Hæstiréttur íslands
Mál nr. 331/2011
Lykilorð
- Rán
- Hlutdeild
- Skilorð
|
|
Fimmtudaginn 26. janúar 2012. |
|
Nr. 331/2011.
|
Ákæruvaldið (Hulda Elsa Björgvinsdóttir saksóknari) gegn Ingva Matthíasi Árnasyni (Jón Egilsson hrl.) |
Rán. Hlutdeild. Skilorð.
I var ákærður fyrir hlutdeild í vopnuðu ráni. Í Hæstarétti var staðfest niðurstaða hins áfrýjaða dóms um sakfellingu I en fallist á kröfu hans um skilorðsbindingu refsingar vegna breytinga á högum hans.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Eiríkur Tómasson og Greta Baldursdóttir.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 20. maí 2011 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Ákæruvaldið krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms.
Ákærði krefst vægari fangelsisrefsingar og að hún verði skilorðsbundin að öllu leyti.
Með hinum áfrýjaða dómi var ákærði fundinn sekur um hlutdeild í vopnuðu ráni. Þrátt fyrir að háttsemi ákærða hafi verið heimfærð undir 1. mgr. 252. gr., sbr. 1. mgr. 22. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 var refsing hans, án rökstuðnings, færð undir lögbundið sex mánaða refsilágmark fyrrnefnds refsiákvæðis og ákveðin fangelsi í fjóra mánuði. Eins og að framan greinir hefur ákæruvaldið krafist staðfestingar á þeirri ákvörðun refsingar, en samkvæmt 1. málslið 1. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála verður refsing ekki þyngd með dómi Hæstaréttar nema þess hafi verið krafist af hálfu ákæruvalds. Til stuðnings kröfu um skilorðsbindingu á dæmdri refsingu hafa af hálfu ákærða verið lögð fyrir Hæstarétt ýmis gögn um heilsufar og breytta hagi ákærða frá því að hann framdi brot sitt. Hefur ákæruvaldið tekið undir þessi sjónarmið ákærða.
Með framangreindum athugasemdum verður staðfest niðurstaða hins áfrýjaða dóms um refsingu ákærða, en jafnframt fallist á að hún skuli bundin skilorði eins og í dómsorði greinir.
Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað skal vera óraskað.
Eftir þessum úrslitum verður ákærða gert að greiða helming sakarkostnaðar vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti. Samkvæmt yfirliti ríkissaksóknara nemur sakarkostnaður fyrir Hæstarétti 21.862 krónum en við þá fjárhæð bætast málsvarnarlaun verjanda ákærða fyrir Hæstarétti sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Ákærði, Ingvi Matthías Árnason, sæti fangelsi í fjóra mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún niður falla að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað skal vera óraskað.
Ákærði greiði helming áfrýjunarkostnaðar málsins, sem nemur samtals 247.762 krónum, þar sem með eru talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans, Jóns Egilssonar hæstaréttarlögmanns, 225.900 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 25. mars 2011.
Málið er höfðað með ákæru ríkissaksóknara, dagsettri 10. febrúar sl. á hendur ákærðu, Y,[...], [...], Z,[...], [...], Ingva Matthíasi Árnasyni, [...] ókunnu heimilisfangi, Þ, kt.[...], [...], Æ, kt. [...], [...]i, og Ö, kt. [...], [...],
„fyrir eftirfarandi brot gegn almennum hegningarlögum:
1. Gegn ákærðu Y og Z fyrir rán, með því að hafa mánudaginn 3. ágúst 2009, í félagi, með hulin andlit, ruðst inn í verslunina 10 11, Skipholti 70, Reykjavík og ógnað tveimur starfsmönnum verslunarinnar með hnífum og þannig neytt þá til að afhenda sér það fé sem var í sjóðsvélum verslunarinnar. Ákærðu höfðu á brott með sér um 10.000 kr. í peningum.
Telst þetta varða við 252. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
2. Gegn ákærða Ingva Matthíasi fyrir hlutdeild í því broti sem lýst er í 1. ákærulið með því að hafa veitt með ákærðu Y og Z liðsinni í verki með því að aka þeim á vettvang, vitandi að ætlun þeirra var að fremja rán í versluninni, beðið þeirra í bifreiðinni á meðan á ráninu stóð og síðan ekið þeim af vettvangi.
Telst þetta varða við 252. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 1. mgr. 22. gr. sömu laga.
3. Gegn ákærðu Þ, Y, Æ og Ö fyrir hættubrot, tilraun til húsbrots og tilraun til sérstaklega hættulegrar líkamsárásar, með því að hafa, í félagi, föstudaginn 24. desember 2010, að frumkvæði ákærða Þ lagt á ráðin um og farið saman að heimili A að [...], [...], þar sem hann bjó ásamt sambýliskonu sinni og tveimur ungum börnum, vopnaðir haglabyssu og ætlað að brjóta sér leið inn í húsið til að ráðast með ofbeldi á A og hafa í því skyni skotið tveimur skotum úr byssunni á útidyrahurð íbúðarinnar. Ákærðu Þ og Y skutu a.m.k. einu skoti hvor á útidyrahurðina, ákærði Ö fylgdist með mannaferðum í nágrenninu á meðan skotunum var hleypt af og varaði meðákærðu við því að lögregla væri á leið á vettvang þegar hann sá til hennar. Ákærðu flúðu eftir að þeir urðu lögreglu varir. Með háttsemi sinni stofnuðu ákærðu lífi og heilsu íbúa hússins í augljósan háska en þau náðu að flýja af vettvangi áður en ákærðu hleyptu af byssunni.
Telst þetta varða við 4. mgr. 220. gr., 2. mgr. 218. gr., sbr. 20. gr. og 231. gr., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga.
4. Gegn ákærða Y fyrir brot gegn valdstjórninni, með því að hafa föstudaginn 24. desember 2010, í [...], Reykjavík, slegið B lögreglumann sem þar hafði afskipti af ákærða vegna skyldustarfa sinna, hnefahögg í andlitið með þeim afleiðingum að B hlaut sár og mar á nefi.
Telst þetta varða við 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga, sbr. lög nr. 25/2007.
Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.
Með vísan til 1. töluliður 1. mgr. 69. gr. a og 1., sbr. 2. mgr. 69. gr. f almennra hegningarlaga er þess krafist gerð verði upptæk í ríkissjóð hálfsjálfvirk haglabyssa af gerðinni Escort PS Double Magnum með hlaupavídd 12.
Einkaréttarkröfur:
a) Af hálfu Kaupás hf., kennitala [...], er þess krafist að ákærðu Y, Z og Ingva Matthíasi verði gert að greiða félaginu bætur að fjárhæð kr. 9.000 auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 3. 5. ágúst 2009 og dráttarvexti samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá 5. september 2009 til greiðsludags.
b) Af hálfu A, kennitala [...], er þess krafist að ákærðu, Þ, Y, Æ og Ö, verði in solidum dæmdir til að greiða honum miskabætur að fjárhæð kr. 1.200.000, auk vaxta samkvæmt 8. gr., sbr. 4. gr. laga um vexti og verðtryggingu, frá 24. desember 2010 til þess dags þegar mánuður er liðinn frá því að bótakrafa þessi var kynnt fyrir sakborningum, en með dráttarvöxtum frá þeim degi samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga til greiðsludags.
c) Af hálfu C, kennitala [...], er þess krafist að ákærðu, Þ, Y, Æ og Ö, verði in solidum dæmdir til að greiða henni miskabætur að fjárhæð kr. 1.200.000, auk vaxta samkvæmt 8. gr., sbr. 4. gr. laga um vexti og verðtryggingu, frá 24. desember 2010 til þess dags þegar mánuður er liðinn frá því að bótakrafa þessi var kynnt fyrir sakborningum, en með dráttarvöxtum frá þeim degi samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga til greiðsludags.“
Málavextir
Ákæruliðir 1-2.
