Hæstiréttur íslands

Mál nr. 52/2007


Lykilorð

  • Kærumál
  • Útivist
  • Niðurfelling máls


Mánudaginn 12

 

Mánudaginn 12. febrúar 2007.

Nr. 52/2007.

Þórir Gísli Sigurðsson

(Klemenz Eggertsson hdl.)

gegn

Dofra Þórðarsyni og

Poulu Steingrímsdóttur Petersen

(Ragnar Aðalsteinsson hrl.)

 

Kærumál. Útivist. Niðurfelling máls.

Við fyrirtöku máls var ekki sótt þing af hálfu gagnstefnanda Þ og var gagnsök því felld niður í samræmi við b. lið 1. mgr. 105. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Hann fór fram á endurupptöku málsins, þar sem lögmaður hans hefði haft lögmæt forföll samkvæmt 1. mgr. 97. gr. sömu laga. Ekki var fallist á að forföll lögmannsins yrðu réttlætt á grundvelli b. liðar málsgreinarinnar eða annarra stafliða hennar. Var kröfu hans um endurupptöku málsins því hafnað.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Hjördís Hákonardóttir og Hrafn Bragason.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 23. janúar 2007, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 26. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 22. janúar 2007, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um endurupptöku á gagnsakarmáli, sem sóknaraðili hefur höfðað gegn varnaraðilum. Kæruheimild er í i. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og endurupptaka málsins heimiluð.

Varnaraðilar krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Sóknaraðili greiði varnaraðilum kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Þórir Gísli Sigurðsson, greiði varnaraðilum, Dofra Þórðarsyni og Poulu Steingrímsdóttur Petersen, samtals 150.000 krónur í kærumálskostnað.

 

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 22. janúar 2007. 

          Með beiðni móttekinni 15. janúar sl. krefst Klemenz Eggertsson hdl. fyrir hönd Þóris Gísla Sigurðssonar, endurupptöku framangreinds máls þar sem lögmaðurinn hafi haft lögmæt forföll í þinghaldi 19. desember sl.

Í aðalsök var málið höfðað 9. júní 2005 en í gagnsök 9. ágúst 2006. Mál þessi voru sameinuð í þinghaldi 16. nóvember sl. með ákvörðun dómara að ósk gagnstefnanda en gegn mótmælum aðalstefnenda, að gengnum úrskurði um höfnun á frávísunarkröfu aðalstefnenda í gagnsök.

          Aðalstefnendur eru Dofri Þórðarson og Paula Steingrímsdóttir Petersen, bæði til heimilis að Tungumel 20, Reyðarfirði.

Gagnstefnandi er Þórir Gísli Sigurðsson, Fjallalind 106, Kópavogi.

Í aðalsök eru kröfur aðalstefnenda þær að stefndi verði dæmdur til að greiða þeim 2.637.100 krónur með dráttarvöxtum, skv. III. kafla laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 1. maí 2005 til greiðsludags, þannig að dráttarvextir leggist við höfuðstól á tólf mánaða fresti, í fyrsta sinn 1. maí  2006. Þá er krafist málskostnaðar að teknu tilliti til virðisaukaskatts.

Í aðalsök krefst stefndi sýknu af öllum kröfum stefnenda og að stefnendum verði gert að greiða stefnda málskostnað að teknu tilliti til virðisaukaskatts.

          Í gagnsök krefst gagnstefnandi þess aðallega að stefndu verði óskipt dæmd til þess að greiða stefnanda 7.621.177 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III., IV. og V. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. febrúar 2006 til greiðsludags. Til vara að aðalstefnendur verði dæmd til að greiða gagnstefnanda óskipt 7.396.177 krónur með dráttarvöxtum eins og í aðalkröfu. Í báðum tilvikum er krafist málskostnaðar. Þá krefst gagnstefnandi þess að stefndu verði dæmd til að gefa út fyrirvaralaust afsal fyrir fasteigninni Fjallalind 106, Kópavogi, að viðlögðum 30.000 króna dagsektum.

Aðalstefnendur kröfðust í gagnsök aðallega frávísunar málsins, til vara sýknu en að því frágengnu að kröfur gagnstefnanda yrðu lækkaðar. Í öllum tilvikum krefjast þau málskostnaðar.            

I.

