Hæstiréttur íslands
Mál nr. 258/2006
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
|
|
Miðvikudaginn 17. maí 2006. |
|
Nr. 258/2006. |
Lögreglustjórinn í Reykjavík(Egill Stephensen saksóknari) gegn X (Brynjar Níelsson hrl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta áfram gæsluvarðhaldi á grundvelli c. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 12. maí 2006, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 15. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 11. maí 2006, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 8. júní 2006 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Samkvæmt upplýsingum sem fyrir liggja í málinu frá sóknaraðila verður ákæra gefin út á hendur varnaraðila innan fárra daga vegna ætlaðra brota sem nánari grein er gerð fyrir í hinum kærða úrskurði. Þar sé um að ræða átta ætluð auðgunarbrot þar á meðal innbrot í íbúðar- og atvinnuhúsnæði auk tveggja fjársvikabrota og mun annað þeirra vera talið stórfellt. Með vísan til þess sem að framan er rakið og að öðru leyti með skírskotun til forsendna hins kærða úrskurðar má fallast á með sóknaraðila að fyrir hendi séu skilyrði til að varnaraðila verði áfram gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli c. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 11. maí 2006.
Lögreglustjórinn í Reykjavík hefur krafist þess að að X, [kt. og heimilisfang], verði í framhaldi af dómi Héraðsdóms í málinu nr. S-1688/2005, þar sem dómfelldi var dæmdur til að sæta fangelsi í 12 mánuði fyrir þjófnað, fíkniefnalagabrot og líkamsárás, úrskurðaður til að sæta áfram gæsluvarðhaldi á grundvelli c liðar 1. mgr. 103. gr. og með vísan til 106. gr. laga nr. 19/1991, eða allt til fimmtudagsins 8. júní nk. kl. 16.00
Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur nú dag var X dæmdur til 12 mánaða fangavistar vegna brota á 244. gr. sbr. 1. mgr. 20. gr. alm. hegningarlaga, 2. gr. sbr. 5. og 6. gr. laga um ávana og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr. 13/1985 og lög nr. 68/2001 og 2. gr. sbr. 1. mgr. 14. gr., rgl. um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, sbr. rgl. nr. 848/2002. Þá var hann dæmdur fyrir brot gegn 1. mgr. 217. gr. alm. hegningarlaga sbr 10. gr. laga nr. 20/1981 og 110. gr. laga nr. 82/1998. Enn fremur var dómfellda gert að sæta upptöku amfetamíns, hass og marihuana sem hald var lagt á.
Þá er ólokið eftirfarandi málum sem eru til rannsóknar hjá lögreglunni í Reykjavík.
Mál nr. 010-2005-[...] Innbrot og þjófnaður að A í Reykjavík þann 13. desember sl. Kærði hafi neitað sök, en munir úr innbrotinu fundist við húsleit hjá kærða.
Mál nr. 010-2005-[...] Innbrot og þjófnaður að A í Reykjavík þann 14. desember sl. (á sama stað). Kærði hafi neitað sök, en munir úr innbrotinu fundist við húsleit hjá kærða.
Mál nr. 010-2005-[...] Innbrot og þjófnaður að B í Reykjavík, þann 16. desember sl. Kærði neiti að hafa framið þetta innbrot, en við húsleit hjá kærða hafi fundist ýmsir munir úr innbrotinu.
Mál nr. 010-2006-[...] Fjársvikamál. Kærði sé grunaður um fjársvik og skjalafals á veitingastaðnum C í Reykjavík. Kærði neiti sök.
Mál nr. 010-2006-[...] Innbrot og þjófnaður í bifreiðar að D í Reykjavík, þann 12. febrúar sl. Kærði neiti sök, en geisladiskar úr innbrotunum hafi fundist í fórum kærða við handtöku.
Mál nr. 010-2006-[...] Þjófnaður á peningaskúffu á E í Reykjavík þann 24. febrúar sl. Kærði neiti sök, en við handtöku hafi fundist aðgangskort og lyklar frá hótelinu í fórum hans.
Mál nr. 010-2006-[...] Tugir fjársvikabrota framin í febrúarmánuði 2006 í ýmsum verslunum og veitingastöðum. Kærði neiti sök.
Mál nr. 010-2006-[...] Innbrot og þjófnaður í húsnæði F að [...] í Reykjavík þann 24. mars sl. Kærði neitar sök en sími og veski úr innbrotinu fannst í fórum kærða við handtöku.
Mál nr. 010-2006-[...] Innbrot og þjófnaður á veitingastaðinn G að [...] í Reykjavík, þann 31. mars sl. Þýfi hafi fundist á heimili kærða. Kærði neiti að hafa framið þetta innbrot og segist hafa fundið munina í gámi.
Samkvæmt þessu á dómfelldi 9 óafgreidd auðgunarbrot sem framin hafa verið á tímabilinu 13. desember til 31. mars sl. en hann hefur neitað sök í öllum tilvikum.
Allt að einu lítur dómurinn svo á að fram sé kominn rökstuddur grunur um að dómfelldi hafi gerst sekur um auðgunarbrot að undanförnu og telur dómari að skilyrði c liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 séu uppfyllt. Dómurinn telur að hætta sé á því að dómfelldi haldi áfram afbrotum fái hann að ganga laus. Ber því að fallast á kröfu lögreglustjórans í Reykjavík og ákveða með heimild í fyrrgreindu ákvæði að hann sæti gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 8. júní nk. kl. 16.00.
Úrskurðarorð:
Dómfelldi, X, skal sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 8. júní nk. kl. 16.00.