Hæstiréttur íslands

Mál nr. 71/2016

Stekkjafjall ehf. (Jón Ögmundsson hrl.)
gegn
Landsbankanum hf. (Bjarni Þór Óskarsson hrl.)

Lykilorð

  • Lán
  • Yfirdráttarheimild

Reifun

L hf. höfðaði málið gegn S ehf. til heimtu skuldar vegna yfirdráttar á myntveltureikningi. Fallist var á með L hf. að S ehf. hefði með nánar greindum viðskiptum stofnað til yfirdráttarins og að á þann hátt hefði bankinn veitt félaginu lán það sem lægi til grundvallar stefnufjárhæðinni í málinu. Var S ehf. gert að greiða L hf. umkrafða fjárhæð.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Þorgeir Örlygsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 28. janúar 2016. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu stefnda, en til vara að hún verði lækkuð. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Með kaupsamningi 9. júní 2008 keypti áfrýjandi, sem þá bar heitið Kistumelur 20 ehf., af Dyrhamri ehf., sem síðar fékk heitið KM20 ehf. en nú hefur verið afskráð, fasteignina að Fossnesi 13, Árborg. Með kaupsamningi sama dag seldi áfrýjandi Dyrhamri ehf. fasteignina Kistumel 20, Reykjavík. Í fyrrnefnda samningnum var tilgreint að hann væri „hluti makaskiptasamnings um þessa eign og alla fasteignina nr. 20 við Kistumel ... og eru efndir og vanefndir annars samningsins jafnframt efndir og vanefndir hins.“ Kaupverðið var 75.000.000 krónur og við undirritun kaupsamnings skyldi greiðsla fara fram meðal annars „með yfirtöku á veðskuldum við Landsbanka Íslands hf. (myntvelta og yfirdr.lán.) kr. 44.403.058“. Eftir gögnum málsins tók áfrýjandi ekki yfir tiltekna skuld Dyrhamars ehf. við Landsbanka Íslands hf., en á hinn bóginn sótti áfrýjandi 30. júní 2008 um að stofna myntveltureikning hjá bankanum í evrum. Samkvæmt umsóknargögnum tilgreindi áfrýjandi að „uppruni fjármuna“ væri „lántaka“ og óskaði hann eftir að reikningurinn yrði tengdur við svokallaðan fyrirtækjabanka. Var umsóknin samþykkt sama dag. Kveður stefndi áfrýjanda hafa jafnframt verið veitt heimild til yfirdráttar allt að 270.000 evrum, en samkvæmt yfirlitum var 269.995 evrum ráðstafað af þessum reikningi inn á bankareikning Dyrhamars ehf. degi eftir stofnun hans. Fé var aldrei lagt inn á reikninginn og 3. september 2008 var yfirdráttarheimildin aukin í 277.000 evrur, sem skyldi gilda til 22. júní 2009. Hinn 30. september 2008 nam yfirdráttarskuld á reikningi áfrýjanda 274.807 evrum að teknu tilliti til vaxta. Reikningnum var lokað 30. september 2011. Í skýrslu stjórnar áfrýjanda með ársreikningi fyrir árið 2008 voru framangreind fasteignaviðskipti tíunduð. Þá var í ársreikningum greint frá skammtímaskuld hans við Landsbanka Íslands hf. sem stofnað var til á því ári. Var upplýsingar um þessa skuld áfram að finna í ársreikningum áfrýjanda fyrir árin 2009 og 2010. Af ársreikningunum verður ráðið að áfrýjandi hafi talið sig standa í skuld við stefnda í samræmi við áðurnefnd reikningsyfirlit, sem samkvæmt gögnum málsins voru reglulega send á lögheimili áfrýjanda, er einnig hafði beinan aðgang að reikningnum með tengingu við svokallaðan fyrirtækjabanka.

Samkvæmt framansögðu varð ekki af þeirri ráðagerð eftir áðurgreindum kaupsamningum að áfrýjandi yfirtæki skuld Dyrhamars ehf. við Landsbanka Íslands hf. að tilgreindri fjárhæð. Er nægilega í ljós leitt að til efnda á kaupsamningunum stofnaði áfrýjandi þess í stað áðurnefndan myntveltureikning hjá bankanum, sá reikningur var í kjölfarið skuldfærður fyrir fjárhæð sem svaraði til skuldar Dyrhamars ehf. og sú fjárhæð millifærð á reikning þess félags. Með þessu varð til yfirdráttarskuld á reikningi áfrýjanda og veitti Landsbanki Íslands hf. á þann hátt áfrýjanda lán það sem liggur til grundvallar stefnufjárhæð, en óumdeilt er að stefndi hafi nú tekið við þeim kröfuréttindum.  

