Hæstiréttur íslands
Mál nr. 374/2014
Lykilorð
- Kærumál
- Dómkvaðning matsmanns
|
|
Föstudaginn 13. júní 2014. |
|
Nr. 374/2014. |
Mango Tree B.V. (Hróbjartur Jónatansson hrl.) gegn Mogul Holding ehf. (Halldór Þ. Birgisson hrl.) |
Kærumál. Dómkvaðning matsmanns.
Felldur var
úr gildi úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu M um dómkvaðningu
matsmanns í máli sem félagið hafði höfðað á hendur M ehf. til viðurkenningar á
innlausnarskyldu M ehf. á hlutum M í félaginu. Í dómi Hæstaréttar kom fram að
þótt leitað væri álits á einhverju sem öðrum þærði
snerti lagaleg atriði myndi niðurstaða þar um í matsgerð ekki binda hendur
dómara eða þrengja svigrúm hans og skyldu til að meta þau endanlega sjálfur. Þá
yrði ekki slegið föstu að útilokað væri fyrir matsmann að svara í matsgerð þeim
spurningum sem greindi í matsbeiðninni þótt þær væru að nokkru leyti óljósar og
matskenndar. Yrði M því ekki meinað að afla matsgerðar um spurningarnar, enda
bæri hann sjálfur kostnað af matsgerðinni og áhættu af því hvort hún kæmi honum
að notum.
Dómur
Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Þorgeir Örlygsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 20. maí 2014 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 28. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 7. maí 2014, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um dómkvaðningu matsmanns. Kæruheimild er í c. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og fallist á beiðni hans um dómkvaðningu matsmanns. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
I
Varnaraðili var stofnaður á árinu 2000 í þeim tilgangi að setja upp
sýningar á leikritinu Hellisbúanum í Þýskalandi og bar hann þá heitið Leikhúsmógúlinn
ehf. Með hluthafasamkomulagi 21. ágúst 2006 komu inn nýir eigendur hluta í varnaraðila,
en tilgangur þessa samkomulags og samninga sem því tengdust var að skipta
hlutum í varnaraðila upp í forgangshluti og almenna hluti og tryggja þannig forgangsstöðu
þeirra sem um þetta leyti lögðu fram fjármuni til varnaraðila. Var samþykktum varnaraðila
breytt þennan dag til samræmis við hluthafasamkomulagið. Einkahlutafélagið Brú
II sem nú er í eigu sóknaraðila skráði sig fyrir nýjum forgangshlutum. Annað
hluthafasamkomulag var gert 30. nóvember 2007 um hverjir skyldu vera
stjórnarmenn í varnaraðila. Brú II ehf. mun hafa selt öðrum félögum
hluti sína í varnaraðila, en 23. júlí 2008 mun sóknaraðili hafa eignast öll
réttindi og skyldur þeirra hluta sem Brú II ehf. hafði eignast samkvæmt hluthafasamkomulaginu
21. ágúst 2006, auk þess að kaupa hluti til viðbótar 30. maí 2010.
Á fundum 15. desember 2008 samþykktu stjórnir varnaraðila og félags er bar núverandi nafn varnaraðila, en sömu menn sátu í stjórnum beggja félaganna, samrunaáætlun þannig að hið síðarnefnda rynni inn í sóknaraðila og að samþykktir sóknaraðila giltu eftir samrunann. Skyldi samruninn miðast við 30. júní 2008 og var hann auglýstur í Lögbirtingablaði 12. janúar 2009. Á stjórnarfundi varnaraðila 24. febrúar 2009 var staðfest ákvörðun um samrunann, en samþykkt að varnaraðili tæki eigi að síður upp nafn hins yfirtekna félags, Mogul Holding ehf. Voru gögn er vörðuðu samrunann móttekin hjá fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra 13. mars 2009. Samkvæmt hlutaskrá í félaginu frá mars það ár voru eigendur hluta hinir sömu og fyrir samrunann og skipting eignarhluta hin sama.
Með dómi Hæstaréttar 28. febrúar 2013 í máli nr. 418/2012, í máli fjögurra hluthafa í varnaraðila gegn sóknaraðila, komst rétturinn að þeirri niðurstöðu að við áðurgreindan samruna hefðu forgangshlutir þeir, sem um var deilt í málinu og sóknaraðili krefst nú innlausnar á, breyst í almenna hluti. Þá var fellt úr gildi hluthafasamkomulagið frá 30. nóvember 2007. Að gengnum dómi Hæstaréttar, eða 21. mars 2013, krafðist sóknaraðili á ný innlausnar á hlutum sínum í varnaraðila auk arðs að tiltölu við eignarhluti sína. Vísaði sóknaraðili um þá kröfu til samþykkta varnaraðila. Með bréfi 23. apríl 2013 hafnaði varnaraðili þessum kröfum sóknaraðila og 2. maí það ár var haldinn hluthafafundur í varnaraðila um niðurfellingu á svokölluðum forgangsflokki hluta í félaginu. Voru þær breytingar skráðar í fyrirtækjaskrá.
Hinn 24. júní 2014 höfðaði sóknaraðili dómsmál á hendur varnaraðila með dómkröfum eins og raktar eru í hinum kærða úrskurði. Gerði hann þá kröfu að viðurkennd yrði innlausnarskylda varnaraðila á „forgangshlutum ... pr. 1.1.2009 að nafnvirði ISK 1.082.250.“ Þá krafðist hann þess að varnaraðili yrði dæmdur til að greiða sér tilgreinda fjárhæð, en til vara aðra lægri. Var í stefnunni og áskilnaður um að sóknaraðili myndi óska eftir dómkvaðningu matsmanns til að meta virði varnaraðila.