Fyrir liggur að mánudaginn 3. ágúst fóru ákærðu í bíl Y heiman frá Z á [...] að versluninni 10-11 í Skipholti. Stýrði ákærði Ingvi Matthías bílnum. Áður hafði verið lagt á ráðin um að ræna peningum af verslunarfólkinu þar. Allir höfðu ákærðu verið í mikilli óreglu þegar þetta varð. Ingvi Matthías beið í bílnum en þeir Y og Z fór inn í verslunina með sólgleraugu og dulu fyrir andliti og hvor með sinn búrhnífinn sem þeir höfðu haft með sér í bílnum. Þegar inn var komið brugðu þeir hnífunum og hrópaði Z að þeir vildu fá peningana í kassanum en Y rak hníf sinn í afgreiðsluborðið til áréttingar. Var þeim afhent það sem í kassanum var, um 10.000 krónur, og höfðu þeir það á brott með sér. Ók Ingvi Matthías þeim á brott í bílnum.
Fyrir dómi hafa þeir Z og Y gert lítið úr þætti meðákærða Ingva Matthíasar í þessu tiltæki og bent á það að langt sé liðið frá atburðinum og sagt að þeir geti ekki munað hver hann var. Ákærði Ingvi Matthías viðurkenndi það skýlaust hjá lögreglu daginn eftir atburðinn að hann hefði vaknað við það heima hjá meðákærðu að þeir voru að tala um það að þeir skyldu fara og ræna í 10-11. Hann hefði því vitað hvað til stóð þegar hann tók að sér að aka þeim að versluninni og beið eftir þeim meðan þeir fóru inn að ræna. Hann hefði svo ekið þeim þaðan á brott með fenginn, vitandi um það sem þeir höfðu gert. Sjálfur hefði hann ekkert fengið í sinn hlut af þessum peningum. Fyrir dómi hefur hann sagt að hann sé ekki lengur viss um það hvort hann vissi það áður en lagt var af stað í ferðina að búðinni að til stæði að ræna þar eða hvort honum varð það ljóst eftir að komið var á staðinn. Muni hann nú mjög lítið eftir þessu tímabili. Hann kveðst ekki hafa fengið neitt í sinn hlut af ránsfengnum.
Niðurstaða
Sannað er með skýlausri játningu ákærðu Y og Z að þeir rændu peningunum í versluninni með því að ógna starfsfólki þar með hnífum og láta afhenda sér þá peninga sem voru í afgreiðslukassa verslunarinnar. Þá er sannað með skýlausri játningu ákærða Ingva Matthíasar hjá lögreglu og játningu hans fyrir dómi, þótt hann hafi þá dregið nokkuð í land, að hann veitti þeim liðsinni við verknaðinn með því að aka þeim að versluninni, vitandi um það sem til stóð þar, og þaðan aftur með ránsfenginn vitandi um það sem gerst hafði þar inni. Varðar brot ákærðu Y og Z við 252. gr. almennra hegningarlaga en brot Ingva Matthíasar við 252. gr., sbr. 1. mgr. 22. gr. sömu laga.
Ekki hefur verið sótt þing af hálfu Kaupáss hf., eiganda verslunarinnar, og ber að vísa bótakröfu félagsins frá dómi.
Ákæruliður 3.
Á aðfangadag jóla 2010, um klukkan 11.40, var tilkynnt um það til lögreglu að menn væru að skjóta úr byssu við [...] hér í borginni, en það er raðhús. Fóru lögreglumenn, sem voru staddir í nágrenninu, þegar á staðinn og þegar þangað kom sáu þeir fjóra menn hlaupa frá húsinu og hverfa á brott. Í ljós kom að heimilisfólk í [...], A, C og tvö ung börn þeirra, hafði forðað sér út bakdyramegin og komist inn hjá nágrönnum sínum í nr.[...]. Sjá mátti tvö skotgöt á útidyrahurðinni og enn fremur var rúða í hurðinni brotin. Tvö tóm skothylki voru á stéttinni fyrir utan dyrnar og haglabyssa var þar rétt hjá á bak við sorptunnu, vafin inn í peysu. Í forstofunni fyrir innan útidyrnar voru högl á víð og dreif. A sagði lögreglumönnunum að hann vissi að árásarmennirnir hefðu verið á vegum D og hefðu þeir átt að hræða hann til þess að borga skuld sem D teldi sig eiga hjá honum. Skömmu seinna fannst bíllinn sem mennirnir fjórir höfðu komið á við [...] og þar voru tveir þeirra, ákærðu Þ og Æ, á gangi að bílnum. Voru þeir handteknir. Ákærðu Y og Ö forðuðu sér á hlaupum niður í [...]þar sem lögreglumaður reyndi að handtaka Y í [...], sbr. tl. 4 hér á eftir, en hann komst undan. Skilríki hans urðu þó eftir og varð það til þess að hann fannst og var handtekinn á [...] í Hafnarfirði um tveim tímum eftir atburðinn. Ákærði Ö var hins vegar handtekinn um 50 mínútum eftir atburðinn þar sem hann var á gangi í [...].
A upplýsti það hjá lögreglu að hann hefði átt fíkniefnaviðskipti við mann að nafni E. E þessi hefði svo verið handtekinn skömmu seinna og hald verið lagt á fíkniefni hjá honum. Kenndi hann sér um handtökuna og vildi fá skaðabætur fyrir. Hefði hann sent D að innheimta þá skuld.
Samkvæmt staðfestum gögnum málsins benda ummerki á hurðinni og í forstofu eindregið til þess að skotið hafi verið af stuttu færi úr haglabyssu í gegnum hurðina, rétt tæplega metra frá þröskuldi og mjög á ská til hægri. Annað gatið er 16 cm frá dyrastaf og hitt enn nær karminum, þétt ofan við húninn. Er þetta greinilegt af sjálfum skotgötunum í gegnum hurðina og einnig af því að höglin lentu í skáphurð rétt fyrir innan og til hliðar við útidyrnar. Að sögn F rannsóknarlögreglumanns virtust höglin í skáphurðinni vera í beinu framhaldi af skotgötunum í hurðinni. Þá hafði hluti af höglunum lent í útihurðarskránni og að áliti F hafði skráin kýlst við það út í karminn svo að ekki var hægt að opna dyrnar. Af ljósmyndum í málinu og frásögn F kemur fram að rúðan í útihurðinni hafi verið reyklituð og mynstruð og að mestu ógagnsæ.
Ákærði Ö var yfirheyrður um málið daginn eftir atburðinn að viðstöddum verjanda sínum. Skýrslan var tekin upp, bæði hljóð og mynd, og fylgir upptakan gögnum málsins á mynddiski. Sagði hann þá að þeir hefðu farið að húsinu til þess að hræða íbúann þar eftir að hann hafði barið Þ í andlitið með einhverju barefli. Hann kvaðst ekki hafa skotið úr byssunni en þeir Y og Þ hefðu gert það. Sagði hann að ætlunin hafi verið að komast inn í húsið. Framburður hans verður ekki skilinn öðruvísi en að hann hefði tekið að sér að standa á verði til þess að vara hina við ef einhverjir nálguðust og að hann hefði ásamt þeim hinum skyggnst inn um glugga til þess að athuga með fólk inni fyrir. Hann kvaðst hafa gert þetta til þess að hjálpa Þ, vini sínum, og hefði hann ekki vitað hver ætti heima þarna. Með þeim í bílnum hefði verið maður að nafni Æ en hann hefði ekki átt þátt í þessu. Hefði hann einungis gengið með þeim að húsinu.
Ákærði var yfirheyrður að nýju 30. desember að viðstöddum verjanda sínum. Skýrði hann í meginatriðum eins frá atburðunum og sagði þá hafa farið að finna A eftir að hann hafði slegið Þ með kylfu í andlitið. Hefðu þeir verið æstir og reiðir og illa á sig komnir eftir óreglu. Hefðu þeir stokkið út úr bílnum og haft með hlaðna haglabyssu til þess að nota til þess að komast inn. Þá kvaðst hann hafa staðið á verði til þess að fylgjast með ferðum lögreglu eða annarra í nágrenninu. Hefði hann heyrt tvö skot og í þeirri andrá hefði hann séð til lögreglunnar og hrópað á þá hina að lögreglan væri komin. Hefði hann snúið sér við og séð að skotið hafði verið á hurðarhúninn. Hefðu þeir hlaupið á brott og tvístrast. Hann sagði þá hafa reynt að opna dyrnar með byssunni.
