Hæstiréttur íslands
Mál nr. 474/2007
Lykilorð
- Eftirlaun
- Sératkvæði
|
|
Fimmtudaginn 5. júní 2008. |
|
Nr. 474/2007. |
Soffía Jakobsdóttir(Eva B. Helgadóttir hrl.) gegn Leikfélagi Reykjavíkur ses. (Halldór H. Backman hrl.) |
Eftirlaun. Sératkvæði.
S var starfsmaður LR ses. allt frá árinu 1967 sem lausráðinn leikari, en á árinu 1977 var hún fastráðin hjá félaginu. Í byrjun árs 2002 var S færð til í starfi, er henni var sagt upp starfi sem leikari, en ráðin tímabundið sem kynningarfulltrúi í hálft starf. Með bréfi 2003 var S tilkynnt að tímabundin ráðning hennar sem kynningarfulltrúi yrði ekki endurnýjuð. Þann 22. júní 1987 höfðu LR ses. og Félag íslenskra leikara gert með sér samkomulag sem veitti félagsmönnum þann rétt að fá greidd eftirlaun þegar þeir létu af störfum við ákveðinn aldur. S hafði ekki náð þeim aldri sem áskilinn var er hún lét af störfum hjá LR ses. Þann 20. nóvember 2001 tók stjórn LR ses. þá ákvörðun með samþykkt að veita þessum hópi, er félli undir samkomulagið, lífeyrisréttindi sem skyldu nema því réttindahlutfalli sem starfsmenn hefðu áunnið sér 31. desember það ár. Var samþykktin síðar felld úr gildi á stjórnarfundi 29. september 2003. Í málinu deildu aðilar um það hvort S ætti rétt á greiðslu eftirlauna samkvæmt samþykktinni. Talið var að S ætti enga aðild að samþykktinni, né yrði það ráðið af gögnum málsins að Félag íslenskra leikara ætti aðild að henni. Var því um einhliða yfirlýsingu af hálfu LR ses. að ræða og yrði samþykktin því ekki talin skuldbindandi fyrir LR ses. á þann hátt að S gæti byggt rétt sinn á henni til þeirrar eftirlaunakröfu sem hún gerði í málinu. Var því niðurstaða meirihluta Hæstaréttar að staðfesta hinn áfrýjaða dóm með vísan til forsendna um sýknu LR ses.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Hjördís Hákonardóttir.
Áfrýjandi skaut málinu upphaflega til Hæstaréttar 10. júlí 2007. Ekki varð af fyrirhugaðri þingfestingu 22. ágúst sama ár og var því áfrýjað öðru sinni 14. september 2007. Hún krefst greiðslu á 1.169.392 krónum ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 68.186 krónum frá 1. janúar 2005 til 1. febrúar 2005, af 136.372 krónum frá þeim degi til 1. mars 2005, af 204.558 krónum frá þeim degi til 1. apríl 2005, af 272.744 krónum frá þeim degi til 1. maí 2005, af 340.930 krónum frá þeim degi til 1. júní 2005, af 409.116 krónum frá þeim degi til 1. júlí 2005, af 477.302 krónum frá þeim degi til 1. ágúst 2005, af 545.488 krónum frá þeim degi til 1. september 2005, af 613.674 krónum frá þeim degi til 1. október 2005, af 681.860 krónum frá þeim degi til 1. nóvember 2005, af 750.046 krónum frá þeim degi til 1. desember 2005, af 818.232 krónum frá þeim degi til 1. janúar 2006, af 888.464 krónum frá þeim degi til 1. febrúar 2006, af 958.696 krónum frá þeim degi til 1. mars 2006, af 1.028.928 krónum frá þeim degi til 1. apríl 2006, af 1.099.160 krónum frá þeim degi til 1. maí 2006 og af 1.169.392 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Áfrýjanda verður samkvæmt 1. mgr. 130. gr., sbr. 166. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti sem ákveðst eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur er óraskaður.
Áfrýjandi, Soffía Jakobsdóttir, greiði stefnda, Leikfélagi Reykjavíkur ses., 350.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Sératkvæði
Hjördísar Hákonardóttur
Á árinu 2001 var ljóst að stefndi átti í miklum rekstrarvanda og síðari hluta ársins var á nokkrum stjórnarfundum fjallað um nauðsyn þess að segja starfsfólki upp. Einnig var fjallað um siðferðilegar forsendur uppsagna þeirra sem fastráðnir hefðu verið hjá félaginu í 20 ár eða lengur. Þessir starfsmenn höfðu áunnið sér lífeyrisréttindi samkvæmt samningi frá 22. júní 1987 á milli stefnda og Félags íslenskra leikara, en höfðu þó ekki á þeim tíma náð tilskyldum aldri til að öðlast rétt til töku lífeyris við starfslok. Eru fjórtán starfsmenn þar nafngreindir og var nafn áfrýjanda meðal þeirra. Á fundi í stjórn stefnda 20. nóvember 2001 var samþykkt að starfsmenn félagsins „sem fastráðnir hafa verið hjá félaginu í 20 ár eða lengur og hafa áunnið sér lífeyrisréttindi á grundvelli samkomulags LR og FÍL frá 1987, skulu njóta lífeyris sem nemur því réttindahlutfalli sem þeir hafa áunnið sér til 31. desember 2001.“ Þessi ákvörðun var ekki skriflega kynnt áfrýjanda en hún bar fyrir dómi að sér hefði verið tjáð, er henni var sagt upp sem leikara 28. nóvember 2001, en jafnframt ráðin tímabundið í hálft starf kynningarfulltrúa, að hún „héldi öllum [sínum] réttindum“. Hefur þessi staðhæfing stoð í vætti Sigurðar Karlssonar, sem á þeim tíma var varaformaður stjórnar stefnda og hafði verið falið að ræða við Félag íslenskra leikara ásamt Tómasi Zoega um endurskoðun samkomulagsins frá 1987. Hann bar að ætlunin hefði verið að ganga formlega frá ákvörðuninni en ósamkomulag í stjórninni hefði komið í veg fyrir það. Þá kvað Magnús Árni Skúlason, sem var á þessum tíma nýráðinn framkvæmdastjóri stefnda, það hafa komið í ljós að bókunin væri ekki í samræmi við munnlegt samkomulag við Félag íslenskra leikara um endurskoðun samningsins frá 1987, en hefði hún verið það „þá gat ég ekki litið á þetta öðruvísi en skuldbindingu.“ Í vætti Jóhanns Gunnars Jóhannssonar, þáverandi formanns, kom einnig fram að hefði ekki komið í ljós að samningurinn frá 1987 væri í uppnámi gagnvart öðrum starfsmönnum en bókunin snerti, þá hefðu þeir endilega viljað „standa við þessa bókun“. Ekki hefði tekist að leysa málið. Loks bar Tómas Zoega, sem var í stjórn stefnda haustið 2001, að útreikningar hafi verið gerðir varðandi hvaða útgjöld lífeyrisskuldbindingin gagnvart tilgreindum hópi hefði í för með sér. Hinum tímabundna ráðningarsamningi áfrýjanda var sagt upp með bréfi 30. apríl 2003 með mánaðar fyrirvara. Hinn 2. desember 2004 náði hún lágmarks eftirlaunaaldri miðað við samninginn frá 1987, en skilyrði fyrir greiðslu eftirlauna samkvæmt honum var, að starfsmaður hefði verið fastráðinn hjá stefnda síðustu fimm árin áður en látið var af störfum.
