Hæstiréttur íslands
Mál nr. 380/2017
Lykilorð
- Kærumál
- Gjaldþrotaskipti
- Málsástæða
- Aðild
- Fyrning
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Karl Axelsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 13. júní 2017, en kærumálsgögn bárust réttinum 27. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 31. maí 2017, þar sem bú sóknaraðila var tekið til gjaldþrotaskipta að kröfu varnaraðila. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
I
Í kaupleigusamningi Háfells ehf. sem leigutaka og SP fjármögnunar hf. sem leigusala 29. júní 2007 um kaup á vinnubúðum og fleiru, var kveðið svo á um í B og C lið II. kafla að frumleigutími hæfist eigi síðar en 15. ágúst 2007 og stæði til og með 15. ágúst 2012. Í V. kafla samningsins kom fram að fyrsti gjalddagi hans væri 15. ágúst 2007 og lokagjalddagi 15. júlí 2012. Undir samninginn ritaði Skarphéðinn Ómarsson fyrir hönd Háfells ehf. Gerð var skilmálabreyting við samninginn 11. febrúar 2010 sem fyrrgreindur Skarphéðinn ritaði einnig undir fyrir hönd Háfells ehf. Í 1. gr. samkomulags um skilmálabreytingu kom fram að frá og með 14. september 2009 myndi næsta 41 greiðsla vera í formi vaxtagreiðslna. Þá sagði í skilmálabreytingunni að önnur ákvæði samningsins héldust óbreytt að öðru leyti en því sem greint var í feitletruðum kafla skilmálabreytingarinnar og ekki varðar mál það sem hér er til úrlausnar.
Sóknaraðili gekkst 23. ágúst 2011 undir sjálfskuldarábyrgð, sem sögð var vera fylgiskjal nr. II með fyrrgreindum kaupleigusamningi. Meðábyrgðarmaður var fyrrgreindur Skarphéðinn. Í ábyrgðaryfirlýsingunni kom fram hver staða samningsins væri og að sjálfskuldarábyrgðin gilti þar til skuldir leigutaka hjá SP fjármögnun hf. vegna kaupleigusamningsins væru að fullu greiddar. Þá sagði að hún væri til tryggingar skilvísri og skaðlausri greiðslu höfuðstóls skuldarinnar eins og hann væri á hverjum tíma. Hún tæki að auki til allra undirliggjandi samninga auk vísitöluálags, gengistryggingar, samningsvaxta, dráttarvaxta, alls kostnaðar við innheimtu, málskostnaðar og annars lögfræðikostnaðar. Hún næði til allra samninga, viðauka, skuldbreytinga og afleiddra krafna, sem kynnu að verða milli leigutaka og leigusala. Ábyrgðin stæði þótt samið yrði um framlengingu skulda einu sinni eða oftar. Þá sagði í ábyrgðaryfirlýsingunni að hún fæli það í sér að ábyrgðaraðilar skuldbyndu sig persónulega til að tryggja kröfuhafa efndir á skuldbindingum skuldara. Ábyrgðarmaður ábyrgðist greiðslu skuldar sem sína eigin og væri skylt að greiða skuldina við vanskil ef kröfuhafi krefðist þess.
Bú Háfells ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta 7. júní 2016. Varnaraðili lýsti kröfu í búið 11. ágúst sama ár að fjárhæð 30.118.410 krónur vegna skuldar samkvæmt fyrrgreindum kaupleigusamningi. Í tölvubréfi þáverandi lögmanns varnaraðila til lögmanns sóknaraðila 25. nóvember 2016, þar sem sóknaraðili leitaðist eftir því að skuld hans við varnaraðila yrði felld niður, sagði að sóknaraðili væri annar af tveimur eigendum Háfells sem ,,ábyrgðust leigusamninga félagsins“ og var útlistun sóknaraðila á tilurð skuldarinnar meðfylgjandi tölvubréfi lögmannsins.