Ákærði Þ var yfirheyrður um málið daginn eftir atburðinn að viðstöddum verjanda sínum. Skýrslan var tekin upp, bæði hljóð og mynd, og fylgir upptakan gögnum málsins á mynddiski. Sagði hann þá hafa farið að finna A vegna þess að hann hefði heyrt að hann hefði nauðgað einhverri stúlku. Annars myndi hann þetta ekki. Sagðist hann hafa verið illa haldinn eftir óreglu, neyslu rivotrils og áfengis. Hann hefði fengið barefli framan í sig þegar hann kom að húsinu í fyrra sinnið. Í seinna skiptið hefði hann komið með byssu og viljað komast inn til mannsins. Hefði hann því skotið á hurðina til þess að komast inn svo hann gæti hefnt sín á manninum. Hann kvaðst aðspurður ekki þekkja mann þennan en kannaðist við að þekkja mann að nafni D.
Ákærði var yfirheyrður að nýju 3. janúar sl. að viðstöddum verjanda sínum. Skýrslan var tekin upp, bæði hljóð og mynd, og fylgir upptakan gögnum málsins á mynddiski. Sagði ákærði að þeir hefðu farið heim til A til þess að tala við hann eftir að hann hafði fengið kylfu í andlitið eftir að þeir Æ komu þar í fyrra sinnið. Hann sagðist annars muna þetta illa vegna neyslu rivotril og áfengis. Hann kvaðst hafa frétt að A hefði nauðgað stúlku nokkrum dögum áður og hefði verið ætlunin að tala við hann út af því. Aðspurður sagði hann þetta eins hafa getað snúist um skuld. Hann myndi það ekki. Hann kvaðst hafa skotið á hurðina við lásinn og hefði ætlunin verið að komast inn til þess að tala við A. Kvaðst hann hafa skotið tveimur skotum á hurðina og einnig hafa brotið rúðu í henni. Hefði hann miðað til hægri í átt að dyrakarminum. Hann myndi ekki hvað hann hefði gert við byssuna eftir þetta en þeir hefðu þá allir hlaupið á brott og tvístrast. Hann tók fram að ekki hefði verið ætlunin að meiða neinn með vopninu. Þá sagðist hann ekki hafa vitað að börn væru á heimilinu.
Ákærði Y var yfirheyrður hjá lögreglu daginn eftir atburðinn að viðstöddum verjanda. Skýrslan var tekin upp, bæði hljóð og mynd, og fylgir upptakan gögnum málsins á mynddiski. Hann sagðist hafa farið heim til A ásamt þeim Ö og Æ. Hefði átt að hitta A til þess að tala við hann og innheimta 400 þúsund króna skuld hjá honum sem Þ ætti. Annars myndi hann þetta varla vegna vímu sem hann var í. Hefði byssa verið meðferðis og hefðu þeir ætlað að opna með henni dyrnar. Bílnum hefði verið lagt rétt hjá húsinu og þeir haldið þangað. Kvaðst hann hafa tekið byssuna úr bílnum og hafa skotið úr byssunni tveimur skotum. Hefði hann skotið frá hlið til þess að skotin færu ekki í neinn. Lögreglubíll hefði komið að í sama mund og þeir allir hlaupið á brott. Hann kvaðst hvorki þekkja A þennan né D og ekki vita neitt um tilurð skuldarinnar.
Ákærði Y var aftur yfirheyrður hjá lögreglu 3. janúar sl. að viðstöddum verjanda. Skýrslan var tekin upp, bæði hljóð og mynd, og fylgir upptakan gögnum málsins á mynddiski. Sagði hann þá að Þ hefði farið að finna A ásamt þeim þremur. Hefði byssunni eingöngu verið beitt til þess að skjóta upp hurðina og kvaðst hann hafa gætt þess að skjóta á ská og litið inn áður til þess að tryggja það að enginn yrði fyrir skoti. Aðspurður hvort Þ hefði skotið úr byssunni kvaðst hann ekki geta um það sagt vegna vímu sem hann var í en það væri ekki útilokað. Hann kvaðst heldur ekki geta fullyrt hvort þeir hefðu komið þarna til þess að heimta skuld.
Ákærði Æ var yfirheyrður hjá lögreglu daginn eftir atburðinn að viðstöddum verjanda. Skýrslan var tekin upp, bæði hljóð og mynd, og fylgir upptakan gögnum málsins á mynddiski. Sagðist hann hafa verið á gangi þegar hann var handtekinn og að hann hefði þá hitt Þ og lánað honum jakkann sinn. Ekki myndi hann hvert ferðinni hefði verið heitið. Kvaðst hann ekki kannast við að hafa verið í slagtogi við þá [...]syni daginn áður eða að hafa verið í bílnum sem við sögu kom í málinu.
Ákærði Æ var aftur yfirheyrður hjá lögreglu 28. desember sl. að viðstöddum verjanda. Skýrslan var tekin upp, bæði hljóð og mynd, og fylgir upptakan gögnum málsins á mynddiski. Var framburður hans mjög á sömu lund og fyrir dómi, sbr. hér á eftir.
Samkvæmt gögnum málsins er haglabyssa sú sem um ræðir hálfsjálfvirk með hlaupvídd 12, af gerðinni Escort PS Double Magnum, framleidd í Tyrklandi Tekur hún fjögur skot í skotgeymi og eitt í hlaup. Byssa þessi hefur verið skráð á einstakling í skotvopnaskrá lögreglu frá því nóvember 2007 að hún var keypt af verslun. Reynt hefur verið að hafa upp á eigandanum en ekki tekist. Er hann sagður vera útigangsmaður.
Aðalmeðferð málsins
Ákærði Y hefur sagt að þeir Ö, bróðir hans, hafi verið heima hjá þeim síðarnefnda og drukkið þar og tekið inn alls kyns töflur, þar á meðal rivotril. Hafi þeir verið komnir í mikla vímu og orðnir ruglaðir. Ákærði Þ hafi komið í heimsókn og náð í þá. Hafi þeir farið með honum út í bíl og þar hafi verið fyrir ákærði Æ. Hafi þeim verið sagt frá því að A hefði slegið Þ í andlitið með járnröri en ekki verið sagt hvað varð til þess. Hafi verið ákveðið að fara heim til A og tala við hann. Sjálfur hafi hann ekkert átt sökótt við manninn en kvaðst auk þess hafa verið búinn að heyra sitthvað misjafnt um hann áður, að hann skuldaði einhverjum peninga og hefði nauðgað einhverri stúlku. Ákærði tekur annars fram að þetta sé allt óljóst í minni hans vegna óreglunnar. Hafi þeir ekið heim til A og haft byssu meðferðis og tvö skot í hana. Þeir hafi allir farið að dyrunum og bankað og hringt en enginn hafi komið til dyra. Þeir hafi einnig horft inn um gluggana á framhliðinni og inn um bréfalúguna en ekki orðið varir við neinn fyrir innan. Segist ákærði svo hafa tekið sér stöðu á ská á móti hurðarhúninum og skotið úr byssunni úr mittishæð. Hafi hann miðað eins mikið á ská og hann gat til þess að tryggja það að skotið færi ekki í neinn. Hann kvaðst ekki hafa komið þarna áður og ekki þekkt þar herbergjaskipan. Þ hafi svo tekið byssuna og skotið öðru skoti í hurðina. Kveðst hann svo hafa tekið byssuna og stillt henni, óhlaðinni, upp við vegg á bak við sorptunnu. Í því hafi lögreglan komið og þeir allir hlaupið á brott. Hann hafi komist undan lögreglumanni sem reyndi að handtaka hann en stuttu síðar hafi hann verið handtekinn. Hann kveðst ekki geta skýrt hvers vegna hann hafi skotið úr byssunni en getur þess að hann hafi oft séð í kvikmyndum hvernig lögregla brjóti sér leið inn í hús með því að skjóta úr byssum. Þetta hafi allt verið vitleysa sem farið hafi úr böndunum.
Ákærði segir þá hina tvo ekki hafa tekið þátt í þessari atlögu en Ö hafi þó bankað á dyrnar og kallað á A ásamt þeim Þ. Hafi hann staðið þarna og fylgst með umhverfinu, eins og á verði.
Ákærði segir að þáttur Æ hafi verið „mjög lítill í þessu máli“. Hafi hann komið með þeim á vettvang en svo hlaupið á brott eftir fyrra skotið, á undan þeim hinum að því að hann minni. Hafi Æ eiginlega bara verið þarna fyrir tilviljun. Umræddan aðfangadagsmorgun hafi hann hringt og borið sig heldur aumlega og sagst ekki vita hvar hann gæti verið um jólin. Segist ákærði hafa sagt honum að koma til þeirra bræðranna og vera með þeim um jólin. Hafi hann komið til þeirra í framhaldi af því.