Samkvæmt vætti Sigurðar Karlssonar var einum nafngreindra starfsmanna send bókunin frá 20. nóvember 2001 með uppsagnarbréfi. Á stjórnarfundi stefnda 18. desember 2001 vakti framkvæmdastjóri félagsins athygli stjórnarmanna á því að með samþykkt sinni um að „tryggja rétt eldri félagsmanna til lífeyrisgreiðslna skv. samkomulagi LR og FÍL hefði eðli skuldbindingarinnar breyst úr því að vera vilnun í því (svo) að vera skuldbinding sem yrði væntanlega gjaldfærð og færð til skuldar.“ Á aðalfundi stefnda í maí 2002 kynnti formaður félagsins samþykktina frá 20. nóvember 2001 og upplýsti að þessi lífeyrisskuldbinding hljóðaði þá upp á 163 milljónir króna. Að gefnu tilefni las formaðurinn síðar á fundinum upp bréf sitt fyrir hönd stjórnar til heiðursfélaga þar sem einnig er greint frá samþykktinni og síðan segir: „Þessi ályktun tryggir lífeyrisréttindi þessa hóps sem annars voru réttindalaus og er aukakostnaður fyrir leikfélagið upp á 163 milljónir króna.“ Í árshlutareikningi janúar til júlí 2002 er samþykktin frá 20. nóvember 2001 tekin upp í skýringum og sagt í framhaldi að samkvæmt henni nemi „núvirtar eftirlaunaskuldbindingar LR [ ... ] 163 milljónum króna.“ Í greinargerð 9. október 2003 til samstarfsnefndar Leikfélags Reykjavíkur og Reykjavíkurborgar um horfur og framtíð rekstrar Leikfélags Reykjavíkur er í kafla um eftirlaunamál Leikfélags Reykjavíkur fjallað um samninginn frá 1987 og fundargerðir stjórnar frá árinu 2001 þar sem fjallað er um lífeyrisréttindi starfsmanna sem hefðu verið hjá félaginu í 20 ár eða lengur 31. desember 2001. Fram kemur að í kjölfar samþykktar stjórnar 20. nóvember 2001 hafi eftirlaunaskuldbindingum vegna nafngreindra fjórtán einstaklinga verið getið í skýringum með ársreikningi.
Samþykkt stjórnar stefnda frá 20. nóvember 2001 var ekki staðfest með samningi eða á annan formlegan hátt og er skýring þess sú, samkvæmt framburði framangreindra vitna, að ekki náðist samkomulag við Félag íslenskra leikara um endurskoðun samningsins frá 1987 um lífeyrisréttindi þeirra sem höfðu skemmri starfsaldur en nafngreindir fjórtán einstaklingar. Vitnið Þorsteinn S. Ásmundsson, sem ráðinn var framkvæmdastjóri stefnda frá 1. september 2003, bar einnig um umræður um endurskoðun samningsins frá 1987 og að honum hefði ekki verið slitið fyrr en 3. júní 2005. Hann sagði að enginn nyti eftirlauna á grundvelli bókunarinnar frá 20. nóvember 2001. Stefndi varð hins vegar ekki við áskorun undir rekstri málsins um að leggja fram gögn um þetta. Jafnframt sagði vitnið, að ef bókunin væri bindandi myndi félagið „með engu móti geta staðið það af sér og þessi 110 ára saga þess yrði þá væntanlega ekki mikið lengri.“ Á fundi stjórnar 29. september 2003 var hin umdeilda bókun afturkölluð með því að samþykkt var tillaga þar sem „lagt er til að stjórn taki tilbaka bókunina frá árinu 2001 varðandi 4 mánaða starfslokagreiðslur og eftirlaun (sjá fylgiskjal).“
Ákvörðun stjórnar stefnda frá 20. nóvember 2001 var viljayfirlýsing sem átt hafði talsverðan aðdraganda. Af málsgögnum verður ekki annað ráðið en að stjórninni hafi verið full alvara með samþykktinni og hafi ætlað að efna þá skuldbindingu sem í henni fólst. Fjórtán starfsmenn voru nafngreindir sem rétthafar samkvæmt henni, þar á meðal áfrýjandi. Var í annarri bókun tilgreint það réttindahlutfall sem þeir hefðu áunnið sér. Þrátt fyrir að samþykktin hafi ekki verið formlega kynnt áfrýjanda verður að líta svo á að hún hafi komist til vitundar hennar fyrir tilstilli stefnda og gefið henni tilefni til réttmætra væntinga um eftirlaunakjör sín. Nægir í því sambandi að líta til frásagnar formanns stefnda á aðalfundi 2002 og árshlutareiknings félagsins 2002. Var endurrit fundarins og árshlutareikningurinn öllum félagsmönnum aðgengilegur. Skýrsla formannsins var yfirlýsing sem fól í sér bindandi loforð stefnda til handa áfrýjanda, án tillits til þess hvort hún var sjálf viðstödd á fundinum. Af þessari ástæðu og með hliðsjón af öðrum gögnum sem styðja að loforð það, sem fólst í samþykkt stjórnar stefnda 20. nóvember 2001, hafi komist til vitundar áfrýjanda fyrir tilstilli stefnda, ber að taka til greina kröfu áfrýjanda ásamt vöxtum og málskostnaði.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 20. apríl 2007.
Mál þetta, sem dómtekið var 23. mars sl., var höfðað 15. maí 2006 af Soffíu Jakobsdóttur, Grænuhlíð 18, Reykjavík, á hendur Leikfélagi Reykjavíkur, Listabraut 3, Reykjavík.
Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til greiðslu vangoldinna eftirlauna að fjárhæð 1.169.392 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 af 68.186 krónum frá 1. janúar 2005 til 1. febrúar sama ár, af 136.372 krónum frá þeim degi til 1. mars s.á., af 204.558 krónum frá þeim degi til 1. apríl s.á., af 272.744 krónum frá þeim degi til 1. maí s.á., af 340.930 krónum frá þeim degi til 1. júní s.á., af 409.116 krónum frá þeim degi til 1. júlí s.á., af 477.302 krónum frá þeim degi til 1. ágúst s.á., af 545.488 krónum frá þeim degi til 1. september s.á., af 613.674 krónum frá þeim degi til 1. október s.á., af 681.860 krónum frá þeim degi til 1. nóvember s.á., af 750.046 krónum frá þeim degi til 1. desember s.á., af 818.232 krónum frá þeim degi til 1. janúar 2006, af 888.464 krónum frá þeim degi til 1. febrúar s.á., af 958.696 krónum frá þeim degi til 1. mars s.á., af 1.028.928 krónum frá þeim degi til 1. apríl s.á., af 1.099.160 krónum frá þeim degi til 1. maí s.á. og loks af 1.169.392 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Jafnframt er þess krafist að dráttarvextir leggist við höfuðstól á 12 mánaða fresti samkvæmt 12. gr. laga nr. 38/2001, í fyrsta skipti 1. janúar 2006. Þá er krafist málskostnaðar að skaðlausu að mati réttarins auk álags er nemi virðisaukaskatti af honum.
Af hálfu stefnda er krafist sýknu af öllum kröfum stefnanda. Jafnframt er af stefnda hálfu krafist málskostnaðar að skaðlausu að mati dómsins auk álags á málskostnað er nemi virðisaukaskatti.
Yfirlit málsatvika og ágreiningsefna
Stefndi var lausráðinn leikari hjá stefnda árið 1967 og fastráðin frá árinu 1977 þar til henni var sagt upp störfum í nóvember 2001. Hún var þá ráðin tímabundið sem kynningarfulltrúi í hálft starf en því starfi gegndi hún til ársins 2003.
