Hæstiréttur íslands

Mál nr. 422/2016

A (Helga Vala Helgadóttir hdl.)
gegn
B (Ása A. Kristjánsdóttir hdl.)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Vistun barns
  • Lögvarðir hagsmunir
  • Frávísun frá Hæstarétti að hluta
  • Gjafsókn

Reifun

A kærði úrskurð héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu hennar um að úrskurður B, þar sem ákveðið var að synir hennar yrðu vistaðir utan heimilis í allt að tvo mánuði, yrði felldur úr gildi og tekin til greina krafa um að þeir yrðu vistaðir utan heimilis í fjóra mánuði. Kröfu A sem laut að ákvörðun B var vísað frá héraðsdómi þar sem sá tími var liðinn sem ákvörðunin tók til. Úrskurður héraðsdóms um vistun drengjanna utan heimilis í fjóra mánuði var hins vegar staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Greta Baldursdóttir og Karl Axelsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 1. júní 2016, en kærumálsgögn bárust réttinum 6. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 20. maí 2016, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að felldur yrði úr gildi úrskurður varnaraðila 21. mars sama ár, þess efnis að synir hennar yrðu vistaðir utan heimilis í allt að tvo mánuði og tekin til greina krafa varnaraðila um  að drengirnir yrðu vistaðir utan heimilis í fjóra mánuði. Kæruheimild er í 1. mgr. 64. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefst hún kærumálskostnaðar án tillits til gjafsóknar sem henni hefur verið veitt.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Hinn 21. maí 2016 rann út sá tveggja mánaða tími sem kveðið var á um í úrskurði varnaraðila 21. mars sama ár að gilda skyldi um vistun drengjanna utan heimilis sóknaraðila. Af þeim sökum hefur hún ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá úrskurðinn felldan úr gildi og verður þeirri kröfu því sjálfkrafa vísað frá Hæstarétti.

Í umræddum úrskurði varnaraðila eru ítarlega rakin þau atriði sem varða samskipti sóknaraðila og sona hennar, er liggja til grundvallar tímabundinni vistun þeirra utan heimils samkvæmt heimild b. liðar 1. mgr. 27. gr. laga. nr. 80/2002, en samhliða uppkvaðningu úrskurðarins fól nefndin lögmanni sínum að gera um það kröfu fyrir dómi, sbr. 1. mgr. 28. gr. laga. nr. 80/2002, að drengirnir yrðu vistaðir í alls fjóra mánuði utan heimilis. Samkvæmt því sem fram kemur í úrskurðinum, sem og því sem ráða má af gögnum málsins um hæfi sóknaraðila, samskipti hennar við drengina og líðan þeirra, er fullnægt tilvitnuðum skilyrðum b. liðar 1. mgr. 27. gr., sbr. 1. mgr. 28. gr. laga. nr. 80/2002 til að drengirnir verði vistaðir utan heimilis í fjóra mánuði frá og með 21. mars 2016 að telja. Er þess þá jafnframt að gæta að nú fer fram mat á forsjárhæfni sóknaraðila. Verður því niðurstaða hins kærða úrskurðar staðfest eins og nánar greinir í dómsorði.

Ákvæði hins kærða úrskurðar um málskostnað og gjafsóknarkostnað verða staðfest.

Kærumálskostnaður fellur niður en um gjafsóknarkostnað sóknaraðila fyrir Hæstarétti fer eins og í dómsorði greinir.

                                          Dómsorð:

Vísað er frá Hæstarétti þeirri kröfu sóknaraðila, A, að úrskurður varnaraðila, B, 21. mars 2016 verði felldur úr gildi.

Varnaraðila er heimilt að vista syni sóknaraðila, C og D, utan heimilis í fjóra mánuði frá 21. mars 2016 að telja.

Ákvæði hins kærða úrskurðar um málskostnað og gjafsóknarkostnað eru staðfest.

Kærumálskostnaður fellur niður.

Gjafsóknarkostnaður sóknaraðila fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, 400.000 krónur.

 

 

Úrskurður Héraðs­dóms Reykjaness 20. maí 2016.

Sóknaraðili er A, kt. [...], til heimilis að [...],[...], en varnaraðili er B.

             Krafa sóknaraðila er að úrskurður B frá 21. mars 2016 um að bræðurnir C og D skuli vistaðir utan heimilis í allt að tvo mánuði verði felldur úr gildi með úrskurði.  Þá er krafist málskostnaðar úr hendi varnaraðila að skaðlausu ásamt virðisaukaskatti eins og málið væri ekki gjafsóknarmál. Sóknaraðili hefur fengið gjafsóknarleyfi í máli þessu.

             Með greinargerð framlagðri 29. apríl sl. krafðist varnaraðili þess að úrskurður varnaraðila frá 21. mars sl. yrði staðfestur. Þá er þess krafist að drengirnir skuli vistaðir utan heimilis á vegum B í allt að fjóra mánuði frá og með 21. mars sl., skv. 1. mgr. 28. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.

Fór aðalmeðferð fram þann 17. maí sl. 

Málavextir.

Samkvæmt gögnum málsins og framburði sóknaraðila flutti hún til Íslands frá Spáni á árinu [...] en til Spánar flutti hún frá [...]. Giftist hún barnsföður drengsins C, sem fæddist [...], en þau skildu. Eignaðist sóknaraðili aftur dreng, D, [...]. Slitnaði upp úr sambúð hennar og barnsföður hennar. Sóknaraðili býr því ein með tveimur drengjum sínum. Með úrskurði þann 21. mars 2016 ákvað varnaraðili að drengirnir skyldu vistaðir utan heimilis í tvo mánuði en frá 7. mars sl. voru þeir nauðungarvistaðir utan heimilis þar til úrskurður gekk þann 21. mars sl. 

Í tilkynningu frá B segir að barnsfaðir sóknaraðila, E, hafi beitt hana ofbeldi og að hún hafi dvalið í kvennaathvarfinu. Alls sex tilkynningar hafa borist varnaraðila vegna C og tvær vegna beggja bræðranna, misalvarlegar. 

Fyrsta tilkynning barst frá barnavernd Reykjavíkur þann 22. mars 2013.

Önnur tilkynning barst þann 7. febrúar 2014 frá lögreglu en barnsfaðir sóknaraðila, E, sparkaði í útidyrahurð sóknaraðila og var með læti. 

Þriðja tilkynning barst undir nafnleynd þann 15. maí 2014. Tilkynnt var um mikinn barnsgrát frá íbúð sóknaraðila og sonar hennar og að barnsgrátur heyrðist á öllum tímum dagsins. Í greinargerð vegna könnunar máls skv. 1. mgr. 23. gr. barnaverndarlaga dags. 1. september 2014 kemur fram að talið sé að sóknaraðili þurfi aðstoð í uppeldishlutverkinu og lagt var til að gerð yrði áætlun um meðferð máls þar sem lögð yrði áhersla á að sækja um Áttuna, uppeldisráðgjöf og stuðningsfjölskyldu.

Fjórða tilkynning barst frá lögreglu þann 2. september 2014 um ágreining milli aðila tengdan barninu en þar deildu föðuramma og föðurafi C, sem höfðu slitið samvistir, um það hver mætti passa drenginn. Hafði sóknaraðili beðið föðurömmu drengsins að gæta hans. Var umræddur ágreiningur á heimili föðurömmu drengsins.

Sóknaraðili kom í viðtal hjá varnaraðila í október 2014 eftir að ítrekað var búið að reyna að ná í hana símleiðis til að boða hana í viðtal. Sóknaraðili sagðist ánægð í vinnunni sinni og að C hefði aðeins róast eftir að hann byrjaði á leikskóla fyrir um mánuði. Sótt var um stuðningsúrræðið Áttuna og stuðningsfjölskyldu. Farið var yfir meðferðaráætlun sem starfsmaður þýddi fyrir sóknaraðila á ensku og skrifaði hún undir. Á þessum tíma var um níu mánaða bið eftir úrræðinu.

Svar við beiðni um upplýsingar frá leikskólanum Álfatúni barst þann 21. nóvember 2014. Í bréfi kemur fram að líðan og aðbúnaður C sé almennt góður. Hann virðist tilbúinn að koma í leikskólann en það reynist oft erfitt fyrir móður að koma honum út úr leikskólanum þegar hann sé sóttur. Starfsfólk hafi jafnvel þurft að aðstoða móður við að klæða drenginn í útiföt þegar hún hefur ekki ráðið við hann.

Í samskiptum barnaverndarstarfsmanns við sérkennslustjóra kemur fram að miklir erfiðleikar séu í leikskólanum með samskipti C við önnur börn á leikskólanum. C þurfi manninn á sig í öllum aðstæðum á leikskólanum þar sem hann sýni mjög neikvæða og „agressíva“ hegðun. C virðist ekki hafa mikinn „stoppara“ í samskiptum sínum við önnur börn og fullorðna. Hann vaði yfir allt og alla og láti hendur skipta. Í flestum tilfellum sé ekki hægt að greina sérstaka ástæðu fyrir hinni neikvæðu hegðun.

Farið var í vitjun á heimili sóknaraðila þann 5. maí 2015. Sóknaraðili hafi þá búið í bílskúr sem breytt hafði verið í íbúð. Húsnæðið hafi verið lítið og óvistlegt. Raki hafði sett mark sitt á veggi og að sögn sóknaraðila var húsnæðið kalt á veturna og bleyta kom í gólf á vissum stöðum. Fram hafi komið hjá sóknaraðila að hún ætti von að sínu öðru barni í ágúst. Sóknaraðili var atvinnulaus á þessum tíma en hún missti starf sitt við hreingerningar. Hún hafi virkað döpur og áhyggjufull og sagst þurfa að flytja í nýtt húsnæði fljótlega. Á meðferðarfundi þann 7. maí 2015 hafi verið ákveðið að sækja um forgang fyrir fjölskylduna í félagslegt leiguhúsnæði. 