Ákærði segir aldrei hafa hvarflað að sér að beita A ofbeldi en hann iðrist mjög þessa verknaðar síns gagnvart honum og fjölskyldunni sem hann segir hafa verið hryllilegan. Hann segist hafa farið í áfengis- og fíkniefnameðferð í fangelsinu og stefni að því að fara í tækninám þegar hann losni úr fangelsi.
Ákærði Þ hefur skýrt frá því að hann hafi verið heima hjá Ö ásamt Y þennan morgun. Hann kveðst hafa verið illa á sig kominn, vansvefta eftir margra sólarhringa vöku og fíkniefnaneyslu. Hafi Æ hringt og kveðst ákærði hafa farið upp í Hraunbæ og sótt hann á bíll sem hann var með í láni. Hafi þetta verið um ellefuleytið. Kveðst hann hafa komið við hjá A á leiðinni þar sem hann hafi átt vantalað við hann. Æ hafi staðið í þeirri trú að hann væri að sækja þangað áfengi en tilefnið að heimsókninni hafi verið það að A hefði kjaftað í lögregluna um E, vin ákærða, varðandi fíkniefni. Hafi hann viljað spyrja A hvort hann vildi ekki bæta E þetta upp, svo sem með peningum. Þegar þangað kom hafi þeir gengið að dyrunum og kveðst hann hafa hringt dyrabjöllunni. Þá hafi hins vegar verið öskrað á hann að innan. Hann hafi hringt aftur og spurt hvort þau vildu ekki opna svo hann gæti talað við þau. Hafi hann opnað bréfalúguna til þess að tala um hana en þá fengið járnstöng í andlitið. Hafi hann engu sambandi náð við fólkið og þeir þá farið og sótt bræðurna og farið aftur að heimili A. Hafi hann sagt að þeir skyldu fara og hræða manninn og hafi annað ekki vakað fyrir honum. Lengra hafi þetta ekki verið hugsað. Hann segist ekki hafa sagt þeim hinum neitt um A eða ástæðuna fyrir fyrri heimsókninni. Hann tekur fram að hann hafi ekki ætlað sér að meiða hann. Hann hafi verið með byssu meðferðis sem hann hafði fengið lánaða einhvern tíma um nóttina og tvö skot í hana. Muni hann ekki til hvers hann fékk hana lánaða eða hjá hverjum enda muni hann ekki allt sem gerðist á þessum tíma. Æ hafi spurt hvað ætti að gera við byssuna og kveðst hann hafa sagt honum að þeir ætluðu að hræða manninn með henni. Þá segir hann aðspurður að hann hafi svarað spurningu Æ um það hver ætti heima þarna með orðunum: „Mér er alveg sama.“ Þegar þeir komu heim til A, á að giska 10 mínútum eftir fyrri heimsóknina, hafi þeir allir gengið að dyrunum, hringt dyrabjöllunni og barið að dyrum, nema Æ sem hafi einungis staðið þarna og ekkert aðhafst og það sama eigi við um Ö, sem hafi staðið þarna hjá aðgerðarlaus. Kveðst ákærði hafa litið inn um lúguna og einnig inn um gluggana á húsinu og minni hann að „strákarnir“ hafi gert það einnig. Hafi þeir með þessu gengið úr skugga um að enginn væri heima. Hann segist hafa séð inn um lúguna að skápur var vinstra megin í anddyrinu. Þá segist hann hafa séð barnastól þarna inni. Innri forstofudyrnar hafi verið lokaðar. Rúðan í hurðinni hafi verið reyklituð og hafi hann ekki séð hreyfingu í gegn um hana. Hann segir þá svo hafa tekið sér stöðu vinstra megin við útidyrnar og Y skotið úr byssunni en hann sjálfur svo skotið öðru skoti. Hafi hann miðað mjög á ská til þess að tryggt væri að enginn yrði fyrir skotinu. Þá segist hann hafa brotið rúðuna í hurðinni með byssuskeftinu. Hafi þá runnið upp fyrir honum hvers konar misræði þetta var og hann rétt Y byssuna. Í þeirri andrá hafi Ö séð til lögreglunnar og kveðst hann þá hafa sagt að þeir skyldu hlaupa á brott sem þeir hafi gert. Æ hafi verið farinn á undan og muni hann hafa hlaupið strax eftir fyrra skotið. Hann segist hafa farið á eftir honum og náð honum einhvers staðar ofar í hverfinu.
Ákærði neitar því sem fram hefur komið í málinu að hann hefði komið að finna A kvöldið áður.
Ákærði kveðst iðrast þessa verknaðar sem hafi verið framinn í algerri vitleysu.
Ákærði Ö hefur sagt að ákærði Þ hafi hringt í þá bræður og beðið þá koma út í bíl. Hafi meðákærði, sem hafi verið blóðugur í andliti, sagt þeim úti í bílnum að hann hefði farið að hitta mann en fengið þar járnrör í andlitið. Hafi þeir farið heim til mannsins í því skyni að tala við hann en ekki hafi verið rætt um að gera húsráðanda mein eða að hræða hann. Hafi þetta allt verið gert í flýti og að óathuguðu máli. Þeir hafi farið að útidyrunum hjá manni þessum sem ákærði kveðst ekki vita nein skil á og þá ekki heyrt neitt um það að hann skuldaði einhverjum fé. Hafi þeir barið að dyrum og kallað en enginn hafi svarað. Hafi þeir þrír kíkt á gluggana, sem séu hvor sínum megin við dyrnar og inn um bréfalúguna, þ.e. ákærði og þeir Y og Þ. Hafi þeir með þessu gengið úr skugga um að enginn væri þarna inni á ganginum og eins hafi ekki verið að sjá annað en húsgögn inn um gluggana. Ákærði kveðst hafa verið ókunnugur þarna. Hafi svo verið skotið tveimur skotum. Y, sem hafði tekið byssuna úr bílnum, hafi skotið fyrra skotinu og Þ því síðara. Hann segist ekki vita til þess að fleiri en tvö skot hafi verið meðferðis og muni þau hafi verið í byssunni. Kveðst hann hafa staðið þarna meðan á þessu gekk, snúið baki í dyrnar og horft í kring og þá „ekkert sérstaklega á einhverjum verði“. Æ hafi hlaupið á brott um leið og fyrra skotið kvað við og sé hann „fórnarlamb aðstæðna“, og verið staddur þarna fyrir tilviljun. Þeir hinir hafi svo hlaupið á brott um leið og seinna skotinu hafði verið skotið og hafi hann séð lögregluna koma í sömu andrá og sagt þeim hinum það.
Ákærði segir að þeir hafi allir verið illa á sig komnir af langvarandi óreglu, þar á meðal af neyslu rivotril. Hann kveðst sjá mjög eftir þessu athæfi og segir hann aldrei hafa komið til tals að beita skotvopninu á nokkurn mann. Ákærði segist hafa verið atvinnulaus um tveggja ára skeið og þá í mikilli óreglu. Eftir þennan atburð hafi hann tekið sig á, enda líti hann á það sem blessun að honum hafi verið kippt úr umferð eftir hann. Hann segist stunda nám í fangelsinu og bíði eftir því að komast á „meðferðargang“ í fangelsinu.