Stefnandi vísar til þess að gert hafi verið samkomulag milli stefnda og Félags íslenskra leikara 22. júní 1987 um eftirlaunagreiðslur til félagsmanna þess síðarnefnda. Í 1. gr. samkomulagsins er kveðið á um það að stefndi greiði félagsmönnum eftirlaun samkvæmt samkomulaginu eftir að þeir láti af störfum vegna aldurs, að því tilskildu að þeir hafi verið fastráðnir hjá stefnda í 15 ár eða lengur, þar með talin síðustu fimm árin áður en þeir láti af störfum. Í 2. gr. samkomulagsins segir að félagsmenn sem falli undir 1. gr. skuli láta af störfum við 70 ára aldur og eftir það fá greidd eftirlaun frá stefnda samkvæmt samkomulaginu. Heimilt sé þó, ef viðkomandi kýs, að láta af störfum allt að fimm árum fyrr, eða þegar 65 ára aldri er náð. Í samkomulaginu er kveðið á um útreikning eftirlauna, þar á meðal um frádrátt fyrir hvert ár sem stefndi hafi greitt fullt iðgjald í lífeyrissjóð vegna viðkomandi starfsmanns. Þar er og ákvæði um endurskoðun samkomulagsins en um það segir að samkomulagið skuli tekið til endurskoðunar með hliðsjón af breytingum á almennum lífeyrisréttindum í landinu hvenær sem annar hvor samningsaðila óski þess með þriggja mánaða fyrirvara. Slík endurskoðun skuli þó ekki skerða rétt þeirra sem látið hafi af störfum þegar endurskoðunar er óskað.
Haustið 2001 hófust umræður hjá stefnda um að endurskoða þyrfti samkomulagið. Á stjórnarfundi hjá stefnda 20. september það ár kom fram að stjórnarformaður, leikhússtjóri og framkvæmdastjóri hefðu átt fund með borgarstjóra sem hefði lýst vilja sínum til að skoða starfsloka- og lífeyrismál starfsmanna stefnda. Í fundargerð segir að fram hafi komið hjá einum stjórnarmanna að hann teldi brýnt að samráðsnefnd stefnda og Félags íslenskra leikara lyki sem fyrst störfum. Einnig að hann hafi rætt um félagslegar skyldur stefnda við fastráðna starfsmenn í ljósi tillagna framkvæmdastjóra um uppsagnir starfsfólks, sérstaklega í ljósi starfsöryggis eldri starfsmanna. Fram hafi farið umræður um það hvort mögulegt væri að setja nokkra starfsmenn í hlutastörf.
Á stjórnarfundi hjá stefnda 22. október sama ár var hagræðing í starfsmannahaldi rædd. Fram kom að niðurstaða samstarfsnefndar stefnda og Félags íslenskra leikara hefði verið sú að heimilt væri að ráða leikara í hlutastarf. Einnig að samstaða hefði verið innan nefndarinnar um að vegna aukinna og tryggari lífeyrisréttinda leikara ætti samkomulagið frá júní 1987 ekki við nema í þeim tilfellum þar sem leikarar ættu yfir 20 ára starfsaldur að baki. Bent var á að e.t.v. væri rökrétt, miðað við eðli starfs leikara, að lækka eftirlaunaaldur leikara niður í 60 til 62 ára aldur og e.t.v. ætti að taka upp viðræður við Söfnunarsjóð lífeyrisréttinda um það málefni. Þá kemur fram í fundargerð að mikil umræða hafi skapast um siðferðilega skyldu stefnda gagnvart þeim leikurum sem starfað hefðu í yfir 20 ár hjá stefnda og lagt mikið af mörkum til uppbyggingar stefnda á liðnum áratugum, m.a. byggingu Borgarleikhússins.
Á stjórnarfundi 29. október s.á. voru ræddar tillögur um fjárhagslega endurskipulagningu og sparnað í rekstri stefnda og á stjórnarfundi 12. nóvember voru lögð fram og kynnt drög stjórnarmanns að samþykktum um lífeyrisgreiðslur við starfslok og að bókunum varðandi rekstur stefnda og breytta stefnu um starfsráðningar.
Á stjórnarfundi 14. nóvember var lögð fram tillaga stjórnarformanns að samþykkt um starfslok félaga sem hefðu 20 ára eða lengri starfsreynslu, en fram kemur í fundargerð að tillagan hafi verið rædd og samþykkt að boða til næsta fundar 16. nóvember þar sem framangreindar tillögur frá 12. og 14. nóvember og málefni þeim tengd yrðu áfram til umræðu.
Á stjórnarfundi 16. nóvember var lögð fram tillaga stjórnarformanns að samþykkt um starfslok félaga sem hefðu 20 ára eða lengri starfsreynslu. Í þeirri tillögu er til viðbótar því sem fram kemur í fyrri tillögu frá 14. nóvember, um launagreiðslur ef til uppsagnar komi, tekið fram að allir innan hópsins sem um ræði muni halda áunnum lífeyrisréttindum. Lagðar voru fram tillögur um sama efni á stjórnarfundi 19. nóvember og á stjórnarfundi 20. nóvember, sem stjórnarformaður og tveir stjórnarmenn sátu, var samþykkt svohljóðandi tillaga stjórnarformanns með tveimur atkvæðum gegn einu: „Starfsmenn Leikfélags Reykjavíkur ses, sem fastráðnir hafa verið hjá félaginu í 20 ár eða lengur og hafa áunnið sér lífeyrisréttindi á grundvelli samkomulags LR og FÍL frá 1987, skulu njóta lífeyris sem nemur því réttindahlutfalli sem þeir hafa áunnið sér til 31. desember 2001. Við starfslok þeirra sem fastráðnir hafa verið hjá Leikfélagi Reykjavíkur í 20 ár eða lengur þann 31. desember 2001, hvort sem er að frumkvæði starfsmanns eða Leikfélags Reykjavíkur ses, skal greiða starfsmanni full laun án starfsskyldu í 4 mánuði frá lokum uppsagnarfrests að telja. Heimilt er leikhússtjóra og framkvæmdastjóra að ræða við starfsmenn um breytt starfshlutfall eða verksvið og hvaðeina annað sem stuðla kann að aukinni hagkvæmni.“
Í fundargerð 26. nóvember s.á. kemur fram að vinnureglur vegna samkomulags stefnda og Félags íslenskra leikara um lífeyrissjóðsmál hafi verið kynnt leikhússtjóra og framkvæmdastjóra en það hafi verið samþykkt á síðasta stjórnarfundi.
Með bréfi leikhússtjóra 28. nóvember s.á. var stefnanda sagt upp störfum sem leikara hjá stefnda frá næstu mánaðamótum að telja með sex mánaða uppsagnarfresti. Sama dag var gerður tímabundinn ráðningarsamningur við stefnanda.
Á stjórnarfundi 18. desember s.á. vakti framkvæmdastjóri athygli stjórnarmanna á því að með samþykkt sinni um að tryggja rétt eldri félagsmanna til lífeyrisgreiðslna samkvæmt samkomulagi stefnda og Félags íslenskra leikara hefði eðli skuldbindingarinnar breyst úr því að vera vilnun í að vera skuldbinding sem yrði væntanlega gjaldfærð og færð til skuldar. Framkvæmdastjóri lagði til að hann ræddi þessi mál við endurskoðanda en stjórnin fól honum að uppreikna lífeyrissjóðsskuldbindingu félagsins og ræða þau mál við endurskoðanda félagsins í tengslum við ársuppgjör félagsins fyrir árið 2001.
