Hæstiréttur íslands

Mál nr. 191/1999


Lykilorð

  • Kærumál
  • Dómari
  • Vanhæfi


                                                         

Miðvikudaginn 26. maí 1999.

Nr. 191/1999.

Ákæruvaldið

(enginn)

gegn

Eiríki Franzsyni

(Kristján Stefánsson hrl.)

Kærumál. Dómarar. Vanhæfi.

Talið var að úrskurðir sem héraðsdómari hafði kveðið upp á rannsóknarstigi opinbers máls yllu ekki vanhæfi hans til þess að fara með málið eftir útgáfu ákæru.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 10. maí 1999, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 12. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 27. apríl 1999, þar sem hafnað var kröfu varnaraðila um að Júlíus B. Georgsson settur héraðsdómari viki sæti. Kæruheimild er 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.

Sóknaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

Við uppkvaðningu hins kærða úrskurðar var ekki sótt þing af hálfu ákærða. Eins og málið liggur fyrir verður að leggja til grundvallar að kært hafi verið í tæka tíð, sbr. 2. mgr. 144. gr. laga nr. 19/1991.

Skilja verður málatilbúnað varnaraðila á þá leið, að hann krefjist þess að úrskurður héraðsdómara verði felldur úr gildi og honum gert að víkja sæti í málinu.

Eins og nánar greinir í hinum kærða úrskurði kvað Júlíus B. Georgsson, þá dómarafulltrúi, upp þrjá úrskurði í mars 1992 í þágu rannsóknar á þeim atriðum, sem varnaraðili sætir nú ákæru fyrir. Með hliðsjón af efni framangreindra úrskurða verður ekki fallist á með varnaraðila að þessar fyrri gerðir dómarans í tengslum við rannsókn málsins séu til þess fallnar að draga megi óhlutdrægni hans með réttu í efa. Með þessari athugasemd verður hinn kærði úrskurður staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 27. apríl 1999.

Ár 1999, þriðjudaginn 27. apríl, er á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur, sem háð er í Dómhúsinu við Lækjartorg af Júlíusi B. Georgssyni héraðsdómara, kveðinn upp úrskurður í sakamálinu nr. 666/1999:  Ákæruvaldið gegn Eiríki Franzsyni, sem tekið var til úrskurðar þann 12. þ.m.

                Með ákæru dagsettri 5. mars sl. höfðaði ríkislögreglustjórinn opinbert mál á hendur ákærða, Eiríki Franzsyni, kt. 240440-6289, Sólvallagötu 42, Keflavík, “fyrir fjársvik og skjalafals:

1. Með því að hafa með tjónstilkynningum, mótteknum hjá Brunabótafélagi Íslands hinn 4. ágúst 1989 og Sjóvá-Almennum tryggingum hf. hinn 3. ágúst 1989, tilkynnt veikindi og læknisaðstoð vegna sín og eiginkonu sinnar, Jóhönnu Jensdóttur, kt. 200146-4689, í Þýskalandi hinn 18. og 24. maí 1989, framvísað tilbúnum og röngum gögnum og fölsuðu læknisvottorði Arnbjörns Ólafssonar, heilsugæslulæknis, dagsettu 18. júlí 1989, og fengið þannig greiðslu frá Samvinnutryggingum/Vátryggingafélagi Íslands hf. kr. 37.715 og kr. 17.746 frá Sjóvá-Almennum.

2. Með því að hafa með tjónstilkynningum til Vátryggingafélags Íslands, dagsettri 18. janúar 1990, og Sjóvá-Almennra trygginga hf., dagsettri sama dag, tilkynnt um veikindi eiginkonu sinnar, Jóhönnu Jensdóttur, í Koblenz í Þýskalandi í desember 1989 og framvísað tilbúnu og röngu vottorði í nafni Städt. Krankenhaus Kemperhof, Koblenz í Þýskalandi, dagsett 15. desember 1989, ásamt greiðslugögnum vegna lyfja- og lækniskostnaðar og fengið þannig greiðslu frá Vátryggingafélagi Íslands að fjárhæð kr. 120.053 á grundvelli sjúkratryggingar hjá félaginu nr. 8009256 og kr. 119.033 frá Sjóvá-Almennum á grundvelli ferðatryggingar gullkorthafa VISA.