Sóknaraðili reisir dómkröfur sínar einkum á því að vegna framangreinds samruna eigi hann, sem eigandi forgangshluta, samningsbundinn rétt til innlausnar á hlutum sínum í félaginu með sama hætti eins og félaginu hefði verið slitið samkvæmt tilgreindum ákvæðum í samþykktum varnaraðila 21. ágúst 2006. Verði ekki á þetta fallist leiði tilgreind ákvæði í áskriftarsamningi 21. ágúst 2006 til sömu niðurstöðu. Hvað sem öðru líði sé varnaraðili skuldbundinn samkvæmt áskriftarsamningnum til að leysa til sín hlutina „á verði sem samsvari annað hvort sanngjörnu markaðsverði hlutanna eða forgangsverði forgangshluthafa við slit.“ Færir sóknaraðili fram þær röksemdir til stuðnings kröfum sínum að þótt framangreindur samruni hafi miðast við 30. júní 2008 hafi hann ekki verið ákveðinn af stjórnum samrunafélaganna fyrr en 15. desember 2008 og staðfestur af stjórn 24. febrúar 2009. Verði því að telja að forgangshlutir hafi ekki getað fallið niður fyrr en í fyrsta lagi 15. desember 2008.
Við meðferð málsins kom fram krafa varnaraðila um að málinu yrði vísað frá héraðsdómi. Var hún einkum á því reist að með framangreindum dómi Hæstaréttar 28. febrúar 2013 hefði fengist úrlausn um þau atriði sem sóknaraðili reisi nú kröfur sínar á. Héraðsdómur hafnaði kröfu varnaraðila með úrskurði 9. janúar 2014. Í kjölfar þess bar sóknaraðili fram 26. febrúar 2014 beiðni um dómkvaðningu matsmanns. Með matsbeiðninni óskar sóknaraðili eftir því að metið verði hvert hafi verið innlausnarverð 1.082.250 forgangshluta hans í varnaraðila á grundvelli þeirrar aðferðar sem tilgreind er í 24. gr. samþykkta varnaraðila 21. ágúst 2006 og 24. febrúar 2009, sbr. einkum ákvæði í 2. mgr. og 4. mgr. greinarinnar. Þá er óskað svara um hver sé fjárhæð útgreiðslu til sóknaraðila miðað við 1.082.250 forgangshluti eða 22,81% eignarhlutdeild sóknaraðila í varnaraðila, í fyrsta lagi á grundvelli þeirrar aðferðar sem tilgreind sé í 24. gr. samþykkta varnaraðila, að frádregnu innlausnarverði forgangshluta, í öðru lagi á grundvelli þeirrar aðferðar sem tilgreind sé í grein 3.2 í áskriftarsamningi 21. ágúst 2006, að teknu tilliti til greiðslu forgangsfjárhæðar, en í þriðja lagi á grundvelli þeirra aðferða sem tilgreindar séu í grein 3.6 í áskriftarsamningnum.
Eins og nánar greinir í hinum kærða úrskurði telur varnaraðili að með framangreindum dómi Hæstaréttar hafi í raun fengist niðurstaða um ágreining aðila og sóknaraðili hafi ekki lengur lögvarða hagsmuni fyrir kröfum sínum. Tilvísun sóknaraðila til hluthafasamkomulagsins og samþykkta varnaraðila 21. ágúst 2006 hafi því ekki þýðingu. Þá séu matsspurningar of óljósar með tilliti til dagsetninga og myntar sem sóknaraðili vilji að miðað verði við. Auk þess sé umbeðinni matsgerð ætlað að leysa úr lagalegum ágreiningi. Þá sé ósamræmi milli matsspurninga og ekki teknar með nauðsynlegar forsendur fyrir matsbeiðni.
II
Í máli þessu er deilt um hvort varnaraðila beri skylda til innlausnar á hlutum sóknaraðila í sér eftir nánar tilgreindum uppgjörsaðferðum miðað við tiltekin tímamörk. Kveður sóknaraðili sig eiga lögvarðan rétt til að verða leystur út úr varnaraðila og fá endurgreitt kaupverð hluta sinna í honum. Með matsbeiðni sinni freistar hann þess að renna stoðum undir fjárkröfu sína á hendur varnaraðila miðað við tilteknar forsendur sem hann reisir málatilbúnað sinn á.
Samkvæmt
2. mgr. 60. gr. laga nr. 91/1991 leggur dómari sjálfur mat á atriði sem
krefjast almennrar þekkingar og menntunar eða lagaþekkingar. Þótt með
matsbeiðni í máli þessu sé leitað álits á einhverju sem öðrum þræði snertir
lagaleg atriði myndi niðurstaða þar um í matsgerð ekki binda hendur dómara eða
þrengja svigrúm hans og skyldu til að meta þau endanlega sjálfur. Þá geta
staðhæfingar í matsbeiðni um atriði sem sóknaraðili telur hafa áhrif við matið
ekki skert frelsi matsmanns til að leggja á þau sjálfstætt mat. Er þess
jafnframt að gæta að sóknaraðili ber hallann af þýðingu matsgerðar og þá því ef
sönnunargildi hennar verður rýrara en ella vegna þess að lögð hefur verið til
grundvallar mati forsenda sem reynist ekki eiga við rök að styðjast. Þá verður
því ekki slegið föstu að útilokað sé að svara í matsgerð þeim spurningum sem
greinir í matsbeiðni þótt talið verði að þær séu að nokkru leyti óljósar og
matskenndar. Verður sóknaraðila því ekki meinað að afla matsgerðar um þessar
spurningar, enda ber hann sjálfur kostnað af matsgerðinni og áhættu af því
hvort hún komi honum að notum. Samkvæmt framansögðu verður hinn kærði úrskurður
felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að dómkveðja matsmann í samræmi við
beiðni sóknaraðila.
Varnaraðili verður dæmdur til að greiða sóknaraðila
kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi og
lagt fyrir héraðsdómara að dómkveðja matsmann í samræmi við beiðni sóknaraðila,
Mango Tree B.V.
Varnaraðili, Mogul Holding ehf., greiði sóknaraðila 400.000 krónur í
kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 7. maí 2014.
Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar að loknum málflutningi
um kröfu stefnda um höfnun matsbeiðni stefnanda þann 24. mars sl., er höfðað
fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Mango Tree B.V., skráningarnr. 27319229
0000, Laan Copes van Cattenburch 52, 2585BB´s-Gravenhage,
Hollandi, gegn Mogul Holding
ehf., kt. 450100-36660, Bankastræti 10, 101
Reykjavík.
I.