Þann 4. september 2015 hafi starfsmaður barnaverndar farið í heimsókn á heimili fjölskyldunnar en sóknaraðili  hafi fengið úthlutað félagslegu leiguhúsnæði  í sumarbyrjun.  Auk sóknaraðila hafi verið heima E, D, nýfæddur sonur þeirra, og föðuramma drengsins, F. Upplýst var að sóknaraðili og barnsfaðir hennar hefðu slitið sambandi.

Svar við beiðni um upplýsingar frá leikskólanum [...] hafi borist þann 6. október 2015. Í bréfi komi fram að líðan C sé almennt góð. Hann virðist tilbúinn að koma á leikskólann en sóknaraðila reynist hins vegar oft mjög erfitt að koma honum út úr leikskólanum og leikskólagarðinum. Þá segir að Cþurfi manninn með sér í öllum aðstæðum í leikskólanum. Hann sé mjög hvatvís og reyni oft að stjórna með gráti eða öskrum. Hann eigi það til að sýna mjög neikvæða og „agressíva“ hegðun sem virðist ekki hafa neinn fyrirvara. Fram kemur í bréfi að af því sem starfsmenn leikskólans hafa orðið vitni að varðandi samskipti mæðginanna megi telja ljóst að móðir þurfi mikla fræðslu um uppeldismál og aga. C virðist vanur því að stjórna og móðir hans láti undan því til að komast út af skólalóðinni.

F, fyrrverandi tengdamóðir sóknaraðila, hafi haft samband við starfsmann barnaverndar símleiðis þann 6. október 2015. Segist hún hafa áhyggjur af ströngum uppeldisaðferðum sóknaraðila og sagði hana nota aðferðir eins og högg á putta og hendur á C. Þá hafi sóknaraðili verið með ógnandi hegðun við C og hótað að meiða hann með herðatré. Að auki sé sóknaraðili afar köld við C og finnst F drengurinn vera afskiptur.

Sóknaraðili hafi komið í viðtal þann 9. október 2015. Að hennar sögn gangi vel en hún segir þó erfiðlega ganga fjárhagslega. Hún sagði samskipti sín og E góð. Þegar rætt var við hana um stjórnun og yfirgang sagðist hún ekki kannast við það í þeirra samskiptum. Rætt var um uppeldisaðferðir og menningarmun. Sóknaraðili viðurkenndi að hafa beitt C harðræði; slegið á hönd hans og rassskellt. Sóknaraðila hafi verið bent á að slíkar uppeldisaðferðir væru bannaðar með lögum á Íslandi. Ætlaði hún að taka það til greina og beita öðrum aðferðum. Rætt var um mikilvægi þess að hvetja og efla börn með jákvæðu atferli og hlýrri umönnun og að Áttan-uppeldisráðgjöf kæmi inni á heimilið á næstu vikum þar sem lögð yrði áhersla á þessa þætti. 

Gerð hafi verið meðferðaráætlun með móður með gildistímann 23. október 2014 til 23. febrúar 2015 þar sem lögð hafi verið áhersla á að sækja um Áttuna-uppeldisráðgjöf og stuðningsfjölskyldu fyrir C. Í viðtali þann 23. október hafi sóknaraðili samþykkt þessi stuðningsúrræði og skrifað undir meðferðaráætlun.

Þann 19. febrúar 2015 hafi sóknaraðili undirritað nýja meðferðaráætlun fyrir tímabilið 19. febrúar 2015 til 31. ágúst 2015 þar sem stuðningur barnaverndar verði Áttan-uppeldisráðgjöf og stuðningsfjölskylda. Sóknaraðili hafi undirritað meðferðaráætlun þann 4. september 2015 með gildistímann 4. september 2015 til 4. desember 2015. Meðferðaráætlun sé í gildi sem sóknaraðili undirritaði þann 8. desember 2015 með gildistímann 10. desember 2015 til 10. maí 2016.

Tilkynning dags. 11. desember 2015 hafi borist frá lögreglu þar sem fram komi að barnaverndarnefnd hafi fengið tilkynningu um ofbeldi sóknaraðila í garð E, barnsföður hennar. E hafi verið farinn þegar lögreglan kom á staðinn en rætt var við hann í síma. Framburði þeirra beggja beri saman um að sóknaraðili hafi lamið E ítrekað í höfuðið með síma. Í átökunum hafi sonur þeirra fallið úr barnastól sem hann var í uppi í sófa.

Sóknaraðili  kom þann 14. desember 2015 á skrifstofu varnaraðila og óskaði eftir viðtali. Hún sagðist hafa það betra nú en síðustu helgi þegar lögreglan var kölluð til á heimilið. Sóknaraðili sagði að sér hafi liðið mjög illa yfir því sem gerðist og viðurkennt að hún hafi verið með sjálfsvígshugsanir. Sóknaraðila hafi verið boðið að dvelja tímabundið á vistheimili barnaverndar ásamt sonum sínum til að skipta um umhverfi og safna orku tímabundið. Hún hafi ætlað að hugsa um það.

Hringt hafi verið í sóknaraðila þann 15. desember 2015 þar sem hún mætti ekki í bókað viðtal. Sóknaraðili varð frekar reið og sagðist hvorki vilja tala við félagsráðgjafa barnaverndar né  starfsmann Áttunnar.  Hún sagði enn fremur að hún ætlaði ekki að láta barnavernd taka börnin af sér og hafnaði allri aðstoð.

Farið var í vitjun á heimilið þann 16. desember 2015. D hafi verið sofandi og sat sóknaraðili í sófa inni í stofu og horfði á sjónvarpið. Mjög þungt hafi verið yfir sóknaraðila og var hún fámál.

Þann 22. febrúar kom F, amma D, á skrifstofu barnaverndar og bað um viðtal við félagsráðgjafa. Henni hafi verið mikið niðri fyrir. F fullyrti að sóknaraðili væri í miklu ójafnvægi og hefði allt á hornum sér. Hún sagðist aðstoða sóknaraðila þannig að hún gætti D meðan sóknaraðili væri í vinnunni, æki henni til vinnu og sækti C í leikskólann. 

Samstarfsfundur var 23. febrúar með félagsráðgjafa barnaverndar og starfsfólki Áttunnar sem hafi með mál sóknaraðila að gera. Í ljós hafi komið áhyggjur af sóknaraðila og andlegri líðan hennar. Svo virðist sem hún glími við mikla reiði og litla tilfinningastjórnun. Rætt var um möguleika á að fá tímabundið fóstur fyrir börnin. Sjálf hafi hún ítrekað rætt um að senda syni sína frá sér til [...] eða [...].

Félagsráðgjafi heimsótti C á leikskólann  þann  24. febrúar. C var nokkuð kátur og ófeiminn. Hann var upptekinn við að teikna og spjallaði heilmikið. C sé öflugur drengur og geti ekki setið kyrr nema í skamma stund. Hann hafi teiknað mömmu með fýlusvip og sagt að mamma væri leið. Fram kom hjá C að: ,,Amma og D væru best í heimi og að enginn væri að flengja sig“. Félagsráðgjafi ræddi einnig við G og H, deildarstjóra á [...]. Fram kom að C væri að hefja greiningu hjá sálfræðingi vegna hegðunar hans.

Þann 7. mars sl. kom sjötta tilkynningin í málinu.  Leikskólastjóri hafði  samband vegna áverka sem C kom með í leikskóla og sagði að sóknaraðili hefði veitt sér.  Félagsráðgjafi barnaverndar fór samdægurs á leikskóla til að ræða við C. Hann greindi skýrt frá því að mamma sín hefði lamið sig og því væri hann með klórfar í andliti. C lék móður sína og setti báðar hendur upp í loft, öskraði illilega og var ógnandi. Í kjölfar heimsóknar á leikskóla hafi verið haft samband við sóknaraðila og hún boðuð í viðtal hjá barnavernd. Sóknaraðili hafi strax orðið reið í upphafi viðtals, heilsaði ekki og neitaði að fá sér sæti. Hún hafi þverneitað fyrir að hafa lagt hendur á C og að hann væri bara  barn og segði eitthvað út í loftið. Hún sagði að klórfarið hafi komið í strætó og að C væri alltaf að meiða sig. Hún hafi verið afar reið og strunsað æpandi út hótandi því að hún ætlaði að fremja sjálfsmorð.

Ákveðið hafi verið að beita neyðarráðstöfun skv. 31. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 vegna gruns um líkamlegt ofbeldi. Félagsráðgjafar hafi farið í leikskólann [...] til að sækja C. Sóknaraðili hafi verið mætt fyrir utan leikskólann í miklu ójafnvægi þegar félagsráðgjafar komu á vettvang. Hringt hafi verið á lögreglu til að fá aðstoð. Sóknaraðili sakaði félagsráðgjafa um kynþáttafordóma og svik. Farið var með bræðurna á Barnaspítalann til skoðunar. Sóknaraðili kom á skrifstofu barnaverndar og var leiðbeint með lögmannsaðstoð og boðinn viðtalstími morguninn eftir. Eftir heimsókn á spítala var farið með C á vistheimili og hafi D farið heim með ömmu sinni. Daginn eftir neyðarvistun drengjanna, 8. mars 2016, hafi verið hringt í móður þeirra þar sem hún mætti ekki í boðað viðtal sem hún átti umræddan dag. Hún sagðist ekki sjá tilgang með því að mæta í viðtal, sagðist ætla að „drepa sig“ og lagði á. Skömmu síðar mætti sóknaraðili til viðtals. Þegar félagsráðgjafar reyndu að fara yfir stöðu mála greip hún stöðugt fram í, talaði hátt og sýndi félagsráðgjöfum óvirðingu og dónaskap. Í viðtalinu greindi sóknaraðili frá því að C hefði fengið klórfarið í andlitið á leikskóla en deginum áður hafði hún greint frá því að C hefði fengið klórfarið í strætó. Lítið var hægt að ræða við sóknaraðila þar sem hún var æst og snéri út úr því sem reynt var að ræða um. Hún hafi strunsað út og hótað að fremja sjálfsmorð. Ekki hafi verið mögulegt að ræða líðan barnanna og umgengni í viðtalinu.

