Hæstiréttur íslands
Nr. 2020-251
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Málskostnaður
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ingveldur Einarsdóttir og Sigurður Tómas Magnússon.
Með beiðni 4. nóvember 2020 leitar Valgeir Kristinsson leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 16. október sama ár í máli nr. 729/2019: Valgeir Kristinsson gegn Hjördísi Eddu Harðardóttur, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gagnaðili telur ekki efni til að verða við beiðni um áfrýjunarleyfi.
Með stefnu 21. febrúar 2018 höfðaði leyfisbeiðandi fyrir hönd A mál á hendur sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu og gagnaðila þar sem þess var aðallega krafist að felldur yrði úr gildi ,,úrskurður“ yfirlögráðanda 25. október 2016 um skipun ráðsmanns fyrir stefnanda og gagnaðila yrði veitt lausn frá stöfum ráðsmanns. Til vara var þess krafist að gagnaðila yrði veitt lausn frá störfum og ,,skipt [yrði] um ráðsmann“. Gagnaðili krafðist sýknu auk málskostnaðar úr hendi stefnanda og leyfisbeiðanda vegna tilhæfulausrar málshöfðunar gegn sér. Með dómi héraðsdóms 9. júlí 2019 var kröfum stefnanda, fyrrgreindrar A, á hendur sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu vísað frá dómi án kröfu og málskostnaður þeirra á milli felldur niður. Þá var gagnaðili sýknuð af kröfum hennar í málinu. Með vísan til 2. og 4. mgr. 131. gr. laga nr. 91/1991 var leyfisbeiðanda gert að greiða gagnaðila málskostnað með álagi. Leyfisbeiðandi skaut málskostnaðarákvörðun héraðsdóms til Landsréttar sem staðfesti niðurstöðu héraðsdóms um að gera leyfisbeiðanda að greiða gagnaðila málskostnað með vísan til a-liðar 1. mgr., sbr. 4. mgr. 131. gr. laga nr. 91/1991, en taldi ekki efni til að beita álagi á málskostnað. Landsréttur skírskotaði til þess að samkvæmt 3. mgr. 47. gr. lögræðislaga nr. 71/1997 gæti skjólstæðingur ráðsmanns hvenær sem er óskað þess að hann yrði leystur frá störfum og skyldi yfirlögráðandi verða við þeirri beiðni nema ákvæði 48. gr. laganna ætti við. Samkvæmt því væri það alfarið undir stefnanda málsins í héraði komið hversu lengi sú skipan ráðsmanns stæði sem komið var á að beiðni hennar með ákvörðun yfirlögráðanda 25. október 2016. Í ljósi þessa hefðu engin rök staðið til þess að stefnandi í héraði beindi dómkröfum sínum að gagnaðila. Málið hefði því að þarflausu verið höfðað á hendur gagnaðila og var leyfisbeiðanda gert að greiða henni 600.000 krónur í málskostnað í héraði auk málskostnaðar fyrir Landsrétti.
Leyfisbeiðandi byggir á því að réttmætt hafi verið að höfða fyrrgreint dómsmál og beina því að gagnaðila, en ella að ekki hafi verið heimilt að beita 4. mgr. 131. gr. laga nr. 91/1991 og fella málskostnað einvörðungu á hann sem lögmann stefnanda í héraði. Dómur Landsréttar feli í sér nýmæli en aldrei áður hafi málskostnaður verið felldur á lögmann málsaðila einan fyrir að stefna aðila að þarflausu. Leyfisbeiðandi byggir á því að málið hafi verulegt almennt gildi auk þess sem það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni sína. Þá sé dómur Landsréttar bersýnilega rangur að efni til.
Að virtum gögnum málsins er hvorki unnt að líta svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður hvorki séð að málsmeðferð fyrir héraðsdómi eða Landsrétti hafi verið stórlega ábótavant að því er varðar það álitaefni sem beiðnin snýr að, né að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi til eða efni, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðninni er því hafnað.