Málavextir eru í stuttu máli þeir að gagnstefnandi keypti af aðalstefnendum fasteign að Fjallalind 106, Kópavogi og er kaupsamningur dagsettur 2. september 2004. Kveður gagnstefnandi að fljótlega hafi komið í ljós að fasteignin hafi ekki verið í umsömdu ástandi og miklir gallar á smíði hússins. Þá hafi komið fram í söluyfirliti fasteignasölu að tvær íbúðir hafi átt að vera í húsinu en önnur þeirra hafi reynst ósamþykkt. Gagnstefnandi kveðst hafa aflað úttektar frá sérfróðum manni, Braga Michaelssyni, um ástand hússins. Þá hafi gagnstefnandi fengið Gunnar Torfason dómkvaddan til að framkvæma mat á eigninni og liggi matsgerð hans dagsett 7. janúar 2006 fyrir í málinu.

Fyrir liggur að gagnstefnandi hélt eftir lokagreiðslu að fjárhæð 2.637.100 krónur með gjalddaga 1. maí 2005 og 9. júní 2005 höfðuðu aðalstefnendur mál á hendur gagnstefnanda til heimtu eftirstöðva kaupverðs samkvæmt kaupsamningi. Stefnandi skilaði greinargerð í því máli 7. september 2005 og krafðist sýknu á grundvelli þess að önnur íbúðanna í húsinu hafi verið ósamþykkt og miklir gallar hafi verið á smíði þess. Var áskilinn réttur til að gagnstefna til heimtu fullra skaðabóta þegar fyrir lægi niðurstaða hins dómkvadda matsmanns. Eins og fyrr greinir lá matsgerð fyrir 7. janúar 2006 og var gagnsakarmál höfðað 20. sama mánaðar. Þann 20. júní var gagnsök vísað frá dómi þar sem ekki hefði við höfðun hennar verið gætt þess frests sem áskilinn sé í 2. mgr. 28. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Þá þótti gagnsök einnig vanreifuð.

Gagnstefnandi höfðaði 9. ágúst sl. nýtt mál til heimtu gagnkrafna, sem hann taldi sig eiga á hendur gagnstefndu. Sá dómari sem áður fór með mál þessi forfallaðist og var þeim dómara sem nú fer með þau úthlutað málunum 20. október sl. Var boðað til munnlegs málflutnings um frávísunarkröfu aðalstefnenda í yngra málinu og úrskurður kveðinn upp þar sem kröfunni var hafnað þann 16. nóvember sl. Voru málin sameinuð í þinghaldi þann dag þar sem dómara þótti sýnt að sönnunarfærsla yrði með svipuðum hætti í báðum málunum og úr því sem komið væri yrði það ekki til tafa á að niðurstaða fengist. Í því þinghaldi var einnig ákveðinn tími til aðalmeðferðar 6. desember sl. Lögmaður aðalstefnenda hafði þó uppi fyrirvara um þetta þar sem hann hefði í greinargerð sinni í gagnsök gert kröfu um að gagnstefnanda yrði varnað að leiða tilgreind vitni. Var ekki bókað sérstaklega um þennan áskilnað lögmannsins. Þann 17. nóvember barst dóminum bréf þar sem lögmaður aðalstefnenda lýsti því yfir að hann myndi við upphaf aðalmeðferðar krefjast úrlausnar dómsins um framangreindan ágreining. Var því aðalmeðferð frestað og boðað til munnlegs málflutnings þann 6. desember sl. um ágreininginn. Var málið flutt þann dag og tekið til úrskurðar og var bókað að boðað yrði sérstaklega til uppkvaðningar úrskurðarins. Með tölvubréfi, sem ber með sér að hafa verið sent um klukkan 9 árdegis 18. desember sl. boðaði dómari til uppkvaðningar úrskurðarins þann 19. desember kl. 15:45. Staðfesting á móttöku boðunar í þinghald barst frá lögmanni gagnstefnanda um klukkustund síðar og hafði hann þar ekki uppi athugasemdir við tímasetningu þinghaldsins. Síðar sama dag barst staðfesting á boðun frá lögmanni aðalstefnenda.

