Hæstiréttur íslands

Mál nr. 308/2007


Lykilorð

  • Skaðabætur
  • Kröfugerð
  • Málsástæða
  • Ómerking héraðsdóms


         

Fimmtudaginn 29. maí 2008.

Nr. 308/2007.

Jóna Björg Jónsdóttir

(Karl Axelsson hrl.)

gegn

íslenska ríkinu

(Skarphéðinn Þórisson hrl.)

 

Skaðabætur. Kröfugerð. Málsástæður. Ómerking héraðsdóms.

J varð fyrir líkamsárás og leitaði á slysadeild vegna áverka. Maður sem grunaður var um verknaðinn var ákærður fyrir brot gegn 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga og gerði J kröfu um greiðslu miskabóta. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 15. nóvember 1999 var ákærði sýknaður þar sem sakir á hendur honum þóttu ósannaðar og bótakröfu J vísað frá dómi. Krafðist J þá greiðslu skaðabóta á grundvelli laga nr. 69/1995 um greiðslu ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota, en var hafnað. J höfðaði þá mál þetta til heimtu skaðabóta. Héraðsdómur komst að þeirri niðurstöðu að J hefði ekki sannað að rekja mætti áverka á mjóbaki sem hún hafði varanlegan miska og varanlega örorku af til líkamsárásarinnar. Kröfur um þjáningabætur og bætur fyrir annað fjártjón næðu ekki 100.000 króna lágmarki sem áskilið væri í 1. mgr. 7. gr. laga nr. 69/1995. Sýknaði héraðsdómur því af kröfum J. Talið var að héraðsdómur hafi ekki tekið afstöðu til kröfu um miskabætur samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 að fjárhæð 1.000.000 krónur, en röksemdir þær sem færðar hafi verið fyrir þeirri kröfu hafi ekki tengst áverkum í mjóbaki. Þótti því ekki verða hjá því komist að ómerkja héraðsdóminn og vísa málinu heim í hérað til meðferðar og dómsálagningar að nýju.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 7. júní 2007. Hún krefst þess aðallega að héraðsdómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað til meðferðar á ný, en til vara að stefnda verði gert að greiða sér 1.781.163 krónur með nánar tilteknum vöxtum frá 23. maí 1998 til greiðsludags. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar, sem henni hefur verið veitt á báðum dómstigum.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Samkvæmt gögnum málsins gaf áfrýjandi sig fram við lögreglu 23. maí 1998 til að kæra líkamsárás, sem hún kvaðst hafa orðið fyrir undangengna nótt utan við tiltekið veitingahús í Reykjavík. Hún hafði áður leitað á slysadeild Sjúkrahúss Reykjavíkur, þar sem hún lýsti fyrir lækni að dyravörður á veitingahúsinu hafi slegið hana í andlitið og hún vankast eða jafnvel misst meðvitund skamma stund, en í vottorði læknisins sagði að hún hafi komið á slysadeildina „vegna skurðar á enni, glóðarauga og verkja í baki.“ Áfrýjandi mun hafa greinst meðal annars með nefbrot, auk þess sem brotnað hafi upp úr öðru herðablaði. Að lokinni lögreglurannsókn var maður, sem lá undir grun um að vera valdur að áverkum áfrýjanda, ákærður 7. september 1999 fyrir að hafa brotið gegn ákvæði 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með líkamsárás á hendur henni, sem hafi haft þær afleiðingar að „hún hlaut skurð á enni, glóðarauga og brot á nefi“, svo sem sagði í ákæru. Í því máli gerði áfrýjandi kröfu um að ákærða yrði gert að greiða henni 500.000 krónur í miskabætur. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 15. nóvember sama ár var ákærði sýknaður af kröfum ákæruvaldsins með því að sakir á hendur honum þóttu ósannaðar, en bótakröfu áfrýjanda var vísað frá dómi. Þessum dómi var ekki áfrýjað til Hæstaréttar.

Að gengnum dómi í áðurnefndu máli leitaði áfrýjandi eftir greiðslu skaðabóta á grundvelli laga nr. 69/1995 um greiðslu ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota með bréfum 28. febrúar 2000 og 16. maí 2003 til bótanefndar, sem starfar samkvæmt ákvæðum IV. kafla þeirra laga. Meðal gagna, sem áfrýjandi lagði fyrir nefndina, var örorkumat 4. febrúar 2003, sem hún hafði aflað upp á sitt eindæmi. Í matinu var meðal annars greint frá efni áðurnefnds vottorðs um komu áfrýjanda á slysadeild 23. maí 1998, svo og vottorðs nafngreinds læknis, þar sem fram kom að hún hafi leitað til hans 11. mars 1999 vegna verkja í mjóbaki. Um heilsufarssögu hennar sagði í síðastnefndu vottorði að hún „lenti í slysi í maí ´98, var hrint af dyraverði, fékk áverka og hefur kvartað um í bak.“ Í niðurstöðu örorkumatsins sagði að varanlegar afleiðingar áverka, sem áfrýjandi hafi hlotið í líkamsárásinni 23. maí 1998, „virðast nánast eingöngu verða bundnar við mjóbak.“ Á þeim grunni var henni metinn 5% varanlegur miski og jafn mikil varanleg örorka, en að auki var hún talin hafa verið veik í skilningi 3. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 þann tíma, sem nefbrot var að gróa, eða í tvo mánuði. Bótanefndin tók afstöðu til kröfu áfrýjanda í ákvörðun 4. júlí 2003. Þar var vísað til þess að krafan tæki nánast eingöngu til áverka, sem ekki hafi verið lýst í fyrrnefndri ákæru 7. september 1999, en viðhlítandi sönnun skorti fyrir því að rekja mætti þá til líkamsárásar 23. maí 1998. Kröfu áfrýjanda um greiðslu var því hafnað.

Áfrýjandi höfðaði mál þetta 29. júní 2005 til heimtu skaðabóta á grundvelli laga nr. 69/1995, sem hún taldi bótanefnd hafa ranglega synjað sér um. Áfrýjandi sundurliðaði fjárhæðina, sem hún krafði stefnda um, á þann hátt að 57.600 krónur væru vegna þjáningabóta, 273.125 krónur vegna varanlegs miska og 300.438 krónur vegna varanlegrar örorku, en þessir þrír liðir voru reistir á niðurstöðum áðurnefnds örorkumats 4. febrúar 2003. Að auki krafðist áfrýjandi skaðabóta að fjárhæð 150.000 krónur vegna annars fjártjóns og 1.000.000 króna í miskabætur samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga, en samtals nam krafa hennar þannig 1.781.163 krónum.

