Hæstiréttur íslands

Mál nr. 739/2009


Lykilorð

  • Fjármálafyrirtæki
  • Skaðabætur
  • Kröfugerð
  • Vanreifun
  • Frávísun frá héraðsdómi


Fimmtudaginn 25. nóvember 2010.

Nr. 739/2009.

Landsvaki hf. og

(Stefán Geir Þórisson hrl.)

Landsbanki Íslands hf.

(Pétur Örn Sverrisson hrl.)

gegn

Reyni Haukssyni

(Sigurður G. Guðjónsson hrl.)

og gagnsök

Fjármálafyrirtæki. Skaðabætur. Kröfugerð. Vanreifun. Frávísun máls frá héraðsdómi.

Y var eigandi að hlutdeildarskírteini í fjárfestingarsjóðinum Peningabréf Landsbankans ISK sem rekinn var af LV, en vörsluaðili sjóðsins var LÍ. Stjórn LV ákvað 6. október 2008 að fresta innlausn hlutdeildarskírteina í sjóðnum og í kjölfar þess að Fjármálaeftirlitið skipaði skilanefnd yfir LÍ 7. október 2008 var sjóðnum slitið og sjóðfélögum, þar á meðal Y, greitt út  29. sama mánaðar í hlutfalli við eign hvers og eins. Útgreiðsluhlutfall fyrir sjóðinn var 68,8%.  Y höfðaði mál þetta aðallega til heimtu tilgreindra skaðabóta úr hendi LV og LÍ, en til vara til viðurkenningar skaðabótaskyldu þeirra vegna verðrýrnunar á eignarhlutanum í umræddum sjóði, sem mætti rekja til „saknæmrar og ólögmætrar háttsemi“ þeirra við rekstur hans frá því að Y eignaðist þar hlut þangað til sjóðnum var slitið. Í dómi Hæstaréttar kemur fram að LÍ hafi 5. desember 2008 fengið heimild til greiðslustöðvunar og samkvæmt 5. mgr. 98. gr. laga nr. 161/2002, sbr. 2. gr. laga nr. 129/2008,  hafi  verið lagt bann við að dómsmál yrði höfðað gegn fjármálafyrirtæki meðan það nyti slíkrar heimildar. Ákvæði þetta hafi verið í lögum til 22. apríl 2009, en að þessu hafi ekki verið gætt við höfðun málsins í janúar 2009. Hvað varðaði aðalkröfu Y um skaðabætur kemur fram að hún miðaði að því að gera Y eins settan við slit sjóðsins og ef greitt hefði verið úr honum eftir dagsgengi hlutdeildarskírteina, sem síðast gilti áður en lokað var fyrir innlausn þeirra 6. október 2008. Engar viðhlítandi skýringar hefðu komið fram á því hvernig þetta innlausnarverð hefði átt að geta haldist óbreytt eftir 6. október 2008. Ekki hafi heldur verið reifað hvernig markaðssetning eða upplýsingar um sjóðinn gætu hafa vakið væntingar Y um að afleiðingar efnahagshruns gætu ekki haft áhrif á verðmæti hlutdeildarskírteina. Hugsanleg mismunun eigenda hlutdeildarskírteina í aðdraganda þess að lokað hafi verið fyrir innlausn þeirra gæti aldrei staðið til þess að Y teldist eiga tilkall til að fá greidda sömu fjárhæð og aðrir kynnu ranglega að hafa fengið, heldur bæri Y lægri fjárhæð í hlutfalli við það, sem allir hefðu fengið að gættu jafnræði. Y hefði með málatilbúnaði sínum ekki leitast við að afmarka hvert tjónið gæti talist vegna þeirra atvika, sem hver málsástæða  fyrir sig tæki til, og yrði því ekki fært að finna þar stoð fyrir skaðabótum, sem næmu lægri fjárhæð en í aðalkröfu. Hvað varðaði varakröfu Y um viðurkenningu á skaðabótaskyldu LV og LÍ kemur fram að þar væri engin afmörkun á því hver sú háttsemi gæti verið, sem þar væri rætt um. Kröfur Y væru af þessum ástæðum haldnar slíkum annmörkum að efnisdómur yrði ekki lagður á þær. Var málinu því vísað af sjálfsdáðum frá héraðsdómi.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.

Aðaláfrýjandi Landsvaki hf. skaut málinu til Hæstaréttar 18. desember 2009 að fengnu áfrýjunarleyfi. Hann krefst þess aðallega að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað til meðferðar og dómsálagningar á ný, en til vara að hann verði sýknaður af kröfum gagnáfrýjanda. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Aðaláfrýjandi Landsbanki Íslands hf. skaut málinu til Hæstaréttar 7. janúar 2010 að fengnu áfrýjunarleyfi. Hann krefst sýknu af kröfum gagnáfrýjanda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi fyrir sitt leyti 27. apríl 2010. Hann krefst aðallega að aðaláfrýjendum verði í sameiningu gert að greiða sér 21.384.454 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 20. janúar 2009 til greiðsludags, en til vara að viðurkenndur verði réttur hans til skaðabóta sameiginlega úr hendi aðaláfrýjenda „vegna þeirrar rýrnunar sem varð á verðmæti eignarhluta hans í peningamarkaðssjóði Landsbankans, Peningabréf ISK, og rekja má til saknæmrar og ólögmætrar háttsemi gagnstefndu við rekstur sjóðsins frá því að gagnáfrýjandi fjárfesti í sjóðnum og þar til honum var slitið 28. október 2008.“ Að þessu frágengnu krefst gagnáfrýjandi staðfestingar héraðsdóms um annað en málskostnað, en í öllum tilvikum verði aðaláfrýjendum sameiginlega gert að greiða honum málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

I

Samkvæmt málatilbúnaði gagnáfrýjanda varð hann 27. febrúar 2008 eigandi að hlutdeildarskírteini í fjárfestingarsjóði, sem nefndist Peningabréf Landsbankans ISK og rekinn var af aðaláfrýjandanum Landsvaka hf., en svokallaður vörsluaðili sjóðsins var aðaláfrýjandinn Landsbanki Íslands hf. Í reglum fyrir sjóðinn, sem stjórn fyrrnefnda aðaláfrýjandans samþykkti 23. júlí 2008, sagði að hann ætti að veita „viðtöku fé frá almenningi til sameiginlegrar fjárfestingar í fjármálagerningum og öðrum eignum á grundvelli áhættudreifingar samkvæmt fyrirfram kunngerðri fjárfestingarstefnu sjóðsins og í samræmi við ákvæði laga um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði“. Sjóðnum væri ætlað að „ná góðri ávöxtun og dreifingu áhættu með því að fjárfesta í vel tryggðum skammtímaverðbréfum, einkum ríkis- og bankatryggðum víxlum og skuldabréfum, víxlum og skuldabréfum sveitarfélaga og öðrum vel tryggðum verðbréfum að mati stjórnar Landsvaka hf. Fjárfest verður í skuldabréfum þegar henta þykir á hverjum tíma.“ Tekið var fram í reglunum að þessar skammtímakröfur gætu verið verðbréf og aðrar kröfur með ríkisábyrgð eða ábyrgð sveitarfélaga, bankavíxlar, svokölluð peningamarkaðsskjöl eða innlán, í hverjum flokki fyrir sig allt að 100% af eignum sjóðsins, og að auki skuldabréf fjármálafyrirtækja fyrir að hámarki 80% af eignum og önnur skuldabréf að hámarki 50%, en í engu tilviki var áskilin lágmarkseign sjóðsins í einstökum tegundum krafna. Til staðfestingar á hlutdeild í eignum sjóðsins skyldi gefa út hlutdeildarskírteini. Eigendur þeirra áttu að njóta „réttarstöðu lánadrottins gagnvart sjóðnum“ og jafns réttar til tekna hans og eigna í hlutfalli við eign sína. Engar takmarkanir áttu að vera á eigendaskiptum að hlutdeildarskírteinum, en aðaláfrýjandinn Landsvaki hf. bar skyldu til að leysa þau til sín á svokölluðu innlausnarvirði, sem reiknað yrði daglega, og átti það að ráðast af markaðsvirði samanlagðra eigna sjóðsins á útreikningsdegi að frádregnum skuldum „deilt niður á heildarfjölda útgefinna og óinnleystra hlutdeildarskírteina.“