I lögmaður hafði samband við barnavernd þar sem sóknaraðili hafði leitað til hennar. Var sammælst um að hafa fund miðvikudaginn 9. mars sl. Á fundinum spurði lögmaðurinn út í hegðun C og velti því upp hvort ekki væri heppilegt að sóknaraðili myndi nýta sér aðstoð varnaraðila og svaraði hún því til að hún þyrfti ekki á slíkum lögmanni að halda sem stæði ekki með henni og afþakkaði hennar lögfræðiaðstoð þaðan í frá. Sóknaraðila var gerð grein fyrir hvað fram undan væri, þ.e. málið yrði tekið fyrir á meðferðarfundi á fimmtudag 10. mars sl. og ekki væri ólíklegt að bókunin myndi fela í sér forsjárhæfnismat og vistun utan heimilis. Sóknaraðila var boðið að skrifa undir vistun til tveggja mánaða með umgengni en hún hafnaði því alfarið. 

Í lokaskýrslu  Áttunnar,  dagsettri  11. mars 2016, kemur fram að erfiðlega hafi gengið að vinna með sóknaraðila að þeim markmiðum sem sett voru í upphafi og að sóknaraðili hafi takmarkaða getu til að mæta tilfinningaþörfum sona sinna. Grunur væri um harkalegar uppeldisaðferðir og að sóknaraðili sýndi lítinn áhuga á að auka foreldrahæfni sína. Sóknaraðili mun hafa greint starfsmanni Áttunnar frá því að hún hafi skilið C einan eftir heima á meðan hún fór og verslaði í matinn. Ráðgjafi Áttunnar vann með sóknaraðila í átján vikur en ákvað síðan að loka málinu vegna skorts á samstarfi og áhuga sóknaraðila. Því sé mótmælt sem fram komi í málavaxtalýsingu sóknaraðila að þetta úrræði hafi ekki verið fullreynt.

Í skýrslu frá leikskóla sem barnavernd barst 11. mars 2016 kemur fram áhugaleysi sóknaraðila á náminu sem fram fari í leikskólanum og  hvernig C líði almennt á leikskólanum. Fram komi einnig að sóknaraðili fylgi sjaldnast C inn á deild og sé í litlum samskiptum við starfsfólk. C fagni ekki móður sinni þegar hún komi að sækja hann. Sóknaraðili hafi ekki sýnt C blíðu þegar hún kemur á leikskóla og hefur C nefnt við starfsfólk að móðir hans sé reið við hann. Þegar C sé sóttur á leikskóla sýni hann ekki áhuga á að fara heim. Þann 7. mars sl. hafi C komið með áverka/djúpt klórfar á kinn og sagt að mamma sín hafi gert þetta við sig eða orðrétt úr skýrslu:  „… mamma var að meiða mig … mamma var að lemja mig …

J sálfræðingur hafi gert mat á hegðun og líðan Cr þegar hann var tveggja ára og 11 mánaða, m.a. í þeim tilgangi að leiðbeina sóknaraðila og leikskóla. Þar komi m.a. fram að Csé skýr drengur með vitsmunaþroska í meðallagi miðað við jafnaldra. Hann virðist sterkari í íslensku en ensku sem sé þó hans móðurmál. C sé virkur í leikskólanum og sýni býsna mikla árásargirni í samskiptum sínum við önnur börn. Vegna ungs aldurs sé hins vegar erfitt að fullyrða um framhald þessara einkenna. C þurfi mikla aðstoð til að komast klakklaust í gegnum daginn. Samkvæmt upplýsingum frá vistheimili sem C dvelji á gangi vel hjá drengnum og miklar framfarir hafi orðið hjá honum síðan hann kom fyrir sex vikum. Drengurinn sé í betra jafnvægi, sæki í snertingu og sýni síður neikvæða hegðun, þótt enn komi fyrir að hann meiði önnur börn á heimilinu, þá fari það minnkandi. Starfsmenn á leikskóla segi einnig að töluverð breyting sé á C frá því sem var. Hann sé rólegri og í betra jafnvægi.

Farið var yfir það með starfsfólki leikskóla og fósturfjölskyldu af hverju C var með klórfar í andlitinu og er það talið hafa gerst í ágreiningi við annað barn á vistheimilinu sem einnig hafi verið með klórfar eftir C.

Ákveðið hafi verið á meðferðarfundi þann 31. mars að sóknaraðili hefði umgengni við D tvisvar í viku en einu sinni í viku við C. Umgengnin sé undir eftirliti og eftirlitsaðili eigi að leiðbeina móður í uppeldishlutverkinu. Sóknaraðili hafi samþykkt að undirgangast forsjárhæfnismat og muni K sálfræðingur framkvæma matið.

Umgengni sóknaraðila við börnin hafi ekki gengið mjög vel. Ákveðið hafi verið að færa umgengnina inn á heimili sóknaraðila en hún hafi áður farið fram á hlutlausum stað.  Sóknaraðili hafi lokað sig af með C inni í herbergi á heimili sínu. Þá hafi eftirlitsaðili orðið vitni að því að sóknaraðili hafi beðið C um að segja að hann sé misnotaður á fósturheimilinu og ef hann komi heim með henni þá fari hún með hann í tívolí og gefi honum sælgæti.

Sóknaraðili hafi skrifað undir meðferðaráætlun þann 25. apríl sl. þar sem hún skuldbindi sig til að vera í samstarfi við starfsfólk varnaraðila og annað fagfólk sem komi að málinu, þ.m.t. eftirlitsaðila með umgengni, að virða umgengnistíma og reglur í umgengni og að nýta hana á uppbyggilegan hátt með drengjunum.

Skýrslur fyrir dómi.

Sóknaraðili gaf skýrslu fyrir dóminum og kvað fjölskyldu sína vera hamingjusama. Sóknaraðili færi á fætur tíu mínútur fyrir sjö á morgnana alla virka daga. Klukkan sjö vekti hún eldri drenginn og setti hann í sturtu. Þau tækju strætó í leikskóla C og eftir það færi sóknaraðili aftur heim með yngri drenginn. Þau fengju sér morgunmat, færu út að ganga og sá yngri sofnaði. Þau færu aftur heim og sóknaraðili sinnti almennum heimilisstörfum. Sóknaraðili eldaði alltaf áður en C kæmi heim úr leikskólanum. Sóknaraðili sækti C af leikskólanum klukkan hálffjögur á daginn og eftir það léki C sér og horfði á sjónvarp. Stundum fengi hún vini í heimsókn og þau léku öll saman. Oft færu þau í tívolí í Smáralindinni. C væri orkumikill svo að sóknaraðili passaði að hann hefði nóg fyrir stafni svo að hann yrði þreyttur fyrir svefninn. Um sexleytið setti hún drengina í sturtu og eftir að C væri sofnaður færi hún og yngri drengurinn að sofa. Áður en C sofnaði skoðaði hann bækur eða færi í spjaldtölvuna. 

             Aðspurð kvað sóknaraðili heimilisaðstoð hafa eyðilagt svefnregluna á heimilinu. C hafi yfirleitt farið í rúmið um kl. hálfsjö til sjö en L hafi breytt þeirri reglu. L hafi farið fram á að sóknaraðili héldi C vakandi þar til hún kæmi. Sóknaraðili kvað C hafa orðið órólegan við þetta og hafi sóknaraðili einu sinni fylgst með að C hafi farið sextán til tuttugu sinnum fram og til baka úr herberginu áður en L kom. L hafi reynt að sannfæra sóknaraðila um að uppeldisaðferðir hennar síðastliðin þrjú ár hafi verið rangar. D hafi þá bara verið lítið barn og það hafi ekki haft áhrif á hann. Barnaverndarnefnd hafi byrjað að hafa afskipti af heimilinu eftir ágreining sóknaraðila og fyrrverandi sambýlismanns hennar. Kvaðst sóknaraðili sjaldnast hafa skilið þau samskipti sem fóru fram á milli aðila sem komu á heimilið þar sem þau hafi alltaf talað íslensku. M, N og O ræði alltaf saman á íslensku. Kvað sóknaraðili barnsfeður sína ekki taka þátt í uppeldinu. C hitti föður sinn um einu sinni á ári en E, faðir D, væri oft inni á heimilinu og heimsækti sóknaraðila. Sóknaraðili kvaðst eiga fjölskyldu á [...] en hún eigi vini hér sem hún líti á sem sína fjölskyldu. Þau hittist oft og eigi góðar stundir saman. Þá komi vinkona hennar oft og þau eldi mat saman. Aðspurð kvaðst sóknaraðili ekki hafa upplifað nein áföll á ævi sinni. Hún hafi verið hamingjusamt barn og alist upp hjá ömmu sinni. Hún hafi flust frá [...] til [...] á [...] árið 2009 en fjölskylda hennar og vinir búi þar. Sóknaraðili hafi komið til Íslands árið 2012 af frjálsum og fúsum vilja. Mótmælti sóknaraðili fullyrðingum varnaraðila um að hún ætti áfallasögu. Kvað sóknaraðili að O hafi átt það til að hringja í sig og segja hana illa, hjartalausa og ekki gott foreldri. Þá kenndi O sóknaraðila um það sem úrskeiðis fór milli hennar og barnsföður hennar. Kvað sóknaraðili C vera glaðan á leikskólanum en hann hafi slegið íslenskt barn og sóknaraðila verið kennt um. Hafi Cverið laminn þá hafi það verið talið eðlilegt. Sóknaraðili kvaðst bara vilja fá börnin sín til baka, þau séu ringluð og verið sé að snúa börnunum gegn henni. C hafi t.d. sagt sóknaraðila eftir O að móðir hans væri ekki góð. Þá hafi hann sagt sér að maður að nafni Jón lemdi sig en sóknaraðili viti ekki hver hann sé. Þá hafi hárið á C verið klippt án þess að það væri borið undir sóknaraðila. D hafi verið veikur allan tímann í vistuninni og sóknaraðili ekki upplýst um það. Þá sjái sóknaraðili á C að hann óttast annað fólk. Sóknaraðili lýsti því að þau hafi verið í strætó og C hafi neitað að sitja. Strætóinn hafi skyndilega verið stöðvaður og við það hafi C runnið til undir sætið fyrir framan. Sóknaraðili hafi reynt að grípa hann og við það hafi hann fengið klór á kinnina. C sé ekki erfitt barn en mjög orkumikill og hjálpsamur.