Við fyrirtöku málsins á áðurnefndum tíma var ekki mætt af hálfu lögmanns gagnstefnanda og engin forföll boðuð. Tilraun var gerð til að ná símasambandi við lögmanninn en þær reyndust árangurslausar. Í samræmi við ákvæði 3. mgr. sbr. 1. mgr. 96. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála var aðalstefnanda veittur frestur til að leggja fram sókn í aðalsök og var málinu frestað í því skyni til 8. janúar sl. Við fyrirtöku þann dag höfðu ekki borist neinar tilkynningar frá gagnstefnanda um lögmæt forföll. Lagði lögmaður aðalstefnanda þá fram sókn af sinni hálfu. Með ákvörðun dómara voru aðalsök og gagnsök skilin í sundur að nýju og gagnsök fékk sitt upprunalega málanúmer E-1260/2006. Var málið nr. E-1337/2005 að því lokun tekið til dóms, en málið nr. E-1260/2006 tekið til úrskurðar um niðurfellingu og málskostnað í samræmi við ákvæði 2. mgr., sbr. b. lið 1. mgr. 15. gr. laga nr. 91/1991. Hvorki hefur verið kveðinn upp dómur í máli nr. E-1337/2005 né úrsurður í máli nr. E-1260/2006 og bíður það úrlausnar þeirrar kröfu sem hér liggur fyrir, enda ljóst að verði fallist á kröfuna verður í samræmi við ákvæði 4. mgr. 97. gr. laga nr. 91/1991 að taka málið upp frá og með þinghaldi 6. desember sl.

II.

Í beiðni sinni gerir krefst lögmaður gagnstefnanda þess að málið verði endurupptekið þar sem hann hafi haft lögmæt forföll í þinghaldinu þar sem hann hafi þurft að vera viðstaddur jarðarför föðursystur sinnar á þeim tíma sem þinghaldið var. Vísar hann um kröfuna til b. liðar 1. mgr. 97. gr. einkamálalaga nr. 91/1991 og til hliðsjónar 4. mgr. 115. gr. sömu laga.

Kveðst lögmaðurinn í beiðni sinni hafa fengið tilkynningu á tölvupósti þann 18. desember sl. um að þann 19. desember kl. 15:45 yrði málið tekið fyrir og kveðinn upp úrskurður og hafi hann staðfest móttöku boðunarinnar.

Upp úr hádegi þann 19. desember hafi systir hans, sem búsett sé á Akureyri, hringt og spurt hvort hann ætlaði ekki að mæta við jarðarför föðursystur þeirra, sem jörðuð yrði sama dag klukkan 15:00, þar sem enginn af þeirra legg fjölskyldunnar gæti mætt við útförina. Hafi lögmaðurinn sagst ætla að gera það, enda hefði hann hugsað sér það frá því að hann hafi frétt andlát konunnar, en honum hafi ekki verið kunnugt um það fyrr en þarna, að útförin færi fram þennan dag. Hafi hann því mætt við útförina, sem staðið hafi til rúmlega fjögur og eðlilega hafi verið slökkt á farsíma hans á  meðan.

Kveðst lögmaðurinn hafa farið í Héraðsdóm Reykjaness daginn eftir og sótt endurrit úrskurðarins og hafi hann greitt fyrir það. Hafi hann því talið að allt væri í stakasta lagi og að eftir áramót yrði boðað til þinghalds í málinu.

Síðastliðinn föstudag hafi lögmaður gagnaðila svo hringt í hann og spurt hann hvort hann vissi af því að málið hefði verið fellt niður. Hafi lögmaður gagnaðila tjáð honum um afdrif málsins og hafi þær upplýsingar komið honum í opna skjöldu. Hafi hann í framhaldi haft samband við dómara málsins, sem staðfest hafi framangreint. Kveðst lögmaðurinn byggja á því að hann hafi verið löglega forfallaður í skilningi laga þar sem hann hafi þurft að vera við jarðarför föðursystur sinnar og krefst þess að málin verði endurupptekin.

III.

Fyrir liggur að til þinghalds 19. desember sl. var boðað til að kveða upp úrskurð um ágreining aðila um heimild til að leiða tiltekin vitni við fyrirhugaða aðalmeðferð málsins. Boðað var til þinghaldsins með sannanlegum hætti og staðfestu lögmenn boðunina án athugasemda við tímasetning þinghaldsins. Var lögmanni gagnstefnanda skylt að mæta þar, eða tryggja að öðrum kosti mætingu af hálfu umbjóðanda síns. Vísast um þetta til ákvæða 1. mgr., sbr. 3. mgr. 96. gr. laga nr. 91/1991 varðandi aðalsök málsins en um gagnsök til b. liðar 1. mgr. 105. gr., sömu laga, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 24. ágúst 1999 í máli nr. 238/1999: Anna Kristrún Jónsdóttir gegn Íslandsbanka hf.

