Hæstiréttur íslands

Mál nr. 345/2001


Lykilorð

  • Ráðningarsamningur
  • Kjarasamningur
  • Ógilding samnings
  • Skuldajöfnuður


Fimmtudaginn 14

 

Fimmtudaginn 14. mars 2002.

Nr. 345/2001.

Margrét Þorsteinsdóttir

(Ástráður Haraldsson hrl.)

gegn

Toni & Guy Íslandi ehf.

(Jakob R. Möller hrl.)

 

Ráðningarsamningur. Kjarasamingur. Ógilding samnings. Skuldajöfnuður.

M krafðist þess að tilteknu ákvæði samings hennar við T & G ehf. yrði vikið til hliðar. Sú krafa var þó ekki sett fram á grundvelli 36. gr. laga nr. 7/1936 eða annarra ákvæða III. kafla þeirra laga. Þótt umrætt samningsákvæði þætti óvenjulegt var talið að skýrum orðum þess yrði ekki vikið til hliðar með vísan til almennra túlkunarregna samninga- eða vinnuréttar. Fyrir Hæstarétti var ekki deilt um önnur atriði málsins og var niðurstaða héraðsdóms um fjárhagsuppgjör málsaðila staðfest samkvæmt þessu.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 7. september 2001 að fengnu áfrýjunarleyfi. Hún krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 307.477 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af 39.499 krónum frá 1. apríl 2000 til 1. maí sama árs, af 98.025 krónum frá þeim degi til 1. júní sama árs, af 194.081 krónu frá þeim degi til 1. júlí sama árs, af 283.192 krónum frá þeim degi til 1. ágúst sama árs, af 307.477 krónum frá þeim degi til 1. júlí 2001, en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum 25.004 krónum. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

 Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

 Eins og nánar er rakið í hinum áfrýjaða dómi starfaði áfrýjandi á hársnyrtistofu stefnda og byggðist ráðning hennar meðal annars á samningi aðila 25. janúar 2000. Samningur þessi er á ensku. Í 2. tölulið hans er meðal annars eftirfarandi ákvæði: Ljúki ráðningu þinni af einhverri ástæðu frá þeim tíma, sem samningurinn er gerður, og innan árs frá því að þú hefur störf er þér skylt að inna af hendi greiðslu að fjárhæð 1.900 sterlingspund, sem er hluti kennslugjalds, sem tekið er fyrir þjálfun í þessum gæðaflokki. Komi til þess mun launum, sem þú kannt að eiga inni hjá félaginu, haldið eftir til greiðslu þessarar fjárhæðar.

Með hinum áfrýjaða dómi var fallist á kröfu áfrýjanda til greiðslu launa úr hendi stefnda. Stefndi gerði í héraði gagnkröfu til skuldajafnaðar á grundvelli framangreinds ákvæðis í samningi aðila 25. janúar 2000 og féllst héraðsdómur á þá kröfu. Er héraðsdómi áfrýjað til að fá hrundið þeirri niðurstöðu. Snýst málatilbúnaður stefnda fyrir Hæstarétti eingöngu um gagnkröfuna, enda unir hann niðurstöðu hins áfrýjaða dóms varðandi launakröfu áfrýjanda.

Af hálfu áfrýjanda er því ekki borið við að víkja skuli framangreindu ákvæði 2. töluliðs samningsins frá 25. janúar 2000 til hliðar eða ógilda það á grundvelli  36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga með síðari breytingum eða á grundvelli annarra ákvæða III. kafla þeirra laga. Orðalag samningsákvæðisins er skýrt og ótvírætt varðandi það að heimilt sé að krefjast greiðslu þar greindrar fjárhæðar hvernig sem ráðningarslit ber að höndum. Þótt ákvæði þetta sé óvenjulegt verður skýrum orðum þess ekki vikið til hliðar með vísan til almennra túlkunarreglna samninga- eða vinnuréttar. Fram kom í málflutningi áfrýjanda fyrir Hæstarétti að ekki er ágreiningur milli aðila um að stefnda sé heimilt að nota til skuldajafnaðar gagnkröfu samkvæmt ákvæðinu. Með þessum athugasemdum og að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Dæma verður áfrýjanda til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir, en við ákvörðun hans er tekið tillit til þess að annað mál samkynja var flutt samhliða þessu máli.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Margrét Þorsteinsdóttir, skal greiða stefnda, Toni & Guy Íslandi ehf., 100.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 12. júní 2001.