Ákærði Æ hefur skýrt frá því að þennan aðfangadagsmorgun hafi leigusali hans, G, ekið sér niður á Vog, klukkan rúmlega níu, til þess að legðist þar inn til áfengismeðferðar, eins og hann taldi sig hafa loforð fyrir. Þegar til kom hafi honum verið sagt að af því gæti ekki orðið þar sem hann væri ekki húsnæðislaus. Hann hafi svo farið heim til sín aftur og verið orðinn ofurölvi. Segist hann hafa hringt í Y og sagt honum af sínum högum og að hann vildi ekki vera til ónæðis fyrir G um jólin. Hafi Y þá sagt að ákærði væri velkominn til þeirra og myndi Þ koma og sækja hann sem og varð, einhvern tíma á milli ellefu og tólf. Kveðst hann hafa spurt Þ á leiðinni hvort hann gæti ekki útvegað meira áfengi. Hafi Þ tekið vel í það. Hafi hann svo numið staðar í [...] og sagst mundu athuga hvort hann fengi áfengi þar. Hafi hann bankað upp á þar. Hafi þá karl og kona farið að öskra fyrir innan en Þ opnað bréfalúguna til að skyggnast inn. Við það hafi eitthvað verið rekið út um lúguna í andlit hans svo að hann skarst á enninu. Þeir hafi svo farið í bílinn aftur og hafi Þ fengið að hringja í símann hjá ákærða. Hafi hann sagt þeim bræðrum að koma út í bíl til þeirra og sótt þá niður á [...]. Á leiðinni hafi verið talað um það að þeir færu í jólaboð hjá föður þeirra bræðranna, meðákærðu, eins og ákærði hafði áður gert. Frá [...] hafi svo verið ekið aftur í [...]. Segist ákærði þá hafa tekið eftir byssu í bílnum og spurt út í hana og hvað væri á seyði. Hafi því verið svarað að byssuna ætti að nota til þess að hræða með henni. Þegar hann spurði hvern ætti að hræða hafi Þ svarað: „Mér er alveg sama.“ Þegar þeir komu í [...] hafi þeir gengið að hurðinni og einnig litið inn um glugga og bréfalúguna. Segist hann aftur á móti ekki hafa gægst inn. Segist ákærði hafa verið sex eða sjö metra frá húsinu og hafa snúið sér undan. Eftir það hafi hann heyrt að skot kvað við og þá hlaupið á brott. Hafi þetta verið innan nokkurra mínútna frá því að þeir komu að húsinu. Hann segir Þ hafa náð sér á hlaupunum. Hafi þeir ætlað að sækja jakka í bílinn en þá séð lögregluna og gefið sig fram við hana. Ákærði segist ekki hafa lagt á ráðin um síðari ferðina í [...] eða heyrt aðra gera það og ekki hafa vitað að til stæði að skjóta í hurðina. Kveðst hann ekki hafa átt neinn hlut að þessari atburðarás.
Ákærði segist hafa verið heima hjá sér frá klukkan níu eða tíu á Þorláksmessukvöld fram til morguns. Hafi hann vakað allan þennan tíma og neitar hann því að hafa farið um kvöldið í [...]. Kveðst hann hafa verið við drykkju dagana á undan. Hann segist annars hafa stundað vinnu og getað séð um sig, þótt hann dytti í óreglu annað slagið.
Vitnið A hefur skýrt frá því að þennan morgun hafi fyrst komið tveir menn heim til hans og barið að dyrum og hringt bjöllunni. Kveðst hann hafa farið fram að dyrum og hrópað að þeir skyldu fara. Hafi þeir þá farið að sparka í hurðina sem hafi orðið til þess að hann hringdi í lögregluna. Mennirnir hafi haldið áfram látunum og þegar annar þeirra opnaði bréfalúguna kveðst Guðfinnur hafa tekið rör og rekið út um lúguna. Við það hafi mennirnir farið á brott. Um korteri seinna hafi kona hans séð út um eldhúsgluggann að mennirnir voru komnir aftur og voru þeir nú fleiri saman. Hafi þeir sparkað í útihurðina en hann hafi þá læst millihurðinni. Hafi þau, öll fjölskyldan, forðað sér út úr húsinu bakdyramegin og komist inn hjá nágrönnunum. Þegar þau voru á leiðinni út hafi hann heyrt brothljóð og mikil læti. Lögreglan hafi svo komið á vettvang og giskar hann á að atburðurinn hafi tekið um eina mínútu frá því að mennirnir komu á vettvang. Hann kveðst ekki þekkja þessa menn en þó kveðst hann hafa séð tvo af þeim kvöldið áður þegar þeir komu og bönkuðu og hringdu hjá honum og tóku í húninn en fóru svo á brott. Haldi hann að það hafi verið Æ og Þ. Hann hafi svo séð þessa sömu menn fyrir utan hjá sér daginn eftir og þeir verið handteknir fyrir utan hjá honum. Hann kveðst hafa frétt daginn eftir að þessir menn hefðu farið inn í næstu íbúð og leitað hans þar. Hann kveðst hafa vitað á hvers vegum menn þessir væru. Hafi D nokkur sent þá til þess að innheimta skuld fyrir sig eða öllu heldur skaðabætur handa E nokkrum sem ranglega héldi að hann hefði ljóstrað upp um hann við lögreglu. Hefði D verið búinn að hóta sér því tveim dögum áður að hann myndi senda einhverja dópista á hann. Aðspurður segist hann ekki vita deili á Y. Hann segir litlar hvítar gardínur hafa verið fyrir eldhúsglugganum og auðvelt verið að sjá inn um hann.
A segir þau ekki hafa árætt að vera áfram í íbúðinni eftir þennan atburð. Þá sé eldra barnið ekki búið að ná sér og tali um reiða manninn og eigi þá við D sem hafi komið heim til þeirra 21. desember og barið hann fyrir framan börnin.
Vitnið H, sem á heima í [...], hefur skýrt frá því að hún hafi séð fjóra menn hlaupa frá vettvangi í umrætt sinn, tvo niður í [...] og tvo upp á [...]. Hún segir mennina ekki hafa hlaupið saman og hafi einhver fjarlægð verið á milli þeirra, sem hún getur ekki tilgreint nánar.
Vitnið I, sem heima á í [...], næsta húsi fyrir ofan nr. [...], hefur skýrt frá því að hann hafi verið inni í stofu hjá sér þegar hann heyrði hvell og svo stuttu seinna annan hvell. Hafi hann þá litið út og séð fjóra menn við húsið og einn þeirra brjóta glugga með byssuskefti en hina þrjá standa fyrir aftan hann. Hafi mennirnir svo staðið þarna eins og þeir vissu ekki til hvaða ráðs næst skyldi taka. Einn eða tveir af mönnunum hafi svo hlaupið af stað fyrst en svo hinir einnig. Hafi mennirnir allir hlaupið í átt að [...]og tvístrast þar. Lögreglan hafi svo komið á vettvang rétt á eftir.
Vitnið J hefur komið fyrir dóm og skýrt frá því að A hafi hringt í hann og sagt menn vera að kúga sig. Hafi hann sagt málavexti og beðið sig um hjálp. Kveðst hann hafa hringt í „[...]“ nokkurn sem hafi sagt að hann mætti skila því til A að ef hann borgaði ekki þrjár milljónir fyrir jól myndi hann verða gerður tannlaus. Næst hafi hann frétt að þessi maður hefði komið heim til A og gengið í skrokk á honum að konu og börnum ásjáandi.
Vitnið K, sem á heima í [...], hefur skýrt frá því að tveir menn hafi komið inn til hennar óboðnir um eittleytið aðfaranótt aðfangadags og spurt um „[...]“.
Vitnið C, sambýliskona A, hefur skýrt frá því að hann hefði verið handtekinn ásamt öðrum manni og hefði sá maður sent menn á hann til þess að innheimta bætur fyrir þetta, þar sem hann kenndi A um handtökuna. „[...]“ sem hefði séð um þetta fyrir manninn hefði komið nokkrum sinnum til þeirra og hefðu orðið átök síðast þegar hann kom. Þá hefði hann sagt að hann myndi senda fíkniefnaneytendur á A ef ekki yrði borgað fyrir jólin. Á Þorláksmessu hafi tveir menn komið heim til þeirra. Hafi þeir tekið í hurðarhúninn en svo farið. Kveðst hún hafa séð til þeirra út um glugga. Hafi þar verið á ferð Ö og annað hvort Y eða Þ sem hún sér í réttarsalnum. Daginn eftir hafi hún verið á leiðinni út þegar menn komu þarna að aftur og hafi hún því hætt við að fara út. Hafi hún kallað út til þeirra að þeir skyldu fara því hún ætlaði annars að hringja í lögregluna. Seinna, um kl. 12, hafi a.m.k. fimm menn komið heim til þeirra og farið að sparka í hurðina og öskrað að þau skyldu opna. Þau hafi ekki opnað og hringt í lögregluna. Hafi mennirnir verið með eitthvað með sér og hún þá sagt við mann sinn að þau skyldu koma sér út. A hafi læst innri dyrunum og hún farið út með börnin. Hún kveðst ekki hafa séð vel til mannanna því hún hafi verið að flýta sér að komast út með börnin. Hafi hún heyrt fyrra byssuskotið þegar hún var við svalainngang nágrannans og hafi A þá enn verið inni í húsinu. Hafi hún farið inn til nágranna þeirra og ekki vitað hvað gerðist síðan. Hún segir eldra barn þeirra hafa þurft sálfræðihjálp eftir áfallið. Þessi atburður hafi haft mikil eftirköst. Hún geti ekki lengur búið á sama stað og barn hennar þurfi sérfræðiaðstoð. Þá hafi þetta haft áhrif á sambúð þeirra A því hún geti ekki fyrirgefið honum að hafa kallað þetta yfir þau og ef þetta leiði til skilnaðar verði börnin að alast upp án föður. Þá segist hún daglega finna til hræðslu eftir þetta. Hún kveðst hafa hætt að vinna og segist vera hrædd um að einhver sitji fyrir henni.
