Hæstiréttur íslands
Mál nr. 151/2000
Lykilorð
- Sveitarstjórn
- Uppsögn
- Stjórnsýsla
- Rannsóknarregla
- Andmælaréttur
- Skaðabætur
|
|
Fimmtudaginn 16. nóvember 2000. |
|
Nr. 151/2000. |
Reykjavíkurborg og Strætisvagnar Reykjavíkur (Hjörleifur B. Kvaran hrl.) gegn Pétri I. Hraunfjörð (Gestur Jónsson hrl.) og gagnsök |
Sveitarstjórn. Uppsögn. Stjórnsýsla. Rannsóknarregla. Andmælaréttur. Skaðabætur.
Vagnstjóranum P var sagt upp störfum hjá SVR með þriggja mánaða uppsagnarfresti í ágúst 1997, en um starfskjör hans fór eftir ákvæðum kjarasamnings Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar (SR) við Reykjavíkurborg (R) og reglugerð um réttindi og skyldur starfsmanna R. Ekki var talið að P hefði verið opinber starfsmaður í skilningi þágildandi sveitarstjórnarlaga nr. 8/1986. Hins vegar var talið að forstöðumönnum SVR hefði borið að fara að reglum III. kafla stjórnsýslulaga nr. 37/1993 við ákvörðun um að segja P upp störfum og hefði ákvörðunin orðið að byggjast á málefnalegum sjónarmiðum. Í uppsagnarbréfi P var ekki getið ástæðna uppsagnarinnar, en að beiðni hans var gerð grein fyrir þeim í bréfi SVR í september 1997. Kom þar fram að ástæða uppsagnarinnar hefði verið sú að P hefði eitt sinn sleppt því að aka tæplega helming þeirrar leiðar, sem honum bar að aka og hefði hann ekki svarað kalli varðstjóra sem reyndi að hafa samband við hann. Þá var þess getið að í september 1996 hefði P fengið áminningu fyrir að virða ekki tímasetningar í akstri, auk þess sem hann hefði fengið tiltal vegna ýmissa atriða í starfi. Var P boðaður á fund forstjóra SVR, en áður en hann fékk fundarboðið hafði hann tilkynnt um veikindi. Var honum ekki gefinn kostur á öðrum fundi, heldur sent uppsagnarbréfið samdægurs. Talið var að með þessu hefði verið brotið gegn rannsóknarreglu 10. gr. og andmælarétti 13. gr. stjórnsýslulaga og hefði uppsögnin því verið ólögmæt. Var talið að SVR og R væru skaðabótaskyldir gagnvart P vegna þessa og var þeim gert að greiða honum bætur fyrir fjártjón við launamissi, en krafa hans um miskabætur var ekki tekin til greina.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Haraldur Henrysson, Hjörtur Torfason, Hrafn Bragason og Pétur Kr. Hafstein.
Aðaláfrýjendur skutu máli þessu til Hæstaréttar með stefnu 13. apríl 2000. Þeir krefjast aðallega sýknu af kröfum gagnáfrýjanda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Til vara krefjast þeir þess, að kröfurnar verði lækkaðar verulega og málskostnaður látinn niður falla.
Málinu var gagnáfrýjað 21. júní 2000. Gagnáfrýjandi krefst þess aðallega, að aðaláfrýjendur greiði sér in solidum skaða- og miskabætur að fjárhæð 1.722.320 krónur með dráttarvöxtum frá 27. apríl 1999 til greiðsludags, en til vara krefst hann staðfestingar héraðsdóms. Í báðum tilvikum krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
I.
Eins og fram kemur í héraðsdómi hafði gagnáfrýjandi verið vagnstjóri hjá aðaláfrýjanda Strætisvögnum Reykjavíkur, SVR, í samtals 15 ár, er honum var sagt upp störfum með þriggja mánaða uppsagnarfresti 27. ágúst 1997. Ekki var gerður skriflegur ráðningarsamningur við gagnáfrýjanda, en hann var félagsmaður í Starfsmannafélagi Reykjavíkurborgar, sem starfar samkvæmt lögum nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna. Fór um starfskjör hans eftir ákvæðum kjarasamnings starfsmannafélagsins við Reykjavíkurborg og reglugerð um réttindi og skyldur starfsmanna Reykjavíkurborgar frá 7. desember 1967 með áorðnum breytingum. Samkvæmt 1. gr. reglnanna taka þær til „hvers manns, sem er fastráðinn eða lausráðinn í þjónustu Reykjavíkurborgar og ekki er ráðinn samkvæmt kjarasamningi stéttarfélaga.“ Gagnáfrýjandi var lausráðinn í skilningi þessara reglna, en fastráðningu var hætt hjá borginni 1978. Samkvæmt 39. gr. reglugerðarinnar gilda reglur V., VII., VIII., X. og XI. kafla um lausráðna starfsmenn eftir því sem við á. Í 43. gr. er kveðið á um gagnkvæman þriggja mánaða uppsagnarfrest.
Í 1. mgr. 73. gr. þágildandi sveitarstjórnarlaga nr. 8/1986 segir, að starfsmenn við stjórnsýslu sveitarfélaga hafi réttindi og skyldur opinberra starfsmanna en um starfskjör annarra starfsmanna sveitarfélags fari eftir ákvæðum kjarasamninga. Fallist er á það með héraðsdómi, að gagnáfrýjandi sé ekki opinber starfsmaður í skilningi þessarar greinar. Á hinn bóginn miðuðust kjör gagnáfrýjanda, svo sem áður getur, við kjarasamning, sem gerður var á grundvelli laga um kjarasamninga opinberra starfsmanna, sbr. 1. mgr. 1. gr. þeirra, og reglur, sem settar voru einhliða af aðaláfrýjanda Reykjavíkurborg. Samband gagnáfrýjanda og vinnuveitanda hans var því á annan veg en um var fjallað í dómi Hæstaréttar 14. nóvember 1996, H.1996.3563, sbr. áðurnefnda 1. gr. reglugerðarinnar.
