Hæstiréttur íslands

Mál nr. 330/1999


Lykilorð

  • Ómerking
  • Heimvísun
  • Játningarmál


Fimmtudaginn 16

 

Fimmtudaginn 16. desember 1999.

Nr. 330/1999.

Ákæruvaldið

(Sigríður Jósefsdóttir saksóknari)

gegn

Sigurði Heimi Sigurðssyni

(Erla S. Árnadóttir hrl.)

 

Ómerking. Heimvísun. Játningarmál.

Þar sem ákærði hafði ekki skýlaust játað þá háttsemi sem honum var gefin að sök í ákæru var talið, að héraðsdómara hefði ekki verið rétt að fara með málið sem játningarmál samkvæmt 125. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Þótti ekki verða hjá því komist, að ómerkja héraðsdóm og vísa málinu heim í hérað til löglegrar meðferðar af þessum sökum.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Pétur Kr. Hafstein, Guðrún Erlendsdóttir og Hrafn Bragason.

Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 5. ágúst 1999 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun og jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst staðfestingar á sakfellingu en þyngingar á refsingu.

Ákærði krefst þess, að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað frá héraðsdómi en ella krefst hann sýknu. Verði á hvorugt fallist krefst ákærði vægari refsingar.

Samkvæmt ákæru 16. mars 1999 var ákærði sóttur til saka fyrir brot gegn lögum um virðisaukaskatt og lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda með því að hafa ekki, sem stjórnarmaður og framkvæmdastjóri Heimis ehf., staðið skil á virðisaukaskatti á árinu 1996, samtals að fjárhæð 2.630.881 krónu, eða skil á staðgreiðslu opinberra gjalda, sem haldið var eftir af launum starfsmanna Heimis ehf., á árunum 1995 og 1996, samtals að fjárhæð 269.389 krónur. Í ákæru er þetta talið varða við 1. mgr., sbr. 6. mgr., laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt, sbr. 3. gr. laga nr. 42/1995,  2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda, sbr. 2. gr. laga nr. 42/1995, og 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 39/1995 og 139. gr. laga nr. 82/1998.

Í skýrslu fyrir héraðsdómi 4. maí 1999 er eftirfarandi bókað: „Ákærði kveðst skýlaust játa að hafa gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæruskjali en kveðst ekki vera viss um að þessar fjárhæðir séu réttar og vísar til þeirra gagna sem lögð eru nú fram.“ Gögn þau, sem lögð voru fram, voru ljósrit af virðisaukaskattskýrslum Heimis ehf. og greiðslukvittun sýslumannsins í Kópavogi til fyrirtækisins. Var tekið fram, að gögnin sýndu, að greiðslan hefði ekki verið færð á yfirlit yfir innborganir vegna virðisaukaskatts. Málinu var frestað og næst tekið fyrir 12. maí, en þá voru lagðir fram hreyfingarlistar varðandi Heimi ehf. úr bókhaldi sýslumannsins í Kópavogi. Málinu var síðan frestað til 19. maí og aftur til 26. maí. Þá var lagt fram af ákæruvaldsins hálfu yfirlit um innborganir, greiðslustöðu o.fl. Í samræmi við framlögð skjöl var gerð sú breyting á ákæru af hálfu ákæranda, að fjárhæð vanskila vegna staðgreiðslu opinberra gjalda ársins 1996 var lækkuð úr 69.896 krónum í 11.703 krónur. Ákærði kom ekki fyrir dóminn á ný svo að honum gæfist kostur á að gera grein fyrir afstöðu sinni til ákæruatriða svo breyttra. Hins vegar var skriflegri gagnaöflun lýst lokið og bókað: „Ákærandi og verjandi tjá sig um lagaatriði og viðurlög.“ Verjandi krafðist síðan aðallega frávísunar málsins, til vara krafðist hann þess, að ákærði yrði sýknaður og til þrautavara að hann yrði dæmdur í vægustu refsingu, sem lög heimiluðu.

Í héraðsdómi er tekið fram, að málið sé dæmt samkvæmt 125. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, en ákærði hafi játað afdráttarlaust að hafa gerst sekur um þá háttsemi, sem honum var gefin að sök í ákæru. Samkvæmt því, sem að framan er rakið er þó ljóst, að ekki var fullnægt því skilyrði fyrir meðferð máls eftir 125. gr. laga nr. 19/1991, að ákærði hefði játað skýlaust alla þá háttsemi, sem honum var gefin að sök. Verður ekki komist hjá því að ómerkja héraðsdóm og vísa málinu heim í hérað til löglegrar meðferðar.