Í hinum áfrýjaða dómi var með ítarlegum röksemdum komist að þeirri niðurstöðu að áfrýjandi hefði ekki sannað að rekja mætti áverka á mjóbaki til líkamsárásar 23. maí 1998. Krafa hennar um þjáningabætur að fjárhæð 57.600 krónur hefði ekki sætt andmælum, en ekki yrði séð að krafa um bætur vegna annars fjártjóns, sem rekja mætti til líkamsárásarinnar, gæti numið hærri fjárhæð 42.400 krónum. Með því að áskilið væri í 1. mgr. 7. gr. laga nr. 69/1995 að bætur greiddust ekki samkvæmt þeim nema höfuðstóll bótakröfu væri að lágmarki 100.000 krónur var stefndi sýknaður af kröfu áfrýjanda.

Í héraðsdómsstefnu sagði að fyrrnefndur kröfuliður áfrýjanda um miskabætur samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga að fjárhæð 1.000.000 krónur væri reistur á því hversu alvarleg og fólskuleg líkamsárásin á hendur henni 23. maí 1998 hafi verið. Hún hafi verið slegin í andlitið með krepptum hnefa og með slíku afli að hún hafi fallið í jörðina og vankast. Árásin hafi verið með öllu tilefnislaus og muni áfrýjandi bera einkenni hennar um ókomna framtíð. Þessar röksemdir, sem færðar voru fyrir rétti áfrýjanda til miskabóta, tengjast ekki áverkum á mjóbaki, sem henni var metinn varanlegur miski og varanleg örorka fyrir, og fólst því ekki höfnun á þessum kröfulið í þeirri niðurstöðu héraðsdóms að ósannað væri að þeir áverkar væru afleiðing líkamsárásarinnar. Til þessa kröfuliðar, sem var meira en helmingur höfuðstóls dómkröfu áfrýjanda, tók héraðsdómur ekki afstöðu á annan hátt. Vegna þessa er óhjákvæmilegt að ómerkja hinn áfrýjaða dóm og vísa málinu heim í hérað til meðferðar og dómsálagningar á ný.

Ákvörðun málskostnaðar og gjafsóknarkostnaðar í héraði verður að bíða nýs dóms í málinu, en rétt er að málskostnaður fyrir Hæstarétti í þessum þætti málsins falli niður. Um gjafsóknarkostnað áfrýjanda fyrir Hæstarétti fer samkvæmt því, sem í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur er ómerktur og er málinu vísað heim í hérað til meðferðar og dómsálagningar á ný.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda, Jónu Bjargar Jónsdóttur, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, 300.000 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 29. janúar 2007.

I

Mál þetta, sem dómtekið var miðvikudaginn 3. janúar sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Jónu Björgu Jónsdóttur, kt. 310882-5349, Dísaborgum 2, Reykjavík, með stefnu birtri 29. júní 2005 á hendur íslenzka ríkinu.

Dómkröfur stefnanda eru þær, að stefnda verði gert að greiða stefnanda miska- og skaðabætur að fjárhæð kr. 1.781.163, ásamt 2% ársvöxtum, samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, frá 23. maí 1998 til 16. júní 2003, en með dráttarvöxtum samkvæmt lögum um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda að skaðlausu, að teknu tilliti til greiðslu virðisaukaskatts, líkt og mál þetta væri ekki gjafsóknarmál.

Dómkröfur stefnda eru þær, að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda, og að stefnandi verði dæmd til að greiða stefnda málskostnað að mati dómsins.

II

Málavextir

Málsatvik eru þau, að aðfararnótt 23. maí 1998 var stefnandi, ásamt þáverandi kærasta sínum, Daníel Tosta, að skemmta sér í miðbæ Reykjavíkur. Þau fóru að veitingastaðnum Glaumbar og sóttust eftir því að komast inn á staðinn, en dyraverðir staðarins meinuðu þeim aðgang. Kveður stefnandi átök hafa orðið fyrir framan veitingastaðinn, sem leitt hafi til þess, að Daníel hafi verið tekinn hálstaki af einum dyravarðanna, snúinn niður og dreginn inn í anddyri veitingastaðarins. Daníel hafi kallað til stefnanda, sem hafi komið að og reynt að fá honum sleppt. Stefnandi hafi hins vegar verið slegin í andlitið og vankazt og hafi hún ekki vitað af sér fyrr en nokkru síðar.

Stefnandi kveðst hafa hlotið allnokkur meiðsl í kjölfarið. Hún hafi verið með verki í baki, auga og nefi og skurði á enni. Lagði hún fram kæru vegna málsins laust eftir hádegi sama dag. Stefnandi gat ekki lýst árásarmanninum, en Daníel hafði orðið vitni að árásinni, og kvað hann árásarmanninn hafa verið kallaðan Karl. Bæði stefnandi og Daníel mættu í myndsakbendingu 17. desember 1998. Stefnandi gat ekki greint hinn grunaða af myndunum, en Daníel benti á mynd af Karli Sædal Sveinbjörnssyni og kvað hann vera þann, sem réðst á stefnanda.

Stefnandi leitaði til slysadeildar Landspítala-háskólasjúkrahúss í Fossvogi 23. maí 1998 vegna líkamsárásarinnar. Var hún þá með skurði á enni, glóðarauga og verki í baki. Röntgenmynd var tekin af herðablaði, sem sýndi „os infrascapulare“. Hún fór í skoðun til Magnúsar Guðmundssonar gigtarlæknis 11. marz 1999 og kveðst enn hafa verið með allnokkra verki í mjóbaki, sem hún hafi hlotið af líkamsárásinni.

Að beiðni lögmanns stefnanda mat Jónas Hallgrímsson læknir áverka stefnanda vegna slyssins. Er matsgerð hans dagsett 4. febrúar 2003. Niðurstaða læknisins er sú, að stefnandi hafi verið veik í skilningi skaðabótalaga í tvo mánuði, en stöðugleikapunktur var settur 23. júlí 1998 með tilliti til þess, að ekki varð frekari bati. Varanlegan miska taldi læknirinn vera 5% og varanlega örorku 5%.

Með ákæru, dags. 7. september 1999, var höfðað opinbert mál á hendur Karli Sædal Sveinbjörnssyni. Var hann ákærður fyrir að hafa slegið stefnanda hnefahögg í andlitið með þeim afleiðingum, að hún hlaut skurð á enni, glóðarauga og brot á nefi, eins og það var orðað í ákærunni. Með dómi, uppkveðnum 15. nóvember sama ár, var Karl Sædal sýknaður af kröfum ákæruvaldsins, þar sem ekki þótti sannað gegn neitun hans, að hann hefði slegið stefnanda í andlitið, og jafnframt var miskabótakröfu stefnanda vísað frá dómi.