SVR er þjónustufyrirtæki í eigu aðaláfrýjanda Reykjavíkurborgar og að öllu leyti undir stjórn borgarinnar. Fallist er á þá niðurstöðu héraðsdóms, að gera verði þá kröfu til forstöðumanna fyrirtækja í opinberri eigu, að þeir gæti almennra stjórnsýslureglna í samskiptum sínum við starfsmenn fyrirtækjanna. Bar að fara að reglum III. kafla stjórnsýslulaga nr. 37/1993 við þá ákvörðun að segja gagnáfrýjanda upp störfum og varð hún að byggjast á málefnalegum sjónarmiðum.
II.
Aðdraganda uppsagnar gagnáfrýjanda er lýst í héraðsdómi. Í uppsagnarbréfinu 27. ágúst 1997 var ekki getið ástæðna uppsagnarinnar, en að beiðni gagnáfrýjanda var grein gerð fyrir þeim í bréfi SVR 18. september sama ár. Sagði þar, að það atvik hefði valdið uppsögninni, að aðfaranótt 25. ágúst hefði gagnáfrýjandi sleppt að aka tæplega helming þeirrar leiðar, sem honum bar að aka. Hann hefði ekki svarað kalli varðstjóra, sem reyndi að hafa samband við hann. Þá var þess og getið, að gagnáfrýjandi hefði fengið áminningu 13. september 1996 fyrir að virða ekki tímasetningar í akstri, og auk þess hefði hann fengið tiltal vegna ýmissa atriða í starfi. Gagnáfrýjandi var boðaður á fund forstjóra SVR 27. ágúst, en óumdeilt er, að hann hafði tilkynnt veikindi áður en hann vissi um fundarboðið. Honum var hvorki sagt hvert tilefni fundarins væri né gefinn kostur á öðrum fundi, heldur var uppsagnarbréf sent samdægurs. Með þessu var brotið gegn rannsóknarreglu 10. gr. og andmælarétti 13. gr. stjórnsýslulaga og var því uppsögnin ólögmæt. Eru aðaláfrýjendur þegar af þeirri ástæðu skaðabótaskyldir gagnvart gagnáfrýjanda.
III.
Gagnáfrýjandi fékk laun í uppsagnarfresti, sem lauk 1. desember 1997. Var hann atvinnulaus til 26. október 1998, er hann fékk starf á vegum aðaláfrýjanda Reykjavíkurborgar. Miðar hann fjártjón sitt við launamissi þennan tíma, sem að frádregnum atvinnuleysisbótum, 657.976 krónum, nemi 1.022.320 krónum. Viðbótarfjártjón metur hann að álitum 200.000 krónur. Þá krefst hann 500.000 króna í miskabætur.
Við ákvörðun bóta ber að hafa í huga, að gagnáfrýjandi, sem var tæpra 54 ára gamall, hafði unnið í 15 ár hjá SVR og átti vegna menntunar sinnar og aldurs ekki margra kosta völ á vinnumarkaði. Með hliðsjón af því og hinu hvernig staðið var að uppsögn hans þykja bætur til hans eiga að vera 900.000 krónur með dráttarvöxtum eins og krafist er frá þingfestingardegi í héraði. Ekki eru efni til ákvörðunar miskabóta samhliða þessari niðurstöðu.
Aðaláfrýjendur greiði gagnáfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Aðaláfrýjendur, Reykjavíkurborg og Strætisvagnar Reykjavíkur, greiði gagnáfrýjanda, Pétri I. Hraunfjörð, 900.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 27. apríl 1999 til greiðsludags.
Aðaláfrýjendur greiði gagnáfrýjanda 600.000 krónur samtals í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 12. janúar 2000.
Mál þetta, sem dómtekið var 16. desember sl., var höfðað með stefnu, áritaðri um birtingu 26. apríl sl.
Stefnandi er Pétur I. Hraunfjörð, kt. 250944-2099, Flúðaseli 52, Reykjavík.
Stefndu eru Reykjavíkurborg og Strætisvagnar Reykjavíkur.
Dómkröfur stefnanda:
Að stefndu verði dæmd in solidum til þess að greiða stefnanda skaðabætur að fjárhæð 4.170.480 kr. með dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 27. apríl 1999 til greiðsludags og málskostnað að mati dómsins að teknu tilliti til virðisaukaskattskyldu lögmannsþóknunar.
Dómkröfur stefndu:
Aðallega krefjast stefndu sýknu af öllum kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hendi stefnanda að mati dómsins.
Til vara krefjast stefndu þess að kröfur stefnanda verði lækkaðar verulega og málskostnaður verði látinn falla niður.
Málavextir
Stefnandi var ráðinn til starfa sem vagnstjóri hjá Strætisvögnum Reykjavíkur SVR árið 1980. Hann gegndi því starfi fram á mitt ár 1987 en réðst að nýju til starfa sem vagnstjóri 4. desember 1989. Með bréfi, dags. 27. ágúst 1997, var stefnanda sagt upp störfum með þriggja mánaða uppsagnarfresti án þess að ástæður uppsagnar væru tilgreindar. Ekki var óskað eftir vinnuframlagi stefnanda á uppsagnarfresti. Með bréfi, dags. 11. sept. 1997, var óskað eftir skriflegum rökstuðningi fyrir uppsögn stefnanda með vísan til 21. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Svar barst frá forstjóra Strætisvagna Reykjavíkur með bréfi, dags. 18. september 1997. Þar eru ástæður uppsagnar sagðar þær að stefnandi hafi aðfaranótt 25. ágúst 1997 vikið frá akstursleið þannig að hann hafi ekki ekið tæplega helming þeirrar leiðar sem honum bar að aka samkvæmt leiðabók. Þá hafi stefnandi ekki sinnt kalli varðstjóra í talstöð og farið af vakt 27. ágúst 1997 vegna veikinda. Í bréfinu er enn fremur vísað til þess að stefnandi hafi fengið munnlega áminningu 13. september 1996 fyrir að virða ekki tímasetningar auk þess að hafa fengið tiltal vegna ýmissa atriða í starfi.
Með bréfi dags. 19. febrúar 1998 var rökstuðningi fyrir uppsögn stefnanda mótmælt og gerð grein fyrir þeim fullyrðingum stefnanda að einungis hafi tvær biðstöðvar verið eftir þegar hann hætti akstri. Vagninn hafi þá verið tómur og fyrir því væri áratugalöng venja að síðustu ferð sé hætt þegar síðasti farþeginn er farinn úr vagninum og skammt að endastöð. Þessum fullyrðingum stefnanda var mótmælt af forstjóra Strætisvagna Reykjavíkur.
