. Hún hafi verið ógangfær og því fjarlægð með krana. Vitnið kvað að ekki hefði verið rætt við skráðan eiganda á þeim tíma sem um ræðir. Vitnið kvað ekki hafa farið fram sakbendingu enda hafi legið fyrir að ákærði hafi verið sá sem stúlkan kvað hafa brotið gegn sér. Hún hafi kallað hann E en ákærði hafi staðfest að hann gengi undir því gælunafni.
Vitnið, Sólberg Svanur Bjarnason lögreglumaður, var fyrst spurður að því hvar bifreiðin [...] hafi verið haldlögð. Kvað hann að henni hefði verið lagt í bílastæði í [...]. Hún hafi verið skoðuð ítarlega og hafi að hans mati mátt sjá að ,,spoiler“ eða vindskeið hafi verið á bifreiðinni. Hafi verið límkítti á þakinu. Þá var vitninu sýnd ljósmynd úr gögnum málsins sem sýnir mælaborð bifreiðarinnar og kvaðst hann sjá að þar væri útvarp.
Niðurstaða.
Ákærði hefur neitað sök og kvaðst ekki þekkja meintan brotaþola.
Í málinu er fram komið að ákærði þekkti D, sem var besta vinkona meints brotaþola, þar sem hann hafði leigt hjá foreldrum hennar um nokkurra mánaða skeið og var nokkur samgangur milli hans og fjölskyldu hennar, samkvæmt framburði vitnisins I. Vitnið, D, kvað ákærða hafa þekkt meintan brotaþola og samrýmist það framburði hennar sjálfrar. Þær báru báðar um að þær hefðu einhverju sinni gefið ákærða jólagjöf. Ákærði kvaðst sjálfur kannast við að hafa einhverju sinni fengið jólagjöf frá D. Þá er framburður þeirra D og meints brotaþola samhljóða um aðdraganda þess að þær vinkonurnar fóru að hitta ákærða og um ökuferð þeirra að A. Einnig er framburður þeirra samhljóða um kynferðislegt tal ákærða við þær vinkonurnar inni í bílnum og um það að ákærði hefði ætlað að ná í þær er hann hafði skilið þær eftir við McDonalds. Þegar framangreint er virt er ótrúverðugur sá framburður ákærða að hann þekkti ekki meintan brotaþola og hefði ekki hugmynd um hver hún væri.
Þá er fram komið í málinu að ákærði hafði aðgang að bílnum [...], sem er dökkblár 5 dyra Volkswagen Golf, en ákærði hafði í fyrstu neitað því hjá lögreglu að hann hefði haft aðgang að annarri bifreið en kremlitaðri Toyota Corolla. Rýrir þetta einnig trúverðugleika framburðar ákærða, en bæði D og meintur brotaþoli hafa borið um það fyrir dómi að ákærði hefði umrætt sinn ekið dökkbláum eða dökkum bíl. Meintur brotaþoli bar um það fyrir dómi, er hún var fyrst yfirheyrð, að bíll ákærða hefði verið tveggja dyra, en við aðalmeðferð málsins kvaðst hún ekki muna hvort bifreiðin hefði verið tveggja dyra eða fimm dyra. Vitnið, D, kvað bílinn hafa verið ,,fjögurra dyra“. Jafnvel þótt það sé í ljósi framangreinds ósannað hvaða bifreið ákærði ók umrætt sinn, er framburður stúlknanna tveggja trúverðugur um að ákærði hefði hitt stúlkurnar og ekið með þær í dökkri, lítilli bifreið og lagt henni við A.
Fyrir dómi bar vitnið, D, að hún hefði spurt meintan brotaþola, Y, að því, áður en hún fór út úr bifreiðinni hvort hún ætlaði að vera áfram inni í bílnum. Hefði hún ekki svarað neinu, en verið ,,geðveikt feimin og eitthvað“.
Meintur brotaþoli bar fyrir dómi 3. apríl 2006 að eftir að D fór út úr bílnum hefði ákærði ,,einhvern veginn náð henni úr skóm og buxum“ og látið hana ,,sitja ofan á sér“.
Spurð um það hvort ákærði hefði beitt hana valdi, sagði hún: ,,Nei, hann lét mig ekki gera neitt hann sagði mér bara að koma til sín og eitthvað þannig.“ Spurð um það hvort hún hefði reynt að fara út úr bílnum svaraði hún: ,,Nei, eða jú, ég sagði alltaf svona, eigum við ekki að fara að ná í D “ en ákærði hefði ekki svarað.