             Aðspurð um það hvernig gangi þegar sóknaraðili sæki C á leikskólann kvað sóknaraðili það yfirleitt hafa gengið vel en eftir að hann eignaðist yngri bróður hafi hann oft látið elta sig þegar hann sé sóttur.

             Aðspurð um tilkynningu frá Barnaverndarnefnd Reykjavíkur um að faðir C hafi beitt sóknaraðila ofbeldi, kvað sóknaraðili það vera rétt en það sé liðin tíð, þau hafi verið vinir síðan. Hún teldi þetta ekki flokkast sem áfall í hennar lífi. Hann hafi verið drukkinn og þetta gerðist bara, hann hafi beðist fyrirgefningar á þessu.

             Sóknaraðili óskaði eftir því að gefa aftur skýrslu eftir að hafa hlustað á vitnisburð í málinu. Kvað hún margt ranghermt. Meðal annars ætti C mikið af leikföngum sem hann léki sér með. Ástæða þess að sóknaraðili bar ekki traust til Áttunnar var að O hafi talað við hana á neikvæðan hátt og jafnvel uppnefnt sig. O hafi sagt hana vera hjartalausa og vonda við fyrrverandi mann sinn. Þá kvað hún starfsmenn aldrei ræða við sig utan að heilsa og kveðja. C vilji ekki fara burt af heimilinu eftir umgengni og hafi grátið. Hafi sóknaraðili rætt þetta við O en þar sé ekki hlustað á hana. Hún hafi því byrjað að taka upp á hljóðband allt sem eigi sér stað. Þá hafi verið kvartað yfir því að sóknaraðili komi oft of seint í umgengni en það sé ekki rétt. Þá vilji sóknaraðili ekki að P, föðuramma D, tali við C þar sem það sé hún sem hafi klagað hana til barnaverndar. Sóknaraðili sé frá [...] og það sér önnur menning þar.

             Vitnið R kom fyrir dóminn og kvaðst vera vinkona sóknaraðila og raunar líta á hana sem sína litlu systur og tilheyra sinni fjölskyldu. Þær hafi þekkst frá því að sóknaraðili kom til Íslands. Mikill samgangur sé á milli heimilanna. Aðspurt um það hvort sóknaraðili væri strangur uppalandi kvað vitnið þær báðar vera frá [...] og það sem Íslendingum sýndist vera strangt væri ekki strangt hjá þeim. Sem dæmi kvað vitnið það vera algengt í þeirra menningu að ef börn hlýði ekki þá sé sagt við þau að ef þau hætti ekki þá verði þau rassskellt en þau láti hins vegar ekki verða af því. Vitnið kvað sóknaraðila hafa sagt sér að starfsmenn frá B hafa komið á heimili sóknaraðila og ráðlagt henni varðandi aðstoð.

             Vitnið S kom fyrir dóminn og kvaðst vera vinur sóknaraðila og oft inni á heimili hennar. Kvað vitnið sóknaraðila vera gott foreldri. Vitnið kvað sóknaraðila ekki hafa skilið eldri drenginn eftir einan heima, hún hringi í sig þegar hana vanti gæslu fyrir börnin.

             Vitnið O, félagsráðgjafi hjá varnaraðila, kom fyrir dóminn og kvaðst hafa komið að málinu á vormánuðum 2013 en vitnið hafi fengið málið til sín í október 2014. Vitnið hafi hitt sóknaraðila fyrst þá. Þær hafi þá gert drög að meðferðaráætlun. Sóknaraðili hafi verið ein með C. Meðferðaráætlunin hafi verið stuðningur við móður, heimsókn á heimili hennar og stuðningur á leikskóla. Um vorið 2015 hafi vitnið sótt um forgang á félagslegu leiguhúsnæði fyrir sóknaraðila þar sem hún hafi búið við óviðunandi aðstæður. Starfsmaður Áttunnar hafi komið um vorið að málinu og komið tvisvar sinnum á heimili sóknaraðila. Hafi listar til að meta þjónustuþörfina og aðstoð við C verið lagðir fyrir sóknaraðila. Þá hafi einnig komið í ljós að sóknaraðili átti von á nýju barni. Því var ákveðið að bíða með aðstoð þar sem nýtt barn var í vændum og flutningar hafi verið yfirvofandi. Mál sóknaraðila hafi því verið sett í bið. Starfsmaður Áttunnar, L, hafi aftur komið inn á heimilið í október 2015 og sinnt því fram í febrúar 2016. Vitnið kvað sóknaraðila eiga lítið stuðningsnet hér á landi og sé það haft eftir sóknaraðila sjálfum. Hún hafi þó eignast eina vinkonu hér á landi. Aðspurt kvað vitnið aðstoð frá Áttunni vera vinsælt úrræði og því biðlistar. Sótt hafi verið um aðstoð frá Áttuni í lok október 2014 og inntökufundur verið í apríl 2015. Þrjár vitjanir hafi verið í kjölfar þess. Í upphafi hafi sóknaraðili verið fús til samvinnu en verið fámál. Útskýrt hafi verið fyrir sóknaraðila hvað fælist í aðstoðinni. Hafi sóknaraðili samþykkt að fá þann stuðning. Um haustið 2015 hafi hegðun og framkoma sóknaraðila breyst mikið en þá hafi slitnað upp úr sambandi hennar og seinni barnsföður. Hún hafi verið uppfull reiði. Samband hafi verið haft við L, starfsmann Áttunnar, 11. desember sl. Hafi vitnið ásamt L og lögreglu farið á heimilið. Hafi sóknaraðili viðurkennt að hafa ráðist á E og blóðgað hann. Við það hafi yngri drengurinn dottið úr stól á gólfið og fengið kúlu á höfuðið. Drengirnir hafi báðir verið í miklu uppnámi og hafi verið farið með þá á bráðamóttöku til skoðunar. Þegar þau komu með drengina aftur heim hafi C beðið starfsmann bakvaktar að fara ekki. Í framhaldi af þessu hafi samskiptin við sóknaraðila orðið erfiðari. Sóknaraðili hafi verið reið og full heiftar og sýnt tilfinningalegt stjórnleysi. 7. mars sl. hafi verið hringt frá leikskóla C vegna áverka á honum. Hringt hafi verið í sóknaraðila og hún látin vita. Hafi hún orðið mjög reið og tryllst, sagt þeim að halda kjafti og hótað sjálfsvígi. Í framhaldi hafi barnavernd farið á leikskólann og rætt við C. Hann hafi sagt þeim að móðir hans hafi meitt sig. Drengurinn hafi leikið móður sína og sýnt hana mjög reiða. Það hafi verið mjög skýrt hjá drengnum. Vitnið kvað sóknaraðila hafa verið tvísaga um það hvernig áverkinn hafi komið, fyrst sagt að það hafi gerst á leikskóla en síðar haldið sig við söguna um að þetta hafi gerst í strætisvagni. Aðspurt hvers vegna þetta tilvik hafi verið tekið svona alvarlega kvað vitnið að horft hefði verið til atviksins í desember og þess að sóknaraðili hafi sýnt mikinn óstöðugleika, mikla reiði, hótað við ömmu D að skaða sig og börnin, slegið á hendur C og rassskellt hann en það hafi sóknaraðili sagt vitninu sjálf. Hún hafi sýnt E og móður hans mikið stjórnleysi og bræði. Kvað vitnið C hafa farið á vistheimili þann 7. mars sl. og D hafi verið vistaður hjá föðurömmu hans. Sóknaraðili hafi haft reglulega umgengni við drengina frá þeim tíma en umgengnin hafi gengið erfiðlega. Sóknaraðili hafi talað niðrandi til C, sagt við hann að hann væri með rotnandi tennur, skítugur, segir hann ljúga að sér o.fl. Vitnið kvaðst hafa skynjað að sóknaraðili bæri ekki mikið traust til þess svo að það hafi lagt til að annar félagsráðgjafi tæki við málinu og hafi það verið gert. Sóknaraðili hafi nýlega skrifað undir nýja meðferðaráætlun þar sem hún gengst m.a undir forsjárhæfnismat. Eftirlitsaðilar fylgist með umgengninni. Annar þeirra, T, eigi að vinna með foreldrahæfni en það hafi ekki gengið eins og vonast var til, sóknaraðili taki ekki leiðbeiningum og hunsi hana. Ýmis stuðningsúrræði hafi verið reynd til að aðstoða sóknaraðila í uppeldishlutverkinu. Sóknaraðili beiti harkalegum aðferðum í uppeldinu, en það hafi sóknaraðili tjáð vitninu sjálf. Hún hafi rassskellt C og m.a. skilið hann eftir einan heima þegar sóknaraðili fór út að versla. Sóknaraðili hafi engan áhuga sýnt á leikskólanum, ekki fylgt drengnum inn og virðist ekki hafa neinn áhuga á því sem þar fari fram. Drengurinn hafi oft ekki viljað fara með sóknaraðila heim og sýnt og sagt frá því að mamma sé reið. Drengurinn hafi sýnt ofbeldishneigð á leikskólanum en eftir að hann var vistaður utan heimilis hafi dregið úr þeirri hegðun hans.