Málsástæður og rökstuðningur stefnanda
Stefnandi hafi í starfi sínu hjá SVR verið félagsmaður í Starfsmannafélagi Reykjavíkurborgar og fallið undir reglur um réttindi og skyldur starfsmanna Reykjavíkurborgar, sbr. 1. og 45. gr. þeirra reglna. Stefnandi hafi talist til lausráðinna starfsmanna skv. 39. gr. reglnanna og notið réttinda og borið skyldur skv. ákvæðum þeirra kafla reglnanna sem þar er til vísað. Ákvæði 3. kafla reglnanna um lausn úr stöðu taki einungis til fastráðinna starfsmanna en samþykkt hafi verið í borgarráði 25. apríl 1978 að hætta fastráðningum.
Stefnandi telur ákvarðanir forstjóra SVR um að veita stefnanda munnlega áminningu og segja honum síðar upp störfum vera stjórnvaldsákvarðanir. Stefnandi hafi verið opinber starfsmaður og ákvarðanir forstjóra stofnunar sveitarfélags um lausn starfsmanna stofnunarinnar frá störfum teljist án nokkurs vafa til stjórnvaldsákvarðana. Forstjóra SVR hafi því verið skylt að fylgja ákvæðum stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og óskráðum reglum stjórnsýsluréttar við ákvörðun um að veita stefnanda áminningu og segja honum upp störfum þar sem hann hafi verið opinber starfsmaður. Ákvarðanir forstjóra stofnunar sveitarfélags um lausn starfsmanna stofnunarinnar frá störfum teljist án nokkurs vafa til stjórnvaldsákvarðana. Uppsögn stefnanda hafi því orðið að byggja á málefnalegum sjónarmiðum og af meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga leiði að nauðsyn hafi verið að gefa stefnanda kost á að bæta ráð sitt með því að veita honum áminningu áður en honum var sagt upp störfum.
Stefnandi telur munnlega áminningu sem honum var veitt 13. september 1996 hvorki hafa verið löglega að formi né efni. Áminninguna hafi forstöðumaður þjónustusviðs SVR veitt en ekki forstjóri stofnunarinnar. Ráðningarvald og þar með vald til að veita starfsmönnum áminningu og segja þeim upp störfum hafi hins vegar verið í höndum forstjóra stofnunarinnar. Áminning veitt af forstöðumanni þjónustusviðs geti ekkert gildi haft. Andmælaréttur stefnanda hafi ekki verið virtur heldur hafi hann verið umsvifalaust kallaður inn til forstöðumannsins og honum veitt áminning í viðurvist tveggja fulltrúa vinnustaðar. Þar af leiðandi hafi stefnanda ekki gefist tími til að meta ástæður áminningarinnar og veita andsvör. Ástæða áminningarinnar muni hafa verið sú að stefnandi hafi ekki virt tímasetningar í akstri. Stefnandi hafi verið í sumarleyfi frá 15. júlí til 28. ágúst 1996. Breytingar hafi verið gerðar á leiðakerfi SVR um þetta leyti og hafi þær komið til framkvæmda 15. ágúst 1996. Það hafi af eðlilegum ástæðum tekið stefnanda nokkurn tíma að venjast hinu nýja leiðakerfi. Áminningin hafi verið veitt vegna aksturs á kvöldvakt 13. september 1996 en það hafi verið fyrsta kvöldvakt stefnanda eftir breytingar á leiðakerfinu. Seinkun stefnanda á umræddri kvöldvakt hafi átt sér eðlilegar skýringar og hafi ekki verið þess eðlis eða svo mikil að hún gæti talist áminningarástæða.
Stefnandi telur áminningu líkt og aðrar stjórnvaldsákvarðanir þurfa að vera svo ákveðna og skýra að starfsmaður geti með vissu metið réttarstöðu sína. Áminning þurfi að vera skrifleg og þar þurfi að tilgreina í hverjum efnum starfsmaður hafi ekki sinnt starfsskyldum sínum og hverju það varði ef hann ekki sinnir kröfum um að ráða bót á misfellum í starfi. Stefnandi telur að honum hafi ekki mátt vera ljóst af umræddri áminningu að hún gæti verið undanfari uppsagnar enda mjög algengt að tafir verði í akstri og sjaldnast við vagnstjóra að sakast. Stefnandi telur enn fremur að áminning sem veitt sé vegna seinkunar í akstri geti ekki verið grundvöllur uppsagnar nema til komi fleiri brot sama eðlis en um það hafi ekki verið að ræða í tilviki stefnanda.
Forsendur uppsagnar hafi verið sagðar þær að stefnandi hefði hætt akstri aðfaranótt mánudagsins 25. ágúst 1997 þegar 6 biðstöðvar voru enn eftir af þeirri leið sem honum bar að aka. Stefnandi hafi ekki verið gefinn kostur á að tjá sig um þessar ávirðingar áður en honum var sagt upp störfum og telur stefnandi að með því hafi verið brotið gegn andmælarétti stjórnsýslulaga. Þessar ástæður uppsagnarinnar hafi fyrst komið fram í bréfi forstjóra SVR til lögmanns stefnanda, dags. 18. sept. 1997. Stefnandi hafi mótmælt þessum fullyrðingum í samantekt til forseta borgarstjórnar og forstjóra SVR hafi verið gerð grein fyrir mótmælum stefnanda í bréfi, dags. 19. febrúar 1998. Í ljósi fullyrðinga í bréfi forstjóra SVR, dags. 7. apríl 1998 og 29. sept. 1998, um að sjónarvottar hafi verið að umræddu atviki, hafi stefnandi lagt fram yfirlýsingu Jakobs Ágústssonar til staðfestingar á fullyrðingum stefnanda um akstursleið umrætt kvöld. Stefnandi hafi viðurkennt að hafa hætt akstri þegar tvær biðstöður voru eftir af leiðinni enda hafi vagninn þá verið orðinn mannlaus og sýnt að farþegar kæmu vart í vagninn í síðustu ferð til þess að fara þá skömmu leið sem eftir var á endastöð. Stefnandi heldur því fram að fyrir því sé áratugalöng venja meðal vagnstjóra að aka ekki á endastöð í síðustu ferð að kvöldi ef vagninn er mannlaus. Stefnandi telur því ljóst að uppsögnin hafi verið byggð á röngum og ólögmætum forsendum.
