Hæstiréttur íslands

Mál nr. 731/2013


Lykilorð

  • Kærumál
  • Nauðungarsala


                                     

Mánudaginn 2. desember 2013.

Nr. 731/2013.

Kolbeinn Sigurðsson

(sjálfur)

gegn

Íslandsbanka hf.

(Elvar Örn Unnsteinsson hrl.)

Kærumál. Nauðungarsala.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu K um að felld yrði úr gildi nauðungarsala á nánar tiltekinni fasteign. Í dómi Hæstaréttar var vísað til þess að kröfur Í hf. um nauðungarsölu hefðu verið reistar á tveimur fjárnámsgerðum og hvíldu kröfurnar á 2. og 3. veðrétti fasteignarinnar. Talið var að þótt ágreiningur væri um fjárhæð krafna Í hf. á 1. og 5. veðrétti fasteignarinnar, girti það ekki fyrir að Í hf. leitaði fullnustu í eigninni með nauðungarsölu vegna annarra krafna. Þá var nauðungarsalan ekki talin árangurslaus í merkingu 5. mgr. 36. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu þar sem fyrir lá að Í hf. myndi fá í sinn hlut söluverðið.

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Benedikt Bogason og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 13. nóvember 2013 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 18. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 30. október 2013, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að felld yrði úr gildi nauðungarsala á fasteign hans að Stekkjarhvammi 10 í Hafnarfirði, sem fram fór 21. nóvember 2012. Kæruheimild er í 1. mgr. 85. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu. Sóknaraðili krefst þess að felld verði úr gildi fyrrgreind nauðungarsala á fasteign hans. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Svo sem greinir í hinum kærða úrskurði krafðist varnaraðili nauðungarsölu á fasteign sóknaraðila með bréfum 21. desember 2011 og 31. ágúst 2012. Fyrri nauðungarsölubeiðni sóknaraðila tók til kröfu samkvæmt skuldabréfi 19. maí 2008 að höfuðstól 1.930.000 krónur en fyrir henni var gert fjárnám í eigninni 14. júní 2010. Síðari beiðnin var vegna kröfu að höfuðstól 783.177 krónur samkvæmt dómi 25. maí 2012 þar sem jafnframt var staðfestur 2. veðréttur varnaraðila í eigninni samkvæmt tryggingarbréfi útgefnu 6. apríl 2000. Fjárnám var gert í henni fyrir þessari kröfu 30. ágúst 2012. Kröfur varnaraðila um nauðungarsöluna voru reistar á þessum fjárnámsgerðum, sbr. 1. tölulið 1. mgr. 6. gr. laga nr. 90/1991.

Í úrskurði héraðsdóms eru raktar þær kröfur sem varnaraðili hefur gert í söluverð eignarinnar vegna krafna sinna sem hvíla á 1., 2., 3. og 5. veðrétti í eigninni. Þótt ágreiningur sé um fjárhæð krafna á 1. og 5. veðrétti girðir það ekki fyrir að varnaraðili leiti fullnustu í eigninni með nauðungarsölu vegna annarra krafna. Þá liggur fyrir að varnaraðili mun fá í sinn hlut söluverðið og var því nauðungarsalan ekki árangurslaus í skilningi 5. mgr. 36. gr. laga nr. 90/1991. Samkvæmt þessu verður hinn kærði úrskurður staðfestur.

Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Kolbeinn Sigurðsson, greiði varnaraðila, Íslandsbanka hf., 200.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 30. október 2013.

                Þann 18. desember 2012 barst Héraðsdómi Reykjaness krafa sóknaraðila um að héraðsdómur leysti úr ágreiningi um gildi nauðungarsölu sem fram fór 21. nóvember 2012, sbr. 1. mgr. 80. gr. laga nr. 90/1991. Málið var tekið til úrskurðar 4. október sl.