             Vitnið kvað sálfræðing hafa skilað skýrslu um andlegt atgervi C. Listi hafi verið lagður fyrir sóknaraðila um ástand C og hafi niðurstaða hennar og svör á listanum verið í ósamræmi við frásagnir hennar af hegðun C. Sóknaraðili líti ekki svo á að C eigi við nokkra hegðunarerfiðleika að stríða. Ekki komi fram að C eigi við nein þroskafrávik að stríða en ekki sé tímabært að kanna frekar með greiningar þar sem um mjög ungt barn sé að ræða. C hafi sýnt mikla ofbeldishegðun bæði á leikskólanum og vistheimilinu. Börn hafi verið hrædd við hann. Það hafi þó dregið mikið úr þessari hegðun eftir að drengurinn fór í fóstur en hún sé þó enn til staðar. Í leikskólanum hafi drengurinn þurft manninn með sér, hann sé öflugur og hafi verið ofbeldishneigður, vitnið hafi séð þá hegðun sjálft. Vitnið var spurt hvers vegna það hafi tekið svo langan tíma að veita sóknaraðila aðstoð frá Áttunni, en inntökufundur hafi verið 27. október 2014. Kvað vitnið aðstoðina frá Áttunni hafa verið samþykkta í október 2014 og starfsmaður hafi farið inn á heimilið í apríl 2015. Sóknaraðili hafi ekki verið þannig stödd að úrræðið myndi gagnast henni en þau hafi ekki vitað þá að sóknaraðili hafi verið orðin ófrísk. Sóknaraðili hafi metið vanda sinn lítinn og það hafi verið samkomulag þeirra að byrja aðstoðina um haustið. Vitnið kvað það hafa verið skaðlegt fyrir drengina að vera áfram í því ástandi sem var á heimilinu, móðirin í miklu ójafnvægi og þeir beittir ofbeldi. Hún hafi hótað að skaða sig og börnin, hún hafi viðurkennt að hafa rassskellt börnin og hótað því að slá þau. Taldi vitnið það alvarlegt og að sóknaraðili þurfi hjálp til að geta sinnt börnum sínum. Vitnið kvaðst hafa sagt sig frá málinu þar sem það vissi að sóknaraðili bar ekki traust til þess. Vitnið kvaðst hafa kannað hvort forsjárhæfnismat væri hafið og fengið þær upplýsingar að matinu yrði flýtt eins og kostur er. Vitnið kvaðst aðspurt líta svo á að sóknaraðili ynni ekki með það að mynda tengsl við yngri drenginn. Það hafi hitt drenginn fyrir stuttu og hafi hann verið glaður og kátur en hann sé vistaður hjá ömmu sinni. Manneskja sem sé uppfull af heift og reiði eigi erfitt með að mynda heilbrigð tengsl. Á heimili sóknaraðila hafi vitnið séð hana sitja svipbrigðalausa fyrir framan sjónvarp og drenginn sitja hjá í stól. Hún hafi líka komið með drenginn til vitnisins og hann hafi ekki virkað ánægður. Þessi framkoma hafi einnig verið gagnvart öðru starfsfólki varnaraðila. Vitnið kvað sóknaraðila hafa verið boðið að fara inn á vistheimili með börnin til að fá næði og aðstoð en hún hafi hafnað því. Þá hafi hún einnig hafnað því að fá stuðningsfjölskyldu. Kvað vitnið samskipti starfsmanna varnaraðila og sóknaraðila fara fram á ensku. Í einstökum tilvikum hafi túlkur verið fenginn til að tryggja hundrað prósent að enginn misskilningur væri en sóknaraðili tali mjög góða ensku. Vitnið kvað C tala íslensku og málþroski hans væri góður og í samræmi við hans aldur. Hann hafi sagt frá því glaður í bragði að enginn hafi verið að flengja sig auk þess sem hann hafi sagt vitninu að amma og E væru best í heimi. Aðspurt hvort vitni væru að því að sóknaraðili hvíslaði niðrandi ummælum í eyra C kvað vitnið svo vera. Vitnið kvað eftirlitsaðila hafa kallað á sig síðastliðinn föstudag þar sem hann hafði grun um að sóknaraðili væri hugsanlega lyfjuð en svo hafi ekki verið. 

              Vitnið Uleikskólastjóri kom fyrir dóminn og kvaðst hafa haft miklar áhyggjur af hegðun C þegar hann byrjaði á leikskólann þar sem drengurinn hafi verið mjög hvatvís og sýnt ofbeldishegðun. Sóknaraðili hafi verið boðuð á fund en E, faðir yngri drengsins, mætt. Sóknaraðili hafi mætt síðar og sýnt lítinn áhuga á vandamálinu. Samspil þeirra mæðgina hafi verið frekar fáskiptið, ekki mikil hlýja og drengurinn leitast við að hlaupa undan móður sinni. Sóknaraðili spyrji lítið um það hvað hafi verið gert um daginn og það hafi komið fyrir að drengurinn hafi ekki verið sóttur eða sóttur of seint. Amma D, E og vinkona sóknaraðila hafi stundum komið að sækja drenginn. Ekki hafi verið gerð athugasemd við umhirðu drengsins. Þann 7. mars sl. hafi drengurinn komið með sár á kinn og hann sagt starfsmönnum leikskólans að mamma hans hafi meitt sig. Í framhaldi hafi verið haft samband við barnaverndarnefnd sem hafi komið og tekið barnið. Sóknaraðili hafi einnig komið á staðinn. Aðspurt um áhyggjur leikskólans í október 2015, kvað vitnið drenginn hafa verið vondan við önnur börn, hann hafi ráðist á þau fyrirvaralaust. Drengurinn sé sterkbyggður og hvatvís. Hann hafi verið ársgamall þegar hann byrjaði á deildinni og önnur börn á deildinni hafi verið hrædd við hann. Þá hafi vitnið óskað sérstaklega eftir aðstoð og ráðgjafa vegna drengsins seinni hluta vetrar 2014/2015. Aðspurt hvort drengurinn geti verið með einhverja röskun, kvaðst vitnið aldrei á sínum ferli hafa séð svo ungan dreng með slíka ofbeldishneigð, en það teldist varla flokkast undir einhverja þekkta röskun. Kvað vitnið drenginn hafa góðan orðaforða miðað við aldur. Vitnið kvað starfsmenn sína hafa hlustað á drenginn segja frá því að mamma hans hafi meitt hann og taldi vitnið drenginn búa yfir slíkum orðaforða. Aðspurt kvað vitnið hegðun C, bæði flóttahegðun og ofbeldi gegn öðrum börnum, hafa lagast á síðustu vikum. Önnur börn vilji nú leika við hann þar sem hans fyrstu viðbrögð séu ekki að beita hnefanum. Starfsmenn hafi rætt það að meiri ró sé yfir drengnum og hann sé sæll að fara heim með fósturforeldri.

             Vitnið V kom fyrir dóminn og kvaðst hafa haft eftirlit með umgengni móður og drengja eftir að þeir voru vistaðir utan heimilis. Aðspurt hvernig sóknaraðili tæki á móti drengjunum, kvað vitnið að yfirleitt hafi þurft að koma með drengina til hennar, hún hafi ekki komið á móti þeim né tekið þeim fagnandi. Eftir að umgengni er hafin, hafi sóknaraðili verið hryssingsleg við D og ekki tekið C fagnandi. Hún komi honum í niðurlægjandi aðstæður, spyrji hann hvort hann sé ekki tannburstaður, hvort hann fari í sturtu og hvort ekki sé lesið fyrir hann. Ef hann svari játandi ásaki hún hann um að ljúga. Hún komi ekki með leikföng í umgengi eins og henni hafi verið ráðlagt. Fyrst hafi umgengnin farið fram í Tröð en síðan verið færð inn á heimili sóknaraðila. Þar hafi umgengni ekki gengið sem skyldi, sóknaraðili hafi t.d. læst sig með drengina inni í herbergi í nokkurn tíma. Hún hafi opnað eftir smástund en legið hátt rómur en róað sig fljótlega. Henni hafi verið bent á að slíta yrði umgengninni ef hún færi ekki eftir reglum. Umgengnin hafi því verið færð yfir á Tröð aftur. Vitnið kvaðst hafa orðið vitni að því að þegar C kom í umgengni hafi sóknaraðili undið sér beint að honum í forstofunni, rifið upp um hann bolinn og buxurnar niður um hann ásamt því að taka af honum bleyju og hann þá staðið fyrir framan ókunna manneskju nakinn að neðan, sem vitnið kvaðst hafa upplifað sem niðurlægjandi fyrir hann. Hafi sóknaraðili spurt drenginn að því hvort einhver hafi verið að snerta hann á óviðeigandi hátt.