Stefnanda var tilkynnt með bréfi stefnda 30. apríl 2003 að tímabundinn ráðningarsamningur hennar frá 28. nóvember 2001 félli úr gildi 31. maí sama ár og yrði ekki endurnýjaður. Lauk þar með störfum stefnanda hjá stefnda.
Á stjórnarfundi hjá stefnda 29. september 2003 var samþykkt tillaga, sem fram kom á fundinum, um að stjórn stefnda tæki til baka bókunina frá árinu 2001 um fjögurra mánaða starfslokagreiðslur og eftirlaun. Sú skoðun kom fram á fundinum að samkomulag um eftirlaunagreiðslur frá árinu 1987 væri enn í gildi. Þá kom fram að þetta samkomulag hefði verið gert við Félag íslenskra leikara og að félagið þyrfti að koma að þessu máli. Fram kom einnig að reynt hefði verið nokkrum sinnum að ganga frá samkomulaginu frá 1987 en því hafi aldrei verið lokið.
Samningur var gerður 3. júní 2005 milli stefnda og Félags íslenskra leikara um eftirlaunagreiðslur til félagsmanna. Í 1. gr. samningsins segir að með honum sé fellt úr gildi með endanlegum hætti samkomulag aðila um eftirlaunagreiðslur félagsmanna frá 22. júní 1987. Í 2. mgr. samningsins kemur fram að aðilar séu sammála um að uppsöfnun eftirlaunaréttar samkvæmt samkomulaginu hafi fallið niður og engin orðið frá 1. janúar 2001 að telja er stefndi hafi hafið greiðslu viðbótarlífeyrissparnaðar samkvæmt kjarasamningi. Uppsöfnun réttinda fyrir þann tíma fari að öðru leyti eftir ákvæðum samkomulagsins. Eftirlaunamál þeirra félagsmanna, sem hefðu áunnið sér rétt samkvæmt samkomulaginu fyrir 1. janúar 2001 og uppfylltu að öðru leyti skilyrði samkomulagsins til að njóta eftirlaunagreiðslna, skuli stefndi leita leiða til að leysa með samningum við hvern viðkomandi félagsmann sérstaklega. Við gerð slíkra samninga verði þó höfð í huga þau grundvallaratriði sem komi fram í bókun með samningnum. Í bókuninni eru talin upp ákveðin atriði sem samningsaðilar séu sammála um að verði höfð til hliðsjónar við gerð samninga milli stefnda og viðkomandi félagsmanna samkvæmt samningnum um eftirlaunagreiðslur til félagsmanna. Einnig kemur þar fram að bókunin verði til leiðbeiningar við túlkun og frekari samskipti milli félaganna og/eða félagsmanna um eftirlaunamál.
Stefnandi telur að hún hafi áunnið sér rétt til eftirlaunagreiðslu úr hendi stefnda samkvæmt samkomulaginu frá árinu 1987 þegar hún lét af störfum sem leikari 1. júní 2002. Samkomulagið hafi ekki verið fellt úr gildi með endanlegum hætti fyrr en 3. júní 2005 þegar nýr samningur var gerður milli stefnda og Félags íslenskra leikara um eftirlaunagreiðslur til félagsmanna í félaginu. Samkvæmt ótvíræðu orðalagi samþykktar stefnda 20. nóvember 2001 skuli stefnandi njóta lífeyris er nemi því réttindahlutalli sem hún hefði áunnið sér 31. desember það ár.
Af hálfu stefnda er því haldið fram að þessi bókun stefnda frá 2001 hafi verið einhliða og í henni hafi enginn sérstakur samningur eða loforð falist. Bókunin hafi verið felld úr gildi 29. september 2003 og er því mótmælt af stefnda hálfu að honum hafi verið óheimilt að fella bókunina úr gildi. Auk þess uppfylli stefnandi ekki skilyrði samkomulagsins frá 1987 og eigi þar með ekki rétt á eftirlaunum samkvæmt því. Við munnlegan málflutning var af hálfu stefnda fallið frá varakröfu, sem fram kemur í greinargerð, um verulega lækkun á kröfu stefnanda.
Málsástæður og lagarök stefnanda
Stefnandi vísar til þess að hún hafi verið starfsmaður stefnda allt frá árinu 1967 sem lausráðinn leikari, en á árinu 1977 hafi hún verið fastráðin hjá félaginu. Í byrjun árs 2002 hafi stefnandi verið færð til í starfi, er henni var sagt upp starfi sem leikara, en þá hafi hún verið ráðin tímabundið sem kynningarfulltrúi í hálft starf. Stefnanda hafi svo verið tilkynnt bréflega vorið 2003 að tímabundin ráðning hennar sem kynningarfulltrúa yrði ekki endurnýjuð.
Í upphafi níunda áratugar síðustu aldar hafi verið talsverðar umræður meðal leikara hjá stefnda um þann mun sem hafi verið á eftirlaunaréttindum leikara hjá stefnda og leikara Þjóðleikhússins en þeir síðarnefndu hafi notið eftirlaunaréttar sem opinberir starfsmenn. Þessar umræður hafi meðal annars átt sér stað á félagsfundum stefnda, í deild Félags íslenskra leikara hjá stefnda og á fundum Lífeyrissjóðs Félags íslenskra leikara. Þessar umræður hafi einkum snúist um það með hvaða hætti væri hægt að jafna þann mikla mun sem hafi verið á eftirlaunarétti leikara stefnda og Þjóðleikhússins. Eftir umræður um málið í nokkur ár hafi tekið að þróast hugmynd um sérstakan eftirlaunasamning milli stefnda og Félags íslenskra leikara um aukinn eftirlaunarétt, sem tryggt gæti leikurum stefnda svipuð eftirlaunakjör og leikarar Þjóðleikhússins hafi notið á þeim tíma. Í samningaviðræðum milli stefnda og Félags íslenskra leikara hafi svo að lokum orðið til samkomulag um eftirlaunagreiðslur til félagsmanna Félags íslenskra leikara 22. júní 1987. Auk framangreinds tilgangs samkomulagsins hafi sú hugsun legið því til grundvallar að með þessu móti yrði hægt að gera starfsmönnum kleift að fara af föstum samningi í síðasta lagi við 70 ára aldur og jafnvel á aldrinum 65-70 ára.
Það hafi svo verið haustið 2001 sem farið var að ræða um að ástæða væri til, með hliðsjón af þeim breytingum sem þá hefðu orðið á lífeyrismálum almennt, að endurskoða samkomulagið og hætta að reikna mönnum eftirlaunarétt samkvæmt því. Aldrei hafi þó komið til tals innan stjórnar stefnda að skerða þau réttindi sem starfsmenn hefðu þegar áunnið sér. Samþykkt stjórnar stefnda um starfslok og eftirlaunaréttindi frá 20. nóvember 2001 hafi átt sér verulegan aðdraganda eins og meðal annars megi sjá af fundargerðum fjögurra stjórnarfunda stefnda dagana 12. til 19. nóvember sama ár. Ljóst sé að þessir stjórnarfundir hafi fyrst og fremst snúist um starfslok þeirra sem hefðu hvað lengstan starfsaldur og í loftinu lá að yrði sagt upp störfum á næstu mánuðum og misserum. Einnig hafi komið fram á stjórnarfundunum að alls ekki hafi verið ætlunin að skerða áunnin eftirlaunaréttindi.