Með greiðsluáskorun 7. desember 2016 á grundvelli 5. töluliðar 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991 var skorað á sóknaraðila að greiða skuld sömu fjárhæðar og lýst hafði verið í þrotabú Háfells ehf., 30.118.410 krónur. Greiðsluáskorunin var birt sóknaraðila 3. janúar 2017 og 13. mars sama ár krafðist varnaraðili gjaldþrotaskipta á búi sóknaraðila. Krafan var sögð byggjast á sjálfskuldarábyrgð vegna fyrrgreinds kaupleigusamnings, en til tryggingar greiðslu samningsins hefðu nefndur Skarphéðinn og sóknaraðili gengist í sjálfskuldarábyrgð 23. ágúst 2011.
Í héraðsgreinargerð varnaraðila kom fram að eftir að skilmálabreyting hafi verið gerð á samningi Háfells ehf. og SP fjármögnunar hf., hafi lokagjalddagi samningsins átt að vera 14. febrúar 2013. Með greinargerðinni fylgdi jafnframt skjal er sýndi stöðu samningsins 16. maí 2017 þar sem sagði að „[e]lsti ógreiddi gjalddagi“ skuldarinnar sé 11. október 2014.
II
SP fjármögnun hf. og varnaraðili runnu saman undir heiti þess síðarnefnda samkvæmt 106. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki og tók varnaraðili við öllum réttindum og skyldum SP fjármögnunar hf. frá 1. janúar 2011. Samkvæmt þessu er varnaraðili réttur aðili málsins.
Málsástæða sóknaraðila um að við undirritun hans á yfirlýsingu um sjálfskuldarábyrgð hafi varnaraðili farið í bága við lög nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn var ekki höfð uppi í héraði. Standa skilyrði 2. mgr. 163. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 2. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991, ekki til þess að hún komist að fyrir Hæstarétti.
Af hálfu sóknaraðila er meðal annars á því byggt að hafna beri kröfu varnaraðila um gjaldþrotaskipti á búi sóknaraðila þar sem krafa varnaraðila sé fyrnd. Eins og rakið hefur verið gekkst sóknaraðili í víðtæka sjálfskuldarábyrgð 23. ágúst 2011 fyrir greiðslu skuldar samkvæmt kaupleigusamningi Háfells ehf. og SP fjármögnunar hf., eftir að skilmálum kaupleigusamningsins var breytt 11. febrúar 2010. Í ábyrgðaryfirlýsingunni kom fram að hún tæki til allra samninga, viðauka og skuldbreytinga, allra undirliggjandi samninga og afleiddra krafna sem kynnu að verða milli leigutaka og leigusala.
Í samræmi við almennar reglur kröfuréttar stofnaðist krafa varnaraðila samkvæmt kaupleigusamningnum við útgáfu hans 29. júní 2007. Samkvæmt 28. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda öðluðust þau gildi 1. janúar 2008 og eiga einvörðungu við um þær kröfur sem stofnuðust eftir gildistöku laganna. Af því leiðir að um fyrningu kröfu þeirrar er um ræðir í málinu gilda ákvæði laga nr. 14/1905 um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda. Samkvæmt 4. mgr. 3. gr. laganna fyrnast kröfur samkvæmt ábyrgðarskuldbindingum á fjórum árum. Eins og fyrr er rakið kom fram í málatilbúnaði varnaraðila að lokagjalddagi kaupleigusamningsins hafi eftir skilmálabreytinguna átt að vera 14. febrúar 2013. Þótt engu verði slegið föstu um það hvort einhver hluti kröfu varnaraðila sé fyrndur er ljóst að greiðsla samkvæmt þeim gjalddaga var ekki fyrnd þegar hann lýsti kröfu í þrotabú Háfells ehf. 11. ágúst 2016 vegna skuldarinnar og rauf þar með fyrningarfrest kröfu sinnar á hendur sóknaraðila samkvæmt 13. gr., sbr. 11. gr. laga nr. 14/1905.
Samkvæmt öllu framangreindu hefur varnaraðili leitt að því nægilegar líkur að hann eigi fjárkröfu á hendur sóknaraðila sem krafa hans um gjaldþrotaskipti er reist á. Þá hefur sóknaraðili ekki sýnt fram á að hann sé allt að einu fær um að standa skil á skuldbindingum sínum þegar þær falla í gjalddaga eða verði það innan skamms tíma. Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur.
Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Jóhann Gunnar Stefánsson, greiði varnaraðila, Landsbankanum hf., 350.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 31. maí 2017.