                Sóknaraðili er Kolbeinn Sigurðsson, Stekkjarhvammi 10, Hafnarfirði, en varnaraðili er Íslandsbanki hf.

                Sóknaraðili krefst þess að felld verði úr gildi nauðungarsala á fasteign sóknaraðila að Stekkjarhvammi 10, Hafnarfirði, fastanr. 207-9325, sem fram fór 21. nóvember 2012, og að varnaraðili verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar.

                Varnaraðili krefst þess að kröfum sóknaraðila verði hafnað og að nauðungarsölugerð sýslumannsins í Hafnarfirði á eigninni Stekkjarhvammi 10, fastanr. 207-9325, dags. 21. nóvember 2012, standi óbreytt. Þá krefst varnaraðili málskostnaðar.

I

Fasteignin Stekkjarhvammur 10, Hafnarfirði, eign sóknaraðila, var seld nauðungarsölu 21. nóvember 2012. Nauðungarsölubeiðendur voru upphaflega þrír, varnaraðili með tvær beiðnir og Drómi hf. með eina. Við lokasölu var ekki mætt af hálfu Dróma hf. og féll því sú beiðni niður.

Fyrri nauðungarsölubeiðni varnaraðila, dags. 21. desember 2011, á rætur að rekja til skuldabréfs að fjárhæð 1.930.000 krónur, útgefið af sóknaraðila 19. maí 2008. Skuldabréfið fór í vanskil 1. ágúst 2009 og var fjárnám gert 14. júní 2010 í Stekkjarhvammi 10, Hafnarfirði, í réttindum varnaraðila samkvæmt tryggingarbréfi, að fjárhæð 7.500.000 krónur, útgefið 19. júlí 2005, áhvílandi á 3. veðrétti fasteignarinnar.

Seinni nauðungarsölubeiðni varnaraðila, dags. 31. ágúst 2012, er vegna tryggingarbréfs að fjárhæð 1.000.000 króna, útgefið af Nútímanum ehf. 6. apríl 2000, áhvílandi á 2. veðrétti fasteignarinnar. Varnaraðili tók dóm fyrir skuld samkvæmt tryggingarbréfinu 25. maí 2012 og voru Nútíminn ehf. og sóknaraðili dæmdir in solidum til greiðslu 783.177 króna, sbr. dóm Héraðsdóms Reykjaness í máli E-469/2012. Jafnframt var staðfestur 2. veðréttur í Stekkjarhvammi 10 samkvæmt framangreindu tryggingarbréfi.

Við lokasölu fasteignarinnar lagði varnaraðili fram fjórar kröfulýsingar, vegna 1. veðréttar að fjárhæð 57.808.673 krónur, vegna 2. veðréttar að fjárhæð 1.375.595, vegna 3. veðréttar að fjárhæð 16.321.295 krónur og vegna 5. veðréttar að fjárhæð 26.011.882 krónur.

Varnaraðili átti hæsta boð í fasteignina að fjárhæð 10.000.000 króna.