I

          Mál þetta, sem dómtekið var að loknum munnlegum málflutningi hinn 4. maí   sl., var höfðað fyrir dómþinginu af Margréti Þorsteinsdóttur, kt. 220372-3249, Skipasundi 2, Reykjavík, á hendur Toni & Guy Íslandi ehf., kt. 470600-2250, Laugavegi 96, Reykjavík, með stefnu áritaðri um móttöku 6. nóvember 2000. Málið var þingfest 14. nóvember 2000.

Við dómsuppkvaðningu var gætt ákvæða 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála í héraði.

          Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til að greiðslu skuldar að fjárhæð kr. 307.477 með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 25/1987 af kr. 39.499 frá 1. apríl 2000 til 1. maí 2000 af kr. 98.025 frá þeim degi til 1. júní 2000 en af kr. 194.081 frá þeim degi til 1. júlí 2000 af kr. 283.192 frá þeim degi til 1. ágúst 2000 og loks af kr. 307.477 frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum kr. 25.004. Þá er þess krafist að dráttarvextir leggist við höfuðstól á 12 mánaða fresti í fyrsta sinn þann 1. apríl 2001. Einnig krefst stefnandi málskostnaðar að skaðlausu að mati réttarins auk virðisaukaskatts.

          Endanlegar dómkröfur stefnda eru þær að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda. Þá gerir stefndi gagnkröfu til skuldajafnaðar að fjárhæð 1.900 bresk pund eða kr. 241.680. Stefndi krefst ennfremur að honum verði tildæmdur málskostnaður úr hendi stefnanda að mati dómsins.

II

          Málavextir eru þeir að aðilar undirrituðu samning, “Varder Agreement”, þar sem stefnandi skuldbatt sig til að sækja fjögurra til átta vikna námskeið á vegum stefnda.  Jafnframt kemur fram í samningnum að fyrirtækið geti ráðið stefnanda til starfa til að minnsta kosti eins árs að loknu námskeiði. Stefnandi fór á námskeið til Lundúna á Englandi í byrjun febrúar 2000 en kom aftur til Íslands að loknu námskeiðinu í byrjun mars 2000. Áætlað hafði verið að hárgreiðslustofa stefnda opnaði í mars en opnun var frestað fram í miðjan maí.  Stofan var þó ekki opnuð fyrr en 16. júní 2000 og hóf stefnandi störf á stofunni þann dag. 

Stefnandi sótti með aðstoð stefnda um atvinnuleysisbætur og fékk þær greiddar 16. maí 2000. Stefnandi fór í ólaunað sumarleyfi en sagði upp störfum sínum hjá stefnda með bréfi dagsettu 26. júlí s.á. og 31. júlí s.á. gerðu aðilar með sér samkomulag um að stefnandi þyrfti ekki að vinna mánaðaruppsagnarfrest.

III

Stefnandi byggir kröfur sínar á því að ráðningarsamningur milli aðila hafi verið í gildi sleitulaust frá 25. janúar 2000 til 21. ágúst 2000 og fullyrðingum stefnda um upphaf ráðningar 16. júní s.á. mótmælt.  Stefnandi hefði verið ráðin til starfa í janúar 2000 og send á námskeið og hefði átt að hefja störf á stofu stefnda í mars það ár. Opnun hárgreiðslustofunnar hefði verið frestað af ástæðum sem séu stefnanda óviðkomandi og sé ósanngjarnt að hún eigi að bera áhættuna og hallann af þeirri töf sem orðið hafi á opnun stofunnar þannig að hún sé launalaus þar til stefnda þóknist að nýta starfskrafta hennar en sé samt bundin ráðningarsamningi á sama tíma.

Auk kröfu um laun allan ráðningartímann geri stefnandi kröfu um lágmarkskjör samkvæmt kjarasamningi en sú trygging sem stefndi hefði ætlað sér að greiða sé langt undir lágmarkskjörum kjarasamnings. Launakjör stefnanda hefðu þannig brotið í bága við kjarasamning og 1. gr. laga nr. 55/1980 um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda en þar sé kveðið á um að samningar um lakari kjör en kjarasamningar kveði á um, skuli ógildir. 

Stefnandi kveðst hafa mótmælt í bréfi dagsettu 6. október 2000 þeim fullyrðingum stefnda um að stefnandi hefði sjálf ekki talið sig í starfi hjá stefnda með móttöku atvinnuleysisbóta.  Umsókn stefnanda um atvinnuleysisbætur hefði verið í samráði við stefnda vegna vangetu félagsins til að greiða laun og séu bæturnar dregnar frá launakröfu stefnanda.