Spurð um það fyrir dómi hvort hún hefði gefið ákærða til kynna að hún vildi ekki kynmökin svaraði hún: ,,Já, eða þú veist, ég sagði bara svona, þú veist bara, sagði honum að hætta þessu og síðan fór ég náttúrulega að gráta og síðan var svona, ég veit ekki hvað þetta var lengi, mér fannst það vera vika eða eitthvað“ og síðan hafi hún sagt: ,,Eigum við ekki að fara til D.“ Að kynmökunum loknum hefði ákærði náð í D og ekið þeim að Krónunni, þar sem þær fóru út úr bifreiðinni og sagt að hann myndi sækja þær, en hann hefði hins vegar ekki komið. Spurð um það hvort hún hefði sagt D að ákærði hefði haft við hana samfarir gegn vilja hennar sagði hún að hún hefði sagt D að þau ákærði hefðu ,,sofið saman“ en hún hafi ekki viljað segja D að samfarirnar hefðu verið gegn hennar vilja.
Við mat á því hvort telja verði sannað að ákærði hafi umrætt sinn þröngvað Y til samræðis með ofbeldi eða hótun um ofbeldi, verður að líta til þess að ekki nýtur neins við í málinu nema framburðar hennar og ákærða, enda lagði hún ekki fram kæru á hendur ákærða fyrr en ári eftir meinta nauðgun. Hann hefur alfarið neitað að þekkja stúlkuna, en eins og að ofan greinir er það mat dómsins að sá framburður ákærða sé ótrúverðugur.
Það er mat dómsins að sú mynd sem meintur brotaþoli gaf af sér við yfirheyrslur fyrir dómi sem óframfærinn unglingur með lítið sjálfstraust, samrýmist lýsingu foreldra hennar á skapgerð og persónueinkennum hennar. Framburður hennar var trúverðugur að því leyti, að dómurinn telur sannað að ákærði og hún hafi haft mök inni í bifreiðinni umrætt sinn. Fram hjá því verður hins vegar ekki litið að framburður hennar um hvort mökin voru gegn hennar vilja er afar óljós og bendir ekki skýrlega til þess að ákærði hafi beitt hana ofbeldi eða hótað henni ofbeldi eða að ákærði hefði mátt skynja af hegðun hennar að mökin væru gegn hennar vilja. Hér verður að líta til þess að í máli þessu er ákært fyrir nauðgun en þau brot ein, þar sem beitt er ofbeldi eða hótun um ofbeldi við að þröngva manni til samræðis, teljast nauðgun. Þá rennir það ekki stoðum undir að Y hafi upplifað hegðun ákærða sem nauðgun, að hún ætlaði að bíða eftir að hann sækti þær D. Enn fremur að hún sagði ekki D frá því er hún hitti hana strax í kjölfarið, að ákærði hefði nauðgað henni, en sagði henni þess í stað að þau ákærði hefðu sofið saman.
Þegar framangreint er virt, og þar sem ekki nýtur neinna annarra gagna við í máli þessu sem rennt geti stoðum undir að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem í ákæru greinir, er að mati dómsins svo mikill vafi á sekt hans að sýkna ber hann af þeirri háttsemi sem í ákæru greinir.
Með vísan til 3. mgr. 172. gr. laga nr. 19/1991 er skaðabótakröfu Y vísað frá dómi.
Eftir þessum úrslitum greiðist sakarkostnaður úr ríkissjóði, 506.365 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Brynjars Níelssonar hæstaréttarlögmanns 319.965 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, og þóknun skipaðs réttargæslumanns, Guðrúnar Bjargar Birgisdóttur héraðsdómslögmanns, 149.400 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.
Við ákvörðun málsvarnarlauna til skipaðs verjanda var tekið tillit til vinnu verjanda á rannsóknarstigi.
Af hálfu ákæruvaldsins sótti málið Sigríður Elsa Kjartansdóttir saksóknari.
Ingveldur Einarsdóttir, Ásgeir Magnússon og Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómarar kváðu upp dóminn.
D ó m s o r ð:
Ákærði, X er sýkn af kröfum ákæruvaldsins.
Bótakröfu Y er vísað frá dómi.
Sakarkostnaður málsins, 506.365 krónur greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Brynjars Níelssonar hæstaréttarlögmanns, 319.965 krónur og þóknun skipaðs réttargæslumanns, Guðrúnar B. Birgisdóttur héraðsdómslögmanns, 149.400 krónur.