Hæstiréttur íslands
Mál nr. 297/2000
Lykilorð
- Bifreiðarlög
- Umferðarlög
- Sönnun
|
|
Fimmtudaginn 16. nóvember 2000. |
|
Nr. 297/2000. |
Ákæruvaldið (Bogi Nilsson ríkissaksóknari) gegn Einari Eiríki Hjálmarssyni (Helgi Birgisson hrl.) |
Bifreiðarlög. Umferðarlög. Sönnun.
E var stöðvaður af lögreglumanni, sem mælt hafði með ratsjá hraða bifreiðar, sem E ók á móti lögreglubifreiðinni. Mældist hraðinn 109 km á klukkustund, en leyfður hámarkshraði er 90 km á klukkustund á umræddum stað. E taldi sig hins vegar hafa ekið á 70-80 km hraða á klukkustund og neitaði að ljúka málinu með greiðslu sektar. Talið var sannað með framburði E og lögreglumannsins, svo og skýrslu sem undirrituð var af E á vettvangi, að honum hefði verið gerð grein fyrir niðurstöðu ratsjármælingar á hraða hans. Var talið að ekkert hefði komið fram í málinu, sem gæfi tilefni til að ætla að ranglega hefði verið staðið að mælingunni eða að vefengja bæri niðurstöðu hennar. Var talið sannað að E hefði ekið á þeim hraða, sem tilgreindur var í málatilbúnaði ákæruvalds og þar með brotið gegn 2. mgr. 37. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Var E dæmdur til greiðslu sektar.
Dómur hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Haraldur Henrysson, Hjörtur Torfason, Hrafn Bragason og Pétur Kr. Hafstein.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 18. júlí 2000 og krefst þess að ákærði verði sakfelldur fyrir háttsemi, sem hann er sakaður um í sektarboði 8. nóvember 1999, og verði honum ákvörðuð refsing.
Ákærði krefst aðallega frávísunar málsins frá héraðsdómi. Til vara krefst hann staðfestingar héraðsdóms.
I.
Frávísunarkrafa kom fyrst fram af hálfu ákærða við munnlegan málflutning fyrir Hæstarétti, en samkvæmt 155. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála skulu kröfur koma fram í greinargerð. Krafan er á því byggð að með mál ákærða hafi verið farið samkvæmt 3. og 5. mgr. 115. gr. a laga nr. 19/1991, sbr. 1. gr. laga nr. 31/1998, en ekki samkvæmt 2. mgr. 115. gr. a, eins og rétt hefði verið. Hér er um lagaatriði að ræða, sem taka ber afstöðu til án kröfu.
Með sektarboði lögreglustjórans á Eskifirði 29. september 1999 var ákærða boðið að ljúka máli þessu með greiðslu sektar, sem var ákveðin 4.000 krónur, þó þannig að veittur yrði afsláttur ef sektin greiddist fyrir 29. október sama ár og yrði hún þá 3.000 krónur. Fyrir liggur í málinu að ákærði sendi lögreglustjóranum ódagsett bréf eftir móttöku sektarboðsins, er barst innan umrædds frests. Samkvæmt 2. mgr. 115. gr. a laga nr. 19/1991 var þá rétt að taka ákvörðun um saksókn eftir almennum reglum. Þess í stað var ítrekun sektarboðs send ákærða 8. nóvember 1999, sem var birt 10. sama mánaðar. Sinnti hann því ekki og var sektarboðið áritað af héraðsdómara 10. febrúar 2000, þar sem ákærða var gert að greiða 4.000 krónur í sekt innan 15 daga en sæta ella fangelsi í tvo daga, sbr. 3. mgr. 115. gr. a laga nr. 19/1991. Þessu mótmælti ákærði með bréfi 10. apríl 2000 og með úrskurði Héraðsdóms Austurlands 10. maí 2000 var fyrrgreind sektarákvörðun felld úr gildi. Sætti málið síðan meðferð samkvæmt almennum reglum, þó án þess að ákæra væri gefin út, sbr. 5. mgr. 115. gr. a laga nr. 19/1991.