Samkvæmt gögnum málsins ákvað stjórn aðaláfrýjandans Landsvaka hf. 6. október 2008 að fresta innlausn hlutdeildarskírteina í Peningabréfum Landsbankans ISK. Gagnáfrýjandi kveður eignarhlut sinn í sjóðnum þann dag hafa numið 68.539.916 krónum og hafa aðaláfrýjendur ekki andmælt því, en ekkert liggur fyrir um hvort hann hafi eignast þá hlutdeild í einu lagi 27. febrúar 2008 eða hvað greitt hafi verið fyrir hana. Fjármálaeftirlitið tók 7. október 2008 yfir vald hluthafafundar í aðaláfrýjandanum Landsbanka Íslands hf., vék stjórn hans frá og setti yfir hann skilanefnd með heimild í 100. gr. a. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008. Í framhaldi af því lét aðaláfrýjandinn Landsvaki hf. frá sér fara ódagsetta tilkynningu „til sjóðfélaga í Peningabréfum Landsbankans“, þar sem meðal annars var greint frá því að fjármálaeftirlitið hafi 17. október 2008 beint „þeim tilmælum til rekstrarfélaga verðbréfasjóða að unnið yrði að slitum á öllum peningamarkaðssjóðum og sjóðfélögum greiddar út eignir í formi innlána í hlutfalli við eign hvers og eins þannig að jafnræðis sé gætt.“ Útgreiðsluhlutfall fyrir Peningabréf Landsbankans ISK yrði 68,8% og greiðsla sem því svaraði lögð inn á innlánsreikning fyrir hvern eiganda hlutdeildarskírteinis 29. sama mánaðar. Þessu til samræmis voru 47.155.462 krónur lagðar þann dag á innlánsreikning á nafni gagnáfrýjanda. Munaði þannig 21.384.454 krónum á fyrrgreindu innlausnarverði hlutdeildar gagnáfrýjanda, eins og það stóð 6. október 2008, og fjárhæðinni, sem hann fékk í hendur við slit sjóðsins.

Gagnáfrýjandi höfðaði mál þetta 19. janúar 2009 aðallega til heimtu skaðabóta úr hendi aðaláfrýjenda að fjárhæð 21.384.454 krónur eins og greinir í aðalkröfu hans fyrir Hæstarétti, en til vara til viðurkenningar á rétti sínum til skaðabóta eins og um ræðir í varakröfu. Með hinum áfrýjaða dómi voru aðaláfrýjendur sýknaðir af aðalkröfu gagnáfrýjanda, en varakrafa hans var á hinn bóginn tekin til greina á þann hátt að viðurkenndur var réttur hans til skaðabóta óskipt úr hendi aðaláfrýjenda „að því marki sem nánar greinir í forsendum dómsins, kafla III B“, svo sem sagði í dómsorði.

II

Krafa aðaláfrýjandans Landsvaka hf. fyrir Hæstarétti um ómerkingu hins áfrýjaða dóms er í fyrsta lagi reist á því að héraðsdómur hafi ranglega neitað honum um að leggja fram gögn í þinghaldi, þar sem málið var tekið til aðalmeðferðar, án þess að gagnaöflun hafi áður verið lýst lokið og í öðru lagi hafi niðurstaða málsins í héraði ráðist af svokölluðum stöðulistum fyrir peningamarkaðssjóðinn á nánar tilgreindum dögum, sem hafi þó ekki legið fyrir við flutning málsins, heldur verið afhentir eftir dómtöku þess samkvæmt tilmælum dómsins. Í greinargerð aðaláfrýjandans fyrir Hæstarétti var því í þriðja lagi borið við að niðurstaða hins áfrýjaða dóms hafi á nánar tiltekinn hátt verið reist á málsástæðu, sem gagnáfrýjandi hafi ekki borið fyrir sig, en þetta færði aðaláfrýjandinn þó ekki sérstaklega fram sem röksemd fyrir aðalkröfu sinni. Fyrir Hæstarétti hefur aðaláfrýjandinn Landsbanki Íslands hf. ekki krafist ómerkingar héraðsdóms, en lýst sig á hinn bóginn sammála framangreindum röksemdum aðaláfrýjandans Landsvaka hf. Af þeim ástæðum, sem greinir hér á eftir, eru ekki efni til að taka afstöðu til kröfu síðarnefnda aðaláfrýjandans um ómerkingu hins áfrýjaða dóms.

Aðaláfrýjandinn Landsbanki Íslands hf. fékk 5. desember 2008 heimild til greiðslustöðvunar samkvæmt ákvæðum 2. þáttar laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. og sérreglum um slíka heimild fjármálafyrirtækja í lögum nr. 161/2002, sbr. 2. gr. og 4. gr. laga nr. 129/2008. Með 2. gr. síðastnefndu laganna, sem tóku gildi 15. nóvember 2008, varð til nýtt ákvæði í 5. mgr. 98. gr. laga nr. 161/2002, en með því var lagt bann við að dómsmál yrði höfðað gegn fjármálafyrirtæki meðan það nyti heimildar til greiðslustöðvunar. Ákvæði þetta var í lögum til 22. apríl 2009 þegar það var fellt úr gildi með 3. gr. laga nr. 44/2009. Að þessu var ekki gætt við höfðun málsins 19. janúar 2009.

Samkvæmt málatilbúnaði gagnáfrýjanda eru allar kröfur hans reistar á sömu málsástæðum. Eins og nánar greinir í héraðsdómi ber gagnáfrýjandi fyrir sig í fyrsta lagi að fjárfestingar Peningabréfa Landsbankans ISK og skipting á eignum sjóðsins hafi ekki verið í samræmi við þá stefnu, sem honum hafi borið að fylgja, í öðru lagi að markaðssetning sjóðsins hafi ekki samrýmst raunverulegri áhættu hans og fjárfestingarstefnu, í þriðja lagi að eigendum hlutdeildarskírteina hafi verið mismunað í aðdraganda þess að lokað hafi verið fyrir innlausn þeirra 6. október 2008 og í fjórða lagi að takmarka hefði átt útgáfu hlutdeildarskírteina þegar ljóst hafi orðið að stækkun sjóðsins myndi auka mjög áhættu af greiðslufalli skuldara. Að því verður að gæta að aðalkrafa gagnáfrýjanda um skaðabætur miðar að því að gera hann eins settan við slit sjóðsins og ef greitt hefði verið úr honum eftir dagsgengi hlutdeildarskírteina, sem síðast gilti áður en lokað var fyrir innlausn þeirra 6. október 2008. Af hendi gagnáfrýjanda hafa engar viðhlítandi skýringar komið fram á því hvernig þetta innlausnarverð hefði átt að geta haldist óbreytt eftir 6. október 2008 þegar litið er til þeirra tegunda krafna, sem sjóðnum var heimilt að eignast samkvæmt fjárfestingarstefnu sinni, eða hvernig markaðssetning sjóðsins gæti með réttu hafa vakið væntingar um að engin atvik af þeim toga, sem gerðust frá og með þeim degi í íslensku efnahagslífi, gætu orðið til þess að þetta innlausnarverð kynni að lækka. Hugsanleg mismunun eigenda hlutdeildarskírteina í aðdraganda þess að lokað hafi verið fyrir innlausn þeirra gæti aldrei staðið til þess að gagnáfrýjandi teldist eiga tilkall til að fá greidda sömu fjárhæð og aðrir kunna ranglega að hafa fengið, heldur bæri honum lægri fjárhæð í hlutfalli við það, sem allir hefðu fengið að gættu jafnræði. Loks er sú málsástæða gagnáfrýjanda, sem síðast var getið, ekki skýrð með tilliti til þess hvernig hún gæti leitt til að aðalkrafa gagnáfrýjanda yrði tekin til greina. Í málatilbúnaði gagnáfrýjanda er ekki leitast við að afmarka hvert tjón hans gæti talist vegna þeirra atvika, sem hver málsástæða hans fyrir sig tekur til, og yrði því ekki fært að finna þar stoð fyrir skaðabótum, sem næmu lægri fjárhæð en um ræðir í aðalkröfu hans. Að þessu virtu er málið svo vanreifað af hendi gagnáfrýjanda að ekki er fært að fella efnisdóm á þá kröfu.