Jafnvel þótt það teldist sannað að stefnandi hafi hætt akstri þegar 6 biðstöðvar voru eftir af leiðinni telur stefnandi ljóst að fyrirvaralaus uppsögn verði ekki á því byggð. Stefnandi telur sig hafa í einu og öllu fylgt þeim venjum sem skapast hafi við akstur í síðustu ferð að kvöldi og það verklag hafi ekki sætt athugasemdum af stjórnendum SVR. Hafi ætlan stjórnenda SVR verið að breyta þeirri venju hefði orðið að gera það með skýrum fyrirmælum til starfsmanna eða í öllu falli að gefa þeim kost á að bæta ráð sitt.
Af hálfu stefnanda er fullyrðingum um að hann hafi fengið tiltal vegna ýmissa atriða í starfi mótmælt og að veikindi sem upp hafi komið á vakt geti verið uppsagnarástæða.
Stefnandi telur uppsögnina hafa verið ólögmæta þar sem hún hafi verið byggð á röngum og ómálefnalegum forsendum. Þá hafi þess ekki verið gætt að veita stefnanda áminningu sem hafi uppfyllt þau form- og efnisskilyrði sem gera verði til slíkrar ákvörðunar. Andmælaréttar hafi ekki verið gætt með fullnægjandi hætti við veitingu munnlegrar áminningar og áður en ákvörðun um uppsögn var tekin.
Stefnandi hafi verið rétt tæplega 53 ára gamall þegar endir var bundinn á ráðningarsambandið og hafi átt að baki 15 ára starfsferil hjá SVR. Stefnandi sé ekki langskólagenginn og atvinnumöguleikar hans takmarkaðir þar sem reynsla hans komi að notum. Stefnandi hafi verið atvinnulaus frá því að honum var sagt upp störfum þar til hann hafi fengið vinnu sem baðvörður í Árbæjarlaug 26. október 1998. Tekjumöguleikar hans í því starfi séu töluvert minni en í starfi hans hjá SVR.
Við útreikning stefnufjárhæðar séu lagðar til grundvallar tekjur stefnanda síðustu 12 mánuði í starfi hjá SVR skv. framlögðum launaseðlum. Tekjur stefnanda þá mánuði námu 1.835.240 kr. Krafist er bóta sem svara til tveggja ára launa. Jafnframt er krafist miskabóta skv. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 að fjárhæð 500.000 kr.
Stefnanda hafi verið sagt upp fyrirvaralaust störfum sem hann hafði gegnt til margra ára án þess að vera gefinn kostur á að tjá sig um þær ávirðingar sem á hann voru bornar og honum hafi verið gert að láta þegar af störfum. Stefnandi hafi haft langa reynslu til þess starfs sem hann gegndi hjá SVR og hafi notið sín í starfi. Uppsögnin og atvinnuleysi sem hafi fylgt í kjölfarið hafi óhjákvæmilega leitt til andlegrar vanlíðunar stefnanda.
Krafa um dráttarvexti er byggð á III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987. Krafa um málskostnað er gerð með stoð í 130. gr. laga nr. 91/1991. Krafa um kostnað vegna virðisaukaskatts á aðkeypta lögmannsþjónustu er skaðleysiskrafa, reist á lögum nr. 50/1988, en nauðsynlegt sé að taka tillit til virðisaukaskatts við ákvörðun málskostnaðar þar sem stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur.
Málsástæður og rökstuðningur stefndu
Stefndu byggja sýknukröfu sína á því að uppsögn stefnanda hafi að öllu leyti uppfyllt skilyrði laga og kjarasamninga og hafi því að öllu leyti talist lögmætur gerningur. Benda stefndu á að ekkert það hafi komið fram í málatilbúnaði stefnanda sem fært geti sönnur á eða leitt að því líkur að uppsögn stefnanda hafi verið haldin einhverjum annmörkum. Það sé grundvallarregla í íslenskum vinnurétti, að vinnuveitandi hafi um það val hverja hann ræður til starfa og á sama hátt eigi hann um það sjálfstætt mat hverjum hann segir upp störfum þegar svo horfir við. Þannig hafi atvinnurekandi rétt til að segja starfsmanni upp störfum með lög- eða samningsbundnum uppsagnarfresti og þurfi almennt ekki að tilgreina ástæður í slíkum tilvikum. Óumdeilt sé að stefnanda hafi verið sagt upp með samningsbundnum þriggja mánaða fyrirvara en hann hafi fengið laun sín greidd næstu þrjá mánuði þar sem ekki var óskað eftir því að stefnandi starfaði út uppsagnarfrestinn. Í samræmi við áðurnefndar grundvallarreglur íslensks vinnuréttar eigi starfsmaður á uppsagnarfresti þá kröfu eina á hendur vinnuveitanda að hann greiði honum umsamin laun í uppsagnarfresti. Að uppsagnarfresti liðnum geti starfsmaður ekki haft uppi aðrar kröfur á hendur vinnuveitanda.
Af hálfu stefndu er sýknukrafa jafnframt á því byggð að ákvörðun stefnda um að segja stefnanda upp störfum falli ekki undir eiginlegan stjórnsýsluþátt sveitarfélags og teljist ákvörðun þessi því á engan hátt stjórnvaldsákvörðun. Stefnandi haldi því fram að uppsögnin hafi verið ólögmæt og vísi í því sambandi til ákvæða stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og til ólögfestra reglna stjórnsýsluréttarins. Þótt Reykjavíkurborg teljist stjórnvald í almennum skilningi þá teljast athafnir og ákvarðanir sem lúta að einstökum þáttum í starfsemi og starfrækslu sjálfs sveitarfélagsins, þ. á m. ákvarðanir um uppsagnir, ekki skilyrðislaust til stjórnvaldsákvarðana að mati stefnda.