Í samþykkt stjórnarinnar 20. nóvember 2001 segi orðrétt: „Starfsmenn Leikfélags Reykjavíkur ses, sem fastráðnir hafa verið hjá félaginu í 20 ár eða lengur og hafa áunnið sér lífeyrisréttindi á grundvelli samkomulags LR og FÍL frá 1987, skulu njóta lífeyris sem nemur því réttindahlutfalli sem þeir hafa áunnið sér til 31. desember 2001.“ Í lok árs 2001 hefði stefnandi áunnið sér eftirlaunarétt sem nemi 24% af launum leikara í sínum launaflokki, þ.e. efsta flokki, samkvæmt samkomulaginu sem gert var milli FÍL og stefnda 22. júní 1987. Þetta réttindahlutfall sé viðurkennt af stefnda.
Stefnandi hafi fengið uppsagnarbréf frá stefnda 28. nóvember 2001, eða 8 dögum eftir að fyrrnefnd samþykkt stjórnar stefnda var gerð, þar sem henni hafi verið sagt upp störfum sem leikara. Í kjölfarið hafi hún verið ráðin tímabundið sem kynningarfulltrúi í hálft starf, en sá samningur hafi ekki verið endurnýjaður, eins og fram komi í bréfi 30. apríl 2003. Stefnandi hafi ritaði stjórn og framkvæmdastjóra stefnda bréf 14. nóvember 2004 og óskað eftir greiðslu eftirlauna samkvæmt samkomulaginu frá 1987 frá og með 65 ára aldri, sem hún hafi náð 2. desember 2004. Stefnandi hafi í bréfi sínu vísað til framangreindrar samþykktar stjórnar stefnda frá 20. nóvember 2001 um eftirlaunarétt þeirra starfsmanna sem fastráðnir hefðu verið hjá félaginu í 20 ár eða lengur. Þessu bréfi hafi ekki verið svarað og hafi hún því leitað til lögmanns sem hafi sent innheimtubréf til stefnda fyrir hönd stefnanda 22. nóvember 2005, þar sem skorað hafi verið á stefnda að koma kröfu stefnanda þegar í skil, en að öðrum kosti áskilinn réttur til að leita atbeina dómstóla til heimtu kröfunnar. Í svarbréfi lögmanns stefnda 30. nóvember s.á. hafi kröfu stefnanda verið hafnað. Í bréfinu segi einnig að stofnaður hafi verið sérstakur eftirlaunasjóður stefnda með samþykkt 22. nóvember það ár og að stefnanda hafi verið boðin aðild að þeim eftirlaunasjóði. Stefnandi hafi, ásamt fleiri fyrrverandi starfsmönnum stefnda, svarað hugmyndum um stofnun eftirlaunasjóðs og skerðingu á eftirlaunaréttindum starfsmanna í því sambandi með bréfi til framhaldsaðalfundar stefnda 8. nóvember s.á., þar sem hugmyndum stjórnar stefnda hafi afdráttarlaust verið hafnað. Stefnandi hafi ekki komið nærri afgreiðslu þess máls að öðru leyti og telji sig algjörlega óbundna af síðari samþykkt félagsins um eftirlaunasjóð.
Þar sem kröfu stefnanda hafi endanlega verið hafnað af hálfu stefnda með framangreindu bréfi lögmanns stefnda, eigi stefnandi ekki annars úrkosta en að höfða mál þetta á hendur stefnda til heimtu kröfunnar sem sundurliðist með eftirfarandi hætti:
|
l. janúar 2005 |
68.186 krónur |
|
1. febrúar 2005 |
68.186 “ |
|
1. mars 2005 |
68.186 “ |
|
1. apríl 2005 |
68.186 “ |
|
l. maí 2005 |
68.186 “ |
|
1. júní 2005 |
68.186 “ |
|
1. júlí 2005 |
68.186 “ |
|
l. ágúst 2005 |
68.186 “ |
|
1. september 2005 |
68.186 “ |
|
1. október 2005 |
68.186 “ |
|
1. nóvember 2005 |
68.186 “ |
|
1. desember 2005 |
68.186 “ |
|
l. janúar 2006 |
70.232 “ |
|
1. febrúar 2006 |
70.232 “ |
|
l. mars 2006 |
70.232 “ |
|
1. apríl 2006 |
70.232 “ |
|
1. maí 2006 |
70.232 krónur |
|
Samtals |
1.169.392 krónur |
Samtals nemi dómkrafa stefnanda 1.169.392 krónum auk vaxta og kostnaðar. Frá 1. janúar 2005 til 1. desember s.á. sé mánaðarleg fjárhæð miðuð við 24% af 284.109 krónum, en frá 1. janúar 2006 til 1. maí s.á. sé fjárhæðin miðuð við 24% af 292.632 krónum, sbr. kjarasamning milli stefnda og Félags íslenskra leikara um kaup og kjör leikara. Innheimtuaðgerðir hafi ekki borið árangur og sé málssókn þessi því óhjákvæmileg.
Af hálfu stefnanda sé byggt á því að með samkomulaginu frá 1987 hafi komist á bindandi samningur um eftirlaunagreiðslur til þeirra félagsmanna sem uppfyllt hafi skilyrði samkomulagsins. Þegar stefnandi hafi látið af störfum 1. júní 2002 hefði hún verið fastráðin sem leikari hjá stefnda í 25 ár og því uppfyllt skilyrði 1. gr. samkomulagsins um greiðslu eftirlauna. Málatilbúnaður stefnanda byggi á meginreglunni um skuldbindingargildi samninga og að stefndi geti ekki með einhliða hætti afturkallað samkomulagið, sem hafi verið tvíhliða samkomulag og undirritað bæði af hálfu stefnda og Félags íslenskra leikar fyrir hönd leikara hjá stefnda. Samkomulag þetta hafi ekki verið fellt úr gildi með endanlegum hætti fyrr en 3. júní 2005, þegar nýr samningur hafi verið gerður um eftirlaunagreiðslur til félagsmanna. Stefnandi telji því ljóst samkvæmt ótvíræðu orðalagi samþykktar stjórnar stefnda frá 20. nóvember 2001, að stefnandi skuli njóta lífeyris sem nemi því réttindahlutfalli sem hún hefði áunnið sér til 31. desember 2001, eða 24% af launum leikara í hennar aldursflokki.
Í bréfi lögmanns stefnda 30. nóvember 2005 sé því haldið fram að forsendur bókunar stjórnar stefnda frá 20. nóvember 2001 hafi ekki staðist og því hafi bókunin verið felld niður. Stefnandi mótmæli því að stjórn stefnda geti með einhliða hætti fellt niður þessa samþykkt stjórnarinnar, auk þess sem því sé mótmælt sem ósönnuðu að samþykktin hafi yfirleitt verið felld niður. Hvað sem þessu líði telji stefnandi, að samþykktin hafi falið í sér loforð, sem sé bindandi og óafturkræft.