Með þessum athugasemdum en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Stekkjafjall ehf., greiði stefnda, Landsbankanum hf., 800.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur miðvikudaginn 28. október 2015

                Mál þetta, sem var dómtekið miðvikudaginn 30. september sl., er höfðað 19. nóvember 2014. Stefnandi er Landsbankinn hf., Austurstræti 11, Reykjavík, en stefndi er Stekkjafjall ehf., Baughúsum 28, Reykjavík.

                Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða honum skuld að fjárhæð 316.093,12 evrur, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 24. nóvember 2013 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar.  

                Stefndi krefst aðallega sýknu en til vara lækkunar dómkrafna stefnanda. Þá krefst hann málskostnaðar.

                Í máli þessu krefur stefnandi stefnda um greiðslu skuldar sem hann kveður að eigi rót sína að rekja til yfirdráttar á myntveltureikningi sem stefndi hafi stofnað til.

I

                Stefndi lýsir málsatvikum svo að með kaupsamningi, dags. 9. júní 2008, hafi hann keypt  iðnaðar og athafnalóð að Fossnesi 13, 800 Selfossi, af Dyrhamri ehf., kt. 570108-0690 (nú afskráð). Kaupsamningurinn hafi verið hluti makaskiptasamnings um þá eign og fasteignina Kistumel 20, Reykjavík, sem Dyrhamar ehf. hafi keypt af stefnda með kaupsamningi, 9. júní 2008. Eignarhlutur Dyrhamars ehf. í Fossnesi 13 hafi verið hluti af greiðslu félagsins fyrir fasteignina að Kistumel 20. Samkvæmt kaupsamningi um Fossnes 13 hafi heildarkaupverð eignarinnar verið 75.000.000 krónur og hafi greiðslutilhögun verið á þann hátt að 22.854.144 krónur skyldi greiða við undirritun kaupsamnings og með yfirtöku á veðskuldum við stefnanda að fjárhæð 44.403.058 krónur. Þá hafi stefndi yfirtekið veðskuldabréf við sveitarfélagið Árborg að fjárhæð 7.742.798 krónur.

                Kveður stefndi að útborgun við kaupsamning hafi þó í raun aldrei komið til útborgunar þar sem sú fjárhæð hafi verið hluti af greiðslu Dyrhamars ehf. til stefnda vegna kaupa Dyrhamars ehf. á Kistumel 20. Aldrei hafi verið gengið frá skuldskeytingu vegna yfirtöku stefnda á veðskuldum Dyrhamars ehf. við stefnanda. Stefnandi hafi jafnframt fjármagnað kaup Dyrhamars ehf. á Kistumel 20 af stefnda. Eitt af skilyrðum stefnanda fyrir fjármögnun kaupa Dyrhamars ehf. á Kistumel 20 af stefnda hafi verið að stefndi myndi kaupa Fossnes 13 af Dyrhamri ehf. og jafnframt yfirtaka veðskuldir við stefnanda að fjárhæð 44.403.058 krónur. Þess sé að geta að fasteigna- og brunabótamat Fossness 13 á kaupdegi hafi verið 12.400.000 krónur.

                Þann 11. júní 2008 hafi verið gert samkomulag á milli stefnda, stefnanda og Stanga ehf., kt. 431202-2710 (nú afskráð). Stangir ehf. hafi verið félag sem séð hafi um byggingu fasteignar að Kistumel 20. Í samkomulaginu komi fram að stefnandi fjármagni kaup Dyrhamars ehf. á Kistumel 20. Í grein 2.1. D. i-lið samkomulagsins komi fram að 20.000.000 krónur af kaupsamningsgreiðslu Dyrhamars ehf. til stefnda skyldi ráðstafað inn á lánalínur Dyrhamars ehf. við stefnanda, sem stefndi yfirtæki samkvæmt kaupsamningi við Dyrhamar ehf. um lóðina Fossnes 13. Þá komi jafnframt fram undir sama lið að eftirstöðvar framangreindra lánalína skuldbindi stefnandi sig til að lána Stöngum ehf. áfram án afborgana til 24 mánaða eftir framangreinda innborgun. Það hafi því verið gert ráð fyrir því að endanlegur skuldari veðskulda Dyrhamars ehf. við stefnandi yrði Stangir ehf. en ekki stefndi.