3. Með því að hafa með tjónstilkynningum til Sjóvá-Almennra hf., dagsettum 21. febrúar 1991 og 7. mars 1991 tilkynnt um slys sonar síns Jens Eiríkssonar, kt. 180870-5989 hinn 10. desember 1990 á ferðalagi í Austurríki og framvísað falsaðri lögregluskýrslu um tjónsatburðinn, dagsett 12. mars 1991, og falsaðri læknisskýrslu sem hvorutveggja bera með sér að eiga að vera frá Austurríki, svo og tveimur fölsuðum heilsufarsvottorðum, dagsettum 18. janúar 1991 og 21. mars 1991 af Arnbirni Ólafssyni, heilsugæslulækni, og komið því til leiðar að honum voru á grundvelli slysa- og ferðatryggingar gullkortshafa VISA hjá félaginu greiddar kr. 142.732.

4. Með því að hafa með tjónstilkynningu til Vátryggingafélags Íslands hf., dagettri 17. janúar 1991 tilkynnt um veikindi sonar síns Jens Eiríkssonar, kt. 180870-5989, á ferðalagi um Luxembourg hinn 10. desember 1990 og með framvísun falsaðrar læknisskýrslu og falsaðs vottorðs og reiknings sjúkrahúss svo og falsaðs    heilsufarsvottorðs, dagsett 27. desember 1990, af Arnbirni Ólafssyni, heilsugæslulækni, komið því til leiðar að honum voru á grundvelli ferða-, sjúkra­- og slysatryggingar hjá félaginu greiddar kr. 304.807.

5. Með því að hafa með fölsuðum reikningum frá sjúkrahúsi í Austurríki og falsaðri lögregluskýrslu, dagsettri 22. mars 1991, sem ber með sér að vera frá Austurríki, um slys sem Jens Eiríksson, kt. 180870-5989, á að hafa orðið fyrir hinn 19. mars 1991 á ferðalagi í Vín í Austurríki, svikið út úr Tryggingastofnun ríkisins, sem erlendan sjúkrakostnað, kr. 228.634, hinn 16. maí 1991.

6. Með því að hafa með fölsuðu læknisvottorði, dagsettu 11. september 1991 frá Allgemeines Krankenhaus í Austurríki um nýrnaaðgerð á Jóhönnu Jensdóttur, kt. 200146-4689, og reikningi sama sjúkrahúss, dagsettum sama dag, falsaðri lögregluskýrslu austurrískrar lögreglu um bráðaveikindi hennar, dagsett 5. september 1991, og fölsuðu vottorði Arnbjörns Ólafssonar, læknis, dagsettu 23. september 1991, um slys og sjúkrahúsvist erlendis og veikindafrí í framhaldi, svikið út úr Tryggingu hf. á grundvelli ferðatryggingar hjá félaginu, sem keypt var þann 30. ágúst 1991, kr. 87.930 .

7. Með því að hafa með fölsuðu læknisvottorði dagsettu, 11. september 1991 frá Allegemeines Krankenhaus í Austurríki um nýrnaaðgerð á Jóhönnu Jensdóttur, kt. 200146-4689, og reikningi sama sjúkrahúss, dagsettum sama dag, og falsaðri lögregluskýrslu austurrískrar lögreglu um bráðaveikindi hennar, falsaðrar ódagsettrar staðfestingar um hótelkostnað vegna sjúkrahúsvistar eiginkonu og fölsuðu vottorði Arnbjörns Ólafssonar, læknis, um slys og sjúkrahúsvist erlendis og veikindafrí í framhaldi, svikið út úr Tryggingamiðstöðinni hf. á grundvelli ferðatryggingar VISA korthafa kr. 49.156.

8. Með því að hafa með fölsuðu læknisvottorði, dagsettu 11. september 1991, frá Allgemeines Krankenhaus í Austurríki um nýrnaaðgerð á Jóhönnu Jensdóttur, kt. 200146-4689, og reikningi sama sjúkrahúss, dagsettu sama dag, falsaðri lögregluskýrslu austurrískrar lögreglu um bráðaveikindi hennar, dagsettu 5. september 1991, og fölsuðu vottorði Arnbjörns Ólafssonar, læknis, dagsettu 23. september 1991, um slys og sjúkrahúsvist erlendis og veikindafrí, svikið út úr Tryggingastofnun ríkisins vegna erlends sjúkrakostnaðar, skv. 47. gr. laga nr. 67/1971, kr. 275.588, sbr. kvittun dags. 18. október 1991.

9. Með því að hafa með bréfi, dagsettu 2. desember 1991, til Tryggingastofnunar ríkisins krafið hana um greiðslu sjúkrakostnaðar í Bandaríkjunum á grundvelli falsaðs vottorðs og reiknings merkt The General Hospital of Clearwater, dagsett 19. nóvember 1991, og falsaðs vottorðs Arnbjörns Ólafssonar, læknis við Heilsugæslustöð Suðurnesja, dagsett 2. desember 1991, um sjúkravist Eiríks Franzsonar á ofangreindu sjúkrahúsi erlendis og eftirlits læknis síðar og þannig fengið greitt hinn 20. desember 1991 kr. 406.770.