L, sem ákærði Æ leigði hjá í [...], hefur skýrt frá því að hún hafi verið heima á Þorláksmessukvöld frá klukkan um fimm eða sex. Hún segir ákærða Æ hafa verið heima þegar hún kom og hafi hann verið hjá henni allt kvöldið og alla nóttina þar til hún ók honum á Vog kl. 10 um morguninn að hann ætlaði í áfengismeðferð.
Niðurstaða
1. Tilraun allra ákærðu til sérstaklega hættulegrar líkamsárásar
Ákærðu eru saksóttir fyrir „tilraun til sérstaklega hættulegrar líkamsárásar“ og eru sagðir í ákæru hafa með því brotið gegn 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga. Þessu broti ákærðu er ekki lýst að öðru leyti í ákærunni en því að þar er sagt að ákærðu hafi „lagt á ráðin um og farið saman að heimili A til að ráðast með ofbeldi á“ hann. Orðin „í því skyni“ í ákærunni verða samhengis vegna heldur ekki skilin öðruvísi en svo að ákærðu séu taldir hafa skotið úr byssunni til þess einungis „að brjóta sér leið inn í húsið“ og að sá verknaður sé þannig ekki talinn vera liður í tilraun ákærðu til sérstaklega hættulegrar líkamsárásar.
Ákærðu Þ og Y, sem mest höfðu sig í frammi, hafa neitað því að hafa ætlað að ráðast á A og segjast hafa ætlað að hræða hann. Þá hefur meðákærði Æ sagt að talað hafi verið um það í bílnum á leiðinni að það ætti að hræða A. Enda þótt heimsókn ákærðu og aðfarir þeirra við heimili fjölskyldunnar, einkum þeirra Þ og Y, hafi verið hinar svaðalegustu og að þeir hafi augljóslega verið í miklum ham, eru athafnir þeirra ekki svo nátengdar líkamsárásarbroti að telja megi sannað með þeim einum að ákærðu hafi ætlað að gera sérstaklega hættulega líkamsárás á A, hefði hann orðið á vegi þeirra. Telst því ósannað að ákærðu hafi haft ásetning til þess að ráðast á A á sérstaklega hættulegan hátt. Ber samkvæmt þessu að sýkna alla ákærðu af tilraun til sérstaklega hættulegrar líkamsárásar samkvæmt 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga.
2. Tilraun allra ákærðu til húsbrots
Ákærði Æ hefur neitað því að hafa átt hlut að aðförinni að heimili A. Kveðst hann fyrst hafa komið að málinu umræddan aðfangadagsmorgun þegar Þ sótti hann til þess að aka honum til þeirra bræðra, [...]sona. Hefur framburður ákærða stuðning af framburði meðákærðu fyrir dómi og ákærða Y hjá lögreglu og sumpart af vætti G. Öllum ákærðu ber enn fremur saman um það fyrir dómi að ákærði hafi ekki lagt á ráðin um aðför að A, þótt hann hafi að vísu spurt hvaða erindi þeir ættu við hann og heyrt Þ svara að það ætti að hræða hann með byssunni sem var í bílnum. Þá ber þeim saman, Æ og meðákærðu, að hann hafi ekki annað aðhafst en að ganga með þeim að [...] og einnig að hann hafi staðið þar hjá aðgerðalaus. Loks ber ákærða og bræðrunum saman um það að ákærði hafi forðað sér á brott þegar fyrra skotinu var hleypt af. Lítur dómurinn svo á að orð og athafnir ákærða í umrætt sinn geti ekki talist tilraun til húsbrots af hálfu ákærða né hlutdeild í henni. Ber að sýkna ákærða af ákærunni að þessu leyti.
Ákærðu Y og Þ ber saman um það að þeir hafi báðir skotið á hurðina, hvor sínu skotinu. Var framburður þeirra hjá lögreglu skýr um það að þeir hefðu ætlað að brjótast inn hjá A á þann hátt að skjóta upp dyrnar með haglabyssunni. Fyrir dómi hefur framburður ákærða Y ekki verið eins eindreginn um þetta en þó verður hann ekki skilinn öðru vísi en svo að þessi hafi verið tilgangurinn með byssuskotunum. Ákærði Þ hefur fyrir dómi ekki beinlínis viðurkennt þetta, heldur er á honum að skilja að ætlunin hafi verið að hræða A og að ekki hafi þetta verið hugsað lengra en það. Hann hefur þó ekki dregið til baka framburð sinn hjá lögreglunni að þessu leyti. Þá hefur hann viðurkennt að hafa brotið rúðuna í hurðinni með byssuskeftinu.
Dómurinn telur vera sannað með framburði ákærðu Y, Þ og Ö hjá lögreglu og framburði Y fyrir dómi, svo og ummerkjum á hurðinni, að ákærðu Y og Þ fóru að [...] til þess að brjótast þar inn hjá A og skutu þar báðir á hurðina í þessu skyni. Hafa þeir með þessu orðið sekir um brot gegn 231. gr., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga.
Ákærði Ö viðurkenndi tvisvar sinnum í yfirheyrslu hjá lögreglu að viðstöddum verjanda að ætlunin hefði verið að brjótast inn í [...] með því að skjóta upp hurðina. Þá sagðist hann einnig í þessum yfirheyrslum hafa staðið á verði til þess að fylgjast með ferðum lögreglu og annarra meðan hinir athöfnuðu sig. Í framburði sínum fyrir dómi hefur hann hins vegar dregið úr þessu og sagst hafa staðið þarna á meðan, snúið baki í dyrnar og horft í kring og þá verið „ekkert sérstaklega á einhverjum verði“. Ákærði Y segir meðákærða Ö hafa barið að dyrum og kallað á A ásamt þeim Þ. Þá hafi hann staðið þarna og fylgst með umhverfinu, eins og á verði.
Dóminum þykir ekki varhugavert að byggja á framburði ákærða hjá lögreglu og telur sannað með honum og framburði meðákærðu að hann hafi tekið þátt í því að fara heim til A í því skyni að brjótast þar inn og staðið þar á verði meðan þeir Y og Þ reyndu að brjótast inn um útidyrnar hjá A. Hefur hann með þessu orðið sekur um brot gegn 231. gr., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga.
3. Hættubrot
Ákærði Æ er ásamt þeim hinum saksóttur fyrir hættubrot. Verður að skilja ákæruna svo að það brot hafi falist í því að tveimur skotum var hleypt af í gegnum útidyrahurðina í [...]. Með vísan til þess sem sagði hér að framan um þátt hans í tilraun til húsbrots álítur dómurinn að orð og athafnir ákærða í umrætt sinn geti ekki talist hættubrot af hálfu ákærða né hlutdeild í því. Ber að sýkna ákærða af ákærunni að þessu leyti.
Sem fyrr segir, skutu þeir ákærðu Y og Þ hvor sínu skotinu úr haglabyssunni í gegnum útihurðina heima hjá A. Fram er komið hjá þeim að þeir töldu sig hafa aðgætt að fólk væri ekki inni fyrir með því að líta inn um gluggann á framhliðinni og inn um bréfalúguna á hurðinni. Þá hafa þeir sagt að þeir hafi gætt þess að skjóta úr byssunni á ská til þess að skotin færu ekki í neinn. Ummerkin á vettvangi benda ótvírætt til þess að ákærðu hafi miðað byssunni mjög til hliðar þegar þeir hleyptu af. Aftur á móti er á það að líta að almennt séð er hættulegt að hleypa af skoti í þéttbýli og sérstaklega hættulegt og ófyrirleitið að skjóta úr byssu inn í íbúðarhús. Þá liggur fyrir ákærðu áttu einmitt erindi við íbúa í húsinu og hlutu gera ráð fyrir því að hann væri heima og að fleiri kynnu að vera í íbúðinni. Þá er framburður þeirra Þ og Y um skotstefnuna eindregin vísbending um það að ákærðu gerðu beinlínis ráð fyrir því að íbúðin væri ekki mannlaus. Loks er komið fram að ákærðu voru ókunnugir þarna og þekktu ekki herbergjaskipan og gátu heldur ekki vitað um gerð milliveggja eða hurða. Hlutu ákærðu Y og Þ því að gera sér ljóst að með því að skjóta tveimur skotum úr haglabyssu inn í íbúðina stofnuðu þeir lífi eða heilsu annarra í augljósan háska og skiptir þá ekki máli þótt fólkið hafi náð að forða sér út rétt áður en skotin riðu af. Gerðust þeir með þessu sekir um brot gegn 4. mgr. 220. gr. almennra hegningarlaga.