Stefnandi leitaði eftir afstöðu bótanefndar samkvæmt lögum nr. 69/1995 til þess, hvort fullnægt væri skilyrðum laga nr. 69/1995 um greiðslu ríkissjóðs á bótum til hennar vegna áverkanna, sem hún kveðst hafa hlotið í umrætt sinn. Með bréfi, dags. 22. janúar 2002, taldi bótanefndin sannað, að stefnandi hefði hlotið þá áverka, sem lýst var í ákæru, vegna líkamsárásar, án þess þó að taka afstöðu til þess, hver hefði framið verknaðinn. Með bréfi, dags. 16. maí 2003, var lögð fram bótakrafa af hálfu stefnanda. Bótanefndin taldi, að þeir áverkar, sem krafan var í meginatriðum byggð á, hefðu ekki komið fram í ákæru lögreglustjórans, dags. 7. september 1999. Bótanefndin taldi, að ósannað væri, að stefnandi hefði hlotið þá áverka, sem voru grundvöllur kröfu um varanlegan miska og varanlega örorku, í kjölfar líkamsárásar og hafnaði umsókn stefnanda um greiðslu bóta úr ríkissjóði á grundvelli laga nr. 69/1995.

Stefnandi leitaði til Magnúsar Guðmundssonar læknis, og kemur fram í læknisvottorði hans, dags. 22. september 2003, að mein í baki stefnanda mætti rekja til árásarinnar 1998. Með bréfi, dags. 26. september 2003, ritaði lögmaður stefnanda bréf til bótanefndar og lagði fram beiðni um endurupptöku máls nr. 26/2000. Vísað var til áðurnefnds læknisvottorðs Magnúsar Guðmundssonar, sem sönnun þess að mein í baki stefnanda mætti rekja til árásarinnar árið 1998. Bótanefnd hafnaði hins vegar kröfu stefnanda að nýju með bréfi, dags. 8. desember 2003, og taldi enn ekki sannað, að bakverki mætti að nokkru leyti rekja til umræddrar árásar.

Stefnandi kveðst ekki geta unað við þessa afstöðu bótanefndarinnar og sé henni því nauðugur sá kostur að höfða mál til heimtu bótanna.

Með bréfi dómsmálaráðherra, dags. 17. október 2003, var stefnanda veitt gjafsókn í máli þessu.

III

Málsástæður stefnanda

Stefnandi kveðst byggja kröfur sínar á lögum um greiðslu ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota nr. 69/1995 og á skaðabótalögum nr. 50/1993, eins og þeim hafi verið breytt með lögum nr. 42/1996. Sé á því byggt, að bótanefndin hafi, með óréttmætum hætti, hafnað greiðslu til stefnanda vegna líkamsárásarinnar, sem hún varð fyrir árið 1998.

Stefnandi kveður ágreining málsins aðallega lúta að því, hvort hún hafi orðið fyrir bakmeiðslum í kjölfar árásarinnar 23. maí 1998. Óumdeilt sé, að stefnandi hafi orðið fyrir líkamsárás þennan dag og hlotið allnokkur meiðsl. Bótanefnd hafi hins vegar talið ósannað, að bakmeiðsl hennar megi rekja til líkamsárásarinnar. Nefndin virðist byggja þessa afstöðu sína alfarið á því, að ekki sé vikið að þessum meiðslum stefnanda í ákæru, sem gefin hafi verið út á hendur Karli Sædal Sveinbjörnssyni. Stefnandi hafi ekki komið að gerð ákærunnar og hafi ekki getað haft áhrif á efni hennar á nokkurn hátt. Því sé ekki hægt að líta á ákæruna sem sönnun um, hvaða meiðsl stefnandi hafi hlotið og hvaða meiðsl hún hafi ekki hlotið.

Stefnandi hafi leitað læknisaðstoðar vegna einkenna sinna. Í læknabréfi Magnúsar Guðmundssonar, dags. 25. febrúar 2002, komi fram, að við komu 11. marz 1999 hafi stefnandi verið með verki í baki eftir árásina. Jafnframt komi fram í matsgerð Jónasar Hallgrímssonar læknis, að stefnandi hafi fengið verki í bakið í kjölfar árásarinnar, sem væru viðvarandi. Árásarmaðurinn hafi slegið hana með krepptum hnefa í andlitið og við það hafi hún fallið í jörðina. Höggið hafi verið það mikið, að stefnandi hafi vankazt, auk þess sem hún hafi hlotið veruleg meiðsl í andliti. Við þetta högg og fallið sé ljóst, að stefnandi hafi hlotið þá bakverki, sem hún í dag búi við. Vottorð Magnúsar Guðmundssonar læknis og áðurnefnd matsgerð veiti ótvíræða sönnun um, að stefnandi hafi hlotið bakmeiðslin við umrætt atvik, sem og önnur meiðsl, sem bótakrafa hennar sé byggð á. Þessum gögnum hafi ekki verið hnekkt af hálfu stefnda.

Bakmeiðslin séu ekki eini grundvöllur að kröfu stefnanda á hendur bótanefnd. Hún hafi hlotið önnur meiðsl, eins og fram komi í læknisvottorðum og matsgerð Jónasar Hallgrímssonar læknis.

Kröfur stefnanda taki mið af lánskjaravísitölu í maímánuði 2003, sem hafi verið 4482 stig. Helgist það af ákvæðum 15. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Þar sé mælt fyrir um, að bætur skuli ákveða á grundvelli vísitölu, þegar bótafjárhæð sé ákveðin. Krafa stefnanda um skaðabætur hafi verið gerð með bréfi, dags. 16. maí 2003, og eigi stefnandi þar af leiðandi rétt til dráttarvaxta frá og með 16. júní 2003, sbr. ákvæði laga nr. 38/2001 um vexti og verðbætur. Stefnandi krefjist að öðru leyti 2% ársvaxta af kröfum sínum frá slysdegi til þess dags, sem dráttarvextir reiknist, sbr. 16. gr. skaðabótalaga.

Krafa stefnanda sundurliðist svo:

1.                                                  Þjáningabætur

                                                     - 60 dagar x 960 kr.                                kr.                      57.600

2.                                                  Varanlegur miski

                                                     - 5% x 5.462.500 kr.                               kr.                    273.125

3.                                                  Varanleg örorka

                                                     - 273.125 kr. x 110%                              kr.                    300.438

4.                                                  Annað fjártjón                                      kr.                    150.000

5.                                                  Miskabætur skv. 26. gr. skbl.             kr.                 1.000.000

                                                     Samtals                                                               kr.    1.781.163

Um 1. tl.:

            Samkvæmt 3. gr. skaðabótalaga skuli greiða þjáningabætur frá því að tjón varð, þar til ekki sé að vænta frekari bata, kr. 700 fyrir hvern dag, sem tjónþoli sé veikur, án þess að vera rúmliggjandi. Þessi fjárhæð breytist samkvæmt vísitölu, sbr. 15. gr. skaðabótalaga (vísitala í júlí 1993, 3282, og vísitala í maí 2003, 4482) og ákvarðist hún í maí 2003 kr. 960. Af hálfu stefnanda sé byggt á mati Jónasar Hallgrímssonar læknis, hvað þjáningatímabil varði, þar sem því sé slegið föstu, að stefnandi hafi verið veik í skilningi skaðabótalaga frá slysdegi til 23. júlí 2003. Tímabil þetta sé samtals tveir mánuðir. Af þessu leiði, að stefnandi eigi rétt til þjáningabóta að fjárhæð kr. 960 á dag í 60 daga. Þjáningabætur séu því að fjárhæð kr. 57.600.