Í þinghaldi 26. febrúar sl. lagði
lögmaður stefnanda fram beiðni um dómkvaðningu matsmanns. Lögmaður stefnda
mótmælti beiðni stefnanda um dómkvaðningu matsmanns og krafðist úrskurðar
dómsins um að synjað yrði beiðni stefnanda um dómkvaðninguna. Lögmenn fluttu
málið um ágreiningsefnið 24. mars sl. og var málið tekið til úrskurðar í
framhaldinu.
Stefnandi rekur mál fyrir héraðsdómi á
hendur stefnda og krefst þess:
Að
viðurkennd verði innlausnarskylda stefnda á forgangshlutum stefnanda í stefnda
pr. 1.1.2009 að nafnvirði 1.082.250 krónur.
Að
stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 11.334.989 bandaríkjadali ásamt
8% dráttarvöxtum p.a. frá 21. apríl 2013 til greiðsludags.
Að
stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 255.054.157 krónur ásamt
dráttarvöxtum skv. III kafla vaxtalaga nr. 38/2001 frá 21. apríl 2013 til
greiðsludags.
Að stefndi verði dæmdur til að greiða
stefnanda málskostnað samkvæmt málskostnaðarreikningi sem lagður verði fram í
málinu.
Stefndi krefst þess að hann verði
sýknaður af öllum dómkröfum stefnanda og að varnaraðili verði dæmdur til að
greiða stefnanda málskostnað auk virðisaukaskatts að skaðlausu að mati
réttarins eða samkvæmt málskostnaðarreikningi sem stefnandi mun leggja fram við
aðalmeðferð málsins.
Í upphaflegri kröfugerð krafðist
sóknaraðili þess að öllum dómkröfum stefnanda yrði vísað frá dómi en með
úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur þann 9. janúar 2014 var frávísun málsins
hafnað.
II.
Málatilbúnaður stefnanda
Í matsbeiðni kemur fram að
matsbeiðandi, stefnandi, sé hollenskt félag í eigu fjárfestingarsjóðsins Brú II
Venture S.C.A. SICAR sem skráð sé í Lúxemborg og sé
að tveimur þriðju hlutum í eigu helstu lífeyrissjóða landsins. Fjárfesting
stefnanda hafi í fyrstu verðið gerð af Brú II ehf., en öll réttindi og skyldur
Brúar II ehf. hafi flust til stefnanda eigi síðar en 23. júlí 2008.
Stefndi hafi verið stofnaður á árinu 2000
og hafi upphaflegur tilgangur félagsins verið að setja upp sýningar á
leikritinu Hellisbúanum í Þýskalandi en félagið hafi þá heitið Leikhúsmógúllinn
ehf. Náðst hafi samningar við höfund leikritsins um leyfi til handa stefnda til
að setja upp leikritið í fleiri löndum í Evrópu.
Í byrjun árs 2006 hafi stefnda boðist
að kaupa sýningarrétt á leikritinu um allan heim gegn greiðslu 16,5 milljóna
Bandaríkjadala. Þar sem stefndi hafði hvorki fé til slíkrar fjárfestingar né
aðgang að nægilegu lánsfé hafi þáverandi hluthafar ákveðið að leita nýrra
fjárfesta til að koma að stefnda og taka þátt í verulegri aukningu hlutafjár í
honum.
Úr
hafi orðið að félagið Brú II ehf. hafi skráð sig fyrir nýjum hlutum í stefnda
þann 21. ágúst 2006 og sama dag hafi verið gengið frá sérstökum
áskriftarsamningi að „forgangshlutum með breytirétti“ í stefnda (e. Subscricption Agreement for Convertible Preferred Shares in the
firm Theater Mogul ehf.), þar sem þau réttindi og skyldur sem fylgdu
kaupum á nýjum hlutum í stefnda voru tilgreind. Samkvæmt áskriftarsamningi
skyldu hinir nýju hlutir vera forgangshlutabréf og hafi tilgangurinn verið að
tryggja forgangsrétt nýrra hlutahafa til arðs umfram eldri hluthafa og að
tryggja rétt til innlausnar ef tilteknar aðstæður kæmu upp í félaginu. Samhliða
undirritun áskriftarsamnings hafi verið gert hluthafasamkomulag og undirritaðar
nýjar samþykktir um ýmis atriði svo sem forkaupsrétt og ýmis atriði sem styrkt
hafi stöðu forgangshluthafa.
Á
grundvelli skilmála áskriftarsamningsins hafi Brú II ehf. keypt forgangshluti í
stefnda fyrir 6 milljónir Bandaríkjadala og hafi skv. samningnum átt rétt á að
selja nýtt hlutafé að fjárhæð 3 milljónir Bandaríkjadala. Af því hafi hlutafé
að kaupvirði 1.200.000 Bandaríkjadala verið ráðstafað til Lime
Tree Management B.V, sem
hafi verið eignatengt Brú II ehf. Síðar hafi Brú II ehf. framselt Brú II Venture Capital Fund, S.C.A.,
SICAR hlut sinn. Samkvæmt sérstökum samningi, svokölluðum „Shareholders
Consent and Waiver“, dags. 23. júlí 2008, hafi stefnandi yfirtekið bæði
forgangshluti Brúar II Venture Capial
Fund, S.C.A., SICAR og Lime Tree
Management B.V., og öll réttindi og skyldur þeim
fylgjandi með því að gerast beinn aðili að áskriftarsamningum. Frá þeim tíma
hafi stefnandi alfarið komið í stað fyrrgreindra hluthafa og eignast öll
réttindi og skyldur skv. áskriftarsamningum, hluthafasamkomulagi og samþykktum
stefnda. Þann 30. maí 2010 hafi stefnandi keypt til viðbótar forgangshluti sem
Guðmundur Magnason hafi keypt í ágúst 2006 á 600.000 Bandaríkjadali og eftir
það hafi kaupvirði forgangshluta stefnanda í stefnda numið 7.800.000
Bandaríkjadölum. Forgangsarður hafi verið greiddur út til stefnanda fyrir árin
2006 og 2007, samtals að fjárhæð 843.436 Bandaríkjadalir eða að fjárhæð
188.049.601 kr..