Loks byggi stefnandi á því að með því að greiða stefnanda ekki í samræmi við greint samkomulag sé brotið gegn einstaklingsbundnum eignarrétti stefnanda, sem varinn sé af 72. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944, sbr. 1. gr. samningsviðauka nr. 1 við mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, en slík réttindi verði ekki skert afturvirkt, hvorki með einhliða samþykkt stjórnar eða félagsfundar stefnda, né neins konar afskiptum fulltrúa Félags íslenskra leikara. Stefnandi telji ótvírætt að rétturinn til eftirlauna sé varinn af eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar. Samkvæmt víðtækustu skilgreiningu á eignarhugtakinu taki það til gæða sem hagsmunir, fjárhagslegir eða andlegir, væru tengdir. Rétturinn til eftirlauna falli því undir hugtakið eign í skilningi 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar. Slík eignarréttindi verði ekki skert nema að uppfylltum skilyrðum sem talin séu upp í stjórnarskrárákvæðinu, en ekki með einhliða aðgerðum stefnda.
Dómkrafa stefnanda sé vegna vangoldinna eftirlauna og styðjist við meginreglur samningaréttarins um skyldu til að efna samninga. Þá styðjist krafan jafnframt við 72. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 1. gr. samningsviðauka nr. 1 við mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, varðandi friðhelgi eignarréttarins. Krafa um dráttarvexti styðjist við reglur III. kafla laga nr. 38/2001 og krafan um málskostnað við 130. gr. laga nr. 91/1991, en krafa um virðisaukaskatt af honum styðjist við lög nr. 50/1988. Stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyld og beri því nauðsyn á að fá dóm fyrir skatti þessum úr hendi stefnda.
Málsástæður og lagarök stefnda
Stefndi kveðst ekki gera athugsemdir við þá þætti í málavaxtalýsingu stefnanda er lúti að starfi hennar og starfslokum hjá stefnda. Það sama eigi hins vegar ekki við um aðra þætti í málavaxtalýsingu hennar, einkum þá er lúti að forsendum og tilurð samkomulags um eftirlaunamál 22. júní 1987 og bókun stjórnar stefnda frá því í nóvember 2001.
Samkomulagið sem hér sé deilt um hafi verið gert á sínum tíma til þess að bæta lífeyrisstöðu þeirra starfsmanna stefnda sem hefðu ekki notið eðlilegrar lífeyrissöfnunar stærstan hluta starfsævi sinnar hjá stefnda. Um hafi verið að ræða þá starfsmenn sem hefðu starfað hjá stefnda um og eftir miðbik síðustu aldar og allt til þess tíma er stefndi hóf að greiða lögboðið framlag í lífeyrissjóð á árunum upp úr 1960. Á sama tímabili hefðu leikarar hjá Þjóðleikhúsinu notið lífeyrisréttinda og hafi þótt rétt að jafna þann mun með einhverjum hætti. Um þessar forsendur samkomulagsins hafi ekki verið ágreiningur milli stefnda og Félags íslenskra leikara.
Stefnandi hafi ekki verið hluti þessa tiltekna hóps, enda hafi hún verið þeirra kjara aðnjótandi, allan sinn starfsaldur hjá stefnda, að greitt var í lífeyrissjóð í hennar nafni lögum samkvæmt. Þegar af þeirri ástæðu sé því mótmælt að stefnandi hafi verið í hópi þeirra starfsmanna sem hafðir voru í huga í öndverðu er samkomulagið var gert. Þó efni samkomulagsins greini ekki þessar forsendur sé rétt að þetta verði haft í huga við úrlausn málsins.
Samkomulagið sem hér sé deilt um hafi verið gert af hálfu stefnda og Félags íslenskra leikara. Þetta samkomulag hafi verið harla óvenjulegt og falið í sér umtalsverðar skuldbindingar fyrir stefnda, umfram almennar skyldur vinnuveitanda og raunar einnig langt umfram fjárhagslegt bolmagn stefnda. Verulega hafi hallað á stefnda í samkomulaginu. Við gerð þess hafi alfarið skort að fjárhagslegar afleiðingar þess á rekstur stefnda til frambúðar væru kannaðar og enginn reki hafi verið gerður að því að tryggja stefnda fjármagn til að standa undir þeim skuldbindingum sem falist hafi í efni samkomulagsins. Skýringar á þessu kunni að felast í þeirri staðreynd að stjórnendur stefnda hafi á þeim tíma er samkomulagið var gert að einhverju leyti verið leikarar, félagsmenn í Félagi íslenskra leikara eða að öðru leyti tengdir málinu og hafi þannig sjálfir haft hagsmuna að gæta. Um þetta geti stefndi ekki fullyrt en spurningar sem þessar velti óneitanlega upp í ljósi þess hve óvenjulegt og íþyngjandi samkomulagið sé í raun. Eftir að samkomulagið var gert hafi þess hvergi verið getið í bókhaldi stefnda né verið brugðist við skuldbindingunum með öðrum hætti framan af.
Á árinu 2001 hafi téð samkomulag borið á góma í stjórn stefnda í tengslum við endurskipulagningu og hagræðingu í rekstri. Ljóst hafi verið að fella yrði samkomulagið úr gildi, enda tilvera þess löngu orðin tilefnislaus. Inn í þær umræður hafi fléttast fyrirætlaðar uppsagnir nokkurra starfsmanna stefnda, svo sem fram komi í fundargerðum stjórnar. Úr hafi orðið að þáverandi stjórn stefnda hafi samþykkt sérstaka bókun 20. nóvember, en í henni hafi fyrirætlunum stjórnar verið lýst, um það hvernig til stæði að efna samkomulagið á þeim tímapunkti. Þessi bókun hafi verið gerð í trausti þess og á grundvelli þeirrar forsendu stjórnar að þar með væri búið að fella samkomulagið endanlega úr gildi. Bókunin hafi vitaskuld verið einhliða og í henni hafi engin sérstakur samningur eða loforð falist. Efni hennar hafi hvorki verið birt opinberlega né kynnt sem sérstakt loforð fyrir stefnanda eða öðrum starfsmönnum stefnda. Þó stefnandi hafi hugsanlega fengið upplýsingar um það eftir öðrum leiðum hvað stjórnin hefði í hyggju þá breyti það engu um meint skuldbindingargildi bókunarinnar. Hafi það verið ætlun stjórnar að stofna til sérstakrar skuldbindingar hefði verið gert samkomulag um það við viðkomandi samningsaðila, þ.e. Félag íslenskra leikara. Það hafi ekki verið gert, enda ekki staðið til. Gagnstæð niðurstaða um meint skuldbindingargildi bókunarinnar sé ótæk með öllu enda myndi það valda því að hverjar þær ráðstafanir og/eða fyrirætlanir stjórnar lögpersónu sem rati inn í fundargerðarbók feli í sér bindandi loforð eða skuldbindingu gagnvart hverjum þeim sem tengdist málefninu og fái veður af ákvörðunum eða fyrirætlunum stjórnar með einhverjum hætti.
Því sé sérstaklega mótmælt að stjórn stefnda hafi verið óheimilt að fella þessa bókun úr gildi. Þvert á móti hafi henni verið það fullkomlega heimilt, ekki síst ef forsendur fyrir bókuninni brustu að mati stjórnarinnar og tilefni til þeirra fyrirætlana sem þar hafi verið lýst ekki lengur fyrir hendi. Fyrirætlanir stjórnarinnar hafi einfaldlega breyst. Á stjórnarfundi 29. september 2003 hafi bókunin verið felld úr gildi. Stefndi telji fráleitan þann málflutning stefnanda að stjórn stefnda á hverjum tíma geti ekki ráðið hagsmunum félagsins án tillits til bókana fyrri stjórna. í kjölfar þess að bókunin var felld úr gildi hafi tekið við endurskoðun samkomulagsins frá 1987 með fulltrúum Félags íslenskra leikara, svo sem boðið sé í 7. gr. þess. Afturköllun bókunarinnar hafi engum andmælum sætt, hvorki af hálfu Félags íslenskra leikara, stefnanda né annarra starfsmanna eða fyrrum starfsmanna stefnda. Í þinghaldi 5. desember 2006 var upplýst af hálfu stefnda að enginn þeirra sem taldir séu í áskorun stefnanda í stefnu njóti eða hafi notið eftirlaunagreiðslna á grundvelli samþykktar stjórnar stefnda frá 20. nóvember 2001.