Með beiðni er barst dóminum 15. mars 2017, krafðist sóknaraðili þess að bú varnaraðila yrði tekið til gjaldþrotaskipta. Við fyrirtöku málsins þann 4. maí 2017 var kröfunni mótmælt og þingfest var sérstakt ágreiningsmál. Málið var tekið til úrskurðar 18. maí sl. að loknum munnlegum málflutningi.
Sóknaraðili er Landsbankinn hf., kt.[...], Austurstræti 11, 155 Reykjavík. Varnaraðili er Jóhann Gunnar Stefánsson, kt. [...], Hrauntungu 77, 200 Kópavogi.
Sóknaraðili gerir kröfu um að bú varnaraðila verði tekið til gjaldþrotaskipta. Þá krefst hann málskostnaðar að mati dómsins.
Varnaraðili krefst þess að kröfunni verði hafnað. Þá krefst hann málskostnaðar að mati dómsins að teknu tilliti til greiðslu virðisaukaskatts af málflutningsþóknun.
I
Í gjaldþrotaskiptabeiðni sóknaraðila kemur fram að skorað hafi verið á varnaraðila með greiðsluáskorun, sbr. 5. tölulið 2. mgr. 65. gr. gjaldþrotaskiptalaga nr. 21/1991, sem birt var varnaraðila þann 3. janúar 2017, að lýsa því skriflega yfir að hann yrði fær um að greiða gjaldfallna skuld innan skamms tíma. Varnaraðili lýsti því ekki yfir við sóknaraðila að hann yrði fær um að greiða skuldina skv. framangreindu.
Sóknaraðili kveðst eiga neðangreinda gjaldfallna kröfu á hendur varnaraðila:
Höfuðstóll 30.118.410
Dráttarvextir 2.005.384
Innheimtukostnaður 22.150
Samtals 32.145.944
Í greinargerð sinni kveður sóknaraðili atvik málsins þau að félaginu Háfelli ehf., hafi verið veitt lán að fjárhæð 45.000.000 króna hjá SP fjármögnun þann 29. júní 2007, skv. kaupleigusamningi. Hafi samningnum verið skilmálabreytt þann 11. febrúar 2010 og lokagjalddagi færst til febrúar 2013. Þann 23. ágúst 2011 hafi varnaraðili ásamt öðrum nafngreindum einstaklingi, tekist á hendur sjálfskuldarábyrgð á öllum greiðslum kaupleigusamningsins. Hinn aðili þess samnings hafi svo greitt sig frá þeirri ábyrgð í febrúar 2016, með innborgun 5.000.000 krónur. Reynt hafi verið að ná samningum við varnaraðila síðustu tvö ár og honum verið boðið að greiða sig frá kröfunni með greiðslu á 3-7 milljónum króna án þess að því tilboði væri tekið.
Háfell ehf. hafi síðan verið tekið til gjaldþrotaskipta í byrjun júní 2016 og sóknaraðili lýst kröfum í þrotabúið. Sóknaraðili segir að engar greiðslur hafi borist úr þrotabúi Háfells ehf. inn á kröfuna vegna tryggingarbréfs í almennum reikningskröfum Háfells ehf., þar sem ekki hafi verið neinar útistandandi kröfur.
Sóknaraðili telur ljóst að sóknaraðili hafi tekið yfir réttindi og skyldur SP fjármögnunar við samruna í janúar 2011.
Sóknaraðili hafnar því að forsendur ábyrgðar varnaraðila séu brostnar vegna þess að hinn aðili þeirrar ábyrgðar hafi greitt sig frá henni. Ekki séu meiri kröfur gerðar á varnaraðila en að framan greini, og megi sjá af samskiptum aðila að varnaraðila hafi verið gerð ofurgóð tilboð til lausnar á málinu.
Þá sé því mótmælt að kröfur sóknaraðila séu vanreifaðar og að einhver vandkvæði séu á því fyrir varnaraðila að grípa til varna. Liggi öll gögn málsins frammi, samningur sem væri rétt út reiknaður á þann hátt sem varnaraðila væri hagfelldast. Ekki hafi verið sýnt fram á að krafa málsins væri of hátt reiknuð. Hafi krafan tvívegis verið lækkuð vegna endurútreiknings gengislánsins, í seinna skiptið í október 2014, en þá hafi krafan lækkað um 19 milljónir króna.