Varakrafa gagnáfrýjanda lýtur sem fyrr greinir að því að viðurkennd verði skaðabótaskylda aðaláfrýjenda vegna verðrýrnunar á eignarhlut hans í umræddum sjóði, sem rekja megi til „saknæmrar og ólögmætrar háttsemi“ þeirra við rekstur hans frá því að gagnáfrýjandi eignaðist þar hlut þangað til sjóðnum var slitið. Í þessari kröfu er engin afmörkun á því hver sú háttsemi aðaláfrýjenda geti verið, sem þar er rætt um. Þegar af þeirri ástæðu er þessi krafa haldin slíkum annmörkum að efnisdómur verður ekki lagður á hana.

Samkvæmt framangreindu verður máli þessu vísað af sjálfsdáðum frá héraðsdómi. Allt að einu verða aðilarnir látnir bera hver sinn kostnað af því í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá héraðsdómi.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 7. október 2009.

Mál þetta var höfðað 11.  janúar 2009 og dómtekið 15. f.m.

Stefnandi er Reynir Hauksson, Lindasmára 44, Kópavogi.

Stefndu eru Landsvaki hf., Hafnarstræti 5, Reykjavík og Landsbanki Íslands hf., Austurstræti 11, Reykjavík.

Stefnandi krefst þess aðallega að stefndu verði gert að greiða honum in solidum 21.384.454 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þingfestingardegi til greiðsludags.  Stefnandi krefst þess til vara að viðurkenndur verði með dómi réttur hans til skaðabóta úr hendi stefndu, in solidum, vegna þeirrar rýrnunar sem varð á verðmæti eignarhluta hans í peningamarkaðssjóði Landsbankans, Peningabréf ISK, og rekja má til saknæmrar og ólögmætrar háttsemi stefndu við rekstur sjóðsins frá því stefnandi fjárfesti í sjóðnum og þar til honum var slitið 28. október 2008.  Bæði vegna aðalkröfu og varakröfu krefst stefnandi þess að báðir stefndu verði in solidum dæmdir til að greiða honum málskostnað.

Stefndi, Landsvaki hf., krefst sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hendi hans.

Stefndi, Landsbanki Íslands hf., krefst sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hendi hans.

I

A

Í málinu ræðir um tjón sem stefnandi hafi orðið fyrir sem eigandi hlutdeildarskírteinis í peningamarkaðssjóðnum Peningabréf Landsbankans ISK, fjárfestingarsjóði starfræktum af stefnda, Landsvaka hf., dótturfélagi stefnda, Landsbanka Íslands hf. en nú NBI hf.

Sjóðir stefnda, Landsvaka hf., eru starfræktir á grundvelli laga um verðbréfa-  og fjárfestingarsjóði nr. 30/2003 en þar segir í 2. mgr. 1. gr. að verðbréfasjóðir og fjárfestingarsjóðir hafi það eingöngu að markmiði að veita viðtöku fé frá almenningi til sameiginlegrar fjárfestingar í fjármálagerningum og örum eignum á grundvelli áhættudreifingar samkvæmt fyrir fram kunngerðri fjárfestingarstefnu.  Um þrjár tegundir sjóða getur verið að ræða, þ.e. verðbréfasjóði, sem eru sjóðir með starfsleyfi á EES-svæðinu, fjárfestingarsjóði, sem hafa starfsleyfi án heimildar til markaðssetningar á EES-svæðinu og sjóði um sameiginlega fjárfestingu sem veita ekki viðtöku fé frá almenningi (fagfjárfestasjóðir). 

Stefnandi kveðst hafa verið eigandi hlutdeildarskírteinis í sjóðnum frá 27. febrúar 2008 og þar til honum var slitið 28. október s.á.  Í 2. gr. laga nr. 30/2003 er orðið hlutdeildarskírteini skýrt sem fjármálagerningur sem sé staðfesting á tilkalli allra þeirra, sem eigi hlutdeild í sjóði um sameiginlega fjárfestingu eða einstakri deild hans, til verðbréfaeignar sjóðsins og eigendur hlutdeildarskírteina eigi sama rétt til tekna og eigna sjóðsins eða viðkomandi deildar í hlutfalli við hlutdeild sína.  Í málinu liggja frammi reglur fyrir Peningabréf Landsbankans ISK frá því í júlí 2008 svo og útboðslýsing og útdráttur úr útboðslýsingu Peningabréfa Landsbankans ISK, hvort tveggja frá því í júlí 2008.   Í lögum nr. 30/2003 er í 28. gr. kveðið á um útreikning innlausnarvirðis og í 29. gr. auglýsingu þess, í 47.-49. gr. er fjallað um útboðslýsingu og útdrátt úr útboðslýsingu sjóðanna og um kynningarefni í 51. gr.  Um öll framangreind ákvæði vísast jafnframt til 1. mgr. 52. gr. laganna.  Í 53. gr. téðra laga er kveðið á um innlausnarskyldu en samkvæmt 2. mgr. greinarinnar er heimilt með sérstökum takmörkunum að fresta innlausn hlutdeildarskírteina.

Stefndi, Landsvaki hf., annast rekstur verðbréfasjóða, fjárfestingarsjóða og fagfjárfestasjóða um sameiginlega fjárfestingu í samræmi við lög, ákvörðun stjórnar og reglur sjóðanna.  Hann tekur ákvarðanir um fjárfestingar sjóðanna og annast framkvæmd þeirra.  Landsvaki hf. fól stefnda, Landsbanka Íslands hf., sölu- og markaðssetningu og önnur umsýsluverkefni varðandi sjóði sína, sbr. 18. gr. laga nr. 30/2003.  Einnig var umsjá og varðveisla fjármálagerninga sjóðanna falin bankanum sem vörslufyrirtæki samkvæmt skilgreiningu 20. gr. laga nr. 30/2003.

Í 6. gr. reglna fyrir Peningabréf Landsbankans ISK og bls. 6 í útboðslýsingu segir:  „Markmið með útgáfu Peningabréfa Landsbankans ISK er að ná góðri ávöxtum og dreifingu áhættu með því að fjárfesta í vel tryggðum skammtímaverðbréfum, einkum ríkis- og bankatryggðum víxlum og skuldabréfum, víxlum og skuldabréfum sveitarfélaga og öðrum vel tryggðum verðbréfum að mati stjórnar Landsvaka hf.  Fjárfest verður í skuldabréfum þegar henta þykir á hverjum tíma.  Þau skuldabréf, sem fjárfest er í, geta verið í mismunandi myntum þrátt fyrir að uppgjör sjóðsins sé í ISK.  Við það getur myndast gjaldmiðlaáhætta sem leitast er við að eyða út jafnóðum með afleiðuviðskiptum.  Markmiðið með fjárfestingarstefnunni er að Peningabréf Landsbankans ISK henti öllum fjárfestum, einstaklingum, sveitarfélögum, fyrirtækjum og sjóðum sem vilja jafna ávöxtum, hvort sem fjárfest er til lengri eða skemmri tíma.  Ávöxtunarviðmið sjóðsins er þriggja mánaða REIBID-vextir skráðir af Seðlabanka Íslands. . . “  Um fjárfestingarheimildir innan hvers fjárfestingarflokks, þ.e. hverrar tegundar verðbréfa og sjóða, segir m.a. að heimilt sé að fjárfesta í skuldabréfum fjármálafyrirtækja að 80% en í öðrum skuldabréfum að 50%.

Áhættuflokkar sjóða stefnda Landsvaka hf. voru sjö og því  hærra númer sem flokkur hafði því meiri var áhættan.  Sjóðurinn Peningabréf Landsbankans ISK var í flokki 1 og auk hans munu aðeins hafa verið í þeim flokki Peningabréf EUR, DKK, GBP og USD.

