Hæstiréttur íslands

Mál nr. 176/2010


Lykilorð

  • Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
  • Kærumál


 

Föstudaginn 19. mars 2010.

Nr. 176/2010.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Jón H. B. Snorrason saksóknari)

gegn

X

(Stefán Karl Kristjánsson hdl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi gert að sæta gæsluvarðhaldi, á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Jón Steinar Gunnlaugsson og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 17. mars 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 17. mars 2010, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 31. mars 2010 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

                                                                  

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 17. mars 2010.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, kt. [...], verði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi, allt til miðvikudagsins 31. mars 2010, kl. 16:00.

Í greinargerð lögreglu kemur fram að lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hafi haft til rannsóknar stórfellt fíkniefnabrot er varði ætlaðan innflutning á fíkniefnum hingað til lands. Hinn 11. nóvember sl. hafi lögreglunni borist upplýsingar frá lögreglunni í [...] í Litháen þess efnis að tveir litháískir karlmenn ætluðu að flytja inn til landsins rúmlega 10 kg af amfetamíni í bifreið og að þeir myndu ferðast hingað til lands með ferjunni Norrænu. Áætlað var að þeir kæmu með ferjunni til Seyðisfjarðar hinn 12. nóvember sl. Síðar hafi komið í ljós að Litháarnir hafi misst af ferjunni er hún hafi farið frá Færeyjum og þeir orðið strandaglópar þar. Lögreglan í Færeyjum hafi handtekið mennina hinn 13. nóvember og leitað í bifreið þeirra. Við leitina hafi fundist rúmlega 4.000 stk. af MDMA töflum og rúmlega 3 kg af metamfetamíni. Við leitina hafi einnig fundist  miði með nafninu X og íslenskt símanúmer. Við rannsókn málsins hafi komið í ljós að kærði X sé skráður fyrir símanúmerinu. Þá hafi einnig komið í ljós að íslenskt farsímanúmer hafi verið gefið upp í bókun farmiða þessara tveggja manna í Færeyjum. Litháarnir tveir sæti nú gæsluvarðhaldi í Færeyjum. Þeir hafi litlar upplýsingar gefið varðandi málið og sé ósamræmi í framburði þeirra. Aðspurðir hafi þeir borið um að maður að nafni X hafi skipulagt ferðina og hafi annar þeirra sagt að X hafi átt að taka á móti þeim þegar þeir kæmu með fíkniefnin til Seyðisfjarðar.

                Þann 18. nóvember sl. hafi kona að nafni Y haft samband við skrifstofu ferjunnar Norrænu og spurst fyrir um Litháana sem sitji í varðhaldi í Færeyjum. Y hafi viljað vita hvenær von væri á þeim til landsins. Hún hafi hringt úr ákveðnu símanúmeri en óskað eftir því að haft yrði samband við sig í annað ákveðið símanúmer. Rannsókn lögreglu hafi leitt í ljós að umrædd kona sé Y og sé meðkærði Z notandi símanúmersins sem hún bað um að hringt yrði í.

                Z, Y og X hafi öll verið handtekinn þann 5. janúar sl.  Kærðu Z og X hafi sætt gæsluvarðhaldi í þágu málsins til dagsins í dag.

                Í fyrstu hafi X neitað alfarið sök vegna málsins. Í skýrslutöku hjá lögreglu 11. janúar sl. hafi hann hins vegar viðurkennt aðild sína að málinu.  Hann hafi skýrt frá því að hafa, að beiðni Z, samþykkt að Litháarnir fengju upplýsingar um nafn hans og símanúmer og að útvega þeim vinnu er þeir kæmu til Íslands. Hann kveðst hafa vitað að í bílnum, sem þeir kæmu á, væru falin fíkniefni. X kveðst einnig hafa að beiðni Z millifært fjárhæðir inn á bankareikninga í Litháen.

                Kærði hafi verið yfirheyrður að nýju í ítarlegri skýrslutöku fyrir dómi 11. febrúar sl. þar sem hann hafi viðurkennt afdráttarlaust aðild sína í málinu og hafi sá framburður verið samhljóma fyrri framburði hans hjá lögreglu 11. janúar sl.