Ákærði Ö er ákærður sem aðalmaður í hættubrotinu til jafns við þá Y og Þ. Um leið og vísað er til þess sem fram kom hér áður um húsbrotstilraunina og um þátt ákærða í henni, sbr. framburð ákærða sjálfs hjá lögreglu og framburð meðákærðu, telur dómurinn sannað að ákærði Ö hafi tekið þátt í því að fara heim til A, vitandi það að dyrnar yrðu skotnar upp og að hann hafi, til jafns við þá hina, hlotið að gera sér grein fyrir aðstæðum þar, og að hann hafi staðið á verði meðan þeir Y og Þ hleyptu af skotunum inn í íbúðina. Hefur hann með þessu orðið sekur um brot gegn 4. mgr. 220. gr. almennra hegningarlaga.
Ákæruliður 4.
Ákærði Y hefur játað að hafa slegið B lögreglumann sem hugðist handtaka hann í [...] eftir atburðinn í [...]. Seegist hann hafa slegið lögreglumanninn til þess eins að komast hjá því að vera handtekinn. Hafi þetta ekki verið mikið högg enda áverkinn eftir því. Játning ákærða er studd gögnum málsins og telst ákærði vera sannur að því að hafa slegið lögreglumanninn í andlitið og valdið honum þeim áverka sem í ákærunni greinir. Hefur hann með þessum verknaði orðið sekur um brot gegn 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga.
Refsing, skaðabætur og sakarkostnaður
Ákærði Y hefur verið sektaður sex sinnum á árunum 2004 til 2010, aðallega fyrir fíkniefna- og umferðarlagabrot og árið 2004 var hann dæmdur í tveggja mánaða fangelsi fyrir fíkniefnabrot. Ákærði hefur nú verið sakfelldur fyrir ránsbrot, fyrir tilraun til húsbrots ásamt hættubroti og fyrir brot gegn valdstjórninni. Refsing hans er m.a. tiltekin vegna þess að atlaga hans að heimili fólksins í Ásgarði 5 var bæði hættuleg og ófyrirleitin og til þess fallin að valda fólkinu miklum ótta. Þykir refsingin hæfilega ákveðin fangelsi í tvö ár. Frá refsingunni ber að draga gæsluvarðhald, sem ákærði hefur sætt vegna málsins, samtals 90 daga.
Ákærði Z var dæmdur í þriggja ára fangelsi í héraði í júlí 2010 fyrir stórfellt fíkniefnabrot en þar áður hafði hann verið sektaður fyrir eignaspjöll og tvisvar fyrir fíkniefnabrot. Dómi þessum var áfrýjað og með hæstaréttardómi 2. desember sl. var refsing ákærða ákveðin fangelsi í tvö ár. Refsing ákærða nú er hegningarauki við þennan tveggja ára fangelsisdóm. Refsingu ákærða ber jafnframt að tiltaka í ljósi þess að hann hefur skýlaust játað brot sitt og í ljósi þess að mikils var hvorki að vænta úr því né að hafa. Á hinn bóginn verður að líta til þess að hann framdi brot sitt í félagi við aðra og var vopnaður stórum hnífi. Þykir refsingin hæfilega ákveðin fangelsi í fimm mánuði.
Ákærði Ingvi Matthías hefur tvisvar verið sektaður fyrir fíkniefnabrot, 2001 og 2006. Refsing hans þykir hæfilega ákveðin fangelsi í fjóra mánuði.
Ákærði Þ hlaut þrjá skilorðsbundna fangelsisdóma fyrir hegningarlagabrot á árunum 2000 til 2002. Þá hefur hann verið sektaður þrisvar sinnum, ýmist fyrir umferðarlaga- eða fíkniefnabrot. Ákærði var tvímælalaust sá sem hafði forystu fyrir hinum í aðförinni að fólkinu í Ásgarði 5 og lagði til byssu og skot í hana. Þá verður því slegið föstu, sem ekki skiptir litlu, að ákærði var þar að reka erindi tengt fíkniefnaviðskiptum, hvort sem var fyrir sjálfan hann eða aðra. Loks verður að líta til þess að atlaga hans að heimili fjölskyldunnar var bæði hættuleg og ófyrirleitin og til þess fallin að valda fólkinu miklum ótta. Þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í tvö ár og sex mánuði. Frá refsingunni ber að draga gæsluvarðhaldsvist sem ákærði hefur sætt vegna málsins, 90 daga.
Ákærði Ö hefur til þessa hlotið þrjá fangelsisdóma, síðast í febrúar 2008, alla fyrir ölvun við akstur og akstur án réttinda. Þá hefur hann hlotið sektarrefsingu einu sinn fyrir sams konar brot og einu sinni fyrir fíkniefnabrot. Refsing ákærða er m.a. ákveðin í ljósi þess að aðför hans að heimili fólksins í [...] var bæði hættuleg og ófyrirleitin og til þess fallin að valda fólkinu miklum ótta. Þykir refsingin hæfilega ákveðin fangelsi í eitt ár. Frá refsingunni ber að draga gæsluvarðhald, sem ákærði hefur sætt vegna málsins, samtals 78 daga.
Af hálfu A hefur þess verið krafist að ákærðu, Þ, Y, Æ og Ö, verði in solidum dæmdir til að greiða honum miskabætur að fjárhæð kr. 1.200.000, auk vaxta samkvæmt 8. gr., sbr. 4. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38, 2001, frá 24. desember 2010 til þess dags þegar mánuður er liðinn frá því að bótakrafa þessi var kynnt fyrir sakborningum, en með dráttarvöxtum frá þeim degi samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga til greiðsludags.
Ákærði Æ hefur verið sýknaður af ákærunni og verður þessari bótakröfu því vísað frá dómi, að því er hann varðar.
Ákærðu Y, Þ og Ö misgerðu stórlega við A þegar þeir fóru að honum og fjölskyldu hans á heimili þeirra, eins og gerð hefur verið grein fyrir hér að framan. Fram er komið að fjölskyldan hefur flust úr húsnæðinu eftir þennan atburð og annað barn þeirra C varð fyrir áfalli við hann atburð. Telst A eiga rétt til miskabóta úr hendi ákærðu. Á hinn bóginn verður ekki fram hjá því horft að aðförin á rætur að rekja til fíkniefnaviðskipta hans. Þykir miskatjón hans vera þannig hæfilega metið 500.000 krónur. Ber að dæma ákærðu in solidum til þess að greiða honum þá fjárhæð ásamt almennum vöxtum frá 24. desember 2010 til 17. mars 2011 en þaðan í frá með dráttarvöxtum til greiðsludags.
Af hálfu C, kennitala [...], er þess krafist að ákærðu, Þ, Y, Æ og Ö, verði in solidum dæmdir til að greiða henni miskabætur að fjárhæð kr. 1.200.000, auk vaxta samkvæmt 8. gr., sbr. 4. gr. laga um vexti og verðtryggingu, frá 24. desember 2010 til þess dags þegar mánuður er liðinn frá því að bótakrafa þessi var kynnt fyrir sakborningum, en með dráttarvöxtum frá þeim degi samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga til greiðsludags.
Ákærði Æ hefur verið sýknaður af ákærunni og verður þessari bótakröfu því vísað frá dómi, að því er hann varðar.