Í lögum nr. 30/2003 eru ýmis ákvæði sem lúta að eftirliti Fjármálaeftirlitsins með sjóðunum.  Í minnisblaði stefnda Landsvaka hf. 14. nóvember 2008 vegna slita á peningamarkaðssjóðum segir um eftirlit:  „Samkvæmt 66. gr. verðbréfasjóðalaganna hefur Fjármálaeftirlitið eftirlit með því að starfsemi verðbréfasjóða, fjárfestingarsjóða, rekstrarfélaga og vörslufyrirtækja sé í samræmi við lög og reglugerðir.  Til að sinna því eftirliti hefur Fjármálaeftirlitið aðgang að öllum gögnum og upplýsingum hjá þeim aðilum sem lögin taka til og það telur nauðsynlegt að fá.  Um eftirlitið með sjóðunum gilda einnig lög um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.  Landsvaki hf. er undir innra eftirliti sjálfstæðrar eftirlitsdeildar auk innri endurskoðunar Innri endurskoðunar­deildar Landsbankans í samræmi við samning þar um.  Þar til viðbótar sjá ytri endurskoðendur Landsvaka hf., PricewaterhouseCoopers, um endurskoðun félagsins og hafa í samræmi við skyldur sínar verið með reglubundið eftirlit á starfsemi félagsins.“

B

Hinn 29. september 2008 lýsti íslenska ríkisstjórnin því yfir að íslenska ríkið hygðist koma Glitni banka hf., sem þá var kominn í töluverða erfiðleika, til hjálpar með því að leggja til verulegt fjármagn og bæta þar með eiginfjárstöðu bankans.  Yfirlýstur tilgangur með þessari aðgerð var að tryggja stöðugleika á fjármálamarkaði og voru aðgerðirnar í samræmi við fyrri yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar um að ríkið myndi styðja við íslenskt fjármálakerfi.  Engu að síður fylgdi í kjölfar þessa órói og óvissa á markaði. 

Lokað var fyrir innlausnir úr sjóðnum, sem um ræðir í málinu, 6. október 2008.  Sú ákvörðun var tekin af hálfu stefnda, Landsvaka hf., á grundvelli umróts sem var á fjármálamörkuðum og þeirrar ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins að lokað yrði tímabundið fyrir öll viðskipti með verðbréf útgefin af stefnda, Landsbanka Íslands hf., Glitni banka hf., Kaupþingi banka hf., SPRON, Exista hf. og Straumi-Burðarás fjárfestingarbanka hf.  Alþingi samþykkti sama dag lög nr. 125/2008 um heimild til fjárveitingar  úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl. („neyðarlögin“).  Með lögunum voru m.a. innlán gerð að forgangskröfum við gjaldþrot fjármálafyrirtækja.  Næstu daga féllu íslensku bankarnir einn af öðrum.  Fjármálaeftirlitið ákvað 7. október að nýta heimild í lögum nr. 125/2008 og skipa skilanefnd sem tók við öllum heimildum stjórnar stefnda, Landsbanka Íslands hf.

Í greinargerð stefnda, Landsbanka Íslands hf., segir:  „Þeir atburðir sem þarna gerðust voru bæði óvæntir og ófyrirséðir.  Bresk stjórnvöld gripu til áður óþekktra aðferða gagnvart Landsbankanum, íslenskum stjórnvöldum og Seðlabanka Íslands og lýstu yfir beitingu hryðjuverkalaga gagnvart þessum aðilum.  Ennfremur tóku bresk stjórnvöld yfir starfsemi Kaupþings Singer & Friedlander í Bretlandi.  Aðgerðin leiddi til þess að Landsbankinn og Kaupþing banki misstu allt lánstraust erlendis og lán voru gjaldfelld gagnvart þeim sem hafði í för með sér að þeir gátu ekki haldið áfram starfsemi.“

Sigurjón Árnason, fyrrum bankastjóri Landsbankans, bar vætti við aðal­meðferð málsins.  Hann var spurður hvenær honum hefði orðið ljóst að staða bankans væri orðin alvarleg.  Hann kvað stöðuna í rauninni ekki hafa orðið alvarlega fyrr en eftir lokun markaða föstudaginn 4. október 2008 og þá vegna tiltekinna ákvarðana Fjármálaeftirlits Bretlands og evrópska seðlabankans sem hefðu haft í för með sér brýna og mjög verulega fjárþörf.  Leitað hafi verið eftir lánafyrirgreiðslu hjá Seðlabanka Íslands en síðdegis mánudaginn 6. október hafi endanlega orðið ljóst að enginn mundi koma til aðstoðar og þá hafi verið farið út í það að leita ásjár undir þeim lögum sem verið var að setja.

Hinn 17. október 2008 beindi Fjármálaeftirlitið þeim tilmælum til rekstrar­félaga verðbréfa- og fjárfestingarsjóða að grípa til aðgerða sem væru til þess fallnar að peningamarkaðssjóðum félaganna yrði slitið og eigendum hlutdeildarskírteina greiddar út eignir í formi innlána í hlutfalli við eign hvers og eins þannig að jafnræðis yrði gætt.  Stefndi, Landsvaki hf., sendi hinn 28. október 2008 frá sér tilkynningu til Kauphallar Íslands um slit og ósk um afskráningu á Peningabréfum Landsbankans ISK. 

Landsbankinn sendi stefnanda bréf dags. 28. október 2008.  Þar segir að eftir umrót síðustu vikna hafi stjórn Landsvaka hf. tekið ákvörðun um að öllum peninga­markaðssjóðum í rekstri félagsins yrði slitið.  Í samvinnu við stjórnvöld, Fjármálaeftirlitið, framkvæmdastjórn og stjórn Landsbankans hafi starfsfólk Landsvaka hf. unnið að uppgjöri peningabréfa og liggi nú fyrir að útgreiðsluhlutfall fyrir peningabréf Landsbankans ISK sé 68,8% og virði hlutar hans því 47.155.462 krónur.  Stefnanda er síðan tilkynnt að greiðslur muni berast honum 29. október inn á tiltekinn innlánsreikning á hans nafni sem hafi verið stofnaður hjá Landsbankanum þar sem innstæður séu að fullu tryggðar.  Sjóðfélögum í Peningabréfum Landsbankans var jafnframt tilkynnt að um fullnaðargreiðslur væri að ræða.  Rakinn var aðdragandi þess sem orðið var og vísað til þess að með setningu laga nr. 125/2008 hafi forgangsröð krafna á banka verið breytt þannig að innlán hafi verið sett framar skuldabréfum á sömu fyrirtæki.  Umrót það sem orðið hafi þýði verulegt verðfall skuldabréfa innlendra banka og hið sama eigi við um skuldabréf fleiri útgefenda á markaði.

S. Elín Sigfúsdóttir bankastjóri sendi f.h. Landsbankans hinn 10. desember 2008 opið bréf til hlutdeildarskírteinishafa peningamarkaðssjóðs Landsbankans ISK en umfjöllunin beindist einkum að „peningamarkaðssjóði í íslenskum krónum sem nefndist Peningabréf Landsbankans ISK (hér eftir Peningamarkaðssjóðurinn) og slitum á þeim sjóði“.  Þar segir m.a. að tap sjóðfélaga hafi verið mikið áfall fyrir stjórnendur stefndu og er beðist velvirðingar á því tjóni sem hlutdeildarskírteinishafar hafi orðið fyrir.  Þar segir einnig í inngangi:  „Verðbréfa- og fjárfestingarsjóðir eru reknir af rekstrarfélögum verðbréfasjóða.  Landsvaki hf. er dótturfélag Landsbankans með starfsleyfi sem rekstrarfélag verðbréfasjóða frá Fjármálaeftirlitinu.  Sjóðir félagsins starfa eftir lögum um verðbréfasjóði, reglum sem settar eru fyrir hvern sjóð og útboðslýsingu.  Félagið og sjóðir þess eru undir stöðugu eftirliti Fjármálaeftirlitsins og innra eftirlits Landsvaka hf., innri endurskoðunar Landsbankans, auk ytri endurskoðunar.  Þessir aðilar fara með reglubundnum hætti yfir stöðu sjóðanna og starfsemi.“  Af öðru efni bréfsins skal þetta tilgreint:  „Varðandi þá 31,2% lækkun sem varð á gengi sjóðsins við slit stöfuðu um 2/3 hlutar lækkunarinnar af lækkun á skuldabréfum íslensku viðskiptabankanna.  Svo sem fram hefur komið áður vógu skuldabréf útgefin af Kaupþingi banka hf. þungt í eignasafni sjóðsins eða um 30% af heildareignum sem skýrir stærstan hluta þessarar lækkunar.  Önnur lækkun stafaði af verðlækkun á skuldabréfum annarra fyrirtækja og fjárfestingarfélaga . . .  Við sölu eigna sjóðsins fyrir slit hans var m.a. stuðst við mat á fyrirtækjaskuldabréfum sjóðsins frá óháðu endurskoðunarfélagi, KPMG.  Öll viðskipti voru innan þess verðbils sem gat um í því mati.  Gengisútreikningar og slit sjóðsins voru síðan yfirfarin af endurskoðendum sjóðsins, PricewaterhouseCoopers.  Viðskiptin fóru fram meðan bankaráð, sem skipað hafði verið til bráðabirgða, sat í bankanum.  Nýskipað bankaráð hefur nú farið yfir viðskiptin af sinni hálfu og telur að ekki hafi verið hallað á hagsmuni Peningamarkaðssjóðsins í þeim viðskiptum . . . “