Í
áskriftarsamningnum hafi verið tilgreint að hlutafé í stefnda skyldi vera
4.578.750 kr. og skiptast þannig að almennir hlutir næmu 3.330.000 kr., en
forgangshlutir 1.248.750 kr. Ákvæði áskriftarsamningsins um réttindi forgangshluta
skyldu færð inn í samþykktir félagsins, m.a. með ákvæðum um innlausnarrétt
forgangshluthafa. Sú útgáfa samþykktanna hafi verið undirrituðu 21. ágúst 2006
og sé hin sama og í gildi hafi verið við samruna Leikhúsmógúlsins ehf. og
dótturfélagsins Mogul Holding
í febrúar 2009.
Stefnandi
hafi því verið eigandi 76,4% forgangshluta í stefnda þann 9. september 2008 eða
eigandi alls 1.082.250 hluta skv. hlutaskrá Mogul Holding ehf.
Stefnandi
byggir á því í héraðsdómsmálinu að stefndi hafi sameinast í skilningi 24. gr.
samþykkta sóknaraðila sem í gildi voru þegar samruni Leikhúsmógúlsins ehf. og Mogul Holding ehf. átti sér stað.
Stefnda sé því skylt á grundvelli samþykkta stefnda og áskriftarsamningsins,
dags. 21. ágúst 2006, að innleysa hlutabréf stefnanda í félaginu og greiða
honum bæði upphaflegt kaupverð forgangshlutabréfanna auk arðs (innlausnarverð á
grundvelli hlutfallslegrar eignar í sóknaraðila) hvort heldur miðað við
samþykktir félagsins eins og þær voru er samruni Leikhúsmógúlsins ehf. og Mogul Holding ehf. átti sér stað
í desember 2008, ákvæði gr. 3.2 í áskriftarsamningnum eða ákvæði gr. 3.6 í
áskriftarsamningnum.
Um
málavexti varðandi matsspurningar vísar stefnandi til tölulegra upplýsinga í
málinu, sbr. fylgiskjöl með matsbeiðni.
Samkvæmt
matsbeiðni er þess óskað að matsmaður svari eftirfarandi spurningum:
1. Hvert
er innlausnarverð 1.082.250 forgangshluta Mango Tree B.V. í Mogul Holding ehf., á grundvelli þeirrar aðferðar sem tilgreind
er í 24. gr. samþykkta Mogul Holdings
ehf., dags. 21. ágúst 2006 og 24. febrúar 2009 (fylgiskjal nr. 4. og 28), sbr.
einkum ákvæði 2.-4. mgr. 24. gr.
2. Hver
er fjárhæð útgreiðslu til Magno Tree
B.V. miðað við 1.082.250 forgangshluti eða 22,81% eignarhlutdeild Mango Tree B.V. í verðmætum Mogul Holding ehf.,á grundvelli:
1. þeirrar
aðferðar sem tilgreind er í 24. gr. samþykkta Mogul Holdings ehf., að frádregnu innlausnarverði forgangshluta,
2. þeirra
aðferðar sem tilgreind er í ákvæði 3.2 í áskriftarsamningi, dags. 21. ágúst
2006, eftir greiðslu forgangsfjárhæðar,
3. þeirra
aðferða sem tilgreindar eru í ákvæði 3.6 í áskriftarsamningi, dags. 21. ágúst
2006.
Stefnandi vísar til þess að samkvæmt
1. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991 hafi aðili máls fullt forræði fyrir því hverra
gagna hann afli til stuðnings kröfum sínum fyrir dómi og hann telji málstað
sínum til framdráttar. Eina áskilnaðinn um form og efni matsbeiðna sé að finna
í 1. mgr. 61. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. þó 64. gr. sömu
laga. Honum verði ekki meinuð dómkvaðning matsmanns nema sönnunarfærslan sé sýnilega
þarflaus eða tilgangslaus, sbr. 3. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991. Þá vísar
stefnandi til þess að í stefnu málsins sé sérstakur áskilnaður um dómkvaðningu
matsmanns og beri hann áhættuna af notagildi matsgerðarinnar til sönnunar í
málinu og kostnað af öflun hennar. Þá krefst stefnandi þess að stefnda verði
gert að greiða sér málskostnað auk virðisaukaskatts að mati dómsins í þessum
hluta málsins.
Stefnandi mótmælir kröfu stefnda á
dómskjali 55 um höfnun á matsbeiðni stefnanda og mótmælir framlagningu
skjalsins þar sem í því felist skriflegur málflutningur og verði litið fram hjá
því að því marki sem það feli í sér skriflegan málflutning og jafnvel nýjar
málsástæður af hálfu stefnda.
Málatilbúnaður
stefnda
Stefndi vísar til þess að á dómþingi 6. febrúar 2014 hafi
stefnandi lagt fram bókun og samkvæmt 1. lið bókunarinnar hafi stefnandi viljað
„lagfæra“ fyrstu dómkröfu sína
í málinu þannig að krafan væri orðuð með svofelldum hætti: Að viðurkennd verði innlausnarskylda stefnda
á forgangshlutum stefnanda í stefnda að nafnvirði ISK 1.082.250.
Breytingin frá upphaflegu orðalagi hafi falist í því að orðin
„ .... pr. 1. 1. 2009 ...“ sem komu á eftir orðunum „í stefnda“ og undan
orðunum „að nafnvirði ISK 1.082.250.“ væru felld brott. Stefndi hafi mótmælt
breytingunni og sagt orðin, sem stefnandi vildi fella úr, miða
innlausnarskylduna við tiltekna dagsetningu. Úrfelling dagsetningarinnar fæli í
sér að stefnandi yki við dómkröfuna. Stefndi hafi krafist úrskurðar dómara um
breytinguna, en áður en til úrskurðar kom hafi lögmaður stefnanda sent lögmanni
stefnda og dómara tölvubréf og tilkynnt að stefnandi hefði ákveðið að
framhaldsstefna til að fá nefndri dómkröfu breytt. Lögmaður stefnda hafi þá
tilkynnt að til þess gæti komið að stefndi krefðist frávísunar á dómkröfum
framhaldsstefnu og jafnvel málsins í heild. Á dómþingi 26. febrúar 2014 hafi
stefnandi fallið frá kröfu um „lagfæringu“
á dómkröfunni. Þá hafi stefnandi heldur ekki lagt fram framhaldsstefnu. Á
dómþinginu hafi lögmaður stefnanda látið bóka að stefnandi teldi að „í kröfugerð í stefnu [fælist] almenn
viðurkenningarkrafa á innlausnarskyldu stefnda.“ Lögmaður stefnda hafi
mótmælt og látið bóka að dómkrafan miðaðist við 1. janúar 2009. Á sama dómþingi
hafi stefnandi lagt fram þá matsbeiðni sem sé hér til umfjöllunar.