Um 2. tl.:

Krafa stefnanda um miskabætur byggi á 4. gr. skaðabótalaga og á mati Jónasar Hallgrímssonar læknis á því, að varanlegur miski stefnanda vegna slyssins sé 5%. Afleiðingar árásarinnar hafi reynzt vera varanlegar og verði raktar til árásarinnar. Fyrirsjáanlegt sé, að afleiðingar árásarinnar, sem hafi verið fólskuleg og með öllu tilefnislaus, muni valda stefnanda töluverðum óþægindum og erfiðleikum í framtíðinni, bæði fjárhagslega og félagslega. Fjárhæð bótanna taki mið af grunnfjárhæðinni, kr. 4.000.000, uppfærðri, miðað við vísitölu í maí 2003 (3282 stig í júlí 1993 upp í 4482 stig í maí 2003), sbr. 15. gr. skaðabótalaganna. Fjárhæð bóta fyrir varanlegan miska ákveðist því kr. 273.125.

Um 3. tl.:

Stefnandi geri kröfu um varanlega örorku á grundvelli 5.-8. gr. skaðabótalaga, eins og þau voru á slysdegi. Samkvæmt mati Jónasar Hallgrímssonar hafi stefnandi hlotið 5% varanlega örorku við árásina. Stefnandi hafi einungis verið 16 ára, þegar atburðurinn varð. Fari um bætur til hennar vegna varanlegrar örorku eftir 8. gr. skaðabótalaga. Örorkubætur séu því 110% af bótum fyrir varanlegan miska og ákvarðast þar af leiðandi sem kr. 300.438.

Um 4. tl.:

Krafa um bætur fyrir annað fjártjón byggist á 1. mgr. 1. gr. skaðabótalaganna og almennum, ólögfestum reglum skaðabótaréttarins um að tjónþolar skuli vera eins settir fjárhagslega eftir uppgjör bóta og ef líkamstjón hefði ekki orðið. Krafan grundvallist af því, að vegna árásarinnar hafi stefnandi þurft að standa straum af ýmsum kostnaði, svo sem við það að sækja læknisaðstoð, afla sér lyfja o.fl. Ekki fái staðizt, að stefnandi verði að bera sjálf það tjón, sem hún hafi orðið fyrir vegna árásarinnar. Ljóst sé, að árásin hafi raskað stöðu hennar og högum með verulegum hætti. Erfitt sé að meta þennan kostnað nákvæmlega, en að álitum sé krafizt kr. 150.000.

Um 5. tl.:

Krafa stefnanda um miskabætur á grundvelli 26. gr. skaðabótalaga byggist á því, hversu alvarleg og fólskuleg árásin hafi verið. Stefnandi hafi verið slegin í andlitið með krepptum hnefa og með slíkum krafti, að hún hafi fallið í jörðina og vankazt. Árásin hafi verið með öllu tilefnislaus, og muni stefnandi bera einkenni hennar um ókomna framtíð. Krafa stefnanda um bætur vegna miska á grundvelli 26. gr. skaðabótalaga sé að fjárhæð kr. 1.000.000.

Um lagarök sé vísað til ákvæða laga um greiðslur ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota nr. 69/1995, skaðabótalaga nr. 50/1993 og almennra reglna skaðabótaréttarins. Um málskostnað vísist til ákvæða í XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Stefnandi kveðst ekki vera virðisaukaskattskyld.

Málsástæður stefnda

Í upphafi kveðst stefndi vekja athygli á því, að kröfugerð stefnanda í málinu kunni að vera lögum andstæð. Ekki sé þó gerð sérstök frávísunarkrafa vegna þessa.

Stefnandi krefjist ekki ógildingar á ákvörðun bótanefndar, sem fram komi í dómskjali nr. 16, heldur geri hún sjálfstæða kröfu um, að ríkissjóður greiði sér bætur í andstöðu við gilda ákvörðun bótanefndarinnar. Sú niðurstaða, að ríkissjóður væri dæmdur til að greiða bætur í trássi við formlega gilda ákvörðun bótanefndar, sem ekki hefði verið felld niður eða afturkölluð, sé ótæk. Stefnandi krefjist þess að auki, að dómstóll taki stjórnsýsluákvörðun, sem sé í andstöðu við allar meginreglur stjórnskipunarinnar.

Stefnandi hafi komið á slysadeild Landspítala-háskólasjúkrahúss í Fossvogi laust fyrir hádegi 23. maí 1998 og sagzt hafa orðið fyrir líkamsárás fyrir utan tiltekinn veitingastað í Reykjavík.

Segir í dómskjali nr. 5, sem sé læknabréf aðstoðarlæknis af slysa- og bráðasviði sjúkrahússins, að stefnandi hafi vankazt og misst meðvitund um stundarsakir og komi vegna skurðar á enni og glóðarauga, auk verkja í baki. Greiningar séu mar og yfirborðsáverkar á andliti, sár umhverfis augu, brot á herðablaði, nefbrot og heilahristingur. Sé engum áverkum eða kvörtunum lýst í vottorðinu varðandi bak, nema því sem tengist broti á hægra herðablaði.

Á dómskjali nr. 6, sem sé vottorð sérfræðings af háls- nef- og eyrnadeild Sjúkrahúss Reykjavíkur, komi fram, að stefnandi hafi komið á göngudeild þann 8. júní 1999 vegna afleiðinga umræddrar árásar. Sé þar nokkuð lýst áverkum, en ekki sé lýst neinum áverkum á baki eða nokkru, sem sé neðar en hálsinn. Komi fram, að nefbrot hafi verið rétt.

Á dómskjali nr. 7, sem sé vottorð læknis á slysadeild, komi fram sams konar upplýsingar um stefnanda og á dómskjali nr. 5, en ekki sé getið neins varðandi bak stefnanda, nema fyrrnefnds brots á herðablaði. Komi fram, að ekki sé að sjá, að stefnandi hafi komið aftur á slysadeild vegna þessa.