Samkvæmt þessum úrslitum verður allur sakarkostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti felldur á ríkissjóð þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða á báðum dómstigum, svo sem í dómsorði greinir.

Það athugast, að héraðsdómara hefði verið rétt að bóka skilmerkilega í þinghaldi 26. maí 1999, að málið yrði dæmt samkvæmt 125. gr. laga nr. 19/1991.

D ó m s o r ð:

Hinn áfrýjaði dómur er ómerktur, og er málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar.

Sakarkostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða í héraði, Erlu S. Árnadóttur hæstaréttarlögmanns, 140.000 krónur, og sama verjanda fyrir Hæstarétti, 60.000 krónur.

 

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 28. júní 1999.

Ár 1999, mánudaginn 28 júní er á dómþingi Héraðsdóms Reykjaness sem háð er að Brekkugötu 2 í Hafnarfirði af Guðmundi L. Jóhannessyni héraðsdómara kveðinn upp dómur í málinu nr. S-249/1999: Ákæruvaldið gegn Sigurði Heimi Sigurðssyni, sem dómtekið var 26. maí s.l.

Málið er með ákæru útgefinni 16. mars s.l. höfðað gegn Sigurði Heimi Sigurðssyni, Galtalind 16, 200 Kópavogi, kt. 300549-4629, fyrir eftirtalin refsilagabrot:

 

„I.Fyrir brot gegn lögum um virðisaukskatt með því að hafa eigi, sem stjórnarmaður og framkvæmdastjóri Heimis ehf., kt. 650992-2379, í samræmi við það sem lög áskilja, staðið Sýslumanninum í Kópavogi skil á virðisaukaskatti, á árinu 1996, samtals að fjárhæð kr. 2.630.881 og sundurliðast sem hér greinir:

Greiðslutímabil:

Árið 1996

Janúar - febrúar kr. 340.052

Mars - apríl kr. 718.601

Maí - júní kr. 1.572.228kr. 2.630.881

Samtals kr. 2.630.881

Telst þetta varða við 1. mgr. 6. mgr., laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt, sbr. 3. gr. laga nr. 42/1995 og 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 39/1995, sbr. nú einnig 139. gr. laga nr. 82/1998.

 

II. Fyrir brot gegn lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda, með því að hafa eigi, sem stjórnarmaður og framkvæmdastjóri Heimis ehf., kt. 650992-2379, í samræmi við það sem lög áskilja, staðið Sýslumanninum í Kópavogi skil á staðgreiðslu opinberra gjalda, sem haldið var eftir af launum starfsmanna Heimis ehf., á árunum 1995 og 1996, samtals að fjárhæð kr. 296.389 og sundurliðast sem hér greinir:

Greiðslutímabil:

Árið 1995

Júlí kr. 18.735

Desember kr. 180.758 kr. 199.493

Árið 1996

Maí kr. 69.896 kr. 69.896

Samtals kr. 269.389

Telst þetta varða við 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987, sbr. 2. gr. laga nr. 42/1995 og 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 1. gr. laga nr. 39/1995, sbr. nr. einnig 139. gr. laga nr. 82/1998.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar fyrir framangreind brot.“

Undir rekstri málsins var gerð sú breyting á II. kafla ákærunnar af hálfu ákæruvaldsins að inn í liðinn maí 1996 var sett kr. 11.703,- í stað kr. 69.836,- og samtala kr. 211.196,- í stað kr. 269.389,-

Málið er dæmt samkvæmt 125. gr. laga nr. 19/1991. Ákærður hefur játað afdráttarlaust að hafa gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru. Af hans hálfu voru þó lögð fram ljósrit af virðisaukaskattsskýrslum dskj. nr. 5-7 og greiðslukvittun frá sýslumanninum í Kópavogi til Heimis ehf., en hann taldi að ættu að leiða til leiðréttingar á fjárhæðum í ákæru.