Stefndi bendir á að við lestur
atvikalýsingar í matsbeiðni geti matsmaður ekki komist að annarri niðurstöðu en
að forgangshlutir séu enn til staðar í stefnda. Stefndi vísar t.d. til 4.
málsgreinar á bls. 2 í matsbeiðni þar sem segi berum orðum að stefnandi og
matsbeiðandi hafi verið eigandi 76,4% forgangshluta í stefnda og matsþola þann
9. september 2008. Í þessu sambandi sé ekki vikið einu orði að dómi Hæstaréttar
í máli nr. 418/2012 þar sem viðurkennt var að forgangshlutir hefðu breyst í
almenna hluti 30. júní 2008.
Þá mótmælir stefndi lýsingu stefnanda
í matsbeiðni á ágreiningi málsaðila í héraðsdómsmálinu E-2746/2013 með þeim
hætti að 24. gr. samþykkta stefnda eigi við um samruna stefnanda við dótturfélag
sitt, svo og greinar 3.2 og 3.6 í áskriftarsamningi aðila. Af framangreindum sökum sé ekki annað
hægt að álykta en að málavaxtalýsingin sé til þess gerð að skapa hjá
matsmanni/matsmönnum þá stemningu að forgangshlutir séu til staðar í stefnda en
fyrir liggi í áðurnefndum Hæstaréttardómi að svo sé ekki og hafi ekki verið frá
30. júní 2008.
Stefndi vísar til þess að
matsspurningar stefnanda séu tvær og sé innlausnarverð hluta stefnanda í
stefnda og fjárhæð útgreiðslu til hans frá stefnda tilgreint án þess að nokkur
tímasetning sé tilgreint til viðmiðunar. Með þessari framsetningu leitist
stefnandi enn og aftur við að komast fram hjá þeirri viðmiðunardagsetningu sem
tilgreind sé í fyrstu dómkröfu í stefnu.
Stefndi byggir kröfu sína um höfnun á
framkominni matsbeiðni stefnanda á því að svör við matsspurningum í matsbeiðni
um innlausnarverð og útgreiðslu fjármuna til stefnanda miði ekki við tiltekna
dagsetningu líkt og fyrsta dómkrafa stefnu geri. Spurningarnar séu svo óljóst
orðaðar að alls ekki sé unnt að sjá hvernig matsmaður eigi að komast að
niðurstöðu sem hafi nokkurt gildi sem sönnunargagn. Að þessu leyti telur
stefndi að matsbeiðnin brjóti í bága við 3. mgr. 46. gr. og 2. mgr. 60. gr.
laga um meðferð einkamála. Þá sé það mat stefnda að matsspurningarnar feli í
sér tilraun til að auka við dómkröfur stefnanda sem sé andstætt 1. mgr. 111.
gr. laga um meðferð einkamála.
Stefndi vísar til þess að í stefnu séu
kröfur á víxl miðaðar við íslenskar krónur og Bandaríkjadali. Í matsbeiðni komi
hins vegar ekki fram í hvaða mynt matsmaður/matsmenn eigi að miða mat sitt. Það
skipti verulegu máli fyrir niðurstöðu matsspurninga þar sem orðið hafi veruleg
breyting á gengi íslensku krónunnar gagnvart frá 21. ágúst 2006. Að þessu leyti
telur stefndi að matsbeiðnin brjóti í bága við 3. mgr. 46. gr. og 2. mgr. 60.
gr. laga um meðferð einkamála.
Stefndi gerir athugasemdir við að
matsbeiðnin ætli matsmanni/matsmönnum að túlka margvísleg önnur lögfræðileg
atriði í þeim gögnum sem teljist hluti matsbeiðni. Þar sé um að ræða
grundvallaratriði í máli þessu, s.s. ýmis ákvæði í áskriftarsamningi aðila,
stöðu hlutaskrár stefnda, dags. 21. ágúst 2006 og 24. febrúar 2009, gagnvart
dómi Hæstaréttar í máli nr. 418/2012 og yfirliti stefnda um arðsúthlutun svo
nokkur dæmi séu nefnd. Matsbeiðninni sé svo áfátt að þessu leyti að hún sé í
skýrri andstöðu við fyrirmæli 2. mgr. 60. gr. laga um meðferð einkamála.
Þá bendir stefndi á að fyrsta
dómkrafa stefnu geri ráð fyrir því að miðað sé við að dómur viðurkenni
innlausnarskyldu stefnda hinn 1. janúar 2009. Samkvæmt dómi Hæstaréttar í máli
nr. 418/2012 hafi forgangshlutir í stefnda breyst í almenna hluti 30. júní
2008. Matsbeiðnin lúti að því að færa sönnur á verðmæti innlausnarverðs og
útgreiðslu tilgreindrar fjárhæðar frá stefnda til stefnanda og verði eðli
málsins samkvæmt að falla innan dómkrafna í því máli sem sé tilefni beiðninnar.
Að öðrum kosti sé framkvæmd mats bersýnilega tilgangslaus samkvæmt 3. mgr. 46.
gr. laga um meðferð einkamála. Í ljósi þessa skorti stefnanda lögvarða hagsmuni
af því að matið fari fram, sbr. m.a. 2. mgr. 25. gr. laga um meðferð einkamála,
enda séu forgangshlutir í stefnda ekki til staðar 1. janúar 2009.