                Þann 24. febrúar sl. hafi kærði óskað eftir því að tjá sig frekar um málið hjá lögreglu og dregið þá til baka fyrri játningar sínar.  Kvaðst hann hafa verið beittur þrýstingi og jafnframt lofað að honum yrði sleppt úr varðhaldi játaði hann á sig brotið.

                Rannsókn málsins sé á lokastigi, en málið sé mjög umfangsmikið. Lögreglan hafi nú unnið að rannsókn málsins hér á landi í samvinnu við lögregluyfirvöld í Færeyjum, í Litháen og með aðkomu Europol. Lögreglumenn frá Færeyjum hafi komið hingað til lands og tekið þátt í yfirheyrslu yfir kærðu.  Áætlað sé að ljúka rannsókninni á allra næstu dögum og senda málið innan umbeðins tíma ríkissaksóknara til ákvörðunar um saksókn.

                 Það sé mat lögreglustjóra að lagaskilyrðum 2. mgr. 95. gr. laga 88/2008 sé fullnægt, enda sé kærði undir sterkum rökstuddum grun um aðild að broti sem geti varðað allt að 12 ára fangelsi. Meint aðild kærða þyki mikil en hún sé talin tengjast skipulagningu, milligöngu og móttöku fíkniefnanna. Lögregla telji nær öruggt að fíkniefnin hafi átt að fara í sölu og dreifingu til ótiltekins fjölda manna hér á landi. Þá sé einnig lagt til grundvallar kröfu um áframhaldandi gæsluvarðhald að um mjög mikið magn hættulegra fíkniefna sé að ræða. Hið ætlaða brot kærða þyki mjög alvarlegt. Með tilliti til hagsmuna almennings þyki þannig nauðsynlegt að kærði sæti áfram gæsluvarðhaldi á meðan mál hans er til meðferðar en telja verði að ef sakborningur, sem orðið hafi uppvís að jafn alvarlegu broti og kærði, gangi laus áður en máli lýkur með dómi þá valdi það hneykslun í samfélaginu og særi réttarvitund almennings.

                Staða kærða í málinu þyki sambærilega stöðu sakborninga í öðrum svipuðum málum, sbr. mál Hæstaréttar nr. 56/2010, 551/2009, 136/2008, 306/2008, 635/2007, 376/2006, 377/2006, 378/2006, 154/2006, 368/2005, 93/2005, 488/2004, 269/2004, 417/2000 og 471/1999, þar sem sakborningum hefur verið gert að sæta gæsluvarðhaldi fram að uppkvaðningu dóms þegar legið hefur fyrir rökstuddur grunur um beina aðild að innflutningi að miklu magni fíkniefna í ágóðaskyni. Ekki sé talin ástæða til að ætla að refsimat og réttarvitund almennings í slíkum málum hafi breyst frá því téðir dómar voru uppkveðnir, og sé talið að skilyrðum 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála sé fullnægt í því máli sem hér um ræðir.

                Í málinu liggi fyrir mat Hæstaréttar Íslands um að nauðsynlegt sé að kærði sæti gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008, sbr. dóm réttarins nr. 891/2010, og hafi ekkert nýtt komið fram í málinu sem breytt geti því mati.

                Til rannsóknar sé ætlað brot gegn 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 20. gr., ásamt síðari breytingum, sem geti varðað allt að 12 ára fangelsi ef sök sannist. Um heimild til gæsluvarðhalds vísar lögreglan til 2. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008.

                Fram er komið að kærði er undir sterkum grun um að hafa framið brot sem getur varðað allt að 10 ára fangelsi, sbr. 2. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála. Dómurinn fellst á það að gæsluvarðhald sé nauðsynlegt með tilliti til almanna­hagsmuna skv. ákvæði þessu. Er krafa lögreglustjórans því tekin til greina.

                Sigurður H. Stefánsson héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.

ÚRSKURÐARORÐ

Kærði, X skal sæta áfram gæsluvarðhaldi, allt til miðviku­dagsins 31. mars 2010, kl. 16:00.