Í sektarboðum þeim, sem ákærða voru send og voru grundvöllur málsmeðferðar fyrir dómi, kom fram greinileg lýsing þess, sem ákærða var gefið að sök. Þótt að réttu lagi hefði átt að taka ákvörðun um saksókn þegar eftir að hann hafði mótmælt sektarboði í október 1999, þykir sú málsmeðferð, er viðhöfð var, ekki hafa orðið honum til réttarspjalla þannig að varði frávísun frá héraðsdómi.
II.
Ákærði var stöðvaður af lögreglumanni á Fagradal í Suður-Múlasýslu 27. september 1999, eins og lýst er í héraðsdómi. Samkvæmt skýrslu lögreglumannsins mældi hann hraða bifreiðarinnar RH-575 með ratsjá, er ákærði ók norður Fagradal á móti lögreglubifreiðinni, og mældist hraðinn 109 km á klukkustund, en leyfður hámarkshraði er 90 km á klukkustund á þessum stað. Með skýrslu lögreglumannsins fylgdi sérstök skýrsla, sem gerð var á vettvangi. Er þar meðal annars skráð nafn ákærða, lýsing á bifreið hans, niðurstaða radarmælingar og upplýsingar um aðstæður. Um þær segir að dagsbirta hafi verið, en snjókoma. Vegur var malbikaður, en yfirborð hans blautt. Þar segir og að ákærða hafi verið sýndur mældur hraði og honum kynnt sakarefnið, sem væri of hraður akstur, jafnframt því að honum væri óskylt að svara spurningum um það. Er bókað eftir ákærða, að hann hafi ekki verið að fylgjast með hraðamæli, en hann hafi talið sig aka á 70-80 km hraða á klukkustund. Var skýrsla þessi undirrituð af ákærða og lögreglumanninum. Hefur ákærði staðfest undirskrift sína fyrir dómi.
Eins og fram kemur í héraðsdómi sagði ákærði við aðalmeðferð máls þessa 3. júlí 2000, að lögreglumaðurinn hefði bent honum á skjá ratsjártækisins, en hann myndi ekki, hvaða tölu hann sá á skjánum. Sagðist hann hafa ekið á 70-80 km hraða á klukkustund greint sinn. Akstursskilyrði hafi verið slæm, hálka og dimmviðri, og bifreiðin verið á sumarhjólbörðum. Jafnframt tók hann ítrekað fram að hann hefði fylgst með hraðanum á hraðamæli hennar.
Í bréfum til sýslumannsins á Eskifirði í október 1999 og 10. apríl 2000 hafði einnig komið fram hjá ákærða að hann teldi sig í mesta lagi hafa ekið á 70-80 km hraða á klukkustund.
Lögreglumaður sá, er hér átti hlut að máli, Þórný Þórðardóttir, hefur staðfest skýrslur sínar fyrir dómi og er framburður hennar rakinn í héraðsdómi. Kom þar meðal annars fram að hún myndi ekki sérstaklega eftir atvikum málsins. Hún hafði lokið námi í Lögregluskóla ríkisins vorið 1999, en í því námi er meðferð ratsjártækja meðal námsgreina. Kvaðst hún hafa unnið við hraðamælingar með þessum tækjum frá 1996 og fram til þessa. Hún tók fram að það væri venja sín að fá ökumenn, er hún stöðvaði vegna ætlaðs of hraðs aksturs, inn í lögreglubifreiðina, þar sem hún sýni þeim mældan hraða á skjá ratsjártækisins.
Telja verður sannað með framburði ákærða og lögreglumannsins, svo og af skýrslu undirritaðri af ákærða á vettvangi, að honum hafi verið gerð grein fyrir niðurstöðu ratsjármælingar á hraða hans umrætt sinn. Athugasemdir hans voru þær, að hann teldi sig hafa ekið á 70-80 km hraða á klukkustund, en hann hefði ekki verið að fylgjast með hraðamæli. Staðfesta ber það mat héraðsdóms að ekkert hafi komið fram í málinu, sem gefi tilefni til að ætla að ranglega hafi verið staðið að mælingu. Þykir heldur engin ástæða til að vefengja niðurstöðu hennar. Samkvæmt þessu verður talið sannað að ákærði hafi ekið á þeim hraða, sem tilgreindur er í málatilbúnaði ákæruvalds, en þar er tekið tillit til vikmarka. Varðar atferli ákærða við 2. mgr. 37. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.