Telst þetta varða við 1. mgr. 155. gr. og 248. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar fyrir framangreind brot.”

Þá er af hálfu Sjóvár-Almennra trygginga hf., Vátryggingafélags Íslands hf., Tryggingar hf. og Tryggingastofnunar ríkisins krafist skaðabóta úr hendi ákærða, samtals að fjárhæð 1.562.172 krónur auk vaxta.

                Málið var þingfest þann 12. þ.m.  Krafðist verjandi ákærða þess þá að dómarinn viki sæti í málinu.  Af hálfu ákæruvalds var ekki tekin afstaða til kröfunnar.

                Krafa ákærða er á því byggð að fram komi í gögnum málsins að dómari málsins hafi meðan á rannsókn þess stóð kveðið upp úrskurð um upplýsingaskyldu banka, úrskurð um haldlagningu og úrskurð um farbann ákærða.  Sé dómarinn af þeim sökum vanhæfur til að fara með málið.  Kröfu sinni til stuðnings vísar verjandinn til 5. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, einkum g-liðar, sbr. 6. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.

                Samkvæmt gögnum málsins kvað dómari sá sem fer með mál þetta upp þrjá úrskurði meðan það var á rannsóknarstigi.  Dómarinn var þá aðalfulltrúi yfirsakadómarans í Reykjavík.  Fyrsti úrskurðurinn var kveðinn upp 16. mars 1992.  Þar var þess krafist að fyrirsvarsmönnum Íslandsbanka hf. yrði lýst rétt og skylt f.h. bankans að láta rannsóknarlögreglu ríkisins í té upplýsingar um öll viðskipti ákærða við bankann.  Krafa þessi var tekin til greina.  Annar úrskurðurinn var kveðinn upp 17. s.m.  Þar var þess krafist að rannsóknarlögreglu ríkisins yrði heimilað að leggja hald á fjármuni sem ákærði varðveitti á tveimur gjaldeyrisreikningum í Íslandsbanka hf., útibúinu í Keflavík.  Fallist var á kröfuna.  Síðasti úrskurðurinn var kveðinn upp 20. s.m.  Þar var þess krafist að ákærða yrði gert að sæta farbanni til föstudagsins 1. maí s.á.  Ákærði mótmælti kröfunni.  Dómari féllst á kröfuna eins og hún var fram sett.  Við uppkvaðningu úrskurðarins lýsti ákærði því yfir að hann yndi úrskurðinum.  Eigi verður séð af gögnum málsins að dómarinn hafi haft önnur afskipti af málinu á rannsóknarstigi.

                Í 6. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála er mælt fyrir um að dómari víki sæti ef svo stendur á sem segir í lögum um meðferð einkamála.  Enn fremur skuli dómari víkja sæti í máli eftir útgáfu ákæru ef hann hefur úrskurðað mann, sem ákærður er í málinu, í gæsluvarðhald samkvæmt 2. mgr. 103. gr.  Er þar átt við að sterkur grunur þurfi að vera um að sakborningur hafi framið afbrot sem að lögum getur varðað tíu ára fangelsi, enda sé brotið þess eðlis að ætla megi varðhald nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna.  Með gagnályktun frá þessu lagaákvæði er ljóst að dómari verður ekki vanhæfur til meðferðar máls þótt hann hafi kveðið upp úrskurð um gæsluvarðhald á grundvelli 1. mgr. 103. gr. laganna meðan á rannsókn þess hefur staðið.  Allt að einu mun, að því best er vitað, sú starfsregla hafa verið viðhöfð í Héraðsdómi Reykjavíkur að þegar svo er ástatt fari sá dómari ekki með málið eftir útgáfu ákæru.

                Í máli því sem hér er til meðferðar kvað dómarinn upp úrskurði á rannsóknarstigi máls sem eðli málsins samkvæmt hljóta að falla í léttbærari flokk rannsóknarúrskurða en gæsluvarðhald á grundvelli 1. mgr. 103. gr. tilvitnaðra laga. Þegar allt ofanritað er virt og að teknu tilliti til almennrar vanhæfisreglu g-liðar 5. gr. laga nr. 91/1991, er það álit dómsins að eigi séu þau atvik fyrir hendi, þrátt fyrir framanrakin afskipti dómara af málinu á rannsóknarstigi, að leitt geti til þess að dómarinn sé vanhæfur til meðferðar máls þessa.  Samkvæmt því verður kröfu ákærða um að dómarinn víki sæti hafnað.

Úrskurðarorð:

                Kröfu ákærða, Eiríks Franzsonar, um að dómari málsins víki sæti, er synjað.