Þá telja stefndu að þótt stefnandi hafi verið félagsmaður í starfsmannafélagi Reykjavíkurborgar, sbr. 1. og 45. gr. reglugerðar um réttindi og skyldur starfsmanna Reykjavíkurborgar frá 1967 með áorðnum breytingum, geti stefnandi ekki talist opinber starfsmaður í skilningi stjórnsýsluréttar enda hafi stefnandi ekki farið með eiginlega stjórnsýslu á vegum Reykjavíkurborgar. Í afstæðni lagahugtaksins opinber starfsmaður, felist að það hafi ekki sömu merkingu í öllum lagasamböndum. Samkvæmt 57. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998 fari um réttindi og skyldur starfsmanna sveitarfélaga eftir ákvæðum kjarasamninga hverju sinni og/eða eftir ákvæðum ráðningarsamninga þeirra. Stefnandi hafi verið starfsmaður hjá sjálfstæðu þjónustufyrirtæki borgarinnar, lausráðinn, ótímabundið, hjá Strætisvögnum Reykjavíkur. Samkvæmt 43. gr. reglugerðar um réttindi og skyldur starfsmanna Reykjavíkurborgar frá 7. desember 1967 með áorðnum breytingum, sé gagnkvæmur uppsagnarfrestur lausráðins starfsmanns þrír mánuðir og hafi hans verið gætt við uppsögn stefnanda. Af ákvæði 57. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998 og eðli starfsins sem stefnandi vann fyrir Reykjavíkurborg felist, að stefnandi geti ekki talist opinber starfsmaður í skilningi stjórnsýslulaga nr. 37/1993 né stjórnsýsluréttar og því sé ákvörðun stefnda um að segja stefnanda upp störfum ekki stjórnvaldsákvörðun. Þessi skilningur stefndu fái jafnframt stuðning í Hæstaréttardómi 1996:3563, en þar taldi Hæstiréttur að starfsmaður húsnæðisnefndar Reykjavíkur teldist ekki opinber starfsmaður samkvæmt þágildandi 73. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 8/1986. Af þeim sökum taldi Hæstiréttur að ákvörðun nefndarinnar um að segja starfsmanni upp störfum væri ekki stjórnvaldsathöfn í skilningi stjórnsýsluréttar. Af framangreindum rökum telja stefndu að hvorki stjórnsýslulög nr. 37/1993 né ólögfestar reglur stjórnsýsluréttarins eigi við í máli þessu þar sem stefnandi geti ekki talist opinber starfsmaður í skilningi stjórnsýsluréttar.
Verði ekki á framangreind sjónarmið fallist, byggja stefndu sýknukröfu sína á því, að ákvörðun um uppsögn stefnanda hafi hvorki verið ólögmæt né að nokkru leyti farið í bága við jafnræðis-, meðalhófs- eða andmælareglu stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þá mótmælir stefndi því að ómálefnaleg sjónarmið hafi verið lög til grundvallar þeirri ákvörðun stefnda að segja stefnanda upp störfum.
Í þessu sambandi benda stefndu á að Strætisvagnar Reykjavíkur sé þjónustufyrirtæki sem í þjónustu sinni leggi áherslu á að uppfylla þarfir og óskir viðskiptavina sinna. Meðal grundvallaratriða í þjónustustefnu fyrirtækisins séu þeir þættir sem viðskiptavinir leggja hvað mest áherslu á, að auglýstar ferðir falli ekki niður og að tímaáætlanir standist. Ofangreinda þjónustustefnu hafi starfsmenn fyrirtækisins átt þátt í að móta auk þess sem hún hafi verið ítarlega kynnt á starfsmannafundum. Bæði áminningin sem stefnandi fékk þann 13. september 1996 og uppsögn stefnanda þann 27. ágúst 1997 lúti að vanrækslu stefnanda á þessum grundvallarþáttum í þjónustustefnu Strætisvagna Reykjavíkur.
Áminning sú sem stefnandi fékk kom til vegna tímamælinga sem gerðar hefðu verið að kvöldlagi þann 12. september 1996. Mælingar þessar hafi verið gerðar í kjölfar mælinga þann 11. september s.á. en í þeim mælingum hafi komið fram frávik sem rétt þótti að rannsaka nánar kvöldið eftir. Þeim hafi ekki verið beint sérstaklega að stefnanda heldur hafi allar leiðir sem áttu viðkomu í Mjódd verið tímamældar þetta kvöld. Þá hafi komið í ljós að stefnandi hafi lagt 9-14 mínútum of seint af stað í öllum ferðunum sem mældar voru það kvöld. Áður en ofangreind atvik, sem urðu grundvöllur að áminningu stefnanda, áttu sér stað hafi ýmis önnur atvik komið upp hjá stefnanda, eins og gögn málsins beri með sér og nauðsynlegt sé að hafa hér í huga vegna samhengis hlutanna. Af þessum atriðum megi nefna akstur stefnanda á strætisvagni með sprungnum hjólbörðum, veiting rangra upplýsinga af hálfu stefnanda um staðsetningu þannig að ekki hafi verið hægt að veita eðlilega þjónustu og vanræksla stefnanda á að endurnýja glataðan farmiðastofn. Af þessu sé ljóst að atvik það sem varð tilefni áminningarinnar sé fjarri því að vera fyrsta eða eina tilvikið um vanrækslu stefnanda á störfum sínum fyrir stefnda. Þá mótmæla stefndu þeirri fullyrðingu í stefnu að kvöldvakt stefnanda þann 12. september 1996 hafi verið fyrsta kvöldvakt hans eftir að leiðakerfi SVR var breytt. Samkvæmt vinnuyfirliti hafi stefnandi áður unnið kvöldvaktir dagana 30. ágúst og 10. og 11. september s.á. en breytingar á leiðakerfi SVR hafi tekið gildi þann 15. ágúst 1996.