Fram er komið að eignum Peningabréfa Landsbankans ISK hafi verið haldið aðskildum frá eignum bankans og rekstrarfélagsins og skyldi virði hans reiknað út frá metnu innlausnarvirði eigna sjóðsins  á hverjum degi.  Í tilvitnuðu bréfi S. Elínar Sigfúsdóttur er vísað til þess að áhættuflokkun sjóða byggist á leiðbeinandi tilmælum Fjármálaeftirlitsins sem segi að sé slík flokkun notuð skuli hún byggjast á sögulegum sveiflum á ávöxtun.  Peningamarkaðssjóðurinn hafi verið opinn fyrir viðskipti í 4.735 daga og aldrei lækkað á milli daga heldur sýnt jafna ávöxtun eins og lagt hafi verið upp með.  Við slit sjóðsins skiptist skuldabréfaeign eftir útgefendum þannig:  Fjármálafyrirtæki 60%:  Kaupþing 32,3%, Landsbanki 14,3%, Straumur 13,2 %, Sparisjóður Bolungarvíkur 13,2%.  Önnur fyrirtæki 40%:  Baugur 12,8%, Eimskip 8,4%, Samson 5,2%, Atorka 4,1%, FL Group/Stoðir hf. 3,9%, Mosaic 1,9%, Egla 1,3%, Exista 1,2%, Marel 1,1%.  Sjóðurinn rýrnaði um 57 milljarða króna í vikunni fyrir lokun hans, úr 160 milljörðum í 103 milljarða króna, vegna innlausna.

II

Stefnandi krefst þess í aðalsök að stefndu verði gert að greiða honum skaðabætur vegna þess tjóns sem hann hafi orðið fyrir þegar ákvörðun var tekin um að loka fyrir innlausnir úr sjóðnum, sem hér um ræðir, 6. október 2008, slíta honum 28. s.m. og í kjölfarið greiða stefnanda 68,8% af andvirði eignarhlutar hans í sjóðnum.  Fjárhæð aðalkröfu stefnanda er þannig fundin að hún nemur mismuni á fjárhæð eignarhlutans fyrir skerðingu, 68.539.916 krónum, og fjárhæð hans eftir skerðingu, 47.155.462 krónum.  Stefnandi reisir kröfu sína á því að stefndu hafi valdið sér tjóni sem rekja megi að öllu leyti til saknæmrar og ólögmætrar háttsemi þeirra.

Um lagarök er vísað til laga nr. 30/2003 um verðbréfasjóði og fjárfestingar­sjóði, laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti og reglugerðar nr. 995/2007 um fjárfestavernd og viðskiptahætti fjármálafyrirtækja.  Einnig vísar stefnandi til reglna fyrir Peningabréf Landsbankans ISK.  Auk þess vísar hann til almennu skaðabótareglunnar, reglunnar um vinnuveitendaábyrgð og meginreglna kröfu­réttarins. 

Stefnandi byggir í fyrsta lagi á því að fjárfestingar sjóðsins og eignasamsetning hans hafi verið í ósamræmi við fyrir fram kunngerða fjárfestingarstefnu.  Stefnandi byggir í öðru lagi á því að markaðssetning sjóðsins hafi verið í ósamræmi við raunverulega markaðsáhættu hans og fjárfestingarstefnu.  Stefnandi byggir í þriðja lagi á því að hlutdeildarskírteinishöfum hafi verið mismunað í aðdraganda þess að lokað var fyrir innlausnir úr sjóðnum 6. október 2008.  Stefnandi byggir í fjórða lagi á því að forsvarsmönnum sjóðsins hafi borið að hlutast til um að takmarka frekari útgáfu hlutdeildarskírteina þegar þeim mátti vera ljóst að stækkun sjóðsins mundi auka verulega skuldaraáhættuna og hugsanlegt greiðslufall. 

Stefnandi styður varakröfu sína, eftir því sem við á, með vísun til framangreindra málsástæðna.  Telji dómurinn að ekki sé unnt að fallast á fjárkröfu stefnanda í aðalkröfu leiði það af reglum einkamálaréttarfars, sbr. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991, að hann geti krafist viðurkenningar á bótaskyldu stefndu enda hafi hann sannanlega orðið yfir fjártjóni vegna háttsemi þeirra.

Hinir stefndu mótmæla kröfum og málsástæðum stefnanda og eru að mestu samstiga um flutning máls og framsetningu málsástæðna en að auki er byggt á eftirfarandi málsástæðum af hálfu stefnda Landsbanka Íslands hf.:

Aðildarskortur.  Þau afmörkuðu verkefni, sem stefndi hafi haft með höndum vegna Peningabréfa Landsbankans ISK, en hér virðist einungis sala og markaðs­setning geta haft þýðingu, hafi verið á grundvelli útvistunarsamnings við stefnda Landsvaka hf. í samræmi við heimild í 18. gr. laga nr. 30/2003 en samkvæmt 2. mgr. þeirrar greinar hafi útvistun verkefna rekstrarfélags til annarra aðila engin áhrif á ábyrgð þess gagnvart eigendum hlutdeildarskírteina.

Varúðarskylda kaupenda (fjárfesta).  Bent er á að hér, eins og í öðrum fjárfestingum, hafi sú skylda hvílt á kaupendum (fjárfestum) að kynna sér upplýsingar og gögn um þau viðskipti sem stóðu fyrir dyrum en upplýsingar um Peningabréf Landsbankans ISK hafi verið skýrar, ítarlegar og aðgengilegar.

Tjón ósannað.  Jafnvel þótt stefnandi hefði sýnt fram á bótaskylda háttsemi stefnda telur hann að hafna yrði bótakröfu hans þar sem hann hafi ekki sýnt fram á tjón sitt.  Það standist engan veginn  að miða bótakröfuna við gengi sjóðsins eins og það var síðast skráð.  Jafnvel þótt öruggari fjárfestingarkostir hefðu fundist að mati dómsins sé ekki hægt að miða við að gengi sjóðsins hefði ekki lækkað í þeim hamförum sem farið hafi yfir hagkerfi heimsins.  Það sé nánast sama hvar borið sé niður; allt hafi lækkað, hlutabréf, fasteignir og aðrar fjárfestingar, hérlendis og erlendis.  Til dæmis að taka ef stefnandi hefði fjárfest að fullu í innlánum þá hefði hann að óbreyttum lögum tapað stærstum hluta fjárfestingarinnar sem umfram sé hina lögbundnu tryggingu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda.  Að mati stefnda hafi stefnandi ekki gert viðhlítandi grein fyrir bótakröfu sinni né heldur sýnt fram á orsakasamband á milli ætlaðs tjóns síns og ætlaðs saknæms og ólögmæts atferlis á ábyrgð stefnda.