Dómkrafa stefnanda nemi kr. 307.477 en stuðst sé við útreikning Félags hársnyrtisveina dags. 10. ágúst 2000. Stefnandi kveðst sundurliða kröfu sína þannig:

Laun í mars

kr. 39.499

laun í apríl

kr. 58.526

laun í maí

kr. 96.056

laun í júní

kr. 89.111

laun í júlí

kr. 24.285

Samtals

kr.307.477

Um greiðsluskyldu stefnda vísi stefnandi til meginreglna vinnuréttar um greiðslu verkkaups og meginreglna samningaréttar um skyldu til efnda samninga auk laga nr. 30/1987 um orlof.  Þá styðji stefnandi kröfur sínar við lög nr. 55/1980, lög nr. 19/1979 og lög nr. 80/1938 en kröfu um vexti og vaxtavexti við lög nr. 25/1987 og kröfu um málskostnað við 130. gr. laga nr. 91/1991 en kröfu um virðisaukaskatt við lög nr. 50/1988 þar sem stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur.

Stefndi kveðst byggja kröfur sínar á því að ráðningarsamningur hafi ekki stofnast milli aðila fyrr en stefnandi hóf störf á hárgreiðslustofu stefnda. Aldrei hefði verið samið um að stefnandi hæfi störf og þægi laun fyrr en stefndi hæfi rekstur, enda hefði stefnandi ekki sýnt fram á annað.  Samkvæmt samningi hefði stefnandi gefið stefnda kost á að ráða sig til starfa að lokinni þjálfun en enginn upphafstími hefði verið tilgreindur. Skipti ekki máli hver opnunartími hefði verið upphaflega áætlaður enda hefði stefnandi sótt um atvinnuleysisbætur á biðtímanum. Sönnunarbyrðin hvíli á stefnanda um að samið hefði verið um tiltekinn upphafsdag ráðningar.

Stefndi kveðst jafnframt byggja á því að stefnandi hefði sýnt af sér afhafnaleysi þar sem hún hefði ekki minnst á laun fyrir þennan tíma fyrr en með bréfi Félags hársnyrtisveina dagsettu 28. júlí 2000.

Gagnkröfu byggi stefndi á 1. mgr. 28. gr. laga nr. 91/1991 en kröfurnar séu samrættar þar sem það hefði verið skilyrði fyrir starfi hjá stefnda að stefnandi hefði lokið umræddu námskeiði.  Krafan nemi kr. 1.900 bresk pund eða kr. 241.680 samkvæmt miðgengi 18. desember 2000.  

Um lagarök fyrir málskostnaðarkröfu vísi stefndi til 1. og 3. mgr. 129. gr. og 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991.

IV

 

Í máli þessu greinir aðila á um upphafstíma ráðningar stefnanda hjá stefnda. Þann 25. janúar 2000 skrifuðu stefnandi og Hildur Árnadóttir fyrir hönd stefnda undir samning á ensku, svo kallað “Varder Agreement”, en þar er fjallað um þjálfun hjá Toni & Guy í London og fram kemur að möguleiki sé á að fá stöðu hjá fyrirtækinu. Jafnframt segir að verði samningsaðila ekki boðin staða hafi fyrirtækið engar skyldur gagnvart honum en hins vegar er mælt fyrir um starfskjör hjá fyrirtækinu og einnig gerðar athugasemdir sem sérstaklega lúta að fyrirkomulagi hjá fyrirtækinu á Íslandi.

Þótt samningurinn verði ekki talinn vera ráðningarsamningur eftir orðalagi hans, verður að líta til þess að hann felur í sér lýsingu á ýmsum atriðum starfs hjá stefnda og er undirritaður fyrir hönd stefnda. Í aðilaskýrslum stefnanda og Hildar Árnadóttur kom fram að þær voru í beinum samskiptum frá því stefnandi hélt til Lundúna á námskeið í janúar 2000 og þar til hársnyrtistofan var opnuð í júní það ár.  Fram er komið að Hildur hafði samband við stefnanda á meðan á námskeiðinu stóð og tilkynnti um frestun á opnun stofunnar fram í byrjun maí. Stefnandi gerði ekki formlegar launakröfur á tímabilinu en fram kom í skýrslu Hildar Árnadóttur að þær hefðu talað saman um þetta. Stefnandi bar fyrir dóminum að hún hefði sótt námskeið að tilstuðlan stefnda hér á landi eftir dvölina í Lundúnum og var því ekki mótmælt af hálfu stefnda.  Verður að líta á þá námskeiðasókn sem vinnuframlag af hálfu stefnanda.  Þá liggur frammi í málinu yfirlýsing Hildar Árnadóttur dagsett 21. mars 2000 þar sem hún vottar að stefnandi hefði verið ráðin til Toni & Guy á Íslandi en seinkun hefði orðið á opnun stofunnar. Yfirlýsingin mun hafa verið útbúin í tengslum við umsókn stefnanda um atvinnuleysisbætur.