Málinu hefur verið frestað nokkrum sinnum, svo að ákærandi og verjandi ákærða hafi getað yfirfarið kæru- og rannsóknargögn og borið saman við þau gögn sem lögð hafi verið fram af ákærða til styrktar efasemdum hans um fjárhæðir í ákæru. Þessar kannanir hafa leitt til framangreindrar leiðréttingar á ákæru.

Ákærður hefur gert þessar kröfur:

1. Að málinu verði vísað frá dómi.

2. Að hann verði alfarið sýknaður af kröfum ákæruvaldsins.

3. Að hann hljóti þá vægustu refsingu sem lög heimili.

Í öllum tilvikum er krafist málsvarnarlauna til skipaðs verjanda hans Erlu S. Árnadóttur hrl.

Frávísunarkröfu sína byggir ákærður á því, að ekki hafi verið tilefni til að gefa út ákæru í málinu, þar eð það hafi ekki verið fullrannsakað og er þá vísað einkum til skjala nr. 5 og 8 og greiðslu á 140.718,- sem ekki sé getið á yfirliti merkt skjal nr. 3.II.7 sbr. tímabil 32 sem þar er tilgreint. Einnig er vísað til 29. gr. laga nr. 201/1995 og er því haldið fram að málinu hafi átt að vísa til yfirskattanefndar, nema undanskot nemi verulegri fjárhæð. Þá er og vísað til 11. og 12. gr. stjórnsýslulaga og að ekki skyldi áður kannað um innborganir.

Ekki er fallist á þetta. Rannsókn máls þessa var með eðlilegum og venjulegum hætti og átti ákærður við hana kost á að koma að öllum þeim gögnum sem hann óskaði og að skýra mál sitt og hefur frekari könnun á gögnum ákæruvaldsins við rekstur málsins einungis leitt til lítils háttar breytingu á ákæru. Ekki er heldur fallist á að undanskotið hafi verið óverulegt. Kröfunni er því hrundið.

Sýknukröfuna byggir ákærði aðallega á því að hann hafi afhent virðisaukaskattsskýrslur á réttum tíma og hafi ekki hagnast á persónulega af ætluðu broti og langt sé liðið frá því að það eigi að hafa gerst, en rannsókn málsins þó verið einföld. Þá er vísað til 67. sbr. 65 gr. stjórnarskrár, sbr. 3. og 5. gr. stjórnskipulaga, 5. gr. mannréttindasáttmála Evrópu og 14. gr. viðaukans við hann, en það samrýmist ekki þessum ákvæðum að gera það refsivert að greiða ekki skattskuld. Þá er bent á, að virðisaukaskattur sé ekki vörsluskattur, þar eð hann sé óháður greiðslu fyrir sölu á vörum eða þjónustu. Hér sé því nánast um að ræða venjulega fjárkröfu. Þá er vísað til 289. gr. dönsku hgl., sem gangi skemur en þau íslensku um sama efni.

Ákærða er ekki gert að sök að hafa ekki skilað skattsskýrslum, heldur að hafa ekki gert skil á álögðum virðisaukaskatti og afdregnum staðgreiðsluskatti. Virðisaukaskattur er lagður á veltu sem nær yfir tvo mánuði áður en skýrslu er skilað og kemur ekki til greiðslu fyrr en um 2 mánuðum síðar. Þannig að yfirleitt hefur fengist greiðsla á skattinum í sambandi við hlutaðeigandi sölu, er að því kemur að gera skil á honum til sýslumanns.

Virðisaukaskattinn ber að innheimta af kaupanda um leið og sala fer fram og telst eign ríkissjóðs og bera að skila til innheimtumanna hans eins og mælt er fyrir um í lögum nr. 50/1988 sbr. síðari breytingar á lögunum, og er óheimilt að draga þetta fé inn í rekstur fyrirtækja, nema hagur þess sé þannig að öruggt sé um getu þess til að skila því til innheimtumanns á tilskyldum tíma. Bæði virðisaukaskattur og staðgreiðsluskattur verða að teljast vörsluskattar og verður að líkja vanskilum á þeim við fjárdráttarbrot en refsing við slíkum brotum gefur engan veginn talist stríða gegn þeim mannréttindaákvæðum, sem ákærður vísar til. Sýknukrafa ákærða er því ekki tekin til greina.