                Þann 8. apríl 2010 hafi sveitarfélagið Árborg farið fram á nauðungarsölu eignarinnar Fossnes 13 vegna vangoldinna afborgana á veðskuldabréfi sem stefndi hafi yfirtekið við kaup á eigninni. Fossnes 13 hafi verið seld sveitarfélaginu Árborg nauðungarsölu 17. nóvember 2010 og hafi kaupverðið verið 1.000.000 krónur. 

                Í stefnu sé réttilega greint frá að stefndi hafi stofnað myntveltureikning nr. 210 við útibú stefnanda nr. 0130 þann 30. júní 2008. Það sé hins vegar rangt með farið að stefndi hafi fengið yfirdráttarheimild á þann sama reikning að fjárhæð EUR 270.000 eða 41.534.100 krónur miðað við miðgengi Seðlabanka Íslands þann 9. janúar 2015. Stefndi hafi ekki óskað eftir umræddu yfirdráttarláni, hafi aldrei fengið umrædda fjármuni til ráðstöfunar og hafi ekki vitneskju um hvernig framangreindum fjármunum hafi verið ráðstafað. Þá hafi stefndi aldrei greitt vexti af umræddu yfirdráttarláni, ekki fengið yfirlit eða upplýsingar sendar um yfirdráttarlánið eða hafi móttekið innheimtuviðvaranir vegna lánsins.

                Miðað við gögn málsins virðist stefnandi hafa upp á sitt einsdæmi greitt upp veðskuldir Dyrhamars ehf. við stefnanda vegna Fossnes 13 og sett inn yfirdráttarlán í nafni stefnda. Framangreint hafi alfarið verið gert án vitneskju eða vilja stefnda.

                Stefnandi kveðst mótmæla framangreindri lýsingu málsatvika af hálfu stefnda, einkum að því er varði fullyrðingar um að stefndi hafi ekki óskað eftir umræddu yfirdráttarláni og að honum hafi verið ókunnugt um tilvist þess. Kveður stefndi lánið hafa verið veitt stefnda og því ráðstafað í samræmi við óskir hans. Þá mótmælir stefnandi því að stefndi hafi ekki fengið yfirlit eða tilkynningar vegna lánsins. Hafi þær ávallt verið sendar á tilgreint lögheimili stefnda.

II

                Stefnandi byggir á því að stefndi hafi stofnað myntveltureikning (gjaldeyrisreikning) 30. júní 2008 við útibú Landsbanka Íslands hf. (0130) og að hann hafi fengið yfirdráttarheimild á reikninginn að fjárhæð 270.000 evrur. Hafi yfirdráttarheimildin runnið út án þess að uppsöfnuð skuld á myntveltureikningnum væri greidd og hafi honum verið lokað 30. september 2011. Hafi uppsöfnuð skuld þá numið 316.093,12 evrum.

                Um aðild vísar stefnandi til þess að Fjármálaeftirlitið hafi með heimild í 100. gr. a. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki tekið þá ákvörðun 9. október 2008 að ráðstafa eignum og skuldum Landsbanka Íslands hf. til stefnanda sem þá hét Nýi Landsbanki Íslands hf.           

                Stefnandi kveðst byggja á meginreglum kröfu- og samningaréttar um greiðsluskyldu fjárskuldbindinga. Kröfur um dráttarvexti séu studdar  við reglur III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, einkum 1. mgr. 6. gr. og 3. mgr. 5. gr. þeirra laga. Krafa um málskostnað styðjist við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Þá kveðst stefnandi vísa til laga nr. 50/1988 varðandi það að taka þurfi tilliti til þess verði honum dæmdur málskostnaður úr hendi gagnaðila að hann stundi ekki virðisaukaskattskylda starfsemi. Um varnarþing kveðst hann vísa til 33. gr. laga nr. 91/1991.

