Hæstiréttur íslands
Mál nr. 487/2013
Lykilorð
- Kærumál
- Stefnubirting
- Frávísunarúrskurður staðfestur
|
|
Mánudaginn 16. september 2013. |
|
Nr. 487/2013.
|
Þrotabú Sola Capital ehf. (Guðrún Sesselja Arnardóttir hrl.) gegn Tjaldanesi ehf. (enginn) |
Kærumál. Stefnubirting. Frávísunarúrskurður staðfestur.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem máli þrotabús S ehf. á hendur T ehf. var vísað frá dómi af sjálfsdáðum þar sem skilyrði a. liðar 1. mgr. 89. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála til birtingar stefnu í Lögbirtingarblaði var ekki fullnægt.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson og Greta Baldursdóttir og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 12. júlí 2013 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 18. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 28. júní 2013, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi af sjálfsdáðum. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Kærumálskostnaður dæmist ekki.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra föstudaginn 28. júní 2013.
Mál þetta sem dómtekið var 20. júní 2013 er höfðað af þrotabúi Sola Capital ehf., kt. [...], Ránargötu 18, Reykjavík, á hendur Tjaldanesi ehf., kt. [...], Ásgötu 17, Raufarhöfn. Fyrir hönd hins stefnda einkahlutafélags er stefnt Sigurði Hilmari Ólasyni, kt. [...], „með skráð lögheimili á Ásgötu 17, Raufarhöfn“ eins og segir í stefnu. Stefna var birt í Lögbirtingablaði sem út kom hinn 21. maí. Við þingfestingu málsins varð útivist af hálfu hins stefnda einkahlutafélags og var málið tekið til dóms að kröfu stefnanda við svo búið.
Dómkröfur: Stefnandi krefst þess að rift verði „gjöf Sola Capital ehf. til stefnda um eignina að Álfhólsvegi 37, Kópavogi, einbýli 01-0101 og bílskúr 02-0101 hvorutveggja með fastanúmer 205-8065 og stefndi verði dæmdur til að skila til stefnanda þeirri sömu eign ásamt öllu því sem henni fylgir og fylgja ber.“ Til vara krefst stefnandi þess að rift verði „gjöf Sola Capital ehf. til stefnda um eignina að Álfhólsvegi 37, Kópavogi, einbýli 01-0101 og bílskúr 02-0101 hvorutveggja með fastanúmer 205-8065 og stefnda gert að greiða stefnanda kr. 60.000.000, ásamt vöxtum skv. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 28. desember 2011 til 13. júní 2013, en dráttarvöxtum skv. 9. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.“ Í hvoru tilviki krefst stefnandi málskostnaðar auk álags sem nemi virðisaukaskatti.
Eins og áður segir er stefna þessi birt í Lögbirtingablaði. Um ástæður þess segir í stefnu að til hafi staðið að þingfesta stefnu í máli þessu hinn 18. desember 2012 og hafi stefnan verið send til birtingar samkvæmt 1. mgr. 91. gr. laga nr. 91/1991. Stefnubirting hafi hins vegar ekki tekizt á „meintum dvalarstað fyrirsvarsmanns stefnda“, en fyrir liggi að hvorki fyrirsvarsmaður né nokkur annar hafi haft búsetu á Ásgötu 17 á Raufarhöfn undanfarin ár og samkvæmt upplýsingum starfsmanna sveitarfélagsins Norðurþings sé húsnæðið ekki íbúðarhæft og hvorki vatn né rafmagn verið tengd við það undanfarin ár. Hafi því verið nauðsynlegt að birta stefnuna í Lögbirtingablaðinu samkvæmt a lið 1. mgr. 89. gr., laga nr. 91/1991.
Stefnandi byggir á því að skráð lögheimili fyrirsvarsmanns stefnda sé á Ásgötu 17 á Raufarhöfn. Verður miðað við að svo sé. Þá sýna gögn málsins að starfsmaður sveitarfélagsins Norðurþings hefur gefið stefnanda yfirlýsingu þess efnis sem rakið var.
Samkvæmt a lið 1. mgr. 89. gr. laga nr. 91/1991 má birta stefnu í Lögbirtingablaði ef ekki verður aflað upplýsinga um hvar stefnu má birta samkvæmt almennum reglum. Verður stefna ekki réttilega birt í Lögbirtingablaði ef hið gagnstæða á við, að upplýsinga verði aflað um hvar birta megi stefnuna samkvæmt almennum reglum. Fyrirsvarsmaður stefnda er með skráð lögheimili á Ásgötu 17 á Raufarhöfn. Samkvæmt 2. mgr. 85. gr. laganna skal birting stefnu að jafnaði fara fram á skráðu lögheimili stefnda en einnig kemur fram í a lið 3. mgr. 85. gr. að heimilt er að birta stefnu fyrir hverjum þeim sem hittist fyrir á skráðu lögheimili stefnda. Virðist af þessu ljóst að heimilt hefði verið að birta stefnuna fyrir stefnda og eftir atvikum hverjum þeim sem hitzt hefði fyrir á hinu skráða lögheimili. Þar sem afla mátti þeirra upplýsinga að heimilt væri að birta stefnuna með þessum hætti á Ásgötu 17 á Raufarhöfn voru skilyrði a liðar 1. mgr. 89. gr. laga nr. 91/1991 fyrir birtingu stefnu í lögbirtingablaði ekki uppfyllt.
Stefnandi byggir á því að enginn sé búsettur í húsi þessu og þar njóti hvorki vatns né rafmagns. Hvorugt fær því breytt í þessu máli að á þessum stað er skráð lögheimili fyrirsvarsmanns stefnda og að þar mátti því birta honum, og hverjum öðrum sem þar hittist fyrir, stefnu í máli þessu. Skráðu lögheimili fyrirsvarsmannsins verður ekki breytt í þessu máli og verður því að byggja á þeirri skráningu sem fyrir var. Var því ekki heimilt að birta stefnu í máli þessu í Lögbirtingablaði. Skiptir því ekki máli að stefna er birt í Lögbirtingablaði innan við mánuði fyrir þingfestingu.
Með vísan til framanritaðs er óhjákvæmilegt að vísa máli þessu frá dómi ex officio.
Þorsteinn Davíðsson kveður upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Máli þessu er vísað frá dómi.