II

Í fyrsta lagi byggir sóknaraðili á því að varnaraðili eigi ekki þann rétt samkvæmt veðtryggingarbréfi á 2. veðrétti eignarinnar sem nauðungarsölubeiðnin byggist á. Hið umþrætta tryggingarbréf sé í upphafi gefið út hinn 6. apríl árið 2000 með veði í þáverandi eign sóknaraðila að Breiðvangi 20 í Hafnarfirði. Hinn 9. júní 2004 hafi Sparisjóður Kópavogs, þáverandi eigandi tryggingarréttindanna, gefið út veðflutningsskjal sem beri yfirskriftina: „Veðsetning og veðbandslausn“ og hafi þeirri yfirlýsingu verið þinglýst á eignina að Stekkjarhvammi 10, Hafnarfirði. Í framangreindri yfirlýsingu sé sagt að bréfið sé „veðskuldarbréf“ og sé henni þinglýst þannig. Fram komi á veðbókarvottorði eignarinnar að um sé að ræða „veðskuldarbréf“, enda sé það í samræmi við yfirlýsingu tryggingarhafans á þeim tíma. Sóknaraðili byggir á því að með framangreindri yfirlýsingu hafi eðli tryggingarbréfsins breyst á þann hátt að ekki sé lengur hægt að líta á kvöð þá er bréfið leggur á eignina að Stekkjarhvammi 10 sem hefðbundin „opin“ tryggingarréttindi, heldur sé varnaraðili bundinn við þá eðlisbreytingu sem framangreind yfirlýsing hafi í för með sér og staðfest sé með þinglýsingu. Dómurinn í málinu nr. E-469/2012 hafi byggst á því að bréfið væri tryggingarbréf en ekki veðskuldabréf, líkt og fram komi í framangreindri yfirlýsingu, sem auk þess hafi verið staðfest með þinglýsingaryfirlýsingu sýslumannsembættisins í Hafnarfirði. Ekki sé hægt að staðfesta veðrétt í tryggingarbréfi sem sé ekki tryggingarbréf lengur, heldur veðskuldabréf. Í ljósi þessa sé niðurstaða héraðsdóms um staðfestingu á veðrétti í tryggingarbréfi í raun markleysa, enda sé bréfið alls ekki tryggingarbréf í ljósi framangreindra eðlisbreytinga sem varnaraðili gerði á því. Varnaraðili sé bundinn við þá eðlisbreytingu sem gerð hafi verið á bréfinu með þessum hætti. Nauðungarsöluferlið á þessum grundvelli sé því einnig ólögmætt.

Í öðru lagi byggir sóknaraðili á því að uppboðið sé árangurslaust, sbr. ákvæði 5. mgr. 36. gr. laga nr. 20/1991, þar sem ekkert hafi fengist upp í kröfu þá sem uppboðsbeiðandi lagði fram við nauðungarsölugerðina og krafðist nauðungarsölu fyrir. Í þessu sambandi telur sóknaraðili að engu máli skipti þótt varnaraðili eigi einnig þá kröfu sem tryggð sé með 1. veðrétti í eigninni. Ákvæði lagagreinarinnar sé skýrt og ófrávíkjanlegt, enda hafi varnaraðila verið í lófa lagið að krefjast nauðungarsölunnar á grundvelli kröfu á 1. veðrétti eignarinnar telji hann sig hafa forsendur til að setja fram slíka kröfu. Sóknaraðili bendir sérstaklega á að varnaraðili hafi ekki hlutast til um að fá skorið úr óvissu um lögmæti kröfunnar á 1. veðrétti eignarinnar. Hann hafi lýst kröfu að fjárhæð rúmlega 57.800.000 krónur en í gögnum málsins komi fram að hann hafi einnig endurreiknað lánið í samræmi við ákvæði laga nr. 151/2010 og þá séu eftirstöðvar 28.000.000 króna. Sóknaraðili telur að lánið sé augljóslega ólögmætt gengistryggt lán í skilningi laga nr. 38/2001 og í samræmi við niðurstöðu Hæstaréttar í málunum nr. 600/2011 og 464/2012. Séu eftirstöðvar þess vart hærri en u.þ.b. 14.000.000 króna, enda hafi lánið verið í skilum allt til 21. nóvember 2011.