Stefnandi hafi gefið skýrslu hjá lögreglu vegna umrædds máls þann 23. maí 1998, sbr. dskj. nr. 4. Kveðist hún þá ekki muna neitt eftir meintri árás, en hún hafi strax inni á veitingastaðnum fundið til mikilla eymsla í hægri augabrún, nefi og hægra herðablaði. Hafi hún þó verið áfram á veitingastaðnum og svo gist hjá vini sínum um nóttina. Segi hún síðan frá komu sinni á slysadeild þann dag, og hafi hún verið skoðuð af lækni og komið í ljós, að brotnað hefði upp úr hægra herðablaði, þrjú spor hafi verið saumuð í augabrún auk þess sem líkur væru á nefbroti. Í sama dómskjali komi fram skýrslugjöf þáverandi unnusta stefnanda, Daníels Tosti, þann 20. júlí 1998. Komi fram hjá honum, að tiltekinn maður hafi slegið stefnanda krepptum hnefa í andlit og hún fallið aftur fyrir sig. Kveði hann stefnanda ekki hafa talið um að ræða mikla áverka og þau því verið áfram á veitingastaðnum, það sem eftir hafi lifað kvölds, og drukkið frítt í boði hússins. Daginn eftir hafi stefnandi fundið til eymsla við hægra herðablað og því farið á slysadeild, þar sem komið hafi í ljós, að brotnað hefði upp úr herðablaðinu og verið saumuð nokkur spor í augabrún. Í sama dómskjali komi fram hjá yfirmanni dyravarða veitingastaðarins, vitninu, Völundi Helga Þorbjörnssyni, að stefnandi og unnusti hennar hafi verið áberandi ölvuð og með leiðindi, áður en meint líkamsárás hafi orðið. Komi fram hjá honum, að aðspurð hafi stefnandi sagt honum, að hún kenndi ekki til eymsla annars staðar en í litlum skurði við annað augnlok. Í sama dómskjali komi fram hjá vitninu, Páli Sigurðssyni, að stefnandi hafi ekki verið með skilríki og virzt áberandi ölvuð, en hún og unnusti hennar hafi verið með leiðindi. Í sama dómskjali komi fram hjá vitninu, Stefaníu Kristjánsdóttur, að átök hafi orðið utan við veitingastaðinn, og síðar um kvöldið hafi stefnandi haldið á pappír utan um höfuðið, líkt og hún hafi meitt sig í andlitinu. Komi ekki fram hjá henni vitneskja um, að stefnandi hafi meitt sig frekar. Hjá vitninu, Berglindi Lovísu Sveinsdóttur, komi fram í sama dómskjali, að stefnandi hafi verið með tár í augum og virzt bólgin við annað augað. Síðan hafi allt virzt leika í lyndi hjá stefnanda og unnusta hennar og þau verið á veitingastaðnum allt til lokunar um kl. 03.00 og ekki að sjá, að nokkuð væri að hjá þeim. Ekkert þessara vitna nefni, að stefnandi hafi meitt sig eða fengið áverka á mjöðm eða mjóbak. Það komi heldur ekki fram hjá stefnanda sjálfri og sé raunar hvergi getið í allri lögreglurannsókninni.

Lögreglustjórinn í Reykjavík hafi gefið út ákæru á hendur tilteknum manni þann 7. september 1999, fyrir líkamsárás, með því að hafa 23. maí 1998, við inngang veitingastaðarins Glaumbar við Tryggvagötu í Reykjavík, slegið stefnanda þessa máls í andlitið með þeim afleiðingum, að hún hafi hlotið skurð á enni, glóðarauga og brot á nefi. Í ákærunni hafi meint árás verið færð til 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en það, sem hafi að líkindum ráðið þeirri heimfærslu, sé nefbrotið. Í ákærunni hafi miskabótakrafa stefnanda verið að fjárhæð kr. 500.000. Krafa stefnanda á þeim tíma hafi verið fjarri því, sem hún sé nú. Þá hafi áverkar hennar verið taldir minni en hún kveði nú vera. Dómur hafi verið kveðinn upp í málinu 15. nóvember 1999 og hafi ákærði verið sýknaður og bótakröfunni vísað frá. Í dóminum komi ekki fram frekari upplýsingar um áverka stefnanda, sízt að því er varði áverka á baki, og hvergi séu mjóbak stefnanda og mjöðm nefnd í endurriti dómsins.

Á dskj. nr. 8, læknabréfi Magnúsar Guðmundssonar, dags. 25. febrúar 2002, segi frá því, að stefnandi hafi komið til hans 11. marz 1999. Þá hafi hún lengi verið með verk í mjóbaki og verri í vinstri hluta líkamans, en ekki segi, hve lengi. Hún sé sögð alltaf með verkjaseiðing í baki, sem leiði niður í vinstri mjöðm. Ekki komi fram, hver sé ástæða þessa, en geti þó stafað af „fleyglaga kompressions fracturu LI.“, án þess að það sé skýrt nánar. Ekki segi í vottorði þessu, að verkir í mjóbaki og mjöðm séu afleiðing þeirrar líkamsárásar, sem stefnandi kveðist hafa orðið fyrir 23. maí 1998, enda hafi stefnandi í engu getið þess, þegar hún gaf skýrslu hjá lögreglu eða kom fyrir dóm vegna þess máls. Hvergi komi fram í málinu neitt um, að stefnandi hafi kvartað vegna verkja í mjöðm eða mjóbaki fyrr en 11. marz 1999, en það sé um 10 mánuðum eftir meinta líkamsárás.

Á dómskjali nr. 21, læknabréfi frá síðastgreindum lækni, dags. 22. september 2003, sem sé ætlað sem viðbót við bréfið frá 22. febrúar 2002, segi, að stefnandi hafi ekki verið með verki í fyrri sögu eða áverka, en þetta bendi til, að hún hafi fengið verkina í bakið, eftir að henni var hrint í maí 1998, eins og segi í bréfinu.

Síðastgreint bréf sé eina gagnið í málinu, sem tengi á einhvern hátt saman meinta líkamsárás og sagðan verk í mjöðm og mjóbaki, en ekki þó með neinum röksemdum, rannsóknum eða fræðilegum útlistunum. Sé engin grein gerð nánar fyrir þessu. Komi ekki skýrt fram, hvort læknirinn telji meinta árás vera orsök verkjanna eða ekki, en þaðan af síður komi fram nokkur greinargerð um það, hvernig meint líkamsárás ætti að vera orsök verkja í mjóbaki eða mjöðm.

Í dskj. nr. 10, matsgerð Jónasar Hallgrímssonar læknis, sé gerð órökstudd tilraun til að tengja saman verki í mjóbaki og meinta líkamsárás. Stefndi mótmæli umræddu gagni að öllu leyti. Mats þessa hafi ekki verið aflað á þann hátt, sem réttarfarslög geri ráð fyrir og ekki hafi verið haft neitt samráð við stefnda um gerð þess og öflun.

Sé öllum niðurstöðum og ályktunum, sem fram komi í umræddu gagni, mótmælt harðlega, bæði að því er varði meint tengsl milli verkja stefnanda í mjöðm og mjóbaki og meintrar árásar, sem og varðandi aðrar afleiðingar meintrar árásar, sem og um tjón stefnanda að öðru leyti, en jafnframt sé gagninu mótmælt í heild sinni.

Stefndi telji ekki neitt orsakasamband vera sannað milli meintrar líkamsárásar og þeirra verkja, sem stefnandi kveðist hafa í mjöðm og mjóbaki. Það sé stefnanda að sanna tjón sitt, og að það megi rekja til brots á almennum hegningarlögum, eins og lýst sé í lögum um greiðslu ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota nr. 69/1995. Það hafi stefnandi ekki gert. Henni hefði t.a.m. verið auðvelt að afla matsgerðar í samræmi við ákvæði réttarfarslaga og láta dómkveðja matsmenn. Það hafi stefnandi ekki gert, og hafi henni ekki tekizt nein sönnun fyrir staðhæfingum sínum um tjón sitt og orsakatengsl þess við meinta líkamsárás. Stefnandi beri hallann af öllum sönnunarskorti í málinu, en ekki séu skilyrði til að snúa sönnunarbyrði við.