                Við munnlegan málflutning byggði lögmaður stefnanda á því að enginn vafi væri á því að stefndi hafi fengið umrædda fjármuni að láni hjá Landsbanka Íslands hf. og að þeim hafi verið ráðstafað í samræmi við óskir hans til að standa við samningsskuldbindingar hans gagnvart viðsemjanda hans, Dyrhamri ehf. Komi því ekki til greina að sýkna vegna aðildarskorts. Þá vísaði stefnandi til þess að krafa hans væri ekki fyrnd, sbr. 2. mgr. 5. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda og hafnaði því að 2. ml. umræddrar málsgreinar gæti talist eiga við. Þá væri krafan ekki fallin niður vegna tómlætis enda hefðu tafir á innheimtu stafað einkum af því að beðið hafi verið úrlausnar dómstóla í sambærilegum málum varðandi það álitamál hvort yfirdráttarlán eins og stefndi hafi fengið teldist ólögmætt. Þegar fyrir hafi legið að lán af þessu tagi teldust lögmæt að þá hafi innheimta hafist. Þá mótmælti stefnandi því að nokkur þau atvik lægju fyrir sem réttlætt gætu ógildingu lánssamnings aðila. Um væri að ræða lántöku sem stefnda bæri einfaldlega að endurgreiða. Stefnandi hafnaði einnig að skilyrði væru til að lækka kröfu hans. Taldi hann ósannað að nokkrar greiðslur hafi borist sem hefði átt að ráðstafa til lækkunar skuldarinnar. Sundurliðun dómkrafna ætti sér samsvörun í reikningsyfirliti sem lagt hefði verið fram. Þá legðust vextir við höfuðstól skuldar á 12 mánaða fresti og væru því engir vextir sem krafið væri um í málinu fyrndir. Væru því ekki efni til að lækka dómkröfur stefnanda í málinu.

III

                Stefndi kveðst í fyrsta lagi byggja sýknukröfu sína á því að ekkert skuldarasamband sé til staðar milli aðila og beri því að sýkna hann á grundvelli aðildarskorts. Stefnda sé einnig ekki að fullu ljóst hvernig stefnufjárhæð sé tilkomin og á hvaða grundvelli stefnandi beini kröfum sínum að honum. Vísar stefndi til þess að af umsókn um myntveltureikning megi glögglega sjá að ekki hafi verið sótt um yfirdráttarheimild. Það hafi aldrei verið ætlun eða vilji stefnda að stofna til yfirdráttarskuldar við stefnanda. Ef stefndi hefði yfirtekið veðskuldir Dyrhamars ehf. við stefnanda vegna kaupa á Fossnesi 13 hefði það verið gert með skuldskeytingu þar sem stefndi hefði orðið nýr skuldari að skuldum Dyrhamars ehf., þ.e. nafnabreyting hefði verið gerð á þeim reikningum Dyrhamars sem borið hafi yfirdráttarlán. Skuldskeyting hafi hins vegar aldrei farið fram. Þá geti einföld útprentun úr tölvukerfi stefnanda aldrei verið fullnægjandi sönnun fyrir skuld stefnanda. Hafi stefndi aldrei greitt af umræddu yfirdráttarláni, hvorki afborganir né vexti. 

                Stefndi kveðst vísa til þess að skuld geti ekki hafi stofnast gagnvart stefnanda þar sem stefndi hafi aldrei fengið þá fjármuni til ráðstöfunar sem deilt sé um eða hafi haft vitneskju um ráðstöfun þeirra. Þá sé ljóst að enginn samningur sé á milli aðila um greiðsluskyldu stefnda enda hafi stefndi aldrei fengið lán hjá stefnanda, hvorki í formi skuldabréfaláns eða yfirdráttarláns. Þá hafi engin skuldskeyting átt sér stað þar sem stefndi hafi yfirtekið veðskuldir þriðja aðila við stefnanda. Stefnandi sem fjármálastofnun hafi yfirburðarstöðu gagnvart stefnda til að sýna fram á að fyrir liggi annað hvort samningur um að stefndi hafi stofnað til þeirrar skuldar sem hér sé um deilt eða að stefndi hafi sannanlega yfirtekið veðskuldir þriðja aðila við stefnanda og hvíli sönnunarbyrði um skuldarasamband milli aðila því alfarið á stefnanda.

                Varðandi yfirtöku stefnda á veðskuldum samkvæmt kaupsamningi um lóðina Fossnes 13 vísi stefndi til þess að ef einhverjar vanefndir séu fyrir hendi séu það vanefndir af hálfu stefnda gagnvart Dyrhamri ehf., enda kaupsamningurinn við það félag. Þar sem engin skuldskeyting hafi átt sér vegna veðskulda Dyrhamars við stefnanda hefði stefnandi því með réttu átt að beina kröfum sínum að því félagi í stað stefnda. Þess í stað virðist stefnandi hafa óumbeðið og án vitneskju stefnda stofnað yfirdráttarheimild á reikning stefnda sem stefnanda hafi í senn verið óheimilt að gera enda óheimilt að skuldbinda aðila án samþykkis og vitneskju hans. Beri því að sýkna stefnda af kröfu stefnanda á grundvelli aðildarskorts.