Aðspurt um atvik frá 23. apríl sl., þegar drengirnir voru sóttir úr umgengni og sóknaraðili hafi hreytt ónotum í fósturforeldra, kvað vitnið C hafa orðið mjög hræddan og vitnið staðið á milli vistforeldris og sóknaraðila. C hafi ríghaldið í vitnið og verið hræddur. Erfiðlega hafi gengið hjá sóknaraðila í lok umgengni að klæða eldri drenginn í og því afhent vistforeldri úlpu C og þá hafi þetta atvik gerst. Vitnið hafi því beðið sóknaraðila um að fara, sem hún hafi gert að lokum. Þá var atvik sem vitnið lýsir í skýrslu sinni, þar sem sóknaraðili var að greiða C, borið undir vitnið. Kvaðst vitnið hafa séð sóknaraðila greiða hár C sem hafi gengið mjög erfiðlega og hann grátið svo að munnvatn hafi lekið út úr honum. Hafi sóknaraðili ekki hætt þrátt fyrir þetta fyrr en vitnið ætlaði að ganga á milli. Þá hafi sóknaraðili ekki komið með leikföng með sér fyrir drengina í [...] en þar séu ekki leikföng. Tíminn fari hjá sóknaraðila mikið í að vera í símanum, sinna Facebook eða sýna drengjunum vídeó. Þá hafi sóknaraðili komið sl. föstudag með tannbursta með sér og látið D hafa, auk þess sem hún hafi tannburstað hann, en hún hafi ekki sinnt því að taka leikföng með sér fyrir drengina.  Þá hafi hún látið drenginn fá tannburstann til að leika sér með og bætt tannkremi um tvisvar á hann fyrir drenginn. Vitnið kvað vistforeldri yngri drengsins hafa komið með mat í umgengni fyrir drenginn en sóknaraðili hafi ekki viljað það og komið sjálf með mat handa honum. Vitnið kvaðst aðspurt ekki finnast að samvistir sóknaraðila við drengina í umgengni hafi verið gæðastundir, kannski í eitt skipti sem hún hafi merkt það. Drengirnir leiti ekki mikið til móður sinnar í umgengninni. Vitnið kvað sóknaraðila tala illa um vistforeldra í viðurvist drengjanna. Þá hafi vitnið hlustað á sóknaraðila segja við C að hann ætti að segja þegar hann færi í umgengni til ömmu og afa að Þ sé vondur við hann, misnoti og lemji. 

Vitnið kvaðst hafa sett í skýrslu sína það sem hafi gerst í umgengni, hvorki dregið sérstaklega fram neikvæða hluti né jákvæðari heldur bara það sem í raun gerðist. Staðfesti vitnið skýrslur sínar fyrir dóminum. Vitnið kvað [...] vera óháðan stað á vegum B þar sem umgengni færi fram. Umgengni við D sé frá klukkan hálftíu til hálftólf á föstudögum, og við C á laugardögum frá klukkan eitt til þrjú en D komi þá klukkan tvö og sé til klukkan þrjú svo að bræðurnir hittast þá í klukkutíma. 

Vitnið Ö kom fyrir dóminn og kvaðst hafa verið vistforeldri C frá 7. mars sl. Vitnið kvað C hafa verið mjög öran og í miklu ójafnvægi þegar hann kom fyrst í vist. Hann hafi einnig verið ofbeldishneigður. C hafi sagt frá því að móðir hans hafi slegið hann þegar hann var óþægur. C hafi ráðist á önnur börn á heimilinu, sjö, níu og þrettán ára, þannig að þau hafi verið hrædd við hann þrátt fyrir að hann sé bara þriggja ára. Hann hafi ráðist á þau að þeim óvörum og án tilefnis og eitt barnið sé með djúpt ör eftir eina atlöguna. Þessi hegðun hafi breyst verulega. C hafi eitt sinn fengið rispu í andlitið og yngsta barn vitnisins hafi svarað því svo til að C hafi slegið sig fyrst. C hafi ekki viljað fara í umgengni við móður sína, hann vilji ekki út í bíl þegar umgengi á að fara fram en segir: „Mamma er vond við mig, mamma er reið við mig.“ Þurft hafi að lokka hann til að fara með loforði um ís. Þá vilji hann ætíð fara með vitninu til baka eftir umgengni en hann sé mjög lítill í sér eftir umgengnina, gráti og þurfi að vera í fanginu á vitninu. Vel gangi að fara með hann á leikskóla og sækja hann en hann sé mjög glaður á leikskólanum. Vitnið kvað drenginn hafa farið til föðurömmu sinnar á [...] um páskana í umgengni og það hafi gengið mjög vel. Vitnið kvað að þegar það sótti drenginn í umgengni daginn áður en hann fór til [...] hafi það heyrt sóknaraðila segja við drenginn: „Tell them at Jon is abusing you and hitting you and not good to you.“ Þetta hafi verið daginn áður en C fór til [...] í umgengni við föðurömmu sína. Kvað vitnið sóknaraðila hafa vitað að eiginmaður vitnisins heiti Þ. 

Vitnið L, starfsmaður Áttunnar-uppeldisráðgjafar, kom fyrir dóminn og kvað hlutverk sitt vera að úthluta málum og halda inntökufundi með foreldrum og yfirmanni vitnisins. Þá sé farið yfir hlutverk Áttunnar, umbunarkerfi kynnt og farið yfir uppeldisaðferðir með foreldrinu. Þá sé hlutverk Áttunnar að styðja foreldra í hlutverki sínu og kenna þeim að setja börnunum mörk. Æ, starfsmaður Áttunnar, hafi verið með inntökufund í apríl 2015 en vitnið hafi fengið þær upplýsingar að sóknaraðili væri barnshafandi og flutningar stæðu fyrir dyrum og því talið að stuðningur væri ekki heppilegur þegar sá óstöðugleiki væri fyrir hendi. Sóknaraðili hafi í upphafi sýnt mjög lítinn áhuga en verið kurteis og virst vilja samvinnu. Farið sé yfir lista með foreldrum, farið yfir verkefni dagsins; þegar þau vakna, klæða sig, morgunmatur og dagurinn rakinn þar til barnið er sofnað á kvöldin. Þannig sé hægt að finna út hver mesti vandinn sé í uppeldinu. Svefntíminn hafi verið helsta vandamálið hjá sóknaraðila. Borin var undir vitnið frásögn sóknaraðila um að vitnið hafi eyðilagt fyrir sóknaraðila og C svefntíma hans með því að seinka honum. Kvaðst vitnið ekki taka undir það, það hafi boðið sóknaraðila að fá umbunarkerfi fyrir C til að það væri auðveldara að koma honum í háttinn. Sóknaraðili hafi viðurkennt fyrir vitninu að hún setti C inn í herbergi á kvöldin og hafi síðan lokað hurðinni á hann og drengurinn grátið sig í svefn. Vitnið hafi bent sóknaraðila á að það væri ekki eðlilegt og boðist til að búa til umbunarkerfi fyrir hann, sem sóknaraðili hafi samþykkt. Kvað vitnið sóknaraðila síðan ekki hafa farið eftir kerfinu nema eitt kvöld og síðan ekki meira. Vitnið hafi komið til þeirra fyrstu tvö kvöldin til að hjálpa til við að nota kerfið en sóknaraðili hafi ekki verið að fara eftir kerfinu. Sóknaraðili hafi sagt vitninu að C færi venjulega í rúmið um hálfsjö. Vitnið hafi þá boðist til að koma á þeim tíma til að hjálpa til við háttatímann en sóknaraðili farið fram á það að vitnið kæmi seinna á kvöldin, um hálfátta eða átta. Venjan væri sú að það væri haft samráð við foreldra um hvenær hentaði að starfsmaður kæmi inn á heimilið og réði foreldri því alveg. Vitnið kvaðst hafa komið í nokkur skipti inn á heimili sóknaraðila. Í fyrstu skiptin sem vitnið kom inn á heimili sóknaraðila hafi engin leikföng verið á heimilinu nema tvær bækur sem hafi verið uppi í hillu og tvö púsluspil. Heimilið hafi verið hreint en frekar tómlegt. C hafi síðan fengið Lego í jólagjöf sem hann hafi glaðst mjög yfir. Erfitt hafi verið að eiga samræður við sóknaraðila. C hafi verið á leikskólanum á daginn þegar vitnið kom á heimilið en D verið heima. Fyrst hafi ekki verið leikföng fyrir hann, en síðar hafi vitnið séð tvær hringlur. Í janúar hafi verið kominn upp kassi með leikföngum. C hafi meira verið að sækja dót inn í eldhús, t.d. sóp sem hann sveiflaði í kringum sig. Hafi vitninu fundist C frekar vera að ögra sóknaraðila en sóknaraðili sagt þetta vera gestastæla í honum. Sóknaraðili hafi verið mikið með D í fanginu, sem sé gott, en hún hafi gefið drengnum brjóst og síðan hafi hún látið drenginn ropa en svo hafi hún snúið barninu frá sér þannig að það horfði einnig á sjónvarpið með sóknaraðila. Hafi vitnið farið yfir þetta með sóknaraðila og bent henni á nauðsyn þess að kjá við barnið og örva það. Sóknaraðili hafi sagt vitninu að það vildi ekki þessi afskipti og hafi m.a. hringt í vitnið og sagt við það að það vildi þessi samskipti ekki, henni fyndist að þau væru að plana eitthvað á bak við hana. Ljóst var að sóknaraðili treysti ekki neinum. Vitnið kvað sóknaraðila hafa sagt sér það sjálf að hún hafi skilið C eftir einan heima á meðan hún fór út í búð. Sóknaraðili hafi afsakað það með því að C væri góður og ekkert kæmi fyrir hann en hann hafi verið um tveggja og hálfs árs þegar það var. Hafi vitnið rætt þetta sérstaklega við sóknaraðila og bent henni á að þó svo að hún teldi að ekkert gæti komið fyrir barnið þá gæti eitthvað komið fyrir sóknaraðila og þá væri barnið eitt heima. Hafi vitnið látið félagsráðgjafa vita af þessu. Hafi þetta verið rætt mjög alvarlega við sóknaraðila. Stöðufundur hafi verið haldinn í desember en vitnið hafi þá verið inni á heimilinu í tvær vikur. Hálfum mánuði síðar hafi sóknaraðili lokað á þau og ekkert viljað með afskipti þeirra hafa. Afskipti hafi verið af heimilinu áfram í desember og yfir jólin en sóknaraðili þá verið mjög reið og reið út í barnsföður sinn en sóknaraðila hafi fundist hann hafa svikið sig og ekkert vilja fyrir sig gera. Í desember hafi orðið átök á milli sóknaraðila og barnsföður hennar. Vitnið kvaðst hafa verið með málið frá því í lok október 2015 og fram í lok febrúar 2016 en þá hafi vinnan verið orðin mjög erfið. Sóknaraðila hafi greinilega liðið mjög illa og vitnið m.a. spurt hana hvort hún ætti við þunglyndi að stríða en sóknaraðili neitað því. Sóknaraðili hafi verið búinn að lýsa því yfir að hún vildi ekki afskipti af sér og treysti starfsfólkinu ekki svo að fullreynt var að leggja sóknaraðila liðsinni. Hún þurfi aðra og meiri aðstoð. Vitnið kvaðst aðspurt ekki hafa séð sóknaraðila slá C en hún hafi upplifað að hann væri hræddur við móður sína. Vitnið kvaðst yfirleitt hafa komið inn á heimilið á morgnana og þar af leiðandi ekki hitt C nema í um fimm skipti, fyrir utan eitt skipti í leikskólanum. Vitnið kvaðst hafa upplifað fallegt samband á milli ömmu D og C og hann gladdist yfir því að fá gesti á heimilið.     