Að áliti stefnda beri stefnandi engar afleiðingar vegna meintrar líkamsárásar, eða annars hegningarlagabrots, sem geti orðið til þess að greiða beri stefnanda bætur úr ríkissjóði í samræmi við lög nr. 69/1995. Sé því lýst í dskj. nr. 16, eins og stefnandi geri grein fyrir meintu tjóni sínu, að það falli utan greiðsluskyldu ríkissjóðs, eftir að tekið hafi verið frá hið ósannaða tjón, sem leitt sé af verkjum í mjóbaki og mjöðm og eigi að stafa af meintri líkamsárás, en þau tengsl séu ósönnuð. Það, sem þá standi eftir, sé utan greiðsluskyldu ríkissjóðs, eins og lýst sé í nefndu dómskjali nr. 16, en með því sé þó alls ekki sagt, að stefndi fallist á réttmæti alls meints tjóns, annars en vegna verkja í mjöðm og mjóbaki.

Ekkert sé vitað, hvað drifið hafi á daga stefnanda, allar götur frá meintri árás og til 11. marz 1999, þegar hún kveðist hafa verki í baki. Sé alls ekki unnt að útiloka, að á því tímabili hafi einhver atburður orðið í lífi stefnanda, sem hafi valdið bakverkjum. Í þessu sambandi megi vísa til þess, að eftir meinta árás hafi stefnandi hvorki misst úr skóla né vinnu og þyki það heldur veita um það vísbendingar, að hún hafi þá ekki orðið fyrir þeim meintu áverkum, sem hún nú lýsi.

Ekki verði horft hjá því, að stefnandi virðist ekki hafa fundið meira fyrir áverkum en svo, að vitni kveði hana hafa verið á skemmtistaðnum fram á miðja nótt við áfengisdrykkju og sé ekki að sjá, að meint líkamsárás og áverkar hafi orðið henni að fótakefli þá um nóttina. Það sýnist ekki vera fyrr en komið sé fram á miðjan næsta dag, að stefnandi telji ástæðu til að leita læknis. Þetta þyki heldur horfa til þess, að áverkar hafi verið smávægilegir, en af því megi draga þá ályktun, að hafi stefnandi á annað borð orðið fyrir heilsutjóni, sem hún lýsi, þá hafi það ekki komið til í þetta sinn.

Þá telji stefndi, að líta verði til eigin sakar stefnanda í málinu, en samkvæmt gögnum málsins sýnist ljóst, að hún hafi, með háttalagi sínu við veitingastaðinn, orðið til þess, að dyraverðir hafi orðið að ýta við henni í greint sinn. Þá verði ekki horft hjá því, að samkvæmt gögnum málsins virðist stefnandi hafa verið áberandi ölvuð og þar af leiðandi völt á fótum.

Stefndi mótmæli öllum tölulegum grundvelli og útreikningi kröfunnar. Bæði séu þau mótmæli grundvölluð á því, að matsgerð á dskj. nr. 10 sé haldlaus að mati stefnda, eins og áður hafi verið lýst, en jafnframt þyki tölulegur útreikningur meints tjóns órökstuddur og ófullnægjandi. Krafa um bætur fyrir annað fjártjón sé ekki studd neinum gögnum eða rökum. Krafa um miskabætur á grundvelli 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 sé órökstudd og allt of há. Sé t.d. vísað til þess af hálfu stefnda varðandi þennan lið, að um hann segi í stefnu, að stefnandi muni „bera einkenni árásarinnar um ókomna tíð “, en ekki sé það rökstutt á neinn hátt.

Stefndi mótmæli útreikningi vaxta og telji nær, að dráttarvextir myndu reiknast við síðara tímamark. Sé vísað til 9. gr. i.f. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 að þessu leyti. Sérstaklega sé tekið fram, að stefnandi þyki ekki hafa fullnægt skilyrðum 9. gr. síðastnefndra laga um skyldu tjónþola til að veita upplýsingar til að meta tjónsatvik og fjárhæð bóta.

Kjarni málsins sé sá, að tjón stefnanda sé ósannað og orsakatengsl þess við meinta líkamsárás sé ósannað. Sé ríkissjóði óheimilt að greiða bætur, þegar svo standi á, en kröfugerð stefnanda hafi ekki uppfyllt skilyrði laga nr. 69/1995.

Að öðru leyti sé málatilbúnaði, málsástæðum og lagarökum stefnanda mótmælt sem röngum og ósönnuðum.

Til stuðnings kröfu um málskostnað vísi stefndi til XXI. kafla laga nr. 91/1991.

IV

Forsendur og niðurstaða

Samkvæmt 9. gr. l. nr. 69/1965 um greiðslu ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota, skal greiða tjónþola bætur samkvæmt lögunum, þótt ekki sé vitað, hver tjónvaldur sé. Um skilyrði bótagreiðslu og fjárhæð bótanna er fjallað í III. kafla laganna. Svo sem að framan er rakið í kaflanum um málavexti, sótti stefnandi um bætur til bótanefndar. Hafnaði bótanefnd kröfunni með ákvörðun, dags. 4. júlí 2003. Stefnandi gerir ekki kröfu um ógildingu þeirrar ákvörðunar í máli þessu, og gerir stefndi athugasemdir við það í málatilbúnaði sínum, án þess þó að hafa uppi kröfur vegna þess.

Ákvörðun bótanefndar er endanleg niðurstaða máls á stjórnsýslustigi, skv. 16. gr. l. nr. 69/1995. Hins vegar verður ekki talið, að nauðsyn beri til að gera sérstaka kröfu um ógildingu ákvörðunar nefndarinnar fyrir dómi samhliða bótakröfunni, og á sú niðurstaða fordæmi í dómi Hæstaréttar í máli nr. 194/2005, þar sem ekki var gerð athugasemd við sambærilegan málatilbúnað að þessu leyti.

Krafa stefnanda byggir á því, að bakverkir, sem hún þjáist af og eru grundvöllur örorku hennar og miska samkvæmt mati Jónasar Hallgrímssonar læknis á dskj. nr. 10, séu afleiðing líkamsárásarinnar, sem hún varð fyrir að kvöldi 22. maí 1998.

Ekki er ágreiningur um, að stefnandi hafi orðið fyrir meiðslum umrætt sinn, en sýknukrafa stefnda byggir á því, að ósannað sé, að umræddir bakverkir stafi af meiðslum, sem hún hlaut þá.