Þá liggur fyrir að úrskurður sá sem kveða átti upp í nefndu þinghaldi var að svo komnu ekki kveðinn upp og málinu frestað til framlagningar sóknar af hálfu aðalstefnanda. Texti úrlausnarinnar var hins vegar tilbúinn og vistaður í tölvukerfi embættisins. Fyrir mistök prentaði starfsmaður embættisins út eintak af þessum texta þegar lögmaður gagnstefnanda leitaði eftir því þann 20. desember og staðfesti, sem rétt endurrit úrskurðar. Var þetta gert án samráðs við dómara og án hans vitundar. Verða síðastgreind atvik að teljast í hæsta máta óheppileg, en geta að engu haft áhrif á úrlausn kröfu lögmanns gagnstefnanda um að litið verði svo á að umrædd forföll hans teljist lögmæt.

Í 97. gr. laga nr. 91/1991 er í 1. mgr. stafliðum a.-f. kveðið á um hvaða forföll aðila frá þinghaldi geti talist lögmæt. Þá er í 2.mgr. sömu lagareinar kveðið á um að lögmæt forföll umboðsmanns aðila jafngildi lögmætum forföllum hans sjálfs. Í b. lið 1. mgr. ákvæðisins er kveðið á um að förföll séu lögmæt, stafi þau af veðri, torfærum eða öðrum óviðráðanlegum ástæðum. Vísar lögmaður gagnstefnanda til nefnds b. liðar til stuðnings kröfu sinni. Í 4. mgr. sama lagaákvæðis er mælt fyrir um það að hafi aðili ekki mætt í máli en haft lögmæt forföll sem dómara hafi verið ókunnugt um og ekki hafi verið unnt að tilkynna honum, geti aðilinn snúið sér til dómara með sönnun fyrir forföllum sínum og skriflegri beiðni um endurupptöku máls, enda hafi dómur ekki gengið í því.

Í beiðni sinni lýsir lögmaðurinn því að hann hafi þurft að vera við útför föðursystur sinnar á sama tíma og umrætt þinghald var, en honum hafi ekki orðið kunnugt um það hvenær útförin ætti að fara fram fyrr en upp úr hádegi 19. desember, en útförin hafi hafist klukkan 15 þann dag. Ber dómari ekki brigður á að þessi lýsing lögmannsins sé rétt og verður hún lögð til grundvallar úrlausninni.

Ekkert liggur fyrir um að lögmaður gagnstefnanda hafi reynt að hafa samband við dómara eða lögmann gagnaðila síns þegar honum varð samkvæmt framansögðu ljóst upp úr hádegi 19. desember að hann gæti ekki mætt til þinghaldsins kl. 15:45 þann dag. Verður að telja að þetta hefði honum þó verið í lófa lagið og ekki er byggt á því að einhver vandkvæði hefðu verið á slíku. Höfðu því engar upplýsingar borist um forföll hans þegar dómþing var sett kl. 15:45 umræddan dag. Hafði útivist lögmanns gagnstefnanda þau áhrif sem lýst er í 1. mgr., sbr. 3. mgr. 96. gr. laga nr. 91/1991 varðandi aðalsök málsins en um gagnsök í  b. lið 1. mgr. 105. gr. Eru þessi áhrif útivistar aðila á málsmeðferðina ekki valkvæð og ekki háð kröfu gagnaðila. Þau forföll sem lögmaðurinn hefur nú tilkynnt í beiðni sinni um endurupptöku verða ekki réttlætt á grundvelli b. liðar 1. mgr. 97. gr. laga nr. 91/1991, né verður talið að aðrir stafliðir ákvæðisins renni stoðum undir beiðnina. Hefði lögmanninum verið í lófa lagið að leita eftir breytingu á tímasetningu þinghaldsins í samráði við dómara, eða leita til annars lögmanns til að tryggja mætingu. Verður að telja að sá fyrirvari sem lögmaðurinn lýsir sjálfur að hann hafi haft hefði veitt honum nægilegt ráðrúm til að grípa til viðeigandi ráðstafana. Verður því við það að una að málið sé komið í þann farveg sem nú er og er ekki tilefni til að fallast á beiðni um endurupptöku þess á þeim grundvelli að lögmaður gagnstefnanda hafi haft lögmæt forföll í þinghaldi 19. desember sl. kl. 15:45. 

Halldór Björnsson settur héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

          Hafnað er kröfu gagnstefnanda, Þóris Gísla Sigurðssonar, um endurupptöku málsins E-1337/2005, á þeim grundvelli að lögmaður hans hafi haft lögmæt forföll í þinghaldi 19. desember sl. kl. 15:45.