Refsing ákærða þykir hæfilega ákveðin sekt í ríkissjóð, 4.000 krónur, og komi tveggja daga fangelsi í hennar stað greiðist hún ekki innan fjögurra vikna.
Dæma ber ákærða til greiðslu sakarkostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði segir.
Dómsorð:
Ákærði, Einar Eiríkur Hjálmarsson, greiði 4.000 krónur í sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá uppkvaðningu dóms þessa, en sæti ella fangelsi í tvo daga.
Ákærði greiði allan sakarkostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Helga Birgissonar hæstaréttarlögmanns, samtals 120.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Austurlands 7. júlí 2000.
Mál þetta, sem þingfest var 6. júní sl. og dómtekið 3. þ.m., er höfðað á grundvelli 115. gr. a laga nr. 19/1991 af sýslumanninum á Eskifirði gegn Einari Eiríki Hjálmarssyni, kt. 300772-5609, Brunnstíg 2, Hafnarfirði. Kærða er gefið að sök umferðarlagabrot, "með því að hafa, mánudaginn 27. september 1999, ekið bifreiðinni RH-575 með 105 km hraða á klst. norður þjóðveg nr. 92 á Fagradal í Suður-Múlasýslu, á vegarkafla sunnan við sæluhús, þar sem leyfður hámarkshraði var 90 km á klst.
Telst þetta varða við 2. mgr. 37. gr., sbr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.
Þess er krafist að kærði verði dæmdur til refsingar."
Málavextir
Mánudaginn 27. september 1999, um kl. 13.45, var Þórný Þórðardóttir lögreglumaður ein á ferð í lögreglubifreið suður Fagradal í Suður-Múlasýslu. Veitti hún þá athygli bifreiðinni RH-575 þar sem henni var ekið norður Fagradal, þjóðveg 92, sunnan við sæluhús, á móti lögreglubifreiðinni. Mældi hún hraða bifreiðarinnar með ratsjá í lögreglubifreiðinni og reyndist hann vera 109 km á klst. Að teknu tilliti til vikmarka er kærður hraði 105 km á klst. Leyfður hámarkshraði á tilgreindum stað er 90 km á klst. Bifreiðin var stöðvuð og tal haft af ökumanni hennar, Einari Eiríki Hjálmarssyni, kærða í máli þessu, í lögreglubifreiðinni. Kærða var kynnt sakarefnið, þ.e. að hann væri sakaður um of hraðan akstur. Kvaðst kærði ekki hafa fylgst með hraðamæli bifreiðarinnar, en taldi sig hafa ekið á 70-80 km hraða á klst. Í lögregluskýrslu sem gerð var á vettvangi og kærði undirritaði kemur fram að lögreglubifreiðinni OX-473 hafi verið ekið á móti bifreiðinni RH-575 þegar mæling var framkvæmd. Jafnframt kemur þar fram að kærða hafi verið sýndur mældur hraði.
Með sektarboði dagsettu 29. september 1999 var kærða gefinn kostur á að ljúka málinu með greiðslu 4.000 króna sektar. Sektarboðið var ítrekað 8. nóvember s.á. Það var birt kærða 10. s.m. Með bréfi dagsettu 7. febrúar sl. sendi sýslumaðurinn á Eskifirði Héraðsdómi Austurlands málið til meðferðar á grundvelli 115 gr. laga nr. 19/1991. Þann 10. febrúar sl. var sektarboðið áritað í dóminum og var sekt ákveðin 4.000 krónur, en vararefsing fangelsi í 2 daga. Ákvörðun þessi var birt kærða 28. mars sl. Með bréfi dagsettu 10. apríl sl. til dómsins krafðist kærði þess að mál hans yrði tekið upp að nýju. Ástæðu þessarar kröfu sagði kærði í fyrsta lagi vera þá að hann hafi sent sýslumanninum á Eskifirði bréf eftir að hann fékk fyrsta sektarboðið þar sem hann hafi mótmælt sektarboðinu og tilgreindi ástæður sínar. Fylgdi ljósrit bréfs þessa, ódagsett, bréfi kærða til dómsins. Eftir beiðni dómsins sendi sýslumaðurinn á Eskifirði dóminum frumrit bréfsins, sem ber með sér að hafa verið móttekið af embætti sýslumanns 8. október 1999. Í öðru lagi taldi kærði ólíklegt og ósannað að hann hafi ekið á þeim hraða sem tilgreint væri í sektarboðinu. Tiltók hann nokkur atriði, en einnig að lögreglukonan sem annaðist hraðamælinguna hafi verið ein síns liðs og vefengdi hann mælingu hennar.