Í skýrslu hjá lögreglu, sem tekin var daginn eftir atburðinn, skýrði stefnandi m.a. svo frá, að hún hefði hlaupið til hjálpar þáverandi unnusta sínum, Daníel Tosti, þar sem dyravörður hélt honum niður í gangstéttina með hálstaki, og það næsta sem hún mundi var, að henni var hjálpað á fætur af yfirdyraverði á Glaumbar, og hafi hún fundið til mikilla eymsla í hægri augabrún, nefi og hægra herðablaði. Næsta dag hafi hún farið á slysadeild Sjúkrahúss Reykjavíkur og hafi þar komið í ljós, að brotnað hafði upp úr hægra herðablaði, sauma þurfti í augabrún og taldar líkur á, að hún væri nefbrotin.

Daníel Tosti skýrði svo frá hjá lögreglu, að hann hafi séð dyravörð slá með krepptum hnefa í andlit stefnanda og við það hafi hún fallið aftur fyrir sig á borð í anddyri veitingastaðarins. Settur hafi verið plástur á augabrún stefnanda og hefðu þau síðan haldið áfram að skemmta sér. Það hafi verið fyrst næsta dag, sem stefnandi hafi fundið fyrir miklum eymslum í baki neðan til við hægra herðablað.

Stefnandi gaf skýrslu fyrir dómi við aðalmeðferð og skýrði svo frá m.a., að við höggið hefði brotnað upp úr herðablaðinu, auk þess sem hún hafi meiðzt í mjóbaki. Hún hefði lent með bakið á borði, og taldi hún ákomustaðinn hafa verið þar sem brotnaði upp úr herðablaðinu. Hún kvaðst ekki hafa orðið fyrir öðrum áverkum eftir umrætt atvik og ekki hafa fundið til í bakinu áður. Hún kvað bakverkina hafa aukizt eftir því sem leið frá atvikinu, og það hefði bara tafizt, að hún leitaði sér læknis. Hún hafi verið búin að leita til heimilislæknis síns, áður en hún fór til Magnúsar Guðmundssonar læknis, þannig að það hafi orðið töf á því, að hún færi til Magnúsar, og hafi verkirnir verið farnir að há henni, þegar hún fór til hans. Hún kvaðst hafa lítið úthald, en hún væri í þannig vinnu, að hún verði að vera góð í baki.

Í læknabréfi á dskj. nr. 5, dags. 23.05. 1998, er skráð, að stefnandi komi á slysadeild vegna skurðar á enni og glóðarauga, auk verkja í baki. Skoðun leiddi í ljós áverka á andliti, sem þar er lýst nánar, og síðan segir svo: „Nokkur eymsli eru yfir hæ. herðablaðinu og bólga þar yfir en hún getur hreyft öxlina í öllum plönum.“ Röntgenmynd sýndi brotflaska á „inferior“ hluta herðablaðsins. Ekki er greint frá því, að skoðun hafi leitt í ljós aðra áverka á baki. Í áverkavottorði frá Sjúkrahúsi Reykjavíkur, háls- nef- og eyrnadeild, dags. 23. júlí 1998, sem stílað er á lögregluna í Reykjavík, er einungis greint frá áverkum á andliti stefnanda. Í læknisvottorði, dags. 25. júní 1999, á dskj. nr. 7, sem undirritað er af Leifi Jónssyni lækni, segir, að stefnandi hafi komið á slysadeild Sjúkrahúss Reykjavíkur á hádegi hinn 23. maí 1998 vegna skurðar á enni, glóðarauga og verkja í baki. Skoðun sýni áverka á andliti, sem þar er nánar lýst, og síðan segir: „Nokkur eymsli og þroti eru yfir hægra herðablaði, en axlarhreyfingar eru eðlilegar.“ Í vottorði þessu er ekki getið um aðra bakáverka eða eymsli í baki.

Í læknabréfi Magnúsar Guðmundssonar, lyfja- og gigtarlæknis, dags. 25.02. 2002, er fyrst getið um verki stefnanda í mjóbaki. Segir þar m.a.: „Kom til mín 11/3 ’99. Hefur lengi verið með verk í mjóbaki og er verri í vi hluta líkamans. Fær verk niður í vi mjöðm.“ Þá segir, að beinaskann frá 03.02. 1999 sýni væga aukna upptöku neðan til í S1-liðnum bilat. Í bréfinu er síðan lýst niðurstöðu úr röntgenmyndatöku og því næst segir svo: „Hefur lengi verið með verkjaköst í mjóbaki sem getur stafað af fleyglaga kompressions fracturu L 1.“

Magnús Guðmundsson læknir gaf skýrslu fyrir dómi við aðalmeðferð málsins. Skýrði hann svo frá m.a., að stefnandi hefði fyrst komið til sín þann 11. marz 1999 og kvartað um verk í baki og einnig í vinstri mjöðm. Aðspurður, hvað átt sé við í framangreindu læknabréfi hans með fleyglaga kompressions fracturu L 1, kvað hann þarna átt við brot í lendarlið 1. Nánar aðspurður, hvort einhvers staðar komi fram, að stefnandi hafi brotið lendarlið 1, kvað hann það ekki vera, en hins vegar væri á röntgenmyndinni að sjá, að liðurinn hefði brotnað og pressazt saman. Aðspurður, hvernig hann tengdi þetta hugsanlega brot umræddri líkamsárás, svaraði hann, að stefnandi hefði getað dottið á eitthvað, en hann hefði ekkert fyrir sér í því. Mætta var kynnt, að í gögnum málsins komi fram, að stefnandi hefði fallið á borð og hefði ákomustaðurinn verið herðablað, og var hann spurður að því, hvort hið meinta brot á lendarliðnum hefði getað hlotizt af falli á herðablaðið. Kvað hann það hugsanlegt, hann vissi það ekki, þetta væru bara „spekúlasjónir“. Þá kvað hann það einnig getgátur, að það gætu verið tengzl milli verkja í hægra herðablaði og vinstra megin í mjóbaki. Enn fremur kvað hann aðspurður vera mögulegt, að þessi áverki hefði komið fyrir eða eftir umræddan atburð. Hann reki áverkana til atburðarins einungis með hliðsjón af frásögn stefnanda sjálfrar. Hins vegar kvaðst hann telja útilokað, vegna ungs aldur stefnanda, að um áunninn áverka væri að ræða.

Stefnandi fól Jónasi Hallgrímssyni lækni að meta afleiðingar líkamsárásarinnar samkvæmt skaðabótalögum nr. 50/1993. Er matsgerð hans dagsett 4. febrúar 2003.

