Hæstiréttur íslands
Nr. 2024-39
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Húsfélag
- Sameign
- Fjöleignarhús
- Gagnkrafa
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Björg Thorarensen og Karl Axelsson.
2. Með beiðni 21. mars 2024 leitar Gagnastjórnun ehf. leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 23. febrúar sama ár í máli nr. 707/2022: Gagnastjórnun ehf. gegn Auðbrekku 2, húsfélagi. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.
3. Mál þetta lýtur að kröfu gagnaðila um greiðslu 5.482.470 króna ásamt nánar tilgreindum vöxtum. Krafan er vegna viðgerða á íbúðarhúsnæði að Auðbrekku 2, matshluta 2. Ágreiningur málsins snýst um afmörkun á hugtakinu húsi í skilningi laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús og hvort fasteign leyfisbeiðanda teljist hluti af sama húsi og íbúðarhúsnæðið í matshluta 2.
4. Í dómi Landsréttar þótti ekki sýnt fram á að ósanngjarnt og óeðlilegt væri að leyfisbeiðandi tæki þátt í kostnaði við þakviðgerðir. Á hinn bóginn var gagnkrafa leyfisbeiðanda til skuldajafnaðar vegna nýlegs viðhalds á eignarhluta hans tekin til greina. Við afmörkun á hugtakinu húsi var rakið að leyfisbeiðandi hefði ekki byggt á því í málinu að allir matshlutar Auðbrekku 2 teldust eitt hús í skilningi laga nr. 26/1994. Gat því eingöngu komið til úrlausnar hvort fasteign leyfisbeiðanda teldist vera hluti af sama húsi og íbúðarhúsnæðið í matshluta 2. Við úrlausn málsins var meðal annars litið til þess að þak íbúðarhúsnæðisins væri jafnframt þak um helmings bakhússins og að helmingur bakhússins væri undirstaða íbúðarhúsnæðisins. Þó að eignarhluti leyfisbeiðanda væri ekki undir íbúðarhúsnæðinu væri hann engu að síður sambyggður bakhúsinu sem myndaði 1. hæð hússins. Gæti þannig ekki talist eðlilegt og haganlegt að telja bakhúsið í heild eða eignarhluta leyfisbeiðanda sjálfstætt hús. Þá var kröfu leyfisbeiðanda um að vikið yrði frá kostnaðarskiptingu 45. gr. laga nr. 26/1994 á grundvelli 46. gr. laganna hafnað.
5. Leyfisbeiðandi byggir á því að málið hafi fordæmisgildi um túlkun á 7., 9., 45. og 46. gr. laga nr. 26/1994 þegar um sé að ræða viðgerðir á húsi sem varði ekki með nokkru móti hagsmuni tiltekins eiganda. Þá sé einnig álitaefni hvenær ákvæði um sérstaka sameign í skilningi laganna geti átt við. Að lokum telur leyfisbeiðandi að niðurstaða Landsréttar byggi á röngum forsendum um að viðgerðin sé einungis vegna þaks.
6. Að virtum gögnum málsins verður hvorki litið svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því hafnað.