Ákærðu Y, Þ og Ö misgerðu stórlega við C, þegar þeir fóru að henni og fjölskyldunni á heimili þeirra, eins og gerð hefur verið grein fyrir hér að framan. Fram er komið að fjölskyldan hefur flust úr húsnæðinu eftir þennan atburð og annað barn þeirra A varð fyrir áfalli við hann. Telst C eiga rétt til miskabóta úr hendi ákærðu og þykir miskatjón hennar vera hæfilega metið 700.000 krónur. Ber að dæma ákærðu in solidum til þess að greiða henni þá fjárhæð ásamt almennum vöxtum frá 24. desember 2010 til 17. mars 2011 en þaðan í frá með dráttarvöxtum til greiðsludags.
Í ákæru er þess krafist með vísan til 1. töluliðar 1. mgr. 69. gr. a og 1., sbr. 2. mgr. 69. gr. f almennra hegningarlaga að gerð verði upptæk í ríkissjóð hálfsjálfvirk haglabyssa af gerðinni Escort PS Double Magnum með hlaupvídd 12. Í málinu er upplýsingaskýrsla lögreglu þar sem segir að gerð hafi verið tilraun til þess að hafa upp á eiganda byssunnar en án árangurs. Þó sé vitað að maðurinn sé útigangsmaður og óviðræðuhæfur sjúklingur en ekki vitað um neinn fastan dvalarstað hans. Þá segir að ekki hafi verið tilkynnt til lögreglu um það að skotvopninu hefði verið stolið.
Samkvæmt 69. gr. f almennra hegningarlaga er heimilt að gera upptæka muni og önnur verðmæti ef ekki er vitað hver eigandi þeirra er „eða hann hefur ekki þekktan dvalarstað hér á landi“. Ákvæði þetta varð hluti af almennum hegningarlögum með lögum nr. 149, 2009 en þá var upptökukafla hegningarlaga breytt verulega með því að tekin voru upp í lögin mörg ný ákvæði. Með þessari lagabreytingu var leitast við að gera hegningarlögin svo úr garði að fært væri að fullgilda samning Sameinuðu þjóðanna gegn fjölþjóðlegri, skipulagðri brotastarfsemi (Palermó-samning) frá 15. nóvember 2000 og bókun við þann samning frá sama tíma um að koma í veg fyrir, berjast gegn og refsa fyrir verslun með fólk, einkum konur og börn. Þá voru með lögunum gerðar nauðsynlegar ráðstafanir til þess að unnt væri að fullgilda Evrópuráðssamning um aðgerðir gegn mansali frá 3. maí 2005. Loks var með lögunum komið til móts við þær athugasemdir varðandi gildandi löggjöf um peningaþvætti sem fram koma í skýrslu FATF um aðgerðir gegn peningaþvætti á Íslandi frá 13. október 2006. Verður ekki talið að löggjafinn hafi ætlað 69. gr. f almennra hegningarlaga að taka til tilvika af þessu tagi og eru því ekki skilyrði til þess að beita 69. gr. f almennra hegningarlaga hér. Aftur á móti er samkvæmt 1. mgr. 37. gr. vopnalaga nr. 16, 1998, sem eru sérlög, skylt að gera upptæk til ríkissjóðs skotvopn sem finnast í vörslu manns án heimildar. Ber samkvæmt þessu ákvæði að dæma að umrædd haglabyssa skuli gerð upptæk.
Dæma ber ákærða Y til þess að greiða verjanda sínum, Stefáni Karli Kristjánssyni hdl., 250.000 krónur í málsvarnarlaun og 11.682 krónur fyrir kostnað sem hlotist hefur af verjandastarfanum. Enn fremur ber að dæma ákærða til þess að greiða verjanda sínum við lögreglurannsókn, Bjarna Haukssyni hrl., 200.000 krónur í málsvarnarlaun og 25.740 krónur fyrir kostnað sem hlotist hefur af verjandastarfanum.
Dæma ber ákærða Z til þess að greiða verjanda sínum, Brynjari Níelssyni hrl., 65.000 krónur í málsvarnarlaun.
Dæma ber ákærða Ingva Matthías til þess að greiða verjanda sínum, Jóni Egilssyni hdl., 110.000 krónur í málsvarnarlaun.
Dæma ber ákærða Þ til þess að greiða verjanda sínum, Guðmundi St. Ragnarssyni hdl., 400.000 krónur í málsvarnarlaun og 25.740 krónur fyrir kostnað sem hlotist hefur af verjandastarfanum.
Dæma ber að málsvarnarlaun verjanda ákærða Æ, Vilhjálms Hans Vilhjálmssonar hrl., 200.000 krónur, skuli greiðast úr ríkissjóði. Þá ber einnig að ákveða að málsvarnarlaun til verjanda ákærða við lögreglurannsókn, Páls Kristjánssonar hdl., 200.000 krónur í málsvarnarlaun og 11.682 krónur fyrir kostnað sem hlotist hefur af verjandastarfanum skuli einnig greiðast úr ríkissjóði.
Dæma ber ákærða Ö til þess að greiða verjanda sínum, Sigmundi Hannessyni hrl., 450.000 krónur í málsvarnarlaun.
Loks ber að dæma ákærðu Y, Þ og Ö til þess að greiða Björgvin Jónssyni hrl., réttargæslumanni bótakrefjendanna í málinu, 200.000 krónur í réttargæslulaun.
Málsvarnar- og réttargæslulaun samkvæmt framansögðu dæmast að meðtöldum virðisaukaskatti.
Dæma ber ákærðu Y, Z og Ingva Matthías óskipt til þess að greiða 101.375 krónur og ákærðu Y, Þ og Ö óskipt til þess að greiða 188.706 krónur í annan sakarkostnað.
Pétur Guðgeirsson héraðsdómari kvað upp dóminn.
DÓMSORÐ:
Ákærði, Æ, er sýkn af ákæru í máli þessu.
Ákærði, Y, sæti fangelsi í tvö ár. Frá refsingunni dregst 90 daga gæsluvarðhald.
Ákærði, Z, sæti fangelsi í fimm mánuði.
Ákærði, Ingvi Matthías Árnason, sæti fangelsi í fjóra mánuði.
Ákærði, Þ, sæti fangelsi í tvö ár og sex mánuði. Frá refsingunni dregst 90 daga gæsluvarðhaldsvist.
Ákærði, Ö, sæti fangelsi í eitt ár. Frá refsingunni dregst 78 daga gæsluvarðhaldsvist.
Ákærðu Y, Þ og Ö greiði óskipt A 500.000 krónur ásamt almennum vöxtum frá 24. desember 2010 til 17. mars 2011 en þaðan í frá með dráttarvöxtum til greiðsludags.
Ákærðu Y, Þ og Ö greiði óskipt C 700.000 krónur ásamt almennum vöxtum frá 24. desember 2010 til 17. mars 2011 en þaðan í frá með dráttarvöxtum til greiðsludags.
Gerð er upptæk til ríkissjóðs hálfsjálfvirk haglabyssa af gerðinni Escort PS Double Magnum.
Ákærði Y greiði verjanda sínum, Stefáni Karli Kristjánssyni hdl., 250.000 krónur í málsvarnarlaun og 11.682 krónur í kostnað. Þá greiði ákærði enn fremur Bjarna Haukssyni hrl., 200.000 krónur í málsvarnarlaun og 25.740 krónur í kostnað.
Ákærði Z greiði verjanda sínum, Brynjari Níelssyni hrl., 65.000 krónur í málsvarnarlaun.
Ákærði Ingvi Matthías greiði verjanda sínum, Jóni Egilssyni hdl., 110.000 krónur í málsvarnarlaun.
Ákærði Þ greiði verjanda sínum, Guðmundi St. Ragnarssyni hdl., 400.000 krónur í málsvarnarlaun og 25.740 krónur í kostnað.
Málsvarnarlaun verjenda ákærða Æ, Vilhjálms Hans Vilhjálmssonar hrl. og Páls Kristjánssonar hdl., 200.000 krónur til hvors um sig, greiðist úr ríkissjóði svo og 11.682 króna kostnaður þess síðarnefnda.
Ákærði Ö greiði verjanda sínum, Sigmundi Hannessyni hrl., 450.000 krónur í málsvarnarlaun.
Ákærðu Y, Þ og Ö greiði Björgvin Jónssyni hrl, 200.000 krónur í réttargæslulaun.
Ákærðu Y, Z og Ingvi Matthías greiði óskipt 101.375 krónur og ákærðu Y, Þ og Ögreiði óskipt 188.706 krónur í annan sakarkostnað.