Með úrskurði dómsins upp kveðnum 10. maí sl. var málið að kröfu kærða endurupptekið. Í úrskurðinum sagði að kærði hafi fært fram varnir sem gætu haft áhrif á úrslit málsins og var með vísan til 5. mgr. 115. gr. a laga nr. 19/1991, sbr. lög nr. 31/1998 fallist á kröfu kærða. Var ákvörðun um viðurlög felld úr gildi og málið endurupptekið til meðferðar samkvæmt almennum reglum. Málið var síðan tekið fyrir dómþingi 6. júní sl. Á því dómþingi þann dag var kærða skipaður verjandi samkvæmt ósk hans þar um í birtu fyrirkalli og aðalmeðferð ákveðin.
Við aðalmeðferð málsins kannaðist kærði við að þann 27. september 1999 hafi hann verið stöðvaður af lögreglu á Fagradal í Suður-Múlasýslu. Kvaðst hann hafa verið að koma frá Neskaupstað og hafa verið á leið til Egilsstaða. Sagði kærði að lögreglukonan sem stöðvaði akstur hans hafi sakað hann um að hafa ekið bifreiðinni of hratt. Ekki hafi verið fleiri lögreglumenn til staðar þarna. Kærði sagði að hann hafi farið inn í lögreglubifreiðina og þar hafi lögreglukonan bent honum á skjá ratsjártækisins. Hann kvaðst ekki muna hvaða tölu hann sá á skjánum. Kærði kvaðst hafa ekið á 70-80 km hraða á klst. á Fagradal greint sinn. Akstursskilyrði hafi verið slæm, en hann hafi verið á bifreið af gerðinni Subaru Legacy sem hafi verið á sumarhjólbörðum. Hálka hafi verið á öllum Fagradalnum. Kærði sagði að um það leyti sem lögregla stöðvaði akstur hans á Fagradal hafi verið þar umferð fleiri ökutækja. Bæði hafi verið bifreið fyrir framan bifreiðina sem hann ók, sem hafi nýlega verið búin að taka fram úr bifreiðinni sem hann ók, og enn fremur hafi bifreið verið á eftir. Þá hafi hann mætt vörubifreið um það leyti sem hann varð lögreglubifreiðarinnar var. Kærði kvaðst hafa fylgst með hraðamæli bifreiðarinnar á leið yfir Fagradal. Sagði hann að lögreglubifreiðin hafi komið á móti bifreiðinni RH-575. Aðspurður kvaðst kærði telja útilokað að hann hafi verið á þeim hraða sem haldið er fram af hálfu lögreglu. Sagði kærði að í fyrsta lagi hafi hann tilfinningu fyrir hvort hann aki á 50, 70 eða 90 km hraða á klst. og hann hafi fylgst með hraðamælinum. Þá hafi aðstæður til aksturs verið slæmar eins og hann hafi lýst. Skyggni á fjallveginum hafi verið slæmt, dimmt og skýjað og gengið hafi á með slydduéljum. Tók kærði fram að hann hafi haldið að lögreglan væri að stöðva hann vegna ljósbúnaðar bifreiðarinnar. Kvaðst hann jafnvel hafa haldið að bifreiðin væri ljóslaus.
Kærði sagði að áður en hann mætti lögreglubifreiðinni hafi hann séð blá aðvörunarljós lögreglubifreiðarinnar. Hann hafi svo séð að lögreglubifreiðinni var snúið við á veginum og eftirför hafin. Hafi hann þá stöðvað bifreiðina.
