Hæstiréttur íslands
Mál nr. 491/1999
Lykilorð
- Kærumál
- Vitni
|
|
Föstudaginn 7. janúar 2000. |
|
Nr. 491/1999. |
Sveinn R. Eyjólfsson og Eignarhaldsfélagið DB ehf. (Magnús Thoroddsen hrl.) gegn Agnari Bjarnasyni Benedikt Jónssyni Guðnýju S. Sigurðardóttur Hjörleifi Þórðarsyni dánarbúi Péturs Guðjónssonar Guðlaugu Þorkelsdóttur Halldóru Ármannsdóttur Ástu Bj. Benediktsdóttur Ármanni H. Benediktssyni Jóni Inga Benediktssyni Gunnari Benediktssyni Baldri Bergsteinssyni Símoni Símonarsyni Ingólfi Steinssyni Ólafi Brynjólfssyni Tómasi Símonarsyni og Þráni Þorleifssyni (Gunnar Sturluson hrl.) |
Kærumál. Vitni.
Við meðferð einkamáls fyrir héraðsdómi var deilt um hvort leiða ætti tvö vitni áður en málið yrði munnlega flutt um frávísunarkröfu. Þótti verða að beita þeirri aðalreglu laga um meðferð einkamála að skýrslutökur fari fram í einu lagi við upphaf aðalmeðferðar.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.
Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 9. desember 1999, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 16. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 6. desember 1999, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að þeir fengju að leiða vitnin Benedikt Þórðarson og Jón Ásbergsson áður en fram færi munnlegur flutningur um frávísunarkröfu, sem sóknaraðilar hafa gert í máli varnaraðila á hendur þeim. Kæruheimild er í b. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðilar krefjast þess að lagt verði fyrir héraðsdóm að heimila þeim að leiða fyrir dóminn umrædd vitni áður en málið verður munnlega flutt um frávísunarkröfu. Þá krefjast sóknaraðilar kærumálskostnaðar.
Varnaraðilar krefjast þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og sóknaraðilum gert að greiða sér kærumálskostnað.
Í málinu vísa sóknaraðilar meðal annars til þess að á framlögðu endurriti úr fundargerðabók Dagblaðsins hf. frá aðalfundi félagsins 27. ágúst 1982 og eintaki af samþykktum þess sé að finna ýmsar handritaðar athugasemdir, þar á meðal um að fyrrnefnda skjalið hafi verið „Mótt. 27/9“, að ætla megi á árinu 1982. Telja sóknaraðilar að á skjölunum megi þekkja rithönd Ásbergs Sigurðssonar, sem þá var forstöðumaður hlutafélagaskrár. Í þinghaldi í héraði 16. nóvember 1999 var þessu mótmælt af hálfu varnaraðila. Því boðuðu sóknaraðilar tvö vitni til næsta þinghalds, þar sem flytja átti málið um frávísunarkröfu þeirra. Þessi vitni voru núverandi forstöðumaður hlutafélagaskrár og sonur Ásbergs heitins. Sóknaraðilar kveðast hafa þar viljað leggja fyrir vitnin eftirfarandi spurningar: 1. Þekkið þér þessa rithönd? Ef svarið yrði jákvætt: 2. Rithönd hvers er þetta? Varnaraðilar mótmæltu því að vitnin yrðu leidd fyrir dóm við það tækifæri og féllst héraðsdómur á þau mótmæli með hinum kærða úrskurði.
Sóknaraðilar reisa kröfu sína um frávísun málsins einkum á því að frestur til að höfða það samkvæmt 2. mgr. 79. gr. þágildandi laga nr. 32/1978 um hlutafélög hafi byrjað að líða þegar samþykktum Dagblaðsins hf. hafi verið breytt á aðalfundi, en þeir halda fram að það hafi gerst 27. ágúst 1982. Þeir telja því að miklu varði að sanna að hlutafélagaskrá hafi borist 27. september 1982 fyrrnefnd skjöl, sem beri með sér breytingar á samþykktunum. Verði þeim meinuð þessi sönnunarfærsla geti það valdið þeim réttarspjöllum.
Aðalregla 1. mgr. 103. gr. laga nr. 91/1991 er sú að við aðalmeðferð máls fari fram í einni lotu skýrslutökur og munnlegur málflutningur. Af orðalagi ákvæðisins er ljóst að þessi regla er ekki fortakslaus. Undantekningar frá henni eru hins vegar tæmandi taldar í 4. mgr. 102. gr. laganna og fellur skýrslugjöf af þeim toga, sem sóknaraðilar krefjast, ekki undir þær heimildir, sem þar greinir. Til þess verður jafnframt að líta að það atriði, sem sóknaraðilar vilja sanna með framburði fyrrnefndra vitna, tengist beinlínis því, sem aðilana greinir meðal annars á um varðandi efnishlið málsins. Er sóknaraðilum í lófa lagið að afla þessarar sönnunar við aðalmeðferð málsins eftir fyrrnefndri almennri reglu 1. mgr. 103. gr. laga nr. 91/1991 og eru þannig ekki efni til að telja að rétti þeirra verði spillt með því að vitnin verði ekki leidd nú þegar. Í því ljósi er og ástæða til að gæta að því við rekstur málsins hvort tímabært sé á þessu stigi að fjalla um frávísunarkröfu sóknaraðila, sbr. síðari málslið 2. mgr. 100. gr. laga nr. 91/1991. Að öllu þessu gættu verður niðurstaða hins kærða úrskurðar staðfest.
Rétt er að aðilarnir beri hver sinn kærumálskostnað.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 6. desember 1999.
Lögmaður stefndu hefur óskað eftir því að fá að leiða vitnin Benedikt Þórðarson og Jón Ásbergsson í þessu þinghaldi áður en munnlegur málflutningur fer fram um frávísunarkröfu stefndu.
Af hálfu stefnenda er því mótmælt að vitnaleiðslan fari fram og vísað til þess að það sé í andstöðu við réttarfarsreglur.
Samkvæmt 2. mgr. 100. gr. laga um meðferð einkamála skal flytja mál munnlega um frávísunarkröfu stefnda, sem fram hefur komið í greinargerð, áður en fjallað verður frekar um efni málsins, og leyst úr frávísunarkröfunni með úrskurði. Þá kemur sú meginregla fram í 1. mgr. 103. gr. sömu laga að skýrslutökur fari fram í einni lotu við aðalmeðferð máls. Í réttarfarslögum er þó að finna undantekningar frá þessari meginreglu en þær eiga ekki við eins og hér stendur á. Eru því eigi lagaskilyrði til að verða við framkominni kröfu stefndu.
Sigríður Ingvarsdóttir héraðsdómari sem dómsformaður, Hervör Þorvaldsdóttir og Sigurður Hallur Stefánsson héraðsdómarar kváðu upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
Hafnað er kröfu stefndu um að leiða vitnin Benedikt Þórðarson og Jón Ásbergsson í þessum þætti málsmeðferðarinnar.