Málsástæður og lagarök sóknaraðila.

Sóknaraðili byggir kröfu sína á því að lagastoð skorti varðandi úrskurð varnaraðila. Vísi sóknaraðili því til stuðnings til meginreglna barnaverndarlaga nr. 80/2002, sbr. 7. mgr. 4. gr. um meðalhóf, sem seti barnavernd þær skyldur á herðar að reyna ávallt að beita vægari úrræðum áður en öðrum og meiri íþyngjandi úrræðum sé beitt, sem og þeirrar  grundvallarreglu í barnarétti að stjórnvöld skuli ávallt hafa hagsmuni barns að leiðarljósi þegar fjallað sé um málefni þess. Telji sóknaraðili eðlilegra að reyna önnur og vægari úrræði fyrst. Þá segi í 1. mgr. 4. gr. að beita skuli þeim ráðstöfunum sem ætla megi að barni sé fyrir bestu. Sóknaraðili telji vistun barnanna utan heimilis andstæða hagsmunum þeirra. Yngri drengurinn sé m.a. á afar viðkvæmum aldri og nauðsynlegt sé fyrir drengina að vera hjá þeim sem hann þekkir best til að tryggja að þeir nái að mynda örugg tengsl.

             Sóknaraðili byggir jafnframt á því að lagaskilyrðum um vistun barns utan heimilis skv. b-lið 27. gr. og 28. gr. laga nr. 80/2002 sé ekki fullnægt. Samkvæmt ákvæðinu sé áskilið að brýnir hagsmunir barns verði að mæla með vistun utan heimilis. Ekki hafi verið sýnt fram á að svo sé. Áverkar á C eigi sér eðlilegar skýringar, hvort tveggja eftir ferðina í strætisvagninum sem og síðar eftir að vistun utan heimilis hófst og fráleitt sé að halda því fram að sóknaraðili sé grunuð um að beita börn sín ofbeldi. Drengurinn sé þriggja ára, sífellt á ferðinni og eðlilegt að það verði óhapp öðru hvoru. Þá hafi rannsóknarregla 41. gr. barnaverndarlaga ekki verið virt en þar segi að barnaverndarnefnd skuli sjá til þess að mál sé nægilega upplýst áður en ákvörðun sé tekin í því. Í máli þessu liggi meira og minna fyrir nafnlausar tilkynningar sem varnaraðili hafi í hvert skipti metið svo að sóknaraðili þyrfti á uppeldisráðgjöf að halda sem hafi svo dregist að veita. Í ljósi ofangreinds sé ljóst að engin lagaskilyrði séu fyrir þeim úrskurði sem sé kærður.

Málsástæður og lagarök varnaraðila.

Varnaraðili gerir þá kröfu að úrskurður nefndarinnar frá 21. mars sl. um tveggja mánaða vistun sona sóknaraðila utan heimilis verði staðfestur en jafnframt að vistunartíminn verði lengdur þannig að vistunin vari í fjóra mánuði frá 21. mars 2016 með vísan til 28. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Varnaraðili vísar kröfu sinni til stuðnings til málavaxta og gagna máls sem sýna að vaxandi áhyggjur hafi verið af aðstæðum drengjanna á heimili sóknaraðila, skaðlegum uppeldisaðferðum og geðrænni stöðu móður. Sóknaraðili sé að mati starfsmanna varnaraðila að glíma við geðræn einkenni sem hafi skert forsjárhæfni hennar.  Eldri drengurinn hafi frá því að hann hóf leikskóla haustið 2014, þá rúmlega eins árs, sýnt ofbeldisfulla hegðun. Ofbeldishegðun hjá svo ungum börnum bendi til að þau búi við erfiðar aðstæður eða einhvers konar röskun, s.s. ADHD eða skort á aga. 

Varnaraðili vísi til þess að rannsóknir og fræðirit segi að foreldra, sem glími sjálfir við andlega vanlíðan eða geðræn vandamál, skorti þrek og áræðni til að setja börnum sínum mörk. Sóknaraðili eigi að baki áfallasögu, m.a. um ofbeldi af hendi fyrri barnsföður, og grunur sé um að hún sé fórnarlamb mansals. Sóknaraðili hafi ekki unnið úr áfallasögu sinni og í gegnum vinnslu málsins hafi borið á þunglyndi og sjálfsvígshótunum.  Eftir fæðingu D hafi hún einnig sýnt að hún eigi í vandræðum með reiðistjórnun og hafi m.a. ráðist á barnsföður sinn. Synir sóknaraðila hafi brýna hagsmuni af því að fá að kynnast umhverfi þar sem þeir þurfi ekki að þola líkamlegt ofbeldi og afskiptaleysi. Varnaraðili bendi á því til stuðnings að eldri drengurinn hafi sýnt framfarir hvað varði bæði líðan og hegðun síðan hann hafi verið tekin úr umsjá móður. Yngri drengurinn dvelji hjá föðurömmu sinni sem frá því í febrúar hafi annast um hann á daginn meðan sóknaraðili sæki vinnu. Báðum drengjunum líði vel þar sem þeir dvelja og njóti reglulegrar umgengni við sóknaraðila. Mikilvægt sé að sóknaraðili gangist undir forsjárhæfnismat svo að hægt sé að greina vandann og veita henni viðeigandi stuðning. Þau stuðningsúrræði sem reynd hafi verið, einkum Áttan sem sé úrræði þar sem tilsjón og uppeldisráðgjöf sé veitt inni á heimili fjölskyldunnar, hafi ekki skilað árangri. Eldra barnið segi sóknaraðila hafa beitt sig ofbeldi og sóknaraðili hafi sjálf viðurkennt að hafa beitt líkamlegum refsingum og skilið drenginn, sem nú er þriggja ára, einan eftir heima.

Máli sóknaraðila hafi verið lokað eftir 18 vikna vinnu hjá Áttunni vegna skorts á samstarfsvilja sóknaraðila. Samkvæmt lokaskýrslu sé árangur af vinnu ráðgjafa með sóknaraðila lítill sem enginn. Í skýrslunni segi að sóknaraðili hafi almennt átt í erfiðleikum með að fara eftir leiðbeiningum starfsmanns Áttunnar. Ráðgjafi telji að vanlíðan sóknaraðila sé það mikil að það aftri henni frá því að vera sonum sínum stuðningur og fyrirmynd. Varnaraðili hafi brugðist við þessu með því að bjóða sóknaraðila sálfræðiviðtöl og að annar eftirlitsaðili með umgengni hafi jafnframt það hlutverk að leiðbeina sóknaraðila um jákvæðar uppeldisaðferðir og efla forsjárhæfni hennar.

Þá sé því hafnað af hálfu varnaraðila að meðalhófs hafi ekki verið gætt í beitingu úrræða barnaverndarlaga. Gerðar hafi verið fjórar meðferðaráætlanir með sóknaraðila þar sem lögð hafi verið áhersla á stuðning við móður og aðstoð varðandi húsnæðismál og dagvistun. Áttan-uppeldisráðgjöf hafi verið sett inn í málið, regluleg viðtöl hafi verið við félagsráðgjafa og heimsóknir á heimilið. Þá hafi verið mikið samstarf milli varnaraðila og leikskóla C og farið fram sálfræðilegt mat.

Farið sé fram á vistun utan heimilis í allt að fjóra mánuði eða á meðan móðir undirgengst forsjárhæfnismat. Á meðan á vistun standi sé áfram reynt að vinna að því að styrkja móður í uppeldishlutverkinu en sóknaraðili hafi til þessa ekki sýnt samstarfsvilja og sýnt starfsmönnum og öðrum fagaðilum kuldalegt viðmót og ókurteisi. Skýrslur eftirlitsaðila með umgengni gefi til kynna að einnig þurfi að vinna með tilfinningaleg tengsl sóknaraðila við syni hennar. Synir sóknaraðila hafi um nokkurt skeið búið við óviðunandi heimilisaðstæður. Við vinnslu máls hafi borið á skorti á innsæi hjá sóknaraðila og áhugaleysi við að tileinka sér aðferðir til þess að ná utan um eldri drenginn sérstaklega. Varnaraðili vísi til þess að líkamlegri- og andlegri heilsu drengjanna sem og þroska þeirra sé hætta búin í umsjá sóknaraðila. Nauðsynlegt sé að taka þá út úr þessum aðstæðum og leggja mat á hegðun þeirra og líðan í stöðugu umhverfi. Varnaraðila beri samkvæmt barnaverndarlögum að tryggja börnum stöðugleika og öryggi í uppeldi og í þeim tilgangi skuli eftir föngum grípa til þeirra vægustu úrræða sem unnt sé. Gögn málsins sýni að þau almennu stuðningsúrræði sem beitt hafi verið hafi ekki skilað tilætluðum árangri og að aðstæður þeirra hafi farið stigversnandi. Nauðsynlegt sé að grípa inn í aðstæður. Vistun utan heimilis sé að mati varnaraðila nauðsynlegt úrræði til að tryggja öryggi og velferð barnanna.