Er kærða var sýnd lögregluskýrsla sem tekin var af honum á vettvangi kannaðist hann við nafnritun sína undir hana, en kvaðst vilja taka fram að það hafi verið hálka á veginum. Kærði ítrekaði að hann hafi litið á hraðamælinn eftir að hann varð var við lögreglubifreiðina og þá hafi hann sýnt 70-80 km á klst.
Þórný Þórðardóttir lögreglumaður kom fyrir dóminn Vitnið staðfesti að þann 27. september 1999 hafi hún stöðvað akstur bifreiðarinnar RH-575 á Fagradal í Suður-Múlasýslu vegna gruns um of hraðan akstur. Hún kvaðst þó ekki muna sérstaklega eftir þessu máli. Vitnið sagði að í þessu tilviki hafi hún sennilega ekið á móti viðkomandi ökutæki og að hún hafi opnað fyrir geislann á ratsjártækinu. Þá hafi komið fram á skjá tækisins annars vegar hraði lögreglubifreiðarinnar og hins vegar hraði bifreiðarinnar sem ekið var á móti lögreglubifreiðinni.
Vitnið var beðin að lýsa því með hvaða hætti ratsjártæki eru prófuð fyrir og eftir mælingu. Vitnið sagði að annars vegar væri hægt að prófa hvort ljósin komi rétt fram á skjá tækisins og einnig væri hægt að prófa þetta með tónkvíslum. Sagði vitnið að þegar ljósin væru prófuð ætti sama tala að koma fram í báðum gluggum tækisins, þ.e. talan 32, en þegar prófað væri með tónskvíslum ætti talan 45 að koma fram í báðum gluggum með annarri tónkvíslinni og talan 80 í báðum gluggum með hinni tónkvíslinni. Vitnið sagði að framanlýstar prófanir væru gerðar við upphaf og lok notkunar ratsjártækisins.
Vitnið kvað sig minna að mældur hraði umræddrar bifreiðar hafi verið um 110 km á klst. Þá taldi vitnið að hraði lögreglubifreiðarinnar hafi verið um 80 km á klst., en það væri venjubundinn hraði lögreglubifreiðar þegar vitnið væri við hraðamælingar á ferð. Vitnið kvaðst ekki muna hvernig veðri, umferð og öðrum aðstæðum var háttað á vettvangi umræddan dag. Þá kvaðst vitnið ekki muna hve margar hraðamælingar hún framkvæmdi þennan sama dag. Vitnið kvaðst ekki telja að önnur bifreið hafi verið þarna á ferð sem kynni að hafa haft áhrif á mælinguna.
Vitnið kvaðst hafa lokið námi í Lögregluskóla ríkisins í maí 1999, en í því námi væri innifalið námskeið í meðferð ratsjártækja. Kvaðst vitnið hafa unnið við hraðamælingar með ratsjá frá árinu 1996 og hafi hún verið viðloðandi vinnu við hraðamælingar frá þeim tíma.
Vitnið kvað sig ekki reka minni til þess að hún hafi borið saman hraða þann sem hraðamælir lögreglubifreiðarinnar sýndi og þá hraðatölu sem ratsjártækið sýndi. Vitnið sagði að það hafi verið algengt í fyrra þegar hún vann í lögreglunni á Eskifirði að einn lögreglumaður hafi verið á vakt og þar af leiðandi hafi sá hinn sami verið einn við hraðamælingar með ratsjá. Kvaðst vitnið hafa unnið á Eskifirði frá júníbyrjun til loka september í fyrra.
Vitnið sagði að aðstæður til hraðamælinga séu lakari þegar rigning og snjókoma er en í þurru og björtu veðri. Sagði vitnið að þetta lýsi sér einkum í því að tækið sé seinna að taka við sér, en með því eigi hún við að lengri tími líði þar til mælitala komi fram á skjá tækisins. Tækið gegni eftir sem áður hlutverki sínu jafn vel. Vitnið kvaðst kannast við að mannvirki á borð við háspennumannvirki og stálbrýr gætu haft truflandi áhrif á ratsjármælingu, en tók fram að slíkar aðstæður hafi ekki verið fyrir hendi á Fagradal greint sinn.