                Kröfu sína um sýknu kveðst stefndi jafnframt byggja á því sjónarmiði að krafa stefnanda á hendur honum sé fyrnd. Samkvæmt stefnu hafi verið stofnað til þeirrar yfirdráttarskuldar sem hér sé deilt um 30. júní 2008. Virðist sú yfirdráttarheimild hafa verið veitt stefnda vegna kaupa hans á jörðinni Fossnesi 13. Í lið 17 í kaupsamningi um Fossnes 13 undir „Sérákvæði“ komi fram að gjalddagi kaupanda vegna yfirtekins láns sé 1. ágúst 2008. Það sé því ljóst að þær skuldir sem stefnda hafi borið að yfirtaka vegna kaupa á Fossnesi 13 hafi haft fasta gjalddaga og hafi því verið um afborgunarkaup með greiðslufresti að ræða. Samkvæmt 2. mgr. 5. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda fyrnist kröfur vegna peningalána á 10 árum. Í 2. málslið sömu málsgreinar komi hins vegar fram að ef um lán sé að ræða sem seljandi eða þriðji aðili hafi veitt til fjármögnunar á kaupum með greiðslufresti skuli hinn almenni fjögurra ára fyrningarfrestur gilda. Í stefnu komi fram að reikningi stefnda hafi verið lokað 30. september 2011 og virðist stefnandi miða gjalddaga við þá dagsetningu. Það sé hins vegar ótækt þar sem í raun hafi ekki verið um hefðbundið yfirdráttarlán að ræða heldur hafi verið um að ræða hluta af fjármögnun vegna kaupa stefnda á Fossnesi 13. Samkvæmt 2. gr. laga nr. 150/2007 reiknist fyrningarfrestur kröfu frá þeim degi þegar kröfuhafi hafi fyrst getað átt rétt til efnda. Almennt séð sé gildistími yfirdráttarláns 6 til 12 mánuðir nema framlengt sé í gildistíma yfirdráttarláns. Í máli því er hér liggi fyrir séu engin gögn sem sýni fram á að framlengt hafi verið í láninu og hafi krafa stefnanda því í síðasta lagi orðið gjaldkræf 30. júní 2009. Að framangreindu virtu hafi krafa stefnanda því fyrst getað orðið gjaldkræf 1. ágúst 2008 en í síðasta lagi 30. júní 2009 og hafi krafan því fyrnst í síðasta lagi 30. júní 2013, sbr. 2. gr., sbr. 3. gr. laga nr. 150/2007. Leiði framangreint til sýknu enda í það minnsta rúmlega fimm ár frá því krafa stefnanda hafi orðið gjaldkræf og þar til stefnandi hafi rofið fyrningu með málshöfðun þessari. 

                Stefndi styðji sýknukröfu sína jafnframt við það að stefnandi hafi fyrirgert rétti sínum til að hafa uppi fjárkröfu sína vegna tómlætis. Á þeim rúmlega sex árum sem liðin séu síðan hið ætlaða yfirdráttarlán hafi verið veitt hafi stefnandi ekki haldið uppi neinum innheimtuaðgerðum gagnvart stefnda. Þá hafi stefndi ekki móttekið nein yfirlit eða innheimtuviðvaranir frá stefnanda. Þess sé að geta að stefndi hafi ekki móttekið það innheimtubréf stefnanda sem lagt sé fram óundirritað og dagsett sé 9. desember 2013. Jafnframt hafi stefndi aldrei greitt af hinni ætluðu skuld né hafi hún verið framlengd eða henni viðhaldið á nokkurn hátt. Stefndi hafi haft ríka hagsmuni og réttmætar væntingar um að engin krafa væri til staðar meðan stefnandi hafi verið grandsamur um tilvist kröfunnar og hafi látið hjá líða að halda uppi rétti sínum til innheimtu hennar. Með vísan í framangreint og til gáleysis og aðgerðarleysis stefnanda í þau rúmlega sex ár sem stefnandi hafi haft vitneskju um framangreint yfirdráttarlán telji stefndi að skilyrði tómlætisreglna séu uppfyllt og því beri að sýkna hann af kröfu stefnanda.