Þegar litið er til þessara atvika og efnis framangreinds samnings verður að telja að stefndi hafi með undirritun sinni á samninginn og samskiptum við stefnanda eftir námskeiðsdvöl stefnanda í Lundúnum, gefið stefnanda ástæðu til að ætla að hún væri í starfi hjá stefnda og verði að líta þannig á að komist hafi á munnlegur ráðningarsamningur sem stefndi hefði þurft að rifta með einhverjum hætti ef hann vildi losna undan honum. Ber að miða upphafstíma ráðningarsamningsins við upphaflega áætlaðan opnunartíma hársnyrtistofu stefnda í mars 2000.  Var ekki rætt um að stefnandi leitaði sér að annarri vinnu. Þá kom fram í framburði Hildar Árnadóttur að starfsfólki hefði ekki verið sagt upp vegna seinkunar á opnun hárgreiðslustofunnar.

Ekki verður fallist á það með stefnda að stefnandi hafi sýnt af sér athafnaleysi enda leit stefnandi á sig sem starfsmann stefnda frá því í febrúar 2000.

Stefndi krefst þess að hluta námskeiðskostnaðar samkvæmt framangreindum "Varder Agreement" samningi aðila verði með vísan til 1. mgr. 28. gr. laga nr. 91/1991 skuldajafnað við dómkröfu stefnanda.  Í samningnum er ákvæði í 2. gr. þess efnis að hverfi starfsmaður frá störfum af einhverjum ástæðum innan eins árs beri honum að greiða framangreinda fjárhæð sem sé hluti af þjálfunarkostnaðinum. Af gögnum málsins er ljóst að slík þjálfunarnámskeið eru hluti af starfi á hársnyrtistofu stefnda og verður því að telja að um samrætta kröfu sé að ræða. Stefnandi sagði starfi sínu lausu innan árs frá munnlegum ráðningarsamningi og skömmu eftir opnun hársnyrtistofunnar og verður gagnkrafa stefnda því tekin til greina eins og krafist er en stefnandi hefur ekki haft uppi töluleg mótmæli gegn kröfunni.

 Samkvæmt framlagðri kvittun greiddi stefndi stefnanda kr. 25.004 þann 29. mars 2001 sem greiðslu á því sem á vantaði svo lágmarkslaunum samkvæmt kjarasamningi væri náð fyrir tímabilið frá 16. júní 2000 til 8. ágúst sama ár. Hafa báðir aðilar breytt kröfugerð sinni til samræmis við innborgunina og er ekki ágreiningur um hana.

Eftir framansögðu er það niðurstaða dómsins að stefnda beri að greiða stefnanda dómkröfuna kr. 307.477 að frádregnum námskeiðskostnaði kr. 241.680 og leiðréttingu launa að fjárhæð kr. 25.004 með dráttarvöxtum eins og nánar greinir í dómsorði. 

Eftir úrslitum málsins þykir rétt að hvor aðili beri sinn kostnað af málarekstrinum.

Arnfríður Einarsdóttir, settur héraðsdómari, kvað upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð :

Stefndi, Toni & Guy Íslandi ehf., greiði stefnanda, Margréti Þorsteinsdóttur, kr. 40.793 með dráttarvöxtum af kr. 39.499 frá 1. apríl 2000 til 1. maí 2000, af kr. 98.025 frá þeim degi til 1. júní, af kr. 194.081 frá þeim degi til 1. júlí 2000, af kr. 283.192 frá þeim degi til 1. ágúst 2000, af kr. 307.477 frá þeim degi til 1. september, af kr. 65.797 frá þeim degi til 29. mars 2001 en af kr. 40.793 frá þeim degi til greiðsludags.

Málskostnaður fellur niður.