Sú ákvörðun að veita stefnanda áminningu eftir tímamælingarnar hafi í alla staði verið lögmæt og í samræmi við ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Daginn eftir ofangreindar tímamælingar eða þann 13. september 1996 hafi stefnandi verið boðaður á fund forstöðumanns þjónustusviðs Strætisvagna Reykjavíkur þar sem þess hafi jafnfram verið gætt að boða trúnaðarmenn stéttarfélags stefnanda. Á fundi þessum hafi stefnanda verið kynnt mæling sú sem fram fór kvöldið áður og hver niðurstaða hennar hefði orðið. Að því búnu hafi stefnandi verið beðinn um skýringar á seinkunum í öllum ferðum sem mældar voru þetta kvöld. Þær skýringar hafi ekki þótt fullnægjandi eins og fram komi á minnisblaði forstöðumanns þjónustusviðs Strætisvagna Reykjavíkur. Af þessu sjáist að áminningin hafi í alla staði verið lögmæt að efni til. Hún hafi verið veitt á grundvelli upplýsinga sem aflað hafi verið í aðgerð sem hafi haft það að markmiði að kanna nánar þá hnökra á þjónustunni sem hafi komið í ljós kvöldið áður. Þetta hafi hvorki beinst að stefnanda sérstaklega né haft það sérstaklega að markmiði að kanna einhverja vanrækslu af hans hálfu. Þá hafi stefnanda jafnframt verið gefinn kostur á að tjá sig um atvik það sem varð grundvöllur að áminningu hans. Af framangreindu sjáist að allra grundvallarreglna stjórnsýslu, lögfestra sem ólögfestra, hafi verið gætt þegar stefnanda var veitt áminning.
Þá mótmæla stefndu þeim skilningi stefnanda að áminningin hafi verið ólögmæt að forminu til. Samkvæmt stjórnskipulagi Strætisvagna Reykjavíkur hafi forstöðumaður þjónustusviðs fyrirtækisins heimildir til að ráða starfsmenn akstursdeildar Strætisvagna Reykjavíkur. Stefndu telja að sá aðili sem hefur valdið til að ráða vagnstjóra fyrirtækisins hafi eðli málsins samkvæmt einnig valdið til þess að veita starfsmönnum deildarinnar áminningar og í raun einnig vald til þess að segja þeim starfsmönnum upp störfum. Áminning sé mun vægari ákvörðun en uppsögn og því ekki formgalli þótt ákvörðun um veitingu áminningar sé tekin af öðrum yfirmanni en forstjóra viðkomandi fyrirtækis. Jafnframt telja stefndu að áminning sem veitt er af forstöðumanni þjónustusviðs í þjónustufyrirtæki, þar sem vanrækslan lýtur að þjónustuþætti stefnanda í starfi, teljist í alla staði réttur og ákvörðunarbær aðili til að veita stefnanda ofangreinda áminningu. Af framangreindu sjáist að áminningin hafi jafnframt verið lögmæt að forminu til.
Sú ákvörðun að segja stefnanda upp störfum, telja stefndu vera að öllu leyti í samræmi við grundvallarreglur stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og hvorki byggða á röngum né ómálefnalegum forsendum. Tilefni þeirrar ákvörðunar hafi verið sú staðreynd, sem viðurkennd er af stefnanda, að í síðustu ferð þann 25. ágúst 1997 sleppti stefnandi nokkrum biðstöðvum úr áætlunarleið leiðar nr. 1. Í þessu sambandi skipti ekki máli hve margar þær biðstöðvar voru eða hve stórum hluta leiðarinnar stefnandi sleppti. Brotið og vanrækslan í starfi er eftir sem áður framið. Auglýsta ferð í leiðakerfi Strætisvagna Reykjavíkur, sem viðskiptavinir eigi og þurfi að treysta á, beri að fara. Allt annað sé alvarlegt brot á starfsskyldum stefnanda.
Þegar ljóst hafi verið að stefnandi hafi sleppt liðlega helming leiðar sinnar hið umrædda kvöld hafi verið gerð tilraun til að kalla stefnanda upp í því skyni að kanna ástæður fyrir þessu athæfi. Stefnandi hafi ekki svarað því kalli í talstöð.
Tveimur dögum síðar eða þann 27. ágúst 1997 hafi verið reynt að leysa stefnanda af vakt og boða hann til viðtals með forstjóra, starfsmannastjóra og fyrsta trúnaðarmanni starfsmanna Strætisvagna Reykjavíkur í því skyni að ræða ofangreint brot stefnanda í starfi og óska skýringa hans á athæfinu. Þegar leysa átti stefnanda af hafi hann borið því við að hann væri orðinn veikur og gæti ekki komið til fundarins. Í kjölfarið var stefnanda sagt skriflega upp störfum af forstjóra Strætisvagna Reykjavíkur.
Í 32. gr. reglugerðar um réttindi og skyldur starfsmanna Reykjavíkurborgar frá 7. desember 1967 með áorðnum breytingum, er kveðið á um þá skyldu starfsmanna að hlýða löglegum fyrirskipunum yfirmanna um starf sitt og í 31. gr. sömu reglugerðar er kveðið á um þá skyldu starfsmanna að rækja starf sitt með alúð og samviskusemi í hvívetna. Stefndu telja því ofangreind brot stefnanda í starfi vera fullnægjandi tilefni til uppsagnar stefnanda, sérstaklega þegar það er haft í huga að stefnandi hafi áður fengið áminningu vegna fyrri vanrækslu í starfi. Þá telja stefndu að ákvörðun um uppsögn stefnanda hafi í alla staði verið í samræmi við lögfestar og ólögfestar reglur stjórnsýsluréttarins. Stefnandi hafi brotið starfsskyldur sínar að kvöldi hins 25. ágúst 1997. Í ljósi fyrri agavandamála og áminningar hafi stefnanda verið sagt upp störfum. Áður en til þess kom hafi stefnanda verið gefinn kostur á að tjá sig um brot sitt með því að boða stefnanda á ofangreindan fund með forstjóra fyrirtækisins. Stefnandi hafi kosið að koma ekki á þennan fund heldur borið við veikindum þegar leysa átti hann af vakt. Af framangreindu telja stefndu sig hafa gætt í hvívetna allra form- og efnisreglna við uppsögn stefnanda og uppsögn þessi hafi verið í samræmi við grundvallarreglur stjórnsýsluréttarins. Stefndu geti ekki borið ábyrgð á því þótt stefnandi neyti ekki þeirra réttinda sem stefndu hafi uppfyllt í samræmi við stjórnsýslulög nr. 37/1993.
Stefnandi hafi ekki óskað endurupptöku á þeirri ákvörðun stefnda að segja stefnanda upp störfum, sbr. 1. tl. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, eftir að stefnandi náði sér eftir veikindi. Stefndu geti ekki túlkað þá framkomu stefnanda með öðrum hætti en að stefnanda sé fullkunnugt um að uppsögn hans byggi á málefnalegum sjónarmiðum og eigi í alla staði við full rök að styðjast.