                Þá byggir stefndi á því að samningur um yfirdráttarlánið sé ógildur með vísan til 33. og 36. gr. samningalaga nr. 7/1936. Varðandi skilyrði 33. gr. laganna þá sé gert ráð fyrir því að loforðsmóttakandi geti ekki borið fyrir sig löggerning ef það yrði talið óheiðarlegt vegna atvika sem fyrir hendi hafi verið við gerð löggerningsins og ætla megi að hann hafi haft vitneskju um. Ekki sé hægt að ætla annað en að stefnandi hafi vitað um raunverulegt verðgildi lóðarinnar Fossnes 13 þegar hann hafi sett það sem skilyrði að stefndi yfirtæki veðskuldir Dyrhamars ehf. við stefnanda. Kaupverð eignarinnar samkvæmt kaupsamningi hafi verið 75.000.000 krónur og veðskuldir þær er stefnda hafi verið gert að yfirtaka hafi verið 44.403.058 krónur, en fasteigna- og brunabótamat eignarinnar hafi verið 12.400.000 krónur. Þá hafi eignin verið seld nauðungarsölu rúmlega tveimur árum síðar á 1.000.000 krónur sem sýni ennfremur fram á hversu óeðlilegt kaupverð eignarinnar hafi verið. Kaupsamningur um lóðina Fossnes 13 virðist hafa miðast við það að losa Dyrhamar ehf., sem síðar hafi orðið gjaldþrota, undan veðskuldum með því að fá stefnda til að yfirtaka þær. Megi því ætla að skilyrði það sem stefnandi hafi sett hafi einungis verið sett fram í því augnamiði að koma veðskuldum yfir á félag sem betur hafi verið í stakk búið til að standa skil á þeim.

                Í ákvæði 36. gr. laga nr. 7/1936 greini að samningi megi víkja til hliðar ef að það væri ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskiptavenju að bera hann fyrir sig. Sé við mat á framangreindu m.a. litið til stöðu samningsaðilanna. Stefnandi sé fjármálastofnun og hafi því haft yfirburðarstöðu gagnvart stefnda og í krafti þeirrar stöðu sinnar hafi stefnandi sett það sem skilyrði fyrir fjármögnun á kaupum Dyrhamars ehf. á Kistumel 20 af stefnda að stefndi myndi kaupa Fossnes 13 af Dyrhamri ehf., meðal annars með yfirtöku veðskulda Dyrhamars ehf. við stefnanda og ganga að samkomulagi um ráðstöfun á söluandvirði Kistumels 20, sbr. samkomulag frá 11. júní 2008 sem liggur fyrir í málinu. Sökum skuldastöðu stefnda við Stangir ehf., sem lýst sé í síðastnefndu samkomulagi, hafi stefnda verið nauðugur einn kostur að ganga að samkomulaginu við stefnanda.

                Í því máli sem hér liggi fyrir sé því augljóst að staða stefnda hafi verið talsvert lakari en staða stefnanda. Við mat á því hvort talið verði ósanngjarnt að bera samning fyrir sig skuli ennfremur taka tillit til atvika sem síðar hafi komið til. Þó svo að aðstæður séu eðlilegar við samningsgerðina geti atvik sem síðar hafi komið til leitt til þess að talið yrði ósanngjarnt að bera samning fyrir sig. Hér vísist aftur til nauðungarsölu á Fossnesi 13 þar sem eignin hafi verið seld á 1.000.000 krónur meðan kaupverð eignarinnar hafi verið 75.000.000 krónur. Ákvæðið falli því fullkomlega að þeim aðstæðum sem hér um ræði, enda var raunverulegt verðgildi Fossnes 13 langtum lægra en kaupverð og áhvílandi veðskuldir. Um mat á því hvort það sé andstætt góðri viðskiptavenju að bera fyrir sig umræddan samning gildi sanngirnissjónarmið, en að mati stefnda geti það vart talist sanngjarnt að innheimta skuld sem stefnda hafi verið gert að yfirtaka og hafi verið tugum milljóna króna hærri en raunverulegt veðgildi hinnar keyptu eignar.