Sóknaraðili telur ljóst af dómaframkvæmd að samningar sem þessir séu í reynd lánasamningar en ekki leigusamningar. Sé krafan því ekki fyrnd, enda eigi við 10 ára fyrningarfrestur um þau lán. Krafan sé reist á sjálfskuldarábyrgðaryfirlýsingu sem hafi verið gefin út árið 2011 og eigi ákvæði fyrningarlaga nr. 150/2007 við kröfuna. Geti ábyrgðaryfirlýsingin ekki fyrnst á meðan sjálf krafan sé ófyrnd. Einnig hafi kröfunni verið lýst í þrotabú Háfells ehf., og hafi sú kröfugerð rofið fyrningarfrest. Varnaraðili hafi að auki viðurkennt kröfuna í samskiptum sínum við sóknaraðila.
Auk framangreinds hafi við endurútreikning kröfunnar tekið við átta ára fyrningarfrestur skv. bráðabirgðaákvæði XIV í lögum nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá 16. júní 2010 að telja.
Sóknaraðili krefst þess að kröfum varnaraðila verði hafnað og að bú varnaraðila verði tekið til gjaldþrotaskipta, með vísan til ákvæða laga um gjaldþrotaskipti nr. 21/1991. Vísað er til laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda og dómafordæma. Þá er vísað til laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, og um málskostnað er vísað til XXI. kafla laga 91/1991, um meðferð einkamála.
II
Varnaraðili vísar til málavaxtalýsingar sóknaraðila en jafnframt til þess að þann 25. apríl 2007 hafi Háfell ehf. gefið út tryggingarbréf að fjárhæð 50.000.000 króna með veði í öllum almennum kröfum skv. vörureikningum, sbr. 47. gr. laga nr. 75/1997, um samningsveð. Varnaraðili telur óupplýst hvaða greiðslur sóknaraðili hafi fengið út úr tilgreindu tryggingarbréfi við gjaldþrotaskipti þess félags, sem hefði átt að koma til lækkunar þeirri kröfu sem um ræðir í þessu máli.
Varnaraðili byggir á því að um aðildarskort sé að ræða. Hvergi í málatilbúnaði sóknaraðila sé gerð grein fyrir því hvernig, hvenær eða með hvaða hætti sóknaraðili hafi eignast kröfu SP fjármögnunar hf. á hendur Háfelli ehf. Þar sem sóknaraðili hafi hvorki sýnt fram á að hann eigi kröfu á Háfell ehf, né varnaraðila, beri þegar af þeirri ástæðu að hafna kröfu sóknaraðila.
Varnaraðili telur kröfu sóknaraðila svo vanreifaða að ekki sé með nokkrum hætti hægt að halda uppi vörnum í málinu. Gera verði þá kröfu að málatilbúnaður sóknaraðila sé í upphafi með þeim hætti að hann liggi ljós fyrir en ekki sé verið að bæta úr síðar. Hafi sóknaraðili nú lagt fram nokkra útreikninga með sitthvorri fjárhæðinni, á sömu kröfunni. Standist þessi framkvæmt engan vegin áskilnað 80. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Varnaraðili bendir á að gengistryggðir samningar hafi í nokkrum tilfellum verið dæmdir ólögmætir, þótt dómstólar hafi ekki fjallað um þennan samning sérstaklega. Ekki sé hægt að átta sig á því hvernig kaupleigusamningurinn sem upphaflega hafi verið 45.000.000 króna og greitt hafi verið af í nokkur ár, sé nú orðinn 33.206.753 krónur. Þá eigi útgáfudagur og gjalddagi, 7. júní 2016, sem fram komi í greiðsluáskorun sér enga stoð í frumskjali málsins, enda útilokað að varnaraðili væri með sjálfskuldaryfirlýsingu frá 23. ágúst 2011, vegna ábyrgðar á skuld frá 2016.