Þá mótmæla stefndu skaðabótakröfu stefnanda sem allt of hárri. Stefndu telja að annars vegar sé fjárhæð bótanna ofreiknuð og hins vegar sé það tímabil sem bætur miðist við áætlað of langt.
Fari svo að sýknukrafa stefnda verði ekki tekin til greina krefjast stefndu þess, að bótagrundvöllurinn miðist við laun að frádregnum sköttum og launatengdum gjöldum en ekki við heildarlaun stefnanda. Dómkrafa stefnanda sé skaðabótakrafa og í samræmi við meginreglur skaðabótaréttar, beri að miða við hið raunverulega tjón stefnanda vegna uppsagnarinnar.
Jafnframt krefjast stefndu þess, að bótafjárhæð stefnanda miðist við laun í þrjá mánuði eftir uppsagnarfrest að frádregnum öðrum tekjum stefnanda á því tímabili. Slík niðurstaða sé í samræmi við áralanga dómvenju í dómsmálum vegna ólögmætra uppsagna. Fallist dómurinn ekki á að miða bótafjárhæðina við þriggja mánaða laun telur stefndi að aldrei sé unnt að miða bótatímabil stefnanda við lengri tíma en til 26. október 1998 eða í 11 mánuði frá uppsögn stefnanda. Á því tímamarki var stefnandi ráðinn hjá stefnda, Reykjavíkurborg, sem baðvörður í Árbæjarlaug og fór þá aftur að hafa tekjur af vinnu sinni.
Verði lækkunarkrafa stefndu tekin til greina, krefst stefndi þess að málskostnaður verði felldur niður í samræmi við ákvæði 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.
Þá mótmæla stefndu miskabótakröfu stefnanda. Stefndu telja að skilyrði 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 séu ekki uppfyllt í máli þessu og því beri að hafna miskabótakröfu stefnanda.
Stefndu vísa til grundvallarreglna íslensks vinnuréttar, almennra reglna stjórnsýsluréttarins, stjórnsýslulaga nr. 37/1993 svo og þeirra laga sem um getur í greinargerð þessari. Þá vísar stefndi til reglugerðar um réttindi og skyldur starfsmanna Reykjavíkurborgar. Málskostnaðarkrafa stefnda byggir á 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.
Við aðalmeðferð málsins gaf stefnandi skýrslu fyrir dómi svo og Lilja Ólafsdóttir, forstjóri Strætisvagna Reykjavíkur, Jóhannes Sigurðsson, forstöðumaður þjónustusviðs Strætisvagna Reykjavíkur, Ólafur Bergsson, fyrrum starfsmaður Strætisvagna Reykjavíkur, og vitnið Jakob Ágústsson.
Forsendur og niðurstaða
Samkvæmt 1. mgr. 73. gr. þágildandi sveitarstjórnarlaga nr. 8/1986 taldist stefnandi ekki opinber starfsmaður. Um starfskjör hans fór eftir ákvæðum kjarasamnings Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar. Samkvæmt 43. gr. reglugerðar um réttindi og skyldur starfsmanna Reykjavíkurborgar var gagnkvæmur uppsagnarfrestur stefnanda og Strætisvagna Reykjavíkur 3 mánuðir. Þessi réttur stefnanda var virtur og naut hann launa í þrjá mánuði eftir uppsögn.
Meginreglur stjórnsýsluréttar, sem fela í sér kröfu um það að störf stjórnvalda grundvallist á málefnalegum sjónarmiðum, hafa víðtækara gildissvið en svo að þær taki einungis til stjórnvaldsákvarðana. Ber því að taka afstöðu til þess hvort málefnalega hafi verið staðið að uppsögn stefnanda, sbr. III. kafla stjórnsýslulaga nr. 37/1993, þrátt fyrir að stefnandi nyti ekki réttinda sem opinber starfsmaður og uppsögn hans væri ekki stjórnvaldsákvörðun.
Eftir að stefnandi hafði móttekið uppsagnarbréfið, dags. 27. ágúst 1997, ritaði lögmaður Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar Strætisvögnum Reykjavíkur bréf, dags. 11. sept. 1997, þar sem þess var krafist að gerð væri skrifleg grein fyrir ástæðum uppsagnarinnar. Jafnframt var óskað upplýsinga um það hvernig staðið var að ráðningu stefnanda hjá Reykjavíkurborg, þ.m.t. hvort gerður hafi verið skriflegur ráðningarsamningur. Með bréfi Strætisvagna Reykjavíkur, dags. 18. sept. 1997, var upplýst um ástæðu uppsagnarinnar, þ.e. að kl. 00:13 aðfaranótt mánudagsins 25. ágúst hafi stefnandi, sem þá ók leið 1, ekið til hægri á Bústaðavegi í stað þess að aka til vinstri og ljúka aksturshring leiðarinnar á Lækjartorgi. Vegna þessa hafi stefnandi sleppt því að aka tæplega helming þeirrar leiðar er honum bar að aka. Stefnandi hafi ekki svarað kalli varðstjóra sem reyndi að hafa samband við hann vegna þessa. Þann 27. ágúst hafi stefnandi verið í akstri og gerð hafi verið tilraun til þess að fá hann á fund forstjóra og starfsmannastjóra vegna málsins. Hann hafi sagst ekki treysta sér til þess vegna veikinda og hafi farið af vaktinni. Sama dag var stefnanda ritað uppsagnarbréf. Í bréfinu, dags. 18. sept. 1997, segir jafnframt að stefnandi hafi áður fengið áminningu, 13. sept. 1996, fyrir að virða ekki tímasetningar í akstri. Auk þess hafi hann fengið tiltal vegna ýmissa atriða í starfi. Jafnframt er tekið fram að stefnandi hafi verið ráðinn til starfa með þriggja mánaða gagnkvæmum uppsagnarfresti 4. desember 1989 án skriflegs samnings.
Áminning sem veitt er tæpu ári áður en til fyrirvaralausrar uppsagnar kemur, vegna annarskonar atvika en áminningin varðaði, skiptir ekki máli. Þar af leiðandi skiptir áminningin sem stefnanda var veitt 13. sept. 1996, vegna tímatafa við akstur, ekki máli við niðurstöðu máls þessa.