Hér verður greint í meginatriðum frá rökstuðningi aðila varðandi framan­greindar fjórar málsástæður stefnanda:

1

Stefnandi vísar til þess að þegar lokað hafi verið fyrir innlausnir úr sjóðnum 6. október 2008 hafi engin verðbréf eða aðrar kröfur með ábyrgð ríkisins eða sveitarfélaga verið í eignasafni hans þótt fjárfestingarstefna hans gerði einkum ráð fyrir verðbréfum af þeim toga sem hafi numið um 20% af eignasafni sjóðsins á árunum 2000 - 2007.  Hann vísar einnig til þess að fjárfestingar sjóðsins, í íslenskum félögum sem tengjast fjármálamarkaðnum að miklu leyti, hafi falið í sér kerfislæga áhættu; flestir skuldararnir hafi verið í verulegum fjárhagsörðugleikum og átt við lausafjárskort að stríða á sama tíma og sjóðurinn var kynntur sem áhættulítil fjárfesting með örugga ávöxtun.

Stefndu kveða sjóðinn hafa verið innan fjárfestingarheimilda enda hafi hann lotið ríkum eftirlitsheimildum sem hafi verið fylgt eftir af innra eftirliti, innri endurskoðun og eftirliti Fjármálaeftirlitsins.  Á það er bent að ávöxtun Skuldabréfa­sjóðs Landsbankans, sem fjárfesti eingöngu í ríkistryggðum bréfum, hafi verið mun óstöðugri en Peningabréfa ISK og í samræmi við það hafi áhættuflokkun Skuldabréfasjóðsins verið 4 en Peningabréfa ISK 1.  Framboð á ríkistryggðum bréfum hafi verið afar takmarkað á árunum 2007 – 2008 og kjörin ekki viðunandi miðað við ávöxtunarkröfu sjóðsins.  Við þessu hafi verið brugðist með því að auka hlutfall bankabréfa í eignasafni sjóðsins en bankarnir hafi haft traust lánshæfismat alþjóðlega viðurkenndra matsfyrirtækja, hið hæsta af íslenskum fyrirtækjum.  Af umfjöllun Fjármálaeftirlitsins og Seðlabanka Íslands, auk tilkynninga frá bönkunum í fréttakerfi Kauphallar Íslands, hafi ekki annað orðið ráðið en að bankarnir stæðu traustum fótum.  Stöður hafi ekki verið auknar í öðrum félögum en viðskiptabönkunum og Marel á árinu 2008 en vísbendingar hafi ekki verið komnar fram um erfiðleika annarra félaga þegar fjárfest var í þeim. 

2

Stefnandi vísar til þess að í kynningum og markaðsefni frá stefndu hafi sjóðurinn ávallt verið kynntur sem áhættulítill fjárfestingarkostur með örugga ávöxtun, sbr. auglýsing í Morgunblaðinu 2. október 2008 þar sem segi orðrétt:  „Örugg ávöxtun“ og í kjölfarið sé vísað til peningamarkaðssjóðs Landsbankans.  Með vísun til hás og hækkandi skuldatryggingarálags Kaupþings banka hf. og Landsbankans hafi stefndu mátt vera ljóst að margt benti til þess að framangreindir skuldarar sjóðsins gætu ekki staðið við skuldbindingar sínar.  Jafnframt hafi önnur félög, sem voru hluti af eignasafni sjóðsins 6. október 2008, verið í verulegum fjárhagsörðugleikum.  Samkvæmt 55. gr. laga nr. 30/2003 beri rekstrarfélagi, þ.e. stefnda Landsvaka hf., að greina fjárfestum frá þeirri áhættu sem felist í fjárfestingu í sjóði áður en viðskipti eigi sér stað, sbr. einnig b- og c- liði 28. gr. reglugerðar nr. 995/2007 um fjárfestavernd og viðskiptahætti fjármálafyrirtækja.  Þá kveður stefnandi áhættuflokkun sjóðsins hafa verið misvísandi.  Stefnandi hafi ekki verið sérfróður um fjárfestingar og áhættumat og því lagt til grundvallar þann almenna og rökrétta skilning að áhættuflokkur 1 af 7 hlyti að gefa vísbendingu um að sá flokkur væri áhættuminnstur.  Þessu til samanburðar hafi Skuldabréfasjóður Landsbankans verið í áhættuflokki 4 þrátt fyrir að í honum væru eingöngu skuldabréf og önnur verðbréf (þ.m.t. innlán) með ábyrgð ríkisins.  Þá er vísað til þess að  fjárfestingarsjóðir hafi rýmri fjárfestingarheimildir en verðbréfasjóðir sem feli í sér að ekki hafi verið rétt að setja Peningabréf Landsbankans ISK í lægsta áhættuflokk.

Stefndu mótmæla því að markaðssetning og upplýsingagjöf hafi verið villandi eða í ósamræmi við raunverulega áhættu.  Hverjum, sem kynnti sér markaðsefni, útboðslýsingu, útdrátt úr henni eða önnur gögn, hafi ekki getað dulist að áhætta var fyrir hendi.  Engin tilraun hafi verið gerð til þess að draga úr eða dylja áhættu tengda sjóðnum og skilmerkileg grein hafi verið gerð fyrir áhættuþáttum sjóðsins í samræmi við kröfur Fjármálaeftirlitsins í leiðbeinandi tilmælum nr. 3/2004.

3

Stefnandi kveður forsvarsmönnum sjóðsins hafa borið að loka fyrir innlausnir eða a.m.k. fresta þeim þegar heildarfjármunir hans snarlækkuðu vikuna fyrir lokun hans, m.a. á grundvelli heimildar í 10. gr. reglna fyrir sjóðinn, sbr. 2. mgr. 27. gr. laga nr. 30/2003.  Forsvarsmönnum sjóðsins hafi borið að hlutast til um að selja undirliggjandi eignir hans í réttum hlutföllum þegar ljóst hafi orðið að verulegar innlausnir voru úr sjóðnum.  Engum vafa sé undirorpið að auðseljanlegar eignir hafi verið seldar á kostnað annarra eigna, eins og t.d. skuldabréfa sem útgefin voru af félögum, sem skilgreind séu í útboðslýsingu sjóðsins sem „önnur skuldabréf“, en hlutfall þeirra hafi hækkað um rúm 10% í eignasafni sjóðsins vikuna fyrir lokun sjóðsins.  Með þessu hafi jafnræði allra hlutdeildarskírteinishafa ekki verið haft að leiðarljósi eða jafnræðis gætt líkt og forsvarsmönnum sjóðsins hafi verið skylt samkvæmt 2. mgr. 15. gr. laga nr. 30/2003.

Stefndu vísa til þess að sjóðurinn hafi verið opinn fyrir innlausnir allra sjóðfélaga þar til lokað var fyrir þær 6. október 2008.  Stjórnendur sjóðsins hafi ekki talið ástæðu til að loka sjóðnum með hliðsjón af markaðsaðstæðum.  Viðskipti hafi gengið með eðlilegum hætti fyrir sig í Kauphöll Íslands. Við sölu eigna úr eignasafni sjóðsins hafi m.a. verið stuðst við mat frá óháðu endurskoðunarfélagi, KPMG, og öll viðskiptin hafi verið innan ásættanlegra marka samkvæmt því mati.   

4

Stefnandi vísar til þess að sjóðurinn hafi stækkað ört á árunum 2007 og 2008 þrátt fyrir að útgáfa skammtímaverðbréfa með ábyrgð ríkis og/eða sveitarfélaga hafi verið takmörkuð.  Engin rök hnígi að því að réttara sé að auka áhættu eigenda hlutdeildarskírteina en að takmarka frekari útgáfu skírteinanna.  Með þessu hafi enn verið vegið að hagsmunum stefnanda með saknæmum hætti sem hafi leitt til aukinnar áhættu á verðfalli eignarhluta hans í sjóðnum.

Stefndu vísa til þess að allt fram að hruni íslensku viðskiptabankanna hafi fáa, ef nokkra, órað fyrir því að þeir mundu hrynja á nokkrum dögum sem og íslenskt efnahagslíf.  Fjárfesting í skuldabréfum bankanna hafi verið sá kostur sem best uppfyllti kröfur um örugga og stöðuga fjárfestingu á þessum tíma þegar ríkisbréf voru af skornum skammti.   Þá beri að hafa í huga að skuldabréf bankanna hafi notið sömu tryggingastöðu og innlán við gjaldþrot og ekki hafi mátt gera ráð fyrir að þeirri stöðu yrði raskað með lagasetningu.