Í þriðja lagi byggir sóknaraðili á því að fráleitt sé að jafn íþyngjandi fullnustugerð fari fram gegn sér á meðan varnaraðili hafi ekki hlutast til um að fá dómsúrlausn um raunverulegar lögvarðar kröfur samkvæmt öðrum kröfulýsingum sínum sem fram komu við uppboðsmeðferðina. Sóknaraðili telur að fullkomin efnisleg óvissa sé því um fjárhæð raunverulegra krafna varnaraðila á hendur sér. Enn hafi ekki verið leyst endanlega úr ágreiningi um lögmæti skuldaskjala varnaraðila en sóknaraðili telur að um ólögmæt gengistryggð lán sé að ræða vegna krafna sem tryggðar séu með 1., 3. og 5. veðrétti í eigninni að Stekkjarhvammi 10. Bendir hann sérstaklega á þá staðreynd að lánin hafi upphaflega verið veitt og greidd út í krónum og þau hafi átt að endurgreiða í krónum. Í þessu sambandi vísar sóknaraðili til dóma Hæstaréttar í málum nr. 3/2012 og 66/2012. Sóknaraðili telur að nauðsynlegt sé að skýra efnislegan rétt varnaraðila á hendur sér, m.a. um það í hvaða mynt lánin séu, hvort þau innihaldi ólögmæt gengistryggingarákvæði, hverja vexti þau beri, hvort heimilt sé að reikna á þau vanskilaálag, hvort um ofgreiðslur kunni að vera að ræða, sem og önnur atriði sem máli kunna að skipta, áður en heimiluð verði jafn afdrifarík og óafturkræf fullnustugerð sem nauðungarsala. Óhjákvæmilegt sé að leggja þá skyldu á herðar varnaraðila, miðað við það sem á undan er gengið, að hann leiðrétti kröfur sínar á hendur sóknaraðila og sýni fram á réttar og lögvarðar eftirstöðvar áður en hægt sé að heimila nauðungarsölu í máli þessu. Sóknaraðili bendir sérstaklega á vonda trú varnaraðila í máli þessu en fyrir liggi kröfulýsing vegna veðskuldabréfs á 5. veðrétti vegna láns upphaflega að fjárhæð 7.500.000 krónur, gengistryggt miðað við 50% JPY og 50% CHF. Fjöldi samskonar skuldabréfa hafi nú þegar verið dæmd sem ólögmæt gengistryggð lán í skilning laga nr. 38/2001 í Hæstarétti Íslands. Engu að síður reikni varnaraðili lán þetta sem lögmætt erlent lán og krefji sóknaraðila um 26.011.882 krónu jafnvel þó að lán þetta hafi verið í skilum fram á árið 2009.

Í fjórða lagi byggir sóknaraðili á því að hann eigi inni mun hærri fjárhæðir á grundvelli oftekinna greiðslna varnaraðila úr hendi sóknaraðila vegna oftöku fjár á grundvelli ólögmætra samningsákvæða um gengistryggingu lána. Sú fjárhæð sé örugglega mun hærri en sem nemi hinni umþrættu kröfu sem nauðungarsölugerðin byggist á. Augljóst sé samkvæmt skýru ákvæði 18. gr. laga nr. 38/2001 að sóknaraðili eigi rétt til að fá endurgreiðslu þeirra fjárhæða sem ofteknar hafa verið. Öll skilyrði skuldajafnaðar séu til staðar, enda séu í reynd báðar kröfurnar gjaldkræfar. Hér vekur sóknaraðili sérstaka athygli á því að hann sé neytandi í viðskiptum við stórt sérfræðifyrirtæki á sviði fjármálastarfsemi með fjölda sérfræðinga á sínum snærum. Augljós aðstöðumunur sé á aðilum og sóknaraðili hafi ekki yfir að ráða þekkingu né búnaði til að framkvæma slíka endurreikninga sjálfur. Sóknaraðili bendir á að fráleitt sé að varnaraðili leiti nú fullnustu með óafturkræfum hætti í eignum sínum á meðan svo stendur á sem að framan sé rakið.

III

Varnaraðili byggir kröfu sína einkum á því að fyrir hendi séu öll skilyrði laga um nauðungarsölu til að gerðin stand. Varnaraðili hafnar öllum málsástæðum sóknaraðila.