Stefndi telur að fyrri matsspurningin
sé tilraun til að bera upp á nýjan leik við íslenskan dómstól atriði sem
Hæstiréttur hafi þegar fjallað um í máli nr. 418/2012. Matsspurningin varði
innlausnarverð forgangshluta stefnanda í stefnda samkvæmt 24. gr. samþykkta
hans eins og þeir hafi litið út 21. ágúst 2006 og 24. febrúar 2009. Í
Hæstaréttarmálinu hafi stefndi, sem er stefnandi í þessu máli, lagt fram
greinargerð í héraðsdómi. Í greinargerðinni (á miðri bls. 7), sbr. dskj. nr. 43 í þessu máli, sé sérstaklega vísað til 24. gr.
samþykkta sóknaraðila um samruna og síðan staðhæft hver sé eignarhlutdeild
stefnanda þessa máls í stefnda. Áskilnaður hafi verið gerður um að leggja gögn
fyrir dóminn útreikningnum til stuðnings. Það hafi stefnandi máls þessa hins
vegar ekki gert og látið undir höfuð leggjast að leggja fram gagnkröfu um
innlausn forgangshluta sinna í stefnda
eða kröfu um úthlutun greiðslu til sín, sbr. síðari spurningu í matsbeiðni. Í
málinu hafi ekki verið tekið tillit til þessara málsástæðna eins og glöggt komi
fram í niðurstöðu héraðsdóms. Verði því að telja að 24. gr. samþykkta stefnda
hafi þegar komið til skoðunar í Hæstaréttarmáli nr. 418/2012 og því sé það
andstætt 116. gr. laga um meðferð einkamála að byggja matsbeiðni í þessu máli á
umræddri grein. Þá telur stefndi að krafa um mat á innlausnarverði og útgreiðslu
fjármuna til stefnanda á grundvelli greinarinnar sé of seint fram komin, sbr.
5. mgr. 101 gr. laga um meðferð einkamála.
Stefndi telur sömu sjónarmið og
varðandi fyrri matsspurninguna eiga við um þá síðari. Stefndi telur síðari
matsspurningu óljósa að því leyti að spurningin vísi til mats á fjárhæð
útgreiðslu til stefnanda miðað við 1.082.250 forgangshluti eða á grundvelli
22,81% eignarhlutar stefnanda í stefnda, en á þessum grundvelli sé það
augljóslega í ósamræmi við ákvæði 2.-3. mgr. 24. gr. þeirra samþykkta
sóknaraðila sem vísað sé til í matsbeiðninni og hafi raunar orðið marklausar
30. júní 2008. Mat á þessum grundvelli falli bersýnilega undir ákvæði 3. mgr.
46. gr. laga um meðferð einkamála og 2. mgr. 60. gr. sömu laga.
Þá sé í síðari matsspurningu greint á
milli þriggja aðferða sem óskað sé eftir að matsmaður/matsmenn noti til að
komast að niðurstöðu um fjárhæð útgreiðslu stefnda til stefnanda miðað við
1.082.250 forgangshluti stefnanda í stefnda eða á grundvelli 22,81% eignarhlutar
stefnanda. Um sé að ræða aðferð samkvæmt 24. gr. samþykkta sóknaraðila,
aðferðir samkvæmt grein 3.2 í áskriftarsamningi og aðferð samkvæmt grein 3.6 í
áskriftarsamningi.
Varðandi notkun aðferða á grundvelli
greinar 3.2 og 3.6 í áskriftarsamningi telur stefndi nauðsynlegt að vísa til
þess að í 1. málsl. 1. mgr. 21. gr. samþykkta stefnda
segi orðrétt: „Engin sérréttindi,
önnur en þau sem koma fram í samþykktum þessum, fylgja hlutum í félaginu.“
Þau sérréttindi sem um ræðir hafi m.a. falist í innlausnarrétti
forgangshluthafa á hlut sínum í stefnda fram til 30. júní 2008. Af þessu leiði
að matsaðferðir byggðar á annarri hvorri þessara greina áskriftarsamnings séu
bersýnilega tilgangslausar til sönnunar við úrlausn máls þessa og skipti engu
máli, sbr. 3. mgr. 46. gr. laga um meðferð einkamála.
Stefndi bendir einnig á að stefnandi
hafi gefið bindandi yfirlýsingu um að efni greinar 3.2 í áskriftarsamningi,
sbr. bls. 4 í stefnu (upphaf neðstu málsgreinar), hafi verið sett í 24. gr.
samþykkta stefnda, sbr. 45. og 1. mgr. 50. gr. laga um meðferð einkamála. Af
þeim sökum sé sjálfstætt mat á síðari matsspurningu á grundvelli þessarar
greinar áskriftarsamnings bersýnilega tilgangslaust og fremur til þess fallið
að rugla matsmann/matsmenn í rýminu. Þá sé ástæða til að vekja athygli á því að
umrædd grein áskriftarsamnings segi einungis almennum orðum að réttur eigenda
forgangshluta til greiðslu samsvari upphaflegu kaupverði að viðbættum áföllnum
en ógreiddum arði án þess að upphaf og lok þess tímabils sem arðurinn skuli
miðast við sé tilgreint. Við mat
spurningarinnar út frá þessari aðferð sé ljóst að hún felur í sér að
matsmanni/matsmönnum sé falið að meta þýðingarmikil lögfræðileg atriði eða
túlka ákvæði í áskriftarsamningi sem dómara beri sjálfum að leggja mat á
samkvæmt 2. mgr. 60. gr. laga um meðferð einkamála.
Þá komi m.a. fram í grein 3.6 í
áskriftarsamningi að eigendur geti farið fram á innlausn hluta sinna á verði
sem samsvari „forgangsverði
forgangshluta við slit“.
Rétt sé að leggja sérstaka áherslu á að ákvæðið hafi ekki að geyma sams
konar tilvísun og fram komi í grein 3.2 að sama máli gegni, þegar um sé að ræða
samruna, yfirtöku, sölu á ráðandi hlut eða nær öllum eignum félagsins skuli
talin jafngilda slitum ef hluthafar Theater Mogul ehf., stefnda, eigi ekki meirihluta þeirra hluta sem
séu í umferð í því félagi sem fer með yfirráðin eftir sölu. Af þessu leiði að
ákvæðið eigi ekki við um grundvöll stefnu sem sé að samruni stefnda við
dótturfélag sitt geri honum kleyft að krefjast innlausnar á hlutum sínum í
stefnda, enda jafngildi samruni slitum. Þennan fyrirvara skorti í grein 3.6.