                Stefndi kveðst byggja varakröfu sína um lækkun kröfu á því í fyrsta lagi að stefnandi hafi ekki ráðstafað 20.000.000 krónum inn á yfirdráttarlán stefnda. Í málinu liggi fyrir samkomulag, undirritað af forsvarsmönnum stefnda, stefnanda og Stanga ehf. Samkvæmt því samkomulagi hafi stefnanda borið að ráðstafa hluta af kaupsamningsgreiðslu fyrir eignina Kistumel 20 inn á yfirtekin lán stefnda. Í stað þess að fara eftir framangreindu samkomulagi virðist stefnandi hafa greitt upp veðskuldir Dyrhamars ehf. með yfirdráttarláni í nafni stefnda. Með þeirri ráðstöfun hafi stefndi orðið af 20.000.000 krónum sem hann sannanlega hafi átt rétt á samkvæmt framangreindu samkomulagi. Þegar af þessari ástæðu beri að lækka kröfu stefnanda um sem nemur nefndri fjárhæð verði aðalkrafa stefnda um sýknu ekki tekin til greina.

                Stefndi byggi kröfu sína um lækkun í öðru lagi á því að skýrleika stefnufjárhæðar sé ábótavant. Í stefnu komi fram að stefnufjárhæð samanstandi af yfirdráttarláni að fjárhæð 270.000 evrur og öðrum óskilgreindum kostnaði. Heildar stefnufjárhæð sé 316.093,12 evrur. Stefnandi leggi engin gögn eða upplýsingar fram um hvernig heildar stefnufjárhæðin sé fundin út heldur taki einungis fram að þann 30. september 2011 hafi uppsöfnuð skuld myntveltureiknings stefnda verið 316.093,12 evrur sem jafnframt sé stefnufjárhæðin. Í stefnu sé hvergi getið hver vaxtaprósenta lánsins hafi verið eða hvort um annan vanskilakostnað sé að ræða. Beri því þegar af þessum ástæðum að lækka kröfu stefnanda um sem nem 46.093,12 evrum, verði aðalkrafa stefnda um sýknu ekki tekin til greina.

                Í þriðja lagi byggir stefndi varakröfu sína um lækkun kröfu á því að vextir frá 30. júní 2008 til 19. nóvember 2010 séu fyrndir. Stefnufjárhæð samanstandi af höfuðstól að fjárhæð 270.000 evrum og vöxtum og óskilgreindum kostnaði frá 30. júní 2008 til 30. september 2011 auk dráttarvaxta. Samkvæmt 2. mgr. 5. gr. laga nr. 150/2007 fyrnist vextir af peningalánum samkvæmt almennum fyrningarfresti, sbr. 3. gr. sömu laga. Vextir og kostnaður sem lagst hafi á upphaflega lánsfjárhæð frá 30. júní 2008 til 19. nóvember 2010 sé því fyrndur.

                Krafa um sýknu sína og lækkun kveðst stefndi aðallega byggja á meginreglum samninga- og kröfuréttar um skuldbindingargildi samninga og kröfuréttarsamband. Þá vísi stefndi til laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda, til laga nr. 7/1936, um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, þá aðallega til ákvæða III. kafla laganna um ógilda löggerninga og til meginreglna kröfuréttarins um réttaráhrif tómlætis.

                Krafa stefnda um málskostnað grundvallist á 129. gr. sbr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

IV

                Mál þetta er rekið af Landsbankanum hf. sem tekið hefur við réttindum og skyldum sem hér er um fjallað af Landsbanka Íslands hf., sbr. ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 9. október 2008.

                Í máli þessu er óumdeilt að stefndi stofnaði myntveltureikning í evrum hjá Landsbanka Íslands hf. 30. júní 2008. Af reikningsyfirliti reikningsins má sjá að 1. júlí 2008 voru millifærðar 269.995 evrur út af reikningnum og skuldfærður kostnaður að fjárhæð 2,40 evrur. Var reikningurinn því yfirdreginn um 269.997,40 evrur umræddan dag. Þá er óumdeilt að fyrrnefndu fjárhæðinni var ráðstafað inn á bankareikning Dyrhamars ehf. Í málinu liggur fyrir kaupsamningur Dyrhamars ehf. og stefnda, sem þá hét Kistumelur 20 ehf., um fasteignina Fossnes 13 í sveitarfélaginu Árborg og er þar m.a. kveðið á um að greiðslutilhögun útborgunar felist m.a. í „…yfirtöku á veðskuldum við Landsbanka Íslands (myntvelta og yfirdr.lán)“ og er fjárhæð þessa liðar tilgreint 44.403.058 krónur.