Varnaraðili byggir á því að forsendur fyrir sjálfskuldarábyrgð varnaraðila séu brostnar. Hafi forsendan verið sú að ábyrgðarmenn væru báðir in solidum ábyrgir. Með því að sóknaraðili hafi leyst hinn ábyrgðaraðilann undan ábyrgð, án samþykkis varnaraðila, séu brostnar forsendur fyrir ábyrgð varnaraðila og beri því að hafna kröfum sóknaraðila. Þá sé hvergi að finna upplýsingar um þá fjárhæð sem hinn ábyrgðaraðilinn hafi greitt, né heldur sjáist á kröfunni að greitt hafi verið inn á hana.
Þá byggir varnaraðili á því að krafa sóknaraðila sé fyrnd. Kaupleigusamningur Háfells ehf. og SP fjármögnunar hf. hafi verið undirritaður þann 29. júní 2007. Fari því um fyrningu hans skv. lögum nr. 14/1905 um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda. Hafi samningurinn fyrnst skv. 1. eða 2. til 3. gr. laganna, eftir því hvort um sé að ræða samning um afhendingu á lausafé eða leigusamning. Sama hvort sé, þá sé fyrningarfresturinn 4 ár, eða frá þeim degi sem krafan varð gjaldkræf. Síðasti gjalddagi kaupleigusamningsins hafi verið 15. júlí 2012 og hafi síðasta greiðsla því fyrnst þann 15. júlí 2016, sbr. Hrd. nr. 96/2016, enda fyrnist hver greiðsla kaupleigusamningsins sjálfstætt á fjórum árum. Krafa sóknaraðila hafi því verið að fullu fyrnd þann 15. júlí 2016, eða hálfu ári áður en sóknaraðili hafi fyrst beint kröfum sínum að varnaraðila. Jafnvel þótt samkomulag um skuldbreytingu, sem varnaraðili hafi ekki vitað um eigi að gilda og lokagjalddagi hafi færst til 14. febrúar 2013, hafi fyrningu ekki verið slitið gagnvart varnaraðila. Engu breyti í þessu sambandi þótt sjálfskuldaryfirlýsing varnaraðila hafi verið gefin út síðar, sú krafa hafi fyrnst um leið og aðalkrafan, sbr. Hrd. nr. 507/2016. Varnaraðili hafi aldrei viðurkennt skuld þessa máls, og verði framlagðir tölvupóstar ekki metnir sem viðurkenning í því sambandi. Þá verði innborgun meðábyrgðarmanns árið 2016 ekki talin hafa rofið fyrningu af hálfu varnaraðila.
Krafa varnaraðila um málskostnað er byggð á því að sóknaraðili sé með rangar kröfur á hendur varnaraðila sem hafi valdið varnaraðila tjóni vegna lögmannsaðstoðar við að verjast ólögmætum kröfum sóknaraðila, sbr. heimild í 2. mgr. 166. gr., sbr. XXIV. kafla laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti, sbr. XXI. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.
III
Í 66. gr., sbr. 7. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., kemur fram hvaða upplýsingar og gögn eigi að lágmarki að fylgja gjaldþrotabeiðni. Við mat á því hvort gjaldþrotabeiðni sé vanreifuð verður einnig að horfa til 4. mgr. 166. gr., sbr. 2. mgr. 168. gr. laga nr. 21/1991, um að komi síðar til ágreinings um gjaldþrotaskiptabeiðni, þá gefst báðum aðilum kost á því að leggja fram greinargerðir og frekari sönnunargögn í málinu. Telst málið samkvæmt því sem kom við þá gagnaframlagningu, nægjanlega glöggt til þess að hægt sé að taka það til efnislegrar meðferðar og er því ekki fallist á það að málatilbúnaður sóknaraðila standist ekki 80. gr. laga nr. 91/1991. Er því jafnframt ekki hægt að fallast á kröfu varnaraðila um aðildarskort þótt gögn um samruna SP Fjármögnunar við sóknaraðila hafi ekki fylgt gjaldþrotabeiðni í upphafi, enda staðfesting þess efnis nú verið lögð fram í samræmi við framangreindar heimildir.
