Hæstiréttur íslands

Mál nr. 744/2016

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu (Jón H. B. Snorrason saksóknari)
gegn
X (Jón Egilsson hrl.)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
  • Úrskurður héraðsdóms felldur úr gildi

Reifun

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi, á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var felldur úr gildi.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir, Benedikt Bogason og Karl Axelsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 3. nóvember 2016, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum daginn eftir. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 3. nóvember 2016 þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 11. nóvember 2016 klukkan 16 og einangrun meðan á því stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Svo sem greinir í hinum kærða úrskurði er til rannsóknar hjá lögreglu almannahættubrot og eignaspjöll sem fólust í því að brotin var rúða og sprengju kastað inn í atvinnuhúsnæði að [...] í [...] aðfaranótt þriðjudagsins 1. nóvember 2016. Jafnframt eru til rannsóknar ætlaðar hótanir í garð þeirra sem eru með atvinnustarfsemi í því húsnæði. Eru brotin talin varða við 1. mgr. 165. gr., 233. gr. og 257. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Í gögnum málsins kemur fram að lögregla hafi kannað öryggismyndavélar nærri brotavettvangi. Þar megi sjá tvo menn koma á mótorhjóli að húsnæðinu, brjóta rúðu, kasta inn sprengju og aka á brott. Aftur á móti segir ekkert um að þekkja megi þá einstaklinga sem þar áttu hlut að máli. Þá verður heldur ekki talið að lögregla hafi leitt í ljós rökstuddan grun um að varnaraðili hafi framið brotin með því að vísa til upplýsinga frá vitnum sem ekki vilja láta nafna sinna getið. Loks kemur ekki fram í gögnum málsins að við húsleit hafi eitthvað fundist sem bendi til að varnaraðili hafi framið brotin. Samkvæmt þessu er ekki fullnægt því frumskilyrði gæsluvarðhalds, sem greinir í upphafsorðum 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008, að rökstuddur grunur beinist að varnaraðila að hafa framið brot. Verður hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi. 

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 3. nóvember 2016.

                Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess fyrir dóminum í dag að X, kt. [...], verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 11. nóvember nk. kl. 16.  Þá er þess krafist að kærða verði gert að sæta einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.

                Krafan er reist á a lið 1. mgr. 95. gr. og b lið 1. mgr. 99. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008.

                Meint brot kærða er talið varða við 1. mgr. 165. gr., 233. gr. og 257. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

                Kærði mótmælir kröfunni.

                Í greinargerð lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu segir m.a. að lögreglan hafi til rannsóknar mál er varði almannahættubrot, hótanir og eignaspjöll gagnvart A. Aðfaranótt þriðjudagsins 1. nóvember hafi verið óskað eftir aðstoð lögreglu vegna elds og sprengingar að [...] í [...]. Í ljós hafi komið að  [...] hafði verið sprengd upp og rýmið verið mikið skemmt af völdum reyks, elds og sprengingar. Töluverðar skemmdir séu á húsnæðinu en gler og gluggar í kring voru sprungnir. Í húsnæðinu sé m.a. rekin [...] en eigandi hennar sé A.

A hafi áður starfað á [...] en eigendur þeirrar stofu séu þau B og C. A hafi  hætt þar í desember á síðasta ári en síðan hún hætti störfum hafi hún ítrekað fengið hótanir frá eigendum [...] og öðrum þeim tengdum. Lögreglan hafi haft til rannsóknar þrjú önnur mál er varði ónæði, húsbrot, hótanir og eignaspjöll gagnvart A frá því í byrjun janúar 2016.

Við skoðun á vettvangi og á þeim gögnum sem liggja fyrir í málinu megi sjá tvo aðila koma á mótorhjóli að húsnæðinu, brjóta rúðu, kasta inn sprengju og aka svo í burtu. Í ljós hafi komið að um hafi verið að ræða sýningarbombu, tívolísprengju, sem hafi sprungið inn í húsnæðinu.