Sú vinna við endurskoðun og brottfellingu samkomulagsins sem hófst á árinu 2001 hafi fyrst um sinn borið takmarkaðan árangur. Henni hafi þó lokið með því að gerður hafi verið samningur milli félaganna 3. júní 2005. Með honum hafi samkomulagið frá 1987 verið fellt úr gildi frá 1. janúar 2001 að telja. Við gerð samningsins hafi því verið sérstaklega slegið föstu að við ákvörðun hugsanlegs eftirlaunaréttar hvers starfsmanns yrði eingöngu miðað við efni og skilyrði samkomulagsins sjálfs frá 1987. Í málinu sé ekki deilt um heimild stefnda og Félags íslenskra leikara til að gera samninginn eða ráðstafa með öðrum hætti efni samkomulagsins. Stefnandi, sem og aðrir viðkomandi starfsmenn stefnda, hafi haft stöðu þriðja manns, en þeir hafi ekki verið aðilar samningsins.
Afdráttarlaus og ófrávíkjanleg skilyrði eftirlaunaréttar komi einkum fram í 1. gr. samkomulagsins. Þar segi að eftirlaunaréttur tilheyri þeim einum sem hafi verið fastráðnir hjá stefnda í a.m.k. 15 ár og þar af verið fastráðnir hjá stefnda síðustu 5 árin áður en látið er af störfum fyrir aldurs sakir. Í þessu felist það grundvallarskilyrði að kjósi starfsmaður að hefja töku eftirlauna á grundvelli samkomulagsins, t.d. við 65 ára aldur, þurfi hann að vera fastráðinn síðustu 5 árin fyrir það, þ.e. frá 60 til 65 ára aldurs. Stefnandi uppfylli ekki þetta skilyrði og eigi því ekki rétt á eftirlaunum. Málatilbúnaður stefnanda, sem sé í grundvallaratriðum byggður á skuldbindingagildi samkomulagsins sjálfs, eigi því ekki við rök að styðjast.
Í 7. gr. samkomulagsins, þ.e. endurskoðunarákvæði þess, sé sérstaklega tekið fram að endurskoðun þess megi ekki skerða rétt þeirra sem þegar hafa látið af störfum og hafið töku eftirlauna á þeim tíma sem endurskoðunar sé óskað. Þessi skilningur hafi sérstaklega verið áréttaður í sameiginlegri bókun stefnda og Félags íslenskra leikara á árinu 2005. Gagnályktun frá þessu sé sjálfsögð og leiði til þess að endurskoðun á eftirlaunarétti þeirra starfsmanna sem ekki voru byrjaðir að fá eftirlaun, stefnanda þar á meðal, væri fullkomlega heimil.
Svo sem fram komi í samningnum frá 30. júní 2005, bæði honum sjálfum og viðfestri bókun, hafi verið samið um að stefndi myndi gera sérstaka samninga við hvern og einn þeirra starfsmanna sinna sem gátu yfir höfuð átt eftirlaunarétt samkvæmt upphaflega samkomulaginu. Breyti þetta engu, nema því aðeins að þetta sýni annars vegar fram á að meintur eftirlaunaréttur hafi verið óviss og bundinn sérstökum forsendum í tilviki hvers starfsmanns og hins vegar að viðkomandi starfsmenn stefnda ættu ekki beina aðild að samningnum. Í bókuninni með samningnum komi einnig fram sá gagnkvæmi skilningur aðilanna að taka yrði tillit til fjárhaglegrar stöðu stefnda, þ.e. að stefndi gæti staðið við eftirlaunaskuldbindingar sínar. Falli óskertar eftirlaunaskuldbindingar allra sem gert hafi kröfu á stefnda muni það væntanlega leiða til gjaldþrots þessa rúmlega hundrað ára gamla félagsskapar.
Eftir árangurslausar tilraunir stefnda til að ná samningum um eftirlaunamál við starfsmenn hafi verið gripið til þess ráðs að leggja fyrir aðalfund stefnda tillögu um stofnun sjálfstæðs eftirlaunasjóðs, sem standa myndi undir svo miklum eftirlaunaskuldbindingum sem frekast væri unnt. Við stofnun sjóðsins hafi stjórn stefnda haft náið samráð við endurskoðanda stefnda og aflað að auki tryggingafræðilegra útreikninga í því skyni að leggja eins mikið fjármagn og frekast var unnt úr rekstrinum inn í téðan eftirlaunasjóð. Fjárhagslegt bolmagn stefnda hafi hins vegar ekki verið meira en svo að eftirlaunaréttur úr sjóðnum hafi orðið að sæta skerðingu. Skemmst sé frá því að segja að stofnun sjóðsins hafi mælst misvel fyrir þó flestir félagsmanna hafi áttað sig á því að með þessu væri gengið eins langt og hægt var og fjárhagur stefnda leyfði. Stofnun sjóðsins hafi því verið samþykkt á framhaldsaðalfundi stefnda 22. nóvember 2005. Sjóðurinn hafi tekið til starfa og greiðsla eftirlauna til þeirra sem eigi aðild og hafi leitað til sjóðsins sé þegar hafin.
Þrátt fyrir að skilyrði eftirlaunaréttar væru ekki fyrir hendi hjá tilteknum hópi fyrrum starfsmanna, þ.m.t. stefnanda, hafi stjórn stefnda ákveðið að bjóða þessum hópi aðild að sjóðnum og þeim réttindum sem þar stæðu til boða. Þetta hafi verið gert með þeim fyrirvara að í þessu fælist engin viðurkenning á eftirlaunaréttinum almennt, heldur eingöngu um að ræða útspil af hálfu stjórnar stefnda til að skapa frið og sátt innan félagsins, eins og fram komi, t.d. í bréfi stefnda til lögmanns stefnanda 30. nóvember 2005. Stefnandi hafi ekki sinnt því að sækja þau eftirlaun sem henni standi til boða frá sjóðnum.
Hinn umdeildi eftirlaunaréttur stefnanda verði á engan hátt byggður á samningi sem gerður hafi verið milli málsaðila. Téður eftirlaunaréttur sé hvorki hluti af kjarasamningi Félags íslenskra leikara og stefnda né ráðningarsamnings stefnanda. Það sé væntanlega óumdeilt og leiði af eðli máls að endurskoðun og/eða brottfellingu samkomulagsins, sem stefnandi vísi til, hafi átt að ákveða milli upphaflegu samningsaðilanna, þ.e. stefnda og félagsins.