Við líkamsskoðun hjá matsmanninum kvaðst stefnandi hafa álagsverki í mjóbaki við að bera, lyfta og bogra, sem og við að sitja lengi. Segir í matsgerðinni, að verkir séu staðbundnir og engin leiðsla út frá bakinu. Hreyfiferill í mjóbaki sé þannig, að fingurgómar nái gólfi en með vægum óþægindum. Einnig séu væg óþægindi við snúning til hægri, en annars séu ferlar eðlilegir og óþægindalausir. Talsverð eymsli séu á báðum S1 liðum og með fram LS mótum. Kemst matsmaðurinn að þeirri niðurstöðu, að varanlegar afleiðingar umrædds atviks og þeirra áverka, sem stefnandi hlaut, virðist nánast eingöngu vera bundnar við mjóbak. Tímabundið atvinnutjón telur hann ekkert vera. Stefnandi hafi verið veik í skilningi skaðabótalaga, meðan nefbein var að gróa, sem hann metur 2 mánuði, og hafi frekari bata ekki verið að vænta eftir 23.07.1998. Varanlegan miska metur matsmaðurinn á grundvelli óþæginda frá mjóbaki, sem virðist vera rakinn til þessa atburðar. En jafnframt segir svo, að lítils háttar beinbreytingar á röntgen eigi hugsanlega einhvern þátt í núverandi óþægindum og kunni á einhvern hátt að vera rekjanlegar til atburðarins, en virðist ekki breyta neinu, eins og staðan sé í dag. Er varanlegur miski metinn 5%. Varanlega örorku, sem rekja megi til atburðarins, telur hann vera 5%.

Jónas Hallgrímsson læknir gaf skýrslu fyrir dómi. Hann skýrði svo frá m.a., að hann hefði byggt niðurstöðu sína um það, hver væri orsök verkja stefnanda í mjóbaki, á gögnum úr málinu, svo sem lögregluskýrslum, endurriti úr dómabók og læknisvottorðum, auk frásögn hennar sjálfrar og því, sem hann hefði fundið við skoðun á stefnanda. Benti hann m.a. á, að í skýrslu frá bráðamóttöku hefði stefnandi kvartað um verk í baki. Þá kvað hann ekki hægt að afneita tengslum milli áverka á herðablaði og verkja í mjóbaki síðar meir, þar sem fólk beiti líkamanum oft á annan hátt til að forðast óþægindi frá einum stað, þetta kallist afleidd einkenni. Aðspurður kvað hann ekkert koma fram í gögnum um bakáverka, ef frá er talið, að stefnandi hafi kvartað um bakverk við komu á slysadeild. Hann kvaðst hafa dregið ályktun af fyrirliggjandi gögnum og kvað sér hafa fundizt þetta vera trúverðugt. Ef stefnandi hafi skellt sér í götuna, sé það heilmikið lemstur, þar sem það komi víða á líkamann. Hann kvað býsna algengt, að fólk sé með beinbreytingar í mjóbaki, það sjáist jafnvel hjá ungbörnum. Hann kvaðst ekki telja, að beinbreytingarnar, sem sáust á röntgenmynd, ættu þátt í núverandi óþægindum stefnanda, heldur teldi hann hana vera með einhvers konar tognunareinkenni. Þá kvaðst hann telja ólíklegt, að beinbreytingarnar mætti rekja til atburðarins.

Af gögnum málsins verður ekki séð, að stefnandi hafi kvartað um eymsli eða verki í mjóbaki fyrr en hún leitaði til Magnúsar Guðmundssonar læknis. Engin gögn liggja fyrir um slíkar kvartanir frá heimilslækni stefnanda, en hún bar, að hún hefði fyrst leitað til hans. Ráðið verður af gögnum málsins, að kvartanir stefnanda um bakverk við komu á slysadeild, hafi einungis lotið að verk í herðablaði. Báðir læknarnir, Magnús Guðmundsson og matsmaðurinn, Jónas Hallgrímsson, rekja eymslin í mjóbaki til áverka, sem stefnandi fékk við árásina í maí 1998. Læknarnir eru hins vegar ekki sammála um, hvað veldur eymslunum. Af framburði Magnúsar verður helzt ráðið, að hann telji þau stafa af fleyglaga broti á lendarlið S1, en engin gögn eru um það, að stefnandi hafi orðið fyrir áverka á þeim stað í umrætt sinn. Matsmaðurinn telur hins vegar ólíklegt, að þær beinbreytingar, sem fram komu á röntgenmynd og gigtarlæknirinn taldi vera fleyglaga brot, hefðu nokkur áhrif á núverandi ástand stefnanda, heldur væri fremur um tognunaráverka að ræða. Einnig gæti verið um afleidd einkenni að ræða. Í framburði hans fyrir dómi kom fram, að hann teldi, að stefnandi hefði skollið í götuna við árásina, sem hefði getað orsakað heilmikið lemstur víða á líkamanum. Af gögnum málsins verður þó ráðið, að stefnandi hafi skollið á borðbrún með hægra herðablað, en að öðru leyti er ekkert sem bendir til þess, að hún hafi skollið niður með aðra hluta líkamans.

Stefndi hefur mótmælt matsgerðinni. Af hálfu stefnanda hefur hvorki verið leitað mats dómkvadds matsmanns/matsmanna né læknaráðs. Eins og málið er úr garði gert af hálfu stefnanda, þykir ekki, gegn andmælum stefnda, hafa komið fram lögfull sönnun fyrir því, að núverandi bakáverka hennar megi að einhverju leyti rekja til margnefndrar árásar í maí 1998. Læknana, Magnús og Jónas, greinir á um orsakir verkjanna og engin gögn liggja fyrir um mjóbaksáverka stefnanda. Verður því að sýkna stefnda af kröfum stefnanda vegna varanlegrar örorku og miska, en fram kemur í matsgerðinni, að hvort tveggja er metið út frá verkjum stefnanda í mjóbaki.

Krafa stefnanda um þjáningabætur er byggð á matsgerðinni, og hefur fjárhæð hennar, kr. 57.600, ekki sætt andmælum.

Stefnandi gerir kröfu um greiðslu vegna annars fjártjóns, og bendir hún því til stuðnings á, að hún hafi þurft að standa straum af ýmsum kostnaði vegna árásarinnar, svo sem lækniskostnaði, lyfja o.fl. Engin gögn liggja fyrir um þennan kostnað, og hefur honum verið mótmælt af hálfu stefnda sem órökstuddum og ósönnuðum. Með hliðsjón af því, sem að framan er rakið, verður ekki séð, að þessi kostnaður stefnanda vegna meiðsla, sem sannanlega verða rakin til árásarinnar, hafi numið kr. 42.400 eða hærri fjárhæð, en samkvæmt 7. gr. l. nr. 69/1995 verða bætur ekki greiddar vegna einstaks verknaðar, nema höfuðstóll kröfu sé að lágmarki kr. 100.000.

Þegar allt framangreint er virt, ber að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda í máli þessu.

Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður.

Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði og ákveðst kr. 700.000, þar með talinn útlagður kostnaður, kr. 93.300. Við ákvörðun málskostnaðar hefur ekki verið litið til virðisaukaskatts.

Sigríður Ólafsdóttir héraðsdómari kvað upp dóminn.

DÓMSORÐ

Stefndi, íslenzka ríkið, er sýkn af kröfum stefnanda, Jónu Bjargar Jónsdóttur, í máli þessu.

Málskostnaður fellur niður.

Gjafsóknarkostnaður stefnanda, kr. 700.000, greiðist úr ríkissjóði.