Hæstiréttur íslands

Mál nr. 75/2007


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991


Fimmtudaginn 8

 

Fimmtudaginn 8. febrúar 2007.

Nr. 75/2007.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Jón H. Snorrason saksóknari)

gegn

X

(Guðrún Sesselja Arnardóttir hdl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur. Krafa L um að gæsluvarðhaldi yrði markaður lengri tími en ákveðinn var í héraði kom ekki til álita þar sem hann hafði ekki kært úrskurðinn fyrir sitt leyti.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Hjördís Hákonardóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 6. febrúar 2007, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 7. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 6. febrúar 2007, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 13. febrúar 2007 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Sóknaraðili krefst þess aðallega að varnaraðila verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 16. febrúar 2007 kl. 16, en til vara að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur, en ekki kemur til álita krafa sóknaraðila, sem hefur ekki kært úrskurðinn fyrir sitt leyti, um að gæsluvarðhaldi verði markaður lengri tími en þar greinir.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

                                                                                                                 

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykja­víkur 6. febrúar 2007.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur lagt fram kröfu þess efnis að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, kt. [...], verði gert að sæta gæsluvarðhaldi, allt til föstudagsins 16. febrúar nk. kl. 16:00.

Í greinargerð lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu kemur fram að upphaf máls þessa megi rekja til þess að í sjónvarpsþættinum Kompás er sýndur var þann 28. janúar sl. á Stöð 2 hafi verið fjallað um fullorðna karlmenn sem hafi farið í íbúð, sagt heimili 13 ára stúlku er þeir höfðu verið í samskiptum við á spjallforritinu MSN, og mælt sér mót við. Þann 29. janúar sl. hafi kærði gefið sig fram sem einn af þeim mönnum er höfðu svarað tilbúinni auglýsingu starfsmanna þáttarins og í framhaldi af því mælt sér mót við “stúlkuna”. Virðist af gögnum málsins sem kærði hafi komið á tilbúið heimili “stúlkunnar” þann 10. janúar sl. í því skyni að hafa við hana kynferðismök.

Í kjölfar þess að kærði hafi gefið sig fram við lögreglu þann 29. janúar sl. hafi hann verið boðaður í skýrslutöku þann 2. febrúar sl. og í framhaldi af þeirri skýrslutöku hafi tölva hans er hann hafði notað í samskiptum við starfsmenn Kompás verið haldlögð.

Þann 5. febrúar sl. hafi tölva kærða verið skoðuð. Við skoðun hafi fundist 13 ljósmyndir er teljist barnaklám að mati lögreglu auk þriggja myndbanda er teljist barnaklám, þar af eitt tvítekið. Þá hafi jafnframt fundist 3782 skrár er innihaldi log-samskipti úr spjallforritum. Muni ljósmyndirnar hafa orðið til á tímabilinu frá 29. ágúst 2005 til 21. janúar 2007. Einni þessara mynda hafi verið eytt en aðrar hafi verið til staðar í möppum á harða disknum. Þá hafi annað myndbandið, það sem hafði verið tvítekið, orðið til þann 17. desember 2005 en hitt myndbandið orðið til þann 4. júlí 2006. Virðist sem bæði myndskeiðin séu tekin á svipaðan hátt. Þá hafi log-skrárnar orðið til á tímabilinu frá 12. júní 2005 til 31. janúar 2007.

Í kjölfar þessarar rannsóknar lögreglu hafi kærði verið handtekinn og húsleit framkvæmd á heimili hans. Hafi á heimili hans verið haldlögð tölva ásamt fjölda mynddiska.

Í gær, þann 5. febrúar, hafi önnur skýrsla verið tekin af kærða. Hafi honum þá m.a.  verið sýnt annað þeirra myndbanda er lögregla fann í tölvu hans er sýnir stúlku eiga munnmök við mann.  Kvaðst hann kannast við andlitið á þeirri stúlku, sagði stúlkuna hafa sent honum myndskeiðið árið 2006 en þau hafi spjallað saman á MSN. Er honum voru sýndar 13 ljósmyndir, barnaklám er lögregla fann í tölvu hans, kvaðst hann hafa fengið þær allar í gegnum netið. Viti hann ekki hvaðan þær komu, hann þekki ekki stúlkurnar og vildi taka það fram að hann hefði ekki skoðað þær. Þá sagði hann aðspurður um myndskeið er sýni barn hafa samfarir við fullorðinn mann að hann geti ekki mótmælt því sem sé á tölvunni en hann hafi ekki vísvitandi vistað efni sem flokkist undir barnaklám. Kvaðst hann ekki muna eftir að hafa séð það myndskeið, hann geti ekki séð myndskeið með endingunni AVI.

Telji lögregla sig vita hver stúlkan á öðru myndbrotinu sé en hún muni vera fædd árið 1989.

Með vísan til málsatvika og þess hvernig rannsókn málsins hafi þróast eigi lögregla enn langt í land með að meta hversu umfangsmikil ætluð brot kærða séu en lögreglustjórinn telur að meint brot hans kunni að varða við XXII. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940, einkum 202. og 210. gr. þeirra laga með áorðnum breytingum. Telur lögreglustjórinn rökstuddan grun um að kærði hafi brotið gegn stúlkunum er sýndar séu á þeim myndbrotum er lögregla fann í tölvu hans auk þess er hann hafði í vörslum sínum barnaklám. Þá vísi lögreglustjórinn til þess að bæði myndbrotin virðist vera tekin á mjög líkan hátt, þ.e. af þeim manni er hefur kynferðismök við stúlkurnar.  Sé það því mat lögreglustjóra að brýn nauðsyn sé á að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi svo lögreglu gefist tími til að meta umfang rannsóknarinnar og að ná tali af vitnum og/eða hugsanlega samsekum. Þá sé það jafnframt mat lögreglu að gangi kærði laus megi ætla að hann torveldi til muna rannsókn lögreglu með því að koma undan gögnum og/eða öðrum munum sem geti haft þýðingu við framhald rannsóknarinnar, auk þess er hann geti haft áhrif á hugsanleg vitni og/eða samseka.

Með vísan til framangreinds, hjálagðra gagna og rannsóknarhagsmuna svo og til a-liðar 103. gr. laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála, sé þess farið á leit að fallist verði á framkomna kröfu. 

Með vísan til framlagðra rannsóknargagna þykir vera fyrir hendi rökstuddur grunur um að kærði hafi framið verknað sem fangelsisrefsing er lögð við.  Þá má ætla að kærði kunni að torvelda rannsókn málsins svo sem með því að afmá merki eftir brot, skjóta undan munum eða hafa áhrif á vitni eða samseka.  Þykja því vera fyrir hendi skilyrði til þess að kærði sæti gæsluvarðhaldi á grundvelli a-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Ber því að verða við kröfu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu um að kærði sæti gæsluvarðhaldi þó eigi lengur en til þriðjudagsins 13. febrúar nk. kl. 16:00.

Greta Baldursdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð:

Kærði, X, kt. [...], sæti sæta gæsluvarðhaldi, allt til þriðjudagsins 13. febrúar nk. kl. 16:00.