Vitnið yfirfór skýrslur þær sem hún gerði í þágu málsins, staðfesti að efni þeirra væri rétt og kannaðist við nafnritun sína undir þær.
Vitnið kvaðst vilja taka fram að hún hafi boðið fólki sem hún tók fyrir of hraðan akstur inn í lögreglubifreiðina og sýnt því mældan hraða á skjá ratsjártækisins. Einnig að hún hafi ekki stöðvað þær bifreiðar sem hún var ekki viss um að hraðamælingin væri rétt gagnvart. Þá sagði vitnið að almennt væru mjög góðar aðstæður til mælinga á þessum stað, engin mannvirki væru til staðar og vegarkaflinn hafi verið beinn.
Niðurstaða
Óumdeilt er að kærði ók bifreiðinni RH-575 norður þjóðveg nr. 92 á Fagradal, mánudaginn 27. september 1999, um kl. 13.45, og að lögregla stöðvaði akstur hans þar. Samkvæmt gögnum máls var dagsbirta, skýjað og snjókoma. Segir kærði að akstursskilyrði hafi verið slæm, hálka hafi verið á akbrautinni og bifreiðin hafi verið á sumarhjólbörðum.
Kærði hefur staðfest að hann hafi farið inn í lögreglubifreiðina þar sem lögreglumaðurinn hafi bent honum á skjá ratsjártækisins, en hann kveðst ekki muna hvaða tölu var um að ræða. Hefur hann staðfastlega haldið því fram að hann hafi ekið á 70-80 km hraða á klst.
Vitnið Þórný Þórðardóttir var ein á ferð í lögreglubifreiðinni er umrædd hraðamæling var framkvæmd. Hún kvaðst ekki muna sérstaklega eftir málinu, en lýsti því hvernig staðið er að hraðamælingum með ratsjá. Vitnið mundi þó að mælingin var framkvæmd á beinum vegarkafla og sagði að ekkert hafi haft truflandi áhrif á mælinguna. Fram kom hjá vitninu að hún hefði lokið námskeiði í meðferð ratsjártækja og að hún hafi starfað við hraðamælingar frá árinu 1996. Kvaðst hún hafa lokið námi í Lögregluskóla ríkisins vorið 1999. Þá staðfesti vitnið skýrslur sínar varðandi málið.
Í ratsjárdagbók lögreglu kemur fram að tækið hafi verið prófað fyrir mælingu kl. 12.35 og eftir mælingu kl. 15.20. Einnig kemur þar fram að ein bifreið hafi verið hraðamæld 20 mínútum áður, einnig á Fagradal. Þá hefur verið lögð fram útskrift úr dagbók lögreglunnar á Eskifirði þar sem fram kemur að á fjögurra mánaða tímabili sem vitnið starfaði í lögregluliði sýslumannsins á Eskifirði hafi hún komið að 41 hraðamælingu með ratsjá. Það sem að framan greinir sýnir að vitnið hafði umtalsverða reynslu af hraðamælingum með ratsjá er umrætt atvik átti sér stað.
Þrátt fyrir að ekkert það sé fram komið í málinu sem bendir til þess að vitnið Þórný Þórðardóttir hafi staðið rangt að hraðamælingu greint sinn verður, gegn staðfastri neitun kærða, ekki talið að fram sé komin lögfull sönnun fyrir sekt hans. Verður kærði samkvæmt því sýknaður af þeirri háttsemi sem honum er gefin að sök.
Eftir þessum úrslitum verður allur sakarkostnaður, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda kærða, Helga Birgissonar hæstaréttarlögmanns, sem þykja hæfilega ákveðin 40.000 krónur, lagður á ríkissjóð.
Júlíus B. Georgsson settur héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
Dómsorð:
Kærði, Einar Eiríkur Hjálmarsson, er sýkn af kröfum ákæruvaldsins í máli þessu.
Allur sakarkostnaður, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans, Helga Birgissonar hæstaréttarlögmanns, 40.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.