Með vísan til 1. mgr. 4. gr. barnaverndarlaga séu hagsmunir barnanna hafðir í fyrirrúmi. Varnaraðili telji það ekki samrýmast hagsmunum barnanna að búa áfram við þær aðstæður sem þau hafa búið við hjá sóknaraðila þar sem þau þurfi að þola ofbeldi og tilfinningalega vanrækslu. Réttur barna til þess að njóta viðunandi uppeldis og umönnunarskilyrða skuli vega þyngra en forsjárréttur foreldra. Þessi regla sé grundvallarregla í íslenskum barnarétti og endurspeglist í þeim alþjóðlegu sáttmálum sem Ísland sé aðili að. Hinu opinbera sé skylt að veita börnum þá vernd sem mælt sé fyrir um í 3. mgr. 76. gr. stjórnarskrár Íslands, barnaverndarlögum og samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins. Um lagaheimild er vísað til 28. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Ekki er krafist málskostnaðar úr hendi sóknaraðila.

Forsendur og niðurstaða.

Í hinum kærða úrskurði varnaraðila er niðurstaðan byggð á þeim gögnum sem þegar liggja fyrir í málinu. Til viðbótar hefur komið fram, eftir að úrskurðurinn var kveðinn upp, hvernig  samskipti sóknaraðila við börnin í umgengni hafi verið og framburður hennar og vitnafyrir dóminum.

             Staðfest er af framburði vitnanna M, L og O að sóknaraðili ber ekki traust til starfsmanna barnaverndar og mótast afstaða sóknaraðila til málsins nokkuð af því. Þá staðfesti sóknaraðili það fyrir dóminum að hún beri ekki traust til þeirra starfsmanna sem hafa komið inn á heimili hennar með aðstoð og haft eftirlit með umgengni frá 7. mars sl.

             Fyrir liggur að sóknaraðili var samvinnufús til samstarfs með starfsmönnum barnaverndar og um nýtingu þeirra úrræða sem henni voru lögð til í upphafi afskipta barnaverndar af henni eftir að tilkynningar fóru að berast til varnaraðila. Hins vegar sýna gögn málsins og framburður vitna að samstarfið hafi síðan daprast og hallar þar á sóknaraðila. Ósannað er að áverkar sem drengurinn C var með er hann kom í leikskólann 7. mars sl. hafi verið vegna ásetnings sóknaraðila um að beita drenginn ofbeldi en sóknaraðili hefur hins vegar staðfest að sá áverki sé af hennar völdum. Þrátt fyrir þennan vafa verður að láta barnið njóta vafans en drengurinn sagði frá því að móðir hans hefði slegið hann og verið vond. Þá dregur dómurinn trúverðugleika vitnisins L um að sóknaraðili hafi sagt henni frá því að hún hafi skilið drenginn C, þá rúmlega tveggja ára, eftir einan heima er hún fór að versla, ekki í efa þrátt fyrir neitun móður um það. Styður það framburð vitnisins að það tilkynnti þessa frásögn sóknaraðila strax til félagsráðgjafa sem bar eins fyrir dóminum. Þá hefur sá framburður vitna að sóknaraðili loki C, þá innan við þriggja ára, einan inni í herbergi til að fara að sofa og sinni honum ekki þrátt fyrir grát, og hótað honum rassskellingum hlýddi hann ekki, ekki verið hrakinn. Frásagnir starfsmanna um samskipti og framkomu sóknaraðila við drengina í umgengni bera einnig með sér að sóknaraðili eigi við einhvers konar andlega og tilfinningalega erfiðleika að stríða sem birtist í hegðun hennar gagnvart starfsmönnum varnaraðila og vistforeldrum svo og afskiptaleysi gagnvart drengjunum. Þá telur dómurinn framburð um ofbeldishneigð C, sem farið hefur dvínandi eftir að hann fór í fóstur, benda sterklega til þess að það stafi að einhverju leyti af þeirri fyrirmynd sem hann hefur hann á heimilinu eða af uppeldisskilyrðum sem honum hafa verið búin hjá móður. Menningarmunur, sem sóknaraðili ber fyrir sig, samrýmist ekki þeim gildum sem Ísland er bundið af í Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, barnalögum nr. 76/2003, sbr. 1. gr. laganna, og 1. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.  Er ljóst að sóknaraðili þarf aðstoð og hjálp til að styrkja sig í foreldra- og uppeldishlutverkinu og nýta sér þá þjónustu sem henni stendur til boða í þeim tilgangi frá varnaraðila. Telur dómurinn að hún þurfi aðlögunartíma til þess og geti m.a. nýtt sér rúma umgengni við drengina til að byggja upp traust og virðingu fyrir sjálfri sér sem og öðrum í þeim tilgangi að geta sinnt drengjum sínum í anda barnaverndar-og barnalaga en í 1. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 segir að börn eigi rétt á vernd og umönnun og að þau skuli njóta réttinda í samræmi við aldur sinn og þroska. Í 2. mgr. segir að allir sem hafi uppeldi og umönnun barna með höndum skuli sýna þeim virðingu og umhyggju og óheimilt sé með öllu að beita börn ofbeldi eða annarri vanvirðandi háttsemi. Þá segir ennfremur að foreldrum beri að sýna börnum sínum umhyggju og nærfærin og gegna forsjár- og uppeldisskyldum við börn sín svo sem best henti hag og þörfum þeirra. Þeim beri að búa börnum sínum viðunandi uppeldisaðstæður og gæta velfarnaðar þeirra í hvívetna. Í 1. gr. barnalaga nr. 76/2003 segir að barn eigi rétt á að lifa, þroskast og njóta verndar, umönnunar og annarra réttinda í samræmi við aldur sinn og þroska og án mismunar af nokkru tagi. Óheimilt sé að beita barn hvers kyns ofbeldi eða annarri vanvirðandi háttsemi. Þá segir ennfremur í 2. mgr. að það sem barni sé fyrir bestu skuli ávallt hafa forgang þegar teknar séu ákvarðanir um málefni þess og í 3. mgr. segir að barn eigi rétt á að láta skoðanir sínar í ljós í öllum málum sem það varði og skuli tekið réttmætt tillit til skoðana þess í samræmi við aldur og þroska.

             Af málavöxtum þessa máls telur dómurinn að mikið vanti uppá hjá sóknaraðila svo hún teljist hafa uppfyllt þessi grundvallar og lögbundin réttindi barnanna en úr því megi bæta með samvinnu hennar við barnaverndaryfirvöld og þær stofnanir og aðila sem koma að umönnun og uppeldi barna hennar.

             Sóknaraðili byggir á því að meðalhófs hafi ekki verið gætt í máli þessu og vægari úrræðum hafi mátt beita áður en kom til þess að vista drengina utan heimilis. Af því sem að framan er rakið telur dómurinn að sóknaraðila hafi verið veittur allur sá stuðningur sem hægt var að því marki sem hún þáði sjálf en slíkur stuðningur er ávallt háður því að gagnaðilinn vilji nýta sér hann og sé samstarfsfús. Svo var ekki af hálfu sóknaraðila og var því fullreynt áður en drengirnir voru teknir úr umsjá sóknaraðila.

Drengir sóknaraðila voru vistaðir utan heimilis með úrskurði varnaraðila 21. mars sl. í tvo mánuði. Sá tími er liðinn og hefur sóknaraðili ekki lengur hagsmuni af því að sá úrskurður verði felldur úr gildi. Verður kröfu sóknaraðila að þessu leyti því hafnað.

             Varnaraðili gerir þá kröfu í greinargerð sinni og fyrir dóminum að drengirnir verði vistaðir í tvo mánuði til viðbótar þannig að vistun þeirra utan heimilis vari samtals í fjóra mánuði. Er því mótmælt af sóknaraðila.

Eins og máli þessu er háttað og með vísan til þess sem að framan er rakið telur dómurinn skilyrði vera til staðar til að taka kröfu varnaraðila til greina þannig að drengirnir verði vistaðir utan heimilis í tvo mánuði frá og með uppkvaðningu úrskurðar þessa. Verði sá tími einnig notaður til að gera forsjárhæfnismat á sóknaraðila en beiðni þess efnis var gerð 5. apríl sl. Að auki telur dómurinn nauðsyn að sóknaraðili og drengirnir hafi rúma umgengni á tímabilinu til að styrkja tengsl þeirra og samskipti. 

             Varnaraðili gerir ekki kröfu um málskostnað. Með bréfi innanríkisráðuneytisins, dags. 18. apríl 2016, var sóknaraðila veitt gjafsókn til að bera undirhéraðsdóm úrskurð varnaraðila fyrir héraðsdómi, sbr. 60. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002, sbr. 2. mgr. 126. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Allur gjafsóknarkostnaður sóknaraðila, þ.m.t. þóknun lögmanns hennar, Helgu Völu Helgadóttur héraðsdómslögmanns, sem þykir hæfilega ákveðin 572.880 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, greiðist úr ríkissjóði.

Ástríður Grímsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Úrskurðarorð

Kröfu sóknaraðila um að úrskurður B frá 21. mars sl. um að bræðurnir C og D skuli vistaðir utan heimilis í allt að tvo mánuði frá 21. mars sl. verði felldur úr gildi er hafnað.

             Kröfu varnaraðila, B um að drengirnir skuli vistaðir utan heimilis í fjóra mánuði frá og með 21. mars sl. er tekin til greina.

             Allur gjafsóknarkostnaður sóknaraðila, þ.m.t. þóknun lögmanns hennar, Helgu Völu Helgadóttur héraðsdómslögmanns, 572.880 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, greiðist úr ríkissjóði.