Um lækkunarkröfuna er vísað til greinargerðar með lögum um virðisaukaskatt, en samkvæmt þargreindum sjónarmiðum verði brot ákærða að teljast minniháttar sbr. og dómur frá 18. júní 1998 í máli ákæruvaldsins gegn Steinari Birgi Ísleifssyni og ennfremur beri að taka tillit til þess, að ekki hafi verið fullkannað um innborganir af hálfu ákærða.

Þrátt fyrir að ítarlega hafi verið farið yfir gögnin með verjanda ákærða, hefur ekki tekist að sanna eða gera líklegt að allar innborganir ákærða á sköttum vegna Heimis ehf. hafi ekki komist til skila og komið til frádráttar skattskuld hans.

Í málinu þykir mega byggja á því að vanskil ákærða séu með þeim hætti sem lýst er í ákæru eins og hún er eftir breytinguna og þykir hann með því hafa gerst sekur við þau refsiákvæði sem tilgreind eru í ákæru. Óumdeilt er að frá 8. júlí 1996 til 30. ágúst 1998 var greitt inn á virðisaukaskattsskuld Heimis ehf. kr. 2.304.201,- og af því hafa kr. 1.280.505 gengið til greiðslu á virðisaukaskattsskuldum og gjöldum sem lögð höfðu verið á og bar að greiða fyrir gildistöku laga nr. 42/1995 9. mars 1995. Þá hafði hann fengið endurgreiddan virðisaukaskatt vegna vinnu á byggingarstað kr. 1.309.838,- og hafa kr. 985.062,- af endurgreiðslunni farið til að jafna virðisaukaskattsskuld Heimis ehf. sem myndast hafði fyrir gildistökuna. Alls fóru því kr. 2.265.567 til greiðslu skulda og gjalda sem myndast höfðu fyrir gildistökuna.

Ákærður hefur ekki sætt viðurlögum sem skipta hér máli.

Við refsimat í málinu verður miðað við að greiðslur þessar hefðu gengið til greiðslu virðisaukaskattsins sem féll á Heimi ehf. eftir gildistöku laganna, svo sem ákærða er hagfelldast, en þegar litið er til þess hversu mikil hækkun varð á lágmarksrefsingu við vanskilum með lögum nr. 42/1995 verður að meta það óeðlilega ósanngjarnt, að ráðstafa greiðslum inn á virðisaukaskattsskuld, sem inntar voru af hendi eftir gildistöku laganna og eftir að lagður hafði verið á sá virðisaukaskattur, sem ákært er út af, til að jafna skuldir, þar sem við vanskilin vörðuðu mikið vægari refsingu skv. tíðkanlegri dómvenju.

Refsing ákærða þykir að þessu athuguðu hæfilega ákveðin sekt kr. 2.000.000.- og komi 3ja mánaða fangelsi í stað sektarinnar verði hún ekki greidd innan 4ra vikna frá birtingu dóms þessa.

Telja verður fjárhæðir þær samanlagt, sem tilgreindar eru um vanskil á virðisaukasköttum og afdregnum staðgreiðsluskatta séu verulegar og sakir allmiklar sbr. 6. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, og 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. lög nr. 39/1995 og ber því og að ákvarða ákærða fangelsisrefsingu í málinu, sem þykir hæfileg 45 dagar og þykir eftir atvikum mega fresta fullnustu þessarar refsingar og niður falli hún að liðnum 2 árum haldi ákærður almennt skilorð samkvæmt 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. lög nr. 22/1955.

Dæma ber ákærða til greiðslu alls sakarkostnaðar, þar með talin málsvarnarlaun til skipaðs verjanda hrl. Erlu S. Árnadóttur, sem ákveðst kr. 140.000.

Vegna anna af hálfu dómarans við önnur störf, hefur dómsuppsagan í málinu dregist lítillega.

Dómsorð:

Ákærður, Sigurður Heimir Sigurðsson, greiði í sekt kr. 2.000.000,- og komi 3ja mánaða fangelsi í stað sektarinnar verði hún eigi greidd innan 4ra vikna frá birtingu dóms þessa.

Ákærður sæti og fangelsi í 45 daga en fresta skal fullnustu refsingarinnar og niður skal hún falla að liðnum 2 árum haldi ákærður almennt skilorð samkvæmt 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. lög nr. 22/1955.

Ákærður greiði allan sakarkostnað þar með talin málsvarnalaun til skipaðs verjanda hrl. Erlu S. Árnadóttur kr. 140.000.-