                Þau gögn sem að ofan er vitnað til sýna að mati dómsins svo ótvírætt verður að telja að 269.995 evrum var ráðstafað út af reikningi í eigu stefnda yfir á reikning í eigu Dyrhamars ehf. Þar sem stefndi hafði engum fjármunum ráðstafað inn á umræddan reikning var hér um að ræða fjármuni í eigu stefnanda. Í málinu liggur fyrir kaupsamningur milli stefnda og Dyrhamars ehf., en Landsbanki Íslands hf. var ekki aðili að þeim samningi. Verður ekki annað séð af framangreindu en að fjármunum Landsbanka Íslands hf., að ofangreindri fjárhæð, hafi verið varið til að efna skuldbindingar stefnda við Dyrhamar ehf. Er því þegar af þeim ástæðum hafnað sýknukröfu vegna aðildarskorts. Þá eru haldlausar málsástæður stefnda er lúta að því að skuldskeyting hafi aldrei farið fram.

                Með framangreindri aðgerð veitti Landsbanki Íslands hf. stefnda peningalán sem stefnda ber að endurgreiða. Í samræmi við ákvæði 2. mgr. 5. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda fyrnist krafa um greiðslu peningaláns á 10 árum. Ekki er fallist á með stefnda að eins og viðskiptasambandi Landsbanka Íslands hf. og stefnda var háttað að við eigi undantekningarákvæði 2. ml. 2. mgr. 5. gr. laganna. Er krafa stefnanda því ekki fyrnd. Þá verður ekki fallist á að skilyrði séu til að telja kröfuna fallna niður fyrir tómlæti.

                Að mati dómsins bera gögn málsins það með sér að stefndi hafi stofnað til viðskipta við Dyrhamar ehf. og hafi leitað lánafyrirgreiðslu hjá Landsbanka Íslands hf. til að fjármagna þau viðskipti. Ekki veður talið að í þeirri aðkomu Landsbanka Íslands hf. hafi falist annað en loforð um lánveitingu til stefnda. Hefur stefndi ekki að mati dómsins sýnt fram á neinar þær aðstæður sem gætu réttlætt það, með vísan til 33. eða 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, að stefndi geti vikið sér undan að greiða til baka umrætt lánsfé, þótt viðskipti hans hafi ekki gengið eftir eins og hann ætlaði. Verður Landsbanki Íslands hf. ekki talinn bera ábyrgð á því að væntingar stefnda um viðskiptin gengu ekki eftir. Er því hafnað sýknukröfu stefnda sem byggð er á því að samningur hans við Landsbanka Íslands hf. skuli teljast ógildur.

                Af hálfu stefnda hefur ekki verið sýnt fram á að stefnandi hafi móttekið einhverjar þær greiðslur sem borið hafi að ráðstafa inn á kröfuna. Verður enda ekki fallist á að samkomulag stefnda, Stanga ehf. og Landsbanka Íslands hf. um það hvernig ráðstafa skyldi nánar tilgreindum kaupsamningsgreiðslum hafi falið í sér ráðagerð um að stefnandi gæti borið greiðsluskyldu gagnvart stefnda. Dómkrafa stefnanda byggir á reikningsyfirliti þar sem fram koma sundurliðað þeir vextir sem féllu á kröfuna allt þar til reikningnum var lokað 30. september 2011 en skuldin stóð þá í stefnufjárhæðinni. Byggir stefnandi á því að vextir hafi ávallt verið höfuðstólsfærðir í lok hvers árs og geti því ekki talist fyrndir að neinu leyti.

                Verður ekki fallist á að stefnufjárhæð geti talist óskýr eða að vextir skuli teljast fyrndir. Eru því heldur ekki efni til að fallast á kröfu stefnda um lækkun fjárkröfu stefnanda.

                Með hliðsjón af framangreindum málsúrslitum verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn sú fjárhæð sem nánar greinir í dómsorði.

                Af hálfu stefnanda flutti málið Eva B. Sólan Hannesdóttir hdl. en af hálfu stefnda Margeir Valur Sigurðsson hdl.

                Halldór Björnsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð:

                Stefndi, Stekkjafjall ehf., greiði stefnanda, Landsbankanum hf., 316.093,12 evrur, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 24. nóvember 2013 til greiðsludags.

                Stefndi greiði stefnanda 868.000 krónur í málskostnað.