Varnaraðili byggir á því að rök sóknaraðila um að varnaraðili eigi ekki rétt samkvæmt tryggingarbréfi á 2. veðrétti séu haldlaus. Héraðsdómur Reykjaness hafi staðfest veðrétt sóknaraðila með dómi í máli E-469/2012. Öll rök sóknaraðila varðandi þetta tryggingarbréf séu því of seint fram komin. Héraðsdómur hafi þegar fellt efnisdóm og staðfest 2. veðrétt í fasteigninni til tryggingar kröfum varnaraðila á hendur sóknaraðila.

Þá byggi sóknaraðili á að nauðungarsalan sé árangurslaus, sbr. 5. mgr. 36. gr. laga um nauðungarsölu. Varnaraðili hafnar þessum röksemdum sóknaraðila. Í 5. mgr. 36. gr. laga nr. 90/1991 komi fram sérregla um framkvæmd við framhald uppboðs en heimild greinarinnar taki til tilvika þar sem nauðungarsölu hafi verið krafist samkvæmt 6. gr. laganna til að fullnægja peningakröfu og framkomin boð nægi ekki til þess að neinn gerðarbeiðandi fái greitt upp í kröfu sína. Við þær aðstæður yrði nauðungarsalan talin árangurslaus og bæri að fella hana niður. Af hálfu varnaraðila er á því byggt að skilyrði heimildarinnar séu ekki uppfyllt þar sem varnaraðili hafi fengið fullnustu að hluta kröfu sinnar. Þrátt fyrir að nauðungarsölubeiðnir varnaraðila hafi verið grundvallaðar á fjárnámi vegna tryggingarbréfa á 2. og 3. veðrétti þá sé varnaraðili einnig veðhafi á 1. veðrétti. Varnaraðili hafi lýst kröfum að fjárhæð 49.855.378 krónur undir tryggingarbréfi á 1. veðrétti. Lýstar lögveðskröfur hafi verið 434.521 króna. Varnaraðili hafi boðið 10.000.000 króna í eignina og séu því sölulaun í ríkissjóð 100.000 krónur. Þar af leiðandi komi tæplega 9.500.000 krónur upp í kröfur varnaraðila, tryggðar með veði í eigninni. Varnaraðili hafi því þannig fengið fullnustu á hluta krafna sinna. Því byggir varnaraðili á því að ekki séu skilyrði til að fella nauðungarsöluna niður samkvæmt 5. mgr. 36. gr. laganna samkvæmt orðanna hljóðan.

Þá telur varnaraðili í þriðja lagi að hugleiðingar sóknaraðila um lögmæti lána samkvæmt 1. veðrétti eigi ekki við í þessu máli. Ágreiningur í þessu máli snúist um gildi nauðungarsölunnar, ekki úthlutun söluverðs. Varnaraðili sé með tvær nauðungarsölubeiðnir í málinu. Sóknaraðili geri einungis athugasemdir við aðra beiðni varnaraðila, dags. 31. ágúst 2012, en engum athugasemdum sé hreyft við nauðungarsölubeiðni varnaraðila frá 21. desember 2011. Hvorug þessara beiðna sé vegna láns í erlendum myntum og hafi hugleiðingar sóknaraðila um lögmæti erlendra lána því ekkert að segja um gildi nauðungarsölunnar. Sama eigi við um rök sóknaraðila vegna kröfulýsingar vegna veðskuldabréfs á 5. veðrétti eignarinnar. Sú krafa og hugsanlegt lögmæti hennar hafi ekkert að segja varðandi lögmæti uppboðsins. Báðar nauðungarsölubeiðnir varnaraðila séu vegna fjárskuldbindinga í íslenskum krónum. Önnur þeirra meira að segja dæmd af héraðsdómi.

Þá hafnar varnaraðili röksemdum sóknaraðila um að hann eigi örugglega inni mun hærri fjárhæðir en sem nemi hinni umþrættu kröfu sem nauðungarsölugerðin byggist á. Þessi málsástæða sóknaraðila sé ekki studd neinum rökum.