III

A

Lög nr. 30/2003 um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði, sbr. einnig lög nr. 108/2007 og reglugerð nr. 995/2007, veita sjóðfélögum, þ.e. eigendum hlutdeildar­skírteina, vernd óháð því hvernig fjárfestingin er til komin.

Stefndi, Landsbanki Íslands hf., hafði ekki einungis með höndum sölu og markaðssetningu vegna peningamarkaðssjóðsins Peningabréf Landsbankans ISK á grundvelli útvistunarsamnings við stefnda, Landsvaka hf., heldur var hann einnig vörslufyrirtæki, sbr. 20. gr. laga nr. 30/2003, hafði með höndum margháttuð verkefni sem þar greinir og ber ábyrgð gagnvart eigendum hlutdeildarskírteina samkvæmt 1. mgr. 22. gr. tilvitnaðra laga.  Að auki annaðist stefndi eftirlit með starfrækslu sjóðsins og endurskoðun.  Samkvæmt þessu bera hinir stefndu óskipt ábyrgð gagnvart stefnanda og er ekki fallist á að sýkna beri stefnda, Landsbanka Íslands hf., vegna aðildarskorts, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991.

Áhættuflokkun sjóðsins, sem um ræðir í málinu, byggðist á leiðbeinandi tilmælum Fjármálaeftirlitsins nr. 3/2004 en þau eru reist á samevrópskum reglum um þetta efni.  Áhættuflokkunin byggðist á sveiflum í ávöxtun.  Mjög lágt staðalfrávik eða sveiflur í ávöxtun lá til grundvallar röðun sjóðsins í 1. (lægsta) áhættuflokk.   Samanburður við t.a.m. Skuldabréfasjóð Landsbankans, sem fjárfesti í ríkistryggðum bréfum og var í 4. áhættuflokki, er ekki misvísandi eða villandi þar sem ávöxtun hans var mun óstöðugri.

Markaðsefni og upplýsingagjöf fyrir Peningabréf Landsbankans ISK voru aðgengileg og auðvelt að kynna sér reglur fyrir hann, útboðslýsingu og útdrátt úr útboðslýsingu á heimasíðu Landsbankans auk prentaðs efnis.

Í auglýsingu, sem stefnandi vitnar til, er vísað í útboðslýsingu og útdrátt úr henni og athygli vakin á mismuni á verðbréfasjóðum og fjárfestingarsjóðum.  Einblöðungur lá frammi í útibúum stefnda, Landsbanka Íslands hf., auk útdráttar úr útboðslýsingu, með kynningarefni um Peningabréf.  Þar segir að mikil áhersla sé lögð á stöðuga og örugga ávöxtun við rekstur sjóðsins enda séu sveiflur í ávöxtun mun minni frá degi til dags eða viku til viku „samanborið við sambærilega sjóði“.   Sjóðurinn sé fjárfestingarsjóður og er athygli fjárfesta vakin á því að fjárfestingar­sjóðir hafi rýmri fjárfestingarheimildir samkvæmt lögum nr. 30/2003 en verðbréfa­sjóðir.  Áhættustig sjóðsins, sem er kynnt sem hið lægsta af sjö, ákvarðist út frá sveiflum á gengi hans og reiknist út frá sögulegu staðalfráviki en ekki sé lagt sérstakt mat á skuldaraáhættu verðbréfa hans.

Í útboðslýsingu sjóðsins eru m.a. hugtökin skuldaraáhætta og markaðsáhætta skilgreind.  Um skuldaraáhættu segir:  „Skuldaraáhætta er sú áhætta að útgefandi skuldabréfs geti ekki uppfyllt skyldur sínar um afborganir skuldabréfa.  Skuldara­áhætta er mismikil meðal útgefenda.  Skuldaraáhætta er mjög lítil ef skuldabréf er með ríkisábyrgð.  Skuldaraáhætta er meiri ef um skuldabréf sveitarfélaga eða banka er að ræða.  Mest er skuldaraáhætta ef keypt eru skuldabréf fyrirtækja.“  Um markaðsáhættu segir:  „Öllum fjármálagerningum fylgir markaðsáhætta.  Markaðsáhætta er áhætta sem ekki er hægt að eyða með dreifðu eignasafni.  Undir markaðsáhættu falla til dæmis vaxtaáhætta, áhætta á verðbreytingum á hlutabréfum og gjaldmiðla-/gengisáhætta . . .“  Einnig er vakin athygli á því að hlutdeildarskírteini sjóðsins geti lækkað í verði ekki síður en hækkað og séu því ekki áhættulaus og kunni fjárfestar að fá minna til baka en upphaflega var fjárfest fyrir.  Þá geti ófyrirséðir atburðir, almennt efnahagsástand, náttúruhamfarir, vinnustöðvanir og breytingar á skattalögum valdið verðlækkun á verðbréfamarkaði, þ.m.t. á gengi hlutdeildarskírteina.  Frá því er skýrt að áhætta sé til staðar vegna samþjöppunar eigna eða markaða, t.d. ef útgefendur skuldabréfa sameinist og dreifing eignasafns sjóða minnki í kjölfarið.  Íslenski verðbréfamarkaðurinn sé smár í sniðum og eignatengsl milli einstakra útgefenda töluverð.  Slíkt geti bæði haft áhrif á verðmyndun og afkomu einstakra félaga.  Þá er greint frá áhættuflokkun og hún skýrð þannig að hún byggist á útreikningi á staðalfráviki mánaðarávöxtunar sjóðsins í samræmi við tilmæli Fjármálaeftirlitsins.

Af framangreindu verður ráðið að áhættustigið og öryggið vísi eingöngu til ávöxtunarinnar en aðrir flokkar áhættu komi þar ekki við sögu.  Með hliðsjón af gengisþróun sjóðsins og þeim reglum, sem gilda um útreikning áhættustigs, verður því ekki talið að markaðssetning Peningabréfa Landsbankans ISK hafi verið villandi.

Til þess varð ætlast af stefnanda að hann sýndi þá varúð að kynna sér kynningar- og markaðsefni, sem vörðuðu fjárfestinguna, og ekki aðeins við stofnun eignarhaldsins heldur einnig síðari breytingar, en útboðslýsing sjóðsins var síðast fyrir lokun hans uppfærð í júlí 2008.

Fjárhæð aðalkröfu stefnanda er fundin sem mismunur á hinu skráða innlausnarvirði eignarhlutar hans við lokun sjóðsins 6. október 2008 og þeirri fjárhæð sem var goldin fyrir hann eftir slit sjóðsins 28. s.m.  Krafan er einvörðungu byggð á sök stefndu við rekstur og umsjón sjóðsins og um það efni að engu getið þess, sem leiddi til framangreindra atvika og er án nokkurs vafa í það minnsta meginorsök ætlaðs tjóns stefnanda; fall stærstu banka landsins og hrun efnahagskerfis þjóðarinnar.  Af þessu leiðir að ekki verður fallist á kröfuna eins og hún er fram sett og þegar af þeirri ástæðu að á skortir um rökrænt samhengi fjárhæðar ætlaðs tjóns og þeirra málsástæðna sem krafan er studd verður ekki komist að niðurstöðu um aðra og lægri fjárhæð.

Samkvæmt þessu ber að sýkna stefndu af aðalkröfu stefnanda.

B

Með tilvísun í framangreint var kynning sjóðsins í samræmi við reglur hans og útboðslýsingu svo og lagaákvæði sem hana varða, sbr. einkum 51. gr. laga nr. 30/2003, kynningarefni var skýrt og aðgengilegt og markaðssetning á engan hátt villandi.

Sem fyrr greinir var auglýst fjárfestingarstefna Peningabréfa Landsbankans ISK að fjárfesta í vel tryggðum skammtímaverðbréfum, einkum ríkis- og banka­tryggðum víxlum og skuldabréfum, víxlum og skuldabréfum sveitarfélaga og öðrum vel tryggðum verðbréfum.  Í töflu í útboðslýsingu er tilgreint hve stórt hlutfall ofangreindir bréfaflokkar megi vera af heildarfjárfestingum sjóðsins.  Hlutföllin eru á bilinu 0-100% fyrir alla flokka nema Skuldabréf fjármálafyrirtækja þar sem bilið er 0-80% og Önnur skuldabréf þar sem bilið má vera 0-50%.  Fjárfestingar sjóðsins voru innan þessa ramma.  Svigrúmið samkvæmt útboðslýsingunni er vítt og  mátti stefnanda vera ljóst að kynningarefni, t.d. einblöðungur sem lá frammi, fól ekki í sér nákvæm fyrirmæli um hver eignasamsetning sjóðsins skyldi vera.