Stefnandi hefur viðurkennt að hafa sleppt tveim biðstöðvum í síðustu ferð að kvöldi 25. ágúst 1997. Hann kvaðst hafa ekið samkvæmt leiðabók upp á Skólavörðuholt, síðan Egilsgötu, Barónsstíg, Eiríksgötu og þaðan inn á Kirkjusand. Þannig hafi han sleppt tveim biðstöðvum. Framburður stefnanda hefur stuðning af framburði vitnisins Jakobs Ágústssonar.
Jóhannes Sigurðsson, forstöðumaður þjónustusviðs Strætisvagna Reykjavíkur, fullyrti hér fyrir dómi að stefnandi hefði sleppt mun fleiri biðstöðvum, þ.e. hann hefði beygt til hægri við gatnamót Flugvallarvegar og Bústaðavegar þegar hann kom af Flugvallarvegi í stað þess að beygja til vinstri.
Fyrir liggja í málinu yfirlýsingar ellefu núverandi og fimm fyrrverandi strætisvagnastjóra um venju þar að lútandi að vagnstjórar sleppi síðustu biðstöðvum í siðustu ferð að kvöldi. Efni þessara yfirlýsinga hefur verið mótmælt af hálfu forstjóra og forstöðumanns þjónustusviðs Strætisvagna Reykjavíkur. Þeir halda því fram að slíkt sé eingöngu heimilt í undantekningartilfellum, þ.e. ef tveir vagnar eru að fara sömu leið og þá með leyfi vaktstjóra. Jafnframt liggja fyrir í málinu yfirlýsingar fjögurra starfsmanna Strætisvagna Reykjavíkur, sem eru fyrrverandi vagnstjórar, tveir þeirra eru nú varðstjórar, einn deildarstjóri akstursdeildar og einn fyrrum varðstjóri, nú launafulltrúi á skrifstofu, um að hvorki hafi verið reglur né venja um að vagnstjórar mættu hætta akstri á leið áður en áætlun lauk þótt enginn farþegi væri í vagninum
Yfirlýsingar strætisvagnastjóranna sextán um venju, í þá átt að vagnstjórar sleppi síðustu biðstöðvum í síðustu ferð að kvöldi, hafa stuðning af framburði Ólafs Bergssonar, fyrrum starfsmanns Strætisvagna Reykjavíkur. Í yfirlýsingu ellefu núverandi strætisvagnastjóra kemur fram að þessi venja hafi verið aflögð um áramót 1997/1998 með sérstökum tilkynningum til vagnstjóra. Verður því að telja framkomið að venja hafi verið að sleppa síðustu biðstöðvum í síðustu ferð að kvöldi, a.m.k. í mörgum tilvikum.
Fram kom hjá Jóhannesi Sigurðssyni, forstöðumanni þjónustusviðs Strætisvagna Reykjavíkur, að ákveðið hafi verið að kalla stefnanda til viðtals daginn eftir. Þjónustustjórinn fór ásamt deildarstjóra akstursdeildar og þeim vagnstjóra sem skyldi leysa stefnanda af niður á Lækjartorg. Jafnframt voru gerðar ráðstafanir til þess að leysa trúnaðarmann úr akstri á sama tíma til þess að hann gæti verið með á fundi sem halda átti með stefnanda. Þegar stefnandi kom á Lækjartorg þá var honum sagt að forstjóri óskaði eftir að ræða við hann. Þá sagðist stefnandi vera orðinn veikur og ekki treysta sér til að koma með þeim og óskaði eftir því að fá að fara heim.
Áður en stefnandi var boðaður á fund forstjórans 27. ágúst 1997 hafði hann óskað eftir því að verða leystur af. Það heyrði þjónustustjórinn í talstöð þegar hann var á leiðinni niður á Lækjartorg til þess að hitta stefnanda. Ekki var stefnanda gefinn annar kostur á því að mæta á fund hjá forstjóranum heldur var honum sent uppsagnarbréf sama dag.
Það að stefnandi hafði óskað eftir því að verða leystur af vegna veikinda áður en hann var boðaður á fund forstjórans gefur til kynna að um raunveruleg veikindi hafi verið að ræða en ekki að stefnandi hafi verið að koma sér undan því að mæta á fund forstjórans.
Enda þótt stefnandi hafi eins og að framan greinir ekki notið réttinda sem opinber starfsmaður þykir bera að gera þær kröfur til forstöðumanna fyrirtækja í opinberri eigu að þeir gæti málefnalegra sjónarmiða í samskiptum sínum við starfsmenn fyrirtækjanna.
Það telst ekki málefnaleg afstaða hjá forstjóra Strætisvagna Reykjavíkur að gefa ekki stefnanda, sem var tæplega 54 ára gamall og hafði unnið hjá Strætisvögnum Reykjavíkur í fjölda ára, annan möguleika á því að mæta á fund og gefa skýringar á því sem ámælisvert taldist, heldur segja stefnanda fyrirvaralaust upp störfum vegna ávirðinga, sem fram er komið að fólust í hegðun, sem viðgengist hafði hjá fjölda starfsmanna í lengri tíma. Vegna þessa ber að dæma stefndu til þess að greiða stefnanda bætur sem ákveðast 275.000 krónur. Við ákvörðun bótanna er höfð hliðsjón af meðalmánaðarlaunum stefnanda síðustu 12 mánuðina sem hann vann sem strætisvagnastjóri. Miðað er við þrjá mánuði og litið til atvinnuleysisbóta.
Krafa stefnanda um miskabætur skv. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 að fjárhæð 500.000 krónur á sér ekki lagastoð og er henni því hafnað.
Niðurstaða málsins er því sú að stefndu eru dæmd in solidum til þess að greiða stefnanda 275.000 krónur með vöxtum eins og krafist var.
Stefndu greiði stefnanda in solidum málskostnað sem ákveðst 115.000 krónur og hefur þá verið litið til virðisaukaskattskyldu lögmannsþóknunar.
Auður Þorbergsdóttir héraðsdómari kveður upp dóminn.
Dómsorð:
Stefndu, Reykjavíkurborg og Strætisvagnar Reykjavíkur, greiði in solidum stefnanda, Pétri I. Hraunfjörð, 275.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 27. apríl 1999 til greiðsludags og 115.000 krónur í málskostnað.