Lögreglu gruni að að baki þessum eignaspjöllum og hótunum standi B og C en fram hafi komið við rannsókn málsins að þau fái D og X til að hóta A og ónáða hana.

Lögreglu hafi undir höndum áreiðanlegar upplýsingar frá aðilum sem vilji ekki láta nöfn sín getið að þeim hafi borist hótanir frá kærðu í málinu vegna tengsla þeirra við A. Þessir aðilar staðfesti framburð A um að kærðu í málinu hafi staðið í hótunum við hana og aðila henni tengdri um nokkurra mánaða skeið.

A reki [...] með kærasta sínum, F. Áður en þau opnuðu stofuna hafi þau fengið ítrekaðar hótanir frá þessum sömu aðilum um að ef stofan yrði opnuð myndi hún verða eyðilögð. Þau hafi opnað stofuna þennan sama dag og sprengingin varð.

Í ljósi ofangreinds og þeirra gagna sem lögreglan hafi aflað sé kærði undir rökstuddum grun um aðild að þessu máli. Um sé að ræða alvarlegt mál þar sem brotaþoli í málinu hafi mátt þola ónæði, áreiti, hótanir og eignaspjöll um margra mánaða skeið af hendi kærða og aðilum honum tengdum. Það að valda sprengingu sem þessari sem varð í húsnæðinu að [...] hefur í för með sér verulega almannahættu og hafi hending ein ráðið því að enginn skyldi slasast. Eignaspjöllin væru stórfelld. Slíkt brot geti varðað fangelsisrefsingu eins og tilgreint sé í ákvæði 165. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þá liggi fyrir ítrekaðar hótanir kærðu í málinu á hendur brotaþola en slíkar hótanir heyri undir ákvæði 233. gr. almennra hegningarlaga. Eignaspjöllin á húsnæðinu að [...] séu stórfelld og varði við 1., sbr. 2. mgr. 257. gr. almennra hegningarlaga.

Alls hafi fjórir aðilar vera handteknir sem taldir séu tengjast málinu. Enn sé leitað að meintum samverkamönnum þeirra. Upplýsingar séu enn að berast til lögreglu um aðild fleiri aðila að málinu. Þá hafi lögreglan farið í fjölda húsleita í dag þar sem leitast hafi verið eftir því að afla sönnunargagna sem skipt geta máli við rannsókn þessa máls. Málið sé á frumstigi rannsóknar og sé talin brýn nauðsyn á því á þessu stigi máls að kærði sæti gæsluvarðhaldi í einangrun þar sem ljóst sé að ef hann gangi laus geti hann sett sig í samband við meinta samverkamenn sem gangi lausir eða þeir sett sig í samband við hann. Kærði gæti þá komið undan gögnum með sönnunargildi sem lögreglan hafi  ekki lagt hald á nú þegar.

Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og a liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 og til að sæta einangrun samkvæmt b lið 1. mgr. 99. gr. sömu laga sé þess krafist að krafan nái fram að ganga eins og hún sé sett fram.

 Lögreglan hefur undanfarna daga gert húsleit hjá kærða og ætluðum samverkamönnum hans og m.a. lagt hald á muni sem nú eru til rannsóknar. Rannsókn málsins er á frumstigi og miklir rannsóknarhagsmunir í húfi. Þegar litið er til gagna málsins er fallist á með saksóknara að kærði sé undir rökstuddum grun um að hafa framið brot gegn 1. mgr. 165. gr., 233. gr. og 257. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 sem varðað getur fangelsisrefsingu. Haldi kærði óskertu frelsi sínu gæti hann torveldað rannsókn málsins, m.a. með því að hafa áhrif á framburð vitorðsmanna eða vitna. Með vísan til a liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála er því fallist á kröfu lögreglustjóra um gæsluvarðhald með þeim hætti sem nánar greinir í úrskurðarorði.

Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú r s k u r ð a r o r ð:

Kærði, X, kt. [...], skal sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 11. nóvember nk. kl. 16:00.

Kærði skal sæta einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.