IV

Sóknaraðili byggir á að varnaraðili eigi ekki rétt samkvæmt tryggingarbréfi á 2. veðrétti eignarinnar. Stekkjarhvamms 10, Hafnarfirði, þar sem þau mistök hafi orðið að kalla tryggingarbréfið ranglega veðskuldabréf í skjali sem útbúið var til þess að flytja tryggingarbréfið og veðsetninguna af Breiðvangi 20, Hafnarfirði, yfir á Stekkjarhvamm 10, Hafnarfirði. Með dómi Héraðsdóms Reykjaness 25. maí 2012 í máli E-469/2012, þar sem ekki var tekið til varnar af hálfu sóknaraðila, voru hins vegar tekin af tvímæli um að á 2. veðrétti hvíldi veðtryggingarbréf. Jafnframt var í dómi þessum 2. veðréttur staðfestur og sóknaraðili dæmdur til greiðslu skuldar að baki bréfsins að fjárhæð 783.177 krónur sem í máli þessu er leitað fullnustu á með fjárnámi. Varnaraðili telst því eiga réttindi samkvæmt framangreindu heimildarbréfi.

Í öðru lagi byggir sóknaraðili á að nauðungarsalan sé árangurslaus í skilningi 5. mgr. 36. gr. laga um nauðungarsölu en þar segir að ef nauðungarsölunnar var krafist á grundvelli 6. gr. og ekki er boðið meira í eignina en svo að enginn gerðarbeiðanda geti fengið neitt í sinn hlut af söluverðinu skuli telja beiðnir um nauðungarsöluna fallnar niður. Varnaraðili á kröfur á hendur sóknaraðila sem eru tryggðar með 1., 2., 3. og 5. veðrétti í eigninni. Fyrrgreindar tvær nauðungarsölubeiðnir eru byggðar á 2. og 3. veðrétti en auk þess hefur varnaraðili lýst kröfum í söluandvirði eignarinnar samkvæmt tryggingarbréfi áhvílandi á 1. veðrétti sem að sögn varnaraðila er nú að fjárhæð 49.855.378 krónur. Við nauðungarsöluna 21. nóvember 2012 bauð varnaraðili 10.000.000 króna í eignina. Að frádregnum sölulaunum og lögveðskröfum komu því tæplega 9.500.000 krónur upp í kröfu varnaraðila. Varnaraðili telst því hafa fengið fullnustu hluta krafna sinna í skilningi 5. mg. 36. gr. nauðungarsölulaga.

Sóknaraðili heldur því fram og færir fyrir því rök að skuldbinding hans samkvæmt 1. og 5. veðrétti sé ólögmæt gengistryggð lán og því sé óvissa um fjárhæð þessara krafna. Varnaraðili hefur hins vegar krafist uppboðs á grundvelli fyrrgreindra tveggja nauðungarsölubeiðna samkvæmt kröfum á 2. og 3. veðrétti en hvorug þeirra beiðna er vegna láns í erlendum myntum. Verður því ekki í þessu máli leyst úr þeim ágreiningi hvort lán á 1. og 5. veðrétti séu ólögmæt gengistryggð lán. Með sömu rökum kemur sú málsástæða sóknaraðila ekki til álita að hann eigi hærri fjárhæð inni hjá varnaraðila en nemur umræddum kröfum.

Samkvæmt framansögðu er hafnað kröfu sóknaraðila um að nauðungarsala á fasteigninni Stekkjarhvammi 10, Hafnarfirði, verði ógilt.

Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður.

Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Úrskurðarorð

                Hafnað er kröfu sóknaraðila, Kolbeins Sigurðssonar, um að felld verði úr gildi nauðungarsala á fasteign sóknaraðila að Stekkjarhvammi 10, Hafnarfirði, fastanr. 207-9325, sem fram fór 21. nóvember 2012.

                Málskostnaður fellur niður.