Hinu megi heldur ekki gleyma að umræddur fyrirvari skiptir engu máli við
úrlausn máls þessa því samruni jafngildi aðeins slitum þegar hluthafar stefnanda
eiga ekki meirihluta þeirra hluta sem séu í umferð í því félagi sem fer með
yfirráðin eftir sölu. Loks ítrekar stefndi að forgangshlutir breyttust í
almenna hluti í stefnda 30. júní 2008 og við það hafi fallið niður réttur
stefnanda til innlausnar á hlutum sínum. Af öllum þessum ástæðum skipti
matsspurningin engu máli og svör við henni séu tilgangslaus til sönnunar, sbr.
3. mgr. 46. gr. laga um meðferð einkamála. Þá sé ljóst að matsspurningin að
þessu leyti varði þýðingarmikil lögfræðileg atriði sem dómara beri að svara á
grundvelli 2. mgr. 60. gr. sömu laga.
Varðandi lagarök vísar stefndi til laga
um meðferð einkamála nr. 91/1991, einkum þeirra ákvæða sem hann hefur vísað til
hér að framan og varðandi málskostnað í þessum þætti málsins vísar hann til
sömu laga.
III.
Niðurstaða
Við
úrlausn á þeim ágreiningi sem hér er til umfjöllunar er nauðsynlegt að víkja að
frekari málavöxtum er máli skipta og ekki eru raktir í málavaxtalýsingu
stefnanda í matsbeiðni. Í framhaldi af framangreindum samruna stefnda við
dótturfélag sitt ritaði lögmaður stefnda bréf, dags. 3. apríl 2009, fyrir hönd
hluthafanna Signýjar, Óskars og Sigynjar Eiríksbarna og Eiríks Óskarssonar til
stefnanda og tilkynnti að þau teldu að forgangshlutir í stefnda hefðu við
sameininguna breyst í almenna hluti, sbr. lið iii í
5. mgr. 4. gr. samþykkta félagsins. Jafnframt var því lýst yfir að þau teldu
forsendur brostnar fyrir hluthafasamkomulagi frá 30. nóvember 2007, þar sem
forgangshlutir hefðu breyst í almenna hluti. Þá var þess krafist að boðað yrði
til hluthafafundar og þar yrði tekinn fyrir dagskrárliðurinn kjör stjórnar. Af
hálfu stefnanda var því mótmælt með bréfi, dags. 7. apríl 2009, að samruni
móðurfélagsins Leikhúsmógúlsins ehf. og dótturfélagsins Mogul
Holding ehf. hefði þau áhrif á stöðu forgangshluta
sem haldið var fram. Þá var því mótmælt að forsendur væru brostnar fyrir
hluthafasamkomulaginu.
Framangreindir
hluthafar, Signý, Óskar og Sigyn Eiríksbörn og Eiríkur Óskarsson höfðuðu síðan
mál fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur gegn stefnanda í máli þessu og tveimur öðrum
forgangshluthöfum með stefnu birtri hinn 25. júní 2009. Eftir að nokkrum hluta
krafna stefndu hafði verið vísað frá héraðsdómi með úrskurði 13. ágúst 2010
gerðu þau þær kröfur aðallega að viðurkennt yrði að forgangshlutir í Mogul Holding ehf., stefnda,
hefðu breyst í almenna hluti við samruna Leikhúsmógúlsins ehf. og dótturfélags
þess undir nafni hins síðarnefnda og að hluthafasamkomulag, dagsett 30.
nóvember 2007, yrði dæmt ógilt. Til vara gerðu þau þá kröfu að ákvæði 2. mgr.
21. gr. samþykkta Mogul holding
ehf., sóknaraðila, yrði dæmt ógilt. Í héraðsdómi var fallist á aðalkröfu
stefndu.
Þann
27. janúar 2010 krafðist stefnandi innlausnar á grundvelli gr. 3.6 í
áskriftarsamningi aðila. Meirihluti stjórnar sóknaraðila hafnaði þessari
innlausnarkröfu þann 6. maí 2011.
Með
dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 7. júní 2012 var viðurkennt að forgangshlutir í
stefnda hefðu breyst í almenna hluti við samruna stefnda og dótturfélags hans.
Jafnframt var fellt úr gildi hluthafasamkomulagið, dags. 30. nóvember 2007.
Hæstiréttur staðfesti síðan niðurstöðu héraðsdóms þann 28. febrúar 2013 í
málinu nr. 418/2012.
Eftir
að dómur gekk í Hæstarétti var reynt að ná samkomulagi milli aðila á grundvelli
dómsins en það gekk ekki eftir og krafðist stefnandi á ný innlausnar á hlut
sínum í sóknaraðila með bréfi til stjórnar stefnda, dags. 21. mars 2013. Þeirri
kröfu hafnaði stjórn stefnda bréflega 23. apríl sama ár og vísaði til þess að
aðrir hluthafar væru mögulega fúsir að kaupa hlut stefnanda í stefnda.
Hinn
2. maí 2013 var haldinn hluthafafundur í stefnda um breytingar á samþykktum til
samræmis við dóm Hæstaréttar í máli nr. 418/2012 en stjórnin taldi nauðsynlegt
að fjalla um breytingarnar á fundi hluthafa. Allir hluthafar að stefnanda
undanskildum mættu til fundarins og voru breytingar á samþykktum samþykktar
samhljóða. Breytingarnar voru sendar fyrirtækjaskrá Ríkisskattstjóra ásamt
fyrrnefndum dómi Hæstaréttar og voru skráðar þar.
Í málsatvikalýsingu í matsbeiðni er
ekkert vikið að framangreindri niðurstöðu Hæstaréttar Íslands frá 28. febrúar
2013 í málinu nr. 418/2012 þar sem viðurkennt var að forgangshlutir hefðu
breyst í almenna hluti 30. júní 2008. Telja verður að framangreind niðurstaða
Hæstaréttar Íslands skipti miklu máli varðandi það mat sem óskað er eftir og að
þessu leyti sé málavaxtalýsingu í matsbeiðni verulega áfátt.