Í útboðslýsingu sjóðsins lúta einu ákvæðin, sem varða stærð hans, að því að stjórn hans hafi heimild til að slíta honum fari stærð hans niður fyrir 200 milljónir króna.  Ekkert hámark er þar tilgreint og ekki varð ætlast til að forráðamenn sjóðsins sæju fyrir atburðarásina sem fór af stað í byrjun októbermánaðar 2008.

Samkvæmt þessu er ekki fallist á varakröfu á grundvelli þeirra málsástæðna stefnanda sem lúta að því að fjárfestingar sjóðsins og eignasamsetning hans hafi verið í ósamræmi við fyrir fram kunngerða fjárfestingarstefnu,  markaðssetning sjóðsins hafi verið í ósamræmi við raunverulega markaðsáhættu hans og fjárfestingarstefnu og að forsvarsmönnum sjóðsins hafi borið að hlutast til um að takmarka frekari útgáfu hlutdeildarskírteina þegar þeim mátti vera ljóst að stækkun hans mundi auka verulega skuldaraáhættuna og hugsanlegt greiðslufall.

Stefnandi telur að sjóðsstjórnin hefði átt að selja eignir í  réttum hlutföllum þegar sjóðurinn minnkaði um rúman þriðjung og verður það skilið þannig að hlutdeild eignaflokka hefði átt að haldast óbreytt þrátt fyrir minnkunina.  Ekki verður séð að bein fyrirmæli í þessa veru séu í reglum sjóðsins. 

Í 4. gr. reglugerðar nr. 792/2003 um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði segir að „mat á eignum verðbréfasjóðs, fjárfestingarsjóðs eða sjóðsdeildar skal á hverjum tíma endurspegla raunverulegt virði þeirra að teknu tilliti til markaðsaðstæðna.“  Í 5. gr. sömu reglugerðar segir að „fyrir hvern verðbréfasjóð, fjárfestingarsjóð eða einstaka sjóðsdeild skal mynda niðurfærslureikning vegna fjármálagerninga . . . í því skyni að gengi hlutdeildarskírteina eða hluta endurspegli sem best verðmæti eigna hlutaðeigandi sjóðs eða deildar á hverjum tíma“.   Tilvitnuð ákvæði fela í sér að sé matsverð tiltekinna bréfa ekki fært niður þrátt fyrir vaxandi óvissu um verðmæti þeirra skuli sú óvissa leiða til hærri stöðu á niðurfærslureikningi.  Það hefur í för með sér lægra gengi á hlutdeildarskírteinum en ella hefði orðið.

Vitnin Sigurður Óli Hákonarson, fyrrverandi framkvæmdastjóri stefnda Landsvaka hf., Stefán Héðinn Stefánsson, fyrrverandi stjórnarformaður stefnda Landsvaka hf., og Guðrún Una Valsdóttir, sjóðsstjóri Peningabréfa Landsbankans ISK, báru að almenn niðurfærsla, sem var ekki tengd einstökum félögum, til að mæta niðurskrift eða tapi á bréfum hafi numið nálægt einum milljarði króna.  Á stöðulista fyrir sjóðinn kemur fram að staðan á niðurfærslureikningi hafi verið eftirfarandi:  0 kr. 31. desember 2007, 100 milljónir kr. 30. júní 2008, 400 milljónir kr. 30. júlí s.á., 400 milljónir kr. 31. ágúst s.á. og 400 milljónir kr. 30. september s.á.  Að auki upplýsti lögmaður stefnda, Landsvaka hf., við flutning málsins að staða á þessum niðurfærslureikningi hafi numið 400 milljónum kr. 6. október 2008 þegar sjóðnum var lokað.

Í útboðslýsingu Peningabréfa Landsbankans ISK segir:  „Leyfilegt frávik á gengi hlutdeildarskírteina er 0,8% og skal það leiðrétt innan þriggja mánaða.“  Samkvæmt þessu má matsvirði eigna sjóðsins víkja sem nemur 0,8% frá verðmæti útistandandi hlutdeildarskírteina.  Þessari heimild til 0,8% fráviks er augljóslega ætlað að jafna tilviljanakenndar sveiflur á daglegu markaðsgengi skráðra eigna sjóðsins.  Frávik þetta má ekki telja hluta af niðurfærslureikningi eins og ætla má að verið hafi, sbr. framangreinda vitnaframburði um að staða á niðurfærslureikningi hafi numið um einum milljarði króna.

Í Vegvísi Landsbankans, dags. 20. júní 2008, er frétt um gífurlegt tap Eimskips á öðrum ársfjórðungi og í frétt frá Kauphöll Íslands 10. september 2008 segir að verulegar líkur séu á að 207 milljón evra ábyrgð vegna XL Leisure Group muni falla á Eimskip.  Samkvæmt stöðulistum átti sjóðurinn Peningabréf Landsbankans ISK skuldabréf útgefin af Eimskip hinn 30. júní 2008 að matsvirði samtals 4.022.5 milljónir króna, hinn 31. júlí s.á. að matsvirði 4.080,5 milljónir króna, hinn 31. ágúst s.á. að matsvirði 4.139,4 milljónir króna og hinn 30. september s.á. að matsvirði 4.196,8 milljónir króna.  Hér var allan tímann um sömu skuldabréfin að ræða, úr flokkunum EIM 04 1 og HFEIM 07 2.   Þróun matsvirðis þessara bréfa á stöðulistunum bendir til þess að þar hafi einungis verið bætt við áföllnum vöxtum.  Af þessu má ráða að forráðamenn sjóðsins hafi ekki látið slæmar fréttir af gengi Eimskips koma fram í mati á bréfum útgefnum af Eimskip í eignasafni hans.  Sama á við um verðmæti bréfaeignar sjóðsins í Samson eignarhaldsfélagi sem laskaðist við þetta slæma gengi Eimskips.  Eigi verður heldur séð að tilgreindar fréttir hafi haft áhrif á niðurfærslureikninginn.

Af framangreindu leiðir að á það er fallist með stefnanda að hlutdeildarskírteinishöfum hafi verið mismunað í aðdraganda að lokun sjóðsins 6. október 2008 eftir því hvort þeir innleystu hlutdeild sína eða ekki.  Þeir, sem innleystu hlutdeild sína frá 10. september 2008 til lokunar 6. október s.á., fengu of hátt verð fyrir eignarhlut sinn í sjóðnum sem leiddi til þess að eign þeirra, sem eftir sátu, rýrnaði að sama skapi.  Með þessu hafa stefndu ekki gætt jafnræðis sjóðfélaga hlutdeildarskírteinishafa eins og þeim var skylt, sbr. m.a. 2. mgr. 15. gr. laga nr. 30/2003, og bakað sér bótaskyldu gagnvart stefnanda.  Heildartjónið, sem og hlutfallslegt tjón stefnanda, er unnt að meta út frá gögnum í bókhaldi sjóðsins.

Samkvæmt framangreindu er fallist á varakröfu stefnanda að því marki sem hér var lýst.

C

Ákveðið er að aðilar málsins skuli bera hver sinn kostnað af rekstri þess.

Mál þetta dæma Sigurður Hallur Stefánsson héraðsdómari og meðdóms­mennirnir Bjarni Frímann Karlsson lektor og Þórólfur Matthíasson prófessor.

D ó m s o r ð:

Stefndu, Landsvaki hf. og Landsbanki Íslands hf., eru sýknir af aðalkröfu stefnanda, Reynis Haukssonar.

Viðurkenndur er réttur stefnanda til skaðabóta óskipt úr hendi stefndu að því marki sem nánar greinir í forsendum dómsins, kafla III B.

Málskostnaður fellur niður.