Varnaraðili byggir á því að um brostnar forsendur sé að ræða. Í umræddri sjálfskuldarábyrgð sem krafa þessa máls byggist á, kemur fram að ábyrgðarmenn ábyrgist persónulega greiðslu skuldar félagsins Háfell ehf. sem sína eigin. Nær ábyrgð hvors varnaraðila þannig til greiðslu allrar kröfunnar og sóknaraðili var ekki bundinn af því að hvorum hann beindi kröfu sinni fyrst. Ekki kemur fram að það hafi verið ákvörðunarforsenda hjá ábyrgðarmönnum að þeir væru báðir til ábyrgðar. Ábyrgð varnaraðili jókst ekki við það að samið var við annan ábyrgðaraðilann og ekki annað að sjá en varnaraðila hafi verið boðin sömu og jafnvel betri kjör en hinum ábyrgðaraðilanum til að losna undan þeirra ábyrgð. Er því ekki fallist á það að óskráðar reglur um brostnar forsendur leiði til þess hafna beri kröfu sóknaraðila.
Um efni þess kaupleigusamnings sem ábyrgð varnaraðila nær til og undirritaður var 29. júní 2007, verður að líta svo á, að í raun sé um lán að ræða þrátt fyrir heiti samningsins, skv. dómafordæmum Hæstaréttar. Um þann samning gildir því 10 ára fyrningarfrestur skv. 4. gr. laga nr. 14/1905 og 5. gr. laga nr. 150/2007, eftir því hvort vanskil á gjalddögum hans eru frá árinu 2007 eða síðar og er krafan ófyrnd.
Þann 23. ágúst 2011, gekkst varnaraðili undir sjálfskuldarábyrgð á öllum kröfum nefnds láns sem þá var 37.498.738 krónur. Ábyrgðarkrafa varnaraðila fyrnist um leið og aðalkrafan, sbr. 7. gr. laga nr. 150/2007. Samkvæmt framangreindu telst aðalkrafan ófyrnd, og þar með ábyrgðarkrafa varnaraðila. Af gögnum málsins verður ekki séð að nein innborgun hafi átt sér stað inn á kröfuna, ef frá er talin 5 milljón króna innborgun hins ábyrgðarmannsins á árinu 2016.
Sóknaraðili byggir kröfu sína um gjaldþrotaskipti á 5. tölulið 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. og telur sóknaraðili sig eiga umtalsverða kröfu á hendur varnaraðila skv. framangreindu. Óumdeilt er að varnaraðila var send greiðsluáskorun með vísan til nefnds ákvæðis og að varnaraðili hafi móttekið þá greiðsluáskorun þann 3. janúar 2017. Þá er óumdeilt að varnaraðili hafi ekki sent sóknaraðila neinar skriflegar athugasemdir. Krafa sóknaraðila barst héraðsdómi innan þriggja mánaða frá því að greiðsluáskorun var birt varnaraðila. Eru því uppfyllt ákvæði 5. töluliðar 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.
Samkvæmt framangreindu hefur varnaraðili ekki sýnt fram á að hann sé skuldlaus við sóknaraðila, þótt hann telji að fjárhæð kröfu sé að einhverju leyti misvísandi. Ljóst er því að sóknaraðili á umtalsverða kröfu á hendur varnaraðila og eru því uppfyllt ákvæði 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991, um að sóknaraðili sé lánadrottinn varnaraðila og að sú krafa sé í vanskilum.
Ekki var á því byggt að varnaraðili sé allt að einu fær um að standa full skil á skuldbindingum sínum með neinum hætti, né verður slíkt ráðið af gögnum málsins, og þá standa ákvæði 3. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991 því ekki í vegi að sóknaraðili geti krafist gjaldþrotaskipta á búi varnaraðila.
Með vísan til alls framangreinds eru uppfyllt ákvæði laga nr. 21/1991, um að bú varnaraðila verði tekið til gjaldþrotaskipta.
Eftir þessum úrslitum verður varnaraðila gert að greiða sóknaraðila 200.000 krónur í málskostnað.
Úrskurðinn kveður upp Bogi Hjálmtýsson héraðsdómari.
Úrskurðarorð:
Að kröfu sóknaraðila, Landsbankans hf., er bú varnaraðila, Jóhanns Gunnars Stefánssonar, tekið til gjaldþrotaskipta.
Varnaraðili greiði sóknaraðila 200.000 krónur í málskostnað.