Stefnandi byggir á því að samkvæmt
ákvæðum 1. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991 hafi aðili máls fullt forræði fyrir
því hverra gagna hann aflar til stuðnings og mótmælir þeirri kröfu stefnda að
matsbeiðni stefnanda verði hafnað. Þá mótmælir stefnandi framlagningu dómskjals
nr. 55 þar sem í því felist skriflegur málflutningur og verði litið fram hjá
því að því marki sem það feli í sér skriflegan málflutning og jafnvel nýjar
málsástæður af hálfu stefnda. Ekki er á það bent af hálfu stefnanda hvaða nýjar
málsástæður komi fram í nefndu dómskjali og í skjalinu eru ekki aðrar
athugsemdir eða röksemdir en fram komu af hálfu stefnda við málflutning um
höfnum matsbeiðninnar.
Spurningar í matsbeiðninni um innlausnarverð
og útgreiðslu fjármuna til stefnanda miða ekki við tiltekna dagsetningu líkt og
fyrsta dómkrafa stefnu gerir. Spurningarnar eru að þessu leyti óljóst orðaðar.
Fyrsta dómkrafa stefnanda í máli þessu
lýtur að því að viðurkennd verði innlausnarskylda stefnda á forgangshlutum
stefnanda í stefnda pr. 1.1.2009. Í framlagðri matsbeiðni stefnanda er þess
óskað að matsmenn meti hvert sé innlausnarverð 1.082.250 forgangshluta Mango Tree B.V., það er
stefnanda, í Mogul Holding
ehf., það er stefnda, á grundvelli þeirrar aðferðar sem tilgreind er í 24. gr.
samþykkta Mogul Holdings
ehf., dags. 21. ágúst 2006 og 24. febrúar 2009, sbr. einkum ákvæði 2.-4. mgr.
24. gr.
Samkvæmt dómi Hæstaréttar í máli nr. 418/2012 breyttust forgangshlutir í
stefnda í almenna hluti 30. júní 2008. Matsbeiðnin lýtur þannig að því að færa
sönnur á verðmæti innlausnarverðs og útgreiðslu tilgreindrar fjárhæðar frá
stefnda til stefnanda og verður mat á þessu atriði þannig eðli málsins samkvæmt
að falla innan dómkrafna í því máli sem er tilefni beiðninnar eins og fram
kemur í málatilbúnaði stefnda. Í 3. mgr. 46. gr. laga um meðferð einkamála nr.
91/1991 segir að ef dómari telji bersýnlegt að atriði sem aðili vill sanna
skipti ekki máli eða að gagn sé tilgangslaust til sönnunar geti hann meinað
aðila um sönnunarfærslu. Með vísan til þess sem rakið hefur verið verður að
telja að það hafi enga þýðingu við úrlausn á því máli sem rekið er milli
málsaðila að afla mats á því hvert sé innlausnarverð 1.082.250 forgangshluta
stefnanda Mango Tree B.V. í
stefnda Mogul Holding ehf.,
á grundvelli þeirrar aðferðar sem tilgreind er í 24. gr. samþykkta Mogul Holdings ehf., dags. 21.
ágúst 2006 og 24. febrúar 2009, sbr. einkum ákvæði 2.-4. mgr. 24. gr. Kröfu
stefnanda um dómkvaðningu matsmanns til að framkvæma þetta mat er því hafnað
með vísan til 3. mgr. 46. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.
Varðandi síðari matsspurninguna þá
vísast jafnframt til framangreindrar niðurstöðu Hæstaréttar Íslands frá 28.
febrúar 2013 í málinu nr. 418/2012 þar sem viðurkennt var að forgangshlutir
hefðu breyst í almenna hluti 30. júní 2008. Þannig liggur fyrir að eftir 30.
júní 2008 voru hvorki til forgangshlutir né forgangshluthafar í stefnda. Síðari
matsspurning stefnanda er óljós að því leyti að hún vísar til mats á fjárhæð
útgreiðslu til stefnanda miðað við 1.082.250 forgangshluti eða á grundvelli
22,81% eignarhlutar. Greint er á milli þriggja aðferða sem óskað er eftir að
matsmenn noti til þess að komast að niðurstöðu um fjárhæð útgreiðslu stefnda
til stefnanda miðað við 1.082.250 forgangshluti stefnanda í stefnda eða á
grundvelli 22,81% eignarhlutar stefnanda. Það athugast að varðandi beitingu
aðferða á grundvelli greinar 3.2 og 3.6 í áskriftarsamningi ber að vísa til
þess að í 1. málslið 1. mgr. 21. gr. samþykkta stefnda segir að engin sérréttindi, önnur en þau sem koma fram
í samþykktum þessum, fylgi hlutum í félaginu. Þau sérréttindi sem
um ræðir fólust í innlausnarrétti forgangshluthafa á hlut sínum í stefnda fram
til 30. júní 2008. Af þessu leiðir að matsaðferðir byggðar á annarri hvorri
þessara greina áskriftarsamnings eru bersýnilega tilgangslausar til sönnunar
við úrlausn máls þessa og skipta engu máli. Kröfu stefnanda um dómkvaðningu
matsmanns til að framkvæma þetta mat er því hafnað með vísan til 3. mgr. 46.
gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.
Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið
verður fallist á það með stefnda að hafna beiðni stefnanda um dómkvaðningu matsmanns.
Rétt þykir að ákvörðun um málskostnað
vegna þessa þáttar málsins bíði efnislegrar niðurstöðu málsins. Vegna
embættisanna dómara hefur uppkvaðning úrskurðar dregist fram yfir frest
samkvæmt 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991. Aðilar og dómari töldu hins vegar ekki
þörf á að málið yrði flutt að nýju.
Þórður Clausen Þórðarson
héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.
Úrskurðarorð:
Beiðni stefnanda, Mango
Tree B.V., um dómkvaðningu matsmanns er hafnað.
Málskostnaður bíður efnislegrar
niðurstöðu málsins.