Málsástæðum stefnanda um meint brot stefnda á eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar, sbr. 72. gr. laga nr. 33/1944, og ákvæði laga um mannréttindasáttmála Evrópu nr. 62/1994 sé harðlega mótmælt. Stefndi telji raunar vandséð að ákvæði mannréttindasáttmálans eigi hér við. Hvað sem því líði sé þessi málatilbúnaður stefnanda fráleitur í heild sinni. Hinn umdeildi eftirlaunaréttur sé eingöngu byggður á samkomulaginu frá 1987 og samkomulagið sjálft beri með sér að sá réttur sé háður ýmsum ókomnum skilyrðum sem, eðli málsins samkvæmt, ráði því alfarið hvort rétturinn sé fyrir hendi eða ekki. Falli rétturinn niður sökum þess að skilyrðum samkomulagsins sé ekki fullnægt geti trauðla verið um sviptingu eignarréttar að ræða eins og stefnandi haldi fram. Einnig sé afar skýrt í samkomulaginu að endurskoðun þess sé heimil, jafnvel þótt það feli í sér hugsanlega lækkun eða brottfall réttinda þeirra sem ekki hafi hafið töku lífeyris þegar endurskoðunar sé óskað. Hér sem endranær geri samkomulagið sjálft ráð fyrir því að rétturinn geti tekið breytingum, jafnvel fallið niður hvenær sem er, svo lengi sem eftirlaunagreiðslur hafi ekki hafist. Að þessu athuguðu sé ljóst að samkomulagið, sem stefnandi telji að beri með sér eignarheimild eða eignarrétt hennar, sé sjálft bundið slíkum takmörkunum að um stjórnarskrárvarinn eignarrétt geti ekki verið að ræða.
Stefndi byggi jafnframt á því að horfa verði til þess afar sérstaka eðlis eftirlaunaréttarins sem hér sé um að tefla. Þannig sé þessi ávinningur eða uppsöfnun eftirlaunaréttar á engan hátt sambærileg því sem gerist t.d. við uppsöfnun réttinda í lífeyrissjóði eða aðra raunverulega uppsöfnun eigna. Hér sé engin greiðsla eða áþreifanleg eign lögð til hliðar eða færð til ávöxtunar. Engin eign hafi verið tekin úr hendi starfsmannsins og færð til varðveislu sérstaks aðila. Uppsöfnun réttinda hér byggðist á því að hlutfall tekna á einhverju síðara tímamarki, eftir að eftirlaunaaldri er náð, hækki til samræmis við starfsaldur. Ýmis dæmi séu um uppsöfnun réttinda með þessum hætti, ekki síst í ráðningarsamböndum, þar sem ekki sé um að ræða eign heldur réttindi sem geti orðið til eða fallið niður við tiltekin atvik án þess að í því felist ólögmæt upptaka eigna eða annars konar stjórnarskrárbrot.
Dráttarvaxtakröfu stefnanda sé sérstaklega mótmælt. Eins og atvikum sé háttað, að greiðsluskylda stefnda sé óljós og í raun afar vafasöm, telji stefndi að dæma beri dráttarvexti í fyrsta lagi frá því að dómur gengur ellegar frá því að málið var höfðað. Að auki sé áréttað að stefnandi hafi ekki sinnt því að sækja þann eftirlaunarétt sem henni bjóðist úr áðurnefndum eftirlaunasjóði.
Stefndi byggir kröfur sínar á almennum reglum fjármunaréttarins, kröfuréttar og samningaréttar. Þá byggi stefndi á ákvæðum stjórnarskrárinnar, sbr. lög nr. 33/1944, auk ákvæða laga nr. 62/1994 eftir því sem við eigi. Jafnframt sé byggt á ákvæðum laga nr. 33/1999 um sjálfseignarstofnanir, ákvæðum laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu og ákvæðum laga nr. 91/1991 um réttarfar og málskostnað, en sú krafa sé sérstaklega byggð á ákvæðum XXI. kafla síðastnefndra laga. Krafa um virðisaukaskatt á málskostnað sé byggð á ákvæðum laga nr. 50/1988, en stefndi hafi ekki með höndum virðisaukaskattskylda starfsemi og beri því nauðsyn til að fá dóm fyrir virðisaukaskatti úr hendi stefnanda.
Niðurstaða
Samkomulagið milli stefnda og Félags íslenskra leikara frá 22. júní 1987, sem vísað er til af hálfu stefnanda, veitti félagsmönnum þann rétt að fá greidd eftirlaun þegar þeir létu af störfum við ákveðinn aldur, eins og nánar greinir í samkomulaginu. Stefnandi hafði ekki náð þeim aldri þegar hún lét af störfum hjá stefnda eins og hér að framan hefur komið fram. Í samkomulaginu eru engin ákvæði um rétt til eftirlauna þeirra sem hætta störfum fyrir tiltekinn aldur nema ef félagsmaður verður ófær um að gegna starfi sínu af heilsufarsástæðum, en þá sé heimilt að hefja greiðslu eftirlauna fyrr en ella, enda verði um það samkomulag milli aðila samkomulagsins.
Krafa stefnanda í málinu er reist á því að ótvírætt orðalag samþykktar á stjórnarfundi stefnda 20. nóvember 2001 veiti henni þann rétt að hún skuli njóta lífeyris sem nemi því réttindahlutfalli sem hún hefði áunnið sér 31. desember það ár, eða 24% af launum leikara í hennar launaflokki. Í samþykktinni segir að starfsmenn stefndu, sem hefðu verið fastráðnir hjá félaginu í 20 ár eða lengur og hefðu áunnið sér lífeyrisréttindi á grundvelli samkomulags stefnda og Félags íslenskra leikara frá 1987, skyldu njóta lífeyris sem nemi því réttindahlutfalli sem þeir hefðu áunnið sér til 31. desember 2001. Af hálfu stefnda er því haldið fram að enginn njóti eftirlauna á grundvelli þessarar samþykktar nema þeir sem hafi uppfyllt skilyrði samkomulagsins frá 1987. Samþykktinni hafi ekki verið beint til félagsmanna og hún hafi aldrei komið til framkvæmda enda hafi hún ekki haft skuldbindingargildi fyrir stefnda og hafi verið felld úr gildi á stjórnarfundi 29. september 2003. Við úrlausn á því hvort stefnandi eigi þá kröfu á hendur stefnda sem hún gerir í málinu og á þeim grundvelli sem hún byggir kröfuna á reynir á hvort samþykktin hafi skuldbindingargildi fyrir stefnda í þessu sambandi.
Stefnandi átti enga aðild að samþykkt stefnda 20. nóvember 2001. Ekki kemur heldur fram í gögnum málsins og ekki verður séð að á því sé byggt í málinu að Félag íslenskra leikara ætti aðild að samþykktinni. Ekki verður á þá málsástæðu stefnanda fallist að með samþykktinni hafi komist á skuldbindandi samningur sem stefnda beri að efna við stefnanda. Við úrlausn málsins verður því að leggja til grundvallar að þarna hafi verið um einhliða yfirlýsingu að ræða af hálfu stefnda sem var síðan felld úr gildi á stjórnarfundi stefnda 29. september 2003 og að stefnda hafi verið það heimilt. Verður samþykktin því ekki talin skuldbindandi fyrir stefnda á þann hátt að stefnandi geti byggt rétt á henni til þeirrar eftirlaunakröfu sem hún gerir á hendur stefnda í málinu. Krafa stefnanda nýtur því ekki lögverndar og verður þar með ekki talin til eignar sem vernduð er af stjórnarskránni eins og stefnandi heldur fram. Ber því þegar af framangreindum ástæðum að sýkna stefnda af kröfu stefnanda í málinu.
Með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 þykir rétt að málskostnaður falli niður.
Dóminn kvað upp Sigríður Ingvarsdóttir héraðsdómari.
DÓMSORÐ:
Stefnda, Leikfélag Reykjavíkur, er sýknað af kröfum stefnanda, Soffíu Jakobsdóttur, í